Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 683  —  420. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, og á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti.
1. gr.

    Inngangsmálsliður 2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Lög þessi, að undanskildum ákvæðum IV. kafla um meðferð trúnaðarupplýsinga og V. kafla um samningsbundið uppgjör, taka ekki til.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      4. tölul. orðast svo: Almennt útboð: Sala samkynja verðbréfa sem boðin eru almenningi til kaups í fyrsta sinn með almennri og opinberri auglýsingu eða kynningu með öðrum hætti sem jafna má til opinberrar auglýsingar.
     b.      Við greinina bætast sex nýir töluliðir, svohljóðandi:
        17.     Afleiðusamningur: Samningur þar sem uppgjörsákvæði byggist á breytingu einhvers þáttar, svo sem vaxta, gengis, gjaldmiðla, hlutabréfagengis, hlutabréfavísitölu eða verðs á hráefni. Andvirði slíks samnings er háð breytingu þessara viðmiðunarþátta á tilteknu tímabili.
        18.     Framvirkur vaxtasamningur: Afleiðusamningur sem kveður á um vaxtaviðmiðun á ákveðnu tímabili og reiknast vextir af fyrir fram ákveðinni grunnfjárhæð sem ekki kemur til greiðslu á. Samningurinn er gerður upp í lok samningstímans á fyrir fram ákveðnum uppgjörsdegi.
        19.     Valréttarsamningur: Afleiðusamningur sem veitir öðrum samningsaðila, kaupanda, rétt en ekki skyldu til að kaupa (kaupréttur) eða selja (söluréttur) tiltekna eign (andlag samnings) á fyrir fram ákveðnu verði (valréttargengi) á tilteknu tímamarki eða innan tiltekins tíma (afhendingardagur). Sem endurgjald fyrir þennan rétt fær hinn samningsaðilinn, útgefandinn, ákveðið gjald sem segir til um markaðsvirði valréttarsins við upphaf samningstímans.
        20.     Framvirkur samningur: Afleiðusamningur sem kveður á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tiltekna eign fyrir ákveðið verð á fyrir fram ákveðnum tíma í framtíðinni.
        21.     Vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningur: Afleiðusamningur sem kveður á um vaxta- og/eða gjaldmiðlaskipti, þ.e. að samningsaðilar skiptist á höfuðstól tveggja mynta á ákveðnu gengi í framtíðinni og/eða vaxtagreiðslum yfir ákveðið tímabil.
        22.     Samningsbundið uppgjör afleiðusamninga: Samningur á milli tveggja eða fleiri aðila sem eiga fleiri en eina kröfu hver á annan um að í stað þess að gera upp hverja kröfu fyrir sig sérstaklega skuli láta kröfurnar jafnast hverja á móti annarri og aðeins mismunurinn (jaðargreiðsla) komi til greiðslu.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      4. tölul. 1. mgr. orðast svo: Framkvæmdastjóri fyrirtækisins fullnægi skilyrðum 2. og 3. málsl. 3. tölul.
     b.      6. tölul. 1. mgr. orðast svo: Verðbréfamiðlun skv. 9. gr. setji tryggingu fyrir tjóni sem hún kann að baka viðskiptavinum sínum í starfsemi sinni. Nánari ákvæði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála að öðru leyti skulu sett með reglugerð.

4. gr.

    11. gr. laganna verður 2. mgr. 10. gr. laganna.

5. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem verður 11. gr., svohljóðandi:
    Starfsmenn fyrirtækis í verðbréfaþjónustu, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf skv. 8. og 9. gr., skulu hafa staðist próf í verðbréfamiðlun samkvæmt prófkröfum sem settar eru í reglugerð.
    Í tengslum við veitingu starfsleyfis og jafnskjótt og breytingar verða ber fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsmenn skv. 1. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

6. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart viðskiptamönnum sínum í starfsemi sinni og ber þeim ávallt að haga störfum sínum þannig að viðskiptamenn njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör í verðbréfaviðskiptum. Skulu viðskiptamönnum, að teknu tilliti til þekkingar þeirra, veittar greinargóðar upplýsingar um þá kosti sem þeim standa til boða.
    Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu sýna fram á að 1. mgr. sé fylgt og að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra með skýrum aðskilnaði einstakra starfssviða þeirra. Fjármálaeftirlitið skal staðfesta reglur fyrirtækjanna sem miða að þessu. Í reglunum skal gera sérstaka grein fyrir eftirliti innan fyrirtækisins með því að þeim sé fylgt. Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar viðskiptamönnum.
    Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi fyrirtækja í verðbréfaþjónustu skal þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi og þjónustu fyrirtækjanna.

7. gr.

    20. gr. laganna orðast svo:
    Almennt útboð verðbréfa, annarra en ríkisskuldabréfa, skuldabréfa með ríkisábyrgð og ríkisvíxla, skal fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja skv. 8. gr. eða annarra aðila sem til þess hafa heimild í lögum. Í reglugerð sem ráðherra setur skal kveða nánar á um almennt útboð verðbréfa, svo sem um gerð útboðsgagna og aðdraganda útboðs, tilkynningar um almennt útboð, reglur um fyrsta söludag almennra útboða og tilkynningar verðbréfafyrirtækja og annarra aðila, sem hafa milligöngu um almennt útboð, um heildarsölu verðbréfa í almennu útboði.

8. gr.

    21. gr. laganna orðast svo:
    Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skal vegna eigin viðskipta með verðbréf sem því eru falin til sölu og vegna viðskipta eigenda virkra eignarhluta skv. 12. gr., stjórnenda, starfsmanna og maka framangreindra aðila meðal annars gæta eftirtalinna atriða:
     a.      að fyllsta trúverðugleika fyrirtækisins sé gætt,
     b.      að ýtrustu hagsmuna ótengdra viðskiptavina sé gætt,
     c.      að fullur trúnaður ríki gagnvart ótengdum viðskiptavinum,
     d.      að tryggt sé að viðskiptin stangist ekki á við IV. kafla þessara laga,
     e.      að viðskiptin séu sérstaklega skráð,
     f.      að stjórn fyrirtækisins fái kerfisbundnar upplýsingar um viðskiptin og staðfesti þau.
    Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu setja sér reglur um viðskipti skv. 1. mgr. og skulu þær staðfestar af Fjármálaeftirlitinu. Fyrirtæki ber að gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir frávikum frá ákvæðum reglnanna. Þær skulu vera aðgengilegar viðskiptamönnum.

9. gr.

    2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
    Um heimildir framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna fyrirtækisins varðandi þau atriði sem í 1. mgr. greinir fer eftir reglum sem stjórn fyrirtækisins setur og bankaeftirlitið staðfestir.

10. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna orðast svo: Tilkynningar til kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan, sbr. lög um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

11. gr.

    Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, V. KAFLI, Samningsbundið uppgjör afleiðusamninga, með þremur nýjum greinum, svohljóðandi, og breytist töluröð annarra kafla og greina samkvæmt því:

    a. (32. gr.)
    Ákvæði þessa kafla taka til framvirkra vaxtasamninga, vaxta- og gjaldmiðlavalréttarsamninga, framvirkra vaxta- og gjaldmiðlasamninga, vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamninga og annarra afleiðusamninga með gjaldmiðla og vexti.
    Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að þessi kafli skuli einnig gilda um aðra afleiðusamninga.

    b. (33. gr.)
    Skriflegur samningur, einn eða fleiri, milli tveggja aðila um að skyldur þeirra samkvæmt samningum þeim sem nefndir eru í 32. gr. skuli jafnast hver á móti annarri, með skuldajöfnun, við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti, skal halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

    c. (34. gr.)
    Tryggingarréttindum vegna samninga sem nefndir eru í 32. gr. sem sett eru til tryggingar viðskiptum í greiðslujöfnunarstöð í samræmi við þær reglur sem gilda í stöðinni verður ekki rift samkvæmt ákvæði 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, með síðari breytingum.
12. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Daglegur stjórnandi rekstrarfélags skal uppfylla sömu skilyrði og framkvæmdastjóri fyrirtækis í verðbréfaþjónustu samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og hafa staðist próf í verðbréfamiðlun samkvæmt prófkröfum sem settar eru í reglugerð. Honum er óheimilt að sitja í stjórn atvinnufyrirtækja án samþykkis Fjármálaeftirlitsins.

III. KAFLI
Gildistaka.
13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi, að undanskilinni 7. gr., um almennt útboð verðbréfa sem tekur gildi 1. október 2000. Starfandi fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu hafa lagað starfsemi sína að 5. gr. laga þessara fyrir 1. júlí 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög um verðbréfaviðskipti hafa verið sett fjórum sinnum á síðasta hálfum öðrum áratug, árin 1986, 1989, 1993 og 1996. Með reglulegri endurskoðun laganna hefur verið reynt að smíða ramma sem gæti náð utan um hinn mikla vöxt og þá öru þróun sem verið hefur á íslenskum verðbréfamarkaði frá þeim tíma þegar fyrstu lögin um verðbréfaviðskipti voru sett. Lögin frá 1993 og 1996 voru hluti af aðlögun íslensks réttar að tilskipunum ESB á sviði verðbréfamarkaðar.
    Mikill vöxtur hefur verið á verðbréfamarkaði síðan lög um verðbréfaviðskipti voru sett árið 1996. Sérstaklega hefur vöxturinn verið mikill á hlutabréfamarkaði. Fleiri hlutafélög eru skráð á Verðbréfaþingi Íslands (VÞÍ) og veltan er meiri. Nú eru 75 félög skráð á Aðallista VÞÍ og var markaðsvirði þeirra um 370 milljarðar kr. í árslok 1999. Viðskipti með hlutabréf voru fyrir um 40 milljarða kr. á árinu 1999 sem er rúmlega þrefalt meiri velta en árið á undan. Minni velta var hins vegar í viðskiptum með spariskírteini og markaðsvíxla árið 1999 en árið áður. Markaðsverðmæti verðbréfa á VÞÍ er eftirfarandi:

Markaðsverðmæti bréfa sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands.
Fjárhæðir í millj. kr.


Staða 1998 Staða 1999
Spariskírteini
91.322 86.926
Húsbréf
119.089 156.521
Húsnæðisbréf
19.381 18.786
Ríkisbréf
5.610 15.874
Ríkisvíxlar
14.019 14.124
Bankavíxlar
18.112 21.579
Önnur skuldabréf
84.713 110.748
Verðbréfasjóðir
48.938 55.314
Hlutabréf
231.909 369.835
Alls
633.092 849.706
Heimild: Verðbréfaþing Íslands.

    Frumvarp þetta, sem er samið í viðskiptaráðuneytinu, er ekki tilraun til heildarendurskoðunar á verðbréfaviðskiptalögunum. Hins vegar eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem taldar eru hæfa betur þeim aðstæðum á verðbréfamarkaði sem nú ríkja. Ef tekið er mið af þeirri öru þróun sem verið hefur á þessum markaði má leiða líkur að því að lög um verðbréfaviðskipti þarfnist reglulega breytinga við til að taka mið af nýjum aðstæðum.
    Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi:
     a.      Starfsmenn fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lánastofnana sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf skulu hafa staðist próf í verðbréfamiðlun (a-liður 3. gr., 4. gr., 5. gr. og 12. gr. frumvarpsins).
     b.      Aðskilnaður einstakra starfssviða fyrirtækja í verðbréfaþjónustu verði gerður skýrari og verklagsreglur um eigin viðskipti þeirra, sem og eigenda þeirra, stjórnenda, starfsmanna og maka ítarlegri (6., 8. og 9. gr. frumvarpsins).
     c.      Krafa um starfsábyrgðartryggingu verði látin ná til verðbréfamiðlana en ekki verðbréfafyrirtækja (b-liður 3. gr. frumvarpsins).
     d.      Ákvæði eru sett um samningsbundið uppgjör tiltekinna afleiðusamninga (contractual netting) í tengslum við stöðu þeirra við gjaldþrot, nauðasamninga og greiðslustöðvun.
    Hér á eftir verður gerð frekari grein fyrir þessum breytingum.

1. Kröfur um menntun tiltekinna starfsmanna fyrirtækja er stunda verðbréfaviðskipti.
1.1. Grundvöllur og þróun hæfisskilyrðis verðbréfaviðskiptalaga um menntun.
Lög nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun.
    Fyrstu lög um verðbréfaviðskipti voru lög nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun. Á þessum tíma voru skiptar skoðanir um það hvort almennt ætti að binda í lög að leyfis væri þörf til að stunda verðbréfamiðlun. Niðurstaðan varð sú að í þessum efnum yrði einkum að líta til hagsmuna þeirra sem leituðu eftir þessari þjónustu. Ráðgjöf um viðskipti á þessu sviði væru vandasöm og þörfnuðust umtalsverðar þekkingar, jafnt á hinni reikningslegu hlið viðskiptanna sem hinni lagalegu. Umtalsverðir fjármunir gengu á milli manna með þessum hætti og væri augljós sú hætta sem viðskiptamönnum gæti verið búin af misferli eða mistökum milligöngumanns. Var talið að hagsmunum viðskiptamanna yrði ekki veitt nægileg vernd fyrir umræddum hættum öðruvísi en að reynt yrði að tryggja að milligöngumaður um viðskiptin fullnægði ákveðnum almennum kröfum, m.a. varðandi menntun.
    Í lögunum var það gert að skilyrði fyrir leyfi til að stunda verðbréfamiðlun að viðkomandi uppfyllti sérstök almenn menntunarskilyrði, þ.e. hefði lokið prófi í lögfræði, hagfræði eða viðskiptafræði. Jafnframt var kveðið á um sérstaka heimild ráðherra til að ákveða í reglugerð að háð yrði sérstök prófraun fyrir umsækjendur sem hefði það að tilgangi að tryggja að leyfishafi hefði til að bera sérþekkingu á verðbréfaviðskiptum, enda voru hin almennum hæfisskilyrði ekki talin afgerandi í þeim efnum. Ekki varð þó úr því að slík reglugerð yrði sett og byggðu leyfisveitingar á almennum menntunarskilyrðum.

Lög nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.
    Lög nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun, voru felld úr gildi með lögum nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, sem voru mun ítarlegri en lögin frá 1986 og að ýmsu leyti í samræmi við löggjöf nágrannalanda á þessu sviði. Í 3. gr. laganna var m.a. fjallað um hæfisskilyrði. Ákvæðið var nokkuð frábrugðið ákvæði eldri laga. Fallið var frá almennum menntunarkröfum og gert að skilyrði fyrir leyfisveitingu að umsækjandi hefði sótt námskeið í verðbréfamiðlun og lokið þar prófi. Forsendur þessa voru að ekki var talið víst að almenn háskólamenntun fæli í sér sérstaka kunnáttu í meðferð og miðlun verðbréfa. Þá þótti rétt að hafa inntökuskilyrði á slík námskeið rúm, m.a. svo að þeir sem störfuðu að verðbréfamiðlun, aðrir en forstöðumenn verðbréfamiðlunar og verðbréfafyrirtækis, sæktu einnig slíkt námskeið.
    Á grundvelli laganna var sett reglugerð nr. 543/1989, um námskeið og próf til að öðlast leyfi til verðbréfamiðlunar. Var þar kveðið á um sérstök nefnd, prófnefnd verðbréfamiðlara, sem viðskiptaráðherra skipaði, skyldi standa fyrir námskeiðum og prófum í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og nefndist þetta próf verðbréfamiðlunarpróf. Eftir að nokkur reynsla var komin á framkvæmd reglugerðarinnar var hún endurskoðuð og sett reglugerð nr. 138/1992, um námskeið og próf til að öðlast leyfi til verðbréfamiðlunar.

Lög nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti.
    Lög nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, voru felld úr gildi með lögum nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti. Kröfur um sérstakt próf skv. d-lið 1. mgr. 3. gr. voru að mestu óbreyttar frá gildandi lögum að öðru leyti en því að nú var gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra gæti veitt undanþágu frá ákvæðinu mæltu sérstakar ástæður með því. Þótti eðlilegt að slík heimild væri fyrir hendi, enda gætu aðstæður umsækjenda, svo sem námsferill eða óumdeild starfsreynsla, verið með þannig að óeðlilegt væri að viðkomandi yrði gert að standast sérstakt próf.

Lög nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti.
    Núgildandi lög um verðbréfaviðskipti eru nr. 13/1996. Var samning þeirra þáttur í aðlögun íslensks réttar að ákvæðum saningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Við samningu frumvarpsins var að verulegu leyti stuðst við ákvæði eldri laga en þó voru gerðar nokkrar grundvallarbreytingar. Má þar m.a. nefna að gert var ráð fyrir að verðbréfamiðlun yrði einungis stunduð af hlutafélögum en ekki einstaklingum eins verið hafði og samhliða því voru lagðar til nokkrar breytingar á skilyrðum fyrir veitingu starfsleyfis.
    Ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti um menntunarskilyrði framkvæmdastjóra fyrirtækja í verðbréfaþjónustu er svohljóðandi:
    „Framkvæmdastjóri fyrirtækisins fullnægi skilyrðum 2. og 3. málsl. 3. tölul. og hafi sótt nám í verðbréfamiðlun og lokið þar prófi samkvæmt prófkröfum sem settar eru í reglugerð eða öðru jafngildu námi að mati ráðherra.“
    Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið sett núgildandi reglugerð nr. 300/1999, um próf í verðbréfamiðlun.

1.2. Reglugerð nr. 300/1999, um próf í verðbréfamiðlun.
    Í reglugerð nr. 300/1999 kemur fram að prófnefnd veðbréfamiðlunar haldi próf í verðbréfamiðlun, svonefnt verðbréfamiðlunarpróf. Prófnefnd er skipuð til fjögurrra ára í senn og í henni eiga sæti fimm menn, fjórir samkvæmt tilnefningum og einn skipaður af ráðherra. Próf skulu haldin eigi sjaldnar en einu sinni á ári og skulu að jafnaði vera skrifleg. Próf skal auglýsa í fjölmiðlun með a.m.k. átta vikna fyrirvara. Ráðherra ákveður prófgjöld að fenginni tillögu prófnefndar og skal greiða þau fyrir tímamörk sem hún ákveður.
    Prófnefnd tekur ákvörðun um efni sem prófað er úr. Nefndin semur próflýsingu í viðkomandi grein og er hún látin liggja fyrir þegar námskeið er auglýst. Verðbréfamiðlunarpróf skiptast í þrjá hluta, I. almenna lögfræði, II. almenna viðskiptafræði og III. fjármagnsmarkaðinn.
    Í I. hluta núgildandi námsefnislýsingar er fjallað um fræðikerfi íslenskrar lögræði, íslenska réttarskipan, ágrip úr réttarfari og viðfangsefni fjármunaréttar. Þá er fjallað um félagarétt, ábyrgðir, viðskiptabréf – víxla og tékka, veðréttindi og þinglýsingar. Í II. hluta er farið yfir grundvallarþætti í fjármunaútreikningum. Farið er í greiningu ársreikninga, skattamál og grunnatriðið í þjóðhagsfræði. Í III. hluta er síðan farið yfir lagareglur um fjármagnsmarkað og réttindi og skyldur verðbréfamiðlara. Þá er fjallað um starfsemi verðbréfasjóða, hlutabréf, skuldabréf, afleiður, samval verðbréfa og verðbréfasöfn og ráðgjöf.
    Öllum er heimilt að skrá sig til verðbréfamiðlunarprófs. Þeir sem hafa lokið embættisprófi frá lagadeild Háskóla eru undanþegnir töku prófa í I. hluta. Þeir sem hafa lokið prófi frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands eru undanþegnir prófi í II. hluta. Þá getur prófnefnd veitt próftaka, sem um það sækir, undanþágu frá því að þreyta próf í einstökum greinum. Skilyrði þess að veita megi slíka undanþágu er að próftaki sýni fram á það með fullnægjandi hætti, svo sem með vottorði frá viðkomandi menntastofnun, að hann hafi staðist sambærilegt próf á háskólastigi að mati prófnefndar.
    Einkunnir eru gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0–10. Til þess að standast verðbréfamiðlunarpróf þarf próftaki að hljóta a.m.k. 7,0 í meðaleinkunn og 5,0 í einstökum prófum.

1.3. Almennt um breytingar þær er felast í frumvarpinu.
    Eins og fram hefur komið skulu framkvæmdastjórar fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og daglegir stjórnendur rekstrarfélaga verðbréfasjóða hafa lokið prófi í verðbréfamiðlun. Þessi krafa er hins vegar ekki gerð til stjórnenda annarra fyrirtækja á fjármagnsmarkaði, t.d. banka, sparisjóða og annarra lánastofnana.
    Forsendur hæfniskröfunnar voru þær að ráðgjöf um viðskipti á þessu sviði væri vandasöm og þarfnaðist umtalsverðar þekkingar, jafnt reikningslegrar sem lagalegrar. Var talið að viðskiptamönnum yrði ekki veitt nægileg vernd fyrir hættu á mistökum öðruvísi en að reynt yrði að tryggja að milligöngumaður um viðskiptin fullnægði ákveðnum almennum kröfum, m.a. varðandi menntun. Þegar fyrstu lög um verðbréfaviðskipti voru sett voru fyrirtæki í verðbréfaþjónustu lítil og framkvæmdastjórar þeirra höfðu með höndum flesta ef ekki alla þætti rekstrarins. Af þeim sökum var eðlilegt að hæfniskrafan tæki til þeirra.
    Undanfarin ár hefur verðbréfamarkaðurinn hins vegar vaxið verulega og fyrirtæki í verðbréfaþjónstu að sama skapi. Hlutverk framkvæmdastjóra felst nú fyrst og fremst í almennri stjórnun fremur en að stunda og hafa milligöngu um viðskipti á markaði. Yfirleitt er það því ekki framkvæmdastjóri sem stundar hin daglegu viðskipti heldur aðrir starfsmenn fyrirtækisins. Þá er ljóst að þrátt fyrir að framkvæmdastjóri beri ábyrgð á rekstri fyrirtæks sem slíkur er það ekki trygging fyrir því að þekking hans nái út til þeirra starfsmanna sem stunda dagleg viðskipti.
    Af þessum ástæðum verður að telja að ekki sé nauðsynlegt að gera það að skilyrði fyrir starfsleyfi fyrirtækis í verðbréfaþjónustu að framkvæmdastjóri þess hafi lokið prófi í verðbréfamiðlun. Einnig verður að teljast óeðlileg mismunun að framkvæmdastjórar fyrirtækja í verðbréfaþjónustu þurfi að uppfylla þessi skilyrði umfram framkvæmdastjóra annarra fyrirtækja á fjármagnsmarkaði. Það er hins vegar í samræmi við upphaflegan tilgang reglnanna og stuðlar að auknu öryggi í verðbréfaviðskiptum að gera slíkar kröfur til þeirra starfsmanna fyrirtækja í verðbréfaþjónustu sem hafa daglega umsjón með starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf.
    Í samræmi við þetta er sú breyting lögð til í frumvarpi þessu að þeir starfsmenn fyrirtækis í verðbréfaþjónustu sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf skv. 8. og 9. gr. laganna skuli hafa lokið prófi í verðbréfamiðlun. Jafnframt er fallið frá þessari almennu kröfu varðandi framkvæmdastjóra fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Engu að síður verður að telja líklegt að í flestum tilfellum sé skipulag fyrirtækjanna þannig að eðlilegt sé að framkvæmdastjórinn hafi lokið verðbréfamiðlunarprófi, sbr. athugasemdir við 3. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fyrirtækin tilkynni Fjármálaeftirlitinu um þá starfsmenn sem skulu uppfylla þetta skilyrði.
    Verði frumvarpið að lögum mun krafa um próf í verðbréfamiðlun ekki einungis ná til fyrirtækja í verðbréfaþjónustu heldur einnig til viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Það kemur til af því að um verðbréfaviðskipti þeirra gilda eftir því sem við getur átt ákvæði laga um verðbréfaviðskipti, sbr. 44. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og 8. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Fyrrgreind krafa er áfram gerð til daglegra stjórnenda rekstrarfélaga verðbréfasjóða.
    Próf og námskeið í verðbréfamiðlun hafa verið haldin hér á landi í um áratug. Mikil eftirspurn hefur verið síðari ár eftir þessu námi og hefur þátttaka í prófum aukist gífurlega. Nú hafa um 120 manns lokið prófi og má reikna með að sú tala eigi eftir að tvöfaldast a.m.k. á næstu tveimur árum. Áhugi á prófinu gefur til kynna að námsefnið endurspegli vel þarfir markaðarins og fjármálafyrirtæki telji það þjóna hagsmunum sínum að starfsmenn sæki námskeið og ljúki prófi, þrátt fyrir að tiltölulega fáir þurfi í raun á þeim starfsréttindum að halda sem að prófið veitir. Þessi mikli áhugi sem hér hefur verið lýst er mjög jákvæður og mikilvægt er fyrir þróun íslensks verðbréfamarkaðar að nám í verðbréfamiðlun styrkist enn frekar. Fyrirhuguðum breytingum á lögum um verðbréfaviðskipti er ætlað að stuðla að því.

2. Aðskilnaður einstakra starfssviða og verklagsreglur um viðskipti.
    Ein af meginstoðum verðbréfaviðskiptalaganna er 15. gr. sem kveður á um þá skyldu sem lögð er á fyrirtæki í verðbréfaþjónustu að gæta óhlutdrægni í viðskiptum. Viðskiptamaður fyrirtækisins skal njóta þess verðs og annarra skilmála sem almennt tíðkast á markaði milli óskyldra aðila.
    Verðbréfafyrirtæki sinna margvíslegri þjónustu skv. 8. gr. laganna. Þau geta svo dæmi sé tekið stýrt eignasafni viðskiptavina sinna, sinnt móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum, stundað viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning og stundað ráðgjöf og greiningu. Þar sem þetta fer allt fram innan veggja sama fyrirtækis er hætta á hagsmunaárekstrum ávallt fyrir hendi, t.d. þegar verðbréfafyrirtæki á í viðskiptum fyrir eigin reikning við viðskiptamenn sína. Brugðist er við þessu með kröfu um aðskilnað einstakra starfssviða. Hvert starfssvið skal vera sjálfstætt í störfum sínum og traustir veggir, eða svokallaðir Kínamúrar, skilja þau að.
    Sé aðskilnaðar ekki gætt er sá möguleiki fyrir hendi að árekstrar verði á milli hagsmuna og fyrirtæki glati trausti markaðarins. Grundvöllur starfsemi verðbréfafyrirtækja er að þau njóti trausts almennings og eiga fá fyrirtæki jafnmikið undir því að viðhalda því trausti.
    Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um aðskilnað einstakra starfssviða verði styrkt enn frekar til að tryggja betur en nú er að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfsemi fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Það er gert með því að Fjármálaeftirlitið staðfestir reglur fyrirtækjanna sem miða að því að tryggja þennan aðskilnað. Reglurnar skulu vera aðgengilegar viðskiptamönnum.
    Jafnframt eru í frumvarpinu gerð skýrari ákvæði 21. gr. laganna um reglur um eigin viðskipti félagsins og viðskipti eigenda, stjórnenda, starfsmanna og maka þeirra en náin tengsl eru á milli þeirrar greinar og 15. gr. Samkvæmt gildandi lögum er fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu skylt að setja sér verklagsreglur um tiltekin atriði og skulu þær staðfestar af Fjármálaeftirlitinu. Verklagsreglurnar eru keimlíkar frá fyrirtæki til fyrirtækis, enda höfðu Samtök verðbréfafyrirtækja forgöngu um að vinna staðlaðar verklagsreglur fyrir verðbréfafyrirtækin. Það er síðan fyrirtækjanna sjálfra að hafa eftirlit með að reglunum sé fylgt. Engin viðurlagaákvæði eru í reglunum.
    Frá því að verklagsreglurnar voru settar hefur komið í ljós að það er nokkuð mismunandi hvernig fyrirtæki túlka þær og misbrestur virðist vera á að þeim sé fylgt út í ystu æsar. Einkanlega hefur komið upp umræða um viðskipti starfsmanna og maka þeirra með verðbréf sem ekki eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði og um þátttöku starfsmanna í útboðum sem fyrirtæki þeirra hefur umsjón með. Verðbréfafyrirtæki hafa verið með verklagsreglurnar í endurskoðun enda hafa þau talið að hnökrar séu á þeim. Ákvæði um bann viðskipta starfsmanna og maka þeirra með óskráð bréf kemur t.d. í veg fyrir að maki starfsmanns fyrirtækis í verðbréfaþjónustu geti tekið við óskráðum bréfum sem hluta af launum sínum. Einnig hefur verið nefnt að almennt geti starfsmenn ekki keypt bréf í erlendum félögum á netinu en samkvæmt verklagsreglunum er starfsmönnum óheimilt að eiga viðskipti með verðbréf nema í því fyrirtæki sem þeir starfa hjá. Verðbréfafyrirtækin hafa einnig verið með til skoðunar að bæta við reglurnar ákvæði um lágmarkseignarhaldstíma verðbréfa sem starfsmenn kaupa í því skyni að koma í veg fyrir spákaupmennsku.
    Ekki er talið rétt að setja ákvæði í lög um það hvernig viðskiptum eigenda, stjórnenda, starfsmanna og maka þeirra skuli háttað. Hins vegar er lagt til að bætt verði við ákvæðum sem tryggi betur stöðu Fjármálaeftirlitsins við setningu og eftirfylgni þeirra reglna sem fyrirtæki í verðbréfaþjónustu setja. Þannig verði kveðið á um að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skuli gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir frávikum frá ákvæðum reglnanna og að þær skuli vera aðgengilegar viðskiptamönnum.

3. Tryggingar fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.
    Lagt er til að krafa um starfsábyrgðartryggingu verði einungis látin ná til verðbréfamiðlana en ekki til verðbréfafyrirtækja. Það fyrirkomulag er í samræmi við starfsábyrgðartryggingar í vátryggingastarfsemi þar sem vátryggingamiðlurum er gert skylt að afla sér starfsábyrgðartryggingar en ekki vátryggingafélögum.
    Í lögum nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, var fyrst kveðið á um að verðbréfamiðlarar skyldu afla sér starfsábyrgðartryggingar hjá vátryggingafélagi eða bankatryggingar áður en þeir fengju starfsleyfi. Tryggingin skyldi bæta tjón sem verðbréfamiðlarar kynnu að baka viðskiptavinum með störfum sínum og var veitt þeim einstaklingum sem fengu leyfi ráðherra til verðbréfamiðlunar.
    Með lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, varð sú breyting að leyfi til verðbréfamiðlunar voru ekki tengd ákveðnum einstaklingum heldur fyrirtækjum. Skyldan til töku starfsábyrgðartrygginga fluttist þá jafnframt yfir til fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.
    Núgildandi reglugerð um tryggingarskyldu vegna verðbréfamiðlunar og verðbréfaviðskipta er nr. 361/1993, með breytingu nr. 466/1993. Í reglugerðinni er kveðið á um fjárhæðarmörk. Starfsábyrgðartrygging verðbréfamiðlana bætir allt að 4,5 millj. kr. fyrir hvert einstak tjónsatvik en heildarfjárhæð bóta getur þó ekki orðið hærri en 13,5 millj. kr. á ári. Sambærilegar tölur fyrir verðbréfafyrirtæki eru 9 millj. kr. og 27 millj. kr. Tölur eru miðaðar við verðlag ársins 1993.
    Krafa um starfsábyrgðartryggingu verðbréfafyrirtækja átti betur við þegar starfsemi af þessu tagi var að ryðja sér til rúms hér á landi og lagaákvæði ekki eins ítarleg og nú. Verðbréfafyrirtæki þurfa að lúta ströngum reglum um eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum og innborgað hlutafé skal vera a.m.k. 65 millj. kr. Tilgangur þessara lagaákvæða er að tryggja að fyrirtækin séu fjárhagslega traust og geti mætt ýmiss konar fjárhagslegum áföllum. Verðbréfafyrirtæki eiga að vera við því búin að greiða skaðabætur fyrir hvert einstakt tjónsatvik upp á þær fjárhæðir sem kveðið er á um í reglugerðinni án þess að það hafi veruleg áhrif á greiðsluhæfi þeirra. Hins vegar geta verðbréfafyrirtæki að sjálfsögðu keypt sér tryggingu kjósi þau svo.
    Viðskiptaráðuneytið hefur aflað sér upplýsinga hjá verðbréfafyrirtækjum um hvort reynt hafi á starfsábyrgðartrygginguna. Samkvæmt þeim hefur aðeins reynt á trygginguna hjá einu fyrirtæki frá því að krafa um starfsábyrgðartryggingu var sett í lög.
    Þrátt fyrir afnám starfsábyrgðartryggingar geta viðskiptavinir sem lenda í ágreiningi við verðbréfafyrirtæki átt þess kost að fá skaðabætur greiddar án þess að höfða skaðabótamál. Slíkt úrræði fyrir viðskiptavini verðbréfafyrirtækja mun skapast með aðild Samtaka verðbréfafyrirtækja að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, en nýjar samþykktir fyrir nefndina eru nú í undirbúningi. Nefndin hefur frá 1995 verið vettvangur viðskiptamanna þangað sem þeir geta snúið sér með kvartanir vegna viðskipta við íslensk fjármálafyrirtæki sem aðild eiga að nefndinni. Nefndin hefur starfað samkvæmt samkomulagi á milli viðskiptaráðuneytisins, Sambands íslenskra viðskiptabanka, Sambands íslenskra sparisjóða, og Neytendasamtakanna. Gert er ráð fyrir að nefndin verði vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu.
    Vernd viðskiptavina verðbréfafyrirtækja jókst mjög með lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, en þau byggjast á tilskipun ESB nr. 97/9 um tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Samkvæmt lögunum eru viðskiptavinir fyrirtækja í verðbréfaþjónustu tryggðir upp að vissu marki gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta tryggir viðskiptavini lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu fyrir að lágmarki 1,7 millj. kr., sé fyrirtækið ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár sem viðskiptavinur hefur krafið fyrirtækið um endurgreiðslu á. Þetta nýja tryggingakerfi skarast að hluta við starfsábyrgðartryggingu verðbréfafyrirtækja. Starfsábyrgðartryggingin kæmi hins vegar að litlu gagni fyrir viðskiptamenn við gjaldþrot verðbréfafyrirtækis þar sem hámarksbætur fyrir hvert einstakt tjónsatvik eru ekki nema 9 millj. kr. samkvæmt reglugerð, eða rétt um 10 millj. kr. ef uppreiknað er til verðlags í dag.
    Í frumvarpinu er lagt til að krafa um starfsábyrgðartryggingu verðbréfamiðlana sem starfa skv. 9. gr. laganna verði látin halda sér, enda eru kröfur um innborgað hlutafé þeirra mun lægri. Verðbréfamiðlanir skulu hafa að lágmarki 4,5 millj. kr. innborgað hlutafé við stofnun í samanburði við 65 millj. kr. innborgað hlutafé verðbréfafyrirtækja. Verðbréfamiðlanir sem starfa skv. 2. mgr. 9. gr. laganna og hafa því heimild til að stunda viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning skulu þó hafa innborgað hlutafé að lágmarki 10 millj. kr.

4. Samningsbundið uppgjör afleiðusamninga.
    Með tilskipun 96/10/EB frá 21. mars 1996 um breytingu á tilskipun 89/647/EBE (um eiginfjárhlutfall lánastofnana) að því er varðar viðurkenningu lögbærra yfirvalda á samningsbundinni skuldajöfnun eru auknar heimildir lögbærra yfirvalda til að viðurkenna að ákveðin uppgjör er varða samninga sem tengjast vöxtum og gjaldeyri dragi úr áhættu við útreikning eiginfjárhlutfalls. Til þess þarf hið samningsbunda uppgjör að uppfylla ákveðin skilyrði, m.a. að komi til gjaldþrots mótaðila eigi lánastofnunin einungis heimtingu á að taka við eða beri skylda til að greiða nettóupphæð jákvæðs eða neikvæðs markaðsvirðis umræddra viðskipta. Tilskipun þessi varð hluti af EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 53/96.
    Hinn 9. nóvember 1998 skipaði viðskiptaráðherra starfshóp til að gera tillögu að aðlögun íslensks réttar vegna tilskipunarinnar. Í hópinn voru skipuð þau Páll Gunnar Pálsson, lögfræðingur í viðskiptaráðuneyti, formaður, Guðbjörg Bjarnadóttir lögfræðingur, bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Sigurjón Geirsson, innri endurskoðandi Landsbanka Íslands, og Viðar Már Matthíasson prófessor, Háskóla Íslands. Þann 12. maí 1999 var Birgir Már Ragnarsson, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, skipaður formaður í stað Páls Gunnars Pálssonar.
    Ákvæðum tilskipunarinnar var hrint í framkvæmd með reglum, dags. 8. janúar 1999, nr. 53/1999, um breytingu á reglum nr. 348/1996, um mat á áhættugrunni við útreikning á eiginfjárhlutfalli lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.
    Þrátt fyrir að ákvæðum tilskipunarinnar hafi verið hrint í framkvæmd er í tilskipun 96/10/EBE, sbr. og reglur 53/1999, það skilyrði sett fyrir því að unnt sé að nýta sér reglurnar að samningar um uppgjör hafi fullgilda lagastoð hvað varðar efni og réttaráhrif í því ríki eða þeim ríkjum sem aðilar samningsins hafa aðsetur. Slík lagastoð er ekki hér á landi og því ekki unnt að beita því hagræði sem felst í reglunum í viðskiptum við aðila búsetta hér á landi.
    Þessi staðreynd og hið sérstaka eðli afleiðusamninga veldur því að æskilegt er að sérstakar reglur gildi um meðferð þeirra við gjaldþrot. Hér skiptir aðstaða íslenskra fyrirtækja og samkeppnisstaða íslensks fjármagnsmarkaðar einnig miklu máli, enda eru erlendir aðilar frekar tilbúnir til að semja við aðila sem búa við sérstakar gjaldþrotareglur varðandi afleiðusamninga.
    Með vísan til þessa leggur fyrrgreindur starfshópur til breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti sem ætlað er að kveða á um stöðu uppgjörs tiltekinna afleiðusamninga þegar annar samningsaðilinn fær greiðslustöðvun, gengst undir nauðasamninga eða verður gjaldþrota. Tillögur þessar koma fram í 1., 2. og 11. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er fjallað um gildissvið laga nr. 13/1996. Skv. 2. mgr. 1. gr. þeirra eru tilteknir aðilar undanskildir ákvæðum þeirra, að undanskildum IV. kafla laganna um meðferð persónuupplýsinga. Lagt er til að fyrrgreindar undanþágur 2. mgr. taki að sama skapi ekki til ákvæða hins nýja V. kafla laganna um samningsbundið uppgjör, enda er reglunum ætlað að hafa almennt gildi.

Um 2. gr.

    Lagt er til að síðasti liður skilgreiningarinnar um almennt útboð í 2. gr. laganna verði felldur brott, þ.e. ,,enda séu verðbréf í sama flokki ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði“. Í núgildandi skilgreiningu er gengið skrefi lengra en í þeim reglum er varða opinbera skráningu verðbréfa og er grunnur reglna Verðbréfaþings Íslands hf. í þessu efni. Núverandi orðalag 4. tölul. 2. gr. gefur til kynna að þau verðbréf sem þegar eru skráð í kauphöll skuli undanþegin útboðsreglum. Ef aðrar reglur sem um þessi mál fjalla eru skoðaðar kemur í ljós að það er ekki ætlunin að skráð verðbréf verði undanþegin reglunni um almennt útboð. Því er ljóst að núgildandi lagagrein er til þess fallin að ýta undir misskilning í þessu efni og þykir því rétt að henni sé breytt í samræmi við þær reglur er almennt gilda á þessu sviði.
    Jafnframt er lagt til að bætt verði við skilgreiningum á nokkrum hugtökum sem fram koma í tillögum að hinum nýja V. kafla laganna. Í kaflanum er fjallað um uppgjör tiltekinna afleiðusamninga og taldar eru upp nokkrar gerðir samninga sem falla undir lögin. Umrædd hugtök eru framandi og því talið rétt að skilgreina þau. Það er einnig gert til að tryggja samræmda túlkun á hugtökunum.
    Í tillögu að 17. tölul. er hugtakið afleiðusamningur skýrt og í 18.–21. tölul. eru skilgreindar tilteknar gerðir af afleiðusamningum. Í tillögu að 22. tölul. er hugtakið samningningsbundið uppgjör síðan skilgreint. Að öðru leyti skýrir greinin sig sjálf.
    Það skal tekið fram til skýringar að einnig er fjallað um afleiðusamninga í skilgreiningu á hugtakinu verðbréf í b-lið 3. tölul. greinarinnar. Þar er fjallað um skilyrt skilríki til peningagreiðslu á grundvelli tiltekins verðbréfs eða verðbréfa. Hér er átt við afleiðusamninga, sbr. hina nýju skilgreiningu frumvarpsins enda þótt það orð komi ekki beint fram í ákvæðinu.

Um 3. gr.

    Lagt er til að tvær breytingar verði gerðar á 3. gr. laganna um skilyrði sem fyrirtæki í verðbréfaþjónustu þarf að fullnægja í tengslum við veitingu starfsleyfis. Hin fyrri lýtur að breytingum á 4. tölul. 1. mgr. um skilyrði sem framkvæmdastjóri fyrirtækis í verðbréfaþjónustu skal fullnægja. Í frumvarpinu er lagt til að sú krafa að framkvæmdastjóri fyrirtækis í verðbréfaþjónustu skuli hafa sótt nám í verðbréfamiðlun og lokið þar prófi samkvæmt prófkröfum eða öðru jafngildu námi að mati ráðherra, verði felld niður. Í stað þess verði tekið upp nýtt fyrirkomulag sem miðar að því að fleiri stjórnendur fyrirtækja í verðbréfaþjónustu ljúki þessu prófi, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Rök fyrir þessari breytingu er að finna í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu.
    Með þessari breytingu er ekki verið að leggja til að framkvæmdastjórar fyrirtækjanna verði alfarið undanþegnir kröfum um próf í verðbréfamiðlun. Í flestum tilfellum verður að ætla að skipulag fyrirtækjanna sé þannig að eðlilegt sé að framkvæmdastjórinn hafi lokið verðbréfamiðlunarprófi. Ekki er þó loku fyrir það skotið að í einstaka tilfellum sé skipulag fyrirtækjanna, sérstaklega þeirra stærri, með þeim hætti að framkvæmdastjórinn hafi ekki daglega umsjón með starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf skv. 8. og 9. gr. laganna.
    Seinni breytingin á þriðju greininni lýtur að starfsábyrgðartryggingu fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Lagt er til að krafa um starfsábyrgðartryggingu verði einungis látin ná til verðbréfamiðlana en ekki til verðbréfafyrirtækja. Það fyrirkomulag er í samræmi við starfsábyrgðartryggingu á vátryggingamarkaði þar sem vátryggingamiðlurum er gert skylt að afla sér starfsábyrgðartryggingar en ekki vátryggingafélögum. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarpið um rökstuðning fyrir þessari breytingu.

Um 4. gr.

    Lagt er til að 11. gr. verði 2. mgr. 10. gr. laganna. 10. og 11. gr. gildandi laga eiga vel saman og því ekkert til fyrirstöðu að koma þeim saman í eina grein. Með því móti skapast svigrúm til að bæta við nýrri 11. gr. án þess að raska að öðru leyti númeraröð lagagreina.

Um 5. gr.

    Gerð er tillaga um nýja 11. gr. sem kveði á um hvaða starfsmenn fyrirtækja í verðbréfaþjónustu skulu standast nám í verðbréfamiðlun en það eru þeir starfsmenn sem hafa með höndum daglega umsjón með starfsemi í tengslum við verðbréf skv. 8. og 9. gr. laganna. Hér er um að ræða starfsmenn sem eru yfirmenn sviða, deilda eða samsvarandi eininga innan fyrirtækjanna. Sem dæmi um yfirmenn starfseininga sem telja má eðlilegt að Fjármálaeftirlitið krefjist að lokið hafi prófi í verðbréfamiðlun eru yfirmenn markaðsviðskipta, einstaklingsviðskipta, verðbréfamiðlunar, eignarstýringar og áhættustýringar og annarra sambærilegra eininga. Starfstitlar þessara yfirmanna geta t.d. verið framkvæmdastjórar, sviðsstjórar eða deildarstjórar.
    Búast má við að nokkurn tíma taki að festa þetta skipulag í sessi. Fyrir fram má búast við því að í verðbréfamiðlunum muni einn eða tveir starfsmenn þurfa að uppfylla þessi skilyrði og tveir til átta starfsmenn í verðbréfafyrirtækjum, allt eftir starfsemi fyrirtækisins og skipulagi. Ekki er ólíklegt að í fyrstu muni í einhverjum tilfellum leika vafi á því hvort starfsmaður skuli ljúka verðbréfamiðlunarprófi. Því er í 2. mgr. ákvæði um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að setja reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Verði slíkar reglur settar skulu þær miða að því að skera úr um vafatilvik.
    Ástæða er til að geta þess sérstaklega að krafa um próf í verðbréfamiðlun mun ekki einungis ná til fyrirtækja í verðbréfaþjónustu heldur einnig til viðskiptabanka og sparisjóða og lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða, verði frumvarpið að lögum. Það kemur til af því að um verðbréfaviðskipti viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana gilda eftir því sem við getur átt ákvæði laga um verðbréfaviðskipti, sbr. 44. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og 8. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Þetta er mikil breyting frá gildandi lögum þar sem aðeins er áskilið að framkvæmdastjórar fyrirtækja í verðbréfaþjónustu skuli hafa lokið prófi í verðbréfamiðlun en ekki framkvæmdastjórar annarra fyrirtækja á fjármagnsmarkaði.
    Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar ber fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu að tilkynna Fjármálaeftirlitinu hvaða starfsmenn hafa með höndum umsjón með starfsemi þeirri sem talin er upp í 1. mgr. Það er fyrirtækjanna sjálfra að haga starfsemi sinni og skipulagi með þeim hætti að 1. mgr. sé fylgt.

Um 6. gr.

    Eins og segir í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu er 15. gr. verðbréfaviðskiptalaganna ein af meginstoðum þeirra, en hún kveður á um þá skyldu sem lögð er á fyrirtæki í verðbréfaþjónustu að gæta óhlutdrægni í viðskiptum. Hér er lagt til að greinin verði gerð ítarlegri og skýrari.
    Í fyrsta lagi er sú breyting gerð á 1. mgr. greinarinnar að í stað markmiðssetningar um að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skuli kappkosta að gæta fyllstu óhlutdrægni í starfsemi sinni verði skýrt kveðið á um að fyrirtækin skuli gæta fyllstu óhlutdrægni. Orðin ,,kappkosta að“ falla því brott.
    Í öðru lagi er bætt við nýrri 2. mgr. Í henni er aðskilnaður einstakra starfssviða fyrirtækjanna styrktur enn frekar til að tryggja betur en nú er að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfsemi þeirra. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið skuli staðfesta reglur fyrirtækjanna sem miða að því að tryggja þennan aðskilnað.
    Þess er sérstaklega getið í 2. mgr. að í reglunum skuli gera sérstaka grein fyrir eftirliti innan fyrirtækisins með því að reglunum sé fylgt. Mikilvægt er að eftirlitið sé þannig að aðskilnaður sé tryggður. Það mætti t.d. gera með auknum verkefnum innri endurskoðanda eða með sjálfstæðum siðastjóra (e. compliance officer).
    Í lok 2. mgr. segir að reglurnar skuli vera aðgengilegar viðskiptamönnum. Telja verður mikilvægt að viðskiptavinir geti auðveldlega haft aðgang að upplýsingum sem varða hagsmuni hans miklu, eins og þær reglur sem hér um ræðir sem og reglur skv. 21. gr. laganna. Vísast í því sambandi til umræðu um traust í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu. Með því að reglurnar séu aðgengilegar viðskiptamönnum er átt við að viðskiptavinur geti óskað eftir þessum reglum hjá viðkomandi fyrirtæki eða að þær séu aðgengilegar á heimasíðu eða í öðru kynningarefni fyrirtækisins.
    3. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 7. gr.

    Í 20. gr. gildandi laga segir að tilkynna skuli Verðbréfaþingi Íslands um almennt útboð verðbréfa eigi síðar en viku fyrir upphaf sölu ásamt upplýsingum um öll helstu einkenni útboðsins í samræmi við reglur þingsins þar að lútandi. Jafnframt skulu verðbréfafyrirtæki eða annar aðili, sem hefur milligöngu um almennt útboð, tilkynna Verðbréfaþinginu um heildarsölu verðbréfa í almennu útboði á nafnverði og markaðsverði við lok sölu eða í lok hvers ársfjórðungs, sé hann fyrr. Seðlabanka Íslands er hins vegar heimilt, samkvæmt þessari grein, að setja nánari reglur um fyrsta söludag einstakra almennra útboða í því skyni að draga úr sveiflum í framboði nýrra verðbréfa á verðbréfamarkaðnum.
    Með lögum nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulega tilboðsmarkaði, var einkaréttur Verðbréfaþings Íslands á verðbréfaþingsstarfsemi afnuminn og kveðið á um almenn skilyrði sem kauphallir þyrftu að uppfylla. Verðbréfaþing Íslands var síðan gert að hlutafélagi 1. janúar 1999. Ekki er því eðlilegt að Verðbréfaþingið gegni lengur því almenna hlutverki sem því er ætlað samkvæmt þessari grein. Því þarf að finna annað fyrirkomulag.
    Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra setji reglugerð um þau atriði sem nú er kveðið á um í lögum og heiti einstakra hlutafélaga og stofnana verði felld út úr lögunum. Nú er í gildi reglugerð um almennt útboð verðbréfa, nr. 505/1993. Brýn þörf er á að endurskoða þá reglugerð vegna breyttra aðstæðna á markaði. Einnig eru í gildi reglur VÞÍ nr. 6, um gerð útboðsgagna og aðdraganda almenns útboðs verðbréfa, og reglur Seðlabankans nr. 253/1996, um fyrsta söludag almennra útboða verðbréfa. Þessar reglur mundu að hluta fara inn í nýja og endurskoðaða reglugerð um almennt útboð verðbréfa, verði frumvarp þetta að lögum. Ráðuneytið hyggst skipa nefnd fulltrúa eftirlitsaðila og fjármagnsmarkaðar til að vinna tillögur um reglur um framkvæmd almennra útboða.

Um 8. gr.

    Lagt er til að nokkrar breytingar verði gerðar á 21. gr. laganna. Vísað er til almennra athugasemda við frumvarpið.
    Í fyrsta lagi er lagt til að verklagsreglur um viðskipti eigenda fyrirtækja í verðbréfaþjónustu verði rýmkaðar frá því sem nú er, þannig að þær taki einungis til viðskipta þeirra sem eiga virkan eignarhlut í fyrirtækinu skv. 12. gr. laganna, þ.e. eignarhlutur sem nemur 10% eða meira af eigin fé þess eða atkvæðisrétti. Ástæðan er sú að eftir því sem eigendum lítilla eignarhluta í fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu fjölgar verður nær ókleift að hafa eftirlit með viðskiptum þeirra með þeim hætti sem kveðið er á um í verklagsreglunum.
    Í öðru lagi er bætt við orðunum „meðal annars“ á undan upptalningu á þeim atriðum sem fyrirtækin eiga að setja í verklagsreglur sínar. Þetta er gert til að undirstrika að upptalningin er ekki tæmandi.
    Í þriðja lagi er bætt við tveimur nýjum töluliðum í upptalningu á þeim atriðum sem gætt skal að í verklagsreglum. Annars vegar er bætt við að verklagsreglurnar miði að því að fyllsta trúverðugleika fyrirtæksisins sé gætt. Færa má rök fyrir því að þetta atriði felist í 1. og 2. tölul. gildandi 21. gr. en lagt er til að það verði sett hér inn til að leggja áherslu á mikilvægi trúverðugleika fyrirtækisins. Hins vegar er bætt við nýjum 4. tölul. um að þess sé gætt að tryggt sé að viðskiptin stangist ekki á við IV. kafla laganna, en sá kafli fjallar um meðferð trúnaðarupplýsinga.
    Í fjórða lagi er bætt við tveimur nýjum málsliðum í 2. mgr. greinarinnar. Þar er lagt til að kveðið verði á um að fyrirtækinu beri að gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir frávikum frá ákvæðum verklagsreglna. Jafnfram er lagt til að reglurnar skuli vera aðgengilegar viðskiptamönnum.

Um 9. gr.

    Lagt er til að í 2. mgr. 24. gr. sé kveðið á um um heimildir framkvæmdastjóra verðbréfafyrirtækis til setu í stjórn atvinnufyrirtækja eða þátttöku í atvinnurekstri að öðru leyti. Ástæðan er sú að það kann að vera óeðlilegt í sumum tilvikum að framkvæmdastjóra dugi að leita samþykkis stjórnar verðbréfafyrirtækisins ef hann eða aðilar honum tengdir ráða yfir meiri hluta hlutafjár fyrirtækisins.

Um 10. gr.

    Lagt er til að í 2. mgr. 26. gr. laganna verði vísað almennt til kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, sbr. lög nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, í stað þess að vísað sé til einnar kauphallar, Verðbréfaþings Íslands hf. Þá er réttara, samkvæmt lögum um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, að í stað þess að tilkynningar teljist opinberar þegar þeim hefur verið miðlað til kauphallar teljist þær opinberar þegar þeim hefur miðlað frá kauphöll. Þess vegna kemur orðið „þaðan“ í stað „þangað“.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. er lagt er til að nýjum V. kafla verði bætt við lögin sem beri heitið „Samningsbundið uppgjör afleiðusamninga“ og verði þrjár lagagreinar, 32.–34. gr. Hvað varðar markmið og forsendur fyrir tillögunum er vísað til almennra athugasemda.
    Í a-lið greinarinnar er tillaga að nýrri 32. gr. laganna. Í ákvæðinu er lagt til að gildissvið kaflans verði afmarkað við tiltekna afleiðusamninga sem gerðir eru í tengslum við gjaldmiðla og vexti. Taldir eru upp tilteknir samningar sem eru skilgreindir nánar í 2. gr. laganna, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Ástæðan fyrir þessari afmörkun er sú að rétt þykir að takmarka á þennan hátt heimildir aðila til gera samninga sem geta raskað því jafnræði sem almennt gildir á milli aðila við greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrot. Þótti rétt að taka hér með samninga sem nú eru þekktir í viðskiptum lánastofnana en þó er gert ráð fyrir að ráðherra geti ákveðið með reglugerð að þessi kafli skuli einnig gilda um aðra afleiðusamninga. Mun reynslan leiða í ljós hvort útvíkkun á reglunum sé æskileg.
    Í b-lið greinarinnar er tillaga að nýrri 33. gr. laganna. Í frumvarpinu er lagt til að skriflegur samningur, einn eða fleiri, milli tveggja aðila um að skyldur þeirra samkvæmt samningum þeim sem nefndir eru í 32. gr. gr. skuli jafnast á hver á móti annarri, með skuldajöfnun, við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrot, skuli halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. gr. og 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.
    Hér er fjallað um réttarstöðu höfuðsamninga milli tveggja aðila um jöfnun viðskipta samkvæmt undirsamningum, gagnvart ákvæðum 91. gr. og 100. gr. gildandi laga um gjaldþrotaskipti. Ástæðan fyrir undanþágunni frá 100. gr. er sú að þar er kveðið á um að hver sem skuldar þrotabúi geti dregið það frá sem hann á hjá því ef lánadrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags að fullnægðum frekari skilyrðum. Þessi þriggja mánaða frestur gerir það að verkum að kröfur annars aðilans samkvæmt undirsamningum á grundvelli höfuðsamningsins sem falla til innan þriggja mánaða frestsins verða ekki tækar til skuldajafnaðar. Þetta veldur óviðunandi röskun í samningnum enda eru réttindi og skyldur aðila samkvæmt slíkum samningum samofnar. Tilgangur með undanþágu frá 91. gr. gjaldþrotalaga er að koma í veg fyrir að þrotabú geti gengið inn í þá samninga sem eru hagstæðir fyrir búið en hafnað þeim eru eru óhagstæðir. Í flestum samningum er það þannig að báðir aðilar hafa gagn af samningnum þegar hann er gerður upp. Í afleiðusamningum er það hins vegar þannig að samningurinn felur í sér tap fyrir annan aðilann og samsvarandi hagnað fyrir hinn við uppgjörið. Þrotabú mundi þannig aðeins velja að ganga inn í þá samninga sem væru hagstæðir fyrir búið (cherry picking).
    Talið er rétt að gera að skilyrði að slíkir höfuðsamningar séu skriflegir til að tryggja sönnun þeirra, enda geta þeir haft víðtæk réttaráhrif. Tekið skal fram að hér er um að ræða tvíhliða samninga en ekki milli fleiri aðila. Gert er ráð fyrir að hvers konar aðilar geti notfært sér heimildina. Hún er samkvæmt greininni afmörkuð við þá samninga sem taldir eru upp í 32. gr. samkvæmt frumvarpinu, þ.e. ef greinin á að eiga við er einungis er hægt að semja um það í höfuðsamningi að skyldur aðila samkvæmt þeim samningum sem þar eru taldir upp skuli jafnast hver á móti annarri. Ef fjallað er um fleiri samninga í höfuðsamningi en þá sem taldir eru upp gildir ákvæðið ekki um skyldur aðila samkvæmt þeim samningum.
    Gert er ráð fyrir að heimildin taka til þess þegar samningar eru skuldajafnaðir, þeir endurnýjaðir eða við vanefnd. Sérstaklega er tekið fram að hún taki einnig til þess þegar annar aðilinn fær heimild til greiðslustöðvunar, gengur undir nauðasamninga eða verður gjaldþrota. Tekið skal fram að upptalning þessi getur fallið innan þess sem talið er vanefnd, enda er aðilum frjálst að semja um það sín á milli hvað teljist vanefnd á samningi. Rétt þótti hins vegar til áréttingar og til að koma í veg fyrir vafa að telja upp greiðslustöðvun, nauðasamning og gjaldþrot.
    Í c-lið greinarinnar er gerð tillaga að nýrri 34. gr. laganna. Þar er kveðið á um að tryggingarréttindum vegna samninga þeirra sem nefndir eru í 32. gr. og sett eru til tryggingar viðskiptum í greiðslujöfnunarstöð í samræmi við þær reglur sem gilda í stöðinni verði ekki rift samkvæmt ákvæði 37. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Er talið rétt að gera ráð fyrir að uppgjör samninga skv. 32. gr. verði framkvæmt í greiðslujöfnunarstöð og því nauðsynlegt að koma í veg fyrir að tryggingum vegna slíks uppgjörs verði rift af þrotabúi.

Um 12. gr.

    Greinin breytir 13. gr. laga um verðbréfasjóði, nr. 10/1993, með síðari breytingum. Í 13. gr. gildandi laga segir að daglegur stjórnandi rekstrarfélags skuli uppfylla sömu skilyrði og framkvæmdastjóri fyrirtækis í verðbréfaþjónustu. Með þeim tillögum að breytingum á verðbréfaviðskiptum sem raktar hafa verið í þessu frumvarpi verður ekki gerð sú krafa að framkvæmdastjóri fyrirtækis í verðbréfaþjónustu hafi lokið prófi í verðbréfamiðlun. Eðlilegt þykir hins vegar að sú krafa verði áfram gerð til daglegs stjórnanda rekstrarfélags. Því er lagt til að greininni verði breytt í samræmi við það.

Um 13. gr.

    Í greininni er kveðið á um að starfandi fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skuli hafa lagað starfsemi sína að 11. gr. laganna fyrir 1. júlí 2001. Eðlilegt þykir að gefa fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu nokkuð rúman frest til þess að aðlaga starfsemi sína að þeirri miklu breytingu sem felst í greininni. Þessi rúmi aðlögunarfrestur gefur starfsmönnum þessara fyrirtækja, sem ætla má að gert yrði að hafa lokið prófi í verðbréfamiðlun, færi á að sækja námskeið í verðbréfamiðlun næsta vetur og ljúka prófi áður en tímafrestur sá sem kveðið er á um rennur út.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 13/1996,
um verðbréfaviðskipti, og á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að auka almenna neytendavernd við kaup og sölu verðbréfa og styrkja stoðir íslensk verðbréfamarkaðar. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.