Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 686  —  327. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um lánveitingar til sjávarútvegsfyrirtækja.

    Óskað var eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands um 1. lið fyrirspurnarinnar og frá Byggðastofnun, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf., Búnaðarbanka Íslands hf., Íslandsbanka hf. og Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis um 2.–4. lið. Svarið byggist á upplýsingum sem bárust.
    Sérstaklega er tekið fram að ekki er unnt að svara 2.–4. lið nema að takmörkuðu leyti. Kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi eru þessar upplýsingar í fæstum tilfellum aðgengilegar í upplýsingakerfum lánastofnana og því reyndist fæstum lánastofnunum unnt að svara á þeim knappa tíma sem gefinn er til að svara skriflegum fyrirspurnum skv. 49. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Í öðru lagi er ekki unnt að veita upplýsingar sem eru til þess fallnar að rýra samkeppnisstöðu lánastofnana á fjármálamarkaði eða ganga gegn þagnarskylduákvæði 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og ákvæðum reglna Verðbréfaþings Íslands um upplýsingagjöf.

     1.      Hver hefur verið þróun lánveitinga lánastofnana til sjávarútvegsfyrirtækja árlega síðustu fimm ár?
    Staða útlána innlánsstofnana og fjárfestingarlánasjóða til fyrirtækja í sjávarútvegi í lok hvers árs frá 1994–1999 er eftirfarandi (í millj. kr.):

    1994     69.584
    1995     71.930
    1996     84.014
    1997     94.134
    1998     111.898
    1999     122.699

     2.      Í hve mörgum fiskiskipum með aflahlutdeild hefur verið tekið veð fyrir þessum lánveitingum árlega síðustu fimm ár og hvað liggur slík veðsetning að baki háum lánveitingum lánastofnana til sjávarútvegsins á þessu tímabili, sundurliðað eftir árum?
    Byggðastofnun tók á árunum 1995–1999 veð í um það bil 350 bátum og skipum og þar af voru um 250 smábátar. Rétt er að taka fram að í stærri bátunum hafði Byggðastofnun í mörgum tilvikum eldra veð. Áætlað er að fjárhæð lána á tímabilinu hafi numið samtals um 3.600 millj. kr. á verðlagi í ársbyrjun 2000, þar af um 700 millj. kr. vegna smábáta. Skipting milli ára er áætluð eftirfarandi (í millj. kr.):

     Ár     Fjöldi     Fjárhæð
    1995     70     750
    1996     110     1.070
    1997     80     780
    1998     50     550
    1999     40     450
    Alls     350     3.600

    Tekið er fram í svari Byggðastofnunar að upplýsingar þessar geta ekki verið nákvæmar, enda hafa þær ekki verið flokkaðar sérstaklega eins og farið er fram á í fyrirspurninni.
    Í svari Búnaðarbankans kemur fram að hluti af heildarútlánum til sjávarútvegs á hverjum tíma er tryggður með veði í fiskiskipum með aflahlutdeild. Önnur lán til greinarinnar eru veitt gegn öðrum tryggingum eða jafnvel án sérstakra trygginga í ljósi styrkrar stöðu greiðenda. Rétt er að benda á að stærstur hluti afurðalána bankans fellur undir lán til sjávarútvegs og eru þau lán fyrst og fremst tryggð með veði í afurðum. Heildarfjárhæð lána til sjávarútvegs hefur aukist úr 4.425 millj. kr. í árslok 1995 í 11.393 millj. kr. í árslok 1998.
    Í svari Landsbankans kemur fram þróun heildarútlána til sjávarútvegs. Í árslok 1995 voru 23.632 millj. kr. í útlánum til sjávarútvegs en í árslok 1999 voru útlán til þeirrar greinar 38.280 millj. kr.
    Í svari Íslandsbanka kemur fram að heildarútlán til sjávarútvegs voru 8.888 millj. kr. í árslok 1995 en 24.469 millj. kr. í árslok 1999.
    Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hefur veitt tvö lán sem flokkast undir þennan lið, annað árið 1998 að fjárhæð 27,1 millj. kr. og hitt árið 1999 að fjárhæð 53,4 millj. kr.
    Um síðustu áramót voru 303 fiskiskip með aflahlutdeild veðsett hjá FBA.

     3.      Hverjar voru eftirstöðvar lána hjá lánastofnunum sem tryggð voru með veði í fiskiskipum með aflahlutdeild um síðustu áramót?
    Eftirstöðvar lána hjá Byggðastofnun sem tryggð voru með veði í fiskiskipum með aflahlutdeild voru um síðustu áramót nálægt 3.500 millj. kr. Eftirstöðvar lána hjá FBA námu 17.800 millj. kr.

     4.      Hefur eitthvað verið um að lánastofnanir hafi krafist veðsetningar í fiskiskipum með aflahlutdeild vegna skuldbreytinga lána sem tekin voru fyrir gildistöku laga um samningsveð frá maí 1997 í stað annarra ábyrgða? Ef svo er, í hve miklum mæli?
    Í svari sínu segir Byggðastofnun að veð vegna skuldbreytingarlána séu að jafnaði þau sömu og á upphaflega láninu. Frávik frá þeirri meginreglu hafa verið mjög óveruleg. FBA segir að ekki hafi verið krafist veðsetningar í fiskiskipum með aflahlutdeild í stað ábyrgða vegna skuldbreytinga lána sem tekin voru fyrir gildistöku laga um samningsveð. Í svari Búnaðarbankans segir að það hafi ekki verið markmið bankans að breyta tryggingum á þennan máta. Erfitt sé þó að fullyrða að ekki geti verið um einhver slík undantekningartilvik að ræða frá gildistöku laga um samningsveð. Íslandsbanki segir að ekki hafi verið haldið sérstaklega utan um endurnýjun tryggingarbréfa með veði í fiskiskipum og aflaheimildum sem útgefin voru fyrir gildistöku nýrra veðlaga. SPRON segir að engin lán hafi verið veitt sem eigi við þennan lið.