Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 591  —  338. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,


Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sverrir Hermannsson,


Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra í samráði við sjávarútvegsnefnd Alþingis að grípa þegar í stað til eftirfarandi ráðstafana:
     1.      Afla gagna og undirbúa tillögur um skiptingu fiskiskipaflotans í útgerðarflokka. Dagróðra- og strandveiðiflotinn verði sérstakur útgerðarflokkur með tiltekna hlutdeild í veiðum helstu nytjastofna.
     2.      Afla gagna og undirbúa tillögur um mögulega byggða- eða svæðatengingu veiðiréttinda með sérstakri hliðsjón af hlutdeild smábáta og strandveiðiflotans.
     3.      Afla gagna og móta reglur um skilyrði sem leggja eigi til grundvallar því að einstakar tegundir séu kvótasettar. Einnig reglur um hvernig tegundir skulu teknar út úr kvóta þegar forsendur kvótasetningar eru brostnar.
     4.      Skipa starfshóp um umhverfismál og sjávarútveg sem móti stefnu um hvernig stuðla megi að þróun íslensks sjávarútvegs í átt til vistvænna veiða og sjálfbærrar þróunar, m.a. með sérstakri hliðsjón af skuldbindingum Íslands samkvæmt Ríó-sáttmálanum.
     5.      Skipa 15 manna ráðgjafarnefnd samkvæmt tilnefningum með fulltrúum allra þingflokka, fulltrúum heildarsamtaka sjómanna, Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands og Vélstjórafélags Íslands, fulltrúa frá Verkamannasambandi Íslands fyrir hönd fiskverkafólks, fulltrúa frá Landssambandi íslenskra útgerðarmanna, fulltrúa frá Landssambandi smábátaeigenda, fulltrúa frá Samtökum fiskvinnslustöðva, tveim fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, auk formanns sem sjávarútvegsráðherra skipar án tilnefningar. Hlutverk ráðgjafarnefndarinnar verði að vera samráðsvettvangur allra helstu hagsmunaaðila og vera Alþingi og ríkisstjórn til aðstoðar og ráðgjafar um vinnu og stefnumótun á þessu sviði. Ráðgjafarnefndin skal vera sjávarútvegsnefnd Alþingis og stjórnskipuðum nefndum, auðlindanefnd og nefnd um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða til aðstoðar og samráðs, með reglubundnum hætti.

Greinargerð.


    Mikið óvissuástand ríkir nú í málefnum íslensks sjávarútvegs. Til viðbótar langvinnum deilum um stjórnkerfi fiskveiða og mikilli óánægju með ýmsa þætti þess hafa nú komið málaferli og dómar sem valda því að sjálfur grundvöllur fiskveiðistjórnunarkerfisins er í uppnámi. Nauðsynlegt er að Alþingi og ríkisstjórn bregðist þegar við þessu ástandi og því er tillaga þessi flutt. Hún felur í sér að Alþingi hlutist til um verkefni sem lúta að gagnasöfnun, tillögugerð og undirbúningi fyrir framtíðarstefnumótun sem sátt geti orðið um. Jafnframt þarf að tryggja að löggjöfin sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Fimmti töluliður tillögunnar kveður á um skipun 15 manna ráðgjafarnefndar. Eins og málin standa eiga margir mikilvægir hagsmunaaðilar enga aðild að þeirri vinnu sem fram fer. Nauðsynlegt er að aðilar eins og Sjómannasamtökin, fulltrúar fiskvinnslufólks og sveitarfélaganna séu með í ráðum. Því er lagt til að slík breið ráðgjafarnefnd verði skipuð.
    Að tillögunni standa þingflokkar Frjálslynda flokksins og Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs. Markmið flokkanna fara saman í ýmsum veigamiklum atriðum hvað varðar sjávarútvegsmál en að öðru leyti er um mismunandi áherslur að ræða. Í fylgiskjölum eru því greinargerðir fyrir áherslum flokkanna hvors fyrir sig í sjávarútvegsmálum. Einnig verður flutt frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem felur í sér aðgerðir sem þingmenn flokkanna telja nauðsynlegt að grípa til tafarlaust.


Fylgiskjal I.


Greinargerð um stefnu þingflokks Frjálslynda flokksins.


Tilgangur með flutningi þingsályktunartillögu.
    Þingsályktunartillaga um nýjan grundvöll fiskveiðistjórnar á miðunum við Ísland, sem lögð er fram, hefur þann tilgang að koma á nýrri skipan fiskveiðistjórnar.
    Brugðist er við þeirri réttaróvissu sem hæstaréttardómur í máli Valdimars Jóhannessonar í árslok 1998 og svo nýgenginn héraðsdómur í svonefndu Vatneyrarmáli hafa skapað. Telja þingmenn Frjálslynda flokksins það algert ábyrgðarleysi af hálfu Alþingis og raunar brot á þeim eiðstaf eða drengskaparheiti um verndun stjórnarskrárinnar sem hver þingmaður undirritar að láta eins og ekkert sé þegar veigamiklar efasemdir eru risnar um að lög, sem þingið hefur sett, fái staðist mikilvæg ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og jafnræði þegna lýðveldisins.
    Jafnframt er gerð tillaga um skipulegt vinnuferli sem er tilraun til sáttagerðar um hvernig mætti feta sig út úr þeim ógöngum sem núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi með óheftum heimildum til framsals og leigu veiðiheimilda hefur leitt yfir þjóðina.
    Hér fylgir greinargerð sem þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur unnið að undanförnu og er sett fram sem lýsing á því hvernig semja mætti nýja löggjöf um stjórn fiskveiða þannig að lögin uppfylltu jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar og léttu oki misréttis af þjóðinni.
    Jafnframt skal tryggja í nýrri löggjöf forgang og hagsmuni fólks í sjávarbyggðunum og strandveiðiflotans til atvinnuréttar og fiskveiða á heimamiðum.

Upphafleg stefna Frjálslynda flokksins.
    Í stefnumörkun sinni fyrir síðustu kosningar og síðan hefur Frjálslyndi flokkurinn viljað hverfa frá núgildandi úthlutun kvóta í einni svipan með því að hverfa aftur til þess tíma sem ríkti fyrir upphaf núgildandi fiskveiðistjórnar 1984, þ.e. með því að gefa allar veiðar eins frjálsar og kostur telst vera um tveggja eða þriggja ára skeið, með sóknarstýringu og árlegu hámarksaflamagni í mikilvægustu fisktegundum. Til að milda slíka ráðstöfun hefur Frjálslyndi flokkurinn lagt til að auka verulega veiði á þorski, m.a. með tilliti til mikils brottkasts af fiski í hafi sem núverandi kerfi hefur í för með sér, en hvergi sér stað í aflaskýrslum.

Um afleiðingar slíkrar stefnubreytingar.
    Frjálslynda flokknum hefur frá upphafi verið ljóst að svo hratt fráhvarf frá gildandi braskkerfi muni valda ýmsum útgerðum erfiðleikum og hefur í því sambandi haft mestar áhyggjur af minni útgerðum sem hafa freistað þess að kaupa sér aflaheimildir á háu verði sem eru stórt hlutfall af því sem þær hafa fengið úthlutað gefins. Flokkurinn hefur haft minni áhyggjur af hinum stóru sem hafa keypt til sín aflaheimildir á háu verði, sem ræðst af því að þetta eru jaðarviðskipti, eða búið sér til stórfelldar pappírseignauppfærslur á kvótum með sameiningum fyrirtækja og öðrum slíkum ráðum. Þessa skilsmunar sér stað í greinargerð þessari.
    Ljóst er að hvers konar skerðing, að ekki sé talað um afnám núgildandi kvótaúthlutunar, hefur áhrif til lækkunar á skráðri eign útgerða og þeim mun meiri sem þær hafa gengið harðar fram í kaupum á kvóta og eignauppfærslum í tengslum við sameiningar fyrirtækja. Sú breyting kann að leiða af sér lækkun markaðsverðs hlutabréfa í einstökum fyrirtækjum að því leyti sem það hefur endurspeglað hið óraunhæfa verðlag sem útgerðirnar hafa búið til í samkeppninni sín í milli. Breytingin ætti hins vegar ekki að hafa áhrif á rekstur og rekstrarafkomu fyrirtækja nema helst þeirra sem hafa byggt afkomu sína á leigutekjum fyrir kvóta. Skerðing á afkomu þeirra fyrirtækja og bætt kjör annarra verður að teljast sanngjörn leiðrétting á misnotkun gildandi kerfis.

Greining gildandi kerfis.
    Það er grundvallaratriði til skilnings á vandanum sem hér er fengist við að menn hætti að tala um kvótakerfi sem er svo stórkostlegt að fram er haldið að heimsathygli veki. Þetta kerfi er samsett úr tvennu sem skoða verður hvort í sínu lagi ef menn eiga að geta rætt fyrirbærið með þeim skilningi á eðli þess sem nauðsynlegur er.
    Annars vegar er kvótasetning, þ.e. ákvörðunin um það hversu mikið á að veiða af hverri fisktegund til að sú nýting stofnsins þyki innan öryggismarka fyrir viðgang hans og líkleg er til að gefa hámarksafrakstur af honum. Þessi hluti íslenska kvótakerfisins þykir hafa tekist nokkuð vel í samanburði við önnur lönd þótt um ýmis atriði í því efni megi deila.
    Hins vegar er úthlutun hins leyfða kvóta sem er allt annað mál og höfuðatriði hins pólitíska ágreinings í þessu mikla deilumáli meðal þjóðarinnar. Fyrirsvarsmenn núgildandi úthlutunar, þ.e. gjafar veiðiréttarins til þeirra sem skip áttu á tilteknu tímabili endur fyrir löngu og afkomenda þeirra, telja þetta hina einu leið til hagfelldrar útgerðar á Íslandsmið. Er þá með öllu litið fram hjá ágöllum úthlutunarinnar, svo sem hróplegu samkeppnisforskoti stóru útgerðanna gagnvart hinum smærri, lokun kerfisins á nýliðun í útgerð, óöryggið sem aðferðin býr sjávarbyggðum, flæði fjármagns út úr greininni þegar útgerðarmenn eða erfingjar þeirra selja hlut „sinn“ í „sameign þjóðarinnar“, skefjalausu brottkasti fisks sem kerfið leiðir af sér og síðast en ekki síst þeirri taumlausu skuldsetningu sem útgerðin tekur á sig þegar sægreifarnir eru keyptir út úr greininni. Eru þá ótalin stjórnarskrárákvæðin sem fyrr var vitnað til.

Hin pólitíska varðstaða um kerfið.
    Gríðarlegum fjármunum hefur verið varið til áróðurs fyrir þessum málstað undir stjórn öflugustu auglýsingamanna landsins. Sérhagsmunirnir, sem verið er að verja, eru líka gríðarlegir. Þjóðin hefur þó ekki látið blekkjast, en of stór hluti hennar hefur látið stjórnarflokkana komast upp með grímulausa varðstöðu um sérhagsmuni þá sem Alþingi hefur búið til með óskynsamlegri löggjöf sem ekki fær staðist neinar réttlætiskröfur og eykur stórlega á vanda sjávarbyggðanna.

Þeir sem best þekkja til erlendis vilja ekki svona kerfi.
    Íbúum Nýfundnalands, Færeyingum eða Norðmönnum, sem allir þekkja til þess hvernig Íslendingar fóru að í þessu efni, kemur ekki til hugar að innleiða sömu aðferð. Þeir sjá hvernig hún drepur niður smærri rekstur og eyðir byggðum. Verið getur að einhverjar þjóðir, sem eru nógu langt í burtu og hafa fengið til sín trúboða íslenska sjávarútvegsráðuneytisins, láti sér koma til hugar að apa þetta eftir, enda eiga í hlut þjóðir sem hafa langa hefð fyrir að hygla gæðingum. Það kunna Íslendingar hins vegar ekki að meta.

Grunnvandinn.
    Misræmið milli núgildandi kvótaúthlutunar og reglna stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og jafnræði er vandinn sem við er að fást. Hann snýst þess vegna ekki um kvótakerfið í heild sinni, heldur einungis um úthlutun kvótans að því leyti sem til kvótasetningar þarf að koma.

Hvenær þarf kvótasetningu?
    Hér er að sjálfsögðu um að ræða grundvallaratriði, hvenær nauðsynlegt er að setja fisktegund undir aflatakmarkanir. Þegar sagan er skoðuð kemur í ljós að það er regla, fremur en undantekning, að útgerðin nái ekki að veiða að fullu þann afla sem sjávarútvegsráðuneytið hefur leyft og oftast er í námunda við þá ramma sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til.
    Hin eðlilegu viðbrögð við þessari stöðu ættu að vera að taka þá tegund, sem ekki tekst að veiða, út úr kvótasetningu þar til ætla mætti að henni sé ofboðið. Svo mikil hefur verið þjónkun sjávarútvegsráðherra við hagsmuni einstakra útgerðarmanna að þetta hefur ekki verið gert. Þess í stað hefur verið leidd í lög röklaus og fáránleg heimild fyrir útgerðarmenn að breyta tegund sem ekki veiðist í aðra sem veiðist, þó ekki þorsk.
    Undir þessum formerkjum hafa stofnarnir af karfa og grálúðu verið stórlega veiddir umfram tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar sem nemur þúsundum tonna um ótalin ár. Umhyggja LÍÚ og stjórnvalda fyrir fiskstofnunum nær ekki lengra en þetta þegar hún telst rekast á hagsmuni útgerðarmanna.

Meginefni tillagna um nýja fiskveiðistjórn.
    Sú viðleitni Frjálslynda flokksins til sátta um fiskveiðistjórn við Ísland, sem í þingsályktunartillögunni og meðfylgjandi greinargerð er að finna, felur í sér fáein meginmarkmið og leiðir, auk hinnar almennu viðleitni til að láta löggjöf landsins ríma við stjórnarskrá lýðveldisins.

Nauðsynlegur undirbúningur.
    Fiskiskipaflotanum verði skipt upp í þrjá útgerðarflokka:
    Nauðsyn ber til að skilgreina aðgreinda útgerðarflokka fiskiskipa með sambærilega möguleika til fiskveiða og nálgast þannig jafnræði milli þeirra sem gera út álíka kraftmikil veiðiskip sem hafa mismunandi áhrif á náttúrulega viðkomu í lífríki sjávar.
    Þar ber fyrst að nefna flokk frystitogara og nóta- og togveiðiskipa sem veiða nú þegar innan og utan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar, bæði botnfisktegundir og uppsjávarfisk eins og loðnu, síld, kolmunna og makríl. Þessi flokkur frysti- og nótaskipa verði sérgreindur frá öðrum hluta flotans og mörkuð afla- og veiðistýring sem hentar þeim í því alþjóðlega uppboðs- og samkeppniskerfi kvótaveiði, sóknar og alþjóða- eða milliríkjasamninga sem stórútgerðin starfar í.
    Annar sérgreindur útgerðarflokkur væri stærri togveiðiskip sem landa ísvörðum fiski til landvinnslu. Þar þarf að taka tillit til eðlilegrar nýtingar á veiðislóð og fiskistofnum samfara takmörkuðum möguleikum til sóknar út fyrir lögsögu og eðlilegs aðgangs að öllum fisktegundum þar sem í togveiðarfæri kemur afli af mörgum fisktegundum. Tæknivædd línuveiðiskip með beitningarvélar veiða einnig fjölmargar fisktegundir, oftast innan 200 mílna fiskveiðilögsögu, og stórir netabátar geta einnig átt heima í þessum útgerðarflokki. Fyrir fram, að lítt rannsökuðu máli, er næsta víst að útfærslan hjá þessum þremur gerðum ísfisktogara, beitningarvélbátum og stórum netabátum þarf ekki að vera eins þrátt fyrir það að vegna stærðar, afkasta, útiverutíma og veiðisvæða falli þessi fiskiskip saman í útgerðarflokk.
    Þriðji flokkurinn yrði síðan strandveiðiflotinn, skiptur í fyrstu í báta undir 6 tonnum (smábáta) og önnur dagróðraskip, t.d. undir 120–140 brúttótonnum. Minnstu bátum strandveiðiflotans yrði gefið eins mikið frelsi til fiskveiða og frekast er kostur. Eins og málum er nú komið víða í kvótalausum sjávarbyggðum verður að opna möguleika strandveiðanna til aukins frjálsræðis. Afgjald af veiðifrelsi strandveiðiflotans renni til útgerðarstaðanna til eflingar landsbyggðarinnar á nýjan leik.
     1.      Gera skal umhverfismat fyrir hvern flokk veiðarfæra. Tilgangur væri að láta meta faglega helstu áhættuþætti sem fylgja veiðum með tilteknum veiðarfærum við fiskveiðar.
     2.      Strandveiðiflotanum, sem enn er til í sjávarbyggðunum umhverfis landið, verði gert mögulegt að sækja sjóinn sinn með lágmarkshömlum og afla þannig bæði sjómönnunum og landverkafólki sjávarbyggðanna lífsviðurværis.
     3.      Kvótasetning verði afnumin af þeim tegundum nytjafiska sem ekki hefur tekist að veiða upp tvö fiskveiðiár í röð. Af slíkum afla verði greitt gjald, sem Alþingi ákveður með lögum, af hverju kílói eftir landaðri vigt.
     4.      Framsal og framleiga á veiðiheimildum verði þegar í stað bannað.
     5.      Hinum smærri, sem tilheyra munu strandveiðiflotanum og hafa tekið þátt í því fjárhættuspili sem framsalsheimildirnar frá 1990 hafa búið til, verði forðað frá stóráföllum með skattalegri afskrift kvótaandvirðis, sbr. 8. lið hér á eftir.
     6.      Úthlutun kvóta eftir núgildandi reglum á þeim fisktegundum, sem eftir væru undir kvótasetningu, verði fryst að því er tekur til magns, en jafnframt afnumin í fimm jafnstórum skrefum á næstu fimm árum þannig að fyrsti fimmtungurinn verði felldur niður við upphaf næsta fiskveiðiárs og síðan árlega koll af kolli.
     7.      Veiðiheimildum, sem losna undan kvótaúthlutun samkvæmt ofanrituðu, aukningu á leyfilegu veiðimagni samkvæmt nýrri kvótasetningu og nýjum tegundum, sem teknar yrðu undir kvótasetningu, yrði annars vegar úthlutað með því að bjóða veiðiheimildir upp á opnum tilboðsmarkaði á vegum ríkisins og hæstu boð látin ráða og hins vegar með greiðslu aflagjalds hjá strandveiðiflotanum. Fyrstu tvö ár hins nýja kerfis skal leyfilegt heildarmagn þorsks aukið um 100.000 tonn hvort ár umfram það sem nú gildir.
     8.      Öll framkvæmd umskiptanna frá gömlu kerfi yfir í hið nýja væri í höndum sjálfstæðrar þriggja manna stjórnarnefndar óvilhallra manna sem Hæstiréttur tilnefndi en sækti umboð sitt beint til Alþingis. Stjórnarnefndin hefði bæði víðtækt úrskurðarvald um ágreiningsefni og lagaskyldu til að ráðleggja sjávarútvegsráðherra og eftir atvikum Alþingi um vandamál, sem ráðherra eða Alþingi þyrfti að taka á, í framkvæmd hinnar nýju stefnu. Stjórnarnefndin hefði enn fremur víðtækt ákvörðunarvald um ýmis atriði framkvæmdar hinnar nýju stefnu, sbr. það sem hér fer á eftir. Þá skal nefndin gera tillögu um hvernig þeim útgerðum, sem mestu hafa varið hlutfallslega til kaupa veiðiheimilda á undanförnum árum, verði forðað frá áföllum þegar kerfið er afnumið.
     9.      Uppboð á veiðiheimildum fer ekki einungis fram undir stjórn stjórnarnefndar hinnar nýju fiskveiðistjórnarstefnu, heldur hefði hún til þess heimildir að koma í veg fyrir að hóflausum yfirboðum stórútgerða yrði tekið, sem og heimildir til þess að einstakar sjávarbyggðir yrðu ekki útundan í slíkum útboðum þótt raunverulegt markaðsverð yrði að ráða í slíkum viðskiptum. Komi til þess í uppboðum á veiðiheimildum og í hinum frjálsu veiðum strandveiðiflotans að ójafnvægi myndist milli hinna þriggja hluta flotans verði heimild til að skipta aflamagninu milli strandveiðiflotans og hinna hlutanna tveggja. Æskileg skipting aflamagns verði í samræmi við þá fisktegund, sem mest er veidd hverju sinni af viðkomandi útgerðarflokki, eftir veiðarfærum, t.d. karfi og grálúða í troll.
     10.      Í mótun hins nýja fiskveiðistjórnkerfis verði hverjum áðurnefndra útgerðaflokka afmörkuð veiðislóð í sem bestu samræmi við það hverjum hluta flotans hentar best að nýta veiðislóðina með hagkvæmum og vistvænum hætti.
             Við endanlega röðun í strandveiðiflota dagróðrarbáta með kyrrstæð veiðarfæri, línu, handfæri og net, þarf að skilgreina hvar sá floti hefur forgang. Strandveiðiflotanum sem stundar veiðar með togveiðarfærum á grunnslóð, dragnót og botnvörpu (rækjuvörpu), þarf einnig að marka ramma líkt og gert er í dag með veiðisvæðaskiptingu.
     11.      Til að tryggja hagsmuni strandveiðiflotans og hinna dreifðu sjávarbyggða, sem og til að gera útboð veiðiheimilda viðráðanlegri með fækkun bjóðenda, er lagt til að strandveiðiflotinn taki ekki þátt í uppboðum veiðiheimilda, heldur hafi frjálsa sókn á þeim svæðum sem honum eru mörkuð, en greiði við löndun hverju sinni fjárhæð á hvert kíló kvótasetts fisks, að hámarki 15% af mánaðarlegu meðalverði á fiskmörkuðum. Stjórnarnefndinni væri þó heimilt að lækka þessa prósentu með hliðsjón af markaðsverði í útboði aflaheimilda. Aflagjald strandveiðiflotans renni til uppbyggingar í viðkomandi byggðarlögum. Landað magn strandveiðiflotans með þessum hætti drægist jafnharðan frá hinu leyfða aflamagni eins og það hafi verið selt á markaðnum.
     12.      Útboð fari fram á opnum tilboðsmarkaði allt árið og heimildir leigðar til eins árs í senn. Ef heimildir fiskveiðiárs samkvæmt kvótasetningu þess þrýtur geta fiskiskip einungis einbeitt sér að veiðum tegunda sem eru utan kvótasetningar. Kvótasettur afli, sem skip hefur ekki leigt rétt fyrir, skal fluttur að landi, seldur fyrir hæsta fáanlegt verð og aflaverðmætinu skipt eftir reglum um lágverðsafla, sbr. næstu málsgrein.
     13.      Gert er ráð fyrir skyldu til að allur afli, sem á skip kemur, verði fluttur í land. Til að tryggja þetta og búa til hvata fyrir sjómenn og útgerðir til að sinna þessari lagaskyldu, þvert ofan í það sem núgildandi kerfi gerir, er gert ráð fyrir að slíkur lágverðsafli verði seldur á hæsta fáanlegu verði og andvirðinu skipt til helminga milli sérstaks brottkastsjóðs annars vegar en skips og áhafnar hins vegar. Reglunni er ætlað að ná því jafnvægi í þessum skiptum að hvatningin sé næg til að komið sé með fiskinn í land, en ekki svo mikil að slíkur veiðiskapur verði stundaður sem viðvarandi útgerð.
     14.      Veiðar má hver sá stunda sem fullnægir skilyrðum til að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og leyst hefur til sín skriflegt veiðileyfi fyrir tiltekið fiskiskip gegn árlegu gjaldi sem ákveðið er með lögunum.
     15.      Til framkvæmdar slíkrar fiskveiðistjórnar þyrfti að þróa gátkerfi Fiskistofu til að áreiðanleg sískráning náist á öllum þeim upplýsingum sem halda þarf utan um til reikningshalds og reikningagerðar. Lög þyrftu enn fremur að fela í sér hvöss ákvæði um viðurlög við brotum, hvort heldur er af hálfu áhafna, útgerða eða eftirlitsmanna. Þetta er því brýnna nú sem hið nýja fiskveiðistjórnarkerfi felur í sér sanngjarnt fyrirkomulag, en knýr menn ekki til að brjóta lögin eins og gildandi kerfi sannarlega gerir.
             Verði Vatneyrardómur hins vegar staðfestur af Hæstarétti óbreyttur er sú aðferð útilokuð sem lýst er í 6. lið hér að framan og því nauðsynlegt að finna aðferð sem fullnægir jafnræðisreglu stjórnarskrár. Sem viðbrögð við slíkum aðstæðum er rétt að benda á upphaflega stefnu Frjálslynda flokksins sem beinlínis gerði ráð fyrir afnámi kvótaúthlutunar. Þá væri nærtækast að byggja á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79 frá 1997. Þar eru nægar heimildir í 6.–9. gr. til þess að stjórna fiskveiðum og engin ástæða til að ætla að hér fari allt í forarpytt og vandræði ef ráherra á annað borð vill stjórna samkvæmt áðurnefndum lögum.
    Við í Frjálslynda flokknum teljum að vænlegt sé að nálgast það vandasama verk að búa hér til nýtt og betra fiskveiðistjórnarkerfi, sem uppfylli jafnræðisákvæði stjórnarskrár og tryggi jafnan atvinnurétt fólksins í þessu landi, eftir þeirri leiðarlýsingu sem við höfum gefið í þessari greinargerð. Það skal líka tekið fram að okkur er það kappsmál að vinna málið með öðrum stjórnmála- og hagsmunaaðilum, hafi þeir vilja til verksins. Við álítum sem sagt ekki að það sem við setjum fram sé heilagt og fáist ekki breytt í samstarfi við aðra. Öllum hlýtur hins vegar að vera orðið ljóst að núverandi braskkerfi sem grefur undan byggð í landinu og flýtir fyrir flótta fólks af landsbyggðinni er ekki leið sem við viljum byggja á, enda brýtur kvótabraskkerfið öll gildi sem Frjálslyndi flokkurinn heldur í heiðri. Við viljum að sátt ríki í landinu og að réttur fólksins sé í öndvegi.


Fylgiskjal II.


Kafli úr málefnabók Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs


um áherslur í sjávarútvegsmálum.


    Vinstri hreyfingin — grænt framboð telur brýnt að gera grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar og móta heildstæða sjávarútvegsstefnu. Í því samhengi er mikilvægt að aðgreina í umræðunni fyrirkomulagsatriði eins og leigu og sölu aflaheimilda í kvótakerfi annars vegar og hins vegar verndunaraðgerðir og fiskveiðistjórnarmarkmið byggð á áliti vísindamanna auk upplýsinga frá atvinnugreininni sjálfri. Mikilvægt er að landsmenn nái að sameinast um farsæl markmið í sjávarútvegsmálum og meginlínur sem þróun greinarinnar fylgi á komandi árum. Setja á tímamörk inn í gildistíma laga um stjórn fiskveiða og ljúka heildarendurskoðun þeirra innan tveggja ára. Meðal mikilvægustu markmiða í þessum efnum eru:
     *      Auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og einstökum byggðarlögum tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda og viðunandi öryggi.
     *      Sjávarútvegurinn aðlagi sig markmiðum sjálfbærrar þróunar og vinni markvisst að því að bæta umgengni um náttúruna og lífríkið, þ.e. einstaka nytjastofna, vistkerfi hafsbotnsins og hafsbotninn sjálfan.
     *      Sjávarútvegsstefnan treysti byggð og efli atvinnu í landinu öllu ásamt því að stuðla að aukinni fullvinnslu framleiðslunnar og þar með aukinni verðmætasköpun og hámarksafrakstri auðlindanna innanlands.
     *      Sjávarútvegsstefnan stuðli að réttlátri og jafnri skiptingu gæðanna ásamt jöfnum og góðum lífskjörum þeirra sem við greinina starfa og veita henni þjónustu. Markmiðið er að afraksturinn af nýtingu sameiginlegra auðlinda dreifist með réttlátum hætti til landsmanna allra.
     *      Sjávarútvegurinn, ekki síst fiskvinnslan, þróist og verði fær um að bjóða vel launuð og eftirsóknarverð störf og standa sig í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hvað launakjör, starfsaðstæður, vinnuumhverfi og aðra slíka þætti snertir.

    Til að ná fram markmiðum farsællar og réttlátrar sjávarútvegsstefnu telur Vinstri hreyfingin — grænt framboð að grípa þurfi m.a. til eftirfarandi aðgerða:
     1.      Efla smábáta- og bátaútgerð á nýjan leik. Láta slíka útgerð njóta aukins forgangs á grunnmiðum næst landinu og hvetja um leið til notkunar vistvænna veiðiaðferða, orkusparnaðar og umhverfisvænnar þróunar greinarinnar. Kostir þessarar útgerðar eru einnig þeir að oft er um að ræða einyrkja og fjölskyldufyrirtæki og þannig viðhelst fjölbreytni í greininni, nýliðun á sér frekar stað o.s.frv. Gera á tilraun með fyrirkomulag þar sem mönnum gefst kostur á að sanna getu sína sem dugandi veiðimenn á smábátum yfir sumartímann og öðlast þannig smátt og smátt tiltekna reynslu innan fiskveiðistjórnunarkerfisins.
             Til að ná fram slíkri þróun er nauðsynlegt að skilgreina báta- og smábátaútgerðina og þann hluta flotans sem stundar dagróðra á grunnslóðinni sem sérstakan aðskilinn hluta innan sjávarútvegsins. Til álita kemur að setja girðingar inn í kerfið sem hindra eftirleiðis að veiðiréttur færist af smábátum og meðalstórum bátum upp á stærri skip. Tímabundið kæmi til greina að um væri að ræða eins konar einstefnuloka sem þýddi að minni bátar gætu fengið til sín veiðiheimildir af stærri skipum en þær gætu ekki færst í gagnstæða átt. Samhliða þessu þarf að stokka algerlega upp veiðistjórn þessa hluta flotans og koma á einföldum samræmdum reglum.
     2.      Til að ná fram markmiðum um að sjávarútvegsstefnan styrki byggð við sjávarsíðuna hringinn í kringum landið kemur til álita að byggðatengja að einhverju leyti réttindi til veiða a.m.k. rétt til nýtingar grunnmiðanna næst landinu. Byggð við sjávarsíðuna í sveitum landsins á að treysta með því að tengja við búsetu á jörðunum tiltekinn nýtingarrétt í samræmi við sögulegar nytjar af sjávarfangi. Efling bátaútgerðar almennt, sbr. tölul. 1 og efling fiskvinnslunnar væru jafnframt liður í að treysta stöðu byggðarlaganna.
     3.      Stórauka rannsóknir á staðbundnum stofnum og deilistofnum. Eðlilegt er að nýtingarréttur staðbundinna stofna sé, þegar eða ef forsendur hafa skapast til slíkrar aðgreiningar, tengdur viðkomandi byggðarlögum eins og fordæmi eru fyrir.
     4.      Þegar í stað verði tekið á öðrum þáttum sjávarútvegsmálanna sem óréttlæti valda. Má þar einkum nefna samþjöppun veiðiheimilda og auðsöfnun einstakra aðila:
                  a.      Veiðirétturinn verði hreinn afnotaréttur, háður m.a. þeim byggðapólitísku og umhverfislegu skilyrðum og takmörkunum sem stjórnvöld kjósa að setja.
                  b.      Meðan framseljanleg veiðiréttindi eru hluti af fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar, verði söluhagnaður veiðiheimilda gerður upptækur gegnum skattkerfið.
                  c.      Leiga veiðiheimilda eða fénýting án þess að viðkomandi nýti þær sjálfur verði bönnuð, en leyfð jöfn skipti, geymsla á ónýttum rétti innan vissra marka og undanþágur veittar fyrir leigu, ef um meiri háttar frátafir er að ræða vegna bilana eða endurnýjunar skipa.
                  d.      Reglur um frádrátt frá skattgreiðslum vegna taprekstrar frá liðinni tíð verði hertar og stuðlað að eðlilegum skattgreiðslum sjávarútvegsfyrirtækja af hagnaði.
                  e.      Settar verði reglur um að heimilt verði að landa tilteknum meðafla utan kvóta samfara því að stórhert verði viðurlög við því að henda fiski. Brýna nauðsyn ber til að grípa til slíkra aðgerða til að bæta umgengni um auðlindina og fyrirbyggja að fiski sé í miklum mæli hent í sjóinn.
                  f.      Vinnsluskip verði skylduð til að koma með allan nýtanlegan úrgang að landi.
     5.      Staða fiskvinnslunnar verði treyst og stuðlað að aukinni úrvinnslu og fullvinnslu sjávarafurða með markvissum aðgerðum. Skoðaður verði aðstöðumunur landvinnslu og sjóvinnslu og hann jafnaður. Einnig verði sett sú regla að allur fiskur, sem ekki er veiddur og unninn í beinu framhaldi af sama aðila, skuli settur á markað. Verð á þeim fiski sem landað er beint í hús skal taka mið af markaðsverði. Með því móti hafa allir fiskverkendur jafnari aðgang að hráefni og kaup og kjör sjómanna taka mið af raunverulegu markaðsverði.
     6.      Teknar verði til hliðar veiðiheimildir í sérstakan viðlagasjóð til að mæta áföllum í einstökum byggðarlögum og jafna út sveiflur.
     7.      Efla þarf samvinnu vísindamanna og annarra sem koma að fiskveiðum og vinnslu þegar kemur að ákvörðunum sem varða hámarksafla einstakra fisktegunda.
     8.      Efla þarf alhliða menntun sem snýr að sjósókn og fiskvinnslu og færa þá fræðslu meira inn í skólakerfið. Fagmenntun verði viðurkennd í ráðningasamningum sem liður í að efla framleiðni og vöruvöndun og auka gæði, sem aftur leiðir til bættra kjara sjómanna og landverkafólks.