Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 695  —  334. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Ástu Möller um tíðni slysa af völdum skotelda.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve mörg slys hafa orðið af völdum skotelda sl. tíu ár, að síðustu áramótum meðtöldum?
     2.      Hvers eðlis hafa þessi slys verið og hvernig skiptast þau eftir aldursflokkum?
     3.      Hvaða tegundir skotelda hafa valdið slysunum?
     4.      Hver er tíðni slysa af völdum skotelda á Íslandi í samanburði við tíðni þeirra annars staðar á Norðurlöndum, í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi?


    Tíðni slysa af völdum skotelda á Íslandi undanfarinn áratug er ekki að fullu þekkt. Í samráði við landlækni hefur á Sjúkrahúsi Reykjavíkur verið tekið saman yfirlit yfir sprengjuáverka um síðastliðin áramót samkvæmt gögnum slysa- og bráðamóttöku sjúkrahússins en ekki hefur gefist tóm til að fara í skýrslur frá fyrri áramótum. Skoðaðar voru komur allra sjúklinga með áverka eftir sprengjuslys í móttökuna frá kl. 12 á gamlársdag 1999 til kl. 12 á nýársdag 2000. Þennan sólarhring komu 147 manns í móttökuna. Þar af komu 102 (69%) með áverka, 14 í fylgd lögreglu vegna gruns um ölvunarakstur og aðrir vegna veikinda. Af þeim sem voru með áverka reyndust 23 (23%) hafa slasast af einhvers konar sprengjum, blysum, tertum eða flugeldum. Karlmenn voru í meiri hluta (18) og voru flestir í aldurshópunum 3–10 ára (9) og 37–47 ára (10). Andlitsáverkar voru algengastir (13) og/eða augnáverkar (6), samtals í 83% tilvika. Hendur og fingur urðu fyrir barðinu á sprengjunum í 4% tilvika. Nær alltaf var um einhvern bruna að ræða en 11 hlutu sár eða skurði og fimm beinbrot. Þrjá slasaða þurfti að leggja inn á sjúkrahús. Enginn hinna slösuðu hafði notað hlífðargleraugu og aðeins einn hlífðarhanska. Venjulegir flugeldar áttu þátt í níu slysum, svokallaðar tertur í fjórum, sprengjur í fimm, handblys eða hvellhettur (kínverjar) í tveimur en í tveimur tilvikum var óvíst um tegund. Tívolísprengjur ollu tveimur alvarlegum slysum.
    Ekki er vitað hversu mikið af sprengjum var notað um síðustu áramót á landinu en sem betur fer virðast hlutfallslega fáir hafa slasast. Hinir slösuðu notuðu ekki hefðbundinn öryggisbúnað, eins og hlífðargleraugu og hanska. Stórar sprengjur ollu alvarlegustu áverkunum.
    Að áliti yfirlæknis slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur voru slys heldur fleiri um síðustu áramót en árin á undan en nákvæmar upplýsingar liggja ekki fyrir um fjöldann.
    Hliðstæðar upplýsingar hafa fengist frá augnlækningadeild Landspítalans en þangað komu sex manns um þessi áramót með augnáverka eftir sprengjur og skotelda, þar af þrír sem komu ekki frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Enginn þeirra notaði öryggisgleraugu. Tveir hafa hugsanlega hlotið varanlegan augnskaða. Í fjórum tilvikum var um stóran flugeld eða tívolísprengju að ræða.
    Nokkrar upplýsingar eru til í birtum heimildum um slys af völdum skotelda í öðrum löndum, þótt ekki hafi tekist að finna heimildir um samræmda framsýna skráningu. Í nýlegri danskri grein er lýst tveimur sjúklingum er hlutu blæðingar í heila af völdum áverka frá skoteldum. Í Viktoríuríki í Ástralíu voru áverkar af völdum skotelda kannaðir árin 1988–96. Flestir hinna slösuðu voru börn (meðalaldur 9 ár) og flest barnanna voru strákar, eða 71%. Algengasti áverkastaður var höfuð og brunar voru algengasta tegund áverka. Flestir áverkanna voru frá smásprengjum á borð við hvellhettur.
    Í nýlegri rannsókn í Finnlandi voru hvers konar sprengiáverkar kannaðir og reyndust tæplega 30% þeirra vera af völdum skotelda. Tíðni alvarlegra áverka sem leiddu til sjúkrahússinnlagnar var innan við eitt tilvik á hverja 100.000 íbúa á ári.
    Könnun hliðstæð þeirri sem gerð var á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og áður er minnst á var gerð í Óðinsvéum í Danmörku um áramótin 1996–97. Í þeirri könnun voru 20% áverkanna á augum og 50% handáverkar. Rúmlega 60% alvarlegra áverka er leiddu til sjúkrahúsvistar voru af völdum ólöglegra skotelda. Hins vegar leiddi nýleg skosk rannsókn á augnslysum barna í ljós að ekkert þeirra var af völdum skotelda enda munu þeir ekki vera í höndum almennings þar í landi.
    Af þessu má ráða að skoteldaslys eru nokkurt vandamál á Íslandi eins og í nálægum löndum, þar sem skoteldar eru notaðir af almenningi. Þó að tölur liggi ekki fyrir er ekkert sem bendir til að alvarlegum áverkum, þar á meðal augnslysum, hafi fjölgað. Áramótin 1988–89 voru verst að þessu leyti, en þá urðu a.m.k. fimm mjög alvarleg augnslys af „tívolísprengjum“ sem svo voru nefndar. Þær voru teknar af markaði og hefur alvarlegum augnslysum fækkað í kjölfar þess. Að áliti augnlækna hefur öflugur áróður fyrir notkun hlífðargleraugna einnig haft áhrif til að fækka augnslysum. Þetta virðist hins vegar hafa gleymst fljótt, enginn þeirra sem hlutu augnáverka um síðustu áramót hafði notað hlífðargleraugu, eins og áður er getið.
    Ástæða virðist því vera til að hafa uppi sérstakar varúðarráðstafanir um næstu áramót til að sporna við slysum af völdum skotelda. Óvíst er hvort bann við notkun þeirra bæri árangur, enda kemur fram í einni af rannsóknunum sem til var vitnað hér að framan að um 60% alvarlegra slysa voru af völdum ólöglegra skotelda.