Ferill 294. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 552  —  294. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Sturlu D. Þorsteinssonar um stöðu verkmenntunar á framhaldsskólastigi.

     1.      Hefur verið unnið samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að efla skuli verkmenntun á framhaldsskólastigi?
    Skilyrði fyrir eflingu starfsmenntunar á framhaldsskólastigi sköpuðust með setningu laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996. Samkvæmt ákvæðum þeirra var sett á laggirnar samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi sem hefur unnið markvisst að mótun heildarstefnu um starfsnám á framhaldsskólastigi og gert tillögur um hvernig rétt sé að standa að starfsmenntun á komandi árum. Jafnframt voru skipuð 14 starfsgreinaráð, þar sem fulltrúar atvinnulífsins skipa meiri hluta, sem hafa það hlutverk að skilgreina þarfir atvinnuveganna fyrir hæfni og kunnáttu, gera tillögur um námskrá og veita ráðuneytinu ráðgjöf í málum er varða menntun á viðkomandi sviði. Starfsgreinaráðin hafa tekið til starfa af miklum krafti og munu á árinu 2000 fara umtalsverðir fjármunir til þess að efla námskrárgerð í starfsnámi sem er forsenda þess að unnt verði að styrkja stöðu starfsnámsgreina innan skólakerfisins.

     2.      Eru áform um að efla verkmenntun almennt eða tilteknar verkmenntunargreinar?
    Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á að öllum starfsgreinum sem njóta fræðslu á framhaldsskólastigi sé sinnt jafnt, en að jafnframt verði hugað að því að efla veg þeirra greina sem ekki njóta fræðslu á framhaldsskólastigi með það fyrir augum að nýtt starfsnám verði til og fjölbreyttara námsframboð standi nemendum framhaldsskólanna til boða framvegis. Ekki eru uppi áform um sérstakt átak til þess að efla einstakar greinar á næstunni. Uppbygging starfsnáms er verk sem þarf að byggjast á traustum grunni og árangur næst aðeins ef gerðar eru áætlanir um slíkt til lengri tíma.

     3.      Hefur verið unnið að því að auka veg verkmenntunar?
    Sé tekið mið af mannvirkjagerð hefur tvímælalaust verið unnið að því að auka veg verkmenntunar. Borgarholtsskóli, verknámsálma Menntaskólans í Kópavogi og Iðnskólinn í Hafnarfirði eru til marks um það á höfuðborgarsvæðinu. Aðstaða til verknáms hefur verið bætt í verkmenntaskólunum á Akureyri og í Neskaupstað og við einstaka fjölbrautaskóla.
    Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á að efling starfsmenntunar haldist í hendur við aukið samstarf hins opinbera og aðila atvinnulífsins þannig að ábyrgð og áhrif séu í jafnvægi. Metnaður og frumkvæði til þess að efla veg verkmennta verður að koma frá þeim sem stunda tiltekin störf og hafa þar hagsmuna að gæta. Ráðuneytið hefur kappkostað að hlúa að slíku frumkvæði og styrkja það og mun halda því áfram. Þannig hefur ráðuneytið leitast við að færa tiltekin starfsmenntaverkefni yfir til fræðslustofnana atvinnulífsins í þeim tilgangi að tryggja bætta framkvæmd mála og efla þátttöku atvinnulífsins í starfsnámi.

     4.      Hver verður hlutur verkmenntunar á almennri námsbraut við framhaldsskóla?
    Samkvæmt ákvörðun ráðuneytisins kemur það í hlut hvers framhaldsskóla um sig að ákveða tegund þess náms sem skilgreint verður á almennri námsbraut í viðkomandi skóla. Skólum er því í sjálfsvald sett að taka mið af sérstökum aðstæðum eða sérstöku námsframboði þegar þeir leggja drög að almennri námsbraut. Starfsmenntaskólar gætu þannig boðið einstaka starfsnámsáfanga ásamt almennum bóknámsáföngum þegar almenn námsbraut er skipulögð. Ráðuneytið mun hins vegar ekki gefa út leiðbeiningar þar að lútandi.