Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 466  —  173. mál.
Breytingartillagavið frv. til l. um málefni aldraðra.

Frá Þuríði Backman, Bryndísi Hlöðversdóttur og Ástu R. Jóhannesdóttur.    Við 9. gr. Við 4. tölul. 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Slíkar greiðslur skulu þó aldrei nema hærra hlutfalli en 25% af úthlutunum úr sjóðnum árlega.

Greinargerð.


    Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður með lögum nr.49/1981 og var markmiðið með sjóðnum að stuðla að byggingu húsnæðis og dvalarstofnana fyrir aldraða. Með lögum nr. 12/1991 var hlutverki sjóðsins breytt á þann veg að heimilað var að nýta hluta af fjármagni sjóðsins til reksturs stofnana fyrir aldraða. Frá þeim tíma hefur allt að 55% af fjármagni sjóðsins verið notað árlega til reksturs stofnana.
    Í frumvarpinu er lagt til að fjármagni úr sjóðnum skuli áfram varið til að styrkja rekstur stofnana fyrir aldraða í sérstökum tilvikum. Í umsögnum um málið komu fram áhyggjur af því að engin takmörk séu fyrir því hversu miklu megi verja úr sjóðnum til reksturs stofnana fyrir aldraða, en með slíku opnu ákvæði er hætt við að unnið sé gegn því markmiði sjóðsins að stuðla að byggingu húsnæðis og dvalarstofnana fyrir aldraða. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til á 4. tölul. 2. mgr. 9. gr. er verið að koma til móts við þessi sjónarmið og leitast þannig við að varðveita upphafleg markmið með stofnun Framkvæmdasjóðs aldraðra.