Ferill 388. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 646  —  388. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 1999.

1. Inngangur.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna þriggja, sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Markmið ráðsins eru að starfa saman að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda, auka samstarfið á vettvangi norrænnar samvinnu og vera þingræðislegur tengiliður milli samvinnuaðila í þessum löndum og annarra fjölþjóðlegra hagsmunahópa og ríkjasamtaka. Vestnorræna ráðið hefur í gegnum tíðina ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis- og auðlindamál, aukið menningarsamstarf landanna og skóla- og íþróttasamvinnu, svo að fátt eitt sé nefnt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar sem fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð þingmanni frá hverju aðildarríki, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna, með virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samstarfi við aðra aðila innan vestnorræns samstarfs, samvinnu við norðurheimsskautsstofnanir og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

2. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í byrjun árs 1999 sátu eftirtaldir þingmenn í Vestnorræna ráðinu: Ísólfur Gylfi Pálmason formaður, þingflokki framsóknarmanna, Ásta R. Jóhannesdóttir varaformaður, þingflokki jafnaðarmanna, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Johnsen, þingflokki sjálfstæðismanna, Guðný Guðbjörnsdóttir, þingflokki Kvennalista, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingarinnar, Ólafur G. Einarsson, þingflokki sjálfstæðismanna, og Svavar Gestsson, þingflokki Alþýðubandalagsins, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingarinnar til 6. mars 1999 er hann lét af þingmennsku. Varamenn voru Svanfríður Jónasdóttir, þingflokki jafnaðarmanna, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingarinnar, Stefán Guðmundsson, þingflokki framsóknarmanna, Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki framsóknarmanna, og Kristín Ástgeirsdóttir, þingflokki óháðra.
    Ný Íslandsdeild var kjörin til setu 16. júní og hana skipa eftirtaldir þingmenn: Árni Johnsen formaður, þingflokki sjálfstæðismanna, Hjálmar Árnason varaformaður, þingflokki framsóknarmanna, Gísli S. Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Svanfríður Jónasdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki sjálfstæðismanna. Varamenn eru Einar K. Guðfinnsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Gunnar Birgisson, þingflokki sjálfstæðismanna, Ólafur Örn Haraldsson, þingflokki framsóknarmanna, Guðjón A. Kristjánsson, þingflokki frjálslyndra, og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki sjálfstæðismanna. Ritari Íslandsdeildarinnar var til 1. september Auðunn Atlason. Gústaf Adolf Skúlason var ritari frá þeim tíma til 1. desember er Jóhanna Helga Halldórsdóttir tók við starfinu.

3. Störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt fjóra fundi á árinu. Þar var m.a. fjallað um dagskrá ársfundarins sem fram fór á Brjánsstöðum á Skeiðum 9.–12. ágúst, undirbúning kvennaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Færeyjum 4.–7. júní, lífsgildakönnun sem Vestnorræna ráðið fól Félagsvísindastofnun HÍ að gera í aðildarlöndunum, kynningarbækling Vestnorræna ráðsins sem kom út í mars og heimasíðu ráðsins sem opnuð var í apríl.
    Þá ræddi Íslandsdeildin möguleika á að tengja starf ráðsins betur vestnorrænu samstarfi framkvæmdarvaldsins. Það mál var einnig til umræðu á fundi ritara með framkvæmdastjóra ráðsins og tveimur starfsmönnum frá Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins, Snjólaugu Ólafsdóttur og Ingibjörgu Jónsdóttur, og Skarphéðni Steinarssyni, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, þann 12. mars. Tengsl Vestnorræna ráðsins og framkvæmdarvaldsins var svo enn rætt á fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 18. mars, en í tengslum við hann heimsótti nefndin Norðurlandaráð og norrænu ráðherranefndina og sat kynningarfund um starfsemi þeirra.
    Formaður Íslandsdeildar átti fund með Gunn Helsvik, forseta Norðurlandaráðs, í tilefni heimsóknar hennar hingað til lands í lok mars. Formaðurinn sótti einnig aðalfund samtakanna Northern Forum sem haldinn var Rovaniemi í Finnlandi 1.–2. júní. Í tengslum við fund forsætisnefndar 9. nóvember fundaði nefndin með vestnorrænum samstarfsráðherrum Norðurlanda sem og menntamálaráðherrum landanna. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins styrkti „ráðstefnu um vestnorræn þjóðfélög á tímum hraðfara breytinga“ sem Háskólinn á Akureyri og stofnun Vilhjálms Stefánssonar stóðu að á Akureyri 7.–8. október. Svanfríður Jónasdóttir sótti ráðstefnuna fyrir hönd Íslandsdeildarinnar. Ritari deildarinnar sótti einnig ráðstefnu á vegum norrænu ráðherranefndarinnar um samvinnu á Norður-Atlantshafi sem haldin var í Norræna húsinu í Reykjavík 6.–7. desember.

4. 15. ársfundur Vestnorræna ráðsins 1999.
    Dagana 9.–12. ágúst var haldinn á Brjánsstöðum á Skeiðum 15. ársfundur ráðsins. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar eftirtaldir þingmenn: Árni Johnsen, Hjálmar Árnason, Svanfríður Jónasdóttir, Gísli S. Einarsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Pétur H. Blöndal. Alls sóttu fimmtán vestnorrænir þingmenn frá aðildarlöndunum ársfundinn.
    Árni Johnsen flutti skýrslu formanns. Í máli sínu rakti hann störf ráðsins árið 1998 og gerði grein fyrir helstu verkefnum þess. Aðrir sem ávörpuðu ársfundinn voru Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, Svein Ludvigsen, varaforseti norska Stórþingsins og fulltrúi Norðurlandaráðs, Þórunn Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Reykjavíkur – menningarborgar Evrópu árið 2000, og Karítas Gunnarsdóttir frá menntamálaráðuneytinu. Umræður voru líflegar og snerust einkum um stöðu vestnorrænnar samvinnu á vettvangi Norðurlandaráðs, um fiskveiðimál og byggðaþróun, og einnig um vestnorræna menningarárið 2000. Þá ávarpaði nýkjörinn formaður ráðsins, Jógvan Durhuus, fundinn. Jafnframt voru lagðar fram niðurstöður úr lífsgildakönnun sem Vestnorræna ráðið lét gera.
    Þá var samþykktur fjöldi tillagna um jafnréttis- og menntamál á ársfundinum . Þar skorar Vestnorræna ráðið á ríkis- og landsstjórnir að beita sér fyrir aðgerðum til að auka hlut kvenna í stjórnmálum, styrkja kvennarannsóknir og rannsóknir um jafnréttismál á Vestur-Norðurlöndum, vinna að og útfæra löggjöf um fæðingarorlof, beita sér gegn ofbeldi gagnvart konum og til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði. Enn fremur samþykkti ráðið að skora á þjóðþingin þrjú að halda ráðstefnu vestnorrænna þingkvenna með þátttöku fleiri sem vinna að jafnréttismálum. Ráðstefnuna skuli halda annað hvert ár til skiptis í löndunum þremur. Þá samþykkti ráðið ályktun þess efnis að menntamálaráðherrar aðildarlandanna setji á fót vinnuhóp sem á að koma með tillögur til að bæta aðgengi grænlenskra, íslenskra og færeyskra stúdenta að háskólamenntun á Vestur-Norðurlöndum.
    Í tilefni þess að árið 2000 er vestnorrænt menningarár samþykkti ráðið að stofna til vestnorrænna barnabókaverðlauna sem stefnt er að því að veita í fyrsta sinn á þessu ári. Eins ákvað ráðið að halda ráðstefnu um menningarmál og fer hún fram á Grænlandi í sumar í tengslum við vígslu Þjóðhildarkirkju og bæjar Eiríks rauða í Brattahlíð. Ársfundurinn ákvað einnig að starfsárið 2001 hjá Vestnorræna ráðinu yrði helgað veiðum og veiðiskap. Í því samhengi hyggst ráðið standa fyrir ráðstefnu um veiðar í löndunum þar sem m.a. verða ræddir möguleikar á því að koma á fót vestnorrænni fiskveiðirannsóknarstöð og samvinnu í menntun sjómanna. Einnig er vonast til þess að haldin verði sameiginleg sýning um veiðimenningu í löndunum þremur.
    Á fundinum var kosin ný forsætisnefnd ráðsins en hana skipa Jógvan Durhuus þingmaður frá Færeyjum, formaður ráðsins, Johan Lund Olsen, forseti grænlenska þingsins, fyrsti varaformaður, og Árni Johnsen alþingismaður sem er annar varaformaður.
    Fjárhagsáætlun fyrir árið 2000 var samþykkt. Hún hljóðar upp á 800 þús. danskar krónur, þar af greiða Íslendingar 400 þús., Færeyingar 200 þús. og Grænlendingar 200 þús. danskar krónur.

5. Kvennaráðstefna Vestnorræna ráðsins.
    Kvennaráðstefna Vestnorræna ráðsins var haldin í Færeyjum 4.–7. júní. Færeyska deildin skipulagði ráðstefnuna í samráði við Kvenréttindafélag Íslands, Kvenfélag Færeyja og jafnréttisráð Grænlands. Meginviðfangsefni ráðstefnunar voru fjölskyldumál, atvinnumál, ofbeldi gegn konum, jafnréttismál, þátttaka kvenna í stjórnmálum og upplýsingaflæði um kvennarannsóknir (Kvinfo). Þessi málefni voru rædd í sex vinnuhópum. Markmiðið með ráðstefnunni var annars vegar að styrkja vestnorræna samvinnu og hins vegar að nota niðurstöður ráðstefnunnar við tillögugerð fyrir ársfund Vestnorræna ráðsins. Um 50 menn og konur sátu ráðstefnuna, auk þorra þingmanna Vestnorræna ráðsins og embættismanna.
    Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru Svanfríður Jónasdóttir alþingismaður, Marita Petersen, fyrrverandi lögmaður Færeyja, Brynhildur Flóvenz frá Jafnréttisráði og Margrét Gunnarsdóttir, deildarsérfræðingur hjá Vinnumálastofnun.

6. Önnur verkefni Vestnorræna ráðsins 1999.
    Nú er verið að undirbúa menningarráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Qaqartorq á Grænlandi 13.–15. júlí nk. og vígslu Þjóðhildarkirkju og bæjar Eiríks rauða í Brattahlíð 15.–17. júlí. Tilefni bygginganna er að 1000 ár eru liðin frá því að Leifur heppni sigldi frá Brattahlíð og uppgötvaði Ameríku og rúm 1000 ár eru liðin frá byggingu Þjóðhildarkirkju, fyrstu kristnu kirkju í Ameríku. Byggingarnar eru samstarfsverkefni grænlensku landsstjórnarinnar og Vestnorræna ráðsins og er Árni Johnsen formaður Brattahlíðarnefndar sem hefur veg og vanda af undirbúningnum. Byggingarnar voru smíðaðar af Ístaki hf. hér á landi og síðan fluttar til Grænlands. Brattahlíðarverkefnið er án efa stærsta verkefnið sem Vestnorræna ráðið hefur tekið þátt í.
    Skýrsla um svokallaða lífsgildakönnun Vestnorræna ráðsins mun verða birt á fyrstu mánuðum ársins 2000.

Alþingi, 10. febr. 2000.



Árni Johnsen,


form.


Hjálmar Árnason,


varaform.


Gísli S. Einarsson.



Guðmundur Hallvarðsson.


Svanfríður Jónasdóttir.


Einar Oddur Kristjánsson.



Fylgiskjal.

Ályktanir og ákvarðanir um innri málefni


sem Vestnorræna ráðið samþykkti 1999.


(Brjánsstöðum á Skeiðum, 9.–12. ágúst 1999.)



     1.      Ályktun um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum í Færeyjum og á Grænlandi.
     2.      Ályktun um ráðstefnu vestnorrænna þingkvenna.
     3.      Ályktun um kvennarannsóknir.
     4.      Ályktun um vestnorræna verkefnaáætlun um jafnrétti kynjanna.
     5.      Ályktun um aðgerðir til að stöðva ofbeldi gegn konum.
     6.      Ályktun um stöðu kvenna á vinnumarkaði.
     7.      Ályktun um löggjöf um fæðingarorlof.
     8.      Ályktun um aðgengi að háskólamenntun á Vestur-Norðurlöndum.
     9.      Ákveðið að stofna til vestnorrænna bókmenntaverðlauna fyrir barna- og unglingabækur.
     10.      Ákveðið að árið 2001 verði helgað veiðum og veiðiskap.