Ferill 414. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 675  —  414. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, fyrir árið 1999.

1. Inngangur.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 og hafði það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Umsvif og starfsemi nefndarinnar urðu meiri þegar samningar hófust um Evrópska efnahagssvæðið (EES) árið 1989 og mikilvægi hennar jókst enn þegar EES- samningurinn tók gildi 1. janúar 1994, en fulltrúar úr henni skipa EFTA-hluta sameiginlegu þingmannanefndar EES. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefnd EFTA. Þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan EES varð þingmannanefnd EFTA með gildistöku EES-samningsins að formi til tvískipt, þ.e. annars vegar upphaflega nefndin, nú með fjórum fyrrgreindum aðildarríkjum, og hins vegar nefnd ríkjanna þriggja sem mynda EFTA-hluta EES. Nefndin fundar þó ávallt í einu lagi og sitja því Svisslendingar sem áheyrnarfulltrúar þegar verið er að taka fyrir málefni sem eingöngu varða EES-hluta nefndarinnar. Sviss á einnig áheyrnaraðild að fundum þingmannanefndar EES. Til einföldunar verður í frásögnum hér á eftir talað um fundi þingmannanefndar EFTA þótt í raun hafi þá bæði eldri EFTA-nefndin og EES-hluti þingmannanefndar EFTA setið saman á fundi.
    Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári, en fundar jafnframt tvisvar á ári með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar um starfsemi EFTA, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga, málefni EES og Evrópusambandsins (ESB) og efnahags- og viðskiptamál almennt. Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA eins og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA á einnig samstarf við ríki sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við (t.d. ríki á Miðjarðarhafssvæðinu og í Mið- og Austur-Evrópu). Þessi þáttur í starfi EFTA eykst stöðugt og eru fríverslunarsamningar við fleiri lönd og svæði í bígerð.
    Á milli funda hittist framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar en hún undirbýr starf nefndarinnar, hefur umsjón með verkefnum og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess sem hún fjallar um aðkallandi mál. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-landi, en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Í Íslandsdeildinni hefur, auk formanns, einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.
    Þingmannanefnd EFTA vann ötullega að því í samvinnu við Evrópuþingið að í samningnum um EES yrði gert ráð fyrir sameiginlegri þingmannanefnd (95. gr. samningsins). Í sameiginlegu þingmannanefnd EES eru nú tuttugu og fjórir þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EES-aðildarríkjum EFTA. Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Sameiginlega þingmannanefndin á að fylgjast með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefa álit sitt á EES-málum. Nefndin fundar tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni milli ára. Þegar í upphafi hafði sameiginlega þingmannanefnd EES frumkvæði að því að semja skýrslur um málefni sem hún vildi skoða sérstaklega og hafa þær skýrslur svo verið ræddar á fundum nefndarinnar. Fyrir hverja skýrslugerð eru tilnefndir tveir framsögumenn (rapporteurs), einn úr hópi EFTA-þingmanna og einn úr hópi Evrópuþingmanna, og leggja þeir jafnframt fram drög að ályktunum. Þær eru bornar undir atkvæði, sem og einstakar málsgreinar eða breytingartillögur við þær, að því gefnu að a.m.k. fjórðungur hvorra tveggja þingmanna Evrópuþingsins og fulltrúa EFTA-ríkjanna séu viðstaddir. Einstakar málsgreinar eða breytingartillögur eru samþykktar með einföldum meiri hluta en atkvæði tveggja þriðju hluta viðstaddra þarf síðan til að samþykkja ályktunina í heild sinni. Ályktanir sem samþykktar eru á grundvelli þessara skýrslna eru síðan sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, þinga EFTA-EES-ríkja, Evrópuþingsins og utanríkisviðskiptanefndar þess, sem og Evrópunefnda þjóðþinga ESB. Bæði ráðherraráðið og sameiginlega EES-nefndin gera athugasemdir við ályktanir þingmannanefndarinnar á næsta fundi hennar og síðan eftir þörfum. Þingmannanefndin heldur skrá yfir allar tillögur sem fram koma í ályktunum hennar og er sú skrá birt árlega sem fylgiskjal með skýrslu um ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þannig getur þingmannanefndin fylgst með því hver þróun hefur orðið í þeim málum sem hún hefur tekið fyrir og tekið aftur upp mál þar sem hún telur að framþróunin sé ófullnægjandi. Með því að taka skipulega fyrir skýrt afmörkuð málefni hefur þingmannanefnd EES möguleika til áhrifa á þróun EES-samningsins. EFTA-hluti þingmannanefndar EES hefur líka fjallað um áhrif þjóðþinga EFTA-ríkjanna á samninginn og lagasetningu í tengslum við hann.
    Á undanförnum árum hefur Íslandsdeildin fundað með Evrópunefnd (eða samsvarandi nefnd) þess ríkis sem næst tekur við forustu innan ESB, en skipt er um forusturíki á sex mánaða fresti.

2. Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Fyrri hluta árs 1999 sátu í Íslandsdeildinni Vilhjálmur Egilsson, formaður, þingflokki sjálfstæðismanna, Gunnlaugur M. Sigmundsson, varaformaður, þingflokki framsóknarmanna, Árni M. Mathiesen, þingflokki sjálfstæðismanna, Sighvatur Björgvinsson, þingflokki jafnaðarmanna, og Hjörleifur Guttormsson, þingflokki óháðra. Hjörleifur var varamaður í þingmannanefnd EES, en þar á Ísland einungis fjögur sæti. Svavar Gestsson, þingflokki Alþýðubandalagsins, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingarinnar, var áheyrnarfulltrúi til 6. mars 1999, er hann lét af þingmennsku. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA voru Vilhjálmur Egilsson og Sighvatur Björgvinsson. Fulltrúi Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES var Vilhjálmur Egilsson.
    Frá 16. júní skipa Íslandsdeildina Vilhjálmur Egilsson, formaður, þingflokki sjálfstæðismanna, Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, þingflokki framsóknarmanna, Össur Skarphéðinsson, þingflokki jafnaðarmanna, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingarinnar, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki sjálfstæðismanna, og Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs. Varamenn eru Gunnar Birgisson, þingflokki sjálfstæðismanna, Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Alþýðubandalagsins, frá 19. febrúar þingflokki Samfylkingar, Katrín Fjeldsted, þingflokki sjálfstæðismanna, Jón Kristjánsson, þingflokki framsóknarmanna, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs. Ritari Íslandsdeildarinnar árið 1999 var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs.

3. Starfsemi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 1999.
    Megináherslan í starfi nefndanna beggja undanfarin ár hefur jafnan verið lögð á að fylgjast sem best með framkvæmd EES-samningsins. Nefndirnar leita upplýsinga frá ráðherraráði EFTA og EES og embættismönnum stofnana EFTA og ESB og koma skoðunum og áherslum þingmanna á framfæri við þessa aðila.
    Árið 1999 fylgdist þingmannanefnd EFTA grannt með framgangi nýgerðra tvíhliða samninga Sviss og ESB og ræddi sérstaklega áhrif þeirra á EFTA-samstarfið og þær breytingar sem gera þyrfti á Stokkhólmssáttmálanum til þess að EFTA-EES-ríkin væru ekki í lakari stöðu gagnvart Sviss en aðildarríki ESB. Nefndin ræddi einnig um ákvarðanir er varða fríverslunarsamninga EFTA við ýmis ríki en svo var komið að safnast höfðu upp ákvarðanir allt aftur til 1996 sem stjórnvöld höfðu ekki lagt fyrir þingin og átti það jafnt við um EFTA- ríkin og samstarfsríki þeirra. Landsdeildir þingmannanefndar EFTA tóku að sér að kanna ástæðurnar fyrir þessum töfum heima fyrir. Eftirgrennslan Íslandsdeildarinnar í utanríkisráðuneytinu leiddi í ljós að hér á landi stafaði töfin af tímaskorti og manneklu. Eftir að þingmannanefndin tók þetta mál til skoðunar tóku ríkisstjórnir EFTA-ríkjanna sig á í þessu efni.
    Þingmannanefndir EFTA og EES fylgdust einnig grannt með samningaviðræðum um áframhald þróunarsjóðs EFTA og þeim áhrifum sem málið hafði á EES-samstarfið. Þróun mála á afmörkuðum sviðum EES var rædd, sem og starfsemi COSAC (nefnd skipuð fulltrúum úr Evrópunefndum þjóðþinga ESB) og þróun þeirrar nefndar.
    Sex skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES á árinu og samþykktar voru ályktanir á grundvelli þeirra. Skýrslurnar sem voru ræddar fjölluðu um ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrir 1998, einsleitni innan EES, neytendamál innan EES, stækkun ESB og áhrif hennar á EES, öryggi matvæla innan EES og starf þingmannanefndar EES síðustu fimm ár.
    Íslandsdeildin var virk í starfi nefndanna á árinu. Hún átti þrjá framsögumenn af sex sem EFTA-hluti þingmannanefndar EES tilnefndi út af skýrslum ársins, þá Vilhjálm Egilsson, sem var annar höfundur skýrslu um stækkun ESB og áhrif hennar á EES, Össur Skarphéðinsson, sem var annar höfundur skýrslu um störf þingmannanefndar EES síðustu fimm ár, og Árna M. Mathiesen, sem var annar höfundur skýrslu um ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrir árið 1998. Íslandsdeildin var einnig gestgjafi á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í Keflavík. Að lokum má geta þess að Vilhjálmur Egilsson, formaður Íslandsdeildarinnar, var kjörinn varaformaður þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2000.
    Loks ber að geta funda sem Íslandsdeildin átti á árinu með fulltrúum þjóðþinga þeirra ríkja sem næst tóku við forsæti í ráðherraráði ESB, en ESB-ríkin skiptast á um formennsku á hálfs árs fresti. Íslandsdeildin hefur haldið slíka fundi í tengslum við fundi þingmannanefndar EFTA. Þar kynnir Íslandsdeildin málefni EFTA og EES og útskýrir hvernig ýmsar ákvarðanir ESB hafi bein og/eða óbein áhrif á EES, jafnframt því að fá upplýsingar um helstu áhersluatriði viðkomandi ríkja í forsætistíð þeirra. Nefndin fundaði með fulltrúum Evrópunefndar finnska þingsins í Helsinki 3. júní og með fulltrúum Evrópunefndar portúgalska þingsins í Lissabon 3. desember, en Finnland tók við forsæti í ráðherraráði ESB 1. júlí 1999 og Portúgal í ársbyrjun 2000.

18. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
53./21. fundur þingmannanefndar EFTA.
20. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.

    Fundirnir voru haldnir í Brussel dagana 25.–26. janúar. Fund þingmannanefndar EFTA sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Gunnlaugur M. Sigmundsson varaformaður, Árni M. Mathiesen, Sighvatur Björgvinsson og Hjörleifur Guttormsson, auk ritara. Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES var fulltrúi Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson, auk ritara. Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sátu Vilhjálmur Egilsson og Sighvatur Björgvinsson, auk ritara.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA ræddi nefndin við formann sameiginlegu EES-nefndarinnar, Einar Bull, sendiherra Noregs, um starfsemi EES og starfið fram undan. Meðal annars var rætt um þátttöku EFTA-ríkjanna í sérfræðinganefndum ESB, markmið um hraðari ákvörðunartöku í sameiginlegu EES-nefndinni, stöðu þróunarsjóðs EFTA, viðauka 2, 3 og 9 við EES-samninginn, reglur um heilbrigði dýra, Schengen-samstarfið, þýðingu á EES-gerðum í EFTA-ríkjunum og fríverslunarsamninga EFTA við ríki Mið- og Austur-Evrópu sem sótt hafa um aðild að ESB. Sendiherra Sviss kynnti nýgerðan tvíhliða samning Sviss og ESB, sem er í raun sjö samningar en tengdir saman. Hann sagði svissnesk stjórnvöld líta á samninginn nú sem bráðabirgðaúrræði og að stefnt væri að fullri aðild Sviss að ESB með tímanum. Starfsmaður framkvæmdastjórnar ESB (DG V) kynnti það sem er að gerast á sviði stefnumótunar í atvinnumálum hjá sambandinu. Starfsmaður EFTA fór yfir hvernig EFTA- EES-ríkin koma að þessum málum. Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Brussel, fór yfir stöðu Schengen-samstarfsins. Björn Haug, forseti EFTA-dómstólsins, kynnti starfsemi dómstólsins og mál sem voru til umfjöllunar hjá dómstólnum. Bauð hann þingmönnum að koma til Lúxemborgar og kynna sér starfsemi dómstólsins betur. Nefndin ræddi einnig um ákvarðanir er varða fríverslunarsamninga EFTA við ýmis ríki. Slíkar ákvarðanir eru teknar af sameiginlegum nefndum þeirra ríkja sem eiga aðild að viðkomandi samningi og hafa það hlutverk að uppfæra og bæta samningana. Sumar þessar ákvarðanir þurfa að fara fyrir þjóðþing aðildarríkjanna til staðfestingar, en nú er svo komið að safnast hafa upp ákvarðanir allt frá 1996 sem stjórnvöld hafa ekki lagt fyrir þingin og á það jafnt við um EFTA-ríkin sem og samstarfsríki þeirra. Tóku landsdeildir þingmannanefndar EFTA að sér að kanna ástæðurnar fyrir þessum töfum heima fyrir. Aðeins Íslandsdeildin var búin að kanna þessi mál fyrir fundinn og upplýsti að eftirgrennslan í utanríkisráðuneytinu hefði leitt í ljós að hér á landi stafaði þetta af tímaskorti og manneklu, en til stæði að bæta úr.
    Að loknum fundum á vegum þingmannanefndar EFTA fundaði Íslandsdeildin með sendiherra Íslands í Brussel. Rætt var m.a. um samskipti við þriðju ríki og áhrifin á EES-samninginn, skattamál í Evrópu, reglur um heilbrigði dýra, tilskipun ESB um sumartíma og þróunarsjóð EFTA. Þá komu nokkrir aðrir starfsmenn sendiráðsins á fundinn, þeir Grétar Már Sigurðsson sendiráðunautur, Gylfi Kristinsson, fulltrúi félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis, og Baldur Pétursson, fulltrúi iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis, og kynntu þeir helstu mál á sínum sviðum. Síðan var rætt almennt um upplýsingaflæði til Alþingis og þátttöku þingmanna í mótun ákvarðana og hvernig hægt væri að bæta hvort tveggja. Í því sambandi var m.a. rætt um gagnabanka EFTA, upplýsingar á netinu og hlutverk Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.

21. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
19. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
12. fundur þingmannanefndar EES.

    Fundirnir voru haldnir í Keflavík dagana 15.–16. mars. Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður og Sighvatur Björgvinsson, auk ritara. Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES sat Vilhjálmur Egilsson, auk ritara. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar á fundi þingmannanefndar EES voru Vilhjálmur Egilsson, Gunnlaugur Sigmundsson, Árni Mathiesen og Hjörleifur Guttormsson, auk ritara.
    Fund þingmannanefndar EES ávörpuðu dr. Reinhart Ehni, sendiherra Þýskalands, fyrir hönd ráðherraráðs EES, Fabrizio Barbaso, forseti sameiginlegu EES-nefndarinnar, Einar Bull sendiherra, sem jafnframt á sæti í nefndinni, og Knut Almestad, forseti ESA. Mikið var rætt um þróunarsjóð EFTA á fundinum en það mál var í uppnámi. Ehni og Barbaso sögðu báðir að EES-samstarfið hefði gengið vel á árinu 1998 og vísaði Barbaso m.a. til þess að EFTA- EES-ríkin tækju þátt í fjölda áætlana ESB í krafti EES-samningsins. Bull var líka jákvæður um starfsemi EES á síðasta ári og sagði að samstarf við framkvæmdastjórn ESB gengi vel. Eitt vandamál hefði hins vegar varpað skugga á samstarfið, þ.e. að eitt ríki skyldi geta tafið og hindrað framgang EES-mála í ráðinu. Hann tók sem dæmi að þátttaka EFTA-EES-ríkjanna í Lyfjastofnun Evrópu hefði verið hindruð þó að búið væri að samþykkja málið á öllum stigum, þ.m.t. í Evrópuþinginu. Hann taldi að samstarfsandinn innan EES væri ekki jafngóður og áður hefði verið. Krafa ESB um áframhaldandi greiðslur hefði komið EFTA-EES-ríkjunum í opna skjöldu, en þau hefðu brugðist skjótt við og gefið til kynna að þau væru reiðubúin að taka þátt í aðgerðum til að draga úr efnahagslegu misvægi svæða. Í umræðum þingmanna kom í ljós að allir þingmenn Evrópuþingsins sem sátu fundinn voru sammála túlkun EFTA-EES-ríkjanna á ákvæðum EES-samningsins er varða þróunarsjóðinn.
    Fimm skýrslur voru teknar til umfjöllunar og samþykktar voru ályktanir á grundvelli þeirra. Þær voru skýrsla um ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrir 1998, en í ályktuninni kemur fram fyrrgreind afstaða til þróunarsjóðsins og hvatt er m.a. til þess að ákvörðun um þátttöku EFTA-EES-ríkjanna í Lyfjastofnun Evrópu verði tekin án tafar, skýrsla um einsleitni innan EES, en í ályktuninni er m.a. hvatt til þess að EFTA-EES-ríkin tryggi nægilegt fjármagn til að þýðingar á gerðum ESB gangi hratt og örugglega, skýrsla um neytendamál innan EES þar sem EFTA-EES-ríkin eru m.a. hvött til að fara vel yfir tillögu um rafræn viðskipti sem nýlega var samþykkt innan ESB, skýrsla um stækkun ESB og áhrif hennar á EES þar sem m.a. fyrrgreind afstaða til þróunarsjóðsins kemur aftur fram en EFTA-EES-ríkin eru jafnframt hvött til að vera jákvæð gagnvart því, í tengslum við stækkunarferli ESB, að taka þátt í sameiginlegu átaki til að draga úr félagslegu og efnahagslegu misvægi milli þeirra ríkja sem sótt hafa um aðild að ESB og núverandi aðildarríkja EES, og skýrsla um öryggi matvæla innan EES þar sem m.a. er sagt að bjóða eigi EFTA-EES-ríkjunum að taka þátt í öllum vinnuhópum á þessu sviði.

22. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
54./22. fundur þingmannanefndar EFTA.
20. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA.
Fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA með fulltrúum ráðgjafarnefndar EFTA.

    Fundirnir voru haldnir 1.–2. júní í Lillehammer. Fundina sátu af hálfu Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður og Gísli S. Einarsson, auk ritara.
    Á framkvæmdastjórnarfundunum var m.a. fjallað um samskipti EFTA við þriðju ríki og hugsanlegt samband þingmannanefndar EFTA við COSAC. Í framhaldi af fundinum skrifaði formaður þingmannanefndar EFTA til Evrópunefndar finnska þingsins, en Finnar tóku við formennsku í COSAC um mitt ár, og síðar tóku íslenskir og norskir þingmenn málið upp er þeir ræddu við finnska starfsbræður sína.
    Fundur þingmannanefndar EFTA fjallaði m.a. um nýgerða tvíhliða samninga Sviss og ESB. Rætt var sérstaklega um áhrif samninganna á EFTA-samstarfið og breytingar sem gera þarf á Stokkhólmssáttmálanum til þess að hin EFTA-ríkin væru ekki í lakari stöðu gagnvart Sviss en aðildarríki ESB. Kjartan Jóhannsson, framkvæmdastjóri EFTA, og Anton Egger, fulltrúi svissnesku stjórnarinnar, ræddu einnig við nefndina um þetta mál. Alain Frank frá Heimsviðskiptastofnuninni (WTO) ræddi við nefndina um þróun heimsviðskipta og næstu samningalotu WTO. Julian Schütte, forstöðumaður lagadeildar skrifstofu ráðherraráðs ESB, ræddi um dóms- og innanríkismál (Justice and Home Affairs), sérstaklega Schengen-samstarfið. Nefndin hélt áfram umfjöllun sinni um ákvarðanir er varða fríverslunarsamninga EFTA við ýmis ríki. Safnast höfðu upp ákvarðanir allt frá 1996 sem stjórnvöld höfðu ekki staðfest. Fram kom að síðan þingmannanefndin tók þessi mál til skoðunar höfðu ríkisstjórnir EFTA-ríkjanna tekið sig á. Höfðu þær sent landsdeildum skýringar á þessum töfum og var búist við að þessar ákvarðanir yrðu staðfestar með haustinu. Ákveðið var að málstofa þingmannanefndar EFTA í október 1999 yrði opin fleiri þingmönnum en þeim sem sitja í þingmannanefndinni. Var það í samræmi við skipulag á fyrri málstofum nefndarinnar þar sem þingin höfðu tækifæri til að senda þingmenn sem voru að fást við þau mál sérstaklega sem tekin voru fyrir á málstofunni.
    Á fundi þingmannanefndarinnar með ráðherraráði EFTA var rætt um málefni EES og niðurstöður síðasta fundar EES-ráðsins, samstarf við þriðju ríki, tvíhliða samninga Sviss við ESB og horfur í WTO.
    Haldinn var í fyrsta sinn fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA með mönnum úr ráðgjafarnefnd EFTA sem skipuð er fulltrúum atvinnulífs og verkalýðsfélaga. Tilgangur fundarins var að skiptast á upplýsingum og kynna verkefni sem eru til umfjöllunar í nefndunum.

Fundur Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA með fulltrúum Evrópunefndar finnska þingsins.
    Þar sem Finnland átti að taka við formennsku í ráðherraráði ESB 1. júlí, átti Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA fund með fulltrúum úr Evrópunefnd finnska þingsins 3. júní í Helsinki. Fyrir hönd Íslandsdeildar sátu fundinn Vilhjálmur Egilsson formaður og Gísli S. Einarsson, auk ritara. Tilgangurinn var að minna á EES-samstarfið og þau mál sem þar eru efst á baugi. Í þetta sinn ræddu þingmenn mikið um COSAC-samstarfið og möguleika Íslands, Noregs og Liechtensteins til að koma að því.

20. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
23. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefnda EFTA.
55./23. fundur þingmannanefndar EFTA.
    Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES, sem haldinn var í Strassborg 28. október, sat af hálfu Íslandsdeildarinnar Kristinn H. Gunnarsson varaformaður, auk ritara. Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, sem haldinn var í Brussel 29. október, sóttu Vilhjálmur Egilsson formaður og Össur Skarphéðinsson, auk ritara, og fund þingmannanefndar EFTA sama dag sátu Gunnar Birgisson og Ögmundur Jónasson, auk allra framangreindra.
    Á framkvæmdastjórnarfundi þingmannanefndar EES var m.a. kynnt ný sendinefnd Evrópuþingsins, sem kjörin var í kjölfar Evrópukosninga sl. sumar. Nýr formaður sendinefndarinnar er Edward McMillan-Scott, formaður breskra íhaldsmanna á Evrópuþinginu. Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var m.a. fjallað um starfsemi nefndarinnar næsta ár, og í heimsókn í þingið í Marokkó árið 2000 ef fríverslunarsamningur milli EFTA- ríkjanna og Marokkós gengur í gildi eins og til stendur.
    Stærsti hluti fundar þingmannanefndar EFTA fór í árlega málstofu þar sem nokkur mál eru tekin fyrir hverju sinni. Þróun mála á afmörkuðum sviðum EES-samningsins var rædd, m.a. var fjallað um aukið frjálsræði á orkumörkuðum, mál er varða frjálsa fólksflutninga og lagaramma fyrir fjarskiptatækni. Þá var farið yfir starfsemi COSAC og þróun þeirrar nefndar. Síðast á dagskrá málstofunnar var erindi Johns Palmers, en hann er einn af yfirmönnum stofnunarinnar „European Policy Center“, og lýsti hann skoðunum sínum á framtíðarþróun ESB og áhrifum hennar á EES-samstarfið.

Fundur Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA með fulltrúum Evrópunefndar portúgalska þingsins.

    Þar sem Portúgal átti að taka við formennsku í ráðherraráði ESB um áramótin átti Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA fund með fulltrúum Evrópunefndar portúgalska þingsins. Fundinn, sem fram fór 3. desember í Lissabon, sátu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson formaður, Kristinn H. Gunnarsson varaformaður, Ögmundur Jónasson og Guðmundur Árni Stefánsson (í forföllum fulltrúa Samfylkingarinnar og varamanns hans), auk ritara. Fundurinn í Lissabon var hefðbundinn, enda tilgangur hans aðallega að minna á EES- samninginn og stöðu Íslands. Íslandsdeildin hitti formann Evrópunefndar portúgalska þingsins og níu aðra þingmenn úr nefndinni frá helstu flokkum. Farið var yfir EES-samninginn, þýðingu hans, helstu málefni á dagskrá EES-samstarfsins og stækkun ESB. Þá spurðu portúgölsku þingmennirnir nokkuð um umhverfismál á Íslandi. Þeir sýndu málstað Íslands í Evrópumálum skilning og tóku fram að þeir skildu vel að vegna EES-samningsins þyrftu EFTA- EES-ríkin að fá aðgang að upplýsingum um gang viðræðna um stækkun ESB.

24. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
21. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES.
13. fundur þingmannanefndar EES.
    
Fundirnir voru haldnir í Brussel dagana 6.–7. desember. Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sátu Kristinn H. Gunnarsson varaformaður og Guðmundur Árni Stefánsson (í forföllum fulltrúa Samfylkingarinnar og varamanns hans), auk ritara. Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES sat Kristinn H. Gunnarsson, auk ritara. Fund þingmannanefndar EES sátu Kristinn H. Gunnarsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Gunnar Birgisson, auk ritara.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var farið yfir drög að fjárhagsáætlun ESA. Gert var ráð fyrir svipaðri starfsemi á næsta ári og var fjárhagsáætlun nánast óbreytt. Forseti ESA sagði að enn þá hrönnuðust upp mál hjá stofnuninni sem biðu afgreiðslu, og þá sérstaklega í einstökum deildum þar sem mannekla væri, og að ekki væri gert ráð fyrir að hægt yrði að stytta biðina. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA samþykkti álit á fjárhagsáætluninni þar sem var lýst áhyggjum af biðinni sem orðið hefði á afgreiðslu mála hjá deildum ESA sem sinna frjálsum fólksflutningum, þjónustu og fjármagnsflutningum.
    Á fundi þingmannanefndar EES var breski íhaldsmaðurinn McMillan-Scott kjörinn til formannsstarfa árið 2000, en varaformaður var kjörinn Büchel frá Liechtenstein. Skýrsla um starf nefndarinnar síðustu fimm ár var rædd á fundinum. Á grundvelli hennar var afgreidd ályktun þar sem m.a. var ákveðið að senda ályktanir nefndarinnar til Evrópunefnda þjóðþinga ESB og utanríkisviðskiptanefndar Evrópuþingsins, en þær eru einnig sendar til forseta Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA-EES-ríkjanna, EES-ráðsins og sameiginlegu EES-nefndarinnar. Jafnframt fór nefndin fram á að EES-ráðið hefði nánara samráð við nefndina um mál er yllu erfiðleikum innan EES, með tilliti til aukins vægis Evrópuþingsins í ákvörðunartökuferli ESB.

25. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA.
56./24. fundur þingmannanefndar EFTA.
21. fundur þingmannanefndarinnar með ráðherraráði EFTA.
    
Fundirnir voru haldnir í Genf dagana 12.–13. desember. Fundi þingmannanefndar EFTA sátu Vilhjálmur Egilsson formaður, Kristinn H. Gunnarsson varaformaður, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson, auk ritara. Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sátu Vilhjálmur Egilsson og Össur Skarphéðinsson, auk ritara.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var aðallega rætt um samskipti EFTA við þriðju ríki, þ.e. gerð fríverslunarsamninga og annarra samstarfssamninga. Aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA sagði frá því m.a. að vonast væri til að gerð fríverslunarsamnings við Makedóníu lyki á næsta ári. Á Miðjarðarhafssvæðinu hefði lítið gerst undanfarið ár, en vonast væri til að fríverslunarsamningur við Marokkó gengi í gildi á komandi ári. Hann sagði jafnframt að annars staðar en í Evrópu kæmu upp vandamál í tengslum við upprunareglur sem gerðu frágang fríverslunarsamninga erfiða. Þetta hefði komið í ljós bæði í samningaviðræðum við ríki á Miðjarðarhafssvæðinu og við Kanada. Þá væri áhersla á tæknilega aðstoð og fjárhagsaðstoð mikil hjá Miðjarðarhafsríkjunum. Hann taldi afstöðu EFTA-ríkjanna mismunandi í slíkum tilfellum og taldi mikilvægt að samræma hana ef árangur ætti að nást. Mikils hefði verið vænst af fríverslunarsamningum við Kanada, en í ljós hefði komið að ekki yrði hægt að ganga eins langt og vonir stóðu til. Einungis yrði gerður hefðbundinn samningur um iðnaðarvörur. Þar hefði þó tekist að aðlaga upprunareglur þannig að samningurinn hefði meira gildi. Búast má við að samningagerð ljúki snemma á árinu, en þá taka við umfangsmiklar viðræður um tæknilegar útfærslur. Össur Skarphéðinsson lagði áherslu á að EFTA ætti að beina sjónum að Suður-Ameríku, þar yrði efnahagsþróun ör í upphafi næstu aldar. Hann lýsti jafnframt yfir vonbrigðum sínum með hvað samningurinn við Kanada yrði lítilfjörlegur.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var rætt um viðskipti og vinnustaðla annars vegar og nýja áætlun um innri markað ESB hins vegar. Jafnframt kynnti fulltrúi ráðgjafarnefndar EFTA starf þeirrar nefndar. Vilhjálmur Egilsson var kjörinn varaformaður þingmannanefndar EFTA, en kjöri formanna var frestað til næsta fundar.
    Á fundi þingmannanefndarinnar með ráðherrum var rætt um EES-samstarfið og töldu ráðherrar að það gengi mjög vel. Vilhjálmur Egilsson lagði áherslu á að það yrði að ræða vandamál en ekki sópa þeim undir teppið. Þýðingar á gerðum væru nokkuð mikið vandamál hjá sumum EFTA-EES-ríkjum, ESA væri með langan hala af málum sem ekki væri hægt að afgreiða vegna tímaskorts o.s.frv., þannig að ástandið væri ekki alveg eins gott látið væri í ljós. Þó að menn teldu að að flestu leyti gengi vel að reka samninginn um EES yrði að lagfæra þessa hluti. Samskipti við þriðju ríki voru einnig til umræðu á fundinum og fannst Össuri Skarphéðinssyni ráðherrar draga upp heldur bjarta mynd þar sem engin vandamál væru dregin fram í dagsljósið. Hann nefndi t.d. að ekki hefði gengið að draga Möltu eða Kýpur að samningaborðinu og að samningurinn við Kanada yrði mun rýrari en vonir höfðu staðið til. Hann gerði líka samskipti við ríki Suður-Ameríku að umtalsefni og spurði sérstaklega hvort gerð fríverslunarsamninga við Brasilíu og MERCOSUR hefði verið rætt í ráðherraráðinu. Í svari til hans kom fram að áhugi væri á samningum við Mexíkó og Chile, en Brasilía og MERCOSUR-löndin flyttu aðallega út landbúnaðarvörur sem framleiddar væru í EFTA-ríkjunum og því væri áhugi á fríverslunarsamningum við þau takmarkaður.

Alþingi, 10. febr. 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form.


Kristinn H. Gunnarsson,


varaform.


Ögmundur Jónasson.



Össur Skarphéðinsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.