Ferill 396. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 654  —  396. mál.



                  

Frumvarp til laga



um breytingu á barnalögum, nr. 20/1992, með síðari breytingum.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Einar Már Sigurðarson,


Gísli S. Einarsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Guðrún Ögmundsdóttir,
Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján L. Möller,
Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,
Sighvatur Björgvinsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Svanfríður Jónasdóttir,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Össur Skarphéðinsson.

1. gr.

    Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sýslumanni er skylt að skipa barni talsmann meðan ágreiningsmál um umgengni þess við forsjárlaust foreldri eða nána vandamenn, sbr. 5. mgr., er til meðferðar hjá sýslumanni. Einnig er sýslumanni skylt að skipa barni talsmann ef foreldri sinnir ekki umgengnisskyldu við barn sitt og ósk þar að lútandi kemur fram. Þóknun talsmanns skal greiðast úr ríkissjóði. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um þóknun talsmanns.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að tryggja betur rétt barns eða barna til umgengni við báða foreldra sína. Til þess að tryggja hagsmuni barnsins sem best er mikilvægt að barni sé skipaður talsmaður um leið og ágreiningur verður um umgengni. Talsmaður getur þá verið milligöngumaður annars vegar á milli foreldranna og hins vegar milli foreldra og barns. Hlutverk hans yrði fyrst og fremst að gæta hagsmuna barnsins og tryggja því umgengni við forsjárlaust foreldri eða forsjárforeldri sem það býr ekki hjá. Gert er ráð fyrir að þóknun talsmanns verði greidd úr ríkissjóði og dómsmálaráðherra setji nánari reglur um hana.
    Hlutverk talsmanns er að gæta hagsmuna barnsins í hvívetna í umgengnisdeilu foreldra. Á þetta jafnt við þegar ágreiningsmál um umgengnina sjálfa er til meðferðar hjá sýslumanni og þegar dagsektarmál er til meðferðar hjá honum. Skylt er að skipa talsmann ef forsjárlaust foreldri sinnir ekki lögbundinni umgengnisskyldu sinni ef krafa þar að lútandi berst sýslumanni. Dæmi eru um að áhugaleysi foreldris stafi af óuppgerðum tilfinningum gagnvart barnsmóður eða barnsföður. Skipaður talsmaður, sem hefur aðeins það hlutverk að standa vörð um hagsmuni barns, gæti hugsanlega komið á sambandi milli foreldra þegar svo háttar. Hér er um að ræða nýtt úrræði sem ekki felur í sér þvingun eða refsingu heldur miðar gagngert að því að styrkja fjölskyldutengsl. Reynsla og rannsóknir sýna að aðgerðir til stuðnings barnafjölskyldum geta beinlínis komið í veg fyrir að börn bíði skaða af óhjákvæmilegum skilnaði.
    Mikill fjöldi barna er fæddur utan hjónabands og er oft erfitt fyrir þau að ná fram grundvallarrétti sínum til umgengni við það foreldri sem það býr ekki hjá, jafnvel að kynnast því foreldri. Í slíkum tilvikum er hægt að óska eftir því við sýslumann að barni sé skipaður talsmaður sem sinni því verkefni að koma á kynnum, samskiptum og umgengni milli barnsins og föður þess eða móður eftir atvikum.
    Flutningsmenn telja að við úrlausn á því vandamáli sem hér er til meðferðar skuli réttur barnsins ávallt lagður til grundvallar. Heimild til að skipa barni sérstakan talsmann við úrlausn barnaverndarmála er til staðar í barnaverndarlögum, nr. 58/1992. Einnig er skv. 5. mgr. 34. gr. barnalaga, nr. 20/1992, heimilt að skipa barni talsmann til að gæta hagsmuna þess við úrlausn forsjármáls. Eðlilegt væri að skylt yrði að skipa barni talsmann um leið og umgengnismál er komið í hnút. Það úrræði ásamt vandaðri ráðgjöf sem nauðsynlegt er að koma hér á í tengslum við hjónaskilnaði og sambúðarslit miðar að því að laða fram hæfni foreldra til að rækja hlutverk sitt og skila hamingjusamari einstaklingum út í þjóðfélagið.