Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 697  —  429. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Árni Steinar Jóhannsson.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „1. september 2000“ í 1. mgr. kemur: 1. september 2001.
     b.      Í stað 1. og 2. málsl. 4. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Hver sóknardagur telst 24 klst. Hvern sóknardag má taka út í tveimur 12 klst. veiðiferðum talið frá upphafi veiðiferðar. Veiðiferð sem er lengri en 12 klst. telst heill sóknardagur.

2. gr.

    Við 23. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Lög þessi falla úr gildi 1. september 2001.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XXIII við lögin:
     a.      Í stað orðanna „1998/1999 og 1999/2000“ í 1., 6., 8., 11. og 14. mgr. kemur: 1999/2000 og 2000/2001.
     b.      Við 3. málsl. 4. mgr. bætist: og frá fiskveiðiárinu 1999/2000 yfir á fiskveiðiárið 2000/2001.
     c.      Við 6. mgr. bætast fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sóknardag má taka út í tveimur 12 klst. veiðiferðum. Ákvæðið gildir einnig um 14. mgr. Fjöldi sóknardaga skal aukinn í hlutfalli við aukinn heildarafla þorsks sem og þorskaflahámark þessara báta. Ákvæðið á einnig við um 8. mgr.
     d.      Í stað orðanna ,,á fiskveiðiárinu 1999/2000“ í 12. mgr. kemur: á fiskveiðiárunum 1999/2000 og 2000/2001.

4. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a.
    Frá gildistöku þessa ákvæðis fellur niður úthlutun aflahlutdeildar til einstakra fiskiskipa í steinbít og ufsa. Ákvæðið gildir til loka fiskveiðiársins 2000/2001.

    b.
    Á fiskveiðiárinu 2000/2001 skal allt að 1,5% aflaheimilda af heildaraflamarki þorsks og ýsu úthlutað sérstaklega til aflamarksskipa sem voru minni en 200 brúttórúmlestir 1. september 1999. Skilyrði þess að aflamarksskip fái úthlutun er að skipið hafi hinn 1. september 1999 haft minna aflamark en 80 þorskígildistonn. Úthlutunarréttur hækkar með fækkandi þorskígildistonnum aflamarks vikomandi fiskiskips niður í 20 þorskígildistonn eða minna miðað við 1. september 1999. Jafnframt er skilyrði að fiskiskipið hafi leigt til sín á Kvótaþingi 40 þorskígildistonn eða meira fiskveiðiárið 1999/2000. Þá þarf aflamarksskip að hafa veitt 75% af aflamarki sínu í botnfiski fiskveiðiárið 1999/2000.
    Aflaheimildir þessar verða ekki framseldar til annarra fiskiskipa og teljast ekki með þegar veiðiskip uppfyllir 50% veiðiskyldu hvers árs, sbr. ákvæði 12. gr. laga þessara. Heimildum þessum verður aðeins úthlutað til dagróðrabáta.
    Hámarksúthlutun eftir stærðarflokkum fiskiskipa í brúttórúmlestum annars vegar og þorskígildishámarki hins vegar er sem hér segir:


Stærð skipa
Hámark þorskígildistonna
minna en 20 tonn 20,1–40 tonn 40,1–60 tonn 60,1–80 tonn
0–20 brl. 30 tonn 20 tonn 15 tonn 10 tonn
20,1–40 brl. 40 tonn 30 tonn 20 tonn 15 tonn
40,1–60 brl. 50 tonn 40 tonn 30 tonn 20 tonn
60,1–100 brl. 60 tonn 50 tonn 40 tonn 30 tonn
100,1–150 brl. 70 tonn 55 tonn 40 tonn 35 tonn
150,1–200 brl. 80 tonn 65 tonn 45 tonn 35 tonn

    Fiskiskip sem er með meira en 80 þorskígildistonn fær ekki úthlutun.
    Einnig skal þeim útgerðaraðilum, sem gera út fiskiskip minni en 20 brl. að stærð, uppfylla ekki skilyrði 1. mgr. um að hafa leigt til sín 40 þorskígildistonn eða meira á fiskveiðiárinu 1999/2000 og höfðu minna aflamark 1. september 1999 en 15 þorskígildistonn, úthlutað allt að 15 tonnum í þorskígildum þorsks og ýsu. Þó skal þeim aldrei úthlutað meira en aflamark þeirra var 1. september 1999 og aldrei meira en sá afli sem þau veiddu og lönduðu á fiskveiðiárinu 1999/2000.
    Ekki er gert að skilyrði að þessi skip hafi leigt til sín viðbótaraflaheimildir.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á núgildandi lögum um stjórn fiskveiða sem flutningsmenn telja mjög brýnar. Markmið þeirra er m.a. að auðvelda útgerðinni, einkum kvótalitlum einyrkjum og útgerðarmönnum smærri fiskiskipa, að brúa bilið þar til heildarendurskoðun laganna um stjórn fiskveiða er lokið. Þær snúa m.a. að því að fresta kvótasetningu ýsu, ufsa og steinbíts í smábátaveiðikerfinu og lagfæra ákvæði sóknardagatalningar þannig að veiðitími úr höfn í höfn megi teljast í 12 klst. tímabilum. Með því er verið að gera vinnutíma við þessar veiðar þannig að verjandi sé og samboðið þeim almennu reglum að hvíldartími verði eigi minni en 8 klst. á sólarhring. Kjósi sjómenn að veiðiferð þeirra sé lengri en 12 klst. samfellt verður það þeirra eigin ákvörðun sem ekki er knúin fram með lögum og reglum stjórnvalda.
    Lagt er til að sólarlagsákvæði komi inn í lögin um stjórn fiskveiða sem felli lögin úr gildi eins og þau eru nú og verða vonandi eftir þessar bráðnauðsynlegu lagfæringar sem hér eru lagðar til. Ákvæðum til bráðabirgða sem snerta veiðar smábáta er einnig breytt, annars vegar með frestun ýmissa ákvæða til ársins 2001 og hins vegar með því að sóknardag megi nýta í tveimur 12 klst. tímabilum. Einnig er lagt til að sóknardögum fjölgi hlutfallslega ef heildarþorskafli verður aukinn frá því sem nú er.
    Lagt er til að við lögin bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða. Í hinu fyrra er lagt til að steinbítur og ufsi verði á næsta ári teknir út úr kvótasetningu á hvert fiskiskip. Til þess hníga fjölmörg rök.
    Í hinu síðara er lagt til að allt að á meðan heildarendurskoðun laganna um stjórn fiskveiða stendur yfir verði 1,5% af heildaraflamarki þorsks og ýsu úthlutað sérstaklega til báta sem litlar heimildir hafa til þess að stunda fiskveiðar en hafa samt sem áður verið gerðir út. Hér er um að ræða fiskiskip sem raunverulega eru í útgerð en hafa orðið að leigja til sín að stærstum hluta veiðiheimildir sínar af Kvótaþingi. Heimildin nær aðeins til fiskiskipa minni en 200 brúttórúmlestir sem stunda dagróðra og uppfyllt hafa veiðiskyldu sína samkvæmt núgildandi lögum.
    Að lokum er, þrátt fyrir ákvæði 1.–5. mgr. 5. gr., lagt til að bátar undir 20 brl. að stærð sem eru með minna aflamark en 15 þorskígildistonn geti fengið eitt tonn á móti hverju einu tonni þorskígildis sem skipið veiðir af þorskígildum sínum. Hámarksúthlutun er 15 þorskígildistonn. Hér er um fá fiskiskip að ræða með mjög lítið aflamark. Heildarúthlutun til þessara skipa verður innan við 500 þorskígildistonn.
    Framangreindar ráðstafanir eru að mati flutningsmanna nauðsynlegar til að sporna við því að enn frekar verði gengið á hlut strandveiðiflotans en orðið er á meðan endurskoðun laganna stendur yfir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í a-lið er um að ræða frestunarákvæði í samræmi við þá skoðun flutningsmanna að það sé með öllu fráleitt að festa smábátaútgerðina enn frekar í kvótakerfi strax næsta haust á sama tíma og ætlað er að endurskoða lögin. Þingsályktunartillaga þingmanna Frjálslynda flokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um grundvöll nýrrar fiskveiðistefnu kallar á að ekki verði hnýttir enn frekari rembihnútar öllum sáttaumleitunum til skaða. Í raun er til vansa að frekari kvótasetning fari fram eins og ósætti um núverandi gjafakvótakerfi er mikið með þjóðinni.
    Í b-lið er lagt til að lagfært verði það stífa sóknarákvæði að hver af fáum veiðidögum krókabáta í dagakerfi skuli aðeins tekinn og talinn með samfelldri 24 klst. veiðiferð. Þarna er í raun verið að pína sjómenn, unga sem aldna, til þess að vinna óhóflega langan vinnudag sem fær ekki staðist lög og reglur um almenn hvíldarákvæði. Hér er því um þarfa leiðréttingu að ræða. Auk þess geta ákvæði eins og þessi stangast á við öryggissjónarmið. Sjómenn freistast til þess að fullnýta sóknardagana ef á annað borð róður er hafinn þegar þeir eru jafnfáir og raun ber vitni, jafnvel þótt veður versni, og getur slíkt skapað slysahættu.

Um 2. gr.


    Hér er sett inn ákvæði um að lögin falli úr gildi, svonefnt sólarlagsákvæði. Með því er verið að leggja áherslu á að núverandi fyrirkomulag er tímabundið. Í því að takmarka gildistíma laganna felst í senn ákveðin yfirlýsing um að lögin muni breytast, auk þess sem fiskveiðistjórnkerfið er í annarri réttarfarslegri stöðu sé löggjöfin tímabundin.

Um 3. gr.


    Í a-, b- og d-liðum er um að ræða að fresta núverandi ákvæðum til bráðabirgða um eitt ár, til 1. september 2001, til samræmis við sólarlagsákvæði 2. gr. frumvarpsins og breytingar sem gerðar eru á 6. gr. laganna, sbr. a-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Í c-lið er lögð til sams konar breyting um heimild til 12 klst. veiðiferðar þeirra sóknardagabáta sem veiðar stunda eftir ákvæði til bráðabirgða XXIII við lögin og lögð er til í b-lið 1. gr. frumvarpsins. Einnig er lagt til að sóknardögum þeirra báta sem starfa eftir 6. og 14. mgr. ákvæðisins, sem og 8. mgr., verði fjölgað í hlutfalli við meiri heildarafla þorsks á næsta fiskveiðiári, ef heildarþorskaflinn verður aukinn frá því sem nú er.

Um 4. gr.


     Um a-lið.
    Hér er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða um að kvótasetning á sérhvert fiskiskip verði afnumin í tveimur fisktegundum, steinbít og ufsa. Fjölmörg rök eru fyrir því að standa þannig að málum. Benda má á þá staðreynd að áðurnefndar fisktegundir hafa ekki veiðst á undanförnum árum að því marki sem leyft hefur verið án þess að um nokkurn viðkomubrest sé að ræða. Nýliðun í steinbít virðist góð og viðurkennt er að ufsi er flökkufiskur sem ferðast eftir árferði um lögsögur ríkja í Norður-Atlantshafi. Fá rök hníga því til þess að kvótasetja tegundina sérstaklega í íslenskri fiskveiðilögsögu. Einnig skal vakin athygli á því að í fylgiskjali frá Fiskistofu með frumvarpi til laga um breytingu á svokallaðri tegundatilfærslu (229. mál, þskj. 275) kemur skýrt fram að áðurnefndar fisktegundir voru mjög notaðar í þeim óeðlilega tilgangi að búa til millifærslu og auka þannig veiðar á karfa og grálúðustofnum sem taldir voru fullnýttir. Því ber ekki nauðsyn til kvótasetningar þessara botnfisktegunda og að taka þær út úr kvóta getur beinlínis komið öðrum tegundum til góða.
     Um b-lið.
    Sá mikli niðurskurður sem ár eftir ár varð á þorskveiðiheimildum bitnaði harkalega á þeim bátum sem stundað hafa þorskveiðar á grunnslóð og flokkast flestallir samkvæmt stærð sem hefðbundnir vertíðarbátar. Bátar þessir eru yfirleitt í góðu ásigkomulagi og engin skynsamleg rök til þess að þeir hverfi úr rekstri nú, allra síst þar sem vel horfir með þorskstofninn og allar líkur eru til þess að hann muni stækka ört á næstu árum.
    Í þeirri grimmu samkeppni sem ríkti, aðallega á fyrstu árunum eftir 1990, um kaup á ,,varanlegum veiðiheimildum“ átti þessi útgerðarflokkur mjög litla möguleika á móti stórum útgerðarfélögum sem öfluðu sér að stærstum hluta fjármagns til slíkra fjárfestinga með útgáfu nýrra hlutabréfa sem oft seldust á margföldu nafnverði.
    Þvert á móti hafa margar útgerðir þessara báta, vegna vanskila sem þær hafa lent í, séð sig tilneyddar til að selja frá sér hluta af því litla sem til umráða er í veiðiheimildum. Niðurstaðan samkvæmt því sem að framan er rakið er sú að um langt árabil hefur ríkt algjör einstefna í tilflutningi varanlegra þorskveiðiheimilda. Veiðiheimildir sem upphaflega urðu til vegna veiðireynslu í strandveiðum eru nú í verulegum mæli nýttar af frystitogurum í úthafsveiðum. Slíkur stórfelldur tilflutningur hlýtur að teljast óæskilegur út frá sjónarmiðum um skynsamlega nýtingu auðlindarinnar.
    Afleiðingar þessarar þróunar eru margþættar. Þær koma fram í vaxandi skorti á hráefni til fiskvinnslufyrirtækja víða um land. Þetta leiðir einnig til þess að ekki er hægt að anna eftirspurn á verðmætum afurðamörkuðum, svo sem í stórum saltfiski á Spánarmörkuðum, þannig að skaði hlýst af.
    Þá er einnig ástæða til þess að benda á að bátar í þessari aðstöðu hafa ár eftir ár orðið að leigja til sín veiðiheimildir á okurverði sem myndast aðallega með samráði nokkurra ráðandi stórfyrirtækja á þessum markaði. Slík verðmyndun er með öllu óforsvaranleg og óviðunandi að kvótinn sé misnotaður á þennan hátt. Að öllu samanlögðu ber því brýna nauðsyn til að löggjafinn bregðist við á þann hátt sem hér er lagt til.
    Loks er lagt til að bátur undir 20 brl. að stærð með minna aflamark en 15 þorskígildistonn geti fengið í úthlutun eitt tonn á móti hverju veiddu tonni að hámarki 15 þorskígildistonn. Ekki er gert að skilyrði að þessi skip hafi leigt sér kvóta af Kvótaþingi. Þessi úthlutun er á milli 400 og 500 þorskígildistonn. Rétt er að þeir sem lítið hafa og reyna að lifa við það fái einnig nokkra leiðréttingu meðan á endurskoðun laganna stendur.