Ferill 335. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 679  —  335. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða.

     1.      Hvernig gengur vinna nefndar sem endurmeta á átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða?
    Ekki er kunnugt um að skipuð hafi verið nefnd er hafi þetta hlutverk.

     2.      Er ljóst hvort um framhald átaksverkefnisins verður að ræða?
    Fé var veitt til verkefnisins á fjárlögum ársins 2000 og fyrir Alþingi liggur frumvarp landbúnaðarráðherra um að verkefninu verði einnig tryggt starfsfé árin 2001 og 2002.
    Óráðstafað fé verkefnisins nam 10.052.705 kr. 31. desember sl. Vegna þeirrar óvissu sem ríkti á síðasta ári um framhald fjármögnunar átaksverkefnisins og áhvílandi skuldbindinga ákvað stjórn þess að fara varlega í að stofna til frekari fjárskuldbindinga þar til niðurstaða um fjármögnun lægi fyrir.

     3.      Hvaða verkefni voru unnin og/eða stofnað til í nafni átaksverkefnisins árin 1997, 1998 og 1999 og hver var kostnaður við hvert verkefni?

Kostnaður/ framlög, kr.*
Verkefni 1997
Þátttaka í sýningu á lífrænum framleiðsluvörum, „Bio Fach 1997“, í Frankfurt
1.249.202
Þátttaka í öðrum sýningum
790.571
Útgáfa á kynningarbæklingi fyrir dilkakjöt
177.014
Stuðningur við ferð bænda og sérfræðinga á sýninguna „Bio Fach“ í Frankfurt
400.000
Tilraunir með lífræna ylrækt
1.692.130
Endurvinnsla lífræns úrgangs til áburðarframleiðslu
1.000.000
Rannsókn á snefilefnum í íslenskum matvælum
500.000
Stuðningur við vottunarstofur vegna kynningar og uppbyggingar vottunarkerfis
1.050.000
Framleiðsla á ófitusprengdri lífrænni mjólk
200.000
Könnun á möguleikum til lífrænnar sauðfjárframleiðslu á Vestfjörðum
250.000
Rannsóknir á lúpínu o.fl. lækningajurtum á vegum HÍ
400.000
Markaðsfærsla á dilkakjöti í Bandaríkjunum
750.000
Tilraunir með lífræna fóðurframleiðslu hjá bændum í Mýrdal
1.300.000
Styrkur til lífrænnar fræðslumiðstöðvar að Sólheimum í Grímsnesi
450.000
Gerð kynningarefnis vegna sölu á dilkakjöti í Danmörku
1.572.712
Tilraunir með fóðrun mjólkurkúa á íslensku byggi
130.000
Tilraun með ræktun lúpínu sem beitarjurtar
1.250.000
Stofnun fagráðs í lífrænni framleiðslu
250.000
Verkefni 1998
Undirbúningur vottunarkerfis fyrir sjávarafurðir og eldisfisk
998.752
Útgáfa kynningarbæklings (endurprentun)
158.115
Kynning á lífrænu lambakjöti
70.000
Markaðssetning á dilkakjöti í Bandaríkjunum
2.120.000
Markaðssetning á lífrænu dilkakjöti í Bretlandi
260.000
Rannsókn á efnainnihaldi og gæðum íslensks grænmetis
750.000
Tilraunir til að bæta notkun búfjáráburðar
500.000
Samantekt á niðurstöðum tilrauna með lífræna fóðurframleiðslu
200.000
Mat á gróðurlendi vegna vistvænnar vottunar
500.000
Rannsókn HÍ á lúpínu o.fl. lækningajurtum
400.000
Kynnisferð lífrænna ræktenda til Hollands og Bretlands
250.000
Tilraunir með lífræna ylrækt
1.000.000
Kynning á vörum úr íslenskum heilsujurtum
200.000
Áburðartilraunir í lífrænni ylrækt
428.000
Tilraunir með lífræna fóðurframleiðslu hjá bændum í Mýrdal
1.300.000
„Going Organic“ kynning á Íslandi og íslenskum búvörum í Iceland Review
949.000
Markaðssetning á lífrænum heilsuvörum
280.000
Styrkur til bænda í lífrænni sauðfjárframleiðslu vegna vottunarkostnaðar
125.000
Tilraunir með íslenskar lækningajurtir
500.000
Gerð kynningarefnis vegna markaðssetningar á dilkakjöti í Danmörku
1.427.288
Verkefni 1999
Rannsóknir HÍ á lúpínu o.fl. lækningajurtum
800.000
Tilraunir með lífræna berjarækt
260.000
Hreinsunarátak Græna hersins
1.245.000
Kynning á grillkjöti
500.000
Gerð kynningarefnis vegna markaðssetningar á dilkakjöti
300.000
Tilraunir með fóðurframleiðslu fyrir lífræna mjólkurframleiðslu
1.250.000
Kynning á „Global Action Plan“ á Íslandi
500.000
Kynning á dilkakjöti og íslensku handverki í Færeyjum
400.000
Markaðsáætlun fyrir framleiðslu og sölu fæðubótarefna úr íslenskum lækningajurtum
622.500
Kynning á íslenskum matvælum í sjónvarpi
300.000
Styrkur til bænda í lífrænni sauðfjárframleiðslu vegna vottunarkostnaðar
100.000
Samantekt á niðurstöðum tilrauna með lífræna fóðuröflun
200.000
Rannsóknir á magni kadmíums í jarðvegi á Íslandi
400.000
* Einungis eru tilgreind bein framlög/kostnaður Áforms við einstök verkefni. Flest verkefnin eru unnin í samvinnu við aðra aðila. Ekki eru tiltækar upplýsingar um framlög/kostnað þeirra aðila vegna viðkomandi verkefna.

     4.      Hve miklum fjármunum var í heild varið til reksturs átaksverksefnisins árin 1997, 1998 og 1999, sundurliðað, sbr. 8. lið í svari á þskj. 1132 frá 121. löggjafarþingi, og hver er fjárhagsstaða verkefnisins nú?
1997 1998 1999
Verkefnisstj. (verktakagreiðslur) 3.839.993 4.730.568 4.531.128
Skrifstofuaðstoð 720.000 871.200 871.200
Stjórnarlaun 1.197.487 1.522.493 1.469.717
Ferðakostn. stjórnar* 1.168.813 943.103 923.524
Annar ferðakostnaður 1.319.457 1.003.612 1.258.207
Ráðstefnur og fundir 61.433 12.950 0
* Hafa þarf í huga að allir stjórnarmenn Áforms eru búsettir utan höfuðborgarsvæðisins.
     5.      Hver var þátttaka Framleiðnisjóðs landbúnaðarins eða annarra í átaksverkefninu árin 1997, 1998 og 1999?
    Eins og fram kemur í svari við 3. lið eru flest verkefni sem Áform hefur haft forgöngu um eða styrkt unnin í samstarfi við aðra aðila. Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur árin 1995– 1999 lagt fram 26.785.000 kr. til slíkra verkefna. Ekki er kunnugt um hve mikið fé aðrir aðilar hafa lagt fram.

     6.      Að hve miklu leyti hefur átakið snúist um aðrar afurðir en dilkakjöt?
    Sjá svar við 3. lið.

     7.      Hefur einhver ályktun verið dregin af reynslunni af átaksverkefninu er varðar annars vegar vistvæna framleiðslu og hins vegar lífræna framleiðslu?
    Árangur af starfi verkefnisins lýsir sér fyrst og fremst í þeirri róttæku breytingu sem orðið hefur á sl. fimm árum á viðhorfum manna til gæðastýringar í landbúnaði og skilningi og þekkingu á þeim kröfum sem gerðar eru til vara á hágæðamörkuðum og hversu mönnum er unnt að mæta þeim kröfum. Árangur verkefnisins verður hins vegar ekki að svo komnu mældur í tölulegum upplýsingum um atvinnusköpun, magn seldra afurða og verðmæti. Á hinn bóginn hefur verkefnið með starfi sínu stuðlað að því að nú eru fyrir hendi forsendur til þess að hefja nýja sókn í framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða.     Viðhorfsbreyting sú sem hér um ræðir birtist m.a. þannig:
          Starfshópur á vegum landbúnaðarráðherra lagði til árið 1998 að stefnt yrði að því að allar íslenskar búvörur fengju vistvæna eða lífræna vottun.
          Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að unnið skuli að framgangi þessara tillagna starfshópsins á næstu fimm árum.
          Alþingi samþykkti í mars 1999 ályktun um að stefna beri að því að öll hefðbundin matvælaframleiðsla á Íslandi verði vottuð á forsendum sjálfbærrar þróunar. Jafnframt skuli stefnt að því að auka hlut lífrænt ræktaðra landbúnaðarafurða.
          Í nýjum samningi milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands, samkvæmt búnaðarlögum, nr. 70/1998, er í fyrsta sinn gert ráð fyrir framlögum vegna aðlögunar að lífrænni og vistvænni framleiðslu.
          Búnaðarþing 1999 fól stjórn Bændasamtaka Íslands að beita sér fyrir því að gerð verði framkvæmdaáætlun með markvissri stefnumótun um stuðning við lífrænan búskap og aðlögun að honum.
          Í ályktun aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda 1999 er lagt til að fundið verði fjármagn til að styrkja bændur sem vilja og geta stundað lífrænt vottaða framleiðslu.
          Umræður eru hafnar um vottun íslenskra sjávarafurða sem vistvænna á grundvelli þeirrar verndarstefnu sem fólgin er í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.
          Á vegum Bændasamtaka Íslands er unnið að því að koma á gæðastýringu í íslenskum landbúnaði sem er forsenda vistvænnar og lífrænnar vottunar.
    Stærstur hluti þess fjár sem varið hefur verið til verkefna á síðustu fimm árum hefur runnið til markaðsathugana. Enda þótt íslenskar landbúnaðarafurðir, einkum dilkakjöt, hafi verið fluttar út í nokkru magni í áratugi hefur lítil markaðsþekking byggst upp. Frá árinu 1992 hafa nýjar áherslur í útflutningi dilkakjöts hins vegar rutt sér til rúms. Hlutfall stykkjaðrar vöru fer sífellt vaxandi, svo og hlutfall vöru í neytendapakkningum. Aukin þekking og öryggi hvað varðar pökkunaraðferðir, umbúðir og flutninga hefur myndast. Fyrir forgöngu Áforms hefur á síðustu árum verið unnið markvisst að markaðssetningu íslensks dilkakjöts á framangreindum forsendum með góðum árangri. Mikil reynsla hefur fengist og þekking á nauðsynlegum vinnubrögðum og vöruvöndun. Unnið hefur verið að því að finna markhópa sem sækjast eftir eiginleikum íslenska dilkakjötsins og eru tilbúnir til að greiða mun hærra verð fyrir það en hliðstæða vöru. Þeim viðskiptatengslum, sem þannig hefur verið lagður grunnur að, hafa útflutningsfyrirtækin síðan fylgt eftir. Með þessu starfi hefur útflutningur á íslensku dilkakjöti þróast í útflutning á sérstæðri vöru sem löguð er að óskum kaupenda og er ferskt dilkakjöt nú selt á erlendum mörkuðum á sama verði og best gerist.
    Af ráðstöfunarfé verkefnisins hefur verið varið um 21,5 millj. kr. til rannsókna af ýmsu tagi. Þar eru fyrirferðarmestar rannsóknir sem lúta að fóðuröflun fyrir lífræna sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu, rannsóknir í lífrænni ylrækt, rannsóknir á gæðum og efnainnihaldi íslensks dilkakjöts og grænmetis og rannsóknir á íslenskum lækningajurtum. Niðurstöður þessara rannsókna skapa forsendur til nýrrar sóknar á mörgum sviðum. Niðurstöður rannsókna á gæðum og efnainnihaldi dilkakjöts og grænmetis geta haft og hafa þegar haft mikla þýðingu við markaðssetningu þessara afurða. Þannig hafa niðurstöður rannsókna sem leiða í ljós áberandi hreinleika íslensks grænmetis umfram innflutt orðið til þess að styrkja markaðsstöðu þess í samkeppni við innflutt grænmeti. Rannsóknir Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands á íslenskum lækningajurtum hafa leitt í ljós að í sumum þessara jurta eru verðmæt efni sem hugsanlegt er að nýta við framleiðslu lyfja og fæðubótarefna. Í undirbúningi er stofnun fyrirtækis til þess að kanna nánar möguleika á framleiðslu og vinnslu á þessu sviði.
    Á starfstíma verkefnisins hefur um 29,4 millj. kr. verið varið til verkefna og styrkja á sviði lífrænnar framleiðslu. Þróun lífrænna framleiðsluhátta hefur verið mjög hæg hér á landi og er ástæðan m.a. sú að skort hefur rannsóknarniðurstöður varðandi möguleika á lífrænni fóðuröflun og varðandi sölumöguleika og verðlag á afurðum. Með þeim rannsóknum sem Áform hefur gengist fyrir síðustu fimm ár, í samvinnu við þrjá bændur í Mýrdal, tvo sauðfjárbændur og einn mjólkurframleiðanda, Bændasamtök Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins, hafa fengist mikilvægar upplýsingar um möguleika til lífrænnar fóðuröflunar við íslenskar aðstæður. Að fengnum niðurstöðum þessara rannsókna og tilruna er hafin víðtæk könnun á því á hvaða jörðum á landinu eru möguleikar til lífrænnar sauðfjárræktar, með tilliti til aðstæðna til fóðuröflunar. Þá hefur markaðssetning Kjötumboðsins hf. og Sláturfélags Suðurlands svf. á lífrænu dilkakjöti í Bretlandi og Danmörku gefið mikilvægar upplýsingar um sölumöguleika þessara afurða, hvaða verð fæst fyrir þær og þar með svör við því hvaða afkomumöguleikar eru í þessari framleiðslu. Svipað má segja um niðurstöður tilraunar með framleiðslu lífrænnar mjólkur. Þá hefur Áform síðustu þrjú ár styrkt tilraun með lífræna ylrækt á tómötum og agúrkum í samvinnu við Þórð Halldórsson, bónda á Akri í Biskupstungum, Garðyrkjuskólann á Reykjum og Samband garðyrkjubænda. Niðurstöður þessara tilrauna hafa leitt í ljós að árangur í þessari ræktun er síst lakari en í hefðbundinni ylrækt og markaðsmöguleikar góðir.
    Að fengnum framangreindum rannsóknaniðurstöðum og markaðsathugunum hefur myndast sá grundvöllur sem hingað til hefur skort fyrir víðtækt kynningar- og fræðsluátak meðal bænda um möguleika lífrænnar framleiðslu við íslenskar aðstæður.

     8.      Að hvaða verkefnum er unnið á þessu ári í nafni átaksverkefnisins?
    Meginviðfangsefni verkefnisins á þessu ári er að fylgja eftir þeim árangri sem þegar hefur náðst í starfi verkefnisins, m.a. með víðtækri kynningu og hvatningu meðal bænda til að taka upp vistvæna og lífræna framleiðsluhætti, öflugu fræðsluátaki fyrir bændur og leiðbeinendur í landbúnaði, framhaldi rannsókna á lækningajurtum og mögulegri nýtingu þeirra til framleiðslu á fæðubótarefnum, áframhaldandi stuðningi við rannsóknir á sviði lífrænnar framleiðslu og markaðssetningu afurða á grundvelli fenginna rannsóknarniðurstaðna.