Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 452  —  122. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um fjarskipti.

Frá 1. minni hluta samgöngunefndar.



    Með frumvarpi til laga um fjarskipti er að nokkru leyti verið að bregðast við breyttum aðstæðum og ýmsum skyldum sem íslensk stjórnvöld hafa tekist á herðar með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þrátt fyrir það er mjög athugavert hversu mikið skortir á stefnumótun og skýra framtíðarsýn í fjarskiptamálum í frumvarpinu. Þá eru óljós ýmis atriði sem snerta veigamikla þætti í fjarskiptum landsmanna til framtíðar.
    Í 1. gr. frumvarpsins segir að íslenska ríkið skuli tryggja „eftir því sem unnt er að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu“. Í 13. gr. segir orðrétt: „Ef nauðsynlegt þykir til að tryggja fullnægjandi fjarskiptaþjónustu á sanngjörnum kjörum og þeirri þjónustu verður ekki við komið ef einungis er tekið mið af viðskiptasjónarmiðum getur Póst- og fjarskiptastofnun við útgáfu rekstrarleyfa mælt svo fyrir að rekstrarleyfishafi eða rekstrarleyfishafar skuli veita alþjónustu á starfssvæði sínu.“ Alþjónustan er ekki að fullu skilgreind í frumvarpinu en skv. 13. gr. á samgönguráðherra að setja um hana reglugerð. Að mati 1. minni hluta er engan veginn nógu skýrt að orði kveðið um skyldur væntanlegra rekstrarleyfishafa við landsmenn.
    Í athugasemdum sem frumvarpinu fylgja er tilgreint að meginbreytingar frumvarpsins miði að því að örva samkeppni og tryggja aðgang allra landsmanna að talsíma- og gagnaflutningsþjónustu. Á sama tíma ráðgerir ríkisstjórnin einkavæðingu Landssíma Íslands hf. en hann gegnir lykilhlutverki í fjarskiptaþjónustu á Íslandi. Allt bendir því til þess að með Landssíma Íslands hf. verði grunnnetið svokallaða selt einkaaðilum. 1. minni hluti leggst gegn því. Mun vænlegra hefði verið að hafa áfram eitt öflugt fyrirtæki á þessu sviði í eigu hins opinbera til að tryggja jafnan aðgang allra landsmanna að þjónustunni. Þetta á sérstaklega við um grunnnet Landssímans sem 1. minni hluti telur nauðsynlegt að verði rekið af ríkinu eða að minnsta kosti á ábyrgð þess í áðurnefndum tilgangi.
    Í ljósi þessa mun 1. minni hluti sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. des. 1999.



Jón Bjarnason.








Prentað upp.