Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 575  —  325. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
    Ákvæði 1. mgr. taka til gagnagrunna að því er tekur til niðurröðunar og samsetningar þeirra að fullnægðum almennum skilyrðum fyrir höfundaréttarlegri vernd. Ekki raskar sá réttur höfundarétti að verkum sem gagnagrunnurinn kann að geyma. Þá raskar hann eigi að heldur samhliða rétti framleiðenda skv. 50. gr.
    Með gagnagrunni í skilningi laga þessara, sbr. 3. mgr. þessarar greinar og 50. gr., er átt við safn sjálfstæðra verka, upplýsinga eða annarra efnisatriða, sem komið er fyrir með skipulegum eða kerfisbundnum hætti og eru aðgengileg með rafrænum eða öðrum aðferðum. Tölvuforrit sem notað er við gerð eða rekstur gagnagrunns og aðgangur er veittur að með rafrænum hætti telst ekki til gagnagrunns í skilningi laga þessara.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Á eftir 4. tölul. 2. mgr. kemur nýr töluliður, 5. tölul., og orðast svo: eftirgerðar véllæsilegra eintaka gagnagrunns.
     b.      5. og 6. málsl. 3. mgr. orðast svo: Gjald af auðum hljóðböndum nemi 33,00 kr. en 98,00 kr. ef um auð myndbönd er að ræða. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um gjald þetta.

3. gr.

    1. mgr. 11. gr. a laganna orðast svo:
    Þeim sem hefur rétt til að nota tölvuforrit, sem út hefur verið gefið, er heimil, þrátt fyrir ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 11. gr., gerð eintaka eftir forritinu, þar á meðal til gerðar vara- og öryggiseintaka sem honum eru nauðsynleg vegna nýtingar þess. Slík eintök má ekki nota á annan hátt og réttur til nýtingar þeirra fellur niður ef eigandi ráðstafar frumeintaki sínu til annarra.

4. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „bókmenntaverks eða tónverks sem út hefur verið gefið og ekki er leiksviðsverk“ í 1. mgr. kemur: verks, sem út hefur verið gefið.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
                  Ákvæði þessarar greinar taka ekki til leiksviðsverka eða kvikmyndaverka. Enn fremur taka ákvæði greinar þessarar ekki til gagnagrunna við fræðslu í hagnaðarskyni.

5. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 25. gr. b laganna orðast svo: Höfundaréttarsjóður myndlistarmanna eða annar sjóður sem kæmi í hans stað annast innheimtu gjalda skv. 1. mgr., svo og skil á þeim til höfunda að frádregnu hæfilegu endurgjaldi vegna innheimtunnar.

6. gr.

    Við 41. gr. laganna bætist ný málsgrein og orðast svo:
    Hafi höfundur kvikmyndaverks framselt rétt sinn til útleigu kvikmyndaverks, sbr. 1. mgr., á hann ætíð rétt til hæfilegrar þóknunar fyrir útleiguna og verður ekki fallið frá rétti þessum með samningum.

7. gr.

    1. mgr. 42. gr. a laganna orðast svo:
    Sá sem hefur rétt til að nota tölvuforrit hefur heimild til að gera þær breytingar á forritinu sem nauðsyn ber til vegna nýtingar þeirrar sem heimil er.

8. gr.

    Á eftir 42. gr. b laganna kemur ný grein, 42. gr. c, er orðast svo:
    Sá sem hefur rétt til að nota gagnagrunn, sbr. 50. gr., hefur heimild til aðgerða sem nauðsynlegar eru til aðgangs að efni gagnagrunnsins og venjulegrar nýtingar hans.

9. gr.

    3. mgr. 45. gr. laganna orðast svo:
    Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–6. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr., 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr. og 53. gr. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. gilda þó aðeins um upptökur sem fyrst eru seldar eða ráðstafað til eignar með öðrum hætti með samþykki rétthafa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

10. gr.

    50. gr. laganna orðast svo:
    Sá sem framleiðir skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipuð verk sem hafa að geyma umtalsvert safn upplýsinga eða eru árangur verulegrar fjárfestingar hefur einkarétt til eintakagerðar eða birtingar verks í heild eða að verulegum hluta. Endurtekinn og kerfisbundinn útdráttur og/eða endurnýting óverulegs hluta af gagnagrunni er óheimil ef þær aðgerðir stríða gegn venjulegri nýtingu hans eða ganga með óeðlilegum hætti gegn réttmætum hagsmunum framleiðenda gagnagrunnsins.
    Einkaréttur til þeirrar sérstöku verndar sem kveðið er á um í grein þessari helst í 15 ár frá næstu áramótum eftir að verkið varð til. Ef verkið er birt innan greinds verndartímabils skal verndin þó haldast í 15 ár frá næstu áramótum eftir að gagnagrunnurinn telst birtur almenningi.
    Njóti verk eða verkshluti, sem fjallað er um í grein þessari, höfundaréttarverndar verður þeim rétti einnig beitt samhliða.
    Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum II. kafla laga þessara.

11. gr.

    3. tölul. 2. mgr. 54. gr. laganna orðast svo: Brot á 1. mgr. 45. gr. og 3. mgr. sömu greinar, sbr. tilvitnanir þar í 4. gr., 1. mgr. 28. gr. og fyrirmæli sem getur í 2. mgr. 31. gr.

12. gr.

    1. málsl. 57. gr. laganna orðast svo: Takist ekki samningur um fjárhæð þóknunar skv. 14. gr., 15. gr. a, 16., 17., 20. og 21. gr., 23. gr. a, 25. gr., 45. gr. a og 47. gr. getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið undir úrskurð þriggja manna nefndar sem menntamálaráðherra skipar úr hópi fimm manna sem höfundaréttarnefnd skv. 58. gr. tilnefnir.

13. gr.

    Í stað orðanna „sbr. 2. mgr. 45. gr.“ í 2. mgr. 59. gr. laganna kemur: sbr. 3. mgr. 45. gr.

14. gr.

    Á eftir 60. gr. laganna kemur ný grein, 60. gr. a, er orðast svo:
    Ákvæði 50. gr. gilda um verk ríkisborgara eða manna búsettra í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.

15. gr.

    61. gr. laganna kemur í stað 63. gr. og við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Vernd gagnagrunna skv. 50. gr. sem gerðir eru á tímabilinu frá 1. janúar 1983 til 1. janúar 2000 helst til 1. janúar 2015.

16. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 61. gr. og orðast svo:
    Ákvæði 45. gr. taka til:
     1.      Listflutnings íslenskra ríkisborgara, hvar sem hann hefur fram farið.
     2.      Listflutnings erlendra ríkisborgara og ríkisfangslausra manna sem hér segir:
                  a.      Ef listflutningur hefur farið fram hér á landi.
                  b.      Ef listflutningur hefur verið tekinn upp á hljóðrit sem verndar nýtur eftir ákvæðum 2. tölul. 3. mgr.
                  c.      Ef listflutningi, sem ekki hefur verið tekinn upp á hljóðrit, er útvarpað af útvarpsstofnun sem verndar nýtur eftir ákvæðum í 4. mgr.
    Ákvæði 46. gr. taka til myndrita og hljóðrita hvar og af hverjum sem þau hafa verið framleidd, en réttur til endurgjalds skv. 3. og 4. mgr. 11. gr. fylgir aðeins upptökum sem gerðar eru hér á landi eða í ríkjum sem veita íslenskum upptökum sams konar rétt.
    Ákvæði 47. gr. taka til:
     a.      Listflutnings íslenskra ríkisborgara sem tekinn hefur verið upp á hljóðrit.
     b.      Hljóðrita, svo og listflutnings þess er þau hafa að geyma, ef framleiðandi hljóðrits er íslenskur ríkisborgari eða fyrirtæki sem hefur aðsetur hér á landi.
    Ákvæði 48. gr. taka til útvarpsstofnana ef þær fullnægja öðru hvoru því skilyrði sem hér segir:
     a.      Að aðalstöðvar stofnunarinnar séu hér á landi.
     b.      Að útvarpað hafi verið með senditæki, staðsettu hér á landi.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan menntamálaráðherra af sérstakri nefnd, sem fylgst hefur með þróun höfundaréttarmála á vegum ráðuneytisins á síðustu árum og unnið að endurskoðun höfundaréttarlöggjafarinnar. Í nefndinni eiga nú sæti Sigurður Reynir Pétursson hrl., formaður, Eiríkur Tómasson lagaprófessor, Erla S. Árnadóttir hdl., Gunnar Guðmundsson hdl., Knútur Bruun hrl., Ragnar Aðalsteinsson hrl., Tómas Þorvaldsson hdl. og Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri lögfræði- og stjórnsýslusviðs menntamálaráðuneytisins. Samdi nefndin m.a. tillögur til breytinga á höfundalögum sem samþykktar voru sem lög nr. 57/1992 og nr. 145/1996.

Markmið frumvarpsins.

    Höfuðmarkmið þeirra breytinga á höfundalögum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu er að laga íslenska höfundalöggjöf að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/9 um lögverndun gagnagrunna. Þá er með frumvarpi þessu gerð tillaga um að samræma íslensk höfundalög að ákvæði 4. gr. tilskipunar ráðsins 92/100/EBE um leigu- og útlánsrétt og önnur réttindi tengd höfundarétti á sviði hugverkaréttar. Að síðustu er enn fremur í frumvarpi þessu gerð tillaga um breytingar á ákvæðum varðandi vernd tölvuforrita með hliðsjón af tilskipun ráðsins 91/250/EBE, um lögvernd fyrir tölvuforrit. Það skal tekið fram að með áðurgreindum lögum nr. 57/1992 og nr. 145/1996 voru íslensk höfundalög löguð að hinum tveimur síðastgreindu tilskipunum að verulegu leyti.
    Með aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum) skuldbatt Ísland sig til þess að aðlaga löggjöf landsins að hinu almenna verndarstigi hugverka í Evrópusambandslöndunum. Vísast um þetta efni til 65. gr. samningsins, sbr. viðauka XVII, bókun 28. Í 3. tölul. 1. gr. bókunar 28 segir: „… munu EFTA-ríkin samkvæmt beiðni og að höfðu samráði við samningsaðila aðlaga löggjöf sína um hugverk til þess að ná að minnsta kosti því almenna stigi í verndun hugverka sem er í Evrópubandalaginu við undirritun þessa samnings.“
    Það skal tekið fram að endurskoðunarnefnd höfundalaga hefur fylgst með þróun alþjóðlegrar höfundaréttarverndar, þar á meðal vegna aukinna möguleika á nýtingu hugverka og listflutnings með stafrænni (digital) tækni. Er hér einkum átt við samninga Alþjóðahugverkastofnunarinnar frá árinu 1996, höfundaréttarsamning WIPO og grannréttindasamning WIPO. Þá hefur nefndin fylgst grannt með undirbúningi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að setningu nýrrar tilskipunar um höfundarétt og hliðstæð réttindi í upplýsingasamfélaginu. Fyrirsjáanlegt er að nokkrar breytingar mun þurfa að gera á íslenskri höfundalöggjöf þegar sú tilskipun hefur verið samþykkt innan Evrópusambandsins. Enn fremur er fyrirsjáanlegt að hið fyrsta þarf að breyta ákvæðum laganna varðandi gjöld fyrir upptöku verka til einkanota til samræmis við gjörbreytta upptökutækni.

Helstu nýmæli og breytingar.
Gagnagrunnar.

    Svo sem að framan greinir er eitt helsta nýmæli sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir í fyrsta lagi að lögfest verði í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins ákvæði um lögvernd gagnagrunna.
    Gagnagrunnur er í tilskipun Evrópusambandsins skilgreindur sem „safn sjálfstæðra verka, upplýsinga eða efnisatriða sem komið er fyrir með skipulegum og kerfisbundnum hætti og eru aðgengileg með rafrænum aðferðum eða á annan hátt“. Í frumvarpinu er byggt á þeirri skilgreiningu.
    Lögvernd gagnagrunna samkvæmt frumvarpi þessu er tvíþætt.
    Í fyrsta lagi lýtur lögvernd gagnagrunna að tímabundnum einkarétti framleiðenda gagnagrunna til eintakagerðar í því skyni að tryggja þeim hæfilegt endurgjald fyrir afnot annarra aðila að efni gagnagrunnanna á verndartímabilinu sem er 15 ár. Hinn sérstaki réttur framleiðenda tekur aðeins til nýtingar alls eða verulegs hluta gagnagrunns svo og til kerfisbundins útdráttar eða óverulegs hluta hans ef þær aðgerðir stríða gegn óeðlilegri nýtingu eða ganga með óeðlilegum hætti gegn réttmætum hagsmunum framleiðenda. Framleiðandi gagnagrunns er sá sem hefur frumkvæði að og tekur á sig áhættu sem fylgir fjárfestingu við gerð hans. Réttlæting þessarar verndar felst í vinnuframlagi og fjárfestingu þeirri sem framleiðendur leggja í við gerð slíkra heimildabanka og felur að sjálfsögðu jafnframt í sér hvatningu til gerðar þeirra. Hér er um að ræða svokallaðan „sui generis“ rétt, óháðan höfundarétti.
    Í öðru lagi er jafnframt lagt til að lögfest verði skýr ákvæði um vernd höfunda gagnagrunna að fullnægðum almennum skilyrðum höfundaréttar um verkshæð, en í flestum tilvikum er talið að gagnagrunnar fullnægi ekki þessum skilyrðum. Til höfundaréttarverndar er krafist að fullnægt sé skilyrðum um frumleik og skapandi vinnu í vali og niðurröðun efnis í gagnagrunninn.
    Gagnagrunnur kann að geyma höfundaréttarlega varið efni sem að sjálfsögðu er verndað samkvæmt almennum rétti höfundaréttar. Hvorugur rétturinn, þ.e. „sui generis“ réttur útgefenda eða réttur höfunda, útilokar hinn, þannig að framleiðandi gagnagrunns þarf að tryggja sér höfundaréttinn með framsali, ef til staðar er, til að tryggja sér algjöran umráðarétt yfir verkinu á verndartíma framleiðendaréttarins. Slíkt framsal kann þó að felast í vinnusambandi höfunda og framleiðenda við gerð gagnagrunnsins samkvæmt almennum sjónarmiðum höfundaréttar um framsal réttarins í vinnusambandi.
    Ákvæði tilskipunar um gagnagrunna raska á engan hátt fyrri tilskipun Evrópuráðsins frá 24. október 1955, um vernd einstaklinga í sambandi við meðferð persónulegra upplýsinga, sem tekur mið af 8. gr. Evrópusáttmálans um friðhelgi einkalífs og grundvallarmannréttindi. Tilskipuninni er því ekki ætlað að hafa áhrif til breytinga á löggjöf aðildarlandanna um upplýsingavernd.
    Þá er tilskipuninni ekki ætlað, hvorki beint né óbeint, að stuðla að yfirburðamarkaðsstöðu einstakra gagnagrunnsframleiðenda. Í því efni gilda áfram ákvæði samkeppnislaga hvers sambandslands.

Gjald fyrir útleigu kvikmyndaverka.

    Í samræmi við 4. gr., sbr. 8. tölul. 13. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um leigu og útlánsrétt o.s.frv. frá 19. nóvember 1992 (Tilskipun ráðsins 92/100/EBE), er hér lagt til að lögfest verði óafsalanlegt gjald til rétthafa vegna útleigu verka. Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um hæfilegt gjald sem dómstólar ákveða náist ekki samkomulag milli aðila. Var í framangreindri tilskipun Evrópusambandsins veittur frestur til þess að mæla fyrir um gjald þetta í lögum.
    Um ákvæði frumvarpsins varðandi vernd tölvuforrita er fjallað í athugasemdum við einstakar greinar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að skilgreiningin á gagnarunni verði tekin upp í 6. gr. laganna. Í 6. og 50. gr. er fjallað um inntak þeirrar verndar sem gagnagrunnar njóta samkvæmt lögum þessum, þ.e. annars vegar er höfundaréttarleg vernd í 6. gr. og hins vegar hin sérstaka vernd í 50. gr. Skilgreining þessi byggir á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/9, sbr. 17. inngangsgrein tilskipunarinnar.
    Samsetning gagnagrunns kann að njóta höfundaréttarlegrar verndar vegna vals og niðurröðunar efnis í hann, enda sé fullnægt lágmarkskröfum höfundaréttar um frumleik og skapandi vinnu við gerð hans. Talið er að þessum skilyrðum sé yfirleitt ekki fullnægt að því er gagnagrunna varðar og þeir njóti því að jafnaði ekki verndar samkvæmt höfundarétti. Sjálf hugmyndin að baki verki eða efniviður þess nýtur ekki höfundaréttarverndar heldur einungis framsetning þessara atriða. Höfundaréttarvernd gagnagrunna samkvæmt grein þessari tekur því ekki til efnisinnihalds þeirra heldur einungis til vals og niðurröðunar efnisins, þ.e. samsetningar þessa.

Um 2. gr.

    Hér er í a-lið kveðið á um í samræmi við gagnagrunnstilskipun Evrópusambandsins að eftirgerð véllæsilegra eintaka gagnagrunns til einkanota sé óheimil á svipaðan hátt og undanþáguheimild 11. gr. núgildandi laga um eintakagerð til einkanota tekur ekki til tölvuforrita og annarra þeirra verka sem þar er fjallað um. Ákvæðið tekur einvörðungu til stafrænnar og rafrænnar útgáfu gagnagrunns og felur m.a. í sér að stafræn eintakagerð af stafrænum gagnagrunni er óheimil. Bann við stafrænni eintakagerð gagnagrunna, sem ekki njóta höfundaverndar skv. 3. mgr. 6. gr., sbr. 1. gr. frumvarps þessa, er í 50. gr., sbr. 10. gr. frumvarps þessa.
    Í b-lið er lagt til að heimild til að ákveða verðtryggingu höfundaréttargjalds með reglugerð falli brott í samræmi við almenna stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um afnám vísitölutengingar. Hinar lögfestu upphæðir gjaldsins taka mið af verðlagsþróun undanfarinna ára og eru óbreyttar frá því gjaldi sem nú er innheimt.

Um 3. gr.

    Að athuguðu máli og með hliðsjón af tilskipun Evrópusambandsins um tölvuforrit þykir rétt og eðlilegt að víkka heimildir þær sem eigendum tölvuforrita eru veittar til eftirgerðar þannig að þær nái einnig til þeirra sem hafa rétt til notkunar forritanna.
    Við nánari skoðun sést að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um tölvuforrit er ákvæði 11. gr. núgildandi höfundalaga sem einvörðungu er bundið við eiganda tölvuforrits óþarflega þröngt, enda heimilar tilskipunin að allir þeir sem hafa rétt til nýtingar þess, þ.m.t. leigutaki að fullnægðum skilyrðum greinarinnar, hafi rétt til að gera eintök af forritinu.

Um 4. gr.

    Ákvæði 21. gr. núgildandi höfundalaga heimilar opinberan flutning bókmenntaverka og tónverka í ýmsum tilvikum án samþykkis höfundar og án greiðslu til hans. Ákvæði greinarinnar eiga ekki við um öll vernduð verk heldur aðeins bókmenntaverk og tónverk. Leiksviðsverk eru undanskilin. Hér er lagt til að sú undantekningarheimild taki einnig til kvikmyndaverka. Að auki lagt til að við 21. gr. bætist ákvæði um að greinin taki ekki til gagnagrunna við fræðslu í hagnaðarskyni. Er hér leitast við að nýta undanþáguheimild b-liðar 2. tölul. 6. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um lögverndun gagnagrunna þar sem heimilað er að nota gagnagrunna við kennslu eða við vísindarannsóknir að því tilskildu að uppruna sé getið og að því marki sem tilgangurinn, sem má ekki vera viðskiptalegs eðlis, gerir ráð fyrir. Um viðskiptalegan tilgang fræðslu er að ræða í skilningi þessarar greinar ef fræðslan er skipulögð og rekin á grundvelli hagnaðarsjónarmiða. Ef greiðsla þess sem nýtur fræðslunnar tekur eingöngu mið af útlögðum kostnaði við hana er ekki um viðskiptalegan tilgang að ræða í skilningi þessarar greinar.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að tekið verði fram í lögum um heimild Höfundaréttarsjóðs myndlistarmanna til að draga frá innheimtu fylgisréttargjaldi hæfilegt endurgjald vegna innheimtunnar. Í framkvæmd hefur þessu verið þannig varið að sjóðurinn hefur á grundvelli reglugerðarheimildar dregið 15% af innheimtu fylgisréttargjaldi til þess að standa undir kostnaði við innheimtuna. Hér er því ekki verið að leggja til breytingu á tilhögun innheimtunnar heldur eingöngu verið að styrkja lagalegan grundvöll fyrir töku endurgjalds fyrir innheimtu.

Um 6. gr.

    Í samræmi við 4. gr., sbr. 8. tölul. 13. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um leigu og útlánsrétt o.s.frv. frá 19. nóvember 1992 (Tilskipun ráðsins 92/100/EBE), er hér lagt til að lögfest verði óafsalanlegt gjald til rétthafa vegna útleigu verka. Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um hæfilegt gjald sem dómstólar ákveða náist ekki samkomulag milli aðila. Er í framangreindri tilskipun Evrópusambandsins veittur frestur til þess að mæla fyrir um gjald þetta í lögum.

Um 7. gr.

    Hér er lögð til orðalagsbreyting á ákvæði 42. gr. a í því skyni að víkka heimildir þær sem eigendum tölvuforrita eru veittar til breytinga á þeim þannig að þær nái einnig til þeirra sem hafa rétt til notkunar forritanna. Vísast til athugasemda við 3. gr. frumvarps þessa.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að regla 42. gr. a gildandi laga um rétt notanda til nauðsynlegra breytinga á tölvuforritum gildi einnig um gagnagrunna. Þannig hafi notendur gagnagrunna heimildir til þess að gera aðgerðir á gagnagrunnum sem þeim eru nauðsynlegar til aðgangs að efni grunna og venjulegrar nýtingar þeirra.

Um 9. gr.

    Hér er um að ræða breytingar sem leiðir af 3. mgr. 41. gr., sbr. 6. gr. frumvarps þessa.

Um 10. gr.

    Segja má að ákvæði þessarar frumvarpsgreinar um sérstaka (sui generis) vernd til handa framleiðendum gagnagrunna í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins sé eitt helsta nýmæli þessa frumvarps. Til reifunar þessa ákvæðis vísast aðallega til hinna almennu athugasemda við frumvarpið.
    Í 1. mgr. er tekið fram að vernd einkaréttar framleiðenda taki til „eintakagerðar eða birtingar verks í heild eða að verulegum hluta“. Verndin nær einnig til endurtekins og kerfisbundins útdráttar eða endurnýtingar óverulegs hluta gagnagrunns ef gengið er óhæfilega gegn réttmætum hagsmunum framleiðenda.
    Með „útdrætti“ er átt við tímabundna eða varanlega yfirfærslu alls eða umtalsverðs hluta efnis gagnagrunns á annan miðil með hvaða móti sem er og í hverju formi sem er. Með „endurnýtingu“ er átt við það þegar almenningi er veittur aðgangur í hvaða formi sem er að öllum eða umtalsverðum hluta efnis gagnagrunns með dreifingu afrita, leigu, beinlínutengingu eða öðrum flutningsaðferðum.

Um 11. gr.

    Hér er sú breyting gerð á 3. tölul. 2. mgr. 54. gr. laganna að vísa til 3. mgr. 45. gr. í stað 2. mgr. til samræmis við breytingar sem gerðar voru á þeirri grein með breytingum á höfundalögunum árið 1996.

Um 12. gr.

    Tilvísun í 23. gr. laganna er felld niður þar sem sú grein kveður á um hreinan einkarétt höfunda eða félagssamtaka fyrir þeirra hönd til samninga við útvarpsstofnanir, þar á meðal um fjárhæð þóknunar. Enn fremur er bætt inn í greinina tilvísun í 45. gr. a en með henni er kveðið á um að ágreiningi um þóknun megi vísa til úrskurðarnefndar.

Um 13. gr.

    Í 2. mgr. 59. gr. eru tilgreind ýmis brot gegn höfundarétti sem tilnefndur tilsjónaraðili, eftirlifandi maki, niðjar eða eftirlifandi foreldrar geta krafist opinberrar ákæru eða höfðað mál út af. Þar er ranglega vísað til 2. mgr. 45. í stað 3. mgr. og er það hér með leiðrétt.

Um 14. gr.

    Hér er skýrt kveðið á um að hin nýja regla um 15 ára verndartíma til verndar framleiðendum gildi aðeins um verk sem framkvæmd eru af ríkisborgurum búsettum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sú takmörkun helgast af því að hér er um að ræða almennt lagaákvæði til verndar framleiðendum eingöngu (sui generis) þannig að hin almenna regla Bernarsáttmálans um þegnlega vernd (national treatment) er ekki skuldbindandi í þessu tilviki.

Um 15.–17. gr.

    Hér er lagt til að 61. gr. verði færð í það horf sem hún var í fyrir gildistöku höfundalagabreytinganna frá 1996 og að núgildandi 61. gr. verði að 63. gr. Við þá grein bætist jafnframt ný málsgrein, 6. mgr., sem tryggja á að réttarvernd þeirra gagnagrunna sem gerðir hafa verið frá 1983 til 1. janúar 2000 haldist til ársins 2015.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til breytinga á höfundalögum,
nr. 73/1972, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lögð til ýmis nýmæli og breytingar, m.a. varðandi lögfestingu ákvæða um lögvernd gagnagrunna og óafsalanlegs gjalds til rétthafa vegna útleigu kvikmyndaverka, afnám heimildar til að ákveða verðtryggingu höfundaréttargjalds með reglugerð, lögfestingu heimildar til að draga frá innheimtu fylgiréttargjaldi hæfilega upphæð fyrir innheimtu gjaldsins og útvíkkun heimilda til þeirra sem hafa rétt til að nota tölvuforrit til eftirgerðar þeirra, m.a. vegna öryggiseintaka.
    Fyrirhugaðar breytingar eru taldar leiða til þess að notendur þurfi að greiða þóknun til rétthafa höfundaréttar vegna notkunar á gagnagrunnum og kvikmyndaverkum. Kostnaðurinn kemur fram í hærra sölu- og leiguverði. Engar upplýsingar liggja fyrir við gerð þessarar kostnaðarumsagnar um hvaða fjárhæðir gæti verið að ræða eða hver kostnaðarauki ríkisins sem notanda gagnagrunna og kvikmyndaverka yrði. Þá má gera ráð fyrir að úrskurðarnefnd fái fleiri mál til meðferðar. Kostnaður við störf nefndarinnar hefur verið breytilegur milli ára eftir því hve mörg og flókin mál eru tekin til úrskurðar og er talinn geta numið að hámarki nokkrum hundruðum þúsunda króna á einu ári.