Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 436  —  173. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um málefni aldraðra.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti Vilborgu Hauksdóttur, Hrafn Pálsson og Símon Steingrímsson og Vilborgu Ingólfsdóttur frá landlæknisembættinu. Þá komu á fundinn frá Aðgerðahópi aldraðra Halldór Þorsteinsson, Árni Brynjólfsson, Páll Gíslason og Guðmundur Jóhannsson, Hrefna Sigurðardóttir frá Félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu, Jón Helgason frá samstarfsnefnd um málefni aldraðra, Þórður Skúlason og Sigurður Óli Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Eyjólfur Jónsson og Sigurbjörn Björnsson frá Félagi íslenskra öldrunarlækna, Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi formaður stjórnar Sunnuhlíðarsamtakanna og fyrrverandi formaður samstarfsnefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um málefni aldraðra, Ólafur Ólafsson frá Félagi eldri borgara í Reykjavík og Benedikt Davíðsson frá Landssambandi eldri borgara.
    Mál þetta var fyrst flutt á 123. löggjafarþingi og þá bárust nefndinni umsagnir frá Aðgerðahópi aldraðra, Grund – elli- og hjúkrunarheimili, Hrafnistu – dvalarheimili aldraðra, Landssambandi eldri borgara, Reykjavíkurborg – félagsþjónustu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skjóli – Eir – hjúkrunarheimili og Sunnuhlíð – hjúkrunarheimili. Málið er nú endurflutt með fáeinum breytingum og borist hafa umsagnir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Félagi íslenskra öldrunarlækna og ný umsögn frá Aðgerðahópi aldraðra.
    Helsta markmið frumvarpsins er að gera lögin einfaldari og skýrari og þá eru tiltekin hugtök skilgreind. Sú veigamikla breyting er jafnframt gerð að aldraðir koma að ákvörðunartöku um eigin mál í auknum mæli. Helstu breytingar aðrar eru þær að fulltrúum í samstarfsnefnd um málefni aldraðra er fjölgað um tvo í samræmi við mikilvægi nefndarinnar. Þjónustuhópur aldraðra tekur við hlutverki öldrunarnefnda og öldrunarmálaráða sem verða lögð niður. Sveitarstjórnir skipa fulltrúa í þjónustuhóp aldraðra í stað öldrunarnefnda og verður hópurinn skipaður fimm fulltrúum í stað fjögurra og Framkvæmdasjóður aldraðra skal nú samhliða öðrum störfum sínum styrkja rannsóknir, kennslu og kynningu á öldrunarmálum.
    Samkvæmt 5. gr. frumvarpsins er fellt niður það ákvæði að samstarfsnefnd um málefni aldraðra úrskurði um kærumál. Nefndin telur rétt að benda á að samstarfsnefndin hefur aldrei kveðið upp úrskurð um ágreiningsmál á gildistíma laganna. Einnig bendir nefndin á að samstarfsnefndin hefði þurft að vera skipuð með öðrum hætti, þ.e. að vera sjálfstæð og óháð til þess að vera úrskurðaraðili.
    Þá vill nefndin benda á að sá skilningur hefur verið lagður í 6. gr. frumvarpsins að í hverju sveitarfélagi skuli starfa að minnsta kosti einn þjónustuhópur aldraðra. Sveitarfélög geta þannig fjölgað þjónustuhópum í stórum heilsugæsluumdæmum en ábyrgð á þeirri ákvörðun liggur hjá viðkomandi sveitarstjórn sem greiðir kostnað af starfi hópanna.
    Vegna ákvæða 13. og 16. gr. frumvarpsins um að afla beri framkvæmdaleyfis hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra áður en bygging þjónustuíbúða fyrir aldraða hefst tekur nefndin fram að hér er ekki vegið að skipulags- og byggingarmálum sem sveitarstjórnir sjá um, enda er ákvæðið óbreytt frá núgildandi lögum. Nefndin telur hins vegar mikilvægt að ráðuneytið tryggi að samræmis sé gætt við byggingu þjónustuíbúða og það sé jafnframt eftirlitsaðili með þeirri þjónustu sem í boði er.
    Að lokum leggur nefndin áherslu á að samkvæmt lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, er það skilyrði að fagleg ábyrgð sé á stjórnun heilbrigðisstofnana. Sama á við um stofnanir samkvæmt þessu frumvarpi sem falla jafnframt undir lög um heilbrigðisþjónustu og nefndin ítrekar mikilvægi þess að faglegur þáttur sé þar í heiðri hafður.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að í 2. gr. verði bætt við skilgreiningu á vistmannaráði sem getið er um í 18. gr.
     2.      Lögð er til sú breyting á fyrri málslið 1. mgr. 7. gr. að nota orðið heilsugæsluumdæmi og þannig sé gætt samræmis í orðnotkun frumvarpsins, sbr. einnig lög um heilbrigðisþjónustu.
     3.      Lagt er til að fallið verði frá þeirri kröfu í síðari málslið 1. mgr. 7. gr. að annar fulltrúinn sem skipaður er án tilnefningar í þjónustuhópinn skuli vera félagsráðgjafi ef unnt er. Réttara þykir að miða við þekkingu í öldrunarmálum fremur en að binda valið við ákveðna menntun í þessum málaflokki.
     4.      Lögð er til sú breyting á 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. að þjónustuhópurinn skuli gera tillögur til sveitarstjórna um öldrunarþjónustu. Þannig fer ekki á milli mála hvert tillögurnar eiga að fara.
     5.      Þá er lögð til sú breyting á 2. mgr. 8. gr. að í stað þess að endurtaka eitt af markmiðum laganna sé eðlilegra að vísa til 1. gr. frumvarpsins þar sem markmiðin koma skýrt fram.
     6.      Sú breyting sem lögð er til á 10. gr. lýtur einungis að orðalagi.
     7.      Lagt er til að í 12. gr. verði kveðið á um að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setji Framkvæmdasjóði aldraðra starfsreglur. Er þetta lagt til í samræmi við góðar stjórnsýslureglur.
     8.      Lagt er til að orðið „árangursmarkmið“ í niðurlagi 1. tölul. 13. gr. falli brott þar sem það þykir óþarft og ekki nógu skýrt.
     9.      Lagt er til að orðin „þjónustuhópur aldraðra“ verði felld brott úr 3. mgr. 15. gr. Skv. 8. gr. frumvarpsins er eitt af verkefnum þjónustuhóps aldraðra að meta vistunarþörf aldraðra, sbr. 14. og 15. gr. frumvarpsins. Samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 15. gr. skal mat á vistunarþörf að jafnaði vera í höndum þjónustuhóps aldraðra. Tilvísun í 3. mgr. um þjónustuhópinn þykir því óþörf. Ljóst er að þjónustuhópurinn sér um þetta mat á vistunarþörf eða öðrum úrræðum nema sérgreindir hópar, og er þá sérstaklega vísað til stóru sjúkrahúsanna, taki þetta að sér.
     10.      Að lokum er lagt til að fjárhæðin sem tilgreind er í 1. og 2. mgr. 22. gr. hækki í 30.386 kr. í samræmi við reglugerð nr. 612/1999 sem hækkaði tekjumörkin og birt var í Stjórnartíðindum 20. september sl. en gilti frá 1. september sl.
    Bryndís Hlöðversdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir og Þuríður Backman skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur og fylgja þeim eftir.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir og Jón Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. des. 1999.Valgerður Sverrisdóttir,


form., frsm.


Tómas Ingi Olrich.


Ásta Möller.Katrín Fjeldsted.


Bryndís Hlöðversdóttir,


með fyrirvara.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.    Þuríður Backman,


með fyrirvara.