Ferill 371. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 627  —  371. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, nr. 62/1997 .

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Við 6. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður er verður 2. málsl. og orðast svo: Þá skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi fasteignaskatt sem skal vera 0,75% af 826.444 þús. kr., sem er áætlað verðmæti bygginga sem þarf til aukinnar álframleiðslu um 30 þús. lestir, miðað við byggingarvísitölu 1. desember 1999 (236,6 stig).
     b.      Við 6. tölul. 1. mgr. bætist nýr lokamálsliður sem orðast svo: Fasteignaskattur skv. 2. málsl. skal lagður á í fyrsta sinn 1. janúar næsta ár eftir að framleiðslugetan er komin í 90 þús. lesta álframleiðslu á ári.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 62/1997 var iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um álver á Grundartanga. Í 2. gr. laganna segir að álverið skuli í upphafi hannað til framleiðslu á um það bil 60.000 tonnum af áli á ári með möguleikum á aukinni framleiðslugetu. Nýverið tók Norðurál hf. ákvörðun um að stækka álverið úr 60.000 í 90.000 lestir.
    Í tengslum við ákvörðun um stækkun hóf félagið viðræður við stjórnvöld, sveitarstjórnir Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps o.fl. um nauðsynlegar breytingar á núgildandi samningum.
    Þann 29. október sl. undirrituðu Norðurál hf. og Landsvirkjun orkusölusamning vegna stækkunarinnar. Viðræður standa yfir milli ríkisstjórnar Íslands, Columbia Ventures Corporation og Norðuráls hf. um fyrsta viðauka við fjárfestingarsamning aðilanna vegna stækkunarinnar. Þá standa yfir viðræður um breytingar á samkomulagi Hvalfjarðarstrandarhrepps, Skilmannahrepps og íslenska ríkisins um stofnun og rekstur álvers á Grundartanga. Í samkomulaginu verður m.a. kveðið á um greiðslu byggingarleyfisgjalds, gatnagerðargjalds og fasteignaskatts. Samhljóða ákvæði er að finna í fjárfestingarsamningnum. Þessi samningsákvæði byggjast á heimild í 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. núgildandi heimildarlaga, þar sem kveðið er á um sérstakt fyrirkomulag á greiðslu fasteignaskatts vegna 60.000 lesta álframleiðslu á ári.
    Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við lagatextann heimild til ákvörðunar fasteignaskatts vegna stækkunar mannvirkja í tengslum við aukningu á framleiðslugetu úr 60.000 í 90.000 lestir. Ekki er nauðsynlegt að breyta öðrum ákvæðum laganna. Fyrir liggur samkomulag sveitarstjórna og Norðuráls hf. um fasteignaskatt.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997,
um álbræðslu á Grundartanga.

    Í frumvarpinu er lagt til að Hvalfjarðarstrandarhreppur og Skilmannahreppur skuli fá hærri fasteignaskatt samfara stækkun álversins úr 60.000 í 90.000 lestir.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér
fyrir ríkissjóð.