Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 713  —  443. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um öryggi á miðhálendi Íslands.

Flm.: Hjálmar Árnason, Guðmundur Árni Stefánsson, Jón Kristjánsson,


Jónas Hallgrímsson, Margrét K. Sverrisdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd sem geri tillögur um aðgerðir til að auka öryggi þeirra sem ferðast um hálendi Íslands að vetrarlagi. Einkum verði athuguð dreifing NMT-kerfisins, Tetra-kerfisins, samstarf við Slysavarnarfélagið Landsbjörg um ferðaáætlanir ferðalanga og nýtingu björgunarbúnaðar almennt.

Greinargerð.


    Að undanförnu hafa björgunarsveitir iðulega verið kallaðar út til að leita fólks á fjallvegum eða hálendinu. Fyrstu tvo mánuði ársins voru leitarútköll að meðaltali annan hvern dag. Gífurlegur kostnaður fylgir slíkum útköllum. Björgunarsveitir landsmanna hafa sýnt harðfylgni og dugnað við leit að fólki við erfiðar aðstæður. Þáttur þeirra verður aldrei nógsamlega metinn.
    Í mörgum tilvikum geta klukkustundir ráðið úrslitum um hvort tekst að bjarga mannslífum. Fyrir hefur komið að björgunarsveitir hafa leitað í fárviðri í meira en sólarhring að týndu fólki. Slíka leit mætti stytta verulega með markvissum aðgerðum. Á hálendinu eru stórar gloppur í dreifikerfi fjarskipta (NMT og GSM). Með tveimur til þremur dreifistöðvum til viðbótar á hálendinu mætti bæta fjarskiptin þannig að þau næðu til algengustu ferðamannastaða þar. Áætluð er uppbygging Tetra-kerfis í fjarskiptum, m.a. með nýtingu ljósleiðara og örbylgjusenda í eigu Landsvirkjunar til fjarskipta milli stjórnstöðvar Landsvirkjunar og helstu virkjana fyrirtækisins á miðhálendinu.
    Æskilegt er að kanna hvort koma megi upp ódýrum búnaði miðunartækja sem ferðalangar gætu haft með sér í ferðum um fjallvegi þannig að auðveldlega mætti miða út nákvæma staðsetningu þeirra ef óhapp á sér stað. Slysavarnarfélagið Landsbjörg og björgunarsveitir á hennar vegum hafa boðið fólki að skila ítarlegri ferðaáætlun til sveitanna áður en lagt er á fjöll. Ef til vill má efla slíkt, rétt eins og tilkynningarskyldu sjófarenda.
    Margir hálendisfarar hafa ávallt meðferðis ýmsan neyðarbúnað, t.d. álteppi, blys, flautur og fleira sem nýst getur við erfiðar aðstæður. Því miður eru nokkur brögð að því að ferðalangar hirði ekki um að hafa slíkan búnað með sér. Kanna þarf hvernig megi bæta úr því.
    Með þingsályktunartillögunni er mælst til þess að dómsmálaráðherra skipi nefnd til að gera tillögur um hvernig megi auka öryggi í ferðum fólks um miðhálendið. Um mannslíf er að tefla og mikinn kostnað. Æskilegt er að í nefndinni sitji, auk fulltrúa dómsmálaráðuneytis, aðilar frá björgunarsamtökum, útivistarsamtökum og Póst- og fjarskiptastofnun.