Ferill 368. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 624  —  368. mál.
Tillaga til þingsályktunarum að smásala á tóbaki verði háð leyfisveitingu.

Flm.: Þuríður Backman, Bryndís Hlöðversdóttir, Einar K. Guðfinnsson,


Jón Kristjánsson, Margrét K. Sverrisdóttir.


    Alþingi ályktar að í heilbrigðisreglugerð verði ákvæði um sérstakt skilyrt leyfi til að selja tóbak.

Greinargerð.


    Skaðsemi tóbaks er óumdeild. Þrátt fyrir að nokkuð hafi dregið úr tóbaksnotkun á undanförnum áratugum, ekki síst vegna mikils og markviss áróðurs, eru reykingar engu síður algengar eins og fram hefur komið í fjölda kannana. Kannanir hafa einnig sýnt að reykingar barna og unglinga færast í aukana og færast neðar í aldurshópa, einkum hjá ungum stúlkum.
    Samkvæmt nýjum upplýsingum Tóbaksvarnanefndar má ætla að íslenskir grunnskólanemendur hafi varið liðlega 110 millj. kr. til tóbakskaupa árið 1999. Öll sú tóbakssala er ólögleg, enda er bannað samkvæmt lögum nr. 74/1984, sbr. 8. gr. laga nr. 101/1996, að selja fólki undir 18 ára aldri tóbak. Af þessum 110 millj. kr. má ætla að nemendur í 8. bekk, 13 ára, hafi keypt sígarettur fyrir rúmlega 12 millj. kr. Því yngri sem unglingar byrja að reykja, þeim mun háðari verða þeir tóbaki og því líklegra er að þeir reyki sem fullorðnir. Því yngri sem einstaklingur er þegar hann byrjar að reykja, þeim mun líklegra er einnig að hann hljóti af alvarlegan heilsufarslegan skaða. Yfir 80% allra reykingamanna byrja að reykja áður en þeir ná 18 ára aldri.
    Þá er þess einnig að geta að talin er sterk fylgni milli tóbaksreykinga ungmenna og hættu á að þeir leiðist út í neyslu annarra og enn hættulegri vímuefna. Því hefur verið haldið fram að takist að koma í veg fyrir að unglingar reyki eða neyti áfengis eru nánast engar líkur til þess að þau ánetjist sterkari fíkniefnum. Samkvæmt ársskýrslu frá SÁÁ reykja yfir 95% þeirra sem leita sér aðstoðar vegna áfengisvandamála og er næsta fátítt að sá sem verður eiturlyfjum að bráð reyki ekki. Því er ljóst að mikils er um vert að allra leiða sé leitað til þess að draga úr reykingum almennt og þó sérstaklega reykingum barna og unglinga.
    Í upplýsingum frá Tóbaksvarnanefnd, sem birtar voru í janúar árið 2000, kemur fram að u.þ.b. 26,6% Íslendinga á aldrinum 18–69 ára reyki daglega, en það er um fjórðungur Íslendinga á þessum aldri. Notkun vindlinga er langalgengust, eða 74,6% í hópi þeirra karla sem reykja og 96,6% í hópi kvenna sem reykja.
    Af því sem hér hefur verið rakið má ráða að með því að draga úr möguleikum — einkum unglinga — til að nálgast tóbak væri stórt skref stigið í þá átt að draga úr reykingum barna og unglinga. Af könnunum sem gerðar hafa verið m.a. í Reykjavík og nágrenni má ráða að í u.þ.b. 70% tilvika geti unglingar undir 18 ára aldri keypt sígarettur í verslunun og söluturnum. Víða vantar því mikið á að verslanir sem selja tóbak framfylgi lagaákvæðum um bann við sölu þess til þeirra sem eru yngri en 18 ára. Leiða má líkur að því að ef sölustöðum tóbaks fækkaði yrði mikilvægt skref stigið til þess að draga úr reykingum unglinga. Samhliða leyfisskyldu á smásölu tóbaks þyrfti að auka eftirlit til muna, en það er tæplega nokkurt eins og málum er háttað nú.
    Í skoðanakönnun sem Hagvangur gerði fyrir Tóbaksvarnanefnd árið 1999 kom fram að meiri hluti fólks (56%) er mjög hlynntur eða frekar hlynntur því að fækka sölustöðum tóbaks. Athyglisvert er að sjá að rúmlega 43% þeirra sem reykja daglega eru hlynntir því að sölustöðum verði fækkað.
    Þingsályktunartillögur um sama efni og hér er fjallað um hafa verið fluttar á undanförnum þingum. Þær hafa ekki hlotið brautargengi þrátt fyrir að augsýnilega sé þörf róttækra úrræða til að stula að því að lagaákvæðum um sölu tóbaks verði framfylgt.
    Hér er farin sú leið að leggja til að í heilbrigðisreglugerð, sem nú er unnið að, verði sett ákvæði um að til þess að selja tóbak þurfi sérstakt leyfi. Lagt er til að leyfi til tóbakssölu verði tímabundið, t.d. til þriggja ára í senn, en skilgreind ákveðin viðurlög ef um brot á reglunum er að ræða. Þá sé einnig skýrt að leyfi til tóbakssölu verði ekki endurnýjað ef sannað er að brotið hafi verið verulega eða ítrekað gegn lagaákvæðum um sölu tóbaks.