Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 678  —  417. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað.

Flm.: Þuríður Backman, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir aðgerðum til að veita bændum sérstakan aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað sambærilegan þeim sem veittur er annars staðar á Norðurlöndum.

Greinargerð.


    Í þingsályktun um aðlögun að lífrænum landbúnaði, sem samþykkt var á Alþingi 4. júní 1998, skoraði Alþingi á ríkisstjórnina að undirbúa viðeigandi breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni til þess að unnt yrði að veita bændum stuðning við aðlögun búskapar að lífrænum búskaparháttum. Í 6. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, sem einnig voru samþykkt á Alþingi 4. júní 1998, er m.a. lýst því markmiði að stuðla beri að framþróun lífrænna búskaparhátta. Landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Bændasamtök Íslands gerðu samning 5. mars 1999 um verkefni samkvæmt búnaðarlögum og framlög ríkisins til þeirra. Í samningnum er með tilvísun í 6. gr. búnaðarlaga Bændasamtökum Íslands heimilað að veita stuðning til lífrænnar ræktunar árin 1999–2003, nánar tiltekið til endurræktunar lands. Stuðningur mætti vera að hámarki 25.000 kr. á ha lands og 250 kr. á fermetra í gróðurhúsi. Um eingreiðslur er að ræða. Þá veitir ÁFORM — átaksverkefni, sem sem unnið er samkvæmt lögum nr. 27/1995, sauðfjárbændum stuðning til lífrænnar dilkakjötsframleiðslu, þ.e. 25.000 kr. til greiðslu kostnaðar við eftirlit og vottun á fyrsta ári aðlögunar (eingreiðsla). Auk þess eru greiddar 25 kr. á kg dilkakjöts sem er flutt út samkvæmt staðfestingu vottunarstofu. Þessi stuðningur var veittur haustin 1998 og 1999 og árið 1999 var farið að veita stuðning samkvæmt áðurnefndum búnaðarsamningi frá 5. mars 1999. Þótt þessar greiðslur stuðli að lífrænni ræktun og búskap eru þær ekki sambærilegar þeim stuðningi sem bændur sem eru að laga búskap sinn að lífrænum landbúnaði njóta annars staðar á Norðurlöndum. Hér er einkum um eingreiðslur að ræða en þar eru greiddir styrkir um nokkurra ára skeið. Hér á landi er eðlilegt að reikna með fimm til tíu ára aðlögunartíma og væri æskilegt að miða greiðslurnar við það.
    Samkvæmt ályktun búnaðarþings frá 1996 starfaði vinnuhópur með fulltrúum frá VOR, — verndun og ræktun — félagi framleiðenda í lífrænum búskap, og Bændasamtökum Íslands. Hann skilaði áliti til Bændasamtaka Íslands í nóvember það ár. Þar voru gerðar tillögur um stuðning við aðlögun að lífrænum búskap og tilgreint hvernig það yrði best gert að teknu tilliti til aðstæðna hérlendis. Þetta álit var haft til hliðsjónar við gerð áðurnefnds búnaðarsamnings og er birt í fylgiskjali með þingsályktunartillögu þessari þótt það sé orðið fjögurra ára gamalt.
    Búnaðarþing ályktaði aftur um stuðning við lífrænan búskap árið 1999 og taldi að stefna beri að því að vaxandi hluti landbúnaðarframleiðslunnar verði vottaður lífrænn, m.a. vegna möguleika á útflutningi lífræns dilkakjöts. Svipaðar skoðanir komu fram í skýrslu nefndar um útflutning dilkakjöts sem landbúnaðarráðherra skipaði sumarið 1999. Í skýrslunni, sem er frá 8. nóvember 1999, er greint frá því að náðst hafi allt að 25% hærra skilaverð til bænda fyrir lífrænt vottaða framleiðslu í útflutningi árin 1998 og 1999. Leggur nefndin til að í sjö ár verði veittar allt að 20 millj. kr. í fjárlögum hvers árs til þróunar og aðlögunarverkefna hjá bændum sem hefja lífræna framleiðslu dilkakjöts, einkum til útflutnings.
    Ljóst er að markaður fyrir lífrænt vottaðar vörur eykst stöðugt. Í fyrstu var einkum um að ræða grænmeti, ávexti og kornmeti en á seinni árum búfjárafurðir á borð við mjólk, egg og kjöt af ýmsum skepnum. Framleiðslukostnaður er nokkuð hærri en í hefðbundinni framleiðslu en á móti vegur hæsta afurðaverð. Lífrænn landbúnaður er vaxtarbroddur nýsköpunar sem hefur mjög jákvæða ímynd enda slíkir búskaparhættir í góðu samræmi við sjálfbæra þróun og virðingu fyrir jarðvegi, gróðri og búfé. Með meiri hvatningu og stuðningi gæti lífrænn landbúnaður jafnframt stuðlað að eflingu sveitabyggðar í landinu og úrvinnsluiðnaði. Þessi valkostur getur hentað sumum bændum. Nú vantar meira lífrænt dilkakjöt til útflutnings og innan lands er markaður fyrir grænmeti og fleiri lífrænar vörur. Því verður að teljast eðlilegt að aðlögunarstuðningur við þessa grein landbúnaðar verði a.m.k. jafnmikill og í öðrum norrænum ríkjum.


Fylgiskjal I.


Búnaðarþing 1999:

Ályktun.


Stuðningur við lífrænan búskap.


    Búnaðarþing felur stjórn Bændasamtaka Íslands að beita sér fyrir því að gerð verði framkvæmdaáætlun með markvissri stefnumótun um stuðning við lífrænan búskap og aðlögun að honum.

Greinargerð.


    Lífrænn búskapur er mjög að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum um þessar mundir. Hér á landi er þróunin hægari, en þó virðist markaðsstaða þessara afurða með þeim hætti að þeir frumkvöðlar, sem nú stunda lífrænan búskap, geta afsett þær á innanlandsmarkaði. Einnig virðast í augsýn möguleikar á útflutningi á lífrænu dilkakjöti.
    Þó að lífrænn búskapur sé, enn sem komið er, smár í sniðum hér á landi má búast við vaxandi eftirspurn eftir þessum afurðum.
    Búnaðarþing lítur svo á að marka beri farveg fyrir stuðning við þennan búskap og telur nauðsynlegt að hann njóti virðingar og skilnings meðal forustumanna bænda. Bent er á álit vinnuhóps, sem Bændasamtök Íslands og samtökin VOR stóðu að, til aðstoðar í þessu máli.
    Þingið styður það álit sem fram kemur í þingsályktunartillögu um framleiðslu íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar, um að stefna beri að því að vaxandi hluti landbúnaðarframleiðslunnar verði vottaður lífrænn.

                             Bjarni Guðráðsson.     Hilmar Össurarson.
                             Jón Benediktsson.     Kjartan Ólafsson.
                             Lárus Sigurðsson.     Sigþór Smári Borgarsson.



Fylgiskjal II.


STUÐNINGUR VIÐ AÐLÖGUN AÐ LÍFRÆNUM BÚSKAP


Áliti skilað til Bændasamtaka Íslands í nóvember 1996.



I. Inngangur.
    Grunnur að opinberri stefnumörkun fyrir lífrænan búskap hér á landi var lagður með lögum nr. 162/1994 og reglugerð nr. 219/1995, um lífræna landbúnaðarframleiðslu, svo og með lögum nr. 27/1995, um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistrænna og lífrænna afurða. Þá var skýrsla um faglega stöðu og horfur í lífrænum búskap lögð fram í landbúnaðarráðuneytinu 10. mars 1995, og að frumkvæði VOR – verndun og ræktun – félags bænda í lífrænum búskap, fjallaði búnaðarþing 1996 um stefnumótun í lífrænni landbúnaðarframleiðslu. Afgreiðsla búnaðarþings (mál nr. 42, þingskjal nr. 81) var eftirfarandi:

Ályktun.

    Búnaðarþing 1996 beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands að hún beiti sér fyrir því að komið verði á fót vinnuhópi með fulltrúum VOR, verndun og ræktun, sem er félag bænda í lífrænum búskap, er hafi það hlutverk að leggja fram tillögur að stuðningi til aðlögunar að lífrænum búskap.

Greinargerð.


    Fyrir dyrum stendur umræða um nýja löggjöf um búfjárrækt og jarðrækt og væri þá hægt að flétta þar inn í þeim atriðum er snúa að lífrænum búskap.“

II. Vinnuhópur.
    Í samræmi við framangreinda ályktun komu Bændasamtök Íslands vinnuhópi á fót, nánar tiltekið með bréfi dags. 7. maí 1996. Eftirtaldir voru skipaðir í hópinn: Ólafur R. Dýrmundsson (formaður), tilnefndur af BÍ, Guðfinnur Jakobsson, Skaftholti, tilnefndur af VOR, og Kristján Oddsson, Neðra-Hálsi, tilnefndur af VOR.
    Vinnuhópurinn tók strax til starfa og setti sér það markmið í upphafi að skila stjórn Bændasamtaka Íslands áliti haustið 1996 þar sem áhersla yrði lögð á tillögur að stuðningi til aðlögunar að lífrænum búskap, m.a. vegna endurskoðunar búfjár- og jarðræktarlaga. Haldnir voru fjórir fundir, einn í Skaftholti, einn á Neðra-Hálsi og tveir í Bændahöllinni en auk þess vann vinnuhópurinn að gagnasöfnun og athugun á ýmsum þáttum málsins á milli funda.
    Á miðju sumri hafði vinnuhópurinn mótað ákveðnar hugmyndir. Með bréfi til Bændasamtaka Íslands dags. 31. júlí sl. lýsti hann sig reiðubúinn til að kynna þær hugmyndir fulltrúum BÍ í nefnd þeirri sem vinnur að endurskoðun búfjárræktar- og jarðræktarlaga. Í bréfinu var óskað eftir að kannaðar yrðu leiðir til að finna aðlögunarstyrkjum fyrir viðurkenndan lífrænan búskap stað í stuðningskerfi landbúnaðarins. Þá var bent á að í flestum nágrannalöndunum væru greiddir opinberir styrkir til aðlögunar að lífrænum landbúnaði sem skipta meginmáli við eflingu þessara búskaparhátta.

III. Gagnaöflun.
    Við störf sín kannaði vinnuhópurinn ýmis göng, bæði birt og óbirt, og er þeirra helstu getið í heimildaskrá. Ýmsar fyrirmyndir að aðlögunarstyrkjum fyrir lífrænan landbúnað er að finna í erlendum gögnum og einnig voru höfð til hliðsjónar innlend gögn sem málið varðar. Þá nýttust einnig ýmsar upplýsingar sem einstakir aðilar í hópnum höfðu aflað sér á ferðum erlendis. Má þar m.a. nefna upplýsingar sem formaður hópsins aflaði á fundi um lífræna landbúnaðarframleiðslu að Fokhol í Noregi 18.–19. janúar 1996 og á 11. vísindaráðstefnu og aðalfundi Alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM) í Kaupmannahöfn 10.–17. ágúst 1996.

IV. Niðurstöður.
a. Sérstaða lífrænnar framleiðslu.
    Eflingu lífrænnar ræktunar á seinni árum má í grófum dráttum rekja til vaxandi áhuga á umhverfisvernd, búfjárvernd og hollustuvörum sem framleiddar eru án margvíslegra hjálparefna. Reyndar er þessi þróun í góðu samræmi við þá stefnu að efla beri sjálfbæra þróun í hvívetna. Nú er almennt viðurkennt að bændur sem stunda lífrænan búskap taki á sig mun stærri hluta umhverfiskostnaðar en þeir sem stunda hefðbundinn búskap. Þótt markaðsverð sé oftast nokkru hærra fyrir lífrænt vottaðar vörur nægir það ekki til að vega á móti hærri framleiðslukostnaði á aðlögunartímanum því að bóndi sem leggur út í lífræna aðlögun með bú sitt þarf m.a. að kosta töluverðu til endurræktunar, breytinga á gripahúsum, aðlögunar vélakosts og standa auk þess straum af eftirlits- og vottunarkostnaði. Þá þarf að taka tillit til minni uppskeru á flatareiningu ræktaðs lands og minni afurða eftir hvern grip en í hefðbundnum búskap. Í flestum nágrannalöndum okkar, sem einnig eru og verða væntanlega í ríkari mæli samkeppnisaðilar á matvælamarkaði, eiga bændur kost á sérstökum aðlögunarstyrkjum fyrir lífrænan búskap, auk ýmissa annarra umhverfis- og byggðatengdra styrkja. Þeir eru taldir koma þjóðfélaginu í heild til góða. Í Evrópusambandinu myndar reglugerð 2078/92 grundvöll undir stuðning við lífrænan búskap. Því má við bæta að þróun lífræns landbúnaðar er það skammt á veg komin hérlendis að bændur, sem eru að eða munu á næstu árum tileinka sér viðurkennda lífræna búskaparhætti, eru frumkvöðlar, og felur aðlögunin í sér öflun þekkingar og reynslu sem nýtist við rannsóknir, kennslu og leiðbeiningar á komandi árum. Með framangreindar röksemdir í huga telur vinnuhópurinn réttmætt og eðlilegt að sérstaða lífræns búskapar verði viðurkennd opinberlega með sérstökum aðlögunarstuðningi og jafnframt verði afurðirnar flokkaðar sem sérvörur, t.d. með tilliti til framleiðslustjórnunar fyrir kindakjöt og mjólk. Jafnframt er minnt á að í eflingu lífræns landbúnaðar felst nýsköpun, meiri atvinnusköpun en í hefðbundnum landbúnaði og þar með vænleg leið til að treysta byggð og búsetu í sveitum landsins. Vottaðir lífrænir búskaparhættir uppfylla þar að auki ströngustu kröfur til umhverfis- og búfjárverndar og eru þannig í góðu samræmi við ríkjandi sjónarmið varðandi þau efni.

b. Skilyrði fyrir aðlögunarstuðningi.
    Nauðsynlegt er að kveða skýrt á um hverjir eigi rétt á stuðningi við aðlögun að lífænum búskap og hve lengi og leggur vinnuhópurinn til að eftirfarandi reglur verði lagðar til grundvallar:
     1.      Bóndinn skal hafa undirritað samning um aðlögun að lífrænum búskap við viðurkennda vottunarstofu í samræmi við lög nr. 162/1994 og reglugerð nr. 219/1995, um lífræna landbúnaðarframleiðslu.
     2.      Miða skal við hámarks 10 ára aðlögunartíma með fullum styrk og 5 ár eftir að aðlögun lýkur með hálfum styrk. Bóndi sem leggur niður lífræna búskaparhætti innan 5 ára frá upphafi viðurkenndrar aðlögunar skal endurgreiða alla aðlögunarstyrki að viðbættum vöxtum. Undanþegnir eru bændur sem bregða búi eða selja jarðir sínar á aðlögunartímanum, svo fremi að vottuðum lífrænum búskap sé haldið áfram á viðkomandi jörð.
     3.      Bóndanum er skylt að sækja viðurkennt námskeið í lífrænum búskap, að lágmarki 15 kennslustundir, í samræmi við 46. gr. reglugerðar nr. 219/1995, um lífræna landbúnaðarframleiðslu. Bændur sem lokið hafa aðlögun eru undanþegnir þessari skyldu. Allir bændur í lífrænum búskap skulu eiga kost á að sækja slík námskeið.

c. Viðmiðanir fyrir beinan aðlögunarstuðning.
    Vinnuhópurinn hefur m.a. kynnt sér hið flókna stuðningskerfi Evrópusambandsins og komist að þeirri niðurstöðu að heppilegra sé að setja upp einfaldar viðmiðanir og ekki fleiri en nauðsyn krefur miðað við íslenskar aðstæður. Lagt er til að eftirfarandi reglur verði lagðar til grundvallar:

1. Lífræn ræktun.
    (i)     Fast framlag á hvern hektara ræktaðs lands á ári.
    (ii)     Breytilegt framlag á hvern ha nýræktunar og endurræktunar hvers konar er greiðist eigi síðar en einu ári eftir að jarðvinnsla og sáning fór fram, samkvæmt úttekt lands- eða héraðsráðunautar.
    (iii)    Fast framlag á hvern m2 undir ræktun í gróðurhúsi á ári, bæði í upphituðum og köldum.

2. Lífrænt búfjárhald (þar með fiskeldi).
    Fast framlag á hvern grip eftir tegundum á ári nema í fiskeldi þar sem miðað er við afurðamagn eða aðra heppilega einingu.

3. Lífræn hlunnindi svo sem æðardúnn, fjallagrös, jurtir, söl, þangmjöl, sveppir, trjáafurðir, vatnasilungur, lax og hreindýraafurðir þar sem miðað er við afurðamagn eða aðra heppilega einingu. Aðlögunarstuðningur miðist einkum við eftirlits- og vottunarkostnað.
    Vinnuhópurinn leggur til að í sérstakri reglugerð verði reglur um slíkar viðmiðanir útfærðar nánar. Á þessu stigi þykir ekki fært að leggja fram ítarlegar tillögur um upphæðir framlaga en með hliðsjón af lífrænum styrkjum í samkeppnislöndum okkar eru settar fram eftirfarandi hugmyndir í samræmi við lið IV b:

25.000 kr. á hvern ha túns.
50.000 kr. á hvern ha nýræktunar og endurræktunar (sáðskipti, þar með grænfóður og korn).
25 kr. á hvern m 2 í garðlandi.
1.000 kr. á hvern m 2 í skjólbelti.
1.000 kr. á hvern m 2 í upphituðu gróðurhúsi á ári.
50 kr. á hvern m 2 í köldu gróðurhúsi á ári.
30.000 kr. á hverja mjólkurkú á ári.
2.000 kr. á hverja á á ári.

    Þetta er fullur styrkur miðað við hámarks 10 ára aðlögunartíma en í 5 ár að lokinni aðlögun eru greidd 50% framlagsins, sbr. lið b 2 hér að framan.

Dæmi um blandað bú í aðlögun:

50 ha tún x 25.000 kr. á ha á ári, þar af 8 ha á ári x 50.000
1.250.000 kr.
til endurræktunar og sáðskipta
400.000 kr.
20 mjólkurkýr x 30.000 kr. á ári
600.000 kr.
100 ær x 2.000 kr. á ári
200.000 kr.
Samtals
2.50.000 kr.

d. Annar stuðningur við aðlögun.
     1.      Lánafyrirgreiðsla á sérstökum kjörum vegna fjárfestingar í tengslum við aðlögun, svo sem vegna bygginga og véla.
     2.      Beinar styrkveitingar til ákveðinna verkefna, svo sem vegna tilrauna, leiðbeininga og endurmenntunar.
     3.      Bændur sem vilja fara út í lífrænan búskap njóti forgangs þegar ríkisjörðum og jarðeignum sveitarfélaga er ráðstafað til leigu eða sölu.
     4.      Aukning kvóta til mjólkurframleiðslu vegna framleiðslu sérvara.
     5.      Sérstök endurgreiðsla kjamfóðurgjalda, einkum vegna alifugla- og svínaræktar.
     6.      Lífrænt vottað kindakjöt og kindakjöt vottað „lífrænt í aðlögun“ verði undanþegið útflutningsskyldu og/eða útflutningsgjaldi með viðeigandi breytingum á 2. gr. reglugerðar um útflutning á kindakjöti, nr. 422/1996.

V. Lokaorð.
    Erlendar upplýsingar sýna að sú gróska sem verið hefur í aðlögun að lífrænum búskap síðan um 1990 víða um lönd er í beinum tengslum við aðlögunarstyrki. Þessi þróun er liður í fráhvarfi frá hefðbundnum framleiðslutengdum stuðningi til umhverfistengds stuðnings við landbúnað. Um er að ræða allumfangsmiklar búháttabreytingar og nýsköpun sem leiðir til framleiðslu sérvara í hæstu gæða- og verðflokkum. Ljóst er að samkeppnisstaða bænda sem nú framleiða lífrænt vottaðar búvörur hér á landi er ekki sambærileg þeirri sem bændur njóta í nágrannalöndunum. Slíkt skiptir máli bæði varðandi útfluttar og innfluttar vörur. Vinnuhópurinn telur brýnt að sérstökum stuðningi við aðlögun að lífrænum búskap verði fundinn staður í landbúnaðarlöggjöfinni og í kjölfarið verði fjármagn tryggt og skýrar reglur settar um styrkveitingar til bænda. Þótt til greina komi að gera viðeigandi breytingar á búfjárræktar- og jarðræktarlögum bendir vinnuhópurinn þó sérstaklega á lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994. Ef til vill er heppilegra að fella ákvæði um stuðning við aðlögun að lífrænum búskap inn í þau lög þar sem um sérstakar afurðir er að ræða. Að áliti vinnuhópsins gæti komið til greina að sérstakar kvaðir um náttúruvernd og landbætur verði tengdar aðlögunarstyrkjum fyrir lífrænan búskap, svo sem vegna uppgræðslu og verndunar votlendis. Vegna hinna jákvæðu áhrifa lífrænnar ræktunar og búskapar á umhverfi og vistkerfi má færa gild rök fyrir því að hluti umhverfisgjalda, sem áformað er að innheimta í ríkissjóð, verði varið til eflingar lífrænna búskaparhátta í landinu, enda liður í sjálfbærri þróun sem reyndar er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.

VI. Heimildaskrá.
     1.      Impact of EC Regulation 2078/92 on the development of organic farming in the European Union eftir dr. Nicolas Lampkin, Aberystwyth, Wales. Fjölrit 26 bls. frá málþingi um lífrænan landbúnað í Vignola á Ítalíu, 6.–8. júní 1996 (til í íslenskri þýðingu að hluta).
     2.      The Economics of Organic Farming. An International Perspective. Ritstjórar: Dr. Nicolas Lampkin og Susanne Padel, Aberystwyth, Wales. Útgefandi CAB International 1994. (ISBN 0 85198 911 X, 468 bls. bók.)
     3.      Skýrsla um fund um lífræna landbúnaðarframleiðslu, einkum með tilliti til þróunar eftirlits- og vottunarkerfa á Norðurlöndunum eftir dr. Ólaf R. Dýrmundsson. Fundurinn var haldinn að Fokhol, Stange í Noregi, 18.–19. janúar 1996. Fjölrit, 9 bls.
     4.      Vistfræðistofan. Lífræn íslensk vottun, Reykjavík. Verðskrá, 1996.
     5.      Vottunarstofan Tún, Vík í Mýrdal. Gjaldskrá fyrir eftirlits- og vottunarþjónustu, 1996.
     6.      Down to earth — and further afield. Programme and Abstracts. 11th IFOAM International Scientific Conference, 11.–15. ágúst 1996, Kaupmannahöfn. (210 bls. hefti.)
     7.      Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins. Beingreiðslur og styrkir til bænda, Bretland og þá einkum Skotland, eftir Ketil A. Hannesson. Fjölrit, 28 bls., október 1996. Bændasamtök Íslands.
     8.      Tillaga til þingsályktunar um aðlögun að lífrænum landbúnaði. Alþingi 1996, 121. löggjafarþing, 83. mál, þskj. 84. Flm.: Þuríður Backman, Egill Jónsson, Gísli S. Einarsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristín Ástgeirsdóttir.