Ferill 288. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 449  —  288. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.

Flm.: Lúðvík Bergvinsson, Svanfríður Jónasdóttir.


         

    1. gr.

    Í stað orðsins „Viðskiptaráðherra“ í 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: Fjármálaráðherra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í reglugerð nr. 96/1969 um Stjórnarráð Íslands segir að fjármálaráðuneytið fari með eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, svo og fyrirsvar vegna þeirra, m.a. að því er tekur til stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins að öllu leyti eða nokkru, nema lagt sé til annars ráðuneytis.
    Undanfarið hefur þeirrar tilhneigingar hins vegar gætt þegar opinberum fyrirtækjum er breytt í hlutafélög að fagráðherra fari áfram með hlut ríkisins í fyrirtækinu. Það getur leitt til þess að þegar selja skal hlut ríkisins komi upp afar erfið staða fyrir viðkomandi ráðherra sem getur bitnað á fyrirtækinu sjálfu og starfsumhverfi fyrirtækja í viðkomandi grein.
    Undir viðskiptaráðherra heyra m.a. bankamál, samkeppnismál og mál er varða óréttmæta viðskiptahætti. Hann fer jafnframt með eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og verður því að viðhalda virði þeirra.
    Brýnt er að þeirri meginreglu sem mörkuð er í reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands sé fylgt og fjármálaráðuneytið fari með eignarhlut ríkisins í samkeppnisfyrirtækjum. Fagráðherra á hverju sviði verði þá fagráðherra allra fyrirtækja á viðkomndi sviði en ekki sérstakur ráðherra einstakra fyrirtækja. Slíkt hefur vakið tortryggni og hafa fyrirtæki á markaðinum haldið því fram að það leiddi til samkeppnisforskots að hafa undir höndum upplýsingar um að stjórnvaldsreglur af tilteknu tagi séu í undirbúningi.
    Það er betra bæði fyrir opinberu fyrirtækin og markaðinn að leikreglur séu skýrar og opinber fyrirtæki í samkeppnisgreinum sæti ekki þeirri gagnrýni að þau njóti þess að æðsti yfirmaður þeirra fari með stjórn og eignarráð í þeim og setji að auki leikreglur fyrir markaðinn almennt.