Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 572  —  322. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á vegalögum, nr. 45/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Reiðvegir eru vegir sem einkum eru ætlaðir umferð ríðandi manna og eru kostaðir af einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum.

2. gr.

    Fyrri málsliður 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Ráðherra getur að fengnum tillögum vegamálastjóra heimilað eignarnám lands til lagningar tiltekinna almennra vega, einkavega og reiðvega, enda komi fullar bætur fyrir.

3. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Almennir vegir, einkavegir og reiðvegir.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Landeigandi skal annast viðhald girðinga með vegum í landi sínu, sbr. þó 4. mgr.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr. og orðast svo:
                  Vegagerðin getur að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag ákveðið að annast og kosta viðhald girðinga með einstökum vegarköflum á þjóðvegum þar sem umferð er 500 bílar á dag eða meira að meðaltali yfir sumarmánuði (SDU), enda sé lausaganga búfjár á viðkomandi vegarkafla bönnuð. Áður en Vegagerðin ákveður að taka við viðhaldi girðinga samkvæmt þessari grein skal hún tilkynna það viðkomandi sveitarfélagi og hlutaðeigandi landeigendum.
     c.      4. mgr. verður 5. mgr. og orðast svo:
                  Viðkomandi sveitarfélag annast viðhald girðinga sem reistar eru skv. 2. mgr. 37. gr. Þó er heimilt að ákveða með samkomulagi að veghaldari annist viðhaldið. Viðhaldskostnaður þeirra girðinga greiðist að jöfnu af viðkomandi sveitarfélagi og veghaldara nema sérstaklega sé um annað samið.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lagafrumvarp þetta er lagt fram á Alþingi til breytinga á vegalögum nr. 45/1994. Lögunum hefur tvívegis verið breytt síðan þau voru sett, annars vegar með lögum nr. 56/1995 en þá var breytt ákvæðum laganna um girðingar með vegum, sem síðar verður vikið að, og hins vegar með lögum nr. 83/1997 sem breyttu 4. gr. laganna. Að þessu sinni eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um reiðvegi og um viðhald og viðhaldskostnað girðinga.

Reiðvegir.
    Með bréfi dags. 13. nóvember 1998 skipaði samgönguráðherra nefnd til að skýra og endurskoða reglur, sem gilda um reiðvegi, reiðveganefnd. Nefndina skipuðu Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóri, sem var formaður hennar, Baldvin Kr. Baldvinsson bóndi, Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri, Ragnar Frank Kristjánsson landvörður, Sigurður Á. Þráinsson deildarstjóri, Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt og Þórður Skúlason framkvæmdastjóri. Ritari nefndarinnar var Stefán Erlendsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni. Nefndin skilaði niðurstöðu þar sem m.a. var lagt til að reiðvegir yrðu skilgreindir sem vegflokkur í vegalögum auk þess að tryggja sérstaka eignarnámsheimild vegna reiðvega. Í greinargerð sem fylgdi nefndarálitinu er gerð tillaga að lagabreytingu í þessa veru og er frumvarpið samhljóða tillögu nefndarinnar.
    Í gildandi vegalögum er vegum skipt í þrjá meginflokka, þjóðvegi, almenna vegi og einkavegi. Auk þess eru svo vegir sem ekki teljast til neins flokks, sbr. 40. gr. laganna. Lagt er til í samræmi við álit reiðveganefndar að bætt verði skilgreiningu á fjórða vegflokknum, reiðvegum, í 9. gr. laganna. Í 11. gr. vegalaga er ráðherra gert kleift að heimila eignarnám lands til lagningar tiltekinna almennra vega og einkavega enda komi fullar bætur fyrir. Lagt er til að þarna verði reiðvegum bætt við til að taka af öll tvímæli um heimildina, enda er það forsenda þess að tryggja megi gerð reiðvega. Í samræmi við framangreint er svo lögð til breyting á fyrirsögn IV. kafla.
    Í niðurstöðum reiðveganefndar var lagt til að reiðleiðir yrðu skráðar og flokkaðar eftir hlutverki þeirra. Gerð yrði áætlun í tengslum við samþykkt vegáætlunar hverju sinni þar sem fram kæmi flokkun reiðleiða í þrjá flokka, stofnleiðir, þéttbýlisleiðir og héraðsleiðir. Vegagerðin yrði veghaldari reiðvega samkvæmt þessari flokkun. Ekki náðist samstaða innan nefndarinnar um leiðir til fjármögnunar reiðleiða en settar voru fram nokkrar hugmyndir þar að lútandi.
    Í september 1998 skipaði samgönguráðherra aðra nefnd til að gera tillögur um uppbyggingu áningastaða og skiptihólfa, safna og skrá upplýsingar um fornar og nýjar reiðleiðir o.fl. á miðhálendi Íslands. Formaður þessarar nefndar var Baldvin Kr. Baldvinsson bóndi, sem einnig átti sæti í reiðveganefndinni. Hálendisnefndin skilaði áliti nokkru síðar en hin og var sammála henni um lagabreytingar og veghald. Nefndin kortlagði reiðleiðir á miðhálendinu og mat líklegan kostnað við úrbætur. Niðurstaða hennar var sú að reiðleiðir á miðhálendinu væru nálægt 3.500 km og um 10% þeirra þyrftu lagfæringa við. Nefndin taldi að kostnaður við þær gæti verið um 350 millj. kr. Gera verður ráð fyrir að reiðleiðir í byggð séu mun lengri en á miðhálendinu og kostnaður við þær einnig mun meiri.
    Með hliðsjón af framanrituðu er ljóst að brýnasta verkefnið er að skrá og flokka reiðleiðir og meta kostnað við að koma þeim í horf og halda þeim við. Meðan þeirri vinnu er ekki lokið er ekki tímabært að gera tillögur um fjármögnun reiðvega né viðhald þeirra. Samgönguráðuneytið hefur falið Vegagerðinni að hafa forgöngu um skráningu og flokkun reiðleiða í samráði við sveitarfélög og félög hestamanna.

Girðingar.
    Við meðferð frumvarps til vegalaga á Alþingi, 117. löggjafarþingi, urðu miklar umræður á fundum samgöngunefndar um viðhaldskostnað girðinga í tengslum við 56. gr. frumvarpsins um bann við lausagöngu búfjár þar sem girt er báðum megin vegar. Frumvarpið var samþykkt sem vegalög, nr. 45/1994. Samgönguráðherra skipaði í kjölfarið nefnd sem í sátu fulltrúar ráðuneyta, hagsmunaaðila, sveitarfélaga og Vegagerðarinnar til að endurskoða ákvæði VII. kafla vegalaga um girðingar með vegum. Nefndin skilaði niðurstöðum í formi frumvarps til breytinga á vegalögum og varð það að lögum nr. 56/1995.
    Lög nr. 56/1995 voru byggð á þeirri meginreglu, sem gilt hefur hingað til, að landeigandi ætti að annast viðhald girðinga með vegum í landi sínu. Hins vegar var gerð sú breyting að sveitarfélög skyldu hafa eftirlit með ástandi girðinga og fengu þau heimild til að bæta þar úr á kostnað landeiganda ef þörf krefði. Auk þess var það nýmæli að viðhaldskostnaður girðinga með stofn- og tengivegum skyldi borinn að jöfnu af veghaldara og landeiganda. Hins vegar skyldi viðhaldskostnaður girðinga með vegum, sem girtir væru af veghaldara eingöngu til að auka öryggi með því að sporna gegn lausagöngu búfjár á vegsvæði, alfarið borinn af veghaldara. Þar var fyrst og fremst um að ræða vegi um afrétti og almenninga en sú tilhögun ekki talin geta átt við þar sem vegur lægi um afgirt heimalönd eða beitilönd einstakra jarða.
    Undanfarin missiri hefur reglulega komið upp umræða um það vandamál sem lausaganga búfjár skapar á þjóðvegum landsins. 6. júlí 1998 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til að fjalla um leiðir til að halda búfé frá helstu þjóðvegum landsins. Skilaði nefndin skýrslu í janúar 1999. Í henni kemur m.a. fram sú skoðun að girðingar meðfram vegum séu ótraustar og með takmarkað vörslugildi vegna þess að viðhaldi þeirra sé mjög víða ábótavant „enda á hendi margra aðila sem hafa mismikilla hagsmuna að gæta“ eins og það er orðað í skýrslunni. Í henni er lagt til að sveitarfélög og Vegagerðin kanni ástand girðinga með vegum og meti hvort girða eigi meðfram vegum eða fjarri þeim í því skyni að hindra lausagöngu búfjár á fjölförnustu vegum. Slíkar girðingar verði kostaðar af sérstakri fjárveitingu en uppsetning og viðhald þeirra verði á hendi Vegagerðarinnar.
    Fallast má á að hluti af lausn þess vanda sem hér um ræðir gæti falist í bættu ástandi girðinga meðfram vegum þar sem á annað borð er talið nauðsynlegt að girða með tilliti til umferðaröryggis. Mikilvægt er að þar sem er girt séu girðingar traustar svo að búfé sleppi ekki inn á vegsvæðið. Telja verður að lausn vandans geti ekki síður falist í því að girða fjarri vegi og búa með því til lokuð beitarhólf fyrir búfé fjarri umferðinni. Víða háttar svo til að ekki er með góðu móti hægt að girða með vegum og verður því að gera ráð fyrir öðrum lausnum. Þá er ónefnd sú sjónmengun fyrir vegfarendur sem er af girðingum. Ennig má fallast á að nokkrum vandkvæðum hafi verið bundið að tryggja að allir landeigendur sinni lögbundinni skyldu sinni til að halda við girðingum meðfram vegum með þeim hætti að þær haldi vörslugildi sínu.
    Í gildandi vegalögum, eins og þeim var breytt með lögum nr. 56/1995, er gert ráð fyrir að þar sem veghaldari girðir í því skyni að auka umferðaröryggi annist hann og kosti viðhald girðingarinnar. Þessi regla er ekki talin geta átt við þar sem vegur liggur um afgirt heimalönd eða beitilönd einstakra jarða, þar sé það landeigandi sem annist viðhald en beri viðhaldskostnað að jöfnu á móti veghaldara. Í ljósi hárrar tíðni óhappa þykir rétt að leggja til breytingar á þessu sem gera eiga Vegagerðinni kleift að taka að sér og kosta viðhald girðinga með vegum þegar það þykir nauðsynlegt vegna umferðaröryggis á vegum þar sem umferð er umtalsverð. Telja verður nauðsynlegt að veita Vegagerðinni skýra heimild til að grípa til aðgerða þar sem girðingar eru ekki traustar, endurbæta þær og e.t.v. girða að nýju þar sem þess er þörf.
    Fram til setningar laga nr. 56/1995 voru í gildi ákvæði girðingalaga um að kostnaður af viðhaldi girðinga með vegum yrði borinn af landeiganda nema girðing væri eingöngu vegarins vegna. Nýmæli laganna um helmingshlutdeild veghaldara í viðhaldskostnaði girðinga með stofnvegum og tengivegum var ætlað að koma á framtíðarskipan þessarra mála og skera úr um það hver bera ætti viðhaldskostnaðinn. Eðlilegt er að þessi regla verði áfram meginregla laganna um viðhaldskostnað girðinga. Enn fremur verði það almenna reglan áfram að landeigandi haldi við girðingum sem reistar eru í þágu hans en ekki vegarins vegna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.

    Sérstakt ákvæði er um fjárveitingar til reiðvega í 17. gr. vegalaga en þeir eru hins vegar ekki skilgreindir frekar í lögunum. Lagt er til að 9. gr. vegalaga verði breytt á þann hátt að reiðvegir verði skilgreindir sem sérstakur flokkur vega samkvæmt vegalögum.
    Í 11. gr. vegalaga er samgönguráðherra heimilað að taka eignarnámi land til lagningar almennra vega og einkavega. Lagt er til að sama heimild verði fyrir hendi hvað snertir reiðvegi. Ef leggja á reiðvegi í auknum mæli er nauðsynlegt að eignarnámsheimild sé til staðar svo tryggja megi gerð reiðvega þegar nauðsyn krefur. Til að taka af allan vafa um heimild samgönguráðherra að þessu leyti er lagt til að reiðvegir verði taldir upp í 11. gr. ásamt almennum vegum og einkavegum, enda gert ráð fyrir að reiðvegir verði sérstakur vegflokkur.

Um 3. gr.

    Um greinina vísast til athugasemda við 1. og 2. gr.


Um 4. gr.

    Greininni er ætlað að tryggja að Vegagerðin geti ákveðið að taka að sér og kosta alfarið viðhald girðinga meðfram stofn- og tengivegum þar sem umferð er 500 bílar á dag eða meira yfir sumarmánuði ársins, svonefnd sumardagsumferð (SDU). Er hér átt við meðalumferð á dag í júní, júlí, ágúst og september. Þeir vegir sem hér um ræðir eru allir fjölförnustu stofnvegir, fjölfarnir tengivegir og aðrir vegir með talsverðri árstíðabundinni umferð.
    Lengd vega sem hér um ræðir er alls um 1.630 km miðað við fyrirliggjandi niðurstöður umferðartalninga en þar eru einnig vegir í þéttbýli. Auk þess er nokkur hluti þeirra á Reykjanesi þar sem búfé er að miklu leyti í beitarhólfum og því að jafnaði ekki girt meðfram vegum. Að teknu tilliti til þess er hér um að ræða u.þ.b. 1.400 km. Aðeins hluti þessarra vega er girtur þannig að erfiðleikum er bundið að áætla lengd þeirra girðinga sem hér um ræðir. Ef gert er ráð fyrir að Vegagerðin taki að sér viðhald girðinga meðfram hringvegi, þjóðvegi eitt, og fjölförnustu vegum má ætla að kostnaður gæti numið allt að 20 millj. kr. á ári hverju.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á vegalögum,
nr. 45/1994, með síðari breytingum.

    Tilgangurinn með frumvarpi þessu er að styrkja heimildir Vegagerðarinnar til lagningar reiðvega og eignarnáms vegna þeirra og heimild til að taka að sér og kosta alfarið viðhald girðinga meðfram stofn- og tengivegum þar sem umferð er 500 bílar á dag eða meira yfir sumarmánuði ársins.
    Samkvæmt lauslegri áætlun, byggðri á upplýsingum frá Vegagerðinni, yrði heildarkostnaður ríkissjóðs vegna þessara heimilda um 1 milljarður króna og skiptist niður á ótiltekinn fjölda ára ef heimildir eru nýttar til fulls. Þar af gæti aukinn kostnaður af viðhaldi girðinga verið á bilinu 15–20 m.kr. á ári. Í samþykktri vegáætlun er forgangsröðun verkefna ákveðin og ræðst framgangur framkvæmda af henni. Kostnaður við vegagerð er borinn af mörkuðum tekjustofnum og hefur frumvarpið því ekki áhrif á heildarútgjöld til vegamála.