Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 571  —  321. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Á eftir 6. mgr. 3. gr. laganna kemur ný málsgrein, 7. mgr., er hljóðar svo:
    Þjóðlendur skulu undanþegnar öllum sköttum og gjöldum.

2. gr.

    Í stað 5.–6. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, 5. mgr., er hljóðar svo:
    Formaður óbyggðanefndar skal vera í fullu starfi sem framkvæmdastjóri nefndarinnar og hafa sömu lögkjör og dómstjórinn í Reykjavík. Óbyggðanefnd er að öðru leyti heimilt að ráða starfsfólk sér til aðstoðar og skapa sér skrifstofuaðstöðu í samráði við forsætisráðherra.

3. gr.

    Í stað 2. málsl. 8. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir er hljóða svo: Skal hún ákveða hvaða landsvæði tekið er til meðferðar hverju sinni. Nefndin getur ákveðið síðar að minnka eða stækka það svæði. Nefndinni er heimilt að hafa til meðferðar fleiri en eitt svæði á sama tíma.

4. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. og 2. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Þegar nefndin hefur ákveðið að taka svæði til meðferðar skal hún tilkynna fjármálaráðherra, sbr. 1. mgr. 11. gr., ákvörðun sína og veita honum minnst þriggja en mest sex mánaða frest til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur á svæðinu.
                  Þegar kröfulýsing ríkisins liggur fyrir skal óbyggðanefnd gefa út tilkynningu og láta birta í Lögbirtingablaði. Skal þar skorað á þá er telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á því svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan minnst þriggja en mest sex mánaða frá útgáfudegi þess tölublaðs sem tilkynningin er birt í. Jafnframt skal nefndin láta þinglýsa yfirlýsingu þessa efnis á þær eignir sem skráðar eru í þinglýsingabók og eru á viðkomandi svæði. Þá skal útdráttur úr efni tilkynningar birtur með auglýsingu í dagblaði.
              Óbyggðanefnd getur samþykkt að veita aðila sem þess óskar viðbótarfrest.
     b.      Í stað orðanna „1. og 3. mgr.“ í fyrri málslið 4. mgr., er verður 5. mgr., kemur: 1.–4. mgr.


5. gr.

    12. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Að liðnum kröfulýsingafresti skv. 2. mgr. 10. gr. skal óbyggðanefnd gera yfirlit yfir lýstar kröfur á viðkomandi landsvæði og láta færa þær inn á uppdrátt. Skal yfirlit þetta ásamt uppdrætti (kröfulínukorti) liggja frammi á skrifstofu sýslumanns eða sýslumanna í því eða þeim umdæmum sem svæðið á undir í að minnsta kosti einn mánuð. Athugasemdir skulu hafa borist óbyggðanefnd innan sjö daga frá þeim degi þegar kynningu lauk.

6. gr.

    2. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    17. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Kostnaður vegna starfa óbyggðanefndar samkvæmt lögum þessum greiðist úr ríkissjóði. Auk kostnaðar við rekstur nefndarinnar fellur hér undir nauðsynlegur kostnaður annarra en ríkisins vegna hagsmunagæslu fyrir nefndinni.
    Óbyggðanefnd úrskurðar um kröfur aðila vegna kostnaðar samkvæmt síðari málslið 1. mgr. Við mat á því hvort um nauðsynlegan kostnað hafi verið að ræða er nefndinni heimilt að líta til þess hvort aðilar, sem svipaðra hagsmuna eiga að gæta, hafi sameinast um að nýta sér aðstoð sömu lögmanna og annarra sérfræðinga, enda rekist hagsmunir ekki á. Við mat á fjárhæð kostnaðar skal enn fremur litið til þess hvað telja má sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli.
    Nefndinni er heimilt að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti telji hún málatilbúnað hans gefa tilefni til slíks.
    Fullnægja má ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um málskostnað með aðför.

8. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað „1. mgr.“ í síðari málslið 3. mgr. kemur: 2. mgr.

9. gr.

    Í stað „2. mgr.“ í fyrri málslið 19. gr. laganna kemur: 1. mgr.

10. gr.

    Á eftir 20. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
    Forsætisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfshætti og málsmeðferð óbyggðanefndar, þ.m.t. frágang kröfulýsinga, uppdrátta og annarra gagna málsaðila, og tæknilega útfærslu á markalínum.

11. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
    Um kostnað vegna hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd sem fellur til fyrir gildistöku laga þessara fer eftir ákvæðum 17. gr. laganna, eins og henni er breytt með 6. gr. laga þessara.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, var ríkinu falið eignarhald á landi og hvers konar landsréttindum og hlunnindum á svæðum, sem ekki eru háð einkaeignarrétti, þ.e. hinum svonefndu þjóðlendum. Með sömu lögum var sérstakri nefnd, óbyggðanefnd, falið að eiga frumkvæði að því að fara með skipulögðum hætti yfir hvaða svæði þetta eru og skera úr um mörk þeirra og eignarlanda og önnur réttindi innan þjóðlendna. Óbyggðanefnd er þannig ætlað að ráða til lykta álitaefnum sem hafa bæði mikla almenna þýðingu og varða mikilvæga hagsmuni einstaklinga og lögaðila. Gert er ráð fyrir að nefndin starfi innan ákveðins tímaramma og ljúki störfum fyrir árið 2007.
    Óbyggðanefnd tók fyrsta landsvæðið til meðferðar með tilkynningu, dags. 1. mars 1999. Sú reynsla, sem fengist hefur í kjölfar þess, hefur leitt í ljós að þörf er á að gera ákveðnar breytingar á þeim lögum sem um nefndina gilda, einkum í því skyni að íþyngja ekki um of landeigendum og öðrum mögulegum rétthöfum á þeim svæðum sem nefndin hefur til meðferðar. Enda þótt lög um þjóðlendur o.fl. geri ekki ráð fyrir að raska réttarstöðu þessara aðila leggja þau ákveðnar kvaðir og kostnað á herðar þeim að frumkvæði stjórnvalda. Landeigendur og aðrir mögulegir rétthafar verða þannig að sæta því að óbyggðanefnd taki til meðferðar landsvæði sem þeir kunna að hafa talið eign sína um langt árabil. Þeir þurfa að lýsa kröfum sínum fyrir nefndinni og leggja fram gögn þeim til stuðnings. Til þess getur þurft kostnaðarsamar sérhæfðar heimildarannsóknir og lögfræðilega aðstoð, sem aðilar hafa misjafna burði til að mæta. Komi upp ágreiningur um einstök svæði getur jafnframt þurft að flytja mál munnlega fyrir nefndinni og undirbúa það með svipuðum hætti og um dómsmál væri að ræða, þar á meðal með atbeina lögmanns.
    Að þessu virtu, svo og því að ríkisvaldið á hér frumkvæði að því að taka þessi mál til meðferðar og að því starfi er markaður ákveðinn tími, þykja sterk sanngirnisrök mæla með því að landeigendum og öðrum mögulegum rétthöfum verði gert auðveldara fyrir að reka mál sín fyrir óbyggðanefnd. Í því skyni er í frumvarpi þessu gerð tillaga um tvenns konar breytingar á gildandi lögum. Önnur felst í því að leggja á ríkissjóð nauðsynlegan kostnað annarra en ríkisins af hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd, en hin er breyting á málsmeðferð fyrir nefndinni, bæði til að draga úr kostnaði af henni en einnig til að færa þau ákvæði að því sem að fenginni reynslu þykir hentugra verklag. Aðrar breytingar lúta að ákvæðum laganna um starfslið óbyggðanefndar annars vegar og hins vegar að skattskyldu þeirra svæða sem nefndin úrskurðar að teljist þjóðlendur.
    Til undirbúnings breytingum á verklagi óbyggðanefndar hafa fulltrúar hennar kynnt sér meðferð og úrlausn sambærilegra verkefna í Norður-Noregi, nánar tiltekið í fylkjunum Nordland og Troms. Þar er starfræktur sérdómstóllinn „Utmarkskommisjon for Nordland og Troms“ á grundvelli laga nr. 51 frá 7. júní 1985, sbr. lög nr. 61 frá 19. júní 1992 og lög nr. 8 frá 22. apríl 1994. Í stórum dráttum er um að ræða hliðstæðu við svokallaða „Høyfjellskommisjonen for Sør-Norge“ sem starfaði á árunum 1908–53. Ýmislegt í meðferð mála fyrir „Utmarkskommisjonen“ virðist geta orðið til eftirbreytni við starf óbyggðanefndar, enda búa Norðmenn yfir langri reynslu af úrlausn slíkra verkefna sem hér um ræðir.

Kostnaður af hagsmunagæslu aðila.
    
Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því sem meginreglu að aðilar beri sjálfir kostnað af hagsmunagæslu sinni fyrir óbyggðanefnd. Frávik frá þeirri meginreglu eru gjafsóknarmöguleikar laganna og ákvæði um að unnt sé að úrskurða aðila til að bera málskostnað gagnaðila. Skilyrði til að fá gjafsókn hafa hins vegar þótt tiltölulega þröng, enda sniðin eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála fyrir dómstólum. Þessi ákvæði leiða því óhjákvæmilega til þess að landeigendur og aðrir mögulegir rétthafar þyrftu í mörgum tilvikum að bera kostnað vegna meðferðar mála fyrir óbyggðanefnd sjálfir.
    Af þessum sökum og með skírskotun til röksemda, sem raktar voru hér að framan, er í frumvarpi þessu lagt til að óbyggðanefnd verði heimilað að úrskurða málsaðilum, öðrum en ríkinu, kostnað af nauðsynlegri hagsmunagæslu fyrir nefndinni. Nánar er skýrt í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins hvaða kostnaðarliðir geta fallið hér undir og hvaða viðmiðanir nefndin getur lagt til grundvallar við mat á nauðsyn og fjárhæð endurgoldins kostnaðar. Með þeirri einföldun, sem lagt er til að gerð verði á málsmeðferð nefndarinnar og nánar er vikið að hér á eftir, ætti þó jafnframt að draga nokkuð úr þessum kostnaði af rekstri nefndarinnar. Þessum breytingum er fyrst og fremst ætlað að auðvelda landeigendum og öðrum mögulegum rétthöfum að lýsa kröfum sínum fyrir nefndinni eins og kostur er án þess að dregið verði úr réttaröryggi í meðferð og úrlausnum nefndarinnar.

Breytingar á málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd.
    
Samkvæmt núgildandi lögum gefur óbyggðanefnd út almenna tilkynningu þar sem lýst er eftir kröfum allra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta á tilteknu svæði. Í þessu skyni er veittur þriggja mánaða frestur. Nefndin getur þurft að ráða í mörk líklegra eða hugsanlegra ágreiningssvæða og haga tilkynningu í samræmi við það. Í kjölfarið hafa landeigendur og aðrir mögulegir rétthafar á umræddu svæði fyllstu ástæðu til að hefjast handa um gæslu hagsmuna sinna. Þegar kröfur ríkisins liggja fyrir getur hins vegar komið í ljós að einungis er ágreiningur um hluta svæðisins. Þetta er einmitt reynslan af meðferð mála fyrir nefndinni til þessa.
    Lagt er til að þessu verklagi verði breytt á þann hátt að óbyggðanefnd beini því fyrst til ríkisins að lýsa kröfum um þjóðlendur á tilteknu svæði, ef einhverjar eru. Veittur er þriggja til sex mánaða frestur til verksins. Þegar kröfugerð ríkisins liggur fyrir birtir óbyggðanefnd tilkynningu í Lögbirtingablaði. Þar er landeigendum og öðrum mögulegum rétthöfum á því svæði sem ríkið gerir kröfu til veittur þriggja til sex mánaða frestur til að lýsa kröfum sínum. Jafnframt er yfirlýsingu þessa efnis þinglýst á eignir á svæðinu. Með þessu móti verður landeigendum og öðrum mögulegum rétthöfum ljóst frá upphafi hverjar kröfur ríkisins eru og geta þá hagað málatilbúnaði sínum í samræmi við það. Með því að minna þarf við að hafa vegna svæða, sem þá er ljóst að enginn ágreiningur er um, ætti það að auðvelda kröfulýsingar landeigenda til muna og þannig draga úr kostnaði við gerð þeirra. Af því leiðir að fresturinn nýtist betur og kostnaði er haldið í lágmarki.
    Með þessu móti gefast almennt sex til tólf mánuðir til skjalarannsókna og annars undirbúnings í stað þriggja áður, þ.e. frá því að mál hefst með ákvörðun óbyggðanefndar um næsta svæði og þar til kröfulýsingafresti landeigenda og annarra mögulegra rétthafa lýkur. Samkvæmt reynslu nefndarinnar eru þrír mánuðir of skammur tími til gagnaöflunar og kröfulýsinga.
    Gera má ráð fyrir að gagnaöflun á vegum óbyggðanefndar hefjist yfirleitt um leið og fjármálaráðuneytinu er tilkynnt um næsta svæði. Í því sambandi er fyrirhugað að óháðir sérfræðingar, t.d. á vegum Þjóðskjalasafns, vinni að skjalarannsóknum fyrir nefndina. Virðist vart hægt að tryggja betur að mál séu nægjanlega rannsökuð að því leyti. Hagræði og sparnaður af slíku fyrirkomulagi er augljós og þörf aðila fyrir sjálfstæða gagnaöflun ætti jafnframt að minnka. Komið væri í veg fyrir ómarkvissa leit þeirra sem ekki búa yfir nauðsynlegri sérþekkingu og tvíverknað við gagnaöflun málsaðila hvers fyrir sig og óbyggðanefndar að auki. Sjálfstæð gagnaöflun á vegum aðila ætti því að geta beinst að öðrum þáttum en kannaðir eru að frumkvæði nefndarinnar.
    Þegar kröfulýsingar landeigenda og annarra mögulegra rétthafa á svæðinu liggja fyrir birtir óbyggðanefnd yfirlit yfir fram komnar kröfur og uppdrátt af þeim. Þar sem nefndina hefur skort grundvöll til að gera ákveðnar kröfur um tölvutækt form og annan frágang á uppdráttum málsaðila hefur þurft að leggja í vinnu og kostnað við að samræma þá. Með því að í lagafrumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að setja ákvæði í reglugerð um frágang uppdrátta ætti slíkur tvíverknaður að vera úr sögunni. Kynning á þessum gögnum varir í einn mánuð og frestur til athugasemda er vika þar á eftir.
    Leiði kröfulýsingar aðila í ljós að uppi er ágreiningur sem heyrir undir óbyggðanefnd er leyst úr honum með rekstri máls eða mála fyrir nefndinni.
    Loks lýkur málsmeðferð nefndarinnar með úrskurði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í þessari grein er lagt til að landsvæði, sem úrskurðuð verða þjóðlendur, verði undanþegin hvers kyns sköttum og gjöldum til hins opinbera. Þykir það eðlileg ráðstöfun þegar til þess er litið að hið opinbera hefur engar slíkar tekjur haft af þessum svæðum hingað til, hvorki ríki né sveitarfélög. Undanþágan tekur þó eingöngu til landsvæðanna sem slíkra, en ekki til mannvirkja sem þar kunna að vera eða réttinda sem þeim fylgja.

Um 2. gr.

    Ákvæði 5. mgr. 6. gr. laganna er umorðað og þar kemur inn ákvæði um lögkjör formanns óbyggðanefndar.
    Felld er brott 6. mgr. 6. gr. laganna en lagt til að efnislega samhljóða ákvæði verði í 1. mgr. 17. gr., sbr. 7. gr. þessa frumvarps.

Um 3. gr.

    Í breytingartillögu við 1. mgr. 10. gr. laganna er ekki gert ráð fyrir opinberri tilkynningu á fyrri stigum málsins, sbr. 4. gr. þessa frumvarps. Orðalagið „tilkynna fyrirfram“ á því ekki við í 8. gr. og er fellt brott.
    Ákvæði sem áður var efnislega í 2. mgr. 13. gr. laganna verður 3. málsl. 8. gr., þar sem það þykir samhengisins vegna fara betur.
    Þá eru tekin af öll tvímæli um að starfssvið nefndarinnar nái til landsins alls og að nefndinni sé heimilt að hafa til meðferðar fleiri en eitt svæði á sama tíma, enda ætlað að ljúka verkefni sínu fyrir árið 2007.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að óbyggðanefnd beini því fyrst til ríkisins að lýsa kröfum um þjóðlendur á tilteknu svæði, ef einhverjar eru. Landeigendur og aðrir mögulegir rétthafar á svæðinu lýsa ekki kröfum fyrr en kröfugerð ríkisins liggur fyrir.
    Gert er ráð fyrir lengri frestum en samkvæmt núgildandi lögum. Nánari ákvörðun fresta ræðst af eðli og umfangi svæðis.
    Umfjöllun um endurupptöku skv. 19. gr. í lokamálslið 1. mgr. 10. gr. laganna er felld brott enda er ekki fjallað um það efni í 19. gr. né annars staðar í lögunum.
    Aðrar breytingar á 1. mgr. 10. gr. eru samræmis og skýrleika vegna.
    Ákvæði núverandi 2. mgr. 10. gr. laganna verður lokamálsliður nýrrar 2. mgr. en er að öðru leyti óbreytt.
    Ný 3. mgr. 10. gr. er málsliður tekinn úr 1. mgr. 10. gr. gildandi laga. Lagt er til að hann verði gerður að sérstakri málsgrein til að ekki valdi vafa að heimild óbyggðanefndar til að veita viðbótabótarfresti getur hvort heldur átt við einkaaðila eða ríkið.
    Í staflið b er tilvísun í aðrar málsgreinar 10. gr. færð til samræmis við aðrar breytingar sem lagt er til að gerðar verði á þeirri grein.
    Sjá jafnframt almennar athugasemdir við frumvarp þetta.

Um 5. gr.

    Efni 12. gr. laganna er fært til samræmis við efni 10. gr. eins og lagt er til að hún verði, sbr. 4. gr. þessa frumvarps. Yfirlit yfir lýstar kröfur og uppdráttur verður auðvitað ekki unninn fyrr en kröfur liggja fyrir. Þá er orðalagið „og kannað heimildir um viðkomandi landsvæði“ fellt brott þar sem það þykir nokkuð villandi. Rækileg könnun nefndarinnar á fram komnum gögnum er ekki tímabær á þessu stigi máls.
    Skotið er inn orðinu „kröfulínukort“, til að auðkenna þetta tiltekna kort frá öðrum kortum nefndarinnar.
    Frestur til athugasemda að lokinni opinberri kynningu er styttur, enda hafa frestir verið rýmkaðir mjög að öðru leyti, sbr. 4. gr. frumvarpsins og umfjöllun í almennum athugasemdum.

Um 6. gr.

    Lagt er til að 2. mgr. 13. gr. laganna verði felld brott, enda koma efnisatriði hennar fram í 8. gr. skv. 3. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Hér er lögð til sú breyting að auk rekstrarkostnaðar nefndarinnar greiði ríkið einnig nauðsynlegan kostnað annarra en ríkisins vegna hagsmunagæslu í málum sem óbyggðanefnd ákveður að taka til meðferðar á grundvelli 7. gr., sbr. 10. gr. laganna. Þetta gildir þó einungis um verkefni nefndarinnar á grundvelli laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Hér getur t.d. verið um að ræða kostnað vegna gagnaöflunar, kortavinnslu og þjónustu lögmanna og annarra sérfræðinga. Til að kostnaður við málarekstur fyrir nefndinni haldist innan eðlilegra marka er það skilyrði sett að um nauðsynlegan kostnað sé að ræða og óbyggðanefnd falið að hafa eftirlit með því. Við mat á nauðsyn kostnaðar er nefndinni heimilað að líta til þess hvort aðilar hafi sameinast um að nýta sér aðstoð sömu lögmanna og annarra sérfræðinga þegar hagsmunir þeirra rekast ekki á, enda þótt ekki þyki unnt að gera það að skilyrði. Við mat á fjárhæð kostnaðar er nefndinni enn fremur sett sú vísiregla að endurgjald teljist sanngjarnt og eðlilegt miðað við umfang viðkomandi máls.
    Kjósi menn að skjóta máli sínu til dómstóla að fengnum úrskurði óbyggðanefndar og innan tilskilinna fresta gilda hins vegar almennar reglur einkamálalaga um málskostnað fyrir dómstólum.
    Þá er lagt til að í 3. mgr. 17. gr. laganna verði rekinn sá varnagli að óbyggðanefnd sé heimilt að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti telji hún málatilbúnað hans gefa tilefni til slíks, til að mynda ef kröfur eru uppi hafðar algerlega að tilefnislausu.
    Ákvæði 4. mgr. 17. gr., eins og lagt er til að hún verði, var áður í 1. mgr. 18. gr. en þykir fara betur hér samhengisins vegna.
    Sjá jafnframt almennar athugasemdir við frumvarp þetta.

Um 8. gr.

    Lagt er til að ákvæði 1. mgr. 18. gr. laganna falli brott en samhljóða ákvæði verði í 4. mgr. 17. gr., þar sem það þykir fara betur samhengisins vegna, sbr. 7. gr. frumvarpsins.
    Tilvísun í 3. mgr. 18. gr. til ákvæðis 10. gr. breytist úr 1. mgr. í 2. mgr. í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til á því ákvæði, sbr. 4. gr. þessa frumvarps.

Um 9. gr.

    Tilvísun í fyrri málslið 19. gr. laganna til ákvæðis í 18. gr. breytist úr 2. mgr. í 1. mgr. í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til á því ákvæði, sbr. 8. gr. þessa frumvarps.

Um 10. gr.

    Í gildandi lögum er ekki að finna reglugerðarheimild varðandi verkefni óbyggðanefndar. Við vinnu nefndarinnar vegna fyrsta svæðisins hefur hins vegar komið greinilega í ljós að þörf er á heimild til að setja bindandi reglur um vissa þætti í starfi nefndarinnar. Má í því sambandi sérstaklega nefna frágang málsaðila á kröfulýsingum og meðfylgjandi gögnum. Þannig væri t.d. mikið hagræði að því fyrir nefndina að fá uppdrætti afhenta á samræmdu, tölvutæku formi.

Um 11. gr.

    Talið er eðlilegt að reglan, sem lögð er til í 7. gr. frumvarpsins, gildi einnig um kostnað vegna þess svæðis sem nefndin hefur þegar tekið til meðferðar. Að öðru leyti er vísað til athugasemda með 7. gr.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um þjóðlendur
og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998.

    Í frumvarpinu er ákvæði um málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd og ákvæðum um málskostnað breytt á þann veg að ríkið beri nauðsynlegan kostnað af hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 58/1998 er stefnt að því að nefndin ljúki störfum á árinu 2007.     
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2000 er þegar gert ráð fyrir 20,4 m.kr. árlegum kostnaði við nefndina. Gert er ráð fyrir að óbyggðanefnd afgreiði 2–3 svæði á ári. Svæðin verða óhjákvæmilega misstór og óvíst hver fjöldi mála verður á hverju svæði. Áætlaður kostnaður við hvert svæði er 5–8 m.kr. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir 15–20 m.kr. árlegri hækkun á fjárlagaliðnum vegna kostnaðar við hagsmunagæslu landeigenda og annarra rétthafa, miðað við sanngjarnt og eðlilegt endurgjald, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Þegar hefur verið gert ráð fyrir öðrum kostnaði óbyggðanefndar í forsendum fjárlaga.