Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 475  —  273. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, með síðari breytingum.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Minni hluti nefndarinnar er andvígur þeirri harkalegu skerðingu á mörkuðum tekjustofni Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Standist áætlanir um tekjur af erfðafjárskatti og erfðafé og verði 575 millj. kr. fær Framkvæmdasjóður aðeins um 40% af tekjunum í sinn hlut, þ.e. 235 millj. kr., sem er sama fjárhæð og á síðasta ári. Niðurskurður á lögbundnu fé sjóðsins er því um 700 millj. kr. á þessu og næsta ári.
    Þess ber að geta að undanfarin ár hafa tekjurnar nánast án undantekninga verið vanáætlaðar og reynst meiri en ráð var fyrir gert. T.d. var gert ráð fyrir um 480 millj. kr. tekjum á yfirstandandi ári, en þær stefna í svipaða upphæð og gert er ráð fyrir í fjárlögum næsta árs. Þannig má telja líklegt að tekjurnar verði meiri en áðurnefndar 575 millj. kr., hlutfallið sem sjóðurinn fær fer þá undir 40% og ríkissjóður hirðir viðbótina.
    Þessi harkalega skerðing á lögbundnum tekjustofni til margvíslegra verkefna á sviði málefna fatlaðra er í engu samræmi við aðstæður og þarfir. Í því sambandi er rétt að minna á eftirfarandi:
     1.      Mikil þörf er á að koma upp sérhæfðu húsnæði fyrir sambýli til að höggva í biðlista eftir húsnæði. Nálægt 330 fatlaðir einstaklingar eru nú á lista yfir fólk sem vantar húsnæði. Takmarkað framboð er af húsnæði á leigumarkaði og alls ekkert af sérhæfðu húsnæði sem hentar þeim hluta hluta hópsins sem er í mestri þörf. Auk þess hefur húsaleiga hækkað til mikilla muna einkum á suðvesturhorninu en þar er einmitt ástandið langverst. Algjör óvissa ríkir líka um hvort hentugt leiguhúsnæði fáist vegna þeirra fimm sambýla sem áformað er að taka í notkun á næsta ári.
     2.      Sérstök nefnd um biðlista eftir búsetu og annarri þjónustu hjá svæðisskrifstofum málefna fatlaðra skilaði tillögum til félagsmálaráðuneytisins í desembermánuði 1998 og var þar m.a. lagt til að koma upp tíu sambýlum á þessu ári og hinu næsta til að mæta brýnustu þörfinni í Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmi. Viðurkennt er að gert er ráð fyrir auknu fjármagni í fjárlagafrumvarpinu til rekstrar í samræmi við tillögur nefndarinnar, en Framkvæmdasjóði fatlaðra er á hinn bóginn ókleift að leggja fram fé til stofnkostnaðar húsnæðis eins og þurft hefði. Mikilvægt er að starfshópur sá sem gert er ráð fyrir í tillögum nefndarinnar taki til starfa til þess að fylgjast með rekstrar- og framkvæmdaáætlunum.
     3.      Framkvæmdasjóði fatlaðra er ætlað að sinna fjölmörgum öðrum verkefnum. Má þar nefna viðhald húsnæðis, framlög til að bæta aðgengi fatlaðra, styrki (10%) til félagslegra íbúða, styrki til tækjakaupa, til atvinnusköpunar o.fl.
     4.      Þessi mikla skerðing á tekjum sjóðsins mun valda því að sjóðurinn lendir í erfiðleikum við að standa við þátttöku sína og skuldbindingar í þegar frágengnum verkefnum.
     5.      Framkvæmdasjóður fatlaðra mun að óbreyttu ekkert geta sinnt þeirri lögbundnu skyldu sinni að styrkja frjáls félagasamtök sem sinna fjölmörgum og mjög mikilvægum verkefnum á þessu sviði.
    Í ljósi langra biðlista fatlaðra eftir húsnæði og þeirra fjölmörgu og mikilvægu verkefna sem Framkvæmdasjóður fatlaðra á að sinna en getur vegna fyrirhugaðrar skerðingar ýmist lítt eða ekkert sinnt væri það lágmarkskrafa að verulega væri dregið úr skerðingunni nú. Erfitt er að sjá hvaða nauðsyn ber til að hafa þetta skerðingarhlutfall nú í hinu margrómaða góðæri hærra en nokkru sinni fyrr í sögunni. Þar sem nú er unnið að því að málefni fatlaðra verði flutt til sveitarfélaga hlýtur þessi skerðing að torvelda þann flutning.
    Minni hluti félagsmálanefndar leggur til að frumvarpið verði fellt.

Alþingi, 16. des. 1999.



Guðrún Ögmundsdóttir,


frsm.


Steingrímur J. Sigfússon.


Kristján L. Möller.