Ferill 359. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 613  —  359. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (vitnavernd, barnaklám o.fl.) .

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Á eftir orðinu „kjörbörn“ í 3. mgr. 25. gr. laganna kemur: barnabörn.

2. gr.

    50. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 42/1985, fellur brott.

3. gr.

    Við 1. mgr. 70. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
    9. Hvort hann hefur upplýst um aðild annarra að brotinu.

4. gr.

    Við 81. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fyrningarfrestur vegna refsiábyrgðar lögaðila er 5 ár.

5. gr.

    108. gr. laganna orðast svo:
    Hver sem beitir annan mann eða nána vandamenn hans eða aðra honum tengda líkamlegu ofbeldi, nauðung skv. 225. gr. eða hótun skv. 233. gr. vegna skýrslugjafar hans hjá lögreglu eða fyrir dómi skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Ef brot er smávægilegt eða sérstakar málsbætur eru fyrir hendi má beita sektum.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 210. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt getur refsing þó orðið fangelsi allt að 2 árum.
     b.      4. mgr., sbr. 1. gr. laga nr. 126/1996, orðast svo:
                  Hver sem flytur inn eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum. Sömu refsingu varðar að flytja inn eða hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á klámfenginn hátt.

7. gr.

    2. mgr. 256. gr. laganna, sbr. 11. gr. laga nr. 42/1985, fellur brott.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Frumvarp þetta er samið á vegum refsiréttarnefndar að tilhlutan dómsmálaráðherra. Með því eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði fram í lögunum að við ákvörðun refsingar hafi áhrif hvort sakborningur hefur upplýst um aðild annarra að brotinu. Einnig er lagt til að bætt verði við lögin sérstöku ákvæði um refsinæmi brota sem beinast að vitnum. Þessar tillögur eru reistar á skýrslu nefndar sem dómsmálaráðherra skipaði til að fjalla um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu, en nefndin skilaði ráðherra skýrslu sinni í apríl 1999. Enn fremur er með frumvarpinu lagt til að sektarhámark í hegningarlögum verði afnumið, en nánar verður gerð grein fyrir þeirri tillögu hér á eftir. Þá eru lagðar til ýmsar minni háttar breytingar á lögunum, svo sem nánar verður rakið í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

II.


    Í 50. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sagði upphaflega að ekki mætti gera manni á hendur lægri sekt en 4 krónur og eigi hærri en 30.000 krónur, nema sérstök lagaheimild væri fyrir því að ákveða sekt hærri eða lægri. Þetta ákvæði fól í sér almennt sektarlágmark og sektarhámark og átti ekki aðeins við um brot gegn almennum hegningarlögum heldur einnig brot gegn öðrum lögum sem ekki höfðu að geyma sérstök ákvæði um lágmark eða hámark sektar. Með 5. gr. laga nr. 101/1976 var almennt sektarlágmark afnumið en sektarhámark hækkað í 5 milljónir króna nema heimild væri í lögum til að beita hærri sektum. Sektarhámark laganna var aftur hækkað með 1. gr. laga nr. 34/1980 í 30 milljónir króna. Næst var sektarhámarki laganna breytt í eina milljón króna með 1. gr. laga nr. 75/1982, en þá hafði verðgildi krónunnar hundraðfaldast í upphafi árs 1981. Loks var sektarhámarkið hækkað með 7. gr. laga nr. 42/1985 í 4 milljónir króna og hefur verið óbreytt síðan. Þær breytingar á sektarhámarki laganna, sem hér hafa verið raktar, hafa allar miðað að því að hækka fjárhæðina með hliðsjón af þróun verðlags á hverjum tíma.
    Þegar þáverandi dómsmálaráðherra, Ólafur Jóhannesson, mælti fyrir frumvarpi, sem síðar varð að lögum nr. 101/1976, vék hann sérstaklega að sektarhámarki og mælti svo: „Það, sem leikmanni getur dottið í hug í þessu sambandi, er hvort það sé nauðsynlegt að ákveða hámark sektar í lögum, hvort það sé ekki hægt að láta það vera algjörlega á valdi dómstóla, þannig að þeir geti metið hæfilega sekt hverju sinni eftir því sem þeir telja við eiga. Frá því sjónarmiði hefði getað komið til greina að fella niður sektarhámarkið eins og sektarlágmarkið. Þetta mun hins vegar stangast á „teoríu“ refsiréttarfræðinga sem telja að það verði að vera tiltekið í lögum hámark fyrir þeirri refsingu sem dæma má. Ekki vil ég vefengja að það sé rétt, þó að mér sýnist að hitt gæti út af fyrir sig komið til greina, að fela dómstólum vald til þess að dæma þær sektir sem þeir teldu við eiga í hverju falli, án þess að þetta væri bundið við ákveðið hámark eða lágmark. ... Og sannleikurinn er sá að sum þeirra brota, sem framin eru í dag og varða fjárhagsmisferli, geta leikið á svo háum fjárhæðum að það gæti hugsanlega komið fyrir tilfelli þar sem ekki þætti óeðlilegt að hægt væri að dæma hærri sekt en þetta.“ (Sjá Alþt. 1975–76, B-deild, d. 2286–2287. Sjá einnig Alþt. 1976–77, B-deild, d. 55, en þá mælti ráðherra á sömu lund þegar frumvarpið var flutt á ný á næsta þingi.)
    Í ritum íslenskra færðimanna á sviði refsiréttar hefur því ekki verið haldið fram að nauðsynlegt sé að lögbinda sektarhámark. Einnig bendir til hins gagnstæða sú afstaða löggjafanns sem ráðin verður af ýmsum refsiákvæðum skattalaga. Þar er gjarnan hafður sá háttur að sekt skuli ákveðin sem tiltekið margfeldi fjárhæðar án þess að sú fjárhæð sé bundin við tiltekið hámark. Ákvæði af þessu tagi fela því ekki í sér neitt ákveðið sektarhámark. Hér má nefna 1. mgr. 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en þar segir að ef skattskyldur maður, sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn eða eignarskatt, skuli hann greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Hliðstæð refsiákvæði eru einnig í 18. gr. laga um fjáröflun til vegagerðar, 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, 126. gr. tollalaga og 40. og 41. gr. laga um virðisaukaskatt. Enn fremur má geta þess að með dönsku hegningarlögunum frá árinu 1930 var sektarhámark afnumið og verður ekki séð að sú tilhögun hafi þar verið dregin í efa. Dönsku hegningarlögin voru í öllum meginatriðum fyrirmynd almennra hegningarlaga frá 1940. Við setningu þeirra var hins vegar ekki vikið sérstaklega að ástæðum þess að þeim var hagað á annan veg að þessu leyti. Þannig var hvorki rætt hvort nauðsynlegt væri að lögbinda sektarhámark né hvort einhver rök mæltu gegn afnámi þess. Þá var sektarhámark og sektarlágmark afnumið úr norskum hegningarlögum árið 1946.
    Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið nauðsynlegt að almenn hegningarlög hafi að geyma ákvæði um sektarhámark. Virðast einnig haldbær rök mæla með afnámi þess og má í þeim efnum nefna að dómstólum er fyllilega treystandi til að meta sektarrefsingu án þess að lög hafi að geyma sektarhámark. Einnig er augljóst hagræði af því að þurfa ekki með reglulegu millibili að endurskoða sektarhámark laga í ljósi þróunar verðlags á hverjum tíma. Þá verður ekki séð að það geti dregið úr varnaðaráhrifum refsingar að almennt sektarhámark verði afnumið og má í raun halda hinu gagnstæða fram vegna alvarlegra brota, þar sem dómstólar munu geta ákvarðað sektir óbundnir af fyrir fram gefnu sektarhámarki. Þetta á ekki síst við um umfangsmikil efnahagsbrot og mál þar sem lögaðilum verður gerð fésekt, en gildandi sektarhámark er öldungis ófullnægjandi í slíkum tilvikum. Þyrfti sektarhámark laganna að hækka umtalsvert svo ætla mætti að refsing gæti haft tilætluð varnaðaráhrif og þá virðist sú niðurstaða nærtakari að afnema sektarhámarkið með öllu.
    Að öllu þessu virtu er með frumvarpinu lagt til að almennt sektarhámark almennra hegningarlaga verði afnumið. Þrátt fyrir það er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi þau áhrif að sektir verði almennt ákvarðaðar hærri en til þessa nema í þeim tilvikum þar sem dómstólar telja viðeigandi sekt þurfa að vera hærri en nemur sektarhámarki gildandi laga. Ekki er ástæða til að ætla annað en að slík tilvik verði fágæt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga hafa eiginmaður eða eiginkona látins manns, foreldrar, börn, kjörbörn og systkin hans rétt til að höfða mál eða bera fram kröfu um opinbera málshöfðun ef misgert var við þann látna eða ef verknaður, sem beinist að dánum manni, er refsiverður. Þetta ákvæði hefur staðið óbreytt í hegningarlögum frá árinu 1940. Þegar litið verður til þjóðfélagsbreytinga sem orðið hafa frá þeim tíma þykir rétt að auka þessa vernd og heimila einnig barnabörnum að höfða mál ef misgert var við þann sem látinn er eða ef refsiverður verknaður beinist að dánum manni.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að almennt sektarhámark í 50. gr. almennra hegningarlaga verði afnumið. Um þá tillögu vísast til almennra athugasemda greinargerðarinnar.

Um 3. gr.


    Í 70. gr. almennra hegningarlaga eru taldar upp svokallaðar refsiákvörðunarástæður sem ýmist leiða til málsbóta eða refsiþyngingar innan refsimarka laga. Ákvæðið hefur ekki að geyma tæmandi upptalningu á atriðum sem hafa áhrif á refsiákvörðun og getur málsbætur eða þyngingarástæður einnig leitt af öðrum lagareglum eða verið ólögmæltar.
    Samkvæmt 8. tölul. 1. mgr. 70. gr. getur framferði geranda eftir að hann hefur unnið verkið haft áhrif við ákvörðun refsingar. Einnig er heimilt að færa refsingu niður úr því lágmarki sem við broti er ákveðið ef maður segir af sjálfsdáðum til brots síns og skýrir hreinskilnislega frá öllum atvikum að því, sbr. 9. tölul. 74. gr. Eftir þessum ákvæðum væri unnt að virða til málsbóta eða refsilækkunar ef gerandi hefur veitt upplýsingar um aðild annarra að broti. Þó þykir rétt að tilgreina þetta beinlínis sem refsiákvörðunarástæðu í lögunum eins og hér er lagt til þar sem gera má ráð fyrir að það geti verið mönnum hvatning til að upplýsa brot. Það skal áréttað sérstaklega að fyrir fram verður ekki samið um refsiívilnun og dómstólar meta vitanlega hvaða áhrif upplýsingar um aðild annarra að broti hafa á ákvörðun refsingar.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 1. tölul. 81. gr. almennra hegningarlaga fyrnist sök skemmst á tveimur árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en eins árs fangelsi eða refsing sú sem til er unnið fer ekki fram úr sektum. Þessi fyrningarfrestur á við um lögaðila, enda verður þeim ekki gert að sæta annarri refsingu en fésekt, sbr. 19. gr. a almennra hegningarlaga. Ekki þykir rétt að sami fyrningarfrestur sakar eigi við um lögaðila og gildir um persónubundna refsiábyrgð þegar vægust refsing liggur við broti. Brot í starfsemi lögaðila geta verið umfangsmikil og alvarleg og hætt er við að reynt sé að dylja slíka brotastarfsemi. Með hliðsjón af þessu er lagt til að sakarfyrningarfrestur vegna lögaðila verði fimm ár.

Um 5. gr.


    Í greininni er lagt til að bætt verði við lögin sérstöku ákvæði um refsinæmi tiltekinna brota sem rakin verða til skýrslugjafar vitnis og að þar verði refsimörk nokkuð hærri en á við um flest þau brot sem ákvæðið tekur til. Að baki þessu búa þau sjónarmið að slík brot beinast ekki eingöngu að eiginlegum brotaþola heldur einnig þeim almannahagsmunum sem felast í réttarvörslunni sem slíkri. Þetta er einnig liður í aðgerðum til að efla vitnavernd og eru hér höfð til hliðsjónar tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R(97) 13 frá 10. september 1997, um ógnanir gagnvart vitnum.
    Þau brot sem ákvæðið tekur til eru líkamsárás, nauðung skv. 225. gr. og hótun skv. 233. gr. Ákvæðið á ekki einvörðungu við þegar þessi brot beinast að vitninu sjálfu heldur einnig þegar brot beinist að vandamönnum þess eða öðrum sem standa í slíkum tengslum við vitnið að brot gegn þeim verði rakið til skýrslugjafar vitnisins. Verknaður er refsiverður hvort sem brot er framið áður en vitni gefur skýrslu til að hafa áhrif á framburð þess eða í hefndarskyni eftir skýrslugjöf vitnis.

Um 6. gr.


     Um a-lið.
    Samkvæmt 2. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga varðar það sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt. Þetta ákvæði á jafnt við um barnaklám og klámefni sem sýnir fullorðna þátttakendur. Rétt þykir að leggja þyngri refsingu við þessum brotum þegar klámefni beinist að börnum. Með því er reynt að veita börnum frekari vernd gegn þeirri misnotkun sem felst í framleiðslu og dreifingu barnakláms.
     Um b-lið.
    Í 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga er lögð refsing við því að hafa í vörslu sinni barnaklám. Lagt er til að refsivernd gegn barnaklámi verði aukin þannig að innflutningur verði einnig refsiverður án þess að klámefni hafi komist í vörslu viðkomandi. Í framkvæmd þekkjast þess dæmi að barnaklám hafi fundist í flutningi áður en það er afhent viðtakanda og hefur ekki verið talið unnt að sækja menn til sakar í slíkum tilvikum.

Um 7. gr.


    Samkvæmt 2. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga skal ekki höfða opinbert mál ef tjón af auðgunarbroti nemur ekki hærri fjárhæð en 7.000 krónum og engin sérstök atvik auka saknæmi brots og sökunautur hefur ekki áður reynst sekur um slíkt brot. Dómstólar eiga endanlegt mat um hvort fullnægt sé þessum skilyrðum málshöfðunar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 31. október 1996 í máli nr. 394/1996 (Hrd. 1996/3214).
    Þegar tjón af auðgunarbroti nemur lægri fjárhæð en 7.000 krónum verður mál ekki höfðað nema við eigi þau atriði sem eru tilgreind í 2. mgr. 256. gr. Af sömu ástæðu verður máli almennt ekki lokið með lögreglustjórasátt eftir 115. gr. laga um meðferð opinberra mála eða ákæru frestað skv. 56. gr. almennra hegningarlaga. Af þessu leiðir ósamræmi við afgreiðslu smærri brota eftir því hvort um er að ræða auðgunarbrot eða önnur brot, þar sem unnt er að höfða mál eða ljúka því á annan veg eftir almennum reglum. Með hliðsjón af þessu er lagt til að fellt verði niður skilyrði um lágmarkstjón til að mál verði höfðað vegna auðgunarbrots. Þetta er ekki varhugavert í ljósi almennrar heimildar í a- og f-liðum 2. mgr. 113. gr. laga um meðferð opinberra mála til að falla frá saksókn ef brot er mjög smávægilegt eða ef sérstaklega stendur á og telja verður að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á almennum
hegningarlögum, nr. 19/1940 (vitnavernd o.fl.).

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á almennum hegningarlögum af mismunandi toga, m.a. breytingar sem snúa að hámarki sektarákvarðana og vitnavernd. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.