Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 592  —  339. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á barnalögum, nr. 20/1992, með síðari breytingum.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Einar Már Sigurðarson,
Gísli S. Einarsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Guðrún Ögmundsdóttir,
Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján L. Möller,
Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,
Sighvatur Björgvinsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Svanfríður Jónasdóttir,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Við 32. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Áður en forsjá barns er skipað skv. 2. mgr., samningur um forsjá skv. 33. gr. hlýtur staðfestingu sýslumanns og áður en forsjármál er tekið til úrlausnar skv. 34. gr. skulu foreldrar sækja ráðgjöf á vegum dómsmálaráðuneytisins sér að kostnaðarlausu. Tilgangur ráðgjafar er fyrst og fremst að ná sáttum milli foreldra um forsjá, umgengnisrétt og fasta búsetu barns en jafnframt að upplýsa foreldra um sameiginleg réttindi þeirra og skyldur gagnvart börnunum eftir skilnað. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, m.a. um skipulag og efni ráðgjafartíma og um viðurkenningu aðila sem annast skulu ráðgjöfina. Þeir sem annast ráðgjöf samkvæmt þessari málsgrein eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir komast að í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, venju eða eðli máls.
    Ákvæði 5. mgr. gilda þó ekki ef ógilda skal hjúskap á grundvelli 27. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, eða ef skilnaðar er krafist á grundvelli 40. gr. sömu laga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Í 42. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, er að finna ákvæði um sáttaumleitan meðal hjóna sem hafa ákveðið að leita skilnaðar. Þar kemur m.a. fram að skylt sé að leita sátta milli hjóna sem fara með forsjá ósjálfráða barns. Sáttaumleitan felst í því að kanna áframhaldandi grundvöll hjúskapar. Hins vegar er ekkert ákvæði í lögunum sem skyldar fólk til þess að sækja sérstaka skilnaðarráðgjöf áður en gengið er frá hjónaskilnaði þar sem rætt sé um skyldur foreldra gagnvart börnum eftir að skilnaður er um garð genginn, umgengnisrétt og réttindi og skyldur forsjárlauss foreldris. Þá er ekki að finna slík ákvæði um fólk í óvígðri sambúð sem er að slíta samvistum.
    Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði verði bætt við 32. gr. barnalaga, nr. 20/1992, um skyldu hjóna og sambýlisfólks til að sækja skilnaðarráðgjöf sem dómsmálaráðuneytið annist og fjármagni að öllu leyti. Ef þetta ákvæði verður sett í lög er það skilyrði fyrir staðfestingu sýslumanns á samningi um forsjá barna að fólk hafi sótt ráðgjafartíma. Þá er það einnig skilyrði fyrir úrlausn dómstóls eða dómsmálaráðuneytis. Gert er ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um skipulag skilnaðarráðgjafar í reglugerð. Slík ráðgjöf gæti t.d. falið í sér viðtöl með fagfólki, svo sem félagsráðgjöfum, sálfræðingum og lögfræðingum, þar sem fólk fengi aðstoð við að ganga frá forsjár- og umgengnismálum þannig að sátt ríkti um þá skipan og reynt væri að leysa vandamálin áður en þau koma upp. Lögð er áhersla á að ráðgjöf af þessu tagi verður að vera endurgjaldslaus og aðgengileg fyrir foreldra hvar sem er á landinu. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra viðurkenni ákveðna aðila sem fullnægi skilyrðum dómsmálaráðuneytis til að taka að sér skilnaðarráðgjöf en þar getur verið um að ræða einstaklinga, félög eða stofnanir. Ákvæðið er hugsað sem hrein viðbót við þá vinnu sem sýslumenn og dómarar sinna skv. 43. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, en telja verður vænlegra til árangurs að fólk geti sótt tíma hjá sérfræðingum til að fara yfir þessi viðkvæmu mál í ró og næði, einkum hvað varðar forsjá og umgengnisrétt, áður en komið er að því að ganga frá samningum hjá sýslumanni eða dómara. Þrátt fyrir breytingu á barnalögum hvílir áfram sú skylda á sýslumanni eða héraðsdómara að reyna að koma á samningum um skilnaðarkjör samkvæmt hjúskaparlögum.
    Í síðari efnismálsgrein 1. gr. er að finna tvær undantekningar frá skyldu til að sækja skilnaðarráðgjöf. Í fyrsta lagi er um að ræða ef hjúskap skal ógilda skv. 27. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, en þar er kveðið á um skyldu til að ógilda hjúskap ef brotið er gegn skyldleikaskilyrði 9. gr. eða tvíkvænisskilyrði 11. gr. laganna. Í öðru lagi er ekki skylt að sækja skilnaðarráðgjöf ef krafist er skilnaðar á grundvelli 40. gr. hjúskaparlaga þar sem telja verður grundvöll fyrir ráðgjöf brostinn með öllu í slíkum tilfellum. Í 40. gr. segir að ef annað hjóna hefur orðið uppvíst að líkamsárás eða kynferðisbroti er bitnar á hinu eða barni sem býr hjá þeim getur hitt krafist lögskilnaðar, enda sé verknaður framinn af ásettu ráði og valdi tjóni á líkama eða heilbrigði þess er fyrir verður. Sama máli gegnir ef maki hefur sýnt af sér atferli sem fallið er til að vekja alvarlegan ótta um að hann gerist sekur um framangreindan verknað.
    Nauðsynlegt er að tryggja rétt barna til umgengni við báða foreldra sína og velferð þeirra við skilnað foreldra. Þessi lagabreyting er ein af þeim leiðum sem stuðlað gæti að því.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að koma upp hér á landi vandaðri skilnaðarráðgjöf í tengslum við hjónaskilnaði og sambúðarslit. Hægt væri að setja sem skilyrði fyrir útgáfu skilnaðarleyfis eða staðfestingu forsjárákvörðunar að foreldrar hafi sótt t.d. einn til fimm ráðgjafartíma þar sem lögfræðingar, félagsráðgjafar eða sálfræðingar aðstoða foreldra við að ganga frá forsjár- og umgengnismálum. Um fjölda ráðgjafartíma væri hægt að kveða nánar á í reglugerð.
    Skilnaðarráðgjöf er fyrirbyggjandi úrræði sem hefur reynst vel annars staðar, m.a. í Noregi, og er talið að slíkt fyrirkomulag spari einstaklingum og samfélaginu bæði orku, tíma og fjármuni. Í niðurstöðum skýrslu félagsmálaráðuneytis um rannsókn á högum barnafjölskyldna kom fram að brýn þörf væri á endurgjaldslausri ráðgjöf fyrir fólk í skilnaðarhugleiðingum. Í umsögn Félags einstæðra foreldra um þingsályktun um bætta réttarstöðu barna til umgengni við báða foreldra sína, 173. mál á 122. löggjafarþingi, kemur fram að eitt viðtal við báða foreldra geti verið árangursríkt í því skyni að eyða spennu milli þeirra. Þar kemur einnig fram að deilur foreldra snúast oftar um óuppgerðar tilfinningar en velferð barnanna. Í þessum málum er brýnt að réttur barnsins verði ávallt í fyrirrúmi.