Ferill 416. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 677  —  416. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 1999.

1. Inngangur.
    Árið 1999 var sannkallað tímamótaár í sögu Atlantshafsbandalagsins (NATO). Á leiðtogafundi í apríl fagnaði bandalagið fimmtíu ára afmæli sínu, aðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands tók gildi og endurskoðuð öryggisstefna bandalagsins var samþykkt. Þar er brugðist við breyttum aðstæðum í öryggismálum Evrópu með því að leggja aukna áherslu á hreyfanleika og skjót viðbrögð. Síðasta árs verður þó trúlega helst minnst fyrir það að NATO efndi til mestu hernaðaraðgerða í sögu bandalagsins í tengslum við átökin í Kosovo, gegn Sambandslýðveldinu Júgóslavíu. Þá hefur athygli beinst að Evrópusambandinu (ESB) sem hyggst í náinni framtíð hafa yfir að ráða sjálfstæðum hernaðarmætti til að bregðast við hættuástandi sem upp kann að koma í álfunni. Flest bendir til þess að Vestur-Evrópusambandið (VES) verði innlimað í ESB, en Ísland hefur ásamt öðrum evrópskum NATO-ríkjum utan ESB aukaaðild að VES og ekki er ljóst hvernig hagsmunir þeirra verða verndaðir í breyttu fyrirkomulagi. Átökin í Kosovo sönnuðu enn og aftur að Evrópa virðist þurfa jafnmikið á samvinnu við Bandaríkin á sviði varnar- og öryggismála að halda nú og við stofnun Atlantshafsbandalagsins fyrir rúmum fimmtíu árum.
    Að sama skapi fór fram öflug starfsemi í NATO-þinginu, sem fram á síðasta ár var nefnt Norður-Atlantshafsþingið. Ástandið á Balkanskaga, endurskoðun öryggisstefnu bandalagsins, hlutverk þess í íhlutunum af mannúðarástæðum, stækkun bandalagsins til austurs og samskiptin við Rússland og Úkraínu voru efst á baugi í starfi þingsins á árinu. Þá hlutu Sviss og Georgía aukaaðild að þinginu, og Svíþjóð og Aserbaídjan fengu áheyrnaraðild. Á fundum þingsins hefur Íslandsdeildin að vanda lagt ríka áherslu á mikilvægi Norður-Atlantshafstengslanna í evrópskum öryggismálum. Hún hefur ítrekað minnt á að trúverðugleiki Atlantshafsbandalagsins liggi einmitt í samstarfi Evrópu og Norður-Ameríku og að ekki megi missa sjónar á því á þessum umbreytingatímum sem hafa valdið óstöðugleika í álfunni og vakið miklar umræður um aukið samstarf og sjálfstæði Evrópuríkja í öryggis- og varnarmálum.

2. Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Hinn 16. júní var ný Íslandsdeild kjörin að afstöðnum kosningum til Alþingis 8. maí. Fram til 16. júní voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Sólveig Pétursdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, formaður, Jón Kristjánsson, þingflokki Framsóknarflokks, varaformaður, og Guðmundur Árni Stefánsson, þingflokki Alþýðuflokks (þingflokki Samfylkingarinnar frá 19. febrúar). Varamenn voru Árni R. Árnason og Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Gunnlaugur M. Sigmundsson, þingflokki Framsóknarflokks.
    Aðalmenn Íslandsdeildarinnar voru frá 16. júní Tómas Ingi Olrich, þingflokki Sjálfstæðisflokks, formaður, Guðmundur Árni Stefánsson, þingflokki Samfylkingarinnar, varaformaður, og Jón Kristjánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn deildarinnar voru Árni R. Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Valgerður Sverrisdóttir, þingflokki Framsóknarflokksins.
    Hinn 31. desember tók Valgerður Sverrisdóttir við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hætti þá setu í Íslandsdeildinni sem varamaður.
    Ritari Íslandsdeildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari.
    Samkvæmt samþykktum þingsins geta fulltrúar aðildarríkja tekið þátt í starfi allra nefnda þess. Smæð Íslands takmarkar þó atkvæðisréttinn við þrjár nefndir, auk stjórnarnefndar. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 1999 var þannig:

Fram til 16. júní Frá og með 16. júní
Stjórnarnefnd Sólveig Pétursdóttir Tómas Ingi Olrich
    Til vara     Jón Kristjánsson     Guðmundur Árni Stefánsson
Stjórnmálanefnd Sólveig Pétursdóttir Tómas Ingi Olrich
    Til vara     Árni R. Árnason
Varnar- og öryggismálanefnd Jón Kristjánsson Jón Kristjánsson
    Til vara     Gunnlaugur M. Sigmundsson     Valgerður Sverrisdóttir
Félagsmálanefnd Einar Oddur Kristjánsson Guðmundur Árni Stefánsson
    Til vara     Guðmundur Árni Stefánsson     Ásta R. Jóhannesdóttir
Efnahagsnefnd Árni R. Árnason Jón Kristjánsson
    Til vara     Valgerður Sverrisdóttir
Vísinda- og tækninefnd Guðmundur Árni Stefánsson Guðmundur Árni Stefánsson
    Til vara     Ásta R. Jóhannesdóttir

    Loks tók Tómas Ingi Olrich sæti í sérstökum vinnuhópi um öryggismál við Miðjarðarhaf í október.

3. Fundir sem Íslandsdeildin tók þátt í á árinu.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, svokallaðan vorfund að vori og ársfund að hausti. Auk þess kemur stjórnarnefnd sérstaklega saman ár hvert, ýmist í mars eða apríl. Svokallaðir febrúarfundir eru annars vegar fundur stjórnarnefndar með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu og hins vegar fundur stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar. Nefndir og undirnefndir þingsins halda reglulega námsstefnur og fundi á milli þingfunda. Jafnframt stendur varnar- og öryggismálanefnd árlega fyrir kynnisferð til eins eða fleiri aðildarríkja bandalagsins til að skoða ýmis hernaðarmannvirki og búnað. Loks voru haldnar fjórar Rose-Roth námsstefnur á árinu (sjá fskj. I, b-lið). Árið 1999 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum, fundi stjórnarnefndar, vor- og haustfundum þingsins, auk þriggja nefndarfunda utan þingfunda.

a. Febrúarfundir.
    Dagana 14.–15. febrúar voru svokallaðir febrúarfundir NATO-þingsins haldnir í Brussel. Þetta voru fundur stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar annars vegar og fundur stjórnarnefndar með Norður-Atlantshafsráðinu og framkvæmdastjóra NATO hins vegar. Aukaaðilar hafa ekki rétt til setu á fundunum. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sat Jón Kristjánsson varaformaður fundina, auk Belindu Theriault, forstöðumanns alþjóðasviðs skrifstofu Alþingis.
    Helstu umræðuefni sameiginlegs fundar nefndanna þriggja voru ástand mála í Kosovo, fimmtíu ára afmæli bandalagsins og ýmis mál tengd fyrirhuguðum leiðtogafundi í apríl. Má þar helst nefna stækkun bandalagsins, samstarf þess við Rússland og þróun nýrrar öryggisstefnu bandalagsins, auk samskipta NATO-þingsins og NATO. Jafnframt var rætt um samskipti ESB og Bandaríkjanna á sviði efnahagsmála og áhrif myntbandalags Evrópu þar á, sem og hlutverk Evrópuríkjanna sjálfra í öryggismálum álfunnar. Fundinn ávörpuðu tveir aðstoðarframkvæmdastjórar NATO, þeir Klaus-Peter Klaiber sem fer fyrir stjórnmáladeildinni og Anthony J. Cragg sem fer fyrir deild varnarmála og herstjórnarskipulags. Þá ávörpuðu fundinn Klaus Naumann hershöfðingi, formaður hermálanefndar bandalagsins, og þeir Sir Leon Brittan og Yves-Thibault de Silguy frá framkvæmdastjórn ESB. Fundur stjórnarnefndar með Norður-Atlantshafsráðinu hófst með ávarpi Javiers Solana, framkvæmdastjóra NATO, sem fjallaði um ástandið í Kosovo, undirbúning leiðtogafundar bandalagsins og samskipti NATO- þingsins og NATO. Að því loknu voru almennar umræður.

b. Fundur stjórnarnefndar.
    Dagana 26.–28. mars var fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins haldinn í Dresden. Fundinn sátu í fyrsta sinn sem fullgildir meðlimir fulltrúar Póllands, Tékklands og Ungverjalands. Þar sem hvorki formaður né varaformaður Íslandsdeildarinnar átti heimangengt sat Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs skrifstofu Alþingis, fundinn fyrir hönd Íslandsdeildarinnar. Þingmenn frá Bandaríkjunum, Belgíu og Lúxemborg voru einnig fjarstaddir. Javier Ruperez, forseti NATO-þingsins, bauð fulltrúa nýrra aðildarríkja sérstaklega velkomna á fundinn og minnti á að þingið ætti sinn þátt í þessum tímamótum í sögu bandalagsins. Hann sagði að Spánn hefði verið nýjasta aðildarríki NATO í sautján ár og að það væri ánægjulegt að láta öðrum eftir þann titil nú, en hann væri þess jafnframt fullviss að skemmra væri nú þangað til önnur ríki fengju aðild.
    Atburðir í Kosovo urðu að sjálfsögðu aðalmál fundarins. Langflestir lögðu áherslu á að þingmenn sýndu samstöðu og styddu stefnu NATO. Fram kom að Rússland hefði hætt öllum samskiptum við bandalagið í kjölfar loftárása þess á Sambandslýðveldið Júgóslavíu og urðu margir til að harma það, enda hefði samstarf við rússneska þingmenn virst skila árangri. Ruperez kynnti ályktunardrög um Kosovo-málið. Í kjölfar umræðnanna var ný útgáfa lögð fram og var ályktunin samþykkt samhljóða með einni breytingartillögu, þar sem lögð var áhersla á áframhaldandi samstarf NATO og Rússa. Í umræðum um samskipti NATO-þingsins og NATO kom fram ánægja með þróun mála. Sagt var frá því að samþykkt hefði verið að forseti þingsins ávarpaði leiðtogafundinn í Washington í apríl. Þá ætti að hefja kerfisbundnari þátttöku þingsins í starfi Friðarsamstarfs NATO og í Evró-Atlantshafssamstarfsráðinu. Aðildarríkin hefðu ekki samþykkt að þingið tæki reglulega þátt í fundum utanríkisráðherra NATO, en um einhvers konar „ad hoc þátttöku gæti orðið að ræða“. Ruperez áleit að ekki yrði lengra komist að sinni en taldi niðurstöðuna vel viðunandi. Vonuðust fundarmenn til þess að í yfirlýsingu leiðtogafundarins yrði sérstök grein þar sem minnst yrði á hlutverk þingsins.
    Rætt var um forgangsverkefni þingsins á árinu sem voru á sviði samstarfs við Rússland og Úkraínu, málefna Suðaustur-Evrópu, Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins, öryggismála á Miðjarðarhafssvæðinu og frekari stækkunar NATO. Auk þess hóf Ruperez vinnu við forsetaskýrslu um Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum og jafnframt var ákveðið að huga að því hvernig hægt væri að auka áhuga á NATO meðal yngri kynslóða stjórnmálamanna.

c. Vorfundur.
    Dagana 27.–31. maí var vorfundur NATO-þingsins haldinn í Varsjá. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðmundur Árni Stefánsson og Einar Oddur Kristjánsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar, ritara deildarinnar.
    Að vanda var vorfundurinn skipulagður sem eins konar undirbúningsfundur fyrir ársfund þingsins sem haldinn var í Amsterdam dagana 11.–15. nóvember. Í málefnanefndum voru til umræðu skýrslu- og ályktanadrög sem samþykkt skyldu í Amsterdam, auk þess sem ýmsir góðir gestir ávörpuðu fundi nefndanna og svöruðu spurningum fundarmanna. Að þessu sinni einkenndist vorfundurinn fyrst og fremst af umfjöllun um átökin í Kosovo og framtíðarhorfur í öryggismálum Suðaustur-Evrópu, en ályktað var um málefni Kosovo. Þá var Georgíu og Sviss veitt aukaaðild að þinginu og Svíþjóð og Aserbaídjan veitt áheyrnaraðild. Í kjölfar þess að NATO hóf loftárásir á Sambandslýðveldið Júgóslavíu í mars sleit Dúman, neðri deild rússneska þingsins, öllu sambandi við NATO-þingið, um sinn a.m.k. Vorfundinn sótti hins vegar sendinefnd Sambandsráðsins, efri deildar rússneska þingsins, og setti hún nokkurn svip á umræðurnar, auk sendinefnda Albaníu og fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu sem einnig eiga aukaaðild að NATO-þinginu.
    Í stjórnmálanefnd voru til umræðu skýrslur um öryggismál í Norður-Afríku, um NATO á þröskuldi 21. aldar og nýja stefnu í átt að friði, öryggi og stöðugleika, um samskipti NATO og Rússlands og næstu skref stækkunar NATO, um leið Slóveníu í átt að NATO-aðild og um samstarf NATO og ÖSE í Evrópu. Fund nefndarinnar ávörpuðu Bronislav Geremek, utanríkisráðherra Póllands, Wolfgang Petrisch, sendiherra Austurríkis í Belgrad og einn fulltrúa ESB í friðarviðræðum vegna átakanna í Kosovo, og Tim Judah blaðamaður, höfundur bókarinnar Serbar: sagan, goðsögnin og upplausn Júgóslavíu.
    Í varnar- og öryggismálanefnd voru til umræðu skýrslur um ný aðildarríki NATO, Tékkland, Pólland og Ungverjaland, um Úkraínu og úkraínska heraflann, um tengsl ESB, VES og NATO, um stefnu NATO í ljósi átakanna í Kosovo, um Kalíníngrad og um rúmenska heraflann. Fund nefndarinnar ávörpuðu Janusz Onyszkiewicz, varnarmálaráðherra Póllands, dr. Roland Wegener, aðstoðarframkvæmdastjóri VES, og rússneski undirhershöfðinginn Valery L. Manilov, varaformaður rússneska herráðsins.
    Í félagsmálanefnd voru til umræðu skýrsla um Kosovo og átakastjórnun í Evrópu og skýrsla um fjölþjóðlegar aðgerðir af mannúðarástæðum, stjórnmál og alþjóðalög. Fund nefndarinnar ávörpuðu Freimut Duve, sérlegur fulltrúi ÖSE um frelsi fjölmiðla, Raymond Hall, fyrir hönd sérlegs fulltrúa Sameinuðu þjóðanna um málefni flóttamanna, auk þeirra Wolfgangs Petrischs sendiherra og Tims Judahs blaðamanns, sem einnig ávörpuðu fund stjórnmálanefndarinnar. Í máli Judahs kom m.a. fram sú fullyrðing að NATO hefði gengið út frá því nánast sem vísu að loftárásirnar mundu nægja til þess að Milosevic, forseti Júgóslavíu, gengist við friðarskilmálum innan tveggja til þriggja daga og því hefði bandalagið hafið árásir sínar á kolröngum forsendun. Hann sagði mikinn skort á marktækum upplýsingum um stöðu mála í Kosovo. Guðmundur Árni Stefánsson spurði Judah hverju þetta sætti og hvort Vesturlönd ættu e.t.v. að kappkosta að senda þangað fleiri fréttamenn. Judah svaraði því til að t.d. væri erfitt að fá vegabréfsáritanir og að öll aðstaða væri bág, auk þess sem einhvers konar ritskoðun væri ástunduð af júgóslavneskum yfirvöldum. Hann sagði að í það minnsta væri skortur á áreiðanlegum upplýsingum stórkostlegt vandamál í öllum aðgerðum NATO í Kosovo.
    Í efnahagsnefnd voru til umræðu skýrslur um fjármála- og efnahagskreppu ársins 1998 í Asíu og í Rússlandi og um efnahagslega og stjórnmálalega hagsmuni á svæðinu við Kaspíahaf. Fund nefndarinnar ávörpuðu Krzysztof Ners, aðstoðarfjármálaráðherra Póllands, dr. Wolfgang Reinicke, yfirhagfræðingur hjá Þróunarbanka Evrópu, Jean-Francois Maquet, varaforseti Þróunarbanka Evrópu, og Tamás Novák frá Alþjóðahagfræðistofnuninni í Búdapest.
    Á fundi vísinda- og tækninefndar voru ræddar skýrslur um upplýsingahernað og alþjóðleg öryggismál, um sýklavopn og um náttúruhamfarir. Fund nefndarinnar ávörpuðu Jan Szyszko, umhverfisráðherra Póllands, Jasjit Singh, forstöðumaður Varnarmálastofnunarinnar í Nýju- Delhí, og Didier Gambier frá Alþjóðlegri vísinda- og tæknimiðstöð ESB í Brussel.
    Á fundi stjórnarnefndar var m.a. ákveðið að koma á fót sérstökum kynningarmálstofum um málefni NATO fyrir unga þingmenn og verða landsdeildir beðnar um að tilnefna þátttakendur í fyrstu málstofuna sem haldin verður í Brussel árið 2000. Þá var Georgíu og Sviss sem fyrr segir veitt aukaaðild að þinginu en beiðni Aserbaídjans um aukaaðild var hafnað gegn atkvæðum Tyrklands, Ítalíu og Póllands. Mikill meiri hluti nefndarinnar taldi Aserbaídjan of skammt á leið komið í átt til lýðræðis til að hægt væri að veita því aukaaðild, en samþykkt var að bjóða ríkinu áheyrnaraðild að þinginu. Enn fremur var Svíþjóð veitt áheyrnaraðild, en sænska þingið hefur afþakkað boð stjórnarnefndar NATO-þingsins um aukaaðild að þinginu. Þá var samþykkt að óska eftir áheyrnaraðild NATO-þingsins að fundum Alþjóðaþingmannasambandsins og verður einhver þingmaður NATO-þingsins sem jafnframt sækir fundi Alþjóðaþingmannasambandsins fenginn til að vera fulltrúi NATO-þingsins en það mun ekki senda starfsfólk á fundi sambandsins. Rætt var um þátttöku fulltrúa NATO-þingsins í leiðtogafundi NATO í Washington í apríl þar sem Javier Ruperez, forseti NATO-þingsins, ávarpaði m.a. fundinn, en í yfirlýsingu fundarins er NATO-þingið m.a. sagt gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja stöðugleika í Evrópu. Þótti leiðtogafundurinn vera dæmi um vaxandi samskipti þingsins við NATO. Samþykkt var að vísa breyttum starfsreglum vegna nýrra aðildarríkja til þingfundar, en samkvæmt þeim fær Pólland tólf sæti á þinginu (líkt og Kanada, Spánn og Tyrkland), en Tékkland og Ungverjaland sjö sæti hvort ríki (líkt og Belgía, Grikkland, Holland og Portúgal). Ísland á þrjú sæti á þinginu. Á fundi stjórnarnefndar kynnti Sir Geoffrey Johnson-Smith, gjaldkeri þingsins, drög að fjárlögum fyrir árið 2000. Samkvæmt þeim hækka fjárlögin í fyrsta sinn í fjögur ár, um 1,83%. Loks samþykkti nefndin áskorun til Lúkashenkos, forseta Hvíta-Rússlands, þar sem hann er m.a. hvattur til að koma á lýðræði í landinu og virða lok kjörtímabils síns 20. júlí.
    Þingfundinn ávörpuðu Javier Ruperez, forseti NATO-þingsins, Maciej Plazynski, forseti neðri deildar pólska þingsins, Alicja Grzeskowiak, forseti efri deildar pólska þingsins, og Jerzy Buzek, forsætisráðherra Póllands, sem jafnframt svaraði spurningum fundarmanna. Þá voru samþykktar fyrrnefndar ákvarðanir stjórnarnefndar um breyttar starfsreglur vegna stækkunar NATO og um auka- og áheyrnaraðild að þinginu. Loks voru ályktunardrög um Kosovo tekin til afgreiðslu, en áttatíu og sex breytingartillögur höfðu verið lagðar fram við drögin. Í ályktun þingsins eru mannréttindabrot stjórnvalda í Belgrad m.a. harðlega fordæmd, stuðningi lýst við hernaðaraðgerðir NATO og samúð sýnd með Kosovo-Albönum og serbnesku þjóðinni, auk þess sem mannfall saklausra borgara er harmað. Þá er stuðningi lýst við friðarumleitanir til lausnar deilunni og nágrannaríkjum Júgóslavíu þakkaður stuðningur þeirra við aðgerðir bandalagsins. Ríkisstjórnir aðildarríkja NATO eru sérstaklega hvattar til að auka stuðning sinn við viðkomandi ríki og til að taka við fleiri flóttamönnum frá Kosovo.

d. Ársfundur.
    Dagana 11.–15. nóvember var 45. ársfundur NATO-þingsins haldinn í Amsterdam. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Tómas Ingi Olrich formaður, Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður og Jón Kristjánsson, auk Gústafs Adolfs Skúlasonar ritara deildarinnar. Tómas Ingi sat fundi stjórnarnefndar, stjórnmálanefndar og sérstakrar nefndar stjórnarnefndar og formanna málefnanefnda sem samræmir ályktanir þingsins fyrir þingfund. Guðmundur Árni sat fundi félagsmálanefndar og Jón sat fundi varnar- og öryggismálanefndar.
    Að þessu sinni einkenndist ársfundurinn fyrst og fremst af umfjöllun um íhlutanir bandalagsins í málefni ríkja af mannúðarástæðum og ályktaði þingfundur um málið. Þá var þróun Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum til umræðu í stjórnmálanefnd og í varnar- og öryggismálanefnd, þar sem íslensku þingmennirnir gerðu grein fyrir sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda. Í stjórnmálanefnd voru til umræðu skýrslur um NATO á þröskuldi 21. aldar og nýja stefnu í átt að friði, öryggi og stöðugleika, um samskipti NATO og Rússlands og næstu skref stækkunar NATO, um leið Slóveníu í átt að NATO-aðild, og skýrsla um samstarf NATO og ÖSE í Evrópu. Þá ályktaði nefndin um samskiptin við Rússland annars vegar og um stöðu mála í Tsjetsjeníu hins vegar. Fund nefndarinnar ávörpuðu Bodo Hombach, sérlegur umsjónarmaður með framkvæmd stöðugleikasáttmála um Suðaustur-Evrópu, Veton Surroi, ritstjóri dagblaðsins Koha Ditore sem gefið er út í Kosovo á albönsku, Sergei Ivanovich Kislyak, fastafulltrúi Rússlands hjá NATO, og Alison Bailes, forstöðumaður stjórnmáladeildar VES. Í umræðum um skýrsluna um NATO á þröskuldi 21. aldar gerði Tómas Ingi Olrich athugasemdir við umfjöllun skýrslunnar um þróun Evrópusamstarfs á sviði öryggis- og varnarmála. Í skýrslunni er talað um að tryggt verði „nægilegt“ samráð við evrópsku NATO-ríkin sem standa utan við ESB við þróun þessa samstarfs, en jafnframt er fjallað um að „í framtíðinni“ þurfi að treysta frekar í sessi samskiptin yfir Atlantshafið. Tómas Ingi greindi m.a. frá því að í yfir fimmtíu ár hefði Ísland tekið fullan þátt í samstarfi um evrópsk öryggis- og varnarmál og hefði því allan rétt á áframhaldandi þátttöku. Hann sagði mikilvægt að frekari þróun Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum yrði til að efla NATO en ekki draga úr vægi þess. Þá sagði hann það óviðunandi fyrir Evrópuríkin sex, sem eru í NATO en standa utan ESB, að beðið yrði með að skilgreina stöðu þeirra gagnvart umræddu Evrópusamstarfi. Það yrði að ganga frá því og treysta samskiptin yfir Atlantshafið um leið og evrópska stoðin yrði skilgreind. Ýmsir urðu til að taka undir með Tómasi Inga í umræðunni, m.a. þingmenn frá Hollandi, Tékklandi, Kanada og Tyrklandi. Þá gerði Tómas Ingi athugasemd við að Íslands væri ekki getið í þeim kafla skýrslunnar þar sem fjallað er um stækkun bandalagsins, en þar voru Noregur, Danmörk og Þýskaland talin upp sem stuðningsríki aðildar Eystrasaltsríkjanna að bandalaginu. Tómas Ingi sagði Ísland hafa stutt aðild ríkjanna dyggilega og lofaði framsögumaður skýrslunnar, þýski þingmaðurinn Markus Meckel, að leiðrétta þetta.
    Í varnar- og öryggismálanefnd voru til umræðu skýrslur um hin nýju aðildarríki NATO, Tékkland, Pólland og Ungverjaland, um Úkraínu og úkraínska heraflann, um tengsl ESB, VES og NATO, um stefnu NATO í ljósi átakanna í Kosovo, um Kalíníngrad og um rúmenska heraflann. Þá ályktaði nefndin um Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum annars vegar, og um alþjóðasamning um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn hins vegar. Fund nefndarinnar ávörpuðu Tamas Wachsler, varnarmálaráðherra Ungverjalands, Henk van Hoof, varnarmálaráðherra Hollands, og O.L. Kandborg, aðstoðarhershöfðingi og yfirmaður hernaðarstarfsfólks NATO. Jón Kristjánsson tók þátt í umræðum um skýrslu um tengsl ESB, VES og NATO og talaði á svipuðum nótum og Tómas Ingi Olrich í stjórnmálanefndinni. Undirtektir voru góðar og var Jón meðflutningsmaður að breytingartillögu við ályktun nefndarinnar um málið sem var samþykkt. Með breytingartillögunni var bætt við málsgrein þar sem aðildarríki NATO eru hvött til að koma á fyrirkomulagi sem geri evrópskum NATO-ríkjum utan ESB kleift að taka þátt í þróun og framkvæmd Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum til jafns við aðildarríki ESB. Í ályktunardrögum um alþjóðasamning um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn voru Ísland, Tyrkland og Portúgal sérstaklega hvött til að fullgilda samninginn fyrir áramót. Jón gerði grein fyrir því að á Íslandi væri unnið að þýðingu samningsins og að stefnt væri að því að þingsálykunartillaga um staðfestingu hans yrði lögð fram á yfirstandandi þingi, en sagði ekki hægt að lofa því fyrir áramót. Fulltrúar Tyrklands og Portúgals höfðu svipaða sögu að segja og var því orðalagi ályktunarinnar breytt á þá leið að umrædd þrjú ríki eru ekki nafngreind heldur eru NATO-ríki sem eftir eiga að fullgilda samninginn hvött til að gera það við fyrsta tækifæri. Þá er öldungadeild Bandaríkjaþings hvött til að endurskoða afstöðu sína, en hún hafnaði samningnum nýverið.
    Í félagsmálanefnd voru til umræðu skýrslur um framtíðarhorfur í Kosovo, um gildi Kosovo-málsins sem hugsanlegs fordæmis til breytinga á öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, og skýrsla um Kosovo og alþjóðalög. Þá ályktaði nefndin um virðingu við alþjóðalög á sviði mannúðarmála. Fund nefndarinnar ávörpuðu fyrrnefndur Veton Surroi, ritstjóri frá Kosovo, ítalski hershöfðinginn Sergio Siracusa, Franklin van Kappen hershöfðingi og fyrrverandi hermálaráðgjafi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Dick Benschop, Evrópumálaráðherra Hollands, Bernard Kouchner, yfirmaður sendinefndar Sameinuðu þjóðanna í Kosovo, Adam Roberts, prófessor í alþjóðastjórnmálum við Oxford-háskóla, og Yves Sandoz, lögfræðilegur ráðgjafi hjá Rauða krossinum.
    Í efnahagsnefnd voru til umræðu skýrslur um fjármála- og efnahagskreppu ársins 1998 í Asíu og í Rússlandi, um efnahagslegar afleiðingar átakanna í Kosovo og kostnað við uppbyggingarstarfið þar og um efnahagslega og stjórnmálalega hagsmuni á svæðinu við Kaspíahaf. Nefndin ályktaði um uppbyggingu Kosovo og Suðaustur-Evrópu. Fund nefndarinnar ávörpuðu Klaas de Vries, félags- og atvinnumálaráðherra Hollands, Arnout H.E.M. Wellink, bankastjóri hollenska seðlabankans, og dr. Steve Hanke, prófessor í hagfræði við Johns Hopkins háskólann.
    Á fundi vísinda- og tækninefndar voru ræddar skýrslur um upplýsingahernað og alþjóðleg öryggismál, um sýklavopn og um náttúruhamfarir í Austur-Evrópu. Nefndin ályktaði um sýklavopn. Fund nefndarinnar ávörpuðu dr. Graham S. Pearson frá háskólanum í Bradford, dr. Andrew Rathmell frá King's College í London, og Daey Ouwens frá hollensku rannsóknarstofnuninni í orkumálum.
    Á fundi stjórnarnefndar var m.a. fjallað um skipulag starfa þingsins á grundvelli bréfs framkvæmdastjóra til formanna landsdeilda. Þar er m.a. rakið hvernig umfang starfseminnar hefur aukist á undanförnum árum, undirnefndum fjölgað og sérstakir vinnuhópar verið settir á fót um einstök málefni eða svæði. Ræddir voru möguleikar á endurskipulagningu og samþykkt að huga betur að verkaskiptingu nefndanna. Jafnframt var samþykkt að miða við að ekki væru fleiri en tvær undirnefndir starfandi á vegum hverrar málefnanefndar. Loks var ákveðið að fela framkvæmdastjóra að setja fram skriflegar hugmyndir um frekari breytingar sem nefndin mun ræða á næsta fundi sínum. Þá var fjallað um harðorða yfirlýsingu sem þingið sendi frá sér á vorfundinum í Varsjá um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi. Nefndin samþykkti að ítreka fyrri yfirlýsingu, enda hefði ástandið versnað síðan ef eitthvað væri. Stuttlega var fjallað um sérstakt verkefni til að stuðla að bættri þekkingu ungra þingmanna á störfum bandalagsins, og fram kom að fyrir lægi að tekið yrði vel á móti slíkum hópi í höfuðstöðvum NATO sumarið 2000 og að tvær Rose-Roth málstofur yrðu tileinkaðar verkefninu sama ár. Þá mættu endurskoðendur NATO á fund nefndarinnar og gerðu þeir engar athugasemdir við reikninga þingsins fyrir árið 1998. Sir Geoffrey Johnson-Smith, gjaldkeri þingsins, kynnti drög að fjárlögum fyrir árið 2000, en samkvæmt þeim hækka fjárlögin í fyrsta sinn í fjögur ár, um 1,83%. Hann greindi jafnframt frá því að allt benti til þess að starfsemi þingsins yrði innan fjárlagarammans árið 1999. Þá voru samskiptin við Evrópuþingið rædd, en ætla má að hlutverk þess á sviði öryggis- og varnarmála aukist á næstu missirum. Fyrirhugaðir eru fundir forseta og framkvæmdastjóra þinganna tveggja og verður þar m.a. rædd sú hugmynd að t.d. stjórnmálanefnd NATO-þingsins fundi árlega með þeirri nefnd Evrópuþingsins sem fjallar um öryggismál. Loks kom fram tillaga frá flokkahópi frjálslyndra þess efnis að varaforsetum þingsins yrði fjölgað úr fjórum í fimm og var samþykkt að skipa fulltrúa flokkahópanna og fulltrúa Bandaríkjanna (sem ekki taka þátt í starfi flokkahópanna) í vinnuhóp til að leggja grunn að frekari umfjöllun um málið á næsta þingi.
    Þingfundinn ávörpuðu Wim Kok, forsætisráðherra Hollands, Robertson lávarður, framkvæmdastjóri NATO, og Javier Ruperez, forseti NATO-þingsins. Ályktanir málefnanefndanna voru ræddar og samþykktar, sem og fjárlagadrögin fyrir árið 2000 og yfirlýsing stjórnarnefndar um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi. Loks voru rædd og afgreidd ályktunardrög þingfundar um íhlutanir bandalagsins í málefni ríkja af mannúðarástæðum.

Alþingi, 31. jan. 2000.



Tómas Ingi Olrich,


form.


Guðmundur Árni Stefánsson,


varaform.


Jón Kristjánsson.




Fylgiskjal I.


Yfirlýsingar og ályktanir NATO-þingsins árið 1999.


Vorfundur, 27.–31. maí:
     1.      Yfirlýsing nr. 292 um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi.
     2.      Yfirlýsing nr. 293 um Kosovo.

Ársfundur 11.–15. nóvember:
     1.      Yfirlýsing nr. 294 um Kosovo.
     2.      Yfirlýsing nr. 295 um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi.
     3.      Ályktun nr. 286 um íhlutanir NATO í málefni ríkja af mannúðarástæðum.
     4.      Ályktun nr. 287 um virðingu við alþjóðalög á sviði mannúðarmála.
     5.      Ályktun nr. 288 um Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum.
     6.      Ályktun nr. 289 um alþjóðasamning um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn.
     7.      Ályktun nr. 290 um uppbyggingu Kosovo og Suðaustur-Evrópu.
     8.      Ályktun nr. 291 um samskiptin við Rússland.
     9.      Ályktun nr. 292 um stöðu mála í Tsjetsjeníu.
     10.      Ályktun nr. 293 um sýklavopn.


Fylgiskjal II.


Almennt um NATO-þingið.


    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áhyggjuefni. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Undanfarin ár hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum fjölgað á þinginu og starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Þrettán ný lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu sem beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild og efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Með Rose-Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í þessum ríkjum (sjá nánar í b-lið).

a. Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu, en með tímanum jókst skilningur manna á því að nauðsyn væri á einhvers konar skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þingið hefur því enga formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að upplýsa þingmenn og efla samstöðu þjóðþinga á milli. Þingið gerir þingmönnum aðildarríkja bandalagsins, og nú einnig þingmönnum ríkja Mið- og Austur-Evrópu, kleift að koma á framfæri áhuga- og áhyggjuefnum ríkja sinna og fjalla um ráðandi viðhorf í ýmsum löndum og svæðum til mikilvægra sameiginlegra hagsmunamála. Fulltrúar á þingið eru kjörnir af þjóðþingum með aðferðum sem þjóðþingin ákveða. Þar endurspeglast því afar breitt svið pólitískra skoðana. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar að vori og ársfundar að hausti. Fundir eru haldnir í aðildarríkjunum til skiptis í boði þjóðþinganna.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, félagsmálanefnd, efnahagsnefnd og vísinda- og tækninefnd. Þessar nefndir eru bæði vinnuhópar og meginvettvangur umræðna. Þær rannsaka og fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra. Óski nefnd þess að gera ítarlega rannsókn á tilteknu máli getur hún kosið undirnefnd eða komið á fót vinnuhópi til að afla um það upplýsinga. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tillagna eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tillögum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða en ályktunum þingsins er beint til ríkisstjórna aðildarríkja.
    Þótt þingið sé óháð Atlantshafsbandalaginu hafa samskipti þingsins við bandalagið smám saman komist í fastari skorður og má þar m.a. nefna formlegt svar við tillögum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Atlantshafsráðsins, ávarp framkvæmdastjóra bandalagsins á haustfundum þingsins, aukafundi nefnda í Brussel í febrúar ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn bandalagsins og SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe C, æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og loks fundi forustumanna í þinginu og Atlantshafsráðsins til gagnkvæmra skoðanaskipta.

b. Samskiptin við ríki Mið- og Austur-Evrópu.
    Eins og Atlantshafsbandalagið sjálft hefur þingið endurskoðað hlutverk sitt í ljósi mikilla breytinga á alþjóðavettvangi. Þótt enginn vafi leiki á þörf fyrir bandalagið og hið einstæða samband sem það felur í sér milli þjóða beggja vegna Atlantshafs er nauðsynlegt að aðlagast nýjum aðstæðum. Umfram allt kallar þetta á fyrirkomulag í öryggismálum sem byggist á samvinnu og umræðum fremur en árekstrum. NATO-þingið (þá Norður-Atlantshafsþingið) hóf tilraunir til að koma á samskiptum við þjóðir Mið- og Austur-Evrópu árið 1987. Það var þó ekki fyrr en í nóvember 1990, á ársfundi í Lundúnum, að samskiptum þessum var komið í fastara form er þjóðþing Búlgaríu, Tékkóslóvakíu (nú Tékklands og Slóvakíu), Ungverjalands, Póllands og fyrrverandi Sovétríkjanna (nú Rússlands) fengu aukaaðild að þinginu. Síðan þá hafa þjóðþing Albaníu, Georgíu, Hvíta-Rússlands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Moldavíu, Rúmeníu, Slóveníu, Sviss og Úkraínu fengið aukaaðild að þinginu. Mikilvægi aukaaðildarinnar felst í því að hún veitir löggjöfum nýju lýðræðisríkjanna tækifæri til að taka virkan þátt í störfum þingsins.
    Þingið hefur einnig átt frumkvæði að öðrum áætlunum er varða Mið- og Austur-Evrópu. Í samræmi við áætlun sem sett var fram árið 1991 af tveimur bandarískum þingmönnum og nú fyrrverandi forsetum Norður-Atlantshafsþingsins, þeim Charlie Rose og William V. Roth Jr., beinir NATO-þingið nú kröftum sínum í ríkum mæli að því að efla þróun þingræðis í Mið- og Austur-Evrópu. Meginþátturinn í Rose-Roth áætluninni er röð námsstefna og ráðstefna um sérstök vandamál Mið- og Austur-Evrópulanda þar sem reynsla og þekking þingfulltrúa kemur að gagni og þingið getur lagt mikið af mörkum vegna sérstöðu sinnar sem fjölþjóðlegur umræðuvettvangur. Margar þessara námsstefna fjalla beint eða óbeint um samskipti hers og borgaralegra stjórnvalda, einkum um lýðræðisleg yfirráð yfir herafla. Þeim er ætlað að miðla upplýsingum og sérþekkingu sem nauðsynleg er til þess að tryggja virka þátttöku þjóðþinga í gerð varnaráætlana og taka ákvörðun um fjárveitingar til varnarmála og herafla. Frá upphafi áætlunarinnar og fram til ársloka 1999 höfðu verið haldnar 42 námsstefnur. NATO-þingið býður einnig starfsmönnum frá löndum Mið- og Austur-Evrópu til stuttra rannsóknardvala (í þrjá til sex mánuði) á skrifstofu þingsins í Brussel. Einnig hefur verið komið á laggirnar þjálfunaráætlun til þess að starfslið þjóðþinganna geti öðlast beina reynslu af starfsemi alþjóðlegra stofnana.
    Af margvíslegri starfsemi NATO-þingsins sem að framan er lýst má vera ljóst að þingið hefur bætt nýrri vídd við hefðbundið hlutverk sitt, sem er að hlúa að Atlantshafstengslunum.

c. Fulltrúar á NATO-þinginu og embættismenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 214 þingmenn. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn frá öldungadeild og fulltrúadeild bandaríska þingsins. Sendinefndir Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Bretlands skipa 18 þingmenn hverja. Kanada, Pólland, Spánn og Tyrkland senda 12 fulltrúa hvert ríki. Frá Belgíu, Grikklandi, Hollandi, Portúgal, Tékklandi og Ungverjalandi koma sjö frá hverju ríki. Danmörk og Noregur senda fimm fulltrúa hvort ríki og Ísland og Lúxemborg þrjá. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í öllum störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Aukaaðilar taka þátt í nefndarfundum og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt.
    Embættismenn þingsins eru sex og eru fimm þeirra kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi (forseti og fjórir varaforsetar). Sjötti embættismaðurinn er gjaldkeri þingsins en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár af stjórnarnefndinni. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti formenn allra sendinefndanna, forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndaformenn.

d. Fjármögnun.
    Starfsemi þingsins er fjármögnuð með framlögum þjóðþinga eða ríkisstjórna aðildarríkja. Framlög eru reiknuð á grundvelli þeirra viðmiða sem notuð eru við gerð fjárhagsáætlunar NATO um kostnað annan en herkostnað. Til þess að standa straum af hluta kostnaðar við árlegt þinghald greiðir NATO einnig framlag til þingsins ár hvert.


Fylgiskjal III.


NATO-ÞINGIÐ
Kemur saman á þingfundi tvisvar á ári, á vorfundi og ársfundi
Sendinefndir aðildarríkja

19 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins
214 þingmenn

Fjöldi þingsæta er í hlutfalli
við fólksfjölda
Aukaaðilar

Frá Albaníu, Búlgaríu, Eistlandi, Georgíu, Hvíta-Rússlandi,
Lettlandi, Litháen, Moldavíu, Rúmeníu, Rússlandi, Slóvakíu, Slóveníu, Sviss og Úkraínu

Hafa ekki atkvæðisrétt
Framkvæmdastjórn

Kosin árlega

Forseti, fjórir varaforsetar,
gjaldkeri, framkvæmdastjóri
Stjórnarnefnd

Formenn sendinefnda
Formenn nefnda

Hvert land hefur eitt atkvæði

Kemur saman þrisvar á ári
Nefndarfundir

Fimm nefndir:
Félagsmálanefnd
Varnar- og öryggismálanefnd
Efnahagsnefnd
Stjórnmálanefnd
Vísinda- og tækninefnd

Taka saman, ræða og greiða atkvæði um skýrslur og ályktanir

Mynda undirnefndir til
að rannsaka afmörkuð mál
og afla upplýsinga
Þingfundir

Greiða atkvæði um tillögur nefndanna fimm og um fjárhagsáætlun

Ræða afmörkuð málefni
sem ofarlega eru á baugi

Hlýða á ávörp gesta

Með þátttöku auka-
og áheyrnaraðila
Önnur starfsemi

Árleg kynnisferð til að skoða
hernaðarmannvirki og búnað

Námsstefnur og hringborðsumræður innan Rose-Roth áætlunarinnar