Ferill 470. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 749  —  470. mál.




Skýrsla



samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 1999.

(Lögð fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


I. SKÝRSLA SAMSTARFSRÁÐHERRA UM STÖRF NORRÆNU


RÁÐHERRANEFNDARINNAR 1999



1. Inngangur.

    Ísland hafði með höndum formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 1999. Formennska á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar er krefjandi starf en jafnframt gefandi, því hún gefur formennskulandinu færi á að koma áherslumálum sínum að í samstarfinu. Stefnan um kjarna samstarfsins er þó mótuð á grundvelli sameiginlegra hagsmuna landanna til lengri tíma en eins árs. Því ber formennskulandinu að fylgja eftir þegar mótaðri stefnu jafnframt því sem leitast er við að endurnýja starfsemina og koma að nýjum málum.
    Þau markmið sem stefnt var að á formennskuári Íslands voru sett fram í sérstakri formennskuáætlun þar sem gerð var grein fyrir forgangsmálum Íslands á öllum sviðum samstarfsins. Vegna þeirrar sérstöku áherslu sem lögð var af hálfu Íslands á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, náttúruvernd og lífskjör á Vestur-Norðurlöndum og öðrum norðlægum slóðum var jafnfram lögð fram sérstök markmiðslýsing undir yfirskriftinni „Fólk og haf í norðri“.
    „Fólk og haf í norðri“ og formennskuáætlunin voru lagðar fram sem hluti skýrslu samstarfsráðherra til Alþingis um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 1998. Báðar áætlanirnar eru aðgengilegar á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. Við lok formennskutímabilsins um síðastliðin áramót gaf síðan Norræna ráðherranefndin út lokaskýrslu með upplýsingum um stöðu áherslumála Íslands, og er hana einnig að finna á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. Hún sýnir að störfin á árinu gengu vel og að árangur varð umtalsverður. Mikils vert er jafnframt að Danir, sem tóku við formennsku af okkur Íslendingum við áramót, kváðust í formennskuáætlun sinni mundu halda áfram að fylgja eftir áherslumálum okkar.

2. Störf forsætisráðherra Norðurlanda.


    Í tilefni forystu Íslands í samstarfinu árið 1999 hélt Davíð Oddsson forsætisráðherra stefnuræðuna á þingi Norðurlandaráðs í Ósló í nóvember 1998 og gerði þar grein fyrir markmiðum Íslands á formennskuárinu og horfum í samstarfinu.
    Forsætisráðherrar landanna áttu á árinu þrjá reglulega fundi og að auki fundi með forsætisráðherra Japans, forsætisráðherrum Eystrasaltsríkjanna, stjórnarleiðtogum Færeyja, Grænlands og Álandseyja og forsætisnefnd Norðurlandaráðs.
    Fyrsti forsætisráðherrafundur ársins var haldinn í febrúar í Helsingfors og voru þar til umræðu helstu mál á dagskrá ESB. Þá var þar rædd afstaða norrænu ESB-ríkjanna til aðildar að Myntbandalaginu og málefni þess almennt ásamt stöðu seðlabanka aðildarríkjanna gagnvart Evrópska seðlabankanum.
    Á þeim fundi voru og kynnt áform ríkisstjórnar Íslands um að halda ráðstefnuna „Konur og lýðræði“ í samstarfi við Bandaríkjastjórn. Jafnframt voru kynntar óskir Íslands um að Norræna ráðherranefndin kæmi að ráðstefnuhaldinu sem meðskipuleggjandi.
    Meginefni fundar forsætisráðherranna í febrúar með forsætisráðherrum Eystrasaltsríkjanna voru aðildarviðræður Eystrasaltsríkjanna við ESB og aðlögunarferli þeirra og bandalagsins vegna fjölgunar aðildarríkjanna. Formennska Finnlands í ESB, Myntbandalagið, efnahagsvandinn í Rússlandi og samstarfið í Eystrasaltsráðinu og leiðtogafundur þess var þar og á dagskrá.
    Forsætisráðherrarnir héldu sumarfund sinn í Reykjavík í júní. Þar var staðan hvað varðar framkvæmd formennskuáætlunar Íslands og frumundirbúningur formennskuáætlunar Danmerkur í norrænu samstarfi kynnt. Störf og fjárhagur Norrænu ráðherranefndarinnar voru þar og til umræðu ásamt stöðu sjálfstjórnarsvæðanna í samstarfinu.
    Staða mála á vettvangi ESB og í Evrópu allri var að venju á dagskrá og málefni Kosovo í brennidepli. Nauðsyn þess að tryggja hagsmuni Íslands og Noregs, verði Vesturevrópusambandið (VES) fellt inn í ESB, var rædd sérstaklega.
    Formennskuáætlun Finnlands í ESB var kynnt og rædd á fundinum og forsætisráðherra Finnlands, Paavo Lipponen kvað Finnland sem formennskuland mundu leggja sérstaka rækt við upplýsingagjöf og samstarf við Ísland og Noreg. Hann kvað utanríkisráðherrum Íslands og Noregs verða ásamt utanríkisráðherrum annarra ríkja, sem Norðlæga víddin snertir, boðið til þess utanríkisráðherrafundar ESB sem haldinn yrði í Helsingfors í nóvember um Norðlægu víddina.
    Á fundinum var einnig gerð grein fyrir stöðu mála í öðru alþjóðlegu samstarfi, þar sem Norðurlönd voru í forsvari á árinu.
    Fundur norrænu forsætisráðherranna með forsætisráðherra Japans var haldinn í Reykjavík í lok júní í framhaldi sumarfundar ráðherranna. Á fundinum, sem var annar í röð funda forsætisráðherra þessara landa, var til umræðu fyrirkomulag velferðarmála, aðgerðir gegn atvinnuleysi ásamt samstarfi Japans og Norðurlanda um að kanna afleiðingar af því að meðalaldur þjóðanna er að hækka. Einnig gerði forsætisráðherra Japans, Keizo Obuchi, friðargæslu norrænu ríkjanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að umtalsefni og kvað Japan hafa fullan hug á að starfa með norrænu ríkjunum að því í upphafi nýrrar aldar að ríki heims yrðu í stakk búin til að takast á við nýjar ógnir þannig að öldin geti orðið friðsæl og mannvæn.
    Á fundinum voru og til umræðu skipulagsmál Sameinuðu þjóðanna, fjármál þeirra og starfsemi Öryggisráðsins, alþjóðleg efnahagsmál og ýmis svæðisbundin mál.
    Á fundi forsætisráðherranna í Stokkhólmi, sem haldinn var í tengslum við Norðurlandaráðsþing í nóvember sl., var formennskuáætlun Danmerkur í norrænu samstarfi kynnt og gerð grein fyrir því að norrænu velferðarkerfin og þær ögranir sem fælust í því að standa vörð um þau, yrði í fyrirrúmi á formennskuárinu. Einnig var þar kynnt sú eftirfylgni, sem hafin er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar vegna yfirlýsingar forsætisráðherranna frá fyrra ári um sjálfbær Norðurlönd.
    Að venju var staða mála hjá ESB á dagskrá fundarins. Fyrirhuguð fjölgun aðildarríkja bandalagsins var rædd ásamt þeim breytingum sem nauðsynlegt yrði að gera á skipulagi sambandsins af því tilefni. Lögð var á það áhersla að þar sem fjölgun aðildarríkja ESB hefði í för með sér sömu fjölgun aðildarríkja EES væri brýnt að þeim EES-ríkjum sem stæðu utan ESB gæfist færi á að fylgjast náið með gangi aðildarviðræðnanna.
    Öryggis- og varnarþáttur ESB var á dagskrá og forsætisráðherra Íslands lagði á það áherslu að forsenda þess að sameiginleg varnar- og öryggisstefna ESB væri ásættanleg fyrir Ísland væri að tengslin yfir Atlantshafið á sviði varnarmála yrðu ekki veikt og að áhrif þeirra Evrópuríkja, sem eru aðilar Atlantshafsbandalagsins án þess að vera aðilar ESB, breyttust ekki til hins verra. Jafnframt lagði hann áherslu á mikilvægi þess að þessi sjónarmið yrðu virt á leiðtogafundi ESB í Helsinki í desember.
    Á fundi forsætisráðherranna með forsætisráðherrum Eystrasaltsríkjanna í Stokkhólmi kynnti forsætisráðherra Íslands niðurstöður ráðstefnunnar „Konur og lýðræði“, sem haldin hafði verið mánuði fyrr í Reykjavík, með það að markmiði að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í lýðræðisþróuninni. Forsætisráðherra lýsti væntingum um að ráðstefnunni yrði fylgt eftir á ráðstefnu um jafnréttismál í Litháen árið 2001. Auk fulltrúa frá norrænu ríkjunum höfðu fulltrúar frá Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum sótt ráðstefnuna.
    Eins og á fyrri fundinum með forsætisráðherrum Eystrasaltsríkjanna í febrúar voru aðildarviðræðurnar við ESB og aðlögunarferlið sem af aðild leiðir á dagskrá fundarins í nóvember. Af hálfu Eystrasaltsríkjanna var því lýst yfir að vegna þeirrar samhygðar og vináttu sem ríkt hefði milli Eystrasaltsríkjanna og norrænu landanna væri það sérlega mikilvægt að fá upplýsingar um afstöðu þeirra til mála á dagskrá ESB. Á fundinum var þar rætt hið alvarlega ástand sem skapast hafði vegna átakanna í Tjetjeníu.
    Á fundi forsætisráðherranna með stjórnarleiðtogum Álandseyja, Færeyja og Grænlands voru m.a. samningar Grænlands við ESB til umræðu. Þar voru og kynntar tillögur Grænlands um hvernig gera megi málefni Norðurskautssvæðanna sýnileg í Norðlægu víddinni. Einnig voru kynnt og rædd þar helstu mál fundar forsætisráðherranna fyrr um morguninn.
    Aðalefni fundar forsætisráðherranna með forsætisnefnd Norðurlandaráðs í Stokkhólmi var þróunin í Evrópu á sviði öryggis- og varnarmála og stækkunarferli ESB.

3. Störf samstarfsráðherra Norðurlanda.


Hlutverk.
    Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra var samstarfsráðherra fyrri hluta ársins og formaður í hópi norrænu samstarfsráðherranna þar til ný ríkisstjórn tók við völdum að afstöðnum kosningum til Alþingis þann 28. maí. Þá tók Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, við störfum samstarfsráðherra.
    Samstarfsráðherrar og forsætisráðherrar Norðurlanda setja samstarfinu pólitísk markmið og eitt mikilvægasta hlutverk samstarfsráðherranna er að stuðla að því að starfsemin sé í samræmi við þau. Auk þessarar stefnumótunar, er norræna fjárlagagerðin og skipting fjárveitinganna milli samstarfsverkefna og samstarfssviða ríkur þáttur í starfi samstarfsráðherranna. Samstarfsráðherrarnir fara og með upplýsingamálin og þau samstarfsmál sem eru þverfagleg eða falla af öðrum ástæðum ekki að hlutverki neinnar fagráðherranefndar. Þeirra helst er samstarfið við grannsvæði norrænu landanna.
    Norræna samstarfsnefndin, sem starfar í umboði samstarfsráðherranna og undirbýr fundi þeirra, er stjórn aðalskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn.

Fjárlögin.
    Árið 1999 voru fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar 741 millj. d.kr. á núvirði. Með undantekningu fyrir árin 1995 og 1996, þegar drjúg hækkun varð tímabundið, hafa þau staðið nánast í stað síðan árið 1993. Á þessu tímabili hefur hins vegar orðið sú breyting á starfseminni að grannsvæðasamstarfið hefur aukist frá því að vera nánast ekkert í upphafi tímabilsins upp í að taka til 20% heildarramma fjárveitinganna árið 1999.
    Það er, og var frá upphafi, sátt milli norrænu landanna um að taka virkan þátt á norrænum vettvangi í nauðsynlegri uppbyggingu í Eystrasaltsríkjunum og nálægum svæðum eftir fall Sovétríkjanna. Hjá því verður þó ekki litið að sú lækkun á fjárveitingum til hins hefðbundna innra samstarfs norrænu landanna sem af þessu hefur leitt, veldur því að sífellt er erfiðara að verða við þeim pólitísku kröfum sem gerðar eru til starfsins; kröfum um að nýjum áherslum sé fylgt eftir með aðgerðum, norrænt samstarf notað til að auka lífsgæði og samkennd á Norðurlöndum og sýna almenningi þannig fram á gildi samstarfsins.
    Í hópi samstarfsráðherranna er hafinn undirbúningur fjárlagagerðar ársins 2001 en ekki er ljóst hvort sátt næst um hækkun heildarrammans. Samtímis hefur verið hafist handa um endurskoðun norrænu fjárlagagerðarinnar. Markmið hennar er að gera fjárlögin þannig úr garði að unnt verði að nota þau betur en áður til að stýra fjárstreyminu að þeim verkefnum, sem pólitískur vilji er fyrir. Niðurstöður endurskoðunarinnar munu þó ekki nýtast fyrr en við fjárlagagerð fyrir árið 2002. Endurskoðun þessi er í raun síðasti þáttur þeirrar heildarendurskoðunar, sem gerð hefur verið á allri starfsemi ráðherranefndarinnar á undanförnum árum.

Evrópu- og önnur alþjóðamál.
    Norrænt samráð um Evrópumál var eitt höfuðmarkmið endurskoðunar þeirrar sem forsætisráðherrar landanna létu gera á samstarfinu árið 1995 í kjölfar aðildar Svía og Finna að Evrópusambandinu. Þá þegar átti sér stað reglubundið samráð milli forsætisráðherra og utanríkisráðherra Norðurlanda um pólitísk stefnumál á Evrópu- og öðrum alþjóðavettvangi. Hins vegar skorti oft nægar upplýsingar bæði hjá ráðherranefndinni og Norðurlandaráði um stöðu mála hjá Evrópusambandinu til að skrifstofur ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs gætu undirbúið umræður og lagt grunn að óformlegu samráði innan sinna vébanda um Evrópumál. Því var tekið upp samstarf við norrænu sendiráðin hjá Evrópusambandinu í Brussel með gagnkvæma upplýsingamiðlun og starfsmannaskipti að markmiði.
    Það var svo ekki fyrr en á liðnu ári, þegar Ísland fór með formennsku bæði í samstarfi norrænu sendiráðanna í Brussel og hjá ráðherranefndinni, sem þetta starf leiddi fyrst til umtalsverðs árangurs, sem fólst bæði í skipulagðri upplýsingagjöf um mál á dagskrá ESB og starfsmannaskiptum. Einnig var að frumkvæði þáverandi samstarfsráðherra haldinn vel sóttur fundur í Reykjavík í mars sl. þar sem sendiherra Íslands og sendifulltrúi í Brussel kynntu þeim embættismönnum sem stýrðu nefndum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar stöðu mála og héldu fram mikilvægi góðra tengsla við lykilfólk hjá Evrópusambandinu á hinum ýmsu fagsviðum. Mælst var til þess að sem flestar ráðherra- og embættismannanefndir héldu árlega fundi í Brussel í þessu skyni. Eins var hvatt til þess að norrænu ráðherrarnir héldu óformlega forfundi fyrir ráðsfundi ESB. Þegar hafa bæði umhverfisráðherrar og orkumálaráðherrar Norðurlanda haldið slíka fundi sem hafa gefið góða raun. Nokkrar embættismannanefndir hafa og haldið fundi í Brussel í sama skyni. Jafnframt hafa tengslin milli Brusselsendiráðanna, Norðurlandaskrifstofanna og ráðherranefndarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn styrkst til muna á árinu.
    Sendiráð Íslands í Brussel hélt í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina og viðkomandi ráðuneyti á Íslandi tvö málþing á árinu. Annað var haldið í tilefni útgáfu og kynningu á bókinni „Jafnrétti og lýðræði? – konur og stjórnvöld á Norðurlöndum“. Hitt, sem haldið var í samstarfi við Norðurlandaskrifstofu, var um umhverfisþátt Norðlægu víddarinnar. Málþingið um umhverfisþátt Norðlægu víddarinnar sóttu fulltrúar norrænu ríkjanna, Rússlands, Eystrasaltsríkjanna og Portúgals auk framkvæmdastjórnar ESB. Þar voru lögð fram sjónarmið um drög að innihaldi Norðlægu víddarinnar á umhverfissviði, sem síðan var til meðferðar á fundi þeim, sem utanríkisráðherrar ESB áttu í Helsinki í nóvember sl. með utanríkisráðherrum þeirra ríkja utan ESB, sem Norðlæga víddin snertir. Þetta málþing leiddi þannig til þess að sjónarmið Íslands og fleiri landa utan ESB í þessu mikilvæga máli komu á borð ESB.
    Samstarfsráðherrarnir héldu á árinu að venju einn fund í Brussel með sendiherrum norrænu ríkjanna hjá ESB. Þar voru kynnt og rædd mál á dagskrá ESB sem höfðu sérstaka þýðingu fyrir Norðurlönd. Á dagskrá voru m.a. formennskuáætlanir norrænu ESB-ríkjanna, Dagskrá 2000, Schengen samstarfið, Norðlæga víddin, umhverfis- og atvinnumál.

Grannsvæðasamstarfið.
    Grannsvæðasamstarfið tekur nú ekki eingöngu til samstarfs við Eystrasaltsríkin og norðvestlæg svæði í Rússlandi heldur einnig til samstarfs um málefni Norðurskautssvæðanna. Norræna ráðherranefndin rekur upplýsingaskrifstofur í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna þriggja og í Pétursborg. Og nú er hafinn undirbúningur að stofnun útibús í Kaliningrad frá upplýsingaskrifstofunni í Pétursborg með það að markmiði að starfsemi geti hafist þar árið 2000.
    Þó samstarfið um málefni Norðurskautssvæðanna hafi fengið fastan sess í grannsvæðasamstarfinu, vantar enn mikið á að það hafi náð því umfangi, sem æskilegt væri í ljósi þess að Íslendingar hafa bent á mörg sameiginleg hagsmunamál norðlægra svæða. Þau varða aukin tengsl innan svæðisins, kynningu út á við á lífsskilyrðum og rannsóknir á umhverfis- og auðlindamálum þess. Fagnaðarefni er þó að fimm ára rannsóknaráætlun um málefni Norðurskautssvæðanna hefur nú verið hleypt af stokkunum af menntamálaráðherrum Norðurlanda. Til þess starfs verður varið í allt 30 millj. d.kr.
    Í formennskuáætlun Íslands var óskað eftir því að kannað yrði hvort grundvöllur væri fyrir því að taka upp norrænt samstarf við vestlæg grannsvæði Norðurlanda í Skotlandi og eyjunum kringum Skotland ásamt Nýfundnalandi. Með vísan til þess var haldin í Reykjavík í desember sl. ráðstefna með fulltrúum frá þessum svæðum. Þar kom fram eindreginn áhugi á slíku samstarfi sérstaklega um umhverfismál og rannsóknir á umhverfi og lífríki sjávar ásamt ferðamennsku. Möguleikar þess að taka upp norrænt samstarf við vestlæg grannsvæði er meðal þess sem mat verður lagt á af Aldamótanefnd þeirri sem samstarfsráðherrarnir skipuðu fyrr á þessu ári og síðar verður vikið að.

Fjölgun ráðherranefnda.
    Þeim málaflokkum sem fjallað er um á norrænum vettvangi fjölgar stöðugt í takt við þær þjóðfélagsbreytingar sem stöðugt eiga sér stað á Norðurlöndum. Sumir þessara nýju málaflokka eru þess eðlis að rétt hefur þótt að stofna sérstakar ráðherranefndir til að fjalla um þá. Formleg ákvörðun var á árinu tekin um að þeir ráðherrar, sem fara með upplýsingatæknimál á Norðurlöndum tækju upp samstarf sem ráðherranefnd. Hún hefur þó ekki enn haldið sinn fyrsta fund. Hins vegar hittust þeir ráðherrar sem fara með varnir gegn fíkniefnum í fyrsta sinn á árinu og drög hafa verið lögð að samstarfi þeirra ráðherra sem fara með matvælaöryggi. Það er framfaraskref að tekið skuli upp pólitískt samstarf um ofan nefnda málaflokka, sem eru meðal forgangsmála í formennskuáætlun Íslands.

Einstök verkefni.
    Í apríl sl. ákváðu samstarfsráðherrarnir, að tillögu Halldórs Ásgrímssonar þáv. samstarfsráðherra að skipa sérstaka nefnd, Aldamótanefndina („Vismandspanelet“), til að spá fyrir um þróun mála á Norðurlöndum og á alþjóðavettvangi við upphaf nýrrar aldar. Nefndin skyldi meta í því ljósi hvaða breytinga kunni að vera þörf á norrænu samstarfi til að það verði áfram gagnlegur samstarfsvettvangur stjórnmálamanna á Norðurlöndum. Meðal þess sem fjallað verður um er landfræðileg afmörkun samstarfsins og tengsl þess við annað aðþjóðlegt samstarf sem Norðurlönd eru aðilar að. Jón Sigurðsson, bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans stýrir nefndinni, sem í eiga sæti einn fulltrúi frá hverju norrænu landi. Hún skilar áliti sínu 1. september árið 2000. Stefnt er að því að tillaga byggð á áliti nefndarinnar verði lögð fyrir þing Norðurlandaráðs sem háð verður í nóvember árið 2000 í Reykjavík.
    Starfrækt hefur verið um tæplega tveggja ára skeið í tilraunaskyni símaþjónusta, nefnd „Halló Norðurlönd“ þar sem unnt er að leita upplýsinga um þau réttindi sem norrænir borgarar eiga skv. þeim milliríkjasamningum, sem norrænu löndin hafa gert með sér. Þessi þjónusta, sem er liður í því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frjálsri för og flutningum fólks milli norrænu landanna hefur leitt í ljós að þörf er á að halda starfi þessu áfram og taka jafnframt upp markvissari upplýsingamiðlun til stjórnvalda og almennings á Norðurlöndum um þessi réttindi. Símaþjónustan verður því endurbætt og stefnt er að því að símsvöruninni verði sinnt í öllum norrænu löndunum. Jafnframt er stefnt að gerð norrænnar framkvæmdaáætlunar um úrbætur þeim aðilum til handa sem fara milli landanna eða eiga viðskipti yfir landamærin. Þar verður sjónum beint að atvinnulífinu jafnt sem almenningi, enda er norrænt samstarf í atvinnulífinu á Norðurlöndum sífellt að færast í aukana og mikilvægt að greiða slíku samstarfi götu.
    Eftir að skrifstofa Norðurlandaráðs var flutt til Kaupmannahafnar frá Stokkhólmi hefur þótt skorta á að norrænt samstarf væri nægilega sýnilegt þar. Því ákváðu samstarfsráðherrarnir á árinu að hafinn yrði rekstur svokallaðs „Norræns glugga“ þar í samstarfi við sænsk stjórnvöld, sem leggja til húsnæði fyrir skrifstofuna endurgjaldslaust. Í upphafi ársins 2000 var síðan ákveðið að stofna til sams konar starfsemi í Ósló.
    Upplýsingadeildir Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar eru nú reknar sem ein heild en endanleg ákvörðun um sameiningu verður tekin haustið 2000. Á árinu fór fram endurskoðun á stefnu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs í upplýsingamálum. Nýskipaður upplýsingastjóri, Sigrún Stefánsdóttir, fær það hlutverk að koma henni til framkvæmda. Helstu nýmæli stefnunnar er stóraukin nýting upplýsingatækninnar og endurbætur á heimasíðu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs til að auðvelda almenningi í löndunum aðgang að upplýsingum um norræna samstarfið. Nú eru því daglegar fréttir um samstarfið aðgengilegar á www.norden.org, sameiginlegum fréttavef Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar.

4. Norðurlandasamstarf utanríkisráðuneytisins.


    Ekki er fjallað um utanríkismál innan Norrænu ráðherranefndarinnar og fer samvinnan fram beint á milli landanna, án afskipta skrifstofu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn.
    Undirbúningur og vinna við formennsku Íslands í samstarfi utanríkisráðherra Norðurlanda fór fram í utanríkisráðuneytinu. Utanríkisráðherrafundir Norðurlanda eru tveir á ári og voru þeir báðir haldnir á Íslandi á árinu, sá fyrri 16.–17. febrúar í Reykjavík og sá síðari 29.–30. ágúst á Egilsstöðum, en þá voru einnig haldnir fundir utanríkisráðherra Norðurlanda með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja og sérstakur fundur þessara aðila með utanríkisráðherra Kanada. Á fyrri fundinum var samþykkt yfirlýsing ráðherra um utanríkismál í deiglunni en á þeim síðari var samþykkt sérstök yfirlýsing ráðherra Norðurlandanna þar sem hvatt var til þess að Sameinuðu þjóðirnar sammæltust um bann við herþjónustu barna undir 18 ára aldri.
    Samnorræn sendiráðsbygging í Berlín var opnuð 20. október sl. Allir þjóðhöfðingjar og utanríkisráðherrar Norðurlanda voru viðstaddir opnunina. Í tengslum við það bauð Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, kollegum sínum frá Norðurlöndum til fundar og var aukin samvinna Norðurlanda og Þýskalands þar sérstaklega til umræðu.
    Norrænn þróunarmálaráðherrafundur var einnig haldinn á Íslandi á formennskuárinu sem og fundir norrænu ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytanna og fundir ráðuneytisstjóra þróunarmála. Einnig voru haldnir margir samráðsfundir norrænna embættismanna á Íslandi á árinu eins og fylgir formennsku í norrænu samstarfi.

5. Menningarmál.


    Í starfsáætlun vegna formennsku Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni á árinu voru settir fram eftirfarandi áhersluþættir fyrir samstarfið á sviði menningarmála:
          að fylgja eftir stefnumörkun ráðherranefndar menningarmála um norrænt menningarsamstarf við árþúsundamót,
          að stuðla að raunhæfri framkvæmd tillagna um norræna málstefnu, m.a. með aðgerðum til að efla gagnkvæma kynningu barna- og unglingabókmennta á Norðurlöndum,
          að hugað verði sérstaklega að stöðu jaðarsvæða og fámennra þjóðarsamfélaga í norrænu menningarsamstarfi,
          að bæta hagnýtar upplýsingar um norræna menningarsamvinnu og þá möguleika sem hún býður,
          að nýta nútímalega upplýsingatækni til að auka fjölbreytni samstarfsins og auðvelda aðgang að menningarverðmætum. M.a. verði lögð áhersla á samvinnu um margmiðlunarverkefni og stuðning við framleiðslu á norrænu efni fyrir slíka miðlun,
          að tryggja öflugt framhald á starfi Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins,
          að efla samstarf um norræna menningarkynningu utan Norðurlanda, m.a. í tengslum við þúsund ára minningu landafunda norrænna manna í Vesturálfu.

    Í því yfirliti sem hér fer á eftir er m. a. tekið mið af þessum áhersluþáttum.
     1.      Á þingi Norðurlandaráðs í nóvember 1998 lagði ráðherranefnd menningarmála fram greinargerð um stefnumið í norrænu menningarsamstarfi við árþúsundamót, þar sem fjallað var bæði um inntak og starfshætti í norrænni menningarsamvinnu á vegum ríkisstjórnanna. Í ályktun sinni um málið lagði Norðurlandaráð áherslu á að stofnað yrði til samráðs milli ráðherranefndarinnar og ráðsins um nánari útfærslu þeirrar stefnu sem mörkuð var í greinargerðinni. Í samræmi við þetta var á árinu efnt til tveggja samráðsfunda ráðherranefndar menningarmála og Norðurlandanefndar Norðurlandaráðs, þar sem rætt var um áherslumál í norrænu menningarsamstarfi. Fyrri fundurinn var haldinn í mars í Kaupmannahöfn og hinn síðari í nóvember í Stokkhólmi. Seinni fundinn sátu einnig fulltrúar stjórnar Norræna menningarsjóðsins og þrír gestafyrirlesarar lýstu viðhorfum til menningarsamstarfsins.
             Meðal þeirra mála sem voru ofarlega á baugi í umræðum á samráðsfundunum voru menningarsamstarf sem beinist að börnum og ungmennum, mikilvægi Norræna menningarsjóðsins og menningartengdar aðgerðir til að hamla gegn útlendingaandúð og kynþáttafordómum. Öll þessi áhersluatriði eru í góðu samræmi við stefnumörkun ráðherranefndar menningarmála. Á sviði barna- og æskulýðsmenningar hefur undanfarin ár verið unnið eftir framkvæmdaáætluninni „Norræn framtíð“ („Ett kommande Norden“) sem tók til tímabilsins 1996-2000. Stjórnarnefnd barnamenningarsamstarfsins vann á árinu að undirbúningi nýrrar framkvæmdaáætlunar, sem taka á við af hinni fyrri. Norræna æskulýðsnefndin kemur einnig að því verki og er gert ráð fyrir að það verði liður í gerð heildaráætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf að málefnum barna og ungmenna.
             Stjórnarnefnd barnamenningarsamstarfsins og Norræna æskulýðsnefndin ákváðu báðar á sl. ári að veita styrk til fjölmenns æskulýðsmóts sem Ungmennafélag Íslands skipuleggur hér á landi sumarið 2000 fyrir hönd norrænna æskulýðssamtaka undir yfirskriftinni „Menning og æska“. Mótið er einnig styrkt af ráðstöfunarfé ráðherranefndar menningarmála og Norræna menningarsjóðnum.
             Til samstarfs á menningarsviði sem beinist gegn útlendingaandúð og kynþáttafordómum er ætlað fé á grundvelli sérstakrar starfsáætlunar. Veittir voru styrkir til ýmissa verkefna á sviði lista og íþrótta sem tengjast þessu markmiði.
             Á samráðsfundunum með fulltrúum Norðurlandaráðs bar samstarfið í sjónvarpsmálum mjög á góma. Var greinilegt að ýmsum þykir miða hægt í átt til þess að nýttir séu möguleikar á að greiða fólki hvarvetna á Norðurlöndum aðgang að sjónvarpssendingum norrænu grannþjóðanna. Ráðherranefnd menningarmála hyggst taka þessi mál til umfjöllunar á fyrsta fundi sínum á árinu 2000.
             Í framhaldi af greinargerðinni um stefnumið í norrænu menningarsamstarfi við árþúsundamót var á árinu unnið að ýmsum þáttum sem varða skipulag samvinnunnar í því skyni að auka skilvirkni og stuðla að hagkvæmni. Tekin var ákvörðun um að leggja niður Norrænu myndlistar- og listiðnaðarnefndina frá ársbyrjun 2000 og fella verkefni hennar undir Norræna stofnun í samtímalist (NIFCA), sem hefur aðsetur á Sveaborg við Helsingfors. Skrifstofuþjónusta fyrir Norrænu bókmennta- og bókasafnanefndina verður færð frá ráðherranefndarskrifstofunni til Bókasafnastofnunar Danmerkur samkvæmt þjónustusamningi að loknu útboði. Áformað er að bjóða út skrifstofuþjónustu fyrir Norrænu tónlistarnefndina með hliðstæðum hætti.
     2.      Framkvæmd norrænnar málstefnu sem samþykkt var árið 1998, lýtur yfirstjórn ráðherranefndar menntamála og vísinda en samráð er haft við ráðherranefnd menningarmála um þá þætti sem tengjast verksviði hennar. Af þeim toga eru m. a. ýmis verkefni á sviði bókmennta og fjölmiðlunar. Ráðherranefnd menningarmála veitti framlag til norrænnar bókasafnaviku sem skipulögð var í þriðja sinn víðs vegar um Norðurlönd sl. haust á vegum Sambands Norrænu félaganna. Í febrúar 2000 verður efnt til norrænnar barnabókastefnu í Kaupmannahöfn á vegum félaga bókavarða á Norðurlöndum og fleiri aðila með styrk af norrænu fé.
     3.      Í september sl. gengust Norræna stjórnarnefndin um barna- og unglingamenningu og Norræna æskulýðsnefndin fyrir ráðstefnu í Reykholti um menningu og tómstundir barna og ungmenna á jaðarsvæðum Norðurlanda. Þátttakendur voru um 75, hvaðanæva að á Norðurlöndum. Ráðstefnan var m.a. liður í undirbúningi nýrrar framkvæmdaáætlunar um norrænt samstarf á sviði barna- og æskulýðsmenningar sem um getur hér að framan.
             Norræna ráðherranefndin efndi í samvinnu við menntamálaráðuneytið til ráðstefnu í Borgarnesi í september um stöðu fámennra þjóða og jaðarsvæða í norrænu menningarsamstarfi. Þátttakendur voru 37 og stutt framsöguerindi fluttu fulltrúar frá öllum norrænu ríkjunum, sjálfstjórnarsvæðunum og Samabyggðum.
     4.      Að tilhlutan Íslendinga á grundvelli formennskuáætlunarinnar hefur skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar gert úttekt á því hvernig hagað er miðlun hagnýtra upplýsinga af hálfu nefnda og stofnana á vettvangi menningarsamstarfsins. Ætlunin er að þeirri úttekt verði fylgt eftir með tillögugerð um hvernig bæta megi núverandi tilhögun í þessu efni svo að auðveldara verði fyrir almenning að átta sig á samstarfskerfinu og þeim tækifærum sem það býður.
     5.      Undanfarin ár hefur starfað á vegum ráðherranefndar menningarmála starfshópur um notkun nútímalegrar upplýsingatækni á menningarsviði. M. a. hefur verið leitast við að treysta samráð og samvinnu milli rekstraraðila hinna svonefndu menningarneta sem komið hefur verið upp í öllum norrænu löndunum og starfshópurinn hefur staðið að samráðsfundum í því skyni. Slíkur fundur var haldinn í Reykjavík sl. haust.
             Af íslenskri hálfu hefur verið lögð áhersla á að efla norrænan fjárstuðning við samstarfsverkefni á sviði margmiðlunar. Stjórnarnefnd um menningu og fjölmiðla hefur haft til umráða nokkurt fé í því skyni en framan af var dræmt framboð á styrkhæfum verkefnum. Á síðasta ári virtist sjáanleg breyting í þessu efni og fáein viðamikil verkefni hlutu styrk. Í fjárlögum Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2000 er áfram gert ráð fyrir fjárveitingu í þessu skyni.
     6.      Í árslok rann út gildistími samstarfssamnings um Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn en aðilar að sjóðnum eru auk Norrænu ráðherranefndarinnar kvikmyndastofnanir og opinberar sjónvarpsstöðvar á Norðurlöndum ásamt nokkrum einkareknum stöðvum. Á síðasta ári var unnið að undirbúningi nýs samstarfssamnings og var hann undirritaður í Reykjavík í nóvember í tengslum við hátíðarhöld í tilefni af 40 ára afmæli NORDVISION-samstarfsins. Nýi samningurinn er til fimm ára.
     7.      Á sviði norrænnar menningarkynningar utan Norðurlanda bar tvö viðfangsefni hæst á árinu. Fjölbreytt menningarverkefni í Suður-Afríku („Shuttle '99“), sem hófst 1998, var leitt til lykta. Íslendingar höfðu umsjón með bókmenntaþætti verkefnisins, sem fólst í því að stofnað var til samvinnu norrænna og suður-afrískra rithöfunda og myndlistarmanna um samningu fimm barnabóka en bókaforlagið Æskan tók að sér að annast útgáfu þeirra. Björn Bjarnason menntamálaráðherra fór til Suður-Afríku í september sl. í forystu fyrir sendinefnd á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í tengslum við lok verkefnisins. Norrænu ráðherranefndinni var veitt viðurkenning Lista- og menningarsjóðs Suður-Afríku fyrir menningarverkefnið. Vonast er til að framkvæmd þess reynist góður grundvöllur að frekara samstarfi Suður-Afríkubúa og norrænna þjóða á menningarsviðinu.
             Á árinu var unnið ötullega að undirbúningi sýninga sem fyrirhugaðar eru í Norður- Ameríku árið 2000 til að minnast landafunda og vesturfara norrænna manna. Veigamest þeirra er víkingasýningin „Vikings: The Northatlantic Saga“ sem á að hefjast í Smithsonian-safninu í Washington í apríl en fer síðan til fleiri borga í Bandaríkjunum og Kanada. Lánuð verða á sýninguna handrit úr Árnastofnun og munir úr Þjóðminjasafni Íslands.

Menningarsamstarf við Færeyinga og Grænlendinga.
    Menntamálaráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands héldu tvo samráðsfundi á árinu. Í nóvember var undirritaður í Reykjavík nýr samningur um samstarf þjóðanna á sviði menningar-, mennta- og vísindamála. Gildir hann fyrir tímabilið 2000–2002. Árið 2000 er ráðgert að áhersluþættir verði menning og íþróttir, árið 2001 notkun nýrrar tækni á sviði menntunar og árið 2002 staða tungumála og þróun þeirra.

6. Menntun og rannsóknir.


    Samstarf um menntamál og rannsóknir er umfangsmikið innan Norrænu ráðherranefndarinnar og tekur til grunn- og framhaldsskólastigs, fullorðinsfræðslu, háskóla og rannsókna. Samstarfið felst einkum í starfsemi stofnana, föstum styrkjakerfum og verkefnum sem stjórnað er af föstum stjórnarnefndum sem hafa m.a. umsjón með faglegum vinnuhópum sem skipaðir eru tímabundið. Að jafnaði er lögð áhersla á samfellu í starfseminni og verkefnum sem mótuð hafa verið af fyrrverandi formennskulöndum fylgt eftir. Samhliða því að unnið hefur verið eftir starfsáætlunum frá 1997–2000 innan menntamála- og rannsóknarsviðsins vann embættismannanefndin undir forystu Íslands að mótun heildarstefnu til framtíðar. Tekur sú stefnumótun; Norðurlönd sem forgangssvæði í þróun mannauðs, til tímabilsins 2000–2004. Megináhersla er lögð á miðlun reynslu og samvinnu um þróunarstarf á vettvangi menntunar og rannsókna, aukinn hreyfanleika nemenda, kennara og vísindamanna milli landanna auk þess sem sérstök áhersla er lögð á símenntun.
    Markmiðið er að stuðla að því að hið norræna samfélag í menntamálum og rannsóknum verði virkur vettvangur fyrir pólitíska úrvinnslu þeirra málefna sem á döfinni eru, vettvangur þar sem menn geta skipst á reynslu og þróað samnorrænar aðgerðir. Í stefnumótuninni er lögð áhersla á skýrari verkaskiptingu milli landanna og að skilgreind verði betur þau verkefni sem skynsamlegra þykir að vinna að sameiginlega á norrænum vettvangi en í hverju landi fyrir sig.
    Í stefnumótuninni er formennskulandinu falið aukið hlutverk hvað varðar tillögur um málaflokka og verkefni til úrvinnslu. Einnig er gert ráð fyrir að á tímabilinu verði mat lagt á starf ráðgjafanefnda og fastra stjórnarnefnda sem undir ráðherranefndina heyra og hlutverk þeirra endurskoðað.
    Lögð er áhersla á að skapa beri meiri breidd og heildstæðari skilning á hæfni frá sjónarhorni símenntunar og haft verður frumkvæði um viðræður um þessi atriði við fulltrúa atvinnulífsins á Norðurlöndum. Jafnframt er lagt til að ráðherrar menntamála og rannsókna ásamt menningarmálaráðherrum þrói samskipti við Norðurlandaráð til þess að stuðla að langtímaskipulagningu þannig að norræna samstarfið svari betur kröfum tímans.
    Ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir lagði tillöguna um stefnumótun fyrir tímabilið 2000–2004 fram á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í nóvember og var hún samþykkt á þinginu.
    Markmið Íslands á formennskuárinu á sviði menntamála og rannsókna var að efla samstarf Norðurlandanna, styrkja samstarf við önnur Evrópuríki sem og við grannsvæði Norðurlanda. Lögð var áhersla á að styrkja norræn viðhorf í alþjóðasamstarfi og sjónum var sérstaklega beint að eflingu tengsla milli hinna vestlægu Norðurlanda og annarra ríkja á Norðurlöndum. Stefnt er að því að jafnauðvelt verði að mynda tengsl, skiptast á hugmyndum og flytjast frá einu fræðslu- og rannsóknarumhverfi til annars á Norðurlöndum og innan eigin lands.
    Á formennskuári Íslands var almennt lögð áhersla á sjálfbært samfélag á Norðurlöndum, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og málefni hafsins. Þessir áhersluþættir hafa skírskotun til verkefna á sviði menntunar og rannsókna.
    Haldið var áfram öflugu samstarfi um tungumál, kennslu í raungreinum og tækni, þróun upplýsingatækni á sviði menntunar og rannsókna og sjónum var beint að gæðum í skólastarfi, hlutverki menntunar á vinnumarkaði og fullorðinsfræðslu. Málefni barna og unglinga voru einnig í brennidepli. Er á vegum ráðherranefndarinnar unnið að fjölmörgum verkefnum á þessum grundvelli.
    Ráðherranefnd menntamála og rannsókna heldur þrjá fundi árlega. Frá 1998 hafa ráðherrarnir tekið tiltekin þemu til umræðu á fundum sínum. Taka þemun mið af þeim málefnum sem ráðherrarnir leggja áherslu á að vinna að á norrænum vettvangi. Þeir hafa þegar rætt mat og gæði í skólastarfi á öllum skólastigum að háskólastigi meðtöldu, stöðu norrænna málsamfélaga í ljósi hraðfara þróunar upplýsingatækni og æðri menntun á Norðurlöndum.

Norrænar stofnanir.
    Á vettvangi ráðherranefndar menntamála og rannsókna eru starfandi níu norrænar stofnanir þar af ein á Íslandi, Norræna Eldfjallastöðin (sjá nánar kafla 25.2.).

Fastar nefndir.
    Á vegum ráðherranefndar um menntamál og rannsóknir starfa auk embættismannanefndarinnar sem m.a. undirbýr ráðherrafundi, þrjár stjórnarnefndir, NSS, HÖGUT og FOVU, sem í eiga sæti einn fulltrúi frá hverju Norðurlandanna. Verksvið nefndanna spannar grunnskóla og framhaldsskóla auk skóla á háskólastigi og fullorðinsfræðslu. Auk stjórnarnefndanna starfa vinnuhópar að tilteknum verkefnum. Á vegum stjórnarnefndanna hafa verið haldnar fjölmargar ráðstefnur á árinu um þau málefni sem undir þær heyra auk þess sem þær hafa staðið að ýmsum útgáfum.

Samstarf um skólamál.
    NSS-stjórnarnefndin hefur umsjón með norrænu samstarfi um skólamál á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Verksvið NSS tekur til grunn- og framhaldsskóla og unnið er eftir starfsáætlun sem tekur til áranna 1997–2000. Fyrir liggur tillaga að starfsáætlun fyrir árin 2000–2005. Áherslurnar í starfi nefndarinnar beinast að því að bæta skólastarf og taka fyrir mál sem eru efst á baugi á hverjum tíma, bera saman lausnir og aðferðir sem beitt hefur verið í einstökum löndum og dreifa upplýsingum, bæði almennt um þróun á sviði skólamála svo og öðrum upplýsingum er varða skóla og skólastarf.
    Samstarfið greinist í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi er samstarf milli Norðurlandanna, í öðru lagi samstarf við grannsvæðin og í þriðja lagi er lögð áhersla á tengsl við verkefni á vettvangi Evrópusambandsins. Eins og fyrr hefur þetta samstarf verið mjög gagnlegt fyrir Ísland og hefur opnað möguleika til að fylgjast náið með því sem er að gerast annars staðar á Norðurlöndum og jafnvel víðar. Einnig er ljóst að mörg sömu vandamálin koma upp í skólastarfi og hvetur það til samnorrænna aðgerða.
    Af helstu verkefnum á dagskrá nefndarinnar má nefna:
          Mat á skólastarfi er verkefni, sem unnið var að frumkvæði Íslendinga og lauk með ráðstefnu hér á landi í haust. Á ráðstefnunni voru fyrirlesarar alls staðar að á Norðurlöndum.
          Hlutverk kennara hefur breyst vegna breytinga í skólastarfi, m.a. hafa almennar gæðakröfur aukist og einnig notkun tölva og upplýsingatækni. Verkefni á þessu sviði lýkur á árinu 2000.
          Frumkvöðlafræðsla til að auka áherslu á sjálfstæði og frumkvæði nemenda. Verkefninu lýkur á árinu 2000.
          Samstarfsverkefni um nám og kennslu í náttúrufræðigreinum og stærðfræði kom í kjölfar Timms-könnunarinnar, þar sem útkoma ungmenna á Norðurlöndum var slök. Verkefnið hófst á þessu ári og er áætlað að því ljúki árið 2001.
          Unnið er að því að koma upplýsingum um vandamál og úrlausnir á sviði sérkennslu inn á netið þannig að þær séu aðgengilegar þeim sem málið varða.
          Unnið er að því að finna lausn á vanda iðngreina þar sem nemendur eru mjög fáir. Fyrir liggur skýrsla nefndar um málið og verður fljótlega tekin afstaða til hennar.
          Unnið er að því að koma á norrænum prófbanka, sem skólar í öllum löndunum hafi aðgang að.

    IDUN II er norrænt samstarfsverkefni um tölvunotkun í skólum. Þetta verkefni heyrir beint undir ráðherranefndina en NSS, FOVU og HØGUT hafa haft umsjón með framkvæmdinni.
    NSS hefur haft umsjón með nemendaskiptaverkefninu NORDPLUS-junior fyrir nemendur á framhaldsskólastigi sem hefur gengið vel og fengið góðar viðtökur. Á þessu ári hófst nýtt verkefni á þessu sviði, NORDPLUS-mini sem er einkum ætlað nemendum í efri bekkjum grunnskóla. Þetta verkefni er starfrækt í tilraunaskyni og tekur tilraunin tvö ár.
    NSS hafði um skeið umsjón með framkvæmd tungumálasamstarfsáætlunarinnar NORDMÅL, en hún heyrir nú beint undir ráðherranefndina. Mikil áhersla er á norrænt tungumálasamstarf og er NORDMÅL-áætluninni ætlað að styrkja norrænt tungumálasamfélag og tekur til námskeiðahalds, gerðar kennsluefnis, orðabókargerðar, rannsókna, upplýsingastarfsemi og fleiri verkefna. Margar stofnanir koma að NORDMÅL-áætluninni, m.a. norrænar málastofnanir. Á vegum NORDMÅL hafa verið haldin fjölmörg námskeið fyrir kennara og túlka og gefnar út námsbækur sem þýddar hafa verið á finnsku, færeysku og íslensku.

Samstarf um fullorðinsfræðslu.
    FOVU-stjórnarnefndin hefur umsjón með norrænu samstarfi um fullorðinsfræðslu á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Nefndin hefur starfað í samræmi við verkefnaáætlun fyrir árin 1997–2000 en á árinu var unnið að nýrri áætlun fyrir næstu fimm ár, 2000–2004, og verður hún lögð fyrir ráðherranefndina í byrjun ársins 2000. Í þeirri verkefnaáætlun er lögð áhersla á símenntun og verður sjónum einkum beint að mati á þeirri hæfni og þekkingu sem fólk hefur aflað sér á vinnumarkaði sem jafngildi náms, þörfum þeirra sem minnsta menntun hafa og þætti lýðfræðslunnar í þróun og eflingu lýðræðis á Norðurlöndum. Sem liður í formennsku Íslands var haldin ráðstefna til að meta starfið á undanförnum árum og leggja línur um framtíðina.
    Í samstarfinu hefur verið lögð áhersla á að efla þátttöku félaga, samtaka og stofnana á vettvangi fullorðinsfræðslu í vinnuhópum og í ráðstefnum á vegum nefndarinnar til að skapa betri tengsl. Samstarfsstyrkir gegna líka mikilvægu hlutverki í þessu skyni.
    Af verkefnum á vegum FOVU má nefna að á árinu lauk rannsóknarverkefninu „Lýðfræðsla og atvinnulíf“ og hefur skýrsla verið gefin út með niðurstöðum. Einnig var haldin ráðstefna um verkefnið „Lýðfræðsla og lýðræði“ og í framhaldi af henni hefur verið unnið að undirbúningi norræns rannsóknarverkefnis á þessu sviði. Verkefnið „Um notkun upplýsingatækni í fræðslu fullorðinna“ með sérstakri áherslu á að styrkja þátt almenningsbókasafna í að opna almenningi aðgang að netheimum hefur haldið áfram á árinu og er nú á lokastigi. Þá hófst nýtt verkefni innan vébanda IDUN II sem beinist að því að byggja upp norrænt tengslanet á milli stofnana og upplýsingaveitu um upplýsingatækni og fullorðinsfræðslu.
    Áfram hefur verið unnið að því að styrkja þróun lýðfræðslu á grannsvæðum Norðurlanda. Mikilvægur liður í þessu starfi eru námskeið og námsstefnur á vegum Norræna lýðháskólans (NFA) fyrir þátttakendur frá þessum svæðum sem haldnar voru á árinu.
    Norrænt nám í kennslufræði fullorðinna hélt áfram á árinu. Einn háskóli í hverju norrænu landi stendur fyrir viku námskeiði, en þátttakendur koma frá öllum löndunum. Af hálfu Íslands tók Kennaraháskóli Íslands þátt í verkefninu og var námskeið sem fjallaði um fjarkennslu haldið hér á landi í ár.
    FOVU-stjórnarnefndin hefur um nokkurn tíma gert tilraun með að veita sérstaka ferðastyrki til þeirra sem starfa á sviði fullorðinsfræðslu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum til að gera þeim betur kleift að fara í námsheimsóknir til annarra norrænna landa. Lögð hefur verið sérstök áhersla á þetta á formennskuári Íslands.

Samstarf um æðri menntun.
    HÖGUT-stjórnarnefndin hefur umsjón með samstarfi um æðri menntun á vettvangi ráðherranefndarinnar. Starfsáætlun HÖGUT spannar árin 1999–2000. Helsta hlutverk HÖGUT er að stuðla að eflingu norræns samstarfs um æðri menntun m.a. með athugunum, sérstökum verkefnum, ráðstefnum og samráði við háskóla. Á verksviði nefndarinnar eru meðal annars verkefni á sviði grunnmenntunar og rannsókna og auk þess hefur HÖGUT umsjón með NORDPLUS-áætluninni sem felst í nemenda- og kennaraskiptum. Á hverju ári taka alls um 5000 nemendur og kennarar á Norðurlöndum þátt í áætluninni. Í NORDPLUS gefst námsmönnum tækifæri til að stunda hluta af námi sínu, allt að eitt ár, við háskóla annars staðar á Norðurlöndum og fá námið metið að fullu til eininga í heimalandi sínu. Þá er gefinn kostur á kennaraskiptum og fleiru er lýtur að kennslustörfum.
    Samningur um aðgang að æðri menntun sem undirritaður var árið 1996 og renna átti út við árslok 1999 hefur verið framlengdur til 2001 og er stefnt að því að ráðherrarnir taki framtíð samningsins til umræðu á árinu 2000. Vinnuhópur um aðgang að æðri menntun gerir samhliða úttekt á áhrifum samningsins á samstarf Norðurlanda í menntamálum. Meginatriði samningsins er að allir norrænir stúdentar hafi jafnan aðgang að öllum háskólum á Norðurlöndum. Í samningnum eru ákvæði um greiðslukerfi sem Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa tekið upp sín á milli. Samkvæmt þessu kerfi skulu þau ríki sem senda frá sér fleiri stúdenta en þau taka á móti greiða ákveðið gjald fyrir mismuninn. Ísland hefur verið undanþegið þessum ákvæðum.
    Á formennskuári Íslands var ákveðið að halda ráðstefnu í Reykjavík um fjármögnun háskólastigsins á Norðurlöndum m.a. með samanburði við önnur Evrópulönd. Verður ráðstefnan haldin vorið 2000.

Norrænt rannsóknarsamstarf.
    Á rannsóknarsviði ráðherranefndarinnar starfar ráðgefandi norrænt vísindastefnuráð, Nordisk Forskningspolitisk Råd (FPR), sem heyrir undir ráðherranefnd menntamála og rannsókna en er jafnframt ráðgefandi um stefnumörkun í vísinda- og tæknirannsóknum á öðrum fagsviðum ráðherranefndarinnar eftir því sem við á. Helsta hlutverk ráðsins er að leggja tillögur fyrir ráðherranefndina þar sem tekið er mið af eftirfarandi þáttum: mótun norrænnar rannsóknarstefnu til að stuðla að markvissri forgangsröðun verkefna, stefnumörkun með þverfaglegt samstarf í huga, forgangsröðun í rannsóknum á vettvangi ráðherranefndarinnar með tilliti til forgangsröðunar í hinum einstöku löndum og þróun gæðastjórnaraðferða í norrænu rannsóknarsamstarfi. Ráðherranefndin hefur samþykkt tillögur FPR um að hefja tímabundið norrænt rannsóknarsamstarf árið 2000 á þremur rannsóknarsviðum, sem eru kynbundið ofbeldi, tungutækni og faraldsfræði. Í undirbúningi er einnig rannsóknaráætlun um velferðarþjóðfélagið. Auk rannsóknarverkefna eru norrænar stofnanir á starfssviði ráðsins og á sviðinu starfar Norræna vísindaakademían (NorFA), sem veitir vísindamönnum styrki til starfa á Norðurlöndum, utan heimalands síns og starfrækir samskiptanet á sviði vísinda.

Ráðgjafarnefnd um upplýsingatækni.
    Frá því árið 1996 hefur verið starfandi sérstök ráðgjafarnefnd um stefnumótun í upplýsingatækni fyrir ráðherranefnd um menntamál og rannsóknir. Á árinu 1998 samþykkti ráðherranefndin þriggja ára rannsóknar- og þróunaráætlun sem nefnist NORDUnet2. Markmið áætlunarinnar er að viðhalda og efla samkeppnishæfni norrænu þjóðanna á sviði menntunar og rannsókna með því að þróa ný samvinnu- og samskiptaform byggð á aðferðum upplýsingatækninnar. Með því er stefnt að því að Norðurlönd haldi þeirri forystu í notkun háþróaðra tölvuneta (með Internettækni) sem þau höfðu í upphafi þessa áratugar þegar norræna samnetið, NORDUnet, var stofnað. Tekið hefur verið mið af áþekkum þróunaráætlunum í Bandaríkjunum.
    Ávinningur af þátttöku í NORDUnet2 fyrir Íslendinga felst m.a. í beinni þátttöku iðnaðarins, netþjónustufyrirtækja, rannsóknarbókasafna, skóla, opinberra fjölmiðla o.fl. í verkefnum sem styrkt verða undir hatti áætlunarinnar. Íslensk fyrirtæki, sem framarlega standa, t.d. í margmiðlun, fá því tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri á álitlegu markaðssvæði og geta sótt um styrki til þess. Íslenskir notendur Internetsins fá aðgang að nýjum nýtingarmöguleikum jafnskjótt og aðrir Norðurlandabúar.

7. Umhverfismál

    Samstarf umhverfisráðherra Norðurlanda (MR-Miljø) byggist á norrænu umhverfisáætluninni 1996–2000 (Den nordiske miljøstrategi 1996–2000). Í áætluninni koma fram þau markmið sem sett eru með samstarfinu bæði innan Norðurlanda og á alþjóðavettvangi. Framkvæmd umhverfisáætlunarinnar er í höndum fastra vinnuhópa og ýmissa nefnda sem falin eru sérstök verkefni.
    Á árinu fór fram mat á norrænu umhverfisáætluninni og hefst vinna við gerð nýrrar í byrjun ársins 2000. Fer sú vinna fram samhliða gerð áætlunar um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum í kjölfar yfirlýsingar norrænu forsætisráðherranna frá 1998. Í því starfi hefur umhverfisgeirinn viðamiklu hlutverki að gegna við samhæfingu við önnur svið sem áætlunin tekur til.
    Umhverfismál skipuðu veigamikinn sess í formennskuáætlun Íslands í norrænu samstarfi á árinu. Sem dæmi má nefna áherslu á vernd vistkerfa hafsins og sjálfbæra nýtingu auðlinda þess svo og tillögu um aukið samstarf og samráð Norðurlandanna á vettvangi ESB. Þeirri tillögu var fylgt eftir með þátttöku fulltrúa formennskulanda ESB á árinu, Þýskalands og Finnlands, í fundi norrænu embættismannanefndarinnar um umhverfismál sem haldinn var á Ísafirði í júní. Þá er í áætluninni einnig lögð áhersla á samstarf Norðurlanda á alþjóðavettvangi m.a. varðandi samning um bann við notkun þrávirkra lífrænna efna. Þverfaglega áætlunin „Fólk og haf í norðri“ var liður í formennskuáætlun Íslands. Flest verkefnin í henni tengjast umhverfismálum og komu til viðbótar þeim fjölmörgu verkefnum sem unnið er að á umhverfissviðinu.
    Að frumkvæði Íslands ákváðu norrænu ráðherrarnir í lok ársins að senda breska umhverfisráðherranum bréf þar sem þeir minntu bresk stjórnvöld á skuldbindingar sem þau hafa tekið á sig samkvæmt OSPAR samningnum þess efnis að minnka til muna losun geislavirks úrgangs í hafið frá endurvinnslustöðinni í Sellafield og stöðva hana í síðasta lagi árið 2020.
    Norrænu umhverfisráðherrarnir halda að jafnaði þrjá fundi á ári. Af norrænum málum bar hæst framkvæmdaáætlun um vernd náttúru- og menningarminja á Norðurskautssvæðum. Áætlunin var samþykkt á fundi ráðherranna á Mývatni í ágúst sl. Einnig var fjallað um ýmis alþjóðleg málefni svo sem loftlagsbreytingar, samningaviðræður á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og norrænt umhverfisstarf í Rússlandi.
    Málefni ESB eru fastur liður á dagskrá umhverfisráðherranna. Þar eru rædd helstu mál sem eru á döfinni og dagskrá komandi funda í ráðherraráði ESB. Finnland gegndi formennsku í ESB síðari helming ársins. Í formennskuáætlun Finnlands var lögð áhersla á hina Norðlægu vídd og voru umhverfismál þar í brennidepli. Til að vekja enn frekar athygli á mikilvægi umhverfismála í Norðlægu víddinni bauð ríkisstjórn Íslands til sérstakrar ráðstefnu sérfræðinga og fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB um málið í Brussel. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra ávarpaði ráðstefnuna. Í tengslum við hana átti umhverfisráðherra einnig fund með Margot Wallström framkvæmdastjóra umhverfismála hjá ESB um umhverfismál á Íslandi og á Norðurskautssvæðunum.

    Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO) heyrir undir samstarfið um umhverfismál (sjá nánar um NEFCO, kafla 26.5.)

Störf vinnunefnda:
Samstarfsnefnd um umhverfis- og orkumál.
    Nefndin er vettvangur fyrir samráð umhverfis- og orkuráðuneyta Norðurlanda. Starf nefndarinnar hefur einkum beinst að málefnum sem tengjast loftslagssamningnum og Kyoto- bókuninni.
    Umfangsmesta verkefni nefndarinnar á síðasta ári var undirbúningur þess að gera Eystrasaltssvæðið að tilraunasvæði fyrir viðskipti með losunarkvóta og sameiginlega framkvæmd innan loftslagssamningsins. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO) og Norræna fjárfestingarbankann (NIB). Norrænu umhverfis- og orkuráðherrarnir sendu frá sér ályktun um málið á árinu og samstarfsnefndin efndi til ráðstefnu um það sl. haust.
    Á árinu kom út á vegum nefndarinnar skýrslan : Inventory of Climate Change Indicators for the Nordic Countries (TemaNord 1999:505) sem hefur að geyma yfirlit yfir hagtölur sem tengjast losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum. Unnið er að skýrslu um samræmingu viðskipta með losunarkvóta innan og milli norrænu landanna. Eftirfarandi skýrslur eru á lokastigi: skýrsla um aðferðir til að vega saman gróðurhúsaáhrif mismunandi lofttegunda, skýrsla um bindingu kolefnis með ræktun, skýrsla um leiðir til að draga úr losun flúorkolefna og skýrsla um hvernig taka má tillit til sérstöðu þjóða í loftslagssamningnum.
    
Efnavörunefndin.
    Vinnunefndin um efnavörur (NKG) er í forsvari fyrir norrænu samstarfi á sviði eiturefna og hættulegra efna. Unnið er að öflun og úrvinnslu gagna sem leggja grunn að stefnumótun, ákvörðunum og aðgerðum heima fyrir, í Evrópusamstarfi og á alþjóðavettvangi. Nefndin stuðlar að samstarfi stjórnvalda og að samræmingu verkefna þannig að tiltækt fjármagn nýtist sem best.
    Starf nefndarinnar beinist einkum að verkefnum sem nýtast í alþjóðlegri samvinnu og í auknum mæli að verkefnum er nýtast Norðurlandaþjóðunum vegna aðildar þeirra að EES- samningnum. Á árinu var einnig lögð áhersla á ný verkefni sem varða öryggi efnavöru og bætt eftirlit með hættulegum efnum á Norðurlöndum.
    Verkefni sem unnið var að á árinu skiptast í fjóra meginflokka, þ.e. flokkun hættulegra efna, skilgreiningu á áhættu vegna efnanotkunar, áhættumat og takmörkun áhættu. Á vegum vinnunefndarinnar störfuðu 14 ráðgefandi verkefnahópar og átti Ísland fulltrúa í níu þeirra.
Meðal verkefna sem fjármagn hefur verið lagt í á árinu má nefna verkefni sem leggja grunn að aðgerðum til að draga úr notkun ósoneyðandi efna, stuðning við alþjóðasamninga um þrávirk lífræn efni og uppbygging gagnabanka yfir efni með slíka eiginleika, áhættumat og flokkun hættulegra efna hvað varðar áhrif á umhverfi og/eða heilsu manna svo og vinnu við gagnagrunna með upplýsingum um viðkomandi efni.
    Tvær ráðstefnur voru haldnar á vegum vinnuhópsins og gefnar út skýrslur um verkefni sem lokið var á árinu.

Vinnunefnd um umhverfi hafs og lofts.
    Viðfangsefni hópsins er að vera stjórnvöldum til ráðgjafar við að móta tillögur að aðgerðum á alþjóðavettvangi. Því er lögð áhersla á verkefni sem styrkja vísindalegan bakgrunn tillagna og mat á þeim aðgerðum sem fram hafa farið.
    Verkefnin eru þríþætt og snúast um loft, haf og hættuleg efni. Verkefni um loftið beinast einkum að því að fá fram betri gögn og líkön til að geta metið árangur aðgerða sem þegar hafa verið ákveðnar. Einnig að kanna áhrif og þátt reikulla lífrænna efna í myndun ósóns. Í verkefnum um hafið er lögð áhersla á að setja fram líkön sem hægt er að nota til að segja fyrir um þróun og meta árangur aðgerða sem fram hafa farið til að minnka streymi næringarefna til sjávar og síðar að nota sömu líkön á önnur mengandi efni. Í þeim hluta starfsins sem fjallar um hættuleg efni má nefna verkefni um flutning þrávirkra efna milli þátta (lofts, lagar og sets) og áhrif þeirra á lífverur.
    Nefndin er einnig samstarfsvettvangur Norðurlanda í baráttu gegn mengun sjávar af völdum olíu og annarra skaðlegra efna.

Vinnunefnd um náttúruvernd og útivistarmál.
    Náttúruverndar- og útivistarnefndin hefur það hlutverk að skilgreina samnorræn markmið og leiðir í náttúruvernd, útivist og verndun menningarlandslags. Á árinu var einkum lögð áhersla á verkefni sem snerta verndun líffræðilegrar fjölbreytni, þar á meðal verndun búsvæða og tegunda, útivistarmál og verndun menningarlandslags.
    Á árinu var lokið við tíu verkefni og skýrslur sem koma út 1999 og 2000. Meðal þessara verkefna ber hæst að lokið var við framkvæmdaáætlun um vernd náttúru- og menningarminja á Norðurskautssvæðunum, Grænlandi, Íslandi og Svalbarða. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að byrjað verði á fimm verkefnum á árinu 2000 en þau eru: Staðardagskrá 21 á Norðurskautssvæðum, umhverfisvæn ferðaþjónusta, áhrif botnvörpuveiða á umhverfi og lífríki sjávar, umhverfisfræðsla og loks eftirlit með náttúru- og menningarminjum. Ísland mun væntanlega leiða tvö verkefnanna.
    Vinna nefndarinnar við framlag til nýrrar umhverfisáætlunar er þegar hafin í anda yfirlýsingar forsætisráðherra Norðurlandanna um sjálfbæra þróun.
    Náttúruverndar- og útivistarnefndin mun taka mið af nýjum leiðum í starfsemi sinni en megináhersla verður áfram lögð á að fylgja eftir samþykktum um líffræðilega fjölbreytni. Jafnframt er þörf á að leggja meiri áherslu á þætti eins og umhverfi og siðfræði, náttúru- og menningarminjar svo og miðlun þekkingar á náttúru- og umhverfismálum til atvinnulífsins.

Vinnunefnd um umhverfisvöktun og meðferð gagna.
    Vinnunefndin (NMD) skiptir verkefnum sínum í þrjá meginþætti: norræn verkefni og Norðurskautssvæðin, Eystrasaltsríkin og Rússland og loks verkefni sem hafa víðari skírskotun til Evrópu.
    Megináhersla er lögð á norræn verkefni. Eitt stærsta verkefnið er skýrsla um líffræðilega fjölbreytni. Efni skýrslunnar nær ekki aðeins til norrænu landanna, heldur einnig Eystrasaltsríkjanna, Rússlands og Skotlands og mun hún koma út árið 2001.
    Verkefni nefndarinnar um líffræðilega vöktun í fersku vatni tengist væntanlegri rammatilskipun ESB á sviði vatnsmála. Þá er unnið að tveimur verkefnum sem hafa það að markmiði að styrkja umhverfisvöktun fyrir botni Eystrasaltsins. Sem dæmi um verkefni sem hefur víðari skírskotun til Evrópu má nefna mælingar á þungmálmum í mosa.

Norræna hávaðanefndin.
    Norræna hávaðanefndin (NSG) var sett á laggirnar árið 1996 og hefur meginmarkmið hennar verið að útbúa reiknilíkan fyrir hávaða. Verkefnið var metnaðarfullt og hefur skilað meiri og betri árangri en reiknað var með, bæði verkefnið sjálft og önnur verk sem aðrir aðilar hafa unnið með hliðsjón af því. Verkefnið nálgast nú lokapunkti og hafa áætlanir um hvernig best megi kynna og nýta niðurstöður verkefnisins verið endurskoðaðar á árinu. Stefnt er að kynningu á grunnniðurstöðum á árinu 2000. Tölvuforrit sem nýtir fyrirliggjandi niðurstöður í einföldum tilvikum verður útbúið og getur það nýst umhverfisyfirvöldum á Norðurlöndum sem viðmiðunarreikniforrit fyrir hávaða. Þessi útfærsla kemur Íslandi mjög vel þar sem allir hlutaðeigandi aðilar eiga þá kost á einföldu reiknilíkani fyrir hávaða sem hægt er að nota sem grunn við mat á hávaða og kortlagningu hljóðstigs.
    Á vegum ESB er nú unnið að kortlagningu á umhverfishávaða og áætlað að gengið verði frá samræmdum reiknilíkönum og kortum fyrir árið 2007. Það starf sem unnið hefur verið í norrænu hávaðanefndinni getur orðið mikilvægt innlegg í þá vinnu.

Vinnunefnd um norræna umhverfismerkið (Svaninn).
    Nefndin er samstarfsvettvangur ráðuneyta umhverfis- og neytendamála og byggist á tímabundnu verkefni við að gera úttekt á norræna umhverfismerkinu.
    Verkefninu er skipt í áfanga. Sá fyrsti fólst í að kanna viðhorf neytenda til umhverfisvænni lífsstíls sérstaklega með tilliti til norræna umhverfismerkisins. Helstu niðurstöður verkefnisins voru kynntar á blaðamannafundi á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í nóvember sl. og hafði umhverfisráðherra Íslands, Siv Friðleifsdóttir framsögu um skýrsluna.
    Í næsta áfanga verður reynt að mæla óbein umhverfisáhrif merkisins og bein áhrif nokkurra vöruflokka sem eru merktir með því.

Samstarfsnefnd um Norræna umhverfis- og sjávarútvegsáætlun 1999–2002.
    Nefndin starfar á grundvelli norrænnar umhverfis- og sjávarútvegsáætlunar 1999–2002. Umhverfis- og sjávarútvegsráðherrar Norðurlanda samþykktu áætlunina í lok árs 1998 og byggist hún á fyrri sambærilegri áætlun fyrir árin 1995–1998. Hlutverk nefndarinnar er að vinna að framgangi stefnumála sem sett eru fram í áætluninni og fylgjast með framkvæmd þeirra í umboði embættismannanefnda umhverfis- og sjávarútvegsmála. Þetta hefur m.a. verið gert með því að veita fé til samnorrænna verkefna sem samræmast áherslusviðum áætlunarinnar, en þau eru alls 28.
    Samstarfsnefndin er skipuð tveimur fulltrúum frá hverju norrænu landanna, einum frá umhverfisyfirvöldum og einum frá sjávarútvegsyfirvöldum og eru að jafnaði haldnir tveir fundir á ári.
    Samstarfsáætlunin tekur til hafsins, auðlinda þess, umhverfis og strandsvæða og tekur m.a. mið af norrænu umhverfisáætluninni. Tilgangur samstarfsins er að stuðla að því að aukið tillit sé tekið til umhverfissjónarmiða í sjávarútvegi og að finna leiðir til þess að bæta umgengni og stuðla að sjálfbærri þróun í nýtingu sjávarauðlinda. Á árinu styrkti nefndin sex verkefni.

Samstarfsnefnd um Norræna umhverfis- og landbúnaðaráætlun 1996-1999.
    Nefndin starfar á grundvelli norrænnar áætlunar um umhverfis- og landbúnaðarmál fyrir tímabilið 1996–1999 sem samþykkt var af umhverfis- og landbúnaðarráðherrum Norðurlanda árið 1996. Hlutverk nefndarinnar er að vinna að framgangi stefnumála áætlunarinnar og fylgjast með framkvæmd þeirra í umboði viðkomandi embættismannanefnda.
    Samstarfsnefndin er skipuð tveimur fulltrúum frá hverju Norðurlandanna, einum frá umhverfisyfirvöldum og einum frá landbúnaðaryfirvöldum og heldur hún að jafnaði tvo fundi á ári.
    Samstarfsáætlunin fjallar um umhverfismál í landbúnaði og skógrækt og tekur m.a. mið af norrænu umhverfisáætluninni. Tilgangur samstarfsins er að stuðla að því að aukið tillit sé tekið til umhverfissjónarmiða í landbúnaði og skógrækt og að finna leiðir til þess að bæta umhverfi og stuðla að sjálfbærri þróun í landbúnaði.
    Á árinu hefur megin verkefni nefndarinnar verið að meta framkvæmd áætlunarinnar og undirbúa gerð nýrrar 3–4 ára áætlunar. Nefndin styrkti ellefu verkefni á árinu og voru þrjú þeirra ný.

Vinnunefnd um vörur og úrgang.
    Norrænn vinnuhópur um vörur og úrgang (PA) starfar undir embættismannanefndinni um umhverfismál og tók í byrjun árs við af vinnuhóp um hreinni tækni. Svíar gegna formennsku í hópnum og voru haldnir þrír fundir á árinu.
    Verkefni hópsins er að vinna að samræmingu og skilgreina sameiginleg verkefni á sviði framleiðsluvara, úrgangsmála og hreinni framleiðslutækni. Hópurinn tekur fyrst og fremst mið af hlutverki stjórnvalda á framangreindum sviðum og byggist starfið á norrænu umhverfisáætluninni og þeim markmiðum sem þar eru sett. Hópnum er m.a. falið að fjalla um sorphirðu á norðlægum slóðum og þá sérstaklega í smáum samfélögum og dreifðum byggðum. Þá er hópnum falið að fjalla um ábyrgð framleiðenda, undirbúa sameiginlega afstöðu til málefna sem verið er að fjalla um á vettvangi EES og finna leiðir til að draga úr umhverfis- og heilsuskaðlegum efnum í vörum og úrgangi.
    Á árinu lauk starfi sérstaks verkefnahóps um dreifðar byggðir sem hefur verið áhersluverkefni síðustu ár. Hópurinn gaf út bæklinginn: „Miljöet i små- og ösamfund i de nordiske lande“. Þar koma fram upplýsingar um verkefni og námstefnur sem verkefnahópurinn hefur staðið fyrir á árunum 1991–1999. Hópnum um dreifðar byggðir var breytt í tengiliðahóp þar sem sjónarmið og áherslur um dreifðar byggðir eru farnar að endurspeglast meira í starfi hópsins um vörur og úrgang.
    Vinna hópsins um vörur og úrgang fer að stærstum hluta fram í verkefna- og tengiliðahópum. Hóparnir hafa annars vegar það hlutverk að stýra tilteknum verkefnum og hins vegar að styrkja norræna samvinnu og auka upplýsingastreymi milli aðila sem vinna innan málaflokksins. Þá tekur vinna í hópnum og undirhópum hans einnig mið af samningnum um EES og fjalla tengiliðahópar um nýjar gerðir sem koma inn í samninginn, framkvæmd samningsins og sameiginlegar áherslur Norðurlandanna.

8. Byggðamál

    Samstarf Norðurlandanna í byggðamálum skipar mikilvægan sess í norrænu samstarfi enda eru þátttakendur bæði héruð og ríki. Um er að ræða upplýsingamiðlun og samráð meðal embættismanna og reynt er að skapa betri grunn fyrir stefnumótun og ákvarðanatöku. Á undanförnum árum hefur orðið áherslubreyting frá því að samstarfið varðaði einungis innri mál Norðurlanda en nú hefur sambandið milli Norðurlanda og Evrópu og milli Norðurlanda og grannsvæðanna fengið aukið vægi. Mikilvægi Evrópusamstarfsins hefur aukist verulega með þátttöku Norðurlanda í Interreg-áætlun ESB. Svæðasamstarfið snertir einnig Eystrasaltslöndin og Barentssvæðið. Á sviði þekkingarmiðlunar hefur sambandið við Evrópu og grannsvæðin fengið aukið vægi.
    Á árinu var unnið að samstarfsáætlun á sviði byggðamála fyrir tímabilið 2001–2005 og var sú samstarfsáætlun samþykkt á ráðherrafundi í nóvember. Í þessari áætlun er lögð áhersla á sömu þætti og verið hefur en þeir eru:
          upplýsingamiðlun,
          uppbygging þekkingar og rannsókna og
          samstarf milli héraða.
    Áætlunin hefur verið lögð fyrir Norðurlandaráð og mun liggja fyrir í endanlegri útgáfu um mitt ár 2000. Hún verður einnig gefin út á íslensku.
    Á sviði upplýsingamiðlunar verða starfræktir vinnuhópar um valin efni sem hafa mikil áhrif á þróun byggðar. Í fyrstu verður lögð áhersla á samhæfðar aðgerðir í byggðamálum og áhrif millifærslukerfis milli ríkis og sveitarfélaga á byggðaþróun. Þá er boðið upp á þann möguleika að norræna samstarfið í byggðamálum standi fyrir og kosti rannsókn á og umfjöllun um byggðastefnu í einu af löndunum. Þetta hefur þegar verið gert í Finnlandi. Þá verður unnið að athugun á sóknarfærum í upplýsingatækni sem áhrifavaldi í byggðaþróun og fleiri afmörkuðum málum.
    Á undanförnum árum hefur orðið efling á rannsóknar- og símenntastarfi á sviði byggða- og skipulagsmála með eflingu Nordregio, norrænu byggða- og skipulagsstofnunarinnar. Staða stofnunarinnar á alþjóðlegan mælikvarða fer stöðugt vaxandi. Símenntunarnámskeið ársins 2000 mun fjalla um svæðisbundið atvinnuþróunarstarf og er það í samræmi við áherslur úr formennskuáætlun Íslands.
    Áfram verður lögð áhersla á samstarfssvæðin. Samspil Norðurlandasamstarfsins og verkefna á vegum Evrópusambandsins er nú búið að taka á sig nokkuð fast form. Í framtíðinni verða gerðar auknar kröfur til samstarfssvæðanna um að sýna fram á árangur til að fá fjárveitingar. Áfram verður lögð áhersla á Norræna Atlantssamstarfið, NORA.
    Formennskuáætlun Íslands á sviði byggðamála var uppfyllt í öllum meginatriðum.

Norræna Atlantsnefndin (Nordisk Atlantsamarbejde — NORA).
    Norræna Atlantsnefndin (NORA) er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja, Grænlands og strandhéraða Noregs og heyrir nefndin undir Norrænu embættismannanefndina í byggðamálum (NERP).
    Skrifstofa nefndarinnar er í Þórshöfn í Færeyjum. Einnig eru starfandi fulltrúar/skrifstofur NORA í hverju aðildarlandi. Hér á landi hefur skrifstofa Byggðastofnunar á Egilsstöðum haft umsjón með starfi NORA en í júní 1999 tók þróunarsvið Byggðastofnunar á Sauðárkróki við því verkefni.
    Framkvæmdaráð, þar sem hvert aðildarland á fulltrúa, undirbýr ákvarðanir í samstarfi við starfsmenn í hverju landi, leggur fram tillögur og veitir framkvæmdastjóra leiðsögn í einstökum málum.
    Meginmarkmið með starfi nefndarinnar hefur verið:
          að hvetja til og efla samvinnu innan svæðisins með áherslu á eftirfarandi atriði: (1) auðlindir og umhverfismál sjávar, (2) landbúnað, (3) verslun og viðskipti, (4) ferðaþjónustu og (5) samgöngur;
          að koma á samstarfi milli nefndarinnar og annarra aðila sem vinna að hliðstæðum og tengdum verkefnum innan samstarfssvæðisins, einkum hefur verið lögð áhersla á samvinnu við atvinnuþróunar- og rannsóknarstofnanir í löndunum fjórum;
          að miðla reynslu og þekkingu í byggða- og atvinnumálum milli landanna;
          að stuðla að rannsóknum og þróun á framangreindum sviðum, þar sem löndin geta notið góðs af reynslu hvers annars með því að koma á samskiptum stofnana, fyrirtækja og fólks í millum.
    Norræna Atlantsnefndin hefur starfað síðan 1996 og er fjögurra ára áætlun nefndarinnar á enda. Ný áætlun er í undirbúningi fyrir árin 2001–2004 og einnig verður skipuð ný nefnd. Þrír fulltrúar frá hverju landi eiga sæti í nefndinni og fulltrúar Íslands voru skipaðir í nefndina af forsætisráðherra. Sú breyting varð hins vegar á um sl. áramót að iðnaðarráðherra tók við byggðamálum af forsætisráðherra.
    Á þessum fjórum árum sem nefndin hefur starfað hafa borist margar umsóknir um verkefnastyrki frá öllum löndunum en skilyrði fyrir styrk er að minnst tvö aðildarlönd séu umsækjendur að hverju verkefni. NORA hefur einnig haft frumkvæði að verkefnum sem skipta miklu máli í dreifðum byggðum á norðurslóðum svo sem ráðstefnu um fjarnám og fjarlækningar. Á árinu var efnt til ráðstefnu á Egilsstöðum sem bar heitið „Framþróun og nýsköpun á Norður-Atlantshafssvæðinu“ í samvinnu við Lánasjóð Vestur-Norðurlanda.
    Fjárveiting til nefndarinnar á árinu var um fimm millj. d.kr. Þátttaka Íslendinga í verkefnum nefndarinnar hefur verið mikil þessi fjögur ár sem nefndin hefur starfað. Þannig hafa Íslendingar verið þátttakendur í allt að 60 verkefnum af ýmsum toga. Sjávarútvegur og verkefni tengd veiðum og vinnslu sjávarafurða hafa verið áberandi í starfi nefndarinnar enda er sjávarútvegur eitt þeirra sviða sem tengir þessi lönd saman.

9. Efnahags- og fjármál.

Ráðherrafundir.
    Efnahags- og fjármálaráðherrar Norðurlanda héldu tvo formlega fundi á árinu, í júní á Egilsstöðum og í nóvember í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Á þessum fundum var meðal annars rætt um stöðu og horfur í efnahagsmálum á Norðurlöndum og áhrif hins nýstofnaða Efnahags- og myntbandalags (EMU). Auk þess má nefna málefni Norræna fjárfestingarbankans en á árinu gekk í gildi nýtt samkomulag um bankann sem miðar að því að styrkja stöðu hans sem alþjóðlegrar fjármálastofnunar. Þá komu til umfjöllunar ýmis mál sem verið hafa til skoðunar á vegum ráðherranna, svo sem möguleikar á aukinni samvinnu norrænna kauphalla og verðbréfaþinga sem hugsanlega næði einnig til Eystrasaltsríkjanna þriggja, niðurstöður athugunar á áhrifum hagvaxtar á afkomu hins opinbera og viðamikil athugun á stöðu og horfum í lífeyrismálum á Norðurlöndum sem nú stendur yfir en hún er gerð að frumkvæði Geirs H. Haarde, fjármálaráðherra.

Helstu nefndir, skýrslur o.fl.
a)         Embættismannanefndin (EK-Finans) og ýmsir vinnuhópar. Nefndina skipa háttsettir embættismenn í fjármálaráðuneytum landanna. Megin verkefni nefndarinnar er að undirbúa ráðherrafundi og vera ráðgefandi í öllum málefnum sem varða starf ráðherranna á norrænum vettvangi. Nefndin hefur þannig yfirumsjón með skýrslugerð og greinargerðarskrifum fyrir ráðherrafundina. Jafnframt hafa gjarnan starfað sérstakir vinnuhópar á vegum nefndarinnar til að sinna ákveðnum verkefnum. Á árinu voru málefni Norræna fjárfestingarbankans sem fyrr mikið til umfjöllunar.
             Athugun á norrænum kauphöllum: Á árinu var fram haldið sérstakri athugun vinnuhóps sem fjallaði um áhrif aukinnar alþjóðavæðingar á starfsemi norrænna kauphalla og verðbréfaþinga og kynntar helstu niðurstöður þar að lútandi. Meðal annars er rætt um aukið samstarf á þessu sviði, jafnframt því að huga að frekari samræmingu skráningarreglna norrænna kauphalla og verðbréfaþinga. Auk þess hafa ráðherrarnir lýst yfir vilja sínum til að aðstoða Eystrasaltsríkin þrjú við frekari þróun á þessu sviði. Þessu starfi verður fram haldið á árinu 2000.
             Athugun á áhrifum hagsveiflunnar á ríkisfjármál: Á árinu lauk athugun vinnuhóps á áhrifum hagsveiflunnar á stöðu ríkisfjármála á Norðurlöndum og voru niðurstöðurnar birtar í sérstakri skýrslu ( The public budget balance, fiscal indicators and cyclical sensitivity in the Nordic countries; TemaNord 1999:575). Athugunin leiddi í ljós að ríkisfjármálin á Norðurlöndum eru tiltölulega viðkvæm fyrir stöðu efnahagsmála á hverjum tíma. Umfang opinbera geirans ræður þar mestu og eru þau norrænu landanna þar sem opinberi geirinn er stærstur jafnframt þau lönd sem búa við hvað mesta næmni í þessu tilliti.
             Athugun á stöðu og horfum í lífeyrismálum: Á árinu hófst umfangsmikil athugun á stöðu og horfum í lífeyrismálum á Norðurlöndum. Auk þess verður fjallað um ýmis hagfræðileg viðfangsefni sem tengjast lífeyrismálum og stefnumörkun á þessu sviði. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sér um að framkvæma þessa athugun. Jafnframt hefur verið settur á laggirnar sérstakur vinnuhópur hér innanlands með fulltrúum frá opinberum stofnunum og samtökum lífeyrissjóða.
b)         Eystrasaltsnefndin (Baltikumudvalget). Árið 1992 samþykkti Norðurlandaráð norræna fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin sem miðaði að því að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum og koma á fót sérstökum fjárfestingarbönkum í þessum ríkjum. Nefndin hefur haft eftirlit og yfirumsjón með þessu verkefni og hana skipa að mestu sömu fulltrúar og sitja í embættismannanefndinni. Í þessu skyni hefur nefndin haft náin samskipti við fulltrúa Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Evrópubankans í London (EBRD) og Norræna verkefnaútflutningssjóðsins (Nopef). Nefndin hefur sent árlegar skýrslur til Norðurlandaráðs um stöðu og framkvæmd áætlunarinnar en henni lýkur formlega árið 2000.
c)         Efnahagsnefndin (Konjunkturgruppen). Helsta verkefni þessarar nefndar er að fjalla um ástand og horfur í efnahagsmálum, einkum á Norðurlöndum. Auk þess hefur nefndin iðulega fjallað um afmörkuð verkefni á sviði efnahagsmála sem eru ofarlega á baugi hverju sinni. Nefndin hittist tvisvar á ári og hana skipa embættismenn úr fjármálaráðuneytum landanna. Á hverju hausti skilar nefndin sérstakri skýrslu til fjármálaráðherranna sem síðan er lögð fram á þingi Norðurlandaráðs. Nýjasta skýrslan kom út í nóvember sl. ( Ekonomiska utsikter i Norden år 2000; TemaNord:590).
d)         Ráðgjafanefnd í gjaldeyris- og peningamálum (Nordiskt finansielt udvalg). Þessi nefnd hefur um árabil verið ráðgefandi fyrir fjármálaráðherrana í gjaldeyris- og peningamálum. Enn fremur hefur hún annast undirbúning og samræmingu norrænna sjónarmiða á þessu sviði á alþjóðavettvangi, einkum fyrir fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá hefur nefndin fylgst náið með framvindu og undirbúningi vegna Efnahags- og myntbandalagsins. Þessi nefnd hefur nú verið lögð niður og verkefni hennar færð til nýrrar nefndar, Efnahags- og fjármálanefndar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna (Nordic-Baltic Monetary and Financial Committee), en í henni sitja fulltrúar efnahags- og fjármálaráðuneyta og Seðlabanka þessara ríkja. Hin nýja nefnd tekur einnig við verkefnum Norrænu- baltnesku nefndarinnar.
e)         Vinnuhópur á sviði umhverfismála (Kontaktgruppe for miljø og økonomi). Sérstakur vinnuhópur starfar á vegum þeirra embættismannanefnda sem fjalla um efnahagsmál (EK-Finans) og umhverfismál (EK-Miljø). Meginverkefni hópsins eru almenn skoðanaskipti um umhverfismál út frá hagrænu sjónarmiði og notkun á hagrænum stjórntækjum í umhverfismálum. Fjármálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið eiga sinn hvorn fulltrúann í þessum hópi. Á árinu voru gefnar út nokkrar skýrslur, meðal annars um notkun hagrænna stjórntækja á sviði umhverfismála, möguleika á norrænu samstarfi á sviði umhverfismála og viðskipti með losunarkvóta. Af þeim verkefnum sem nú eru í gangi má nefna athuganir á hagkvæmni við verndun lífríkisins, á hagrænu gildi óspilltrar náttúru og reynslu norrænu landanna af umhverfissköttum. Ísland tók við formennsku í þessum vinnuhópi við upphaf ársins 2000.
f)         Sérfræðinganefnd um norræn fjárlög (Budgetexpertgruppen). Hlutverk nefndarinnar er að skila faglegri umsögn um tillögu samstarfsráðherra um frumvarp til norrænu fjárlaganna, bæði tæknilegri og efnislegri. Nefndin tekur einnig til umfjöllunar afmörkuð mál sem samstarfsráðherrar vísa til hennar. Á vegum nefndarinnar hefur meðal annars verið gerð úttekt á fyrirkomulagi samningsstjórnunar í norrænum rekstri. Einnig var gerð sérstök athugun á framsetningu norrænu fjárlaganna og gerðar tillögur um breytingar og úrbætur sem miðuðu að betri og skýrari miðlun upplýsinga.
g)         Norræna launa- og starfsmannanefndin (Løne- och personaleutskottet). Nefndin er ráðgefandi fyrir ráðherranefndina (samstarfsráðherra Norðurlanda) og stjórnarnefnd Norðurlandaráðs í launa-, ráðningar- og lífeyrismálum þeirra starfsmanna sem starfa við norrænar stofnanir ráðherranefndarinnar svo og starfsmanna á skrifstofum Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Nefndin fær þessi mál til umfjöllunar ýmist frá samstarfsnefndinni, ráðherranefndinni, Norðurlandaráði eða skrifstofum þeirra en getur einnig að eigin frumkvæði skotið málum varðandi ráðningar- og starfskjör til ráðherranefndarinnar og stjórnarnefndarinnar. Enn fremur á nefndin að tryggja að um málefni er varða stofnanirnar fari eftir 5. gr. sáttmála þjóðanna um réttarstöðu norrænna stofnana frá 1988 og að starfsmannafélög njóti umsagnarréttar áður en ákvörðun er tekin. Á árinu hafa nokkur stór mál verið til umfjöllunar, svo sem ráðningarform og launasetning starfsmanna á skrifstofunum í Kaupmannahöfn en yfirfærslu allra starfsmanna í nýtt launakerfi lauk 01.01.2000, reglur um ferðakostnað og dagpeninga starfsmannanna í Kaupmannahöfn, umfjöllun um húsbóndavald í starfsmannamálum í samnorrænu stofnununum (ansvars- og kompetansefordeling) og hlutverk LOP í því samhengi. Þá er fylgst með breytingum á samkomulagi um samræmingu lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna innan Norðurlandanna sem fjármálaráðuneyti/ríkislífeyrissjóðir landanna eru að vinna að. Ísland var ekki aðili að núgildandi samkomulagi en verður aðili að hinu nýja samkomulagi.
h)         Norræn starfsmannaskipti (nordisk tjenestemandsudveksling). Starfsmannaskiptin voru með óbreyttu sniði á árinu frá því sem var á fyrra ári. Hlutdeild Íslendinga nam 103.500 d.kr. eða 5,9% af heildarfjárveitingu ráðherranefndarinnar. Styrkþegar voru fimm talsins og hlutu þeir hver styrk til dvalar í einn til tvo mánuði, auk ferðakostnaðar. Að lokinni skiptidvöl skila styrkþegarnir skriflegri skýrslu um dvölina til fjármálaráðuneytisins og ráðuneytis eða stofnunar viðkomandi styrkþega. Gefinn hefur verið út nýr bæklingur með upplýsingum um norrænu starfsmannaskiptin og er hann að finna á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. Þá er einnig að finna upplýsingar um starfsmannaskiptin á heimasíðu fjármálaráðuneytisins.
i)         Samstarf yfirmanna skattamála í fjármálaráðuneytum á Norðurlöndum. Samstarfið hófst 1989 að frumkvæði fjármálaráðherra Norðurlanda í þeim tilgangi að skapa vettvang til upplýsingamiðlunar og skoðanaskipta milli landanna um þróun í skattamálum. Samstarfið er fólgið í einum árlegum fundi yfirmanna skattamála og á milli þeirra er upplýsingum miðlað meðal annars með því að send eru milli ráðuneytanna frumvörp og skýrslur um skattamál. Á hinum árlegu fundum er gerð grein fyrir helstu breytingum á skattalögum á Norðurlöndum. Enn fremur er fjallað um breytingar í skattamálum innan Evrópusambandsins, einkum með tilliti til áhrifa þeirra á Norðurlöndin. Þá eru rædd þau skattamál sem eru til umfjöllunar á vettvangi OECD og afstaða landanna til þeirra samræmd eftir atvikum. Að lokum er á fundum þessum fjallað um einstök stærri mál á sviði skatta, sem einstök lönd óska eftir að ræða.
j)         Norræna skattrannsóknaráðið. Ráðið var stofnað 1973 með samningi milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Að undangengnum nokkrum samskiptum við ráðið var ákveðið á árinu 1998 að Ísland gerðist aðili að samningi þessum. Verkefni ráðsins eru að efla fræðilegar rannsóknir á skattamálum á Norðurlöndum á sviði lögfræði og hagfræði; annars vegar með úthlutun styrkja til fræðimanna og annarra til að vinna tiltekin rannsóknarverkefni og hins vegar með því að halda árlega ráðstefnu þar sem tekin eru fyrir með fræðilegum hætti skattamál sem höfða til allra landanna. Á síðasta fundi var fjallað um skattlagningu fasteigna.
k)        Samstarf fjárlagastjóra Norðurlanda. Fjárlagastjórar og/eða forstöðumenn þeirra skrifstofa í fjármálaráðuneytum Norðurlanda sem hafa umsjón með fjárlögum hittast alla jafna tvisvar á ári. Á þessum fundum er fjallað um ýmis þau málefni sem eru efst á baugi í fjárlagagerð landanna hverju sinni. Enn fremur eru tiltekin mál tekin til umræðu sem hafa áhrif á fjárlagagerðina, til lengri eða skemmri tíma, sem lúta jöfnum höndum að nýjungum í fjárlagagerð og einstökum efnisþáttum þeirra.

Norræni fjárfestingarbankinn (sjá nánar kafla 26.1.) heyrir undir norrænu efnahags- og fjármálaráðherrana. Á árinu tók gildi nýtt samkomulag um bankann sem miðar að því að styrkja stöðu hans sem alþjóðlegrar fjármálastofnunar.

10. Orkumál.

    Samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála hefur eflst á síðustu árum. Með yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlanda um sjálfbæra orkuöflun á Eystrasaltssvæðinu sem samþykkt var í Björgvin árið 1997 var áherslum talsvert breytt og hefur starfið frá þeim tíma í auknum mæli beinst að grannsvæðunum. Á síðasta ári samþykktu orkuráðherrarnir rammaáætlun fyrir samstarf á sviði orkumála þar sem gerð er grein fyrir starfinu og lagðar meginlínur fyrir framhald þess. Það land sem gegnir formennsku mun móta nánari stefnu og áætlun um verkefni hverju sinni. Áætlunin tekur mið af þeim öru og miklu breytingum sem eiga sér stað á orkusviðinu á alþjóðavettvangi, ekki síst innan ESB.
    Markmiðið með samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála er að stuðla að sjálfbærri, skilvirkri, samkeppnishæfri og öruggri orkuöflun á Norðurlöndum og grannsvæðum þeirra. Lögð er áhersla á að orkulindir og orka sé nýtt með skilvirkum hætti til að efla atvinnulíf og styrkja efnahag án þess að ganga á hið náttúrulega umhverfi. Áherslur í samstarfinu og þau verkefni sem unnið er að eiga að hafa pólitíska þýðingu fyrir Norðurlöndin.
    Á árinu var haldinn fundur í ráðherranefndinni á Íslandi í ágúst. Sem formennskuríki boðaði Ísland til funda ráðherranna fyrir fundi ráðherraráðs ESB í maí og í desember. Í október var í boði Finnlands haldin ráðstefna orkuráðherra um samstarf á orkusviði á Eystrasaltssvæðinu. Ráðstefnuna sátu, auk norrænu ráðherranna, ráðherrar eða háttsettir embættismenn frá öðrum ríkjum við Eystrasalt, nokkrum ESB-ríkjum, Bandaríkjum Norður-Ameríku og loks fulltrúar alþjóðasamtaka og -stofnana.
    
Rammaáætlun fyrir norrænt samstarf á sviði orkumála.
    Orkuráðherrarnir samþykktu rammaáætlun fyrir orkusamstarf á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar á fundi sínum í ágúst. Áætlunin byggir á þeim verkefnum sem unnið hefur verið að og er með henni stuðlað að samfellu í samstarfinu. Í áætluninni er lýsing á samstarfinu, einkum þeim sviðum þar sem gert er ráð fyrir að efla það. Áhersla er á að auka vægi Norrænu stoðarinnar. Mikilvægustu verkefnin eru á sviði orkumarkaðar, loftslagsbreytinga, upplýsingamála og orkurannsókna. Í áætluninni verður lögð aukin áhersla á samstarf við aðra málaflokka, einkum umhverfis-, flutninga- og fjármálasviðin.
    Samkvæmt áætluninni mun samstarfið hvað grannsvæðin í austri varðar grundvallast á því starfi sem unnið hefur verið í samræmi við Björgvinjaryfirlýsinguna og niðurstöðum funda norrænu orkuráðherranna og starfsbræðra þeirra handan Eystrasaltsins sem haldnir voru í Stafangri í desember 1998 og í Helsinki í október sl.
    Samvinna Norðurlandanna um alþjóðlegt samstarf á sviði orkumála mun meðal annars beinast að framkvæmd tilskipana ESB um innri markað á sviði raforku og innri markað á sviði jarðgass. Meðal mikilvægra verkefna er að fjalla um hvernig svokölluðu „grænu rafmagni“ verður veittur forgangur á markaðinum.

Raforkumarkaður.
    Á þessum áratug hafa átt sér stað miklar breytingar á skipan raforkumála á Norðurlöndum. Norðmenn riðu á vaðið með breytingar og gáfu viðskipti með rafmagn frjáls og síðan hafa bæði Svíar og Finnar komið á markaðsbúskap í viðskiptum með raforku. Í Danmörku hafa verið samþykktar breytingar á löggjöf og skipulagi raforkumála, meðal annars til þess að hrinda í framkvæmd tilskipun ESB um innri markað á sviði raforku en frestur til þess rann út í febrúar sl. Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að kanna forsendur fyrir aukinni samtengingu raforkumarkaðarins umhverfis Eystrasaltið og meta afleiðingar þess. Sérstakur starfshópur ráðherranefndarinnar sinnir þessu verkefni.
    Í apríl var haldin námstefna í Kaupmannahöfn til að fjalla um möguleika til að nýta samtengingu raforkukerfa landanna til að draga úr umhverfisáhrifum raforkuvinnslu. Til námstefnunnar var boðið bæði fulltrúum grannsvæðanefndar Norðurlandaráðs og Nordel (samtök raforkufyrirtækja á Norðurlöndum). Námstefnan tengdist tilmælum Norðurlandaráðs 36/1998.

Orku- og umhverfismál.
    Undanfarin ár hefur starfað sameiginlegur starfshópur ráðherranefndanna um orkumál og umhverfismál. Verkefni starfshópsins hafa fyrst og fremst snúist um viðfangsefni sem tengjast rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Starfshópurinn gekkst m.a. fyrir ráðstefnu sl. haust í Málmey til að fjalla um Eystrsaltssvæðið sem eins konar tilraunasvæði í viðskiptum með losunarheimildir en á ráðherrafundinum í Reykjavík samþykktu orkuráðherrarnir að leggja til að það verkefni yrði kannað. Meðal verkefna sem lokið var við á árinu er athugun á losun þriggja flokka gróðurhúsalofttegunda þ.e. HFC, (P)FC og SF6 og möguleikum til að nýta önnur efni í þeirra stað, athugun á bindingu og athugun á stjórntækjum og tækniþróun til að stuðla að aukinni hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda í orkubúskapnum. Á árinu 1998 samþykktu forsætisráðherrar Norðurlandanna yfirlýsingu um sjálfbær Norðurlönd. Starfshópurinn hefur unnið að því að móta hvernig tekið verður á því verkefni hvað orkumál varðar í ljósi ákvörðunar ráðherranefndarinnar.

Orkurannsóknir.
    Norræna orkurannsóknaráætlunin hefur frá árinu 1987 verið skipulögð sem markáætlun til þriggja eða fjögurra ára í senn. Markmiðið hefur verið að styrkja grunnþekkingu og efla samstarf háskóla, rannsóknarstofnana o.fl. með það fyrir augum að stuðla að bættri samkeppnisstöðu landanna. Ný áætlun, sem nær til áranna 1999–2002 er komin til framkvæmda. Áætlunin tekur til sjö sviða. Á árinu var ákveðið að koma fastari skipan á starfið og stofna Norræna orkurannsóknastofnun til að sinna verkefninu og stýrir framkvæmdastjóri Norræna iðnaðarsjóðsins stofnuninni í hlutastarfi. Kostnaður við áætlunina greiðist að mestum hluta beint af löndunum af því fjármagni sem veitt er til orkurannsókna.

Evrópusambandið, Evrópska efnahagssvæðið og alþjóðaorkumál.
    Á fundum ráðherranefndarinnar, embættismannanefndarinnar og starfshópa á hennar vegum er að jafnaði fjallað um mál er varða evrópska efnahagssvæðið og þróun orkumála innan Evrópusambandsins. Fyrir fundi í ráðherraráði Evrópusambandsins um orkumál eru haldnir óformlegir fundir norrænu orkuráðherranna og sitja fulltrúar Íslands og Noregs þá fundi.

Samstarf við grannsvæði Norðurlanda.
    Í yfirlýsingu sem forsætisráðherrar Norðurlanda samþykktu í Björgvin 1997 um sjálfbæra þróun á sviði orkumála umhverfis Eystrasaltið fólu þeir orkuráðherrunum að vinna að tilteknum verkefnum.
    Var unnið áfram á grundvelli samþykkta ráðherrafundarins í Stafangri að því að efla samstarf Norðurlanda og grannríkjanna við Eystrasalt, þ.e. baltnesku ríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litháen auk Þýskalands, Póllands og Rússlands. Á vettvangi Norðurlandasamstarfsins hefur verið unnið að þessum verkefnum á vegum Björgvinjarhópsins og svokallaðs Eystrasaltshóps.
    Eystrasaltshópurinn hefur skipulagt einstök samstarfs- og stuðningsverkefni sérstaklega í baltnesku ríkjunum og Vestur-Rússlandi.
    Framkvæmd Björgvinjaryfirlýsingarinnar og undirbúningur ráðherrafundar orkuráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hefur verið í höndum svonefnds Björgvinjarhóps skipuðum fulltrúum allra Norðurlanda og óformlegrar samráðsnefndar skipuðum Björgvinjarhópnum og fulltrúum Eystrasaltsríkja ásamt fulltrúum Evrópubandalagsins.
    Ráðherrafundur orkuráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um samstarf á sviði orkumála var eins og áður sagði haldinn í Helsinki í október sl. Fundurinn var haldinn innan ramma formennskuáætlunar Finna í Evrópubandalaginu. Í yfirlýsingu ráðherrafundarins var ákveðið að halda áfram að leita leiða til að auka samstarf á sviði orkumála sem stuðlað geti að sjálfbærri þróun við Eystrasalt. Í yfirlýsingu fundarins var ákveðið að leggja sérstaka áherslu á raforkumarkað, gasmarkað, orkustefnu og loftslagsmál svo og orkusparnað. Sérstakur gaumur skyldi gefinn að fjárfestingum á sviði orkumála. Á fundinum var ákveðið að setja á fót sérstaka nefnd embættismanna frá löndunum (Group of Senior Energy Officials, GSEO) sem vinna skyldi að framkvæmd ályktunar ráðherrafundarins.
    Hópurinn kom saman til fyrsta fundar í desember sl. Ákveðið hefur verið að ráða til starfa einn fulltrúa ásamt ritara til að vinna að samstarfsorkuverkefnum á Eystrasaltssvæðinu. Fulltrúar þessir munu hafa aðstöðu á skrifstofu Eystrasaltsráðsins (Baltic Sea State Council BSSC) í Stokkhólmi. Fé hefur verið veitt frá norrænu embættismannanefndinni um orkumál til að standa straum af kostnaði við starfsemina, jafnframt því sem sótt hefur verið um styrk frá Synergy áætlun Evrópusambandsins til að styrkja einstök verkefni á þessu sviði.
    Loks má geta þess að ákveðið hefur verið að útvíkka Norrænu orkurannsóknaráætlunina þannig að hún nái einnig til Eystrasaltssvæðisins og var ákveðið að löndin veittu sérstaklega 5 millj. n.kr. á ári til þessa.
    Í ágúst var haldinn fundur embættismanna frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum (5+3) á Svartsengi. Þetta var þriðji fundur þessa hóps og er tilgangur fundanna m.a. að efla tengsl landanna á þessu sviði og ræða verkefni sem þessir aðilar hafa sameiginlegan áhuga á.

Norrænt orkusamstarf undir íslenskri formennsku.
    Á formennskuári Íslands var, auk þeirra verkefna sem að framan eru rakin, lögð áhersla á þrjú verkefni á svið orkumála.
    Í fyrsta lagi á að löndin skiptist á upplýsingum og gögnum um orkumál og að efla miðlun upplýsinga um orkusamstarfið og orkusviðið. Settur var á fót starfshópur til að sinna þessu verkefni og á fundi ráðherranna í ágúst var samþykkt að halda því starfi áfram. Meðal verkefna er í fyrsta lagi að endurskoða heimasíðu á Veraldarvefnum um samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála á vefsíðu Norden net. Einnig hefur hópurinn athugað samræmingu lykiltalna og samanburð á tölulegum upplýsingum um orkumál.
    Í öðru lagi verður lögð áhersla á að koma á fót samstarfi milli orkusviðsins og flutningasviðsins. Ákveðið var að fela Norrænu orkurannsóknarstofnuninni að kanna hvort möguleikar eru á að koma á slíku samstarfi og um hvaða þætti slík samvinna gæti fjallað.
    Í þriðja lagi er unnið að undirbúningi norrænnar námstefnu um ALTENER áætlun ESB. Ákveðið hefur verið að námstefnan verði haldin í Svíþjóð næsta vor. Á henni munu löndin m.a. skiptast á upplýsingum um reynsluna af ALTENER I áætluninni sem lokið er. Jafnframt munu þau fjalla um á hvaða sviðum hagsmunamál landanna fara saman svo og um samstarf þeirra í milli.

Niðurlag.
    Starf norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála er gagnlegt fyrir Ísland, þó svo að orkukerfi landsins sé frábrugðið því sem er annars staðar á Norðurlöndum. Sérstaklega er mikilvægt að fylgjast með þróun raforkumarkaðarins í löndunum og skiptast á upplýsingum um skipan þessa málaflokks meðal annars vegna þeirrar endurskoðunar á löggjöf um orkumál sem nú er unnið að. Starf ráðherranefndarinnar í tengslum við rammasamning S.Þ. um loftslagsbreytingar hefur stuðlað að betri og víðtækari þekkingu á því sviði og létt undirbúning Íslands vegna vinnu í tengslum við samninginn. Áhersla er lögð á að halda því starfi áfram. Íslendingar hafa notið góðs af orkurannsóknaráætluninni og hefur af Íslands hálfu verið lögð áhersla á að því samstarfi verði haldið áfram. Loks eru fundir á vegum ráðherranefndarinnar mikilvægir til að skiptast á skoðunum varðandi orkumál er tengjast EES og öðru alþjóðlegu samstarfi á sviði orkumála.

11. Landbúnaður og skógrækt.

    Norrænt samstarf á sviði landbúnaðar og skógræktar stendur á gömlum merg og hefur verið mjög virkt frá upphafi aldarinnar. Samstarfið innan norrænu ráðherranefndarinnar byggir á þessum arfi og samstarfið hefur stöðugt þróast og ný viðfangsefni verið tekin upp. Starfsemin á árinu mótaðist m.a. af því að Ísland fór með formennsku á þessu sviði eins og á öðrum samstarfssviðum. Formennskuáætlun Íslands um landbúnað og skógrækt var gerð eftir þeirri samstarfsáætlun sem samþykkt var í Kuopio í Finnlandi á 47. þingi Norðurlandaráðs með séráherslum Íslands. Megináherslur í samstarfsáætluninni eru á verkefni sem hafa tengsl og skírskotun til eftirfarandi fjögurra sviða:
          Gæði landbúnaðarframleiðslunnar með áherslu á umhverfið.
          Varðveisla erfðafræðilegs fjölbreytileika.
          Byggðaþróun á landsvæðum sem eru sérstaklega háð landbúnaði og skógrækt.
          Sjálfbær skógrækt.
    Um helmingur af fjármunum innan þessa geira rennur til viðfangsefna sem lúta að varðveislu erfðaefnis með margvíslegum hætti og vægi þessa viðfangsefnis í hagnýtum skilningi svo og í tengslum við margvísleg umhverfismál og alþjóðlega umræðu vex stöðugt. Norræni Genbankinn fyrir nytjaplöntur fagnaði því síðsumars að 20 ár voru liðin frá stofnun hans en Íslendingar hafa komið mjög við sögu í starfsemi hans frá upphafi. Mikilvægi stofnunarinnar hefur ekki hvað síst tengst miklum áherslum á þessu sviði í kjölfar Rio sáttmálans. Sömu sögu er að segja um samstarfið um varðveislu búfjárstofna innan Norræna genbankans fyrir húsdýr sem unnið er frá Ási í Noregi. Innan skógræktarsamstarfsins, SNS, er þessum málum einnig sinnt í sérstökum starfshópi og að lokum má geta þess að þjóðirnar hafa með sér víðtækt samstarf á sviði framhaldsmenntunar á þessu sviði innan ramma Nova. Í byrjun árs 2000 verður haldið doktorsnemanámskeið á sviði jurtaerfða en að skipulagningu og undirbúningi þess hafa unnið starfsmenn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskóla Íslands.
    Mikil vinna var á árinu lögð í mat á samstarfi þjóðanna um varðveislu erfðabreytileika og grunnur lagður að nýrri áætlun sem væntanlega verður lögð fyrir þing Norðurlandaráðs árið 2000.
    Í formennskutíð Íslands var lögð áhersla á að efla samvinnu á Vestur-Norðurlöndum og að auka þátttöku Færeyja og Grænlands. Einnig var samþykkt að hefja átak til kynningar á norrænu samstarfi í ýmsum nágrannalöndum sem hafa landfræðileg og söguleg tengsl svo sem nyrsta hluta Bretlandseyja, Orkneyjar, Hjaltland og Suðureyjar svo og vesturströnd Kanada. Ákveðið var að efna til fundar með aðilum frá þessum landsvæðum í tengslum við fyrirhugaða ráðstefnu um landbúnað á norðurslóð sem haldin verður á Íslandi árið 2001 á vegum Circumpolar Agricultural Association en Ísland fer þar með formennsku árin 2000 og 2001. Lagt var til að taka inn í verkefnaáætlun næsta árs ungmennaskipti í landbúnaði með skipulegum hætti.
    Tveir ráðherrafundir eru haldnir árlega. Fyrri fundur ársins var haldinn á Álandseyjum í júní og sá síðari í Kaupmannahöfn í nóvember. Meira er lagt í sumarfundinn og er unnið í tveimur málstofum þar sem fjallað er um landbúnaðarmál í annarri og málefni skógræktar í hinni auk sameiginlegrar umræðu allra. Að þessu sinni beindist athyglin að verulegu leyti að lífrænni ræktun, ferðamennsku í tengslum við landbúnað og vistvænni og sjálfbærri ræktun. Einnig höfðu alþjóðlegir samningar innan WTO mikið vægi. Seinni fundurinn sneri meira að verkefnaskrá Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði landbúnaðar og undirbúningi geirans að þátttöku í næstu rammaáætlun sem unnið er að undir kjörorðunum Sjálfbær Norðurlönd. Undirbúningur sameiginlegrar ráðstefnu þvert á ráðuneyti um öryggi matvæla var og tekin fyrir auk samstarfsins við Eystrasaltsríkin.
    Þær stofnanir sem heyra undir ráðherranefnd landbúnaðar og skógræktar (MR-JS) teljast allar hafa mjög hátt „norrænt notagildi“ og sú skoðun hefur styrkst í mati á starfsemi nokkurra þeirra sem unnið var á árinu. Norrænu löndunum er verulegur styrkur af samstarfinu á sviði varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika í hinu alþjóðlega starfi. Það á jafnt við um samstarfið innan Evrópusambandsins, FAO, WTO og fleiri stofnana. Sérstaklega ber að geta hvernig norræna samstarfið á sviði landbúnaðar og skógræktar hefur nýst til sameiginlegra átaka í margvíslegum verkefnum með Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi.
    Stofnanir og helstu langtímaverkefni á vegum NEJS eru:
          Norræni genbankinn fyrir nytjaplöntur (NGB).
          Norræni genbankinn fyrir húsdýr (NGH).
          Norræna samstarfsráðið fyrir landbúnaðarrannsóknir (NKJ).
          Samstarfsnefndin um norrænar skógræktarrannsóknir (SNS).
          Samstarf landbúnaðarháskólanna (NOVA).
          Norræna dýralæknasamstarfið (NKVet).
          Samstarfsnefnd um plöntusjúkdóma.
Auk viðfangsefna sem unnin eru innan ofangreindra stofnana og nefnda stuðlar NEJS að margvíslegum verkefnum með beinum fjárframlögum í framhaldi af gerð sérstakra áætlana svo sem á sviði umhverfismála en sú áætlun er unnin og fjármögnuð í samstarfi við Norrænu embættismannanefndina um umhverfismál, EK-Miljø. Einnig hefur í samstarfi við EK-Miljø verið starfandi sérstök samráðsnefnd „Strategigruppen för genetiska resurser“ sem sérstaklega hefur hugað að málefnum þar sem hagsmunir landbúnaðar og umhverfis fara saman.

12. Sjávarútvegsmál.

    Á formennskuári Íslendinga í norrænu samstarfi árið 1999 var lögð sérstök áhersla á ábyrga auðlindanýtingu, hreint umhverfi, náttúruvernd og heilbrigt mannlíf á norðurslóðum og Vestur-Norðurlöndum. Þessa sá víða stað í samstarfi á sjávarútvegssviðinu. Á árinu var efnt til Norrænnar fiskimálaráðstefnu í Reykjavík þar sem umræðuefnið var hvernig á að nýta lifandi auðlindir sjávar. Í tengslum við hana var óformlegur ráðherrafundur sjávarútvegsráðherra Norðurlanda. Á árinu var hafist handa við endurskoðun norræna sjávarútvegssamstarfsins, embættismannanefndin og vísindanefndin hafa fengið nýjar starfsreglur og unnið er að nýrri samvinnuáætlun. Sem fyrr var reynt að styrkja innviði sjávarútvegsins í löndunum með stuðningi við ýmiss konar rannsóknir sem tengjast honum. Þessi áhersla hefur verið eins og rauður þráður í samstarfinu undanfarin ár. Þá setti umræða um umhverfismerkingar sjávarafurða áfram svip á samstarfið á árinu. Það var stefnumál Íslands á formennskuári að auka áherslu á norðurslóðir og vestnorræn svæði. Verkefni sem felur í sér rannsókn á samspili heitra og kaldra hafstrauma, áhrif þeirra á loftslag og þar með lífskilyrði og nýtingu auðlinda sjávar hlaut brautargengi innan norræns samstarfs á árinu og var vísað til þessarar áherslu í því sambandi.
    Norræna samstarfið á sjávarútvegssviðinu fellur undir efnahags- og atvinnusamstarf í samræmi við breytingar sem gerðar voru á heildarskipulagi Norrænu ráðherranefndarinnar árið 1996. Unnið er eftir fjögurra ára samstarfsáætlun sjávarútvegssamstarfsins sem gildir fyrir árin 1997–2000. Sjávarútvegssamstarfið hélt sínum hlut í fjárveitingum frá fyrra ári og hafði til ráðstöfunar alls 7,3 millj. d.kr.
    Frá því að þverfaglegu samstarfi umhverfis- og sjávarútvegsgeiranna var komið á hefur framlag sjávarútvegssamstarfsins til þess numið einni milljón króna árlega og svo verður áfram. Sérstakur stýrihópur ber ábyrgð á því starfi sem hefur m.a. styrkt verkefni um vistferilsvottun og verkefni þar sem Alþjóðahafrannsóknarráðinu var falið að greina frá hvernig til hefði tekist um nýtingu einstakra stofna á hafsvæði þess með tilliti til sjálfbærni. Þarna er um að ræða eins konar einkunnargjöf fyrir stjórn veiða fyrir næstliðið ár og verður byggt á þeirri vinnu sem hjá ICES hefur verið lögð í að skilgreina hvað felist í varúðarleiðinni svokölluðu. Fyrsta skýrslan verður lögð fram í vor.
    Ætla má að norræna sjávarútvegssamstarfið muni áfram að stórum hluta verða helgað því að svara með ýmsum hætti kröfum um að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi í sjávarútvegi og hvernig neytendur geti sannreynt það. Hluti af því starfi á árinu var að upplýsa neytendur um hvernig staðið er að sjávarútvegi í norrænu ríkjunum. Ákveðið hefur verið að gera það bæði með útgáfu og með því að halda vinnusmiðjur. Reynt hefur verið áfram að setja umhverfismerkingar sjávarafurða í víðara samhengi m.a. innan FAO og í samvinnu við ESB. Á árinu var m.a. efnt til samráðs við ESB í áframhaldandi vinnu er varðar viðmið fyrir merkingar.
    Sem fyrr sagði var Norræna fiskimálaráðstefnan haldin í Reykjavík í ágúst sl. og var þess freistað að svara spurningunni um hvernig nýta ætti lifandi auðlindir sjávar út frá þremur sjónarhornum, þ.e. líffræðilega, efnahagslega og siðferðilega. Hálf öld er síðan fyrsta fiskimálaráðstefnan var haldin. Þessa sóttu nokkuð á annað hundrað manns og þótti hún takast hið besta. Til viðbótar við meginefni ráðstefnunnar flutti matvælaráðherra Dana, Henrik Dam Kristensen, inngangserindi um þær nýju kröfur sem gerðar eru til matvælaframleiðslu, þar á meðal sjávarútvegs. Vakti erindi hans mikla athygli en honum varð tíðrætt um aukið neytendavald og hvernig bregðast ætti við þeim nýju kröfum sem m.a. eru gerðar í nafni umhverfisverndar. Á óformlegum ráðherrafundi sjávarútvegsráðherra Norðurlanda í tengslum við ráðstefnuna var m.a. rætt um viðbrögð við málum sem upp hafa komið í Evrópusambandinu er varða öryggi neytenda og fengið hafa mikla fjölmiðlaumfjöllun, svo sem dioxínmál.
     Meðal verkefna sem styrkt voru af fjárveitingum ráðherranefndarinnar var ráðstefna um menntun í sjávarútvegi og verkefni sem lýtur að lúðu í Norður-Atlantshafi en við það eru notuð rafmerki. Íslenska fyrirtækið Stjörnuoddi hefur forgöngu um þetta verkefni.
    Sjávarútvegsgeirinn tók, eins og önnur svið í norrænu samstarfi, þátt í að móta framkvæmdaáætlun í framhaldi af samþykkt forsætisráðherra Norðurlanda í nóvember 1998 um Sjálfbær Norðurlönd.
    Embættismannanefndin um sjávarútvegsmál hittist fjórum sinnum. Í Hveragerði í upphafi árs, í Illulissat á Grænlandi í maí, í ágúst í Reykjavík í tengslum við Fiskimálaráðstefnuna og í Kaupmannahöfn í október. Meðal þess sem efnt var til á árinu var umræða um hvert menn vildu stefna í þessu samstarfi og var þar m.a. rætt um að auka tengsl við þá sem fara með sjávarútvegsmál í Brussel hvort heldur fyrir hönd norrænu ríkjanna eða fyrir Evrópusambandið. Íslendingar hafa forystu í minni hóp embættismanna sem endurskoðað hefur formlega skipan samstarfsins og endurskoðar hann nú starfsáætlun þess til næstu fjögurra ára.
    Meginmarkmið gildandi samstarfsáætlunar er að stuðla að því að efla sjávarútveg sem mikilvægan þátt þjóðlífs í löndunum. Mikilvægt er að styðja verkefni sem snerta þau lönd eða landshluta sem háðastir eru sjávarútvegi. Markmiðin fela í sér áherslu á verndun auðlinda sjávar og skynsamlega nýtingu þeirra. Ekki er ástæða til að ætla að þessu verði breytt en vænta má áherslubreytinga hvað varðar aukið tillit til sjónarmiða neytenda. Áherslubreytinga er ekki síst að vænta í ljósi þess að samstarfið hefur orðið pólitískara, í breiðum skilningi þess orðs, undanfarin ár.

13. Samgöngumál.

    Eins og fram hefur komið í fyrri skýrslum samstarfsráðherra fer norrænt samstarf um samgöngumál að mestu fram í norrænni embættismannanefnd um samgöngumál (NET) en í henni eiga sæti ráðuneytisstjórar samgönguráðuneytanna á Norðurlöndum, ásamt staðgenglum og ráðgjöfum. Nefndin hefur að jafnaði haldið tvo fundi á ári og svo var einnig á þessu ári. Samgönguráðherrar Norðurlanda héldu fund í Reykjavík í lok júní.
    Á þessum fundum voru eftirtalin mál m.a. til umfjöllunar:

Formennskuáætlun Íslands og önnur áhersluatriði í samskiptum landanna.
    Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, gerði á fundinum í Reykjavík grein fyrir formennskuáætlun Íslands varðandi samgöngumál en í henni er lögð áhersla á að bæta enn frekar samgöngur á Vestur-Norðurlöndum, þ.e. á milli Íslands og Grænlands og Íslands og Færeyja, bæði flugsamgöngur og sjósamgöngur. Samskipti landanna á sviði ferðamála hafa aukist verulega á síðustu árum og eru greiðar flugsamgöngur milli þeirra grundvallaratriði. Einkum hefur orðið mikil aukning í því sem kallað hefur verið vistvæn ferðamennska.
    Í lok fundarins boðuðu ráðherrarnir til blaðamannafundar þar sem helstu mál fundarins voru kynnt. Ísland kynnti bættar samgöngur á Vestur-Norðurlöndum. Finnland greindi frá því að það myndi á formennskutíma landsins í ESB seinni hluta ársins stuðla að samstarfi milli mismunandi samgöngumiðla, fjalla um járnbrautamál, nýja tækni í umferðinni, svo og samgöngur og umhverfismál. Að lokum var sagt frá þeim áhersluatriðum sem norrænu samgönguráðherrarnir hyggjast beita sér fyrir á komandi árum svo sem upplýsingatækni á sviði samgangna, samstarf við umhverfisgeirann, skipulagning umhverfisdaga á Eystrasaltssvæðinu svo og samræming norrænna rannsókna á sviði umferðar- og samgöngumála.

Efst á baugi í samgöngumálum Norðurlandanna.
    Á ráðherrafundinum og á fundum NET kynnir hvert land það sem efst er á baugi í samgöngumálum hvers lands.
    Í ár voru ný hafnalög, umferðarlög og fjárfestingar í samgöngunetinu ofarlega á blaði í Danmörku, fjölgun flugferða milli Færeyja og Íslands og áætlanir um jarðgangagerð í Færeyjum, auknar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum og fjölgun ferðamanna á Grænlandi, almenningssamgöngur, umferðarmál og breiðbandsvæðing í Svíþjóð, fjarskipta- og póstmál í Finnlandi og samræmd samgönguáætlun og umhverfismál í Noregi. Jafnframt greindi Finnland frá formennskuáætlun sinni í Evrópusambandinu.
    Ísland gerði grein fyrir auknum flutningum Flugleiða en félagið flytur nú yfir milljón farþega á ári, nýrri flugmálaáætlun þar sem gert er ráð fyrir endurbótum á Reykjavíkurflugvelli, framkvæmdum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli og vinnu við samræmda samgönguáætlun. Einnig var greint frá því að búist er við að ný fjarskiptalög og lög um Póst- og fjarskiptastofnun verði samþykkt fyrir lok ársins.

Málefni, er varða EES/ESB og Norðurlönd, svo og annað alþjóðlegt samstarf.
    Á fundum ráðherranna og NET voru kynnt og rædd þau mál sem til umræðu voru á árinu í samskiptum EES/ESB og Norðurlanda. Af einstökum málum má nefna málefni járnbrautanna í Evrópu, vinnutímatilskipun ESB, umferð um Sviss (kvótafyrirkomulag), Galileo- verkefnið, flugöryggismál og umhverfismál samgöngugeirans.

Störf vinnuhópa.
    Á árinu störfuðu vinnuhópar á vegum NET að eftirtöldum verkefnum:
a)         Umferðaröryggismál í Eystrasaltslöndunum. Finnland kynnti á fundum NET þetta starf en sótt var um fjárframlög frá Norrænu ráðherranefndinni til þessa verkefnis. Á fundi NET í nóvember var greint frá því að þar sem engin fjárframlög voru til verkefnisins í rammaáætlun ráðherranefndarinnar fyrir árin 2000–2002 hafði Finnland skrifað framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar bréf, ásamt bréfi til utanríkisráðherra Finnlands, þar sem vakin er athygli á mikilvægi þessa verkefnis og ítrekuð umsókn um fjárframlög á fjárlögum ráðherranefndarinnar. Haldin var námsstefna í Tallinn í september sl. um umferðaröryggismál í þessum löndum. Fulltrúi Íslands var Jón Rögnvaldsson, aðstoðarvegamálastjóri og setti hann námsstefnuna.
b)         Samgöngur og umhverfismál. Svíþjóð greindi frá störfum vinnuhópsins. NET óskaði eftir því að vinnuhópurinn gerði tillögur um hvernig vinna eigi gegn mengun frá vöruflutningabifreiðum sem aka á löngum leiðum, í samræmi við ályktun Norðurlandaráðs þar að lútandi. Finnland greindi frá því að þessi málaflokkur nyti forgangs í formennsku landsins í Evrópusambandinu seinni hluta ársins.
c)         Upplýsingatækni í samgöngumálum. Verkefnið er unnið á ábyrgð Norðmanna. Skýrsla var lögð fram. NET lýsti ánægju sinni með störf vinnuhópsins og ákvað að styrkja það með frekari framlögum í samræmi við verkefnaskrá sem lögð var fram.
d)         Samstarf við orkugeirann. Að frumkvæði Íslands var hafið samstarf við orkugeirann á árinu. Norræna nefndin um rannsóknir á orkusviðinu (NEFP) hélt í lok nóvember ráðstefnu um samgöngur og umhverfismál í Ósló en þar flutti samgönguráðherra Íslands, Sturla Böðvarsson, erindi um orkunotkun í samgöngum. Í erindi ráðherra kom m.a. fram að orkunotkun í heiminum hefði tvöfaldast frá byrjun sjöunda áratugarins. Í dag fer um helmingur af allri olíunotkun heimsins til að flytja vörur og fólk. Ef þessi þróun héldi áfram munu samgöngur nota þriðjung allra þeirrar orku sem kemur frá olíu, kolum, gasi og rafmagni innan ekki langs tíma.
e)         Sjálfbærir vöruflutningar á Norðurlöndum. Settur var á laggirnar starfshópur til þess að skipuleggja ráðstefnu um sjálfbæra vöruflutninga á Norðurlöndum. Áætlað er að halda þessa ráðstefnu í Kaupmannahöfn í lok febrúar árið 2000.

Samstarfið í framtíðinni.
    Það er sameiginlegt álit samgönguráðherra Norðurlanda að áhugi sé fyrir og þörf á að viðhalda norrænu samstarfi á sviði samgöngu- og umferðarmála. Þetta samstarf getur átt sér stað annað hvort innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar eða milli einstakra landa.
Samgöngumál snerta alla þætti þjóðlífsins og ekki óeðlilegt að þau séu vistuð á einum stað þótt þau gangi þvert á verkefni annarra ráðuneyta. Þetta á einkum við um umhverfismál samgöngugeirans svo og upplýsingatækni í samgöngum.
    Samstarf Norðurlanda í samgöngumálum á næstu árum mun eins og mörg undanfarin ár greinast í eftirfarandi þætti:
    Í fyrsta lagi samnorræn verkefni en á því sviði hefur að undanförnu verið lögð áhersla á upplýsingatækni í samgöngu- og umferðarmálum, sbr. hér að framan.
    Í öðru lagi mun kastljósið beinast að Evrópumálum. Þar er fyrst að nefna TEN-verkefnið eða þann þátt þess sem nær yfir nyrstu héruð Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Einnig verður lögð áhersla á umhverfismál og hugað að mengun frá hinum ýmsu samgöngutækjum, aðgengi og nýtingu annarra brennsluefna en nú eru notuð og tekið upp samstarf við ríki er liggja að norrænu löndunum um að draga úr mengun samgöngutækja.
    Í þriðja lagi verður lögð áhersla á að ræða samgöngur við grannsvæðin, einkum við Rússland og Eystrasaltsríkin. Milli þessara ríkja og norrænu landanna, einkum Finnlands og Svíþjóðar, er vaxandi bílaumferð og er meðalaldur bifreiða í þessum löndum hár og ástand þeirra lélegt. Litið er á það sem sérstakt verkefni að vinna að bættu öryggi umferðar milli þessara landa, að draga úr mengun og að gera umferðina ábatasamari en nú er raunin.
    Ísland mun á næstu árum beita sér fyrir að bæta enn frekar samgöngur á milli landa á Vestur-Norðurlöndum eins og áhersla var á lögð í formenskuáætlun fyrir árið 1999.

14. Samstarf við grannsvæðin.

    Í samræmi við stefnu fyrri ára tekur samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við grannsvæðin til eftirfarandi starfsemi: starfsemi upplýsingaskrifstofanna, upplýsingamiðlunar og samskipta, styrkjakerfa og þróunarverkefna á ýmsum sviðum. Innan grannsvæðaáætlunarinnar fer fram samstarf um málefni Norðurskautssvæðisins, einkum með áherslu á málefni frumbyggja, lífskjör og afkomu íbúa og sjálfbæra nýtingu auðlinda á Norðurskautssvæðinu.
    Fjárveitingar ráðherranefndarinnar til grannsvæðasamstarfsins hækkuðu í 65,5 millj. d.kr. Auk þessa renna u.þ.b. 70 millj. d.kr. frá öðrum samstarfssviðum til samstarfs við grannsvæðin.
    Með það fyrir augum að gera samstarfið gagnsærra og auðvelda framtíðarspár og jafnframt að bæta möguleikana á pólitískri stýringu, hefur stjórnun grannsvæðasamstarfsins verið endurskoðuð á árinu. Nú hefur í fyrsta sinn verið gerð rammaáætlun til þriggja ára fyrir tímabilið 2000–2002. Starfsáætlanir hvers árs fyrir sig munu síðan grundvallast á rammaáætluninni. Enn fremur hefur verið gerð sérstök verkefnaskrá sem verður þróuð enn frekar með það að markmiði að auðvelda þeim, sem að þessum málefnum starfa, aðgang að upplýsingum um grannsvæðastarfsemi ráðherranefndarinnar.
    Um leið og samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu rammaáætlunina tóku þeir ákvörðun um að hefja skuli umræðu um stefnumótun til næstu ára fyrir samstarfið við grannsvæðin.

Samstarf við Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland.
    Upplýsingaskrifstofur á vegum ráðherranefndarinnar eru í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna þriggja svo og í Pétursborg í Rússlandi. Á öllum fjórum skrifstofum urðu skrifstofustjóraskipti á árinu. Starfsemi skrifstofanna hefur á síðustu árum þróast og þær sinna nú í ríkari mæli verkefnum fyrir ráðherranefndina en þar má m.a. nefna umsjón með styrkjum vegna starfsmannaskipta svo og styrkja- og dvalarkerfi fyrir unga listamenn (Sleipnir-grannsvæðin). Þetta hefur til muna aukið skilvirkni við val á þátttakendum og úrvinnslu og möguleikana á að mæta breytilegum þörfum.
    Hvað varðar styrkjakerfið vegna Eystrasaltsríkjanna og Rússlands hefur hafist áætlun til þriggja ára þar sem áherslan verður á uppbyggingu tengslanets í stað styrkja til einstaklinga. Styrkjakerfið nær nú einnig til frjálsra félagasamtaka auk kennara, vísindamanna og námsmanna.
    Þau verkefni sem í gangi eru falla undir fjögur svið: lýðræði og velferð, menningarmiðlun, sjálfbæra nýtingu auðlinda og markaðsþróun. Samstarf um lýðræði og velferð hefur haft forgang; sérstaklega má geta fjárveitingar til þróunar á sérkennslu í Eystrasaltsríkjunum og aðgerða sem stuðla að auknu heilbrigði á grannsvæðum Norðurlanda í austri.

Samstarf um málefni Norðurskautssvæðisins.
    Grannsvæðasamstarfið sem fjallað er um hér að ofan felur í mörgum tilvikum í sér svið eða þætti sem snerta Norðurskautssvæðið. Innan grannsvæðasamstarfsins er hins vegar einnig sérstök Norðurskautsáætlun en þar undir eru samstarfsverkefni sem aðeins eiga við Norðurskautssvæðið.
    Norrænu löndin eru öll þeirrar skoðunar að æskilegt sé að dýpka Norðurskautssamstarfið og taka jafnframt þátt í því starfi sem fram fer á þessu sviði á öðrum vettvangi. Því sótti ráðherranefndin á árinu um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Í framhaldi af því hefur Norræna ráðherranefndin getað tekið þátt sem „ad hoc“ áheyrnarfulltrúi í fundum á þessum vettvangi. Enn fremur hefur ráðherranefndin tekið þátt í verkefnasamstarfi ýmiss konar, einkum á sviði umhverfismála.
    Málefni frumbyggja hafa verið einn þáttur í Norðurskautssamstarfinu. Á árinu hefur verið unnið að framkvæmd áætlunarinnar um framleiðsluþróun, fullvinnslu og markaðsfærslu hefðbundinna afurða frá Norðurskautssvæðinu og könnun vegna samískrar þekkingarmiðstöðvar er á lokastigi. Þess er jafnframt vænst að aðlaga og þróa megi niðurstöður áætlunarinnar svo þær nýtist annars staðar á Norðurskautssvæðunum. Í samstarfi við skipuleggjendur hefur verið unnið að undirbúningi heimssýningarinnar EXPO-2000 í Hannover, með það að markmiði að tryggja þátttöku Sama og Ínúíta á sérstakri frumbyggjasýningu sem haldin verður innan ramma EXPO-2000.
    Innan áætlunarinnar um lífskjör og afkomu íbúa Norðurskautssvæðisins hefur farið fram samanburðarkönnun á lífskjörum íbúa. Sérstök fjárveiting hefur verið veitt til úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um lífskjör íbúa á norræna Norðurskautssvæðinu. Fjarlækningar er rannsóknar- og þróunarsvið sem miklar vonir eru bundnar við á strjálbýlum svæðum. Uppbygging tengslanets milli norrænna sérfræðinga í fjarlækningum hefur verið aðalmarkmiðið á þessu sviði á árinu.
    Hvað varðar sjálfbæra nýtingu auðlinda hefur verið unnið að því að kortleggja magn og áhrif PCB á vistkerfi og íbúa Norðurskautssvæðisins. Einnig hefur verið unnið að norrænni samstarfsáætlun um verndun náttúru- og menningarminja á svæðinu. Innan ramma grannsvæðasamstarfsins stóð Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri fyrir vinnusmiðju um sjálfbæra þróun á Norðurskautssvæðinu.


15. Heilbrigðis- og félagsmál.

Ráðherrafundur.
    Dagana 21. og 22. júní var árlegur fundur heilbrigðis- og félagsmálaráðherra haldinn í Stafangri í Noregi. Ráðherrarnir samþykktu m.a. tvær tillögur sem Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, bar upp á fundinum. Ákveðið var að kanna í sameiningu vilja til að koma á fót vinnuhópi, sem hefði þrennt að markmiði í starfi sínu. Í fyrsta lagi að kanna möguleikana á að draga úr lyfjakostnaði, í öðru lagi að hafa áhrif á markaðssetningu lyfja og í þriðja lagi að stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun í löndunum. Hin tillaga Ingibjargar Pálmadóttur sem samþykkt var felur meðal annars í sér að löndin munu skiptast á skoðunum og upplýsingum um áfengisneyslu ungmenna og viðleitni hvers lands fyrir sig til að greina að áfengi og íþróttaiðkun ungmenna. Rætt var um áfengisauglýsingar og íþróttir, einkum þá þróun sem menn hafa fyrir augunum og felst í að áfengisframleiðendur beina auglýsingum sínum jafnvel að börnum og ungmennum. Í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi var haldinn ráðherrafundur vegna þeirra málefna á sviði heilbrigðis- og félagsmála sem voru til umfjöllunar á þinginu. Var þar einkum um að ræða umfjöllun um málefni barna og unglinga og skýrslu um Norðurlönd og alþjóðavæðinguna.

Embættismannanefndin.
    Norræna embættismannanefndin á sviði heilbrigðis- og félagsmála (EK-S) hélt þrjá fundi á árinu. Á fundi nefndarinnar í Kaupmannahöfn í mars var sérstaklega fjallað um þau mál sem Ísland lagði áherslu á í formennskutíð sinni en þau vörðuðu aukin gæði og árangur heilbrigðisþjónustu, réttindi sjúklinga, heilsufar kvenna og bætt umhverfi fjölskyldunnar. Í framhaldi af fundi nefndarinnar var síðan haldin ráðstefna um réttindi sjúklinga í samvinnu við Evrópuskrifstofu WHO, Evrópuráðið og Norræna heilbrigðisfræðaháskólann.
    Á fundi embættismannanefndarinnar í tengslum við ráðherrafundinn í júní var, auk undirbúnings fundar ráðherranna, fjallað um gildi prófa frá Norræna heilbrigðisfræðaháskólanum og framlenginu á ráðningarsamningu við NIOM.
    Á dagskrá haustfundar, sem haldinn var í Nuuk á Grænlandi í byrjun október, voru m.a. fjárlagatillögur fyrir árið 2000, úttekt á NIOM og NOPUS og gerð nýrrar samstarfsáætlunar. Fjármögnun Cochrane-samstarfsins á Norðurlöndum var sérstaklega til umræðu og lagði Ísland áherslu á að Norðurlöndin reyndu að tryggja fjárhagslega grundvöll þess til lengri tíma. Danir kynntu formennskuáætlun sína fyrir árið 2000.

    Norræni heilbrigðisfræðaháskólinn (NHV). Norræni heilbrigðisfræðaháskólinn í Gautaborg, Svíþjóð, er samnorræn menntastofnun fyrir æðri menntun og rannsóknir innan heilbrigðisfræða. Háskólinn starfar samkvæmt sérstökum samningi við Norrænu ráðherranefndina. Samningurinn er til þriggja ára í senn og tekur sá nýjasti yfir árin 1998 til 2000. Árangur ársins var í samræmi við sett markmið en 20 luku námi til meistaragráðu, 3 hlutu doktorsgráðu og 49 fengu viðurkenningu fyrir að hafa lokið 32 vikna sérskipulögðu námi frá skólanum.
    Gerð var úttekt á starfsemi skólans af ASPHER (Association of Schools of Public Health in the European Region) og verða niðurstöður hennar kynntar snemma ársins 2000.
    Nám við skólann er í sífelldri endurskoðun og er því ekkert námsár öðru líkt. Ræðst það af nýjungum í þekkingu á lýðheilbrigði og breytingum á þörfum heilbrigðisþjónustunnar á Norðurlöndum. 25 Íslendingar stunduðu nám við skólann en auk þess sóttu nokkrir Íslendingar ráðstefnur eða fengu stuðning og leiðsögn við rannsóknarverkefni. Tveir Íslendingar luku námsgráðu frá skólanum á árinu. Einn Íslendingur lauk doktorsnámi.
     Norræn stofnun til prófunar efna til tannlækninga (NIOM). Fyrir íslenska tannlækna eru tengslin við NIOM hagkvæm vegna upplýsinga um gæði og aukaverkanir efna til tannlækninga. Ekki síst til þess að koma í veg fyrir að verið sé að nota efni áður en þau eru fullreynd.
    Verkefnum NIOM er skipt í fjóra meginþætti: stöðlun („standariseringu“), prófun efna, rannsóknir og fræðslu.
    Á alþjóðlegum vettvangi tekur NIOM þátt í mótun staðla varðandi gæði og öryggi í tannlækningum með þátttöku í ISO (International Organization for Standardization), CEN (Comité Européen de Normalisation) og FDI (Federation Dentaire Internationale).
    Enn fremur hefur stofnunin fengið heimild til starfsemi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.
     Norræna lyfjanefndin (NLN). Norræna lyfjanefndin er samstarfsvettvangur Norðurlanda í lyfjamálum. Verkefni nefndarinnar eru m.a.:
          að stuðla að samræmingu laga, reglugerða og framkvæmd lyfjamála á Norðurlöndum,
          að stuðla að norrænni samvinnu um samstarf Evrópu um lyfjamál, Evrópsku lyfjaskrárnefndarinnar, EFTA, ESB og Lyfjamálastofnun Evrópu (EMEA),
          að stuðla að norrænum rannsóknum og samvinnu um lyfjamál og vera ráðgjafi ríkisstjórna Norðurlanda og Norrænu ráðherranefndarinnar,
          að gera reglulega samanburð á lyfjanotkun og lyfjakostnaði Norðurlanda, þar sem stuðst er við ATC-lyfjaflokkunarkerfið og DDD, sem eru verkefni sem NLN hefur unnið ötullega að úbreiðslu á undanfarin ár og Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur nú tekið það upp og hvetur til notkunar þess um allan heim,
          að halda ráðstefnur/námsstefnur um mál, er tengjast lyfjum, má þar nefna ráðstefnu um Lyf og Internetið, sem haldin var í haust.
    NLN á áheyrnarfulltrúa í ýmsum mikilvægum nefndum ESB og er umsagnaraðili um nýjar tilskipanir ESB um lyfjamál. Þá hefur NLN aðstoðað Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, við skipulagningu lyfjamála landanna.
     Norræna rannsóknarnefndin á sviði vímuefna (NAD). Aðalverkefni NAD (Nordiska nämnden för alkohol och drogforskning) er að efla og þróa þverfaglega samvinnu á sviði áfengis- og fíkniefnarannsókna. Rannsóknir þessar hafa yfirleitt verið samfélagslegar innan félagsvísinda og félagsgeðlækninga.
    NAD leitast við að þróa og dýpka þekkingu á notkun áfengis og annarra fíkniefna; forvörnum, stefnu stjórnvalda í þessum efnum; skaðsemi efnanna og meðferð neytenda. Markmið NAD er að stuðla að öflugum norrænum rannsóknum á áfengis- og lyfjaneyslu og áhrifum hennar á samfélagið í heild sinni. NAD liðsinnir ekki einungis vísindamönnum heldur auk þess félagsráðgjöfum, sálfræðingum, sagnfræðingum og öðrum sem áhuga hafa á þessu starfi.
    NAD gefur út eigin rit (ritröð NAD) og vinnur með „Nordisk Alkohol og Narkotika tidskrift“ (NAT) ásamt ensku útgáfunni „Nordic studies on Alcohol and Drugs“. NAD veitir einnig styrki til margvíslegra verkefna og rannsókna á áfengis- og fíkniefnavandamálum.
     Norræna hagskýrslunefndin á sviði félagsmála (NOSOSKO). Meginverkefni NOSOSKO er að vinna að samanburðarhæfri skýrslugerð um velferðarmál á Norðurlöndum og gefa árlega út skýrslu um það efni. Af öðrum verkefnum má nefna að nefndinni ber að fylgjast með alþjóðlegu samstarfi í hagskýrslugerð og vinna að samræmingu upplýsinga sem frá þátttökulöndunum koma.
    Allar Norðurlandaþjóðirnar fimm eru aðilar að samvinnu Evrópulanda á sviði hagskýrslugerðar, Eurostat, ýmist vegna aðildar sinnar að Evrópusambandinu eða EES. Eurostat vinnur að bættri hagskýrslugerð á sviði heilbrigðis- og félagsmála og sundurliðun útgjalda eftir svonefndri ESSPROS-flokkun.
    Á aðalfundi nefndarinnar var farið yfir skýrslur vinnuhópa um meðaltekjur og tekjuskiptingu, ESSPROSS-málefni, og útgjöld vegna félagslegrar þjónustu við eldri borgara og fatlaða. Samstarf við NOMESKO var einnig til umræðu, auk annarra fastra dagskrárliða.
    Í september stóð NOSOSKO fyrir ráðstefnu um félagstölfræði- og hagskýrsluleg málefni í Tallinn í Eistlandi fyrir embættismenn og sérfræðinga í Eystrasaltsríkjunum þremur. Var þetta námskeið framhald af námskeiði sem haldið var á sama stað árið 1998.
     Norræna heilbrigðistölfræðinefndin (NOMESKO). NOMESKO hefur það að markmiði að auðvelda samanburð milli norrænu landanna á sviði heilbrigðistölfræði. Einnig er nefndinni ætlað að hafa frumkvæði að þrónunarverkefnum á þessu sviði. Í þeim tilgangi hefur nefndin haft talsvert samstarf við Eystrasaltsríkin. Nefndin fylgist einnig með og hefur samstarf við heilbrigðistölfræðistofnanir á alþjóðavettvangi, m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Helstu verkefni NOMESKO á árinu voru: (1) samræming á skráningu á sjúkrahúsum; (2) samræming á skráningu heilbrigðisvandamála utan sjúkrahúsa; (3) samræming á skráningu dánarorsaka og dánarvottorða; (4) almenn samræming á ýmsum kennitölum í heilbrigðistölfræði; (5) samræmd skráning á heilbrigðisstarfsmönnum á Norðurlöndunum.
    Á árinu gaf NOMESKO einnig út flokkun á skurðaðgerðum og rit um skráningu á sjúkrahúsum á Norðurlöndum.
    Mjög náið samstarf er milli NOMESKO og hinnar norrænu miðstöðvar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um sjúkdómaflokkun og skilda starfsemi á vegum WHO sem staðsett er í Uppsölum í Svíþjóð.
     Norræna menntamiðstöðin á sviði daufblindu (NUD). Meginmarkmið með starfsemi NUD er að vinna að framgangi og þróun norrænnar samvinnu á sviði daufblindu. Aðalverkefni NUD er að mennta starfsfólk sem vinnur með daufblindum, að þjóna sem þekkingarmiðstöð, vinna að söfnun og þróun þekkingar og sinna alþjóðlegu samstarfi á sviði daufblindu. Þriggja ára samningur á milli ráðherranefndarinnar og NUD gildir fyrir tímabilið 1999–2001.
    Haldin voru tvö þemanámskeið, fjögur grunnnámskeið og fjórar ráðstefnur. Tvær tilraunir voru gerðar með fyrirlestra í fjarkennslu til samstarfslandanna.
    Bókasafn NUD er mikið notað til leitar og lestrar og 200 nýir titlar bættust við á árinu. Fimm fréttabréf voru gefin út. Haldin voru fjórar námstefnur þar af eitt um „NUD árið 2000“ með stjórnendum frá öllum löndunum um framtíðarhlutverk og starfsemi. Níu sinnum héldu norrænir vinnuhópar fundi á NUD. Gefnar voru út tvær bækur þar af önnur bæði á dönsku og ensku og fjögur textahefti um grunnþekkingu. NUD hefur staðið fyrir tveimur verkefnum í Eystrasaltslöndum og sex þátttakendur voru þaðan á grunnnámskeiðum. NUD á fulltrúa í tveim EU/int ráðstefnum. Þátttakendur á námskeiðum voru 180 þar af níu frá Íslandi.
     Norðurlandasamningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna. Samningurinn fjallar um gagnkvæmar viðurkenningar prófskírteina ákveðinna starfsstétta innan heilbrigðis- og dýralæknaþjónustunnar og á að tryggja aðgang norrænna ríkisborgara að norrænum vinnumarkaði á þessum sviðum. Samningurinn nær nú í heild til 22 faghópa en Ísland er þó einungis aðili varðandi 19 hópa.
     Aðilar samningsins töldu að þrátt fyrir EES-samninginn verði áfram þörf á norrænum reglum um viðurkenningu starfsgreina. Í fyrsta lagi að því er varðar sérgreinar sem EES- reglur ná ekki til. Í öðru lagi að því er varðar einstaklinga er hlotið hafa menntun sína í þriðja landi. Í þriðja lagi vegna norrænna ríkisborgara sem ella hefðu lakari möguleika á að stunda starfsgrein sína í öðru norrænu landi. Norðurlöndin ræða á þessum vettvangi þau vandamál sem sem upp koma vegna hins sameiginlega vinnumarkaðar.

16. Matvæli.

    Í sviðsáætlun Íslands fyrir norrænt samstarf á matvælasviði á árinu var lögð höfuð áhersla á þrjá þætti sem varða stjórn og skipan málaflokksins. Þessir þrír þættir eru:
          Að fagráðherrar, sem fara með matvælalöggjöf og matvælaeftirlit, yrðu kallaðir saman til að ræða framgang matvælamálefna í norrænu samstarfi og hvort ástæða væri til að stofna ráðherranefnd fyrir matvælamál.
          Að komið yrði á formlegu samstarfi vestnorrænu ríkjanna með stuðningi frá Norrænu ráðherranefndinni.
          Að stuðlað yrði að aukinni samvinnu fagsviða í norrænu samstarfi sem fara með mál sem geta haft áhrif á öryggi og hollustu matvæla og þeirra sem fara með mál á sviði neytendaverndar og neytendafræðslu.
    Ofangreind markmið hafa öll haft framgang á árinu. Unnið er að undirbúningi ráðherrafundar um matvæli í samvinnu þeirra 5 embættismannanefnda sem með einum eða öðrum hætti tengjast matvælamálum og öryggi matvæla en þær eru auk matvælanefndarinnar, embættismannanefndirnar um umhverfismál, landbúnað, sjávarútveg og neytendamál. Fundurinn verður haldinn haustið 2000.
    Tekin var ákvörðun um formlegt samstarf vestnorrænu ríkjanna um matvælaeftirlit og tengd málefni. Fyrsti fundur þess hóps sem nú hefur verið skipaður var haldinn á Húsavík í september sl. Næsti fundur verður á Grænlandi árið 2000. Meðal helstu mála sem voru til umfjöllunar á Húsavík var hvaða kröfur á að gera til matvælafyrirtækja, sem ekki hafa flókna eða umfangsmikla starfsemi, eða byggja matvælaframleiðslu á gömlum hefðum sem jafnvel samræmast ekki kröfum sem nú eru gerðar í matvælalöggjöf.
    Samvinna fagsviða í norrænu samstarfi um matvælamál eykst stöðugt. Áður er nefnt samstarf um ráðherrafund. Þá má nefna samstarf EK-Livs við embættismannanefndir um landbúnaðar- og neytendamál varðandi öryggi matvæla og neytendavernd og samstarf EK- Livs við enn fleiri embættismannanefndir vegna umbúðamerkinga matvæla. Þau mál tengjast meðal annars embættismannanefndum um sjávarútvegs- og umhverfismál vegna umhverfismerkinga sem geta orðið mikið hagsmunamál fyrir íslenskan sjávarútveg.
    Í sviðsáætlun fyrir árið voru einnig sett fram nokkur markmið sem sérstaklega varða öryggi matvæla og neytendavernd. Þessi markmið eru:
          Norðurlöndin dragi sameiginlegan lærdóm af yfireftirliti ESB og ESA í þeim tilgangi að bæta og samræma yfirstjórn með eftirliti og tryggja að ESB og ESA túlki löggjöf um matvæli og framfylgi henni með sama hætti á EES.
          Markmiðum og stefnu um matvælalöggjöf í ,,Green Paper“ framkvæmdastjórnar ESB yrði fylgt eftir með samstarfi Norðurlanda til að hafa áhrif á þróun mála. Samræming og einföldun reglna um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla er meðal áhersluatriða.
          Lögð yrði áhersla á samræmda áhættugreiningu og gagnasöfnun til að vinna gegn matarsjúkdómum. Sérstaklega er bent á skoðun mála vegna lyfjanotkunar og afleiðinga hennar á myndun fjölónæmra örvera í matvælum.
          Stuðlað yrði að samstarfi og sérhæfingu rannsóknastofnana á sviði matvælarannsókna og matarsjúkdóma og að þær geti veitt ráðgjöf og þjónustu fyrir öll Norðurlöndin.
          Könnuð verði þörf á formlegu samstarfi staðlaskrárnefnda (Codex nefnda) á Norðurlöndum í þeim tilgangi að hafa áhrif á Codex-staðla.
    Til að ná framangreindum markmiðum hefur verið lögð áhersla á að tryggja fjármagn til verkefnahópa sem starfa á vegum fastanefnda um eiturefnafræði matvæla, örverufræði, matvælaeftirlit, manneldismál og matvælalöggjöf. Norðurlandaráð samþykkti tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um að auka það fé sem embættismannanefndin um matvæli (EK-Livs) hefur til ráðstöfunar og hefur í framhaldi af því verið lögð áhersla á að efla vinnu við áhættugreiningu vegna efnainnihalds matvæla og örvera sem geta valdið matarsjúkdómum. Ísland hefur meðal annars lagt áherslu á framgang verkefna sem tengjast Campylobacter en mikil aukning varð á sýkingum af völdum þessarar bakteríu hér á landi árin 1998 og 1999. Nú tekur Ísland til dæmis þátt í verkefni um áhættugreiningu vegna Campylobacter og einnig aðferðafræði sem beinist að því að þróa viðurkennda aðferð til að magngreina bakteríuna í matvælum. Unnið er að fjölda annarra verkefna á sviði áhættugreiningar og aðferðafræði í norrænu samstarfi á matvælasviði. Þá var á árinu gengið frá formlegu samstarfi Norðurlanda um mat á aðferðum sem notaðar eru við örverufræðilegar greiningar á matvælum. Þetta var gert með því að koma á matskerfi sem nefnt er NordVal og sem mun hafa aðstöðu hjá dönsku matvælastofnuninni. NordVal mun vinna í nánu samstarfi við Norrænu matvælarannsóknanefndina.
    Fyrir utan áhættugreiningu vegna efnainnihalds og örvera hefur verið unnið að áhættugreiningu til að nota við skipulagningu og framkvæmd matvælaeftirlits. Af öðrum verkefnum á sviði matvælaeftirlits má nefna ráðstefnu sem haldin verður árið 2000 um yfireftirlit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og sambærilegt eftirlit af hálfu ESB. Ísland vinnur að skipulagningu þessarar ráðstefnu og er stefnt að því að þar komi saman fulltrúar allra stofnana sem sinna matvælaeftirliti og sem fá heimsóknir af hálfu ESA eða ESB. Hér á landi eru þetta Fiskistofa, yfirdýralæknir og Hollustuvernd ríkisins. Markmiðið með þessu starfi er að fá yfirlit yfir eftirlit ESA og ESB, þær starfsaðferðir sem beitt er og kröfur sem settar eru fram af hálfu þeirra. Jafnframt hvernig Norðurlöndin eiga að bregðast við kröfugerð af hálfu alþjóðlegra stofnana og hvort nauðsynlegt er að efla yfireftirlit í hverju ríki, þ.e. það eftirlit sem aðilar sem fara með yfirumsjónarhlutverk eiga að gegna gagnvart þeim sem fara með beint eftirlit.
    Norrænu löndin byggja öll sína matvælalöggjöf á ESB-reglum með beinni aðild að ESB eða sem aðilar að EFTA/EES. Á vissum sviðum er löggjöfin þó ekki samræmd og getur þetta skapað erfiðleika í viðskiptum. Settur var á laggirnar starfshópur til að kanna hvaða viðskiptahindranir mætti rekja til ákvæða í matvælalöggjöf á Norðurlöndum. Einnig er unnið í sérstöku verkefni að því að skoða hvaða reglur eigi að gilda um notkun bætiefna í matvælum en reglur um vítamínbætingu eru strangar á Norðurlöndum. Reglur um notkun bætiefna eru nokkuð mismunandi eftir ríkjum og hafa ekki verið samræmdar hjá ESB. Þetta er eitt af því sem tekið var upp í umræðum um markmið og stefnu á sviði matvælalöggjafar ESB í skýrslu sem nefnd er ,,Green Paper on food law“, sem nú er verið að fylgja eftir með,,White Paper on food safety“. Áherslur í þessum skýrslum eru á margan hátt mótandi fyrir þau verkefni sem unnið er að í norrænu samstarfi á matvælasviði. Megin markmið með stefnumörkun ESB á matvælasviði er að efla neytendavernd og upplýsingagjöf til neytenda. Norðurlöndin hafa einnig lagt áherslu á þessa þætti í verkefnum á vegum EK-Livs og má þar sérstaklega nefna verkefni vegna áhættugreiningar og umfangsmikil verkefni vegna umbúðamerkinga matvæla.
    Auk áherslu á alþjóðlegt samstarf á vegum ESB/EES var talið rétt að skoða hvort styrkja ætti áhrif Norðurlanda í starfsemi Alþjóðlega staðlaskrárráðsins fyrir matvæli (Codex Alimentarius Commission, FAO/WHO). Staðlar og verklagsreglur ráðsins eru notaðir af ESB og öðrum ríkjum við mótun matvælalöggjafar og framkvæmd eftirlits. Þá notar Alþjóða viðskiptastofnunin (WTO) Codex staðla ef upp kemur ágreiningur í alþjóðlegum viðskiptum með matvæli. Norðurlönd hafa unnið saman að Codex málum en Ísland lagði til að fulltrúar landanna kæmu saman til að ræða hvort koma ætti á formlegu samstarfi staðlaskrárnefnda á Norðurlöndum. EK-Livs veitti fjármagn til þessa verkefnis á árinu, en af því varð þó ekki.

17. Neytendamál.

    Samstarf Norðurlanda á sviði neytendamála á sér langa sögu og stendur traustum fótum. Til grundvallar í samstarfinu liggur „Stefnuáætlun fyrir norrænt samstarf á sviði neytendamála 1999–2004“. Ísland gegndi formennsku í öllum nefndum sem starfa á sviði neytendamála á árinu en í formennskuáætlun Íslands var einmitt lögð áhersla á aukna stjórnmálalega samvinnu við önnur Norðurlönd á sviði neytendamála. Jafnframt hefur verið reynt að stuðla að virkara samstarfi á þessu sviði við grannríki okkar þ.e. Færeyjar og Grænland. Þegar á heildina er litið hefur samstarfið á árinu verið árangursríkt. Ráðherrafundur var haldinn í Reykjavík í ágúst sl. og var hann haldinn samhliða fundum í ráðherranefndum fyrir orku- og iðnaðarmál. Ánægjulegt var hversu góð þátttaka var í fundunum, einnig frá Færeyjum og Grænlandi en ágreiningslaust er hversu mikilvægt er fyrir hið norræna samstarf að reglulega séu haldnir ráðherrafundir á þeim málefnasviðum sem samstarfið tekur til.

1. Samvinnan á Norðurlöndum.
Neytendur og ný löggjöf til verndar neytendum.
    (i) Neytendur og upplýsinga- og tölvutæknin. Í formennskuáætlun Íslendinga var m.a. lögð áhersla á norræna stefnumótun á sviði löggjafar til verndar neytendum. Á sviði upplýsinga- og tölvutækni er ör þróun um þessar mundir sem krefst aðgerða sem miða að því að tryggja vernd neytenda við notkun hennar t.a.m. við sölu og auglýsingarstarf á Netinu. Á fundi ráðherra neytendamála í Reykjavík voru samþykkt samnorræn tilmæli þeirra um þær lágmarkskröfur sem gera verði vegna markaðsfærslu á Netinu sem einkum er beint að börnum og unglingum. Í samræmi við norræn viðhorf er lögð rík áhersla í tilmælum ráðherranna á að markaðsfærslan skuli að öllu leyti vera tilhlýðileg gagnvart neytendahópum sem minna mega sín, svo sem börnum, og taka þarf tillit til reynsluleysis og eðlislægrar trúgirni þeirra þegar vörur og þjónusta er markaðssett á Netinu. Við þróun viðskipta á Netinu hefur myndast aukin alþjóðleg þörf fyrir því að menn sættist á leikreglur í þessum efnum og því vilja Norðurlöndin hafa frumkvæði á þessu sviði og er það í samræmi við þær ríku kröfur sem þau gera á sviði neytendaverndar. Viðskiptaráðherra hefur fyrir hönd norrænna ráðherra sent tilmælin til framkvæmdastjórnar ESB í þeirri von að þau viðmið sem þar er að finna fái víðtækari stuðning og verði höfð að leiðarljósi víðar en á Norðurlöndum. Auk þess hefur verið unnið að skýrslum um „Neytendur og vernd persónuupplýsinga“ og „Vernd persónuupplýsinga við kaup á Netinu“ í verkefnahópum sem eru að störfum. Norrænt samráð hefur einnig farið fram vegna lögleiðingar tilskipunar ESB um fjarsölu.
     (ii) Neytendur og lágmarksskröfur vegna nauðsynjaþjónustu. Samþykkt hefur verið að hefja vinnu í verkefnahópum um með hvaða hætti skuli tryggja lágmarksneytendavernd við veitingu ýmiss konar nauðsynjaþjónustu, svo sem á sviði sjúkrahúsa, rafmagnsveitna, o.fl.

Fjárhags- og upplýsingamál neytenda.
    Unnið er að skýrslum og samanburði á lífeyrisréttindum á Norðurlöndum og hvaða tegundir lífeyrissparnaðar eru hagkvæmastar fyrir neytendur. Jafnframt er í undirbúningi skýrsla um skilmála sem notaðir eru hjá bönkum og öðrum innlánsstofnunum á Norðurlöndum.

Málefni neytenda að því er varðar vörur og vöruöryggismál.
    Á samstarfsvettvangi Norðurlanda um vöruöryggi hefur m.a. verið fjallað um atriði er varða öryggi vöru sem seld er á Netinu eða með öðrum fjarsöluaðferðum, svo sem sjónvarpssölu eða pöntunarlistum. Einnig hefur verið til umfjöllunar öryggi leikfanga sem innihalda efnablöndur o.þ.u.l.
    Í formennskuáætlun Íslands var lögð áhersla á að tekið verði til umræðu með hvaða hætti neytendur geti haft áhrif á kröfur sem gerðar eru til framleiðslu og merkinga á matvöru. Í samstarfsneti sem starfar á vegum norræna stýrihópsins um vöruöryggismál hafa verið tekin til umfjöllunar mál sem varða erfðabreytt matvæli, hreinlætiskröfur við matvælaframleiðslu og aukaefni í matvælum. Einnig hefur komist á þverfaglegt samstarf milli embættismannanefndar um neytendamál (EK-Kons) og þeirrar nefndar sem fjallar um matvæli (EK-Livs).

Samþætting neytendamála við önnur samstarfssvið.
    Á árinu hefur verið unnið að undirbúningi málþings sem haldið verður snemma á árinu 2000 þar sem tekið verður til umfjöllunar samstarf grunnskóla og þeirra aðila sem vinna að málefnum neytenda. Í samræmi við áætlun norrænna ráðherra um neytendafræðslu hefur verið unnið að því á undanförnum árum að tryggja ungu fólki grunnþekkingu um ýmis atriði er varða neytendur og neytendavernd. Markmið með málþinginu er að tryggja eins og unnt er samræmi í kennslu í hverju landi fyrir sig svo og að miðla þekkingu og reynslu milli norrænu landanna á þessu sviði.

2. Norðurlönd og ESB/EES.
    Fastur liður í samvinnu Norðurlanda er umfjöllun um málefni sem eru á döfinni hverju sinni á vettvangi Evrópusambandsins. Á fundi norrænna ráðherra í Reykjavík var samþykkt að haldnir skyldu norrænir ráðherrafundir ef þörf krefur áður en mikilvægar eða stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar í ráðherraráði ESB. Auk þess er í öllum nefndum á samstarfssviðinu fjallað um ýmis mál svo sem lögleiðingu tilskipana og einnig í beinu samstarfi milli ráðuneyta á Norðurlöndunum.

3. Norðurlönd og grannsvæðin.
    Í samræmi við stefnu Norðurlanda að styðja við lýðræðisþróunina á grannsvæðunum hefur verið veitt fé til ýmiss konar samstarfsverkefna til að styrkja uppbyggingu og þekkingu á neytendamálum á grannsvæðunum. Unnið hefur verið að gerð kennsluefnis til neytendafræðslu í skólum. Auk þess er stefnt að því að halda á næsta ári málþing um neytendafræðslu og verður fulltrúum frá Eystrasaltsríkjunum svo og fulltrúum frá grannsvæðum í Rússlandi boðið að sækja málþingið. Jafnframt hefur verið veitt aðstoð við uppbyggingu frjálsra neytendasamtaka í Eystrasaltsríkjunum og hefur það samstarf verið einkar árangursríkt.

18. Vímuefnamál.

Ráðherrafundur.
    Árlegur fundur heilbrigðis-, félags- og dómsmálaráðherra var haldinn á Akureyri á Íslandi í ágúst sl. Á fundinum var rætt um hvort nálgast ætti króníska eiturlyfjaneytendur og hjálpa þeim til betra lífs, þó ekki væri mögulegt að koma öllum til að hætta, t.d. með göngudeildarmeðferð, þar sem reynt er að minnka neyslu fíkla með metadoninngjöfum. Þessi hugmynd um að draga úr skaða (harm reduction) er mjög útbreidd um hinn vestræna heim nú um stundir. Má segja að um sé að ræða samheiti fyrir forvarnir, meðferð og eftirlit tollvarða og lögreglu.
    Ráðherrunum var í mun að beina augum sérstaklega að nýjum fíkniefnum sem og stefnum og menningarstraumum á meðal ungs fólks. Einnig þarf að gæta að því að atvinnu- og öryggisleysi breiðist nú út í auknum mæli hjá yngri kynslóðum víða á Norðurlöndum, sem þykir ekki bæta úr skák.
    Norræna ráðherranefndin starfar þverfaglega á þessu samstarfssviði og munu ráðherrar, aðrir stjórnendur og starfsmenn, sem vinna að fíkniefnamálum hafa þann ásetning að treysta samvinnu sín á milli og miðla af reynslu sinni og þekkingu milli norrænu landanna og á alþjóðavettvangi.

Embættismannanefndin (EK-Nark).
    Norræna embættismannnanefndin um fíkniefnamál hittist þrisvar á árinu og var fyrsti fundurinn haldinn í Björgvin í apríl. Á fundinum voru rædd eftirfarandi mál: undirbúningsvinna vegna nýs samstarfstímabils er hæfist árið 2000; undirbúningur ráðherrafundar á Akureyri; rannsóknir á vegum NAD á nýjum neysluvenjum og unglingamenningu og var NAD falið að fylgjast með ástandinu í fíkniefnamálum á Norðurlöndum; miðlægur upplýsingabanki fyrir löndin en af því tilefni heimsótti Margareta Nilsen frá EMCDDA í Lissabon fundinn og kynnti starfsemi stofnunarinnar; forvarnir á forskólastigi; stórborgafundur um unglinga í Reykjavík í september sl.; aukin áhersla á fangelsistengd fíkniefnavandamál en á fundum nefndarinnar voru kynntar skýrslur frá aðildarlöndunum, heimsbyggðinni og rannsóknar- og/eða vinnunefndum (svo sem Pompidou-nefndinni, Dublin-nefndinni, og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem hefur rannsakað heróínneyslu í Sviss); lögreglu- og tollvarðahópur Norðurlanda; samvinnan við Eystrasaltsríkin og önnur grannríki.
    Annar fundur nefndarinnar var undirbúningsfundur vegna ráðherrafundarins á Akureyri og haldinn í tengslum við hann.
    Þriðji og síðasti fundur nefndarinnar var haldinn í Kaupmannahöfn í nóvember. Þar var farið yfir árið og fram kom að mörg þeirra mála sem unnið er að munu eðli þeirra samkvæmt halda áfram inn á nýtt árþúsund. M.a. kom eftirfarandi fram: að það hefur mikla þýðingu fyrir Vestur-Norðurlönd að taka þátt í samstarfinu um fíkniefnamál; að nauðsynlegt er að halda áfram skýrsluflutningi NAD og PTN á fundum nefndarinnar; að áfram verður að beina athyglinni að unga fólkinu, siðum þess og venjum, ásamt forskólabörnunum og foreldrunum; að láta ekki hugmyndina um miðlægan upplýsingabanka hverfa vegna starfa ESB í Lissabon þar sem sérstaða Norðurlanda er mikil; að uppeldismál séu könnuð með tilliti til forvarna; að ungt fólk taki áfram þátt í starfi að forvörnum í fíkniefnamálum; að ná fram fíkniefnalausum deildum fangelsa með því að tengja hegningar við meðferðarstarf; að samhæfa norrænar skoðanir þeim evrópsku og alþjóðlegu hjá ráðherra- og embættismannanefndinni.
    Að vanda gáfu fulltrúar aðildarlandanna stuttar munnlegar skýrslur um gang mála í löndum sínum og Danir, sem tóku við formennsku á fundinum sögðu frá helstu áformum sínum undir kjörorðunum: Faglig indsigt, menneskeligt udsyn. Meðferð í fangelsum og varnaraðgerðir gegn misnotkun á amfetamínum og nýjum, „syntetiskum“ efnum munu verða meðal áherslumála formennskulandsins. Þekktum vísindamanni á sviði meðferða sakamanna, dr. Harvey Milkman, hefur verið boðið til Íslands sem fyrirlesara. Fulltrúi Íslands lagði til að honum yrði jafnframt boðið á lokafund nefndarinnar árið 2000, sem haldinn verður í Kaupmannahöfn í september. Þangað mætti bjóða Eystrasaltsríkjunum að senda fulltrúa.
    Eftir því sem meiri reynsla kemst á samstarfið hafa samskiptin aukist og orðið gagnlegri.

19. Málefni dómsmálaráðuneytis.

    Norrænt samstarf dómsmálaráðuneytanna byggist aðallega á samstarfsáætlun um löggjafarsamstarf sem dómsmálaráðherrarnir gengu frá 1996 svo og á árlegri framkvæmdaáætlun sem samstarfsáætluninni fylgir og endurskoðuð er árlega, síðast á fundi ráðherranna í júní sl.
    Löggjafarsamstarfið hefur á árinu undir formennsku Íslendinga einkum beinst að afbrotavörnum og baráttu gegn afbrotum svo og að því að bæta samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á sviði dómsmála. Þá hefur áfram verið unnið að skilgreiningu á hlutverki og vinnuferli norrænu embættismannanefndarinnar um löggjafarsamstarf en Svíar áttu frumkvæði að því verkefni.
    Á hinum árlega sumarfundi sínum samþykktu dómsmálaráðherrarnir nýja framkvæmdaáætlun fyrir árin 1999–2000. Þar eru tilgreind forgangsverkefni: baráttan gegn afbrotum ungs fólks, samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna, afnám félagaréttarlegra hindrana í löggjöf við samruna fyrirtækja og barátta gegn barnaklámi á netinu. Þar eru og tilgreind viðvarandi viðfangsefni svo sem opinbert réttarfar og efnahagsbrotastarfsemi, einkamálaréttarfar, stjórnarfarsréttur og notkun upplýsingatækni í stjórnsýslu, upplýsingalög og persónuvernd, samstarf um ESB/EES málefni, sjóréttur, vörumerki og mynstur, neytendakaup, sifjaréttur, þ. á m. alþjóðlegur sifjaréttur, kynferðisleg misnotkun barna, starf er varðar afbrotavarnir svo og löggjöf um upplýsingatækni með hliðsjón af rafrænum viðskiptum, viðfangsefnum er varða rafrænar umsóknir, stjórnsýslu, rafræn samskipti o.fl.
    Dómsmálaráðherrarnir ræddu einnig önnur viðfangsefni svo sem Schengen samstarfið, vitnavernd, afbrotamálefni barna og ungmenna, fyrningu refsiábyrgðar, aðild nýrra ríkja að Lúganó samningnum og undirbúning fundar þeirra með dómsmálaráðherrum Eystrasaltsríkjanna.
    Fundur norrænu dómsmálaráðherranna og starfsbræðra þeirra frá Eystrasaltsríkjunum var haldinn í nóvember. Þar voru rædd tvö megin viðfangsefni. Annars vegar var rædd skilvirkni dómstólanna og í því sambandi aðgerðir til að styrkja stöðu óháðra dómstóla, menntun og þjálfun dómara og notkun nýrrar tækni. Hins vegar voru rædd afbrotamálefni barna og ungmenna svo sem hvernig fyrirbyggja megi slíka brotastarfsemi og vinna gegn henni. Ráðherrarnir voru einhuga um að auka þurfi samstarf landanna á sviði dómsmála. Var ákveðið að fela tengslahópi embættismanna frá öllum löndunum að undirbúa tillögur um samstarf á þeim sviðum sem rædd voru og að koma fram með tillögur um frekara samstarf á sviði dómsmála. Jafnframt var ákveðið að efna til nýs ráðherrrafundar að tveimur árum liðnum.
    Í því skyni að tryggja rétt tök við að útfæra og fylgja eftir pólitískri forgangsröðun sem dómsmálaráðherrarnir ákváðu á þessu sviði voru á árinu settir á fót þrír starfshópar sem starfa undir yfirumsjón embættismannanefndarinnar. Starfshóparnir hafa hver fyrir sig til ráðstöfunar tiltekna fjárveitingu af norrænu fjárlögunum:
          Starfshópur varðandi afbrot barna og ungmenna stefnir að því að koma á upplýsingaskiptum milli Norðurlandanna og samstarfi til þess að verjast og berjast gegn afbrotum barna og ungmenna.
          Til þess að undirbúa og fylgja eftir fundi dómsmálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna var samstarfshópur settur á laggirnar. Markmið samstarfshópsins er að hrinda af stað og fylgja eftir verkefnum í framhaldi af ráðherrafundinum.
          Rannsóknir á Evrópurétti munu halda áfram innan ramma norrænu ráðherranefndarinnar á vegum nýs starfshóps sem embættismannanefndin hefur sett á fót.
Löggjafarsviðið hefur einnig haft frumkvæði að útgáfu nokkurra skýrslna:
          Vinna fanga í fangelsunum.
          Skýrsla hóps refsiréttarfræðinga um kynþáttahatur.
          Skýrslu hóps refsiréttarfræðinga um peningaþvætti.
Enn fremur hefur á árinu verið gengist fyrir nokkrum málþingum og ráðstefnum:
          Málþing um rafræn viðskipti í samráði við atvinnu- og neytendasvið, Ósló.
          Málþing um aðlögun ESB-tilskipunar um útboð að landsrétti, Køge.
          Ráðstefnuhald um greiðsluaðlögun, Málmey.
          Málþing um réttarfar í einkamálum, Ósló.
          Málþing um stjórnsýslurétt, Helsingfors.

Málefni flóttamanna.
    Samráðsnefnd æðri embættismanna um málefni flóttamanna fjallar um stefumótun í málefnum er varða flóttamenn. Fara þar einnig fram upplýsingaskipti milli stjórnvalda um þróun löggjafar um málefni útlendinga almennt, um móttöku flóttamanna, um breytingar á framkvæmd mála er varða flóttamenn, ákvarðanatöku í slíkum málum, heimflutning o.fl. Á árinu mótaðist viðfangsefnið mjög af átökunum í Kósóvó, móttöku flóttamanna þaðan og síðan aðstoð við heimflutning. Samstarf er einnig um öflun upplýsinga vegna aðstæðna í löndum þaðan sem flóttamenn koma, m.a. með miðlun skýrslna sem sendinefndir einstakra landa gera. Þá er haft samráð um ýmis atriði er varða útlendingaeftirlit, m.a. með hliðsjón af norræna vegabréfasambandinu og Schengen-samstarfinu. Þá hefur þróun mála eftir gildistöku Dublinsamnings ESB-ríkjanna verið rædd og staða Íslands og Noregs í því sambandi. Ráðherrar sem fara með málefni flóttamanna og innflytjenda eiga einnig samstarf sín á milli og héldu þeir fund í Ósló í desember.

Björgunarsamstarf.
    Norræn samvinna um björgunarsamstarf tekur til samstarfs yfir landamæri og miðar að því að koma í veg fyrir eða takmarka tjón á mönnum, eignum eða umhverfi vegna slysa eða óhappa. Markmiðið er að veita gagnkvæma aðstoð og auðvelda að hjálparlið og búnaður komist sem allra fyrst á vettvang. Töluvert hefur reynt á nýjan þátt í samstarfinu undanfarin ár en það er í tengslum við aðstoð við óhöpp skipa og ferja í siglingum milli Norðurlanda.
    Sérstök tenglanefnd kemur saman til fundar 2–4 sinnum á ári og gengst hún m.a. fyrir því að miðla upplýsingum varðandi þessi málefni og skipuleggja ráðstefnur um björgunarmál á tveggja ára fresti þar sem stefnt er saman mönnum úr ólíkum geirum er tengjast málefninu. Stefnt er að því að lengja bil milli ráðstefna þannig að þær verði haldnar á þriggja ára fresti. Enn fremur er gefin út norræn björgunarhandbók, haldnar eru útkallsæfingar og hvatt er til aukins samstarfs í landamærahéruðum.
    Samstarf þetta byggist á rammasamningi um björgunarþjónustu (NORDRED) frá 1989 milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Ísland hefur tekið þátt í þessu samstarfi undanfarin ár. Í samræmi við beint ákvæði í 8. gr. samningsins er unnið að því að Ísland gerist formlegur aðili að samningnum.

20. Norrænn vinnumarkaður og vinnuvernd.

    Formennskuár Íslands í norrænu samstarfi hefur sett mikinn svip á samstarfið á þessu ári. Á sviði vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismála lögðu Íslendingar m.a. áherslu á að fá umræðu um það í nefndum um vinnumál með hvaða hætti vinnumálasviðið gæti komið að samstarfi um þróun í átt að sjálfbæru samfélagi á norðurslóðum og vestnorrænum svæðum með sérstökum verkefnum í framtíðinni. Á norrænum fundi vinnumálaráðherra í Viðey í ágúst sl. voru mál þessi rædd og m.a. kynntu Grænlendingar sjónarmið sín í vinnumálum. Þar áttu sér einnig stað umræður um virka vinnumarkaðsstefnu og vinnumiðlun í löndunum auk viðræðna við fulltrúa aðila vinnumarkaðarins um atvinnumál o.fl.
    Í starfsáætlun Íslands í vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismálum var hins vegar lögð megináhersla á nokkur almenn markmið frá 5 ára samstarfsáætluninni auk sérstakra áhersluatriða. Við höfum þannig lagt áherslu á að halda áfram þeirri forgangsröðun sem önnur Norðurlönd hafa fylgt undanfarin ár eins og um samstarf um atvinnumál í víðum skilningi og Evrópusamstarf um vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismál auk þess sem við lögðum áherslu á atvinnumál aldraðra, jafnrétti við vinnumiðlunarþjónustu, starfsmenntun fyrir langtímaatvinnulausa, samstarf við önnur starfssvið ráðherranefndarinnar og að afla meiri þekkingar á breytingum á ráðningarfyrirkomulagi.
    Tvö málþing voru haldin í Reykjavík á árinu sem voru meðal áherslumála Íslands á formennskuárinu. Í mars var haldið málþing um jafnrétti í vinnumiðlunarþjónustu á Norðurlöndum, þar sem m.a. var rætt hvernig fella mætti jafnrétti í ráðgjöf og vinnumiðlun inn í þjónustu vinnumiðlana og brjóta upp kynskiptan vinnumarkað. Í október sl. var síðan haldið málþing um atvinnumál eldra fólks undir heitinu „Eldra fólk og vinnumarkaðurinn“. Norræna ráðherranefndin styrkti málþingið og gefin hefur verið út skýrsla með niðurstöðum þess.
    Embættismannanefndin í vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismálum hefur hafið undirbúning að vinnu við nýja samstarfsáætlun í vinnumálum sem tekur til áranna 2001–2004 og sem leysa á af hólmi gildandi samstarfsáætlun sem lýkur árið 2000. Sérstakur vinnuhópur vinnur að þessu verkefni.

Vinnumarkaðssamstarf.
    Vinnumarkaðsnefndin er vettvangur fyrir umræðu um atvinnumál, vinnumarkaðsmál og vinnumarkaðsrannsóknir í norrænu samstarfi.
    Nefndin styrkti ýmis verkefni á árinu. Fyrir utan ofangreind tvö málþing voru haldnar þrjár ráðstefnur um þróunaraðstoð við vinnumarkaðinn í Norðvestur-Rússlandi. Þá var haldin ráðstefna um viðhorfskannanir meðal notenda vinnumiðlunarþjónustunnar sem tæki til að bæta þjónustu við atvinnuleitendur og vinnuveitendur. Einnig var haldin ráðstefna á Íslandi í júní um NOKON-verkefnið sem er samstarfsverkefni með áherslu á frumkvöðlastarf ungs fólks, hugmyndavinnu og staðbundið þróunarstarf. Gefin var út skýrsla á árinu um samspil virkrar vinnumarkaðsstefnu og atvinnuleysisbóta.
    Helstu verkefni sem nú eru styrkt af nefndinni eru: norræn vinnumiðlun - verkefnarannsóknir, sem hófst í september og mun ljúka með ráðstefnu í maí árið 2000; samanburður á starfsemi norrænna vinnumiðlana og annarra evrópskra vinnumiðlana; ráðstefna sem haldin verður í París í október 2000 um að auka samráð á Norðurlöndum og í OECD ríkjum um samþættingu í jafnréttismálum (mainstreaming); rannsókn byggð á atvinnuleysistölum m.t.t. menntunar, lífeyris og fötlunar; rannsókn um að bæta vitund fólks á Norðurlöndum að því er varðar sveigjanlegt vinnufyrirkomulag í þeim tilgangi að auka þjónustu, framleiðslu og hagvöxt.
    Verkefni vinnumarkaðsnefndarinnar er einnig að gera skýrslu um atvinnumál á Norðurlöndum sem er lögð fyrir þing Norðurlandaráðs ár hvert. Skýrslan var að þessu sinni unnin á Íslandi og lögð fyrir þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
     Atvinnuskipti ungs fólks. Eitt helsta norræna samstarfsverkefnið á sviði vinnumarkaðar er NORDJOBB, sem byggir á atvinnuskiptum ungs fólks milli Norðurlanda, en Norrænu félögin annast nú þessi samskipti á Norðurlöndum. Á árinu hafa 137 ungmenni farið héðan í vinnu á Norðurlöndum á vegum NORDJOBB og 108 norræn ungmenni hafa komið til vinnu á Íslandi.
    Á vegum NORDPRAKTIK verkefnisins hafa 11 ungmenni komið frá Eystrasaltsríkjunum hingað á þessu ári. ÖSTJOBB er nýtt verkefni þar sem norræn ungmenni sækja Eystrasaltslöndin heim vegna starfsþjálfunar og menningarsamskipta og fóru 8 ungmenni héðan á árinu.
     Samstarfshópur um vinnumarkaðsþjónustu. Samstarfshópurinn um vinnumarkaðsþjónustu annast m.a. vinnumiðlun, starfsmenntun í atvinnulífinu og atvinnuleysistryggingar. Á vegum starfshópsins var haldið málþing um þjónustukannanir sem tæki til þess að bæta gæði í þjónustu vinnumiðlana við atvinnuleitendur og vinnuveitendur.
    Nú stendur yfir verkefni um vinnumiðlunarsamstarf á Norðurlöndum. Nokkur önnur verkefni eru í undirbúningi á vegum samstarfshópsins m.a. um þjónustu vinnumiðlunar við nýbúa, gæðakerfi í vinnumiðlun, símaþjónustumiðstöðvar (call-centers) og norræna heimasíðu um starfsráðgjöf.
     Starfsmenntun. Í framhaldi af umfjöllun sérfræðingahóps árið 1998 um þróunina á Norðurlöndum í starfsmenntunarmálum og þörf vinnuaflsins fyrir símenntun m.t.t. vinnumarkaðs framtíðarinnar er starfshópur um vinnumarkaðsþjónustu að taka saman skýrslu um þróunina á Norðurlöndum.
    Vinnumarkaðsnefndin hefur ákveðið að standa að samstarfsverkefni milli Færeyja, Grænlands og Íslands, sem á að rannsaka hvaða kröfur eru gerðar til vestnorræns vinnuafls m.t.t. hæfni og menntunar.
     Atvinnuleysistryggingar. Norrænt samstarf vegna atvinnuleysistrygginga heyrir nú undir vinnumarkaðsnefndina og samstarfshóp um vinnumarkaðsþjónustu. Hins vegar starfa tveir hópar áfram um afmörkuð verkefni. Um er að ræða samstarfshóp vegna flutnings atvinnuleysisbóta milli Norðurlanda og nefnd vegna ráðstefna um atvinnuleysistryggingar sem haldnar eru á tveggja ára fresti. Ráðstefna var haldin í maí sl. um „Atvinnuleysistryggingar á Norðurlöndum í hálfa öld“.
     Atvinnulíf og vinnuréttur. Norrænu samstarfsnefndinni um atvinnulíf og vinnurétt er ætlað að vera vettvangur fyrir kynningu, umræður og samræmingu norrænna sjónarmiða í málefnum á sviði atvinnulífs og vinnuréttar bæði innan og utan Norðurlanda.
    Haldinn var fundur með aðilum vinnumarkaðarins á Norðurlöndum um verkefnasamstarf þessara aðila. Áhugi er á að skipuleggja málþing hér á landi um ráðningarfyrirkomulag í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins árið 2000.
    Helsta rannsóknarverkefni sem nýtur stuðnings frá nefndinni er NordFram III en NordFram II verkefninu lauk á árinu með útgáfu sýnisbókar um helstu niðurstöður verkefnisins sem ber heitið „The global redefining of the working life“. Í NordFram III verkefninu er leitast við að kanna þær langtímabreytingar sem orðið hafa á reglum um vinnumál samfara breytingum í alþjóðavæðingu efnahagsmála og stjórnmála og að kanna hvort alþjóðavæðingin hefur haft áhrif á valdahlutföllin á vinnumarkaðinum.
     Innflytjendamál. Norræna samstarfsnefndin um innflytjendamál hefur m.a. það hlutverk að skiptast á upplýsingum milli einstakra landa á Norðurlöndum (löggjöf, framkvæmd, skýrslum, rannsóknum, tölfræði o.fl.), að því er varðar innflytjendur og flóttafólk. Ísland tók í fyrsta sinn þátt í þessu samstarfi á árinu. Nefndin leggur áherslu á að miðla upplýsingum á sviði innflytjendamála til Eystrasaltsríkjanna þar sem reynsla norrænu landanna varðandi aðlögun innflytjenda að þjóðfélögum á Norðurlöndunum er þýðingarmikil.
    Nefndin styður einnig verkefni sem hafa þýðingu að því er varðar stefnumótun í þessum málum á Norðurlöndum. Nefndin hefur ákveðið að leggja til að stofna til árlegra verðlauna til einstaklinga eða fyrirtækja sem hafa stuðlað að aðlögun innflytjenda að þjóðfélögum Norðurlanda.
    
Vinnuvernd.
    Norræna samstarfsnefndin um vinnuvernd hefur það meginhlutverk að vinna að samstarfi stjórnvalda á Norðurlöndum á sviði vinnuverndarmála en unnið er að margvíslegum verkefnum. Ísland hafði með höndum formennsku á árinu og voru haldnir þrír fundir. Helstu verkefni voru þessi:
    Norðurlöndin hafa í allmörg ár starfað sameiginlega að staðlamálum á vettvangi Evrópsku staðlastofnunarinnar CEN og var því haldið áfram á árinu. Ísland hefur umsjón með stöðlun véla til matvælavinnslu.
    
Haldið var áfram samráði og upplýsingaskiptum um aðferðir sem beitt er til þess að bæta aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með eftirliti, fræðslu, fyrirbyggjandi heilsuvernd, átaksverkefnum o.fl.
    Haldið var áfram samstarfi um markaðseftirlit á grundvelli EES-reglna með hlífðarbúnaði sem notaður er við atvinnurekstur. Í undirbúningi er samstarf um eftirlit með hættulegum vélum á markaði og upplýsingaskipti milli landanna með aðstoð Internetsins.
     Ráðstefna um vinnuvernd við fiskvinnslu var haldin í Danmörku. Fjallað var m.a. um einhæfa líkamsbeitingu og félagslegt vinnuumhverfi í þessari atvinnugrein.
    Lokið var rannsóknarverkefni um vinnu barna og unglinga á Norðurlöndum en því var stjórnað frá Íslandi. Markmiðið var að kanna umfang og eðli vinnu 13–17 ára ungmenna á Norðurlöndum og niðurstöður birtust í janúar 2000.
    Sett var á laggirnar verkefni sem miðar að því að samræma gildi ýmiss konar réttinda á Norðurlöndum, svo sem sprengiefnaréttinda, vinnuvélaréttinda o.fl. Enn fremur að skoðanir á t.d. vinnuvélum í einu landi haldi gildi sínu þótt vélin færist yfir landamæri t.d. með verktökum.
    Haldið var áfram aðstoð við Eystrasaltsríkin á sviði vinnuverndar. Haldin var ráðstefna í Vilníus um áhættumat á vinnustöðum og innra eftirlit vinnuveitenda og var Ísland í forsæti á ráðstefnunni en til hennar var boðið fulltrúum frá Eystrasaltsríkjunum.
    Haldin var í Svíþjóð sameiginleg ráðstefna vinnuverndarnefndarinnar og nefndarinnar um vinnuverndarrannsóknir um framtíðarsýn í vinnuverndarmálum.
     Samstarfsnefnd um rannsóknir á sviði vinnuverndar. Hlutverk samstarfsnefndarinnar um rannsóknir á sviði vinnuverndar er að vinna að samstarfi um rannsóknir á sviði vinnuverndar, m.a. með því að veita styrki til rannsóknarverkefna. Fulltrúi Íslands var formaður nefndarinnar mestan hluta ársins.
    Stærsti styrkurinn sem nefndin veitir hefur um árabil farið til norræns hóps sem vinnur að því að taka saman vísindalegar forsendur sem leggja ber til grundvallar þegar stjórnvöld landanna setja mengunarmörk fyrir varasöm efni á vinnustöðum. Nokkur önnur verkefni fengu styrki.
     NIVA (Nordic Institute for Advanced Training in Occupational Health). Vinnueftirlit ríkisins á fulltrúa í stjórn NIVA sem er norræn menntastofnun og hefur aðsetur í Helsinki í Finnlandi. Fulltrúi Íslands var formaður stjórnar mestan hluta ársins. NIVA stendur að framhaldsnámskeiðum fyrir sérfræðinga á sviði vinnuverndar og hafa nokkur slík námskeið verið haldin hérlendis. Íslendingar hafa einnig sótt þessi námskeið til Norðurlandanna, en engin sambærileg menntun er ennþá á Íslandi.

21. Jafnréttismál.

    Norrænt samstarf á sviði jafnréttis kvenna og karla byggir á samstarfsáætlun sem tekur til tímabilsins 1995–2000. Jafnréttisráðherrar Norðurlanda héldu einn fund á árinu í Tromsø, Noregi. Auk þess hittust þeir í Reykjavík í tengslum við ráðstefnuna „Konur og lýðræði við árþúsundamót“. Norræna embættismannanefndin (ÄK-Jäm) hélt fjóra fundi á árinu.
    
1. Norræn samstarfsáætlun á sviði jafnréttismála.
    Samstarfsáætlunin var samþykkt í byrjun ársins 1995 og gildir til ársins 2000. Markmiðið með samstarfi Norðurlanda í jafnréttismálum er:
          að samstarfið leiði til þess að haldið verði áfram að þróa sameiginlega lífsýn Norðurlandaþjóða svo og sameiginlega stefnu þeirra í víðara samstarfi innan Evrópu og á alþjóðavettvangi,
          að samstarfið stuðli að árangursríkara og öflugra jafnréttisstarfi á innanlandsvettvangi í hverju og einu Norðurlandanna,
          að það verði sjálfsagt að gæta jafnréttissjónarmiða í starfi á mismunandi sviðum stefnumótunar í þjóðfélaginu. Einnig skal gæta jafnréttissjónarmiða á þeim sviðum stefnumótunar sem starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar tekur til.
Ráðherranefndin mun á gildistíma áætlunarinnar beina samstarfi sínu að starfsemi sem
          stuðlar að því að konur og karlar fái jafnan aðgang að ákvarðanatöku í stjórnmálum og efnahagsmálum,
          stuðlar að jafnri stöðu og áhrifum kvenna og karla í efnahagsmálum; aðgerðir sem stuðla að launajafnrétti kynja eru mikilvægar í slíku starfi,
          stuðlar að jafnri stöðu kynjanna í atvinnulífinu,
          gefur konum og körlum bætt tækifæri til að sameina foreldrahlutverk og launavinnu,
          hefur áhrif á þróun jafnréttismála innan Evrópu og á alþjóðavettvangi.
Í því skyni að ná árangri með starfi sínu á sviði forgangsverkefnanna mun ráðherranefndin vinna að
          þróun aðferða sem stuðla að virku jafnréttisstarfi.
    Ein aðferð sem ráðherranefndin leggur einkar ríka áherslu á, er að jafnréttissjónarmiða sé gætt á öllum sviðum stefnumótunar, í nánasta umhverfi, í sveitarstjórnum, við stjórn landsins og á vettvangi Norðurlanda. Aðrar áhrifaríkar aðferðir eru gerð hagtalna um konur og karla, kvenna- og jafnréttisrannsóknir, menntun í jafnréttismálum ásamt upplýsinga- og fræðslustarfsemi.

2. Verkefni samkvæmt samstarfsáætluninni.
     Jafnréttissjónarmiða gætt við stefnumótun. Norræna samþættingarverkefnið. Eitt af forgangsverkefnunum samkvæmt samstarfsáætluninni er að þróa og prófa aðferðir sem stuðla að því að jafnréttissjónarmiða sé gætt við ákvarðanatöku og stefnumótun á öllum stjórnsýslustigum landanna og við alla málaflokka. Hið sama á við um stjórnsýslu Norrænu ráðherranefndarinnar. Í gangi eru því sérstök verkefni í öllum norrænu ríkjunum sem byggja á hugmyndafræði samþættingarinnar. Öll norrænu löndin ásamt Færeyjum og Grænlandi taka þátt í verkefninu.
    Markmið norræna samþættingarverkefnisins er að þróa aðferðafræði og tæki til þess að gera sjónarmið kynjajafnréttis miðlæg í allri almennri stefnumótun. Verkefnið nær til tveggja málaflokka, til starfs og stefnumótunar í málefnum ungmenna og til starfs og stefnumótunar í vinnumarkaðsmálum. Á Íslandi er verkefnið einskorðað við stefnumótun og starf í málefnum ungmenna. Skrifstofa jafnréttismála stýrir verkefninu en unnið er að því hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráði Akureyrar. Verkefninu lýkur á miðju næsta ári og verður m.a. kynnt á ráðstefnu sem Norræna ráðherranefndin og OECD bjóða til í París í nóvember árið 2000, sjá hér síðar.
     Jafnréttissjónarmið við stefnumótun hjá Norrænu ráðherranefndinni. Unnið er að samþættingu sjónarmiða jafnréttis kynja á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Starfandi er ráðgjafanefnd um starfsmannamál og jafnrétti kynja sem hefur skipulagt ýmiss konar aðgerðir m.a. fræðslu til yfirmanna. Þá hefur Norðurlandaráð ítrekað samþykkt að unnið skuli að því að jafna hlut kynja í norrænum nefndum og stjórnum. Skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar tekur árlega saman yfirlit yfir hlutfall kynja. Samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu á árinu 1998 leiðbeinandi reglur um hvernig markmiðinu um minnst 40% hlut hvors kyns í sérhverri nefnd og stjórn skuli náð. Árlega er unnin samantekt um stöðuna. Árið 1998 voru karlar 70% fulltrúa í norrænum embættismannanefndum. Af 20 embættismannanefndum voru sex nefndir með jafnt hlutfall kynja, tíu nefndir þar sem karlar voru í miklum meirihluta, fjórar nefndir þar sem engin kona átti sæti. Eina nefndin sem einungis var skipuð konum árið 1998 var embættismannanefndin um jafnrétti kynja en nefna má að það breyttist á árinu með nýjum fulltrúa Danmerkur, sem er karlmaður.
     Konur og efnahagsmál. Konur og laun. Norræna samstarfsáætlunin leggur mikla áherslu á aðgerðir til að koma á jafnrétti kynja í efnahagslífinu, þ.m.t. launajafnrétti og jafnrétti í atvinnulífinu. Þá hefur Norðurlandaráð ítrekað hvatt til frekari aðgerða á þessu sviði. Á árinu kom út TemaNord hefti þar sem raktar eru aðgerðir sem Norðurlöndin hafa gripið til að því er varðar launajafnrétti kynja frá því norræna jafnlaunaverkefninu lauk á árinu 1994. Þemaheftið ber yfirskriftina „Hafa laun kvenna náð launajafnrétti?“. Frekari aðgerðir voru til skoðunar á árinu, einkum að því er varðar launatölfræði og samanburðarhæfni hennar milli landanna.
     Konur, völd og áhrif. Á árinu kom út á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar bókin „Jafnrétti og lýðræði? – konur og stjórnmál á Norðurlöndum“. Í bókinni er lýst stöðu kvenna á Norðurlöndum að því er varðar völd og áhrif og reynt að skýra hvernig og hvers vegna norrænar konur og norræn stjórnvöld í hverju landi fyrir sig hafa náð þeim árangri sem raun er. Sérstaða Norðurlanda á þessu sviði er dregin fram ásamt því sem greinir löndin að. Í bókinni er m.a. fjallað ítarlega um ábyrgð, skipulag og þátttöku stjórnvalda, þ.m.t. mikilvægi löggjafar og þeirra stofnana sem fara með jafnréttismál innan stjórnsýslunnar. Fjallað er um hlutverk kvennahreyfinga og mikilvægi velferðarkerfisins til að tryggja konum raunverulegt jafnrétti á við karla. Bókin kom út á ensku í lok ársins og var kynnt á námsstefnu í Brussel sem Norræna ráðherranefndin í samvinnu við Sendiráð Íslands í Brussel stóð fyrir um miðjan desember. Íslensk samantekt er komin út sem TemaNord hefti.
     Miðlun upplýsinga um jafnréttismál. Frá árinu 1996 hefur verið gefið út norrænt fréttabréf um jafnréttismál. Fréttabréfið er gefið út á finsku, íslensku, skandinavísku og á ensku í 3000 eintökum, þar af eru 200 eintök á íslensku. Blaðið kemur út þrisvar á ári.
    Í tengslum við heimsþing um kvennarannsóknir í Tromsø í júní voru tveir kynningarbæklingar endurútgefnir, annar um samstarf Norðurlanda á sviði jafnréttismála en hinn með tölfræðiupplýsingum um stöðu kynjanna á Norðurlöndum.
     Karlar og jafnrétti kynja. Jafnréttisráðherrar Norðurlanda samþykktu á árinu 1997 sérstaka framkvæmdaáætlun fyrir tímabilið 1997–2000 um karla og jafnrétti kynja. Í áætluninni eru samtals fimmtán verkefni sem öll hafa það að markmiði að auka virka þátttöku karla í starfinu. Framkvæmdaáætlunin ásamt greinargerð frá starfshópnum sem hana vann, hefur verið gefin út á íslensku og er til dreifingar á Skrifstofu jafnréttismála. Á árinu var skipaður starfshópur þar sem m.a. eiga sæti fulltrúar frá Norrænu verkalýðssamtökunum (NFS), frá karlanefnd Jafnréttisráðs og frá NIKK, norrænu kvenna- og karlarannsóknarstofnuninni. Starfshópurinn vinnur að gerð hugmyndarits um jafnrétti karla í atvinnulífinu. Hugmyndaritið mun koma út á fyrri hluta næsta árs. Í framhaldi af því verða kannaðir möguleikar á að fylgja því eftir á tilteknum vinnustöðum.
     Norræn rannsóknarstofnun í kvenna- og kynjafræðum, NIKK. Norræna rannsóknarstofnunin í kvenna- og kynjafræðum var stofnuð á árinu 1995. Rannsóknarstofnunin, sem er þverfagleg, hefur aðsetur í Ósló. Hlutverk rannsóknarstofnunarinnar er að hafa frumkvæði og samhæfa norrænar kvenna-, karla- og jafnréttisrannsóknir, byggja upp gagnagrunn um rannsóknir á þessu sviði, samræma gagna- og upplýsingaþjónustu á Norðurlöndum og skipuleggja og standa fyrir ráðstefnum og námskeiðum fyrir fræðikonur og -karla.
    Á árinu var ráðinn starfsmaður til að safna upplýsingum, miðla og samhæfa karlarannsóknir. Um er að ræða þriggja ára tilraunaverkefni og munu Norðurlöndin vera fyrst landa til að gefa karlarannsóknum sérstakt vægi. Þá funduðu í þriðja sinn þeir sem sinna karlarannsóknum á Norðurlöndum.
    Norræna ráðherranefndin samþykkti rannsóknaráætlun til fimm ára um kyn og ofbeldi en starfsmenn norrænu rannsóknarstofnunarinnar ásamt ráðgjafahópi skipuðum fulltrúum frá öllum norrænu löndunum vann þá áætlun. Á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi var samþykkt að veita 3,5 millj. d.kr. til rannsóknaráætlunarinnar árlega. Þetta stóra verkefni mun fara af stað í byrjun næsta árs.
    Tveir upplýsingabankar eru á netinu sem norræna rannsóknarstofnunin hefur unnið en þeir eru annars vegar um kvennarannsóknarstofnanir í Eystrasaltsríkjunum, EMILJA, og um kvennahreyfingar á Norðurlöndum og í baltnesku löndunum, EDITH.
    Heimsþing um kvennarannsóknir var í fyrsta sinn haldið á Norðurlöndum, í Tromsø í Noregi. Norræna rannsóknarstofnunin var einn undirbúningsaðilanna. Þingið stóð í viku og það sóttu um 1600 konur og karlar alls staðar að úr heiminum. Norræna ráðherranefndin stóð fyrir sérstöku Norrænu húsi þar sem kynnt var starfið að jafnrétti kynja. Norrænu löndin fengu aðstöðu til að kynna starfsemi sína og kynnti Jafnréttisráð/skrifstofa jafnréttismála, Kvenréttindafélag Íslands og Rannsóknarstofa í kvennafræðum við Háskóla Íslands starf sitt í húsinu.
3. Samstarf við Eystrasaltsríkin.
    Norræna ráðherranefndin og þeir ráðherrar Eystrasaltsríkja sem fara með jafnrétti kynja samþykktu í lok ársins 1997 þriggja ára verkefnaáætlun á sviði jafnréttismála. Á árinu var unnið í samræmi við áætlunina. Viðræður við Norrænu ráðherranefndina um að fylgja eftir því starfi, sem hófst með ráðstefnunni „Konur og lýðræði við árþúsundamót“, eru á lokastigi.

4. Undirbúningur að samstarfsáætlun á sviði jafnréttismála 2000–2005.
    Jafnréttisráðherrar Norðurlanda funduðu með fulltrúum frá Norðurlandaráði í Tromsø í Noregi í júní en fundurinn var haldinn í tengslum við heimsþingið um kvennarannsóknir. Á fundinum var samþykkt að hefja undirbúning að gerð nýrrar samstarfsáætlunar á sviði jafnréttismála og farið yfir helstu áherslur í nýrri áætlun. Ráðherrarnir lögðu áherslu á að sjónarmið kynjajafnréttis verði samþætt starfi annarra sviða hjá Norrænu ráðherranefndinni ásamt því að áfram verði unnið með að þróa og prófa samþættingaraðferðina. Ráðherrarnir samþykktu að bjóða til ráðstefnu vorið 2000 þar sem drög að samstarfsáætluninni yrðu til umfjöllunar. Í framhaldi af ráðstefnunni yrði áætlunin send til umsagnar og síðan lögð fyrir Norðurlandaráð haustið 2000.
    Í framhaldi af fundi ráðherranna var skipaður starfshópur til að vinna drög að nýrri samstarfsáætlun. Það kom í hlut Íslands, sem formennskulands, að leiða starf hópsins.

5. Ráðstefna í París í samvinnu við OECD.
    Undirbúningur að ráðstefnu um samþættingu jafnréttis kynja við stefnumótun og við ákvarðanatöku á sviði efnahagsmála, vinnumála og atvinnulífs hófst á árinu en ráðstefnan verður haldin í París í nóvember árið 2000 í samvinnu við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD). Á ráðstefnunni verður sjónarhorninu beint að efnahags- og atvinnustefnu og hún metin út frá stöðu kvenna og karla, ásamt því að norræna samþættingarverkefnið verður kynnt.

22. Húsnæðis- og byggingarmál.

    Samstarfið á árinu byggðist á samstarfsáætlun sem samþykkt var á húsnæðisráðherrafundi í Halmstad í júní 1998. Samstarfsáætlunin grundvallast á þremur megin þáttum:
          félagslegum þáttum húsnæðismála,
          sjálfbærri þróun húsnæðis- og byggingarmála og
          samvinnu við grannsvæði Norðurlanda.
    Í formenskuáætlun Íslands var auk þess lögð sérstök áhersla á samstarf við Vestur- Norðurlönd. Fulltrúum Grænlands og Færeyja var kynnt samstarfið á sviði húsnæðismála og boðin þátttaka í fundum embættismannanefndarinnar (EK-Bygg). Á þessum forsendum tóku fulltrúar frá Færeyjum þátt í fundi nefndarinnar sem haldin var í mars á Íslandi, málþingi sem haldið var um fjármögnun íbúðarhúsnæðis í framtíðinni og húsnæðisráðherrafundi sem haldinn var í nóvember.
    Varðandi félagslega þætti húsnæðismála var að frumkvæði húsnæðisráðherranna unnið að rannsóknum á félagslegum aðskilnaði á húsnæðismarkaði. Á árinu var þessari vinnu haldið áfram með verkefni sem hafði það markmið að safna saman yfirlit yfir góðar lausnir á þessum vandamálum. Rannsóknarverkefnið var unnið í samvinnu við sambönd sveitarfélaga á Norðurlöndum undir forystu sambands sveitarfélaga í Svíþjóð. Verkefninu lauk með skýrslu undir heitinu: „Framgångsrika exempel i det nordiska integrationsarbetet“ sem var lögð fram og kynnt á húsnæðisráðherrafundi í Stokkhólmi í nóvember.
    Húsnæðisöflun fyrir hópa með sérstakar þarfir hefur öðru hvoru verið á dagskrá nefndarstarfsins. Á árinu var unnið að rannsókn á húsnæðismálum aldraðra á Norðurlöndum þar sem fjallað er um þennan þátt í þjóðfélagslegu samhengi, sýnd dæmi um mismunandi lausnir og kynnt úrræði sem vísa fram á veginn. Á húsnæðisráðherrafundinum í Stokkhólmi var lögð fram og kynnt skýrsla undir heitinu: „Framtidens boformer for eldre — Perspektiver og eksempler fra de nordiske land“.
    Á árinu var einnig unnið að lokadrögum fyrir samantekt um stjórntæki í húsnæðis- og byggingarmálum á Norðurlöndum. Verkefnið heitir „Housing in the Nordic Countries“.
    Á vormánuðum var haldið í Reykjavík málþing á vegum embættismannanefndarinnar undir heitinu; „Fjármögnun íbúðarhúsnæðis í framtíðinni“. Kunnir sérfræðingar á þessu sviði á Norðurlöndum fluttu erindi auk prófessors frá London School of Economics sem fjallaði um þróunina í Evrópu. Málþingið var vel sótt og hafa erindin verið gefin út í fjölriti á vegum embættismannanefndarinnar.
    Umræður fóru fram um réttarstöðu og lagaumhverfi fyrir félög og fyrirtæki sem eiga og reka leiguíbúðir. Reynsla undanfarinna ára sýnir að lagaumgjörð leigufélaga hefur fengið aukið gildi m.a. varðandi lánamöguleika á almennum lánamarkaði vegna minni þátttöku hins opinbera við fjármögnun þessara félaga og einnig vegna aðlögunar að skilyrðum Evrópusambandsins. Í tengslum við þessa umræðu hélt embættismannanefndin ráðstefnu í Helsinki í samvinnu við Samband sveitarfélaga í Finnlandi undir heitinu „Ägarpolitik för hyresbostäder“. Erindi sem flutt voru hafa verið gefin út í fjölrituðu hefti.
    Unnið var að verkefnum sem tengjast vistvænum húsbyggingum og stefnu í sjálfbærum húsnæðismálum. Í því sambandi má nefna aðild nefndarinnar að ráðstefnu sem haldin var í byrjun ársins í Kaupmannahöfn undir heitinu „Miljømæssigt bæredygtigt byggeri“.
    Þróunarverkefni var sett á laggirnar í íbúðahverfinu Lasanmäe í Tallinn, Eistlandi. Markmiðið er að kortleggja félagsleg og tæknileg vandamál í hverfinu með það fyrir augum að koma á hverfisstjórn og þátttöku íbúanna við endurbætur á hverfinu. Verkefnið þykir hafa gengið vel og skilað góðum árangri.
    Húsnæðisráðherrafundur var haldinn í nóvember í Stokkholmi með þátttöku allra ráðherra sem fara með húsnæðismál. Gestur fundarins var félags- og heilbrigðismálaráðherra Færeyja. Á fundinum var gerð grein fyrir starfinu á árinu og niðurstöður rannsóknarstarfs kynntar og ræddar. Gerð var grein fyrir formennskuætlun Danmerkur og starfinu framundan.

23. Iðnaðar- og atvinnumál.

    Samstarfið á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um iðnaðar- og atvinnumál (MR- Næring) einkenndist talsvert af nýjum áherslum sem Ísland mótaði í formannstíð sinni. Þar ber hæst að Grænland og Færeyjar urðu í fyrsta sinn virkir þátttakendur í samstarfinu. Embættismannafundur var haldinn á Grænlandi í maí og ráðherrar frá báðum löndunum sóttu ráðherrafundinn í Reykjavík í ágúst. Ljóst er að því samstarfi sem komst á við löndin tvö mun verða fylgt eftir og lauk formennsku Íslands á fagsviðinu með því að leggja meginlínur þess.
    Hið faglega samstarf bar merki örrar þróunar í vísindum og tækni, alþjóðavæðingar viðskipta og mikilvægi þess að efla samkeppnisstöðu norrænu þjóðanna. Þetta kemur einna gleggst fram í breytingum á starfsemi Norræna iðnaðarsjóðsins en einnig í einstökum málum sem til umfjöllunar voru.
    Í tengslum við áherslur Íslands er beindust að norðvestur-svæðinu fengu ferðamál meiri gaum en áður. Það á jafnt við um vettvang ráðherranna og embættismanna þeirra og Norræna iðnaðarsjóðinn sem lítt hefur hugað að þeim málum fram til þessa.
    Minna fór fyrir samstarfsmálum í þágu grannsvæðanna í austri en áður. Sama á við um málefni er snerta EES og ESB.
    
Á Norðurlandavettvangi.
    Örar framfarir í vísindum og tækni og alþjóðavæðing viðskipta hefur knúið á breytingar í stuðningsumhverfi atvinnulífsins einkum er varðar nýsköpunarmálefni atvinnulífsins. Á vettvangi hins norræna samstarfs hefur starfsemi Norræna iðnaðarsjóðsins verið í brennidepli hvað þetta varðar, enda er sjóðurinn mikilvirkasta tæki atvinnumálaráðherranna til að hrinda hinum atvinnupólitísku áherslum í framkvæmd. Nýsköpunarsamstarfið hefur verið til skoðunar og endurmats um nokkurra missera skeið á vegum ráðherranefndarinnar og komst niðurstaða í það mál síðla árs 1998. Nýskipan þessi var síðan fest í sessi á fundi ráðherranna í Reykjavík í ágúst. Í meginatriðum felast breytingarnar í því að sjóðurinn mun hverfa frá beinum styrkveitingum til rannsóknar- og þróunarverkefna en í stað þess beina kröftum sínum að því að koma á samstarfi á milli þjóðanna um þekkingarmiðlun og tækniyfirfærslu. Markmiðið er að efla samkeppnisstöðu atvinnulífsins á Norðurlöndum með því að stuðla að því að Norðurlönd verði sameiginlegur þekkingarmarkaður þar sem miðlun og hagnýting þekkingar verði eins greið og unnt er.
    Nátengt þessu er hagnýting upplýsinga- og fjarskiptatækninnar í þágu atvinnulífsins. Rafræn viðskipti skipta hér meginmáli og hafa allar þjóðirnar sett sér háleit markmið varðandi þau. Fylgst hefur verið með þróun rafrænna viðskipta í hinum löndunum fjórum og hefur samstarfið á þessu sviði nýst okkur vel. Sérstakur vinnuhópur um rafræn viðskipti starfaði á vegum embættismannanefndarinnar og hefur nefndin í framhaldi af því styrkt samstarfsverkefni sem lýtur að gerð reglna um örugg viðskipti á Netinu.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðherra gerði ferðamál að sérstöku umfjöllunarefni og hafði framsögu um það mál á ráðherrafundinum í Reykjavík. Ástæða þess að iðnaðar- og viðskiptaráðherra tók þetta mál upp er að ferðamál eru mjög mikilvægur þáttur atvinnulífsins og er víða á málefnaskrá atvinnumálaráðherra. Ferðamálaumræðan á vettvangi atvinnumálaráðherranna hefur að meginstofni til hverfst um sameiginleg einkenni landanna tengd menningu, norðlægri legu, umhverfi og víðerni. Í framhaldi af fundi ráðherranna í ágúst hefur bæði embættismannanefndin EK-Næring og Norræni iðnaðarsjóðurinn fjallað sérstaklega um ferðamál og styrkt verkefni á þessu sviði.
    Einn mikilvægasti fundur embættismannanefndarinnar á árinu var haldinn á Grænlandi í maí. Fulltrúar frá Grænlandi og Færeyjum tóku þátt í fundunum. Greinilegt var að mikill áhugi er hjá báðum þessum þjóðum að tengjast norræna samstarfinu með tryggari hætti en verið hefur til þessa.

Norræni iðnaðarsjóðurinn.
    Norræni iðnðarsjóðurinn er stofnun á vegum ráðherranefndarinnar um iðnaðar- og atvinnumál (sjá nánar um Norræna iðnaðarsjóðinn, kafla 26.2.)
    
Nordtest.
    Nordtest var stofnað 1993 eins og Norræni iðnaðarsjóðurinn. Hlutverk Nordtest er að stuðla að norrænu samstarfi við þróun og samræmingu tæknilegra prófana.
    Nordtest vinnur á sex fagsviðum sem eru: líf- og efnafræði; verkfræði; umhverfisfræði; efnisfræði; upplýsingafræði og gæðamál og mælitækni.
    Starfsumhverfi Nordtest og forsendur starfsemi stofnunarinnar hafa breyst mikið síðustu ár. Þar munar mestu um tilkomu samræmdra evrópskra staðla og prófunaraðferða. Þetta hefur leitt til þess að samstarfið hefur breiðst út og hefur samstarfið við sambærilegar stofnanir í Evrópu verið stöðugt vaxandi. Nordtest hefur ætíð lagt mesta áherslu á prófanir er varða norræn sérkenni, t.d. vegna sérstaklega erfiðra veðurfarsskilyrða. Í evrópsku samstarfi hefur Nordtest haldið stöðu sinni, einkum vegna þessara sérkenna sem hefur leitt til þess að margar norrænar prófunaraðferðir hafa orðið að evrópskum fyrirmyndum.
    Starfsemi Nordtest hefur þróast jafnt og þétt í takt við breytingar í atvinnulífi þjóðanna á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er frá stofnun Nordtest. Árin 1998–99 fór fram endurskoðun á hlutverki Nordtest og niðurstaða þeirrar endurskoðunar leiddi til þess að nú er verið að vinna að nýrri stefnumótun fyrir stofnunina. Tillaga að nýrri stefnu verður kynnt á fyrri hluta næsta árs.

24. Upplýsingatækni.


Stofnun ráðherranefndar.
    Á fundi samstarfsráðherra Norðurlanda í janúar sl. var ákveðið að stofna ráðherranefnd um upplýsingatækni, IT-ministerråd (MR-IT). Markmiðið með stofnun nefndarinnar var að skapa vettvang til að miðla reynslu milli landanna, ræða um sameiginleg viðfangsefni og stefnumótun upplýsingasamfélagsins.
    Á sama fundi var sett á stofn embættismannanefnd um upplýsingatækni, Embedsmandskomité for IT-politik (EK-IT).
    
Ráðstefna um upplýsingasamfélagið.
    Í júní sl. stóð embættismannanefndin fyrir ráðstefnu í Reykjavík. Til hennar var boðið hópi embættismanna sem koma að stefnumótun og framkvæmd stefnu landanna um upplýsingasamfélagið. Til umfjöllunar voru tvö megin þemu: a) upplýsingatækni og lýðræði og b) rafræn viðskipti. Ráðstefnan var liður í að undirbúa fyrsta ráðherrafund MR-IT.

Skýrsla um upplýsingatækni og lýðræði og rafræn viðskipti.
    Í kjölfar ráðstefnunnar var tekin saman skýrsla um upplýsingatækni og lýðræði og rafræn viðskipti. Skýrslan er m.a. byggð á framsöguerindum og umræðum sem fram fóru á ráðstefnunni (sjá brunnur.stjr.is/interpro/for/for.nsf/pages/itpolitikrapport.html).
    Einnig var tekið saman efni um stefnu Norðurlandanna um þróun upplýsingasamfélags og hvernig staðið er að framkvæmdum í hverju landi.
    
Uppsetning á vefsíðu.
    Á skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar var unnið að uppsetningu vefs um upplýsingasamfélagið á Norðurlöndum. Í lok árs hefur þeirri vinnu ekki verið lokið og bráðabirgðavefur er enn í notkun. Forsætisráðuneyti sá sig því knúið til að koma upp vefsíðu um norrænt samstarf um upplýsingatækni til að hægt væri að nálgast á einum stað upplýsingar sem vörðuðu samstarf landanna á árinu. Þar er m.a. að finna (á dönsku og sænsku) upplýsingar og efni sem nauðsynlegt var að miðla með skipulegum hætti í tengslum við júní-ráðstefnuna og fyrirhugaðan ráðherrafund IT-ráðherra. Einnig eru þar tilvísanir í fjölda nytsamlegra upplýsinga sem finna má á vefjum landanna og varða upplýsingasamfélagið.

Undirbúningur ráðherrafundar.
    Boðað var til ráðherrafundar IT-ráðherra í Reykjavík í október en nauðsynlegt reyndist að fresta þeim fundi til ársins 2000. Það olli vonbrigðum að ekki reyndist mögulegt að halda fyrsta fund nefndarinnar á árinu þrátt fyrir tilraunir og mikinn undirbúning Íslands.

Verkáætlun um samstarf Norðurlanda um upplýsingatækni.
    Upplýsingatækniverkefni eru á verkefnalista fjölmargra norrænna nefnda og stofnana. Embættismannanefndin tók saman upplýsingar um þessi verkefni og mótaði tillögu að verkáætlun fyrir framtíðarsamstarf Norðurlanda um upplýsingatækni. Þessi tillaga verður lögð fyrir fyrsta ráðherrafund IT-ráðherra sem væntanlega verður haldinn fyrri hluta árs 2000.
    Embættismannanefndin átti gott samstarf við formenn nefnda um vanda vegna ártalsins 2000 og veitti ýmsum öðrum nefndum umsögn í málum upplýsingasamfélagsins.

25. Norrænar stofnanir á Íslandi.



25.1. Norræna húsið.
    Formlegt hlutverk hússins er að koma til móts við og örva áhuga á norrænum málefnum á Íslandi og miðla þekkingu um Ísland á öðrum Norðurlöndum. Hefur þetta verið hlutverk stofnunarinnar frá því hún hóf störf árið 1968. Norræna húsið er norræn menningarmiðstöð á breiðum grunni og heyrir undir Norrænu ráðherranefndina.
    Starfsemi Norræna hússins á árinu var umfangsmikil og fjölbreytt. Dagskrár og sýningar hússins voru skipulagðar með ákveðin þemu í huga, þar sem áhersla var lögð á að kynna jaðarsvæði Norðurlanda, efla áhuga barna og unglinga á Norðurlöndum og norrænni samvinnu, kynna sagnahefð, frásagnalist og bókmenntir.
    Í janúar var haldin Samavika með viðamikilli dagskrá, fyrirlestrum, tónleikum og sýningum í anddyri og sýningarsölum.
    Sýning um æviferil og ritstörf danska ævintýraskáldsins H.C. Andersens var haldin í febrúar og mars og í tengslum við hana kvikmyndasýning, fyrirlestur og brúðuleikhús.
    Norrænir bókmenntadagar voru haldnir í mars. Kynnt var bókaútgáfa á Norðurlöndum árið 1998, boðið var til málþings um spennusögur og haldin sýning á norrænum myndasögum. Myndasöguhöfundar sem áttu verk á sýningunni komu og fjölluðu um þau ásamt norrænum fræðimönnum.
    Í maí sl. var haldin Íslandskynning í Menningarhúsinu Katuaq í Nuuk á Grænlandi. Kynningin var gjöf Norræna hússins í tilefni af opnun menningarhússins árið 1997. Meðal efnis á kynningunni var sýning á verkum Erró, ljósmyndasýning um Reykjavík fyrr og nú, söguleg sýning „Frá landnámi Íslands til fullveldis“ og fyrirlestur um miðaldabókmenntir þar sem sögusvið var sótt til Grænlands, að ógleymdri brúðuleikhússýningu og kynningu á íslenskum mat.
    Sumardagskrá Norræna hússins var með alþjóðlegu sniði undir yfirskriftinni „Til móts við árið 2000“ þar sem kynntar voru menningarborgir Evrópu árið 2000.
    Tónlistarfólk frá Danmörku og Finnlandi kom fram í sumardagskrá og rithöfundarnir í Dönsku akademíunni komu fram í bókmenntadagskrá. Einnig má nefna ljóðleikhúsið „Hafið“ þar sem leikarar frá Álandseyjum, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi fluttu ljóð eftir ljóðskáld frá þessum löndum. Þrennir rómönsutónleikar voru haldnir með söngvurum frá Svíþjóð, Færeyjum og Álandseyjum. Sænskir ljósmyndarar frá Norræna ljósmyndaskólanum í Biskups Arnö sýndu ljósmyndir frá Íslandi og vestur-íslenskur listamaður sýndi útskorna fugla úr tré. Tvö tveggja vikna sumarnámskeið um íslenska tungu og menningu voru haldin í júlí og voru þátttakendur 33 alls staðar að á Norðurlöndum. Sumarnámskeiðin hafa verið haldin á hverju sumri frá árinu 1988 og hafa notið mikilla vinsælda.
    Haustdagskráin hófst í september. Þar var á dagskrá grafíkmyndasýning, vísnasöngur fyrir leikskólabörn og tónleikar.
    Svokallaðir „Prinsessudagar“ voru haldnir í september fyrir telpur og drengi sem brugðu sér í gervi riddara og konungsdætra. Kvikmyndir voru sýndar, ævintýri lesin upp og leikþáttur sýndur. Yfir 5000 manns, börn og fullorðnir komu á Prinsessudagana sem var metaðsókn.
    „Kalevala um veröld víða“ var heiti umfangsmikillar dagskrár og sýninga, sem haldnar voru i minningu þess að 150 ár voru liðin frá því að finnski söguljóðabálkurinn kom út. Frumsamin tónlist var flutt, leikhópur flutti atriði úr Kalevala og í sýningarsölum var sýningin Lifi Kalevala — list um finnskt þjóðerni. Eystrasaltslöndin fengu einnig rými í dagskránni og var í fyrirlestrum, leiksýningu og námskeiði fjallað um goðsagnir og ævintýri.
    Bókasafnið hélt uppi reglubundinni starfsemi á árinu og fjölgaði aðeins útlánum á safnefni frá fyrra ári en lánaðar eru bækur, myndbönd og tónlistarefni. Tölvukerfi hússins var endurbætt og tölvunet lagt. Bókasafnsskrár eru nú aðgengilegar í gegnum Netið og boðið er upp á aðgengi að Netinu frá 4 tölvum í safninu og er ein þeirra frátekin fyrir börn. Ein margmiðlunartölva er í boði þar sem einnig er hægt að hlusta á tónlist og auk þess geta gestir tekið sjálfir bækur að láni í sjálfsafgreiðsluvél í safninu.
    Haldnar voru nokkrar norrænar ráðstefnur, hluti af Nordisk Panorama hátíðinni fór fram í húsinu svo og fyrirlestrar um byggingarlist. Einnig má nefna hádegistónleika og kynningar á operum Richards Wagners.
    Í árslok kom út bókin „Norræna húsið, Alvar Aalto og Ísland“, sem fjallar um Norræna húsið og arkitekt þess, Alvar Aalto. Norræna húsið stóð að útgáfu bókarinnar sem gefin er út í tveimur útgáfum; íslensku/dönsku og finnsku/ensku.
    Árið 1999 var síðasta starfsár Vestnorræna fjölmiðlaverkstæðisins en eitt tölublað af tímaritinu OZON kom út í samvinnu við Hitt húsið. Um blaðið má lesa á heimasíðu OZON; www.ozon.net.
    Nýr samningur um verkefnavísa fyrir árin 1999–2001 var gerður við Norrænu ráðherranefndina.
    Í stjórn Norræna hússins eiga sæti 7 manns, 3 frá Íslandi og 1 frá hverju landanna Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Riitta Heinämaa frá Finnlandi er forstöðumaður Norræna hússins 1998–2001. Fastráðnir starfsmenn Norræna hússins voru 14, verkefnisstjórar voru 4 og nokkrir lausráðnir starfsmenn.
    Sendikennarar í Norðurlandamálum hafa skrifstofur í Norræna húsinu og afnot af kennsluhúsnæði í kjallara. Háskóli Íslands greiðir leigu fyrir húsnæðið.
    Á vegum NORDMÅL-verkefnisins starfaði norrænn skólaráðgjafi í Norræna húsinu árið 1999. Fjöldi grunnskólabarna fékk fræðslu um Norðurlönd og einnig hópar sem komu frá Norðurlöndum til að fræðast um Ísland og íslenska menningu.

25.2. Norræna eldfjallastöðin (NORDVULK).
    Árið 1999 var 25. starfsár Norrænu eldfjallastöðvarinnar (NORDisk VULKanologisk Institut, NORDVULK) en stofnunin var formlega vígð í október 1974. Stofnunin fæst við rannsóknir á eldvirkni og jarðskorpuhreyfingum. Einn megintilgangur stofnunarinnar er að auðvelda ungum norrænum vísindamönnum aðgang að jarðfræði Íslands og stuðla að samnorrænum jarðfræðirannsóknum. Í þeim tilgangi auglýsir stofnunin á hverju ári eftir fimm styrkþegum sem dveljast við stofnunina í eitt eða tvö ár. Þannig hafa um 80 styrkþegar dvalið á stofnuninni sem styrkþegar og er skipting þeirra jöfn milli Norðurlandanna.
    Í stjórn Eldfjallastöðvarinnar á sæti einn fulltrúi frá hverju hinna fimm norrænu landa. Í samræmi við formennskuár Íslendinga í ráðherranefndinni var fulltrúi Íslands jafnframt stjórnarformaður.
    Mannabreytingar á árinu urðu þær að Freysteinn Sigmundsson tók við sem forstöðumaður stofnunarinnar í byrjun júní. Hann leysti þá af hólmi Karl Grönvold sem gegndi starfi forstöðumanns frá júli 1998 en þá lét Guðmundur E. Sigvaldason af störfum eftir að hafa stjórnað stofnuninni frá upphafi. Þrír nýir norrænir styrkþegar komu í byrjun júni og tveir héldu áfram frá fyrra ári. Einn styrkþegi frá Bandaríkjunum dvelur við stofnunina með styrk frá Fulbright stofnuninni og íslenskur nemi við Tækniháskólann í Danmörku hafði aðstöðu á Eldfjallastöðinni til að að vinna meistaraprófsverkefni. Þannig voru samtals 7 styrkþegar við stofnunina. Aðrir starfsmenn eru samtals 10 en að auki hefur Guðmundur E. Sigvaldason starfsaðstöðu á stofnuninni. Starfsmenn og styrkþegar Norrænu eldfjallastöðvarinnar mynda þannig 18 manna rannsóknarhóp. Auglýst var ein laus staða sérfræðings við stofnunina og bárust yfir 20 umsóknir frá mjög hæfum einstaklingum víðs vegar að úr heiminum.
    Fjárveitingar til stofnunarinnar á árinu voru samtals um 113 millj. ísl.kr. Norræna ráðherranefndin lagði stofnuninni til samtals 81,6 millj. ísl.kr. en verulega munar einnig um íslenska grunnfjárveitingu til stofnunarinnar sem á árinu var 14,9 millj. ísl.kr. Í viðbót fékk Eldfjallastöðin ýmsa erlenda og innlenda styrki í tímabundin verkefni, samtals um 16,5 millj. ísl.kr. Stærsti einstaki styrkurinn var 10 millj. ísl.kr. frá Rannsóknarráði Noregs til kaupa á samnorrænum massagreini til rannsókna í jarðefnafræði.
    Á árinu var unnið að nýjum þriggja ára rammasamningi við Norrænu ráðherranefndina um starfsemi Eldfjallastöðvarinnar og lokadrög lágu fyrir í árslok. Í því skyni var meðal annars staðið fyrir umræðufundi um stöðu og framtíð Eldfjallastöðvarinnar í september þar sem stjórn, nýr forstöðumaður, starfsmenn og ýmsir gestir viðruðu hugmyndir sínar um framtíð stofnunarinnar. Ýmsum skoðunum var haldið á loft og hjálpaði umræðan til við að móta hinn nýja þriggja ára samning við Norrænu ráðherranefndina.
    Internetið var notað í auknum mæli til að miðla upplýsingum um stofnunina og rannsóknarniðurstöður. Á heimasíðu stofnunarinnar, www.norvol.hi.is, er einnig að finna ýmsar upplýsingar um jarðfræði Íslands og eldvirkni og hefur heimasíðan notið mikilla vinsælda.

Norræn verkefni og samstarf.
    Norræn samvinnuverkefni á árinu tengdust verkefnum norrænna styrkþega og eins hinu nýja tæki til rannsókna í jarðefnafræði, massagreininum sem stofnunin eignaðist árið 1998. Massagreinirinn kostaði um 50 millj. ísl.kr. og er dýrasta tæki sem fjárfest hefur verið í á Eldfjallastöðinni. Síðasta afborgun af tækinu var á árinu. Tækjakaupin voru að fullu fjármögnuð með norrænum styrkjum og ætlunin er að Eldfjallastöðin veiti norrænum vísindamönnum aðgang að tækinu. Tækið var afhent síðari hluta árs 1998 og árið 1999 var notað í uppsetningu og viðamiklar prófanir á tækinu.
    Þrjú styrkþegaverkefni voru unnin sem hluti af framhaldsnámi við háskóla annars staðar á Norðurlöndum, eitt sem hluti af doktorsnámi við Háskólann í Ósló, eitt sem hluti af doktorsnámi við Háskólann í Turku og eitt sem hluti af meistaranámi við Tækniháskólann í Danmörku.
    Ýmsir norrænir aðilar sóttu stofnunina heim, m.a. forseti Norðurlandaráðs og fylgdarlið í mars.

Alþjóðleg verkefni og samstarf.
    Norræna eldfjallastöðin hefur notið viðurkenningar á alþjóðavettvangi fyrir rannsóknir sem unnar hafa verið á stofnuninni. Lögð verður áhersla á að viðhalda því orðspori. Á árinu fór kynning á rannsóknarniðurstöðum að venju fram í alþjóðlegum ritrýndum vísindatímaritum og á alþjóðlegum ráðstefnum. M.a. birtust niðurstöður rannsókna sem Eldfjallastöðin vann á Azoreyjum og La Réunion eyjunni í Indlandshafi. Rannsóknir á báðum þessum svæðum beindust að því að skilja betur kvikuhreyfingar í eldfjöllum og þá þætti sem stjórna þeim.
    Á undanförnum árum hafa byggst upp góð tengsl milli Eldfjallastöðvarinnar og National Science Foundation (NSF) í Bandaríkjunum. NSF styrkir ríkulega rannsóknir á úthafshryggjum jarðarinnar en þar verður til ný jarðskorpa og mikill áhugi er á að skilja betur hvernig það gerist. Flestir úthafshryggja eru á 2–3 km dýpi undir sjávarmáli en Ísland er eini staðurinn þar sem stór hluti slíks hryggs er ofansjávar. Því horfa margir til Íslands som nokkurs konar rannsóknarstofu til að skoða myndun jarðskorpu. Að tilstuðlan Norrænu eldfjallastöðvarinnar kom hingað til lands í ágúst hópur 12 manna frá Bandaríkjunum sem gegna forystuhlutverki í rannsóknum á úthafshryggjum. Þeir skoðuðu aðstæður á Íslandi, heimsóttu íslenskar jarðvísindastofnanir og héldu fyrirlestra um sínar rannsóknir.
    Aðrar stærri heimsóknir voru þær að Náttúrustofa Suðurlands og Norræna eldfjallastöðin tóku á móti 25 manna alþjóðlegum hópi eldfjallafræðinga sem kom hingað til lands í júlí sl.
    Forstöðumaður Eldfjallastöðvarinnar tók þátt í heimsókn Rannsóknarráðs Íslands til Kína í október, til að kanna möguleika á auknu vísindasamstarfi Íslendinga og Kínverja.
    Fjölmargir erlendir vísindamenn heimsóttu Eldfjallastöðina á árinu og héldu fyrirlestra.

Íslensk verkefni og samstarf.
    Margs konar íslensk rannsóknarverkefni voru unnin á Eldfjallastöðinni á árinu. Hæst ber að nefna ýmsar rannsóknir í bergfræði og kvikumyndun, áframhaldandi rannsóknir á eldgosunum í Vatnajökli 1996 og 1998 og rannsóknir á jarðskorpuhreyfingum vegna kvikuhreyfinga neðanjarðar, t.d. rannsóknir á landrisi á Hengilsvæðinu en þar hefur land risið um 2 sentimetra á ári, líklega vegna söfnunar bergkviku á um 7 km dýpi undir yfirborði jarðar.
    Síðari hluta árs tók stofnunin þátt í vöktun Kötlu í samvinnu við íslenskar jarðvísindastofnanir en ríkisstjórnin lagði fram aukafjárveitingu til þess verkefnis. Eldfjallastöðin fékk 1 millj. ísl.kr. af þessari aukafjárveitingu. Starfsmenn stofnunarinnar lögðu til sérfræðiþekkingu og kunnáttu sem nýttist vel til vöktunarinnar og rannsóknir Eldfjallastöðvarinnar í samvinnu við Raunvísindastofnun háskólans leiddu meðal annars í ljós að kvikusöfnun á sér nú stað undir sunnanverðum Eyjafjallajökli. Vegna þess verður Eyjafjallajökull vaktaður árið 2000 á svipaðan hátt og Mýrdalsjökull vegna hættu á frekari umbrotum. Margvíslegt annað samstarf er á milli Eldfjallastöðvarinnar og íslenskra jarðvísindastofnana. Eldfjallastöðin leggur áherslu á að vinna rannsóknarþætti sem ekki er verið að vinna á öðrum stofnunum þannig að samstarfið nýtist öllum aðilum sem best.
    Eldfjallastöðin og starfsmenn hennar tóku virkan þátt í starfsemi Jarðfræðafélags Íslands, m.a. kynntu allir styrkþegar stofnunarinnar rannsóknarniðurstöður sínar á vorráðstefnu Jarðfræðafélagsins. Eldfjallastöðin bauð félagsmönnum Jarðfræðafélags Íslands á námskeið í massagreiningum í tengslum við hinn nýja massagreini stofnunarinnar og í tilefni 25. starfsárs Eldfjallastöðvarinnar var opið hús á Eldfjallastöðinni einn dag í desember fyrir félagsmenn Jarðfræðafélagsins. Um 50 íslenskir jarðvísindamenn sóttu stofnunina heim.
    

26. Norrænir sjóðir.


26.1. Norræni fjárfestingarbankinn (NIB).
Starfsemi og afkoma.
    Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) er fjölþjóðleg fjármálastofnun í eigu Norðurlandanna fimm. Bankinn fékk fyrst alþjóðlegt lánshæfismat árið 1982 og hefur síðan óslitið notið besta mögulega vitnisburðar matsfyrirtækjanna Standard & Poors og Moody's (AAA/Aaa).
    Árið 1999 er 24. starfsár bankans. Eignaraðild Íslands er u.þ.b 1%. Hlutverk Norræna fjárfestingarbankans (NIB) er að veita lán og ábyrgðir á markaðskjörum til fjármögnunar fjárfestinga, sem í senn uppfylla kröfur um norræna hagsmuni og hagsmuni lántakenda, jafnt innan sem utan Norðurlanda. Bankinn veitir einnig lán til verkefna í Eystrasaltslöndum innan sérstakrar norrænnar fjárfestingaráætlunar þeirra vegna. Auk þess annast bankinn nýja fjárfestingaráætlun á sviði umhverfismála á grannsvæðum Norðurlanda. Höfuðstöðvar bankans eru í Helsingfors en auk þess hefur bankinn svæðisskrifstofur í Kaupmannahöfn, Ósló, Reykjavík og Stokkhólmi auk Singapore. Starfsmenn eru nú alls 128 og þar af sjö Íslendingar.
    Afkoma Norræna fjárfestingarbankans fyrstu átta mánuði ársins er í stuttu máli þessi:
          Hreinar vaxtatekjur námu EUR 92 milljónum en fyrir sama tímabil í fyrra námu hreinar vaxtatekjur EUR 91 milljón.
          Hagnaður á tímabilinu nam EUR 69 milljónum (8/1998: EUR 78 milljónir). Minni hagnað en á sama tíma í fyrra má skýra með því að EUR 2 milljónir voru lagðar í afskriftarsjóð útlána sem og því að niðurstaðan á fjármálahlið var óhagstæð um EUR 4 milljónir vegna vaxtasveiflu í sumar.
          Efnahagsreikningur bankans var EUR 12,3 milljarðar í lok tímabilsins samanborið við EUR 11,2 milljarða við síðustu áramót.
          Heildarútlán bankans námu EUR 8,4 milljörðum en voru EUR 7,6 milljarðar um áramót.
          Útlána- og eignasafn bankans er í jafn háum gæðaflokki og fyrr. Engin útlánatöp urðu á þessu tímabili. Góð afkoma á fyrstu átta mánuðum ársins gefur til kynna að vænta megi góðrar framvindu í rekstri bankans fyrir árið.

    Síðustu fimm ár hefur ávöxtun eigin fjár bankans verið nálægt 11% á ári sem jafngildir 9% raunávöxtun á ári. Útlánastofn bankans hefur vaxið um næstum 14% á ári síðustu fimm ár og hefur bankinn greitt út arð til eiganda sinna ár hvert. Síðustu tvö ár námu arðgreiðslur til eigenda EUR 35 milljónum (ISK 2,6 milljörðum) hvort ár.
    
NIB á Íslandi.
    Útistandandi lán til íslenskra lögaðila nema ríflega ISK 40 milljörðum og svarar það til nærri 8% af heildarlánveitingum bankans til Norðurlanda. Við má bæta umsömdum óútborguðum lánum til Íslands að jafnvirði ISK 4,7 milljarða.
    Á árinu jukust lán NIB til útrásarverkefna íslenskra fyrirtækja. Bankinn lánaði dótturfyrirtæki Byko hf. í Lettlandi 150 milljónir króna vegna stækkunar verksmiðju fyrirtækisins. Þá lánaði bankinn Baugi hf. vegna kaupa fyrirtækisins á verslunarkeðjunni SMS í Færeyjum um 100 milljónir króna. Loks má nefna að bankinn lánaði Kaupþingi hf. 150 milljónir króna sem endurlánast til Bakkavarar hf. til kaupa á fyrirtækinu Lysekils AB í Svíþjóð.
    Rúmlega helmingur útistandandi lána NIB til Íslands eru til ýmissa innviðaframkvæmda á sviði raforkudreifingar og -framleiðslu, fjarskipta og samgagna. Lán til sjávarútvegs nema rúmlega 16% af útlánum bankans til Íslands. Lán til byggðamála nema um 9% af útlánum bankans. Útlán bankans til umhverfisfjárfestinga bæði í iðnaði og innviðum hafa vaxið hröðum skrefum. Lán til ýmissa verkefna á sviðum umhverfismála, eins og sorphirðu og frárennslis nema rúmlega 5% af útlánum til Íslands. Önnur útlán NIB til Íslands eru m.a. á sviði iðnaðar og ferðaþjónustu. Verulegur vöxtur hefur verið í lánveitingum NIB sem tengjast alþjóðlegum fjárfestingum einstakra norrænna fyrirtækja og samruna norrænna fyrirtækja.
    Gert er ráð fyrir að útborguð lán til Íslands á árinu nemi ISK 5,7 milljarði en samþykkt ný en óútborguð lán á árinu nema 1 milljarði króna. Útborguð lán á árinu 1998 námu um 5,5 milljörðum króna. Áætlað er að útborguð lán á árinu greinist þannig á einstaka flokka: Bankar og sjóðir 1.000 milljónir, sveitarfélög 2.100 milljónir, einkafyrirtæki 900 milljónir og fyrirtæki í eigu hins opinbera 1.700 milljónir.
    Á árinu voru veittir lánarammar til tveggja íslenskra banka sem ekki höfðu áður fengið bein lán frá NIB þ.e. Sparisjóðabanka Íslands og Kaupþings. Nú eru allir viðskipta- og fjárfestingarbankar á Íslandi með lánaramma frá NIB.
    NIB hefur lagt áherslu á aukið samstarf við íslenska banka með lánarömmum, samstarfi í útlánum og kynningu á nýjungum bankans sem heimfæra má á íslenska fjármálakerfið. Á árinu voru haldnir kynningarfundir með lánastofnunum um aðferðir bankans við umhverfismat en kerfisbundin gerð slíks mats er forsenda lánveitinga NIB. Viðtökur voru mjög góðar og hafa nokkrir bankar þegar eflt vinnu á þessu sviði. Með margvíslegu samstarfi við íslenska bankakerfið getur NIB orðið gagnleg viðbót við íslenskt fjármálakerfi og stutt þróun þess og bætt samkeppnisstöðu.
    
Nýr stofnsamningur og aukið stofnfé.
    Nú hafa öll þjóðþing Norðurlanda staðfest nýjan stofnsamning Norræna fjárfestingarbankans sem treystir stöðu NIB sem alþjóðlegs lögaðila og miðar að því að bankinn standi jafnfætis öðrum fjölþjóðlegum fjármálastofnunum sem hann starfar með. Samningurinn gekk í gildi þann 18. júlí sl.
    Norræna ráðherranefndin samþykkti einnig á árinu stofnfjáraukningu NIB sem eykur heildarbolmagn bankans til útlána innan og utan Norðurlanda úr EUR 9-10 milljörðum í EUR 14 milljarða.
    Hlutfall stofnfjár og útlána Norræna fjárfestingarbankans hefur efri mörkin 2,5, m.ö.o. er miðað við að heildarútlán verði aldrei hærri en 2,5 sinnum stofnféð. Því þurfti að koma til umtalsverð hækkun stofnfjár til að halda mætti ofangreindri áætlun um aukningu útlána. Þjóðþing Norðurlanda hafa því samþykkt eftirfarandi:
    
          Eigið fé Norræna fjárfestingarbankans eykst úr EUR 2.809 milljónum í EUR 4.000 milljónir.
          Af aukningunni, sem nemur EUR 1.191 milljónum, eru EUR 100 milljónir greiddar af hluthöfum en afgangurinn er í formi aukinna ábyrgða eigenda.
          Af þeim EUR 100 milljónum sem hluthafar greiða koma EUR 70 milljónir úr varasjóði bankans en EUR 30 milljónir greiðast beint af eigendum með jöfnum greiðslum á þremur árum, í fyrsta skipti í ársbyrjun 1999.

    Vaxandi alþjóðavæðing í norrænu atvinnulífi hefur leitt til aukinnar eftirspurnar eftir langtímalánum á samkeppnishæfum kjörum til verkefna utan Norðurlanda. PIL- lánaflokkurinn (Projekt Investeringslån) hefur gegnt mikilvægu hlutverki í útrás margra norrænna fyrirtækja. Frá árinu 1982 hafa aðildarlönd NIB ábyrgst 90% af hverju PIL-láni. Á þeim rúmu 15 árum sem PIL-lánin hafa verið veitt hefur aldrei reynt á ábyrgð eigenda bankans.
    Miðað við vöxt útlána í PIL-lánaflokknum og horfur um verkefnaútflutning virðist ljóst að til ársins 2005 getur aukning PIL-lána numið 10-12% á ári án þess að bankinn þurfi að auka áhættu í lánveitingum. Áætlun til næstu 4 ára gerir því ráð fyrir aukningu PIL-lánaflokksins í EUR 3,3 milljarða.
    Í ljósi þeirrar góðu reynslu sem fengist hefur af PIL-lánaflokknum samþykkti norræna ráðherranefndin eftirfarandi:
          Lánarammi PIL er aukinn úr EUR 2 milljörðum í EUR 3,3 milljarða á árinu 1999.
          Heildarfjárhæð ábyrgðar eigenda er eftir sem áður EUR 1,8 milljarðar.
          Fyrir hvert einstakt PIL-lán nemur ábyrgð eigendanna framvegis sem hingað til 90% af andvirði lánsins en ábyrgð bankans 10% en þó fara skuldbindingar eigendanna aldrei fram úr EUR 1,8 milljörðum í heild.

Alþjóðalán NIB.
    Eftirspurn eftir alþjóðlegum lánum NIB fer vaxandi. Á fyrst átta mánuðum ársins var gengið frá nýjum alþjóðalánum og -ábyrgðum að fjárhæð EUR 223 milljónir sem er 8,7% aukning frá sama tímabili fyrir ári. Útistandandi lán NIB utan Norðurlanda námu EUR 1.575 milljónum í ágústlok.
    Lán alþjóðadeildar NIB til íslenskra aðila hafa verið veitt til jarðhitaveitu í borginni Tianjin í Kína sem verkfræðifyrirtækið Virkir-Orkint stóð að. NIB lánaði fé til þessa verkefnis í samvinnu við Norræna þróunarsjóðinn (NDF). NIB hefur veitt lán til jarðhitaveitu í Galanta í Slóvakíu sem Virkir-Orkint undirbjó. Bæði Hitaveita Reykjavíkur og Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO) eiga aðild að því verkefni. Þá lánuðu NDF og NIB til sjávarútvegsfyrirtækis með íslenskri aðild í Namibíu. Þess utan hefur NDF lánað til fiskveiðiverkefna eða fiskirannsókna með íslenskri þátttöku í Malaví, Mosambique og á Grænhöfðaeyjum. Íslenskir ráðgjafar hafa einnig komið við sögu í fiskveiðiverkefni á Maldiveseyjum sem fjármagnað var af NDF.

Umhverfislán NIB.
    Á síðustu níu árum hefur Norræni fjárfestingarbankinn veitt lán til umhverfisfjárfestinga á Norðurlöndum. NIB hefur bæði lánað til iðnfyrirtækja sem þróa umhverfisvæna framleiðslu eða framleiðsluaðferðir og einnig til umhverfisfjárfestinga á vegum sveitarfélaga. Um það bil fimmtungur heildarlána NIB hefur farið til umhverfisfjárfestinga.
    NIB hefur í samstarfi við aðrar alþjóðlegar fjármálastofnanir og umhverfisyfirvöld á Norðurlöndum haldið áfram undirbúningi fyrir lánveitingar vegna umhverfisverkefna í Norðvestur-Rússlandi. Á þessum slóðum eru umhverfismál í ólestri og mikil þörf á að draga úr mengun í lofti og legi. Brýnustu verkefnin eru á sviði vatnsveitu og frárennslis. Dæmi um verkefni sem er til sérstakrar athugunar í bankanum um þessar mundir er endurnýjun á nikkelbræðslum í Pechenga á Kólaskaga. Markmiðið með þátttöku Norðurlanda í endurbótum á þessu fyrirtæki er að draga úr stórhættulegri efnamengun á svæðinu, sem hefur áhrif í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

NIB í Eystrasaltsríkjunum.
    Lán til Eystrasaltsríkjanna hafa vaxið umtalsvert á árinu og voru 13 ný lán samþykkt á fyrstu átta mánuðum ársins.
    Frá árinu 1993 hefur NIB í samvinnu við Evrópubankann og Nopef annast framkvæmd fjárfestingaráætlunar Norðurlanda í Eystrasaltsríkjunum (BIP). Framkvæmd þessarar áætlunar lýkur á árinu 1999. NIB hefur einnig lagt fjárfestingarbönkunum þremur sem starfræktir eru í Eystrasaltsríkjunum til lánsfé og tæknilega aðstoð. Tæknilegri aðstoð NIB við fjárfestingarbankana í Eistlandi og Lettlandi er lokið en aðstoðin við Litháíska fjárfestingarbankann heldur áfram. NIB hefur veitt sérstök rammalán til umhverfisframkvæmda í öllum Eystrasaltsríkjunum einkum til framkvæmda sveitarfélaga.

Nýr lánaflokkur til að efla frumkvæði kvenna í atvinnulífi Eystrasaltsríkjanna.
    Á ráðstefnunni „Konur og lýðræði“, sem haldin var í Reykjavík, ræddu fulltrúar frá Norðurlöndum, Eystrasaltsríkjunum, Bandaríkjunum og Rússlandi hugmyndir og áætlanir sem gætu stuðlað að aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífi og stjórnmálum. Ráðstefnan miðaði að því að benda á verkáætlanir sem gefa færi á jákvæðri mismunun í því skyni að ná þessu markmiði.
    Ráðstefnan var haldin af ríkisstjórn Íslands í samstarfi við ríkisstjórn Bandaríkjanna og Norrænu ráðherranefndina. Af þessu tilefni ákvað Norræni fjárfestingarbankinn að setja á laggirnar nýjan lánaflokk að upphæð 1 milljón evra sem varið verði til fjármögnunar slíkra verkefna. Lánin verða veitt til 5-7 ára á markaðskjörum. Fyrirgreiðsla bankans var bundin því skilyrði að Bandaríkjastjórn beitti sér fyrir sams konar verkefni í Rússlandi.
    Lánaramminn sem hér um ræðir fellur undir stærra fjárfestingarverkefni til eflingar atvinnulífi í Eystrasaltslöndunum sem NIB hefur gengist fyrir um árabil (Fjárfestingaráætlun Eystrasaltslandanna, BIP). Þar hefur NIB átt í góðu samstarfi við þarlendar fjármálastofnanir og greiðir sú reynsla sem áunnist hefur fyrir framkvæmd þessa verkefnis. Bæði Optivabankinn í Eistlandi, Hansabankinn í Lettlandi og Litháiski þróunarbankinn hafa gengið til samstarfs við NIB í þessu efni og þegar liggja fyrir álitleg viðskiptaverkefni sem bíða afgreiðslu. Telja fulltrúar þessara banka mörg teikn á lofti um það að viðskiptaverkefni að frumkvæði eða með umtalsverðri þátttöku kvenna séu að aukast, sem og samstarf kvenna í viðskiptalífinu innan Eystrasaltsríkjanna.
    Framhaldsráðstefna um „Konur og lýðræði“ er fyrirhuguð árið 2001 og er þess vænst að þá verði unnt að kynna niðurstöður fjárfestingarverkefnisins.

Horft til framtíðar.
    Meginhugmyndin með stofnun Norræna fjárfestingarbankans var sú að Norðurlönd gætu örvað fjárfestingu sem njóta skyldi forgangs og samstarfs fyrirtækja yfir landamæri með því að reka sameiginlega fjármálastofnun í eigu landanna fimm sem nyti hagstæðustu lánskjara á alþjóðalánamarkaði. Þessi hugsun er enn grundvöllur NIB.
    Til þess að bankinn geti framvegis sem hingað til boðið góð lánskjör verður hann að viðhalda besta lánshæfismati. NIB er ein örfárra fjármálastofnana sem hefur lánshæfiseinkunnina AAA/Aaa á alþjóðlegum fjármálamarkaði og er þess vegna mikilvæg viðbót við lánakerfi Norðurlanda.
    Til þess að vinna að framgangi þessarar meginstefnu mun NIB:
          Kynna bankann sem öfluga lánastofnun í þágu atvinnulífsins á Norðurlöndum og sem viðbót við þjónustu annarra banka.
          Efla sérþekkingu og þjónustu við fjármögnun umhverfis-, orku- og innviðaverkefna annars vegar og hins vegar rannsóknar- og þróunarverkefna.
          Auka lán til fjárfesta utan Norðurlanda til verkefna á Norðurlöndum sem og fjármögnun norrænnar fjárfestingar á nýjum mörkuðum. Eystrasalts- og Barentshafsvæðið skulu njóta forgangs.
          Fjölga þeim löndum sem eiga kost á PIL-lánum bankans.
          Rækta samstarf við norræna banka og alþjóðlegar fjármálastofnanir.
          Efla hlutdeild bankans í innviðafjárfestingum með þátttöku einkaaðila og öðrum verkefnum á sviði einkarekstrar.
          Auka fjárhagslegt bolmagn bankans og þar með verðmæti fyrir eigendur hans og vera í fremstu röð í áhættustýringu við ávöxtun fjármagns hans.

    Nýir straumar í efnahagslegu umhverfi Norðurlanda eins og alþjóðavæðing, Evrópusamruni, einkavæðing innviða og áframhaldandi sókn markaðsbúskapar mun án efa færa með sér ný og ögrandi verkefni fyrir allar fjármálastofnanir. Hlutverk NIB er að vinna með norrænum fyrirtækjum og fjármálastofnunum að því að efla samkeppnishæfni og heilbrigða framvindu efnahagsmála á Norðurlöndum í þessu nýja og síbreytilega umhverfi.

26.2. Norræni iðnaðarsjóðurinn
    Norræni iðnaðarsjóðurinn er stofnun á vegum ráðherranefndarinnar um iðnaðar- og atvinnumál. Á ráðherrafundi sem haldinn var í Reykjavík í ágúst sl. voru samþykktar nýjar áherslur í starfsemi Norræna iðnaðarsjóðsins. Í rúman aldarfjórðung hefur iðnaðarsjóðurinn styrkt norræn rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði iðnaðar. Mikilvægi hans fyrir íslenskt atvinnulíf og rannsóknarstarfsemi hefur verið mjög mikið, bæði vegna fjárhagslegs stuðnings en ekki síður vegna hins tæknilega samstarfs sem komist hefur á milli þjóðanna. Mjög hefur dregið úr fjárveitingum til sjóðsins hin síðari ár. Jafnframt hefur mikilvægi hefðbundinna áherslna sjóðsins breyst nokkuð við það að norrænu þjóðirnar fengu allar aðgang að vísinda- og tæknisjóðum ESB. Seinustu tvö til þrjú árin hefur verið farið ýtarlega yfir starfsemi sjóðsins og honum markað nýtt framtíðarhlutverk.
    Þær meginbreytingar hafa verið gerðar að á næstu þrem árum mun sjóðurinn jafnt og þétt hverfa frá hefðbundinni verkefnafjármögnun en í stað þess leggja meiri áherslu á að skapa netsamstarf á milli vísinda- og tæknisamfélags þjóðanna, lítilla og meðalstórra atvinnufyrirtækja og rannsóknarstofnana. Sjóðurinn mun gangast fyrir og kosta verkefni sem eru til þess fallin að efla mannauð þjóðanna og sem stuðla að uppbyggingu nýrra fyrirtækja sem tengjast þekkingariðnaði.
    Þeir sem komið hafa að stefnumótun fyrir sjóðinn eru sammála um að norrænu þjóðirnar eigi sameiginlega mikla möguleika á að ná mjög góðri samkeppnisstöðu á sviði þekkingariðnaðar í framtíðinni. Til þess þurfi þó hvata sem beinast eigi fyrst og fremst að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og stuðningsumhverfi þeirra.
    Á grundvelli þessa hefur Norræni iðnaðarsjóðurinn fengið undirheitið „nýsköpunar- og atvinnuþróunarmiðstöð“ (Nordisk Industrifond - Center för innovation och närings utveckling).
    
26.3. Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn (Nopef).
Samstarf um útflutningsverkefni.
    Markmið Norræna verkefnaútflutningssjóðsins, (Nopef) er að efla alþjóðlega samkeppnishæfni norrænna fyrirtækja og stuðla að þátttöku þeirra í verkefnum á alþjóðavettvangi. Þetta gerir sjóðurinn með því að styðja for- og arðsemisathuganir á verkefnum sem talið er að geti leitt til nýrra viðskiptatækifæra á erlendum mörkuðum. Í þessu skyni getur sjóðurinn veitt vaxtalaus áhættulán.
    Nopef styður við forathuganir vegna útflutningsverkefna eftir tveimur meginleiðum. Annars vegar er um að ræða almennan stuðning við slík verkefni utan aðildarríkja ESB og EFTA. Hins vegar styður sjóðurinn samstarfsverkefni norrænna og baltneskra fyrirtækja sem stuðla að alþjóðavæðingu í Eystrasaltslöndunum: Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Svipuð tilhögun gildir gagnvart grannsvæðum í Norðvestur-Rússlandi.

Almenn verkefni.
    Nopef veitir fyrirtækjum áhættulán til for- og arðsemisathugana á verkefnum sem til þess eru fallin að efla útflutning frá Norðurlöndum og stuðla að alþjóðavæðingu norrænna fyrirtækja. Lánin geta svarað til allt að 50% af kostnaði við gerð slíkra athugana og getur sjóðurinn breytt þeim í styrk reynist ekki grundvöllur fyrir verkefninu en annars ber að endurgreiða þau. Lánin eru vaxtalaus.
    Helstu forsendur fyrir stuðningi Nopefs eru:
          Verkefnið verður að vera vel skilgreint og byggt á viðskiptalegum grunni.
          Verkefnið verður að tengjast löndum utan ESB og EFTA.
          Norrænir hagsmunir þurfa að liggja að baki verkefninu.
          Raunhæf fjárhagsáætlun vegna verkefnisins þarf að liggja fyrir.
    Verkefnin geta verið af margvíslegu tagi og er lögð megináhersla á að viðunandi líkur séu á að þeim verði hrint í framkvæmd.

Lán vegna baltnesku ríkjanna (BIP).
    Í tengslum við fjárfestingaráætlunina fyrir baltnesku ríkin (BIP) hafa norrænu löndin falið Nopef að styðja norræn fyrirtæki til að stofna lítil og meðalstór fyrirtæki í þessum löndum. Stuðningurinn samkvæmt þessari áætlun er í formi vaxtalauss láns eins og þegar um almennan stuðning er að ræða. Lánin geta hins vegar numið allt að 40% af áætluðum kostnaði við athuganirnar og ef verkefnið leiðir til árangurs er hægt að sækja um 20% viðbótarlán. Ef verkefni er ekki hrint í framkvæmd getur lántaki sótt um niðurfellingu lánsins. Verkefnin eru jafnframt skilgreind víðar en almennu verkefnin, m.a. ná þau til undirbúnings viðskiptaáætlana og samstarfssamninga, tillögugerðar um endurskipulagningu fyrirtækja o.fl. Hámarksstuðningur við hvert verkefni er 600 þús. finnsk mörk.
    
Verkefni.
    Nopef studdi 116 verkefni á árinu og nam stuðningurinn við þau rúmlega 242 millj. ísl. kr. Hér á eftir er sýndur fjöldi verkefna eftir löndum og fjárhæðir fyrir árin 1998 og 1999.
    Eins og fram kemur í yfirlitinu sem fylgir hér með voru íslensk fyrirtæki ekki í hópi þeirra fyrirtækja sem fengu stuðning á árinu og aðeins 2 á árinu 1998. Þetta er mikil fækkun frá næstu árum þar á undan. Svo virðist sem góðærið á Íslandi hafi dregið úr áhuga innlendra fyrirtækja á þjónustu Nopef. Eðli málsins samkvæmt eru verkefni Nopefs áhættuverkefni sem víkja þegar nóg er af tryggari og nærtækari verkefnum.

    

Fjöldi

Fjárhæð (millj. ísl. kr.)

1998 1999 1998 1999
Danmörk 43 50 141,3 96,1
Eistland 4 12,4
Finnland 12 24 33,7 62,1
Ísland 2 7,0
Litháen 1 3,9
Lettland 1 1,6
Noregur 16 14 44,3 33,2
Svíþjóð 21 27 55,4 49,3
Samtals 99 116 298,0 242,3

     Vegna minnkandi eftirspurnar eftir lánum Nopefs var ákveðið að halda sérstakan kynningarfund á Íslandi í desember sl. í samráði við Útflutningsráð Íslands.
    Á fundinum var norræni fjárfestingarhópurinn kynntur sem samanstendur af Norræna fjárfestingarbankanum (NIB), Norræna þróunarsjóðnum (NDF), Norræna umhverfisfjármögnunarfélaginu (NEFCO) og Nopef. Nopef kynnti ítarlega sín eigin verkefni, hvernig umsóknarferillinn gengur fyrir sig og þann árangur sem náðst hefur. Fjöldi fyrirspurna kom fram frá þátttakendum um ýmis verkefni. Fram kom tillaga um að Nopef ætti að auka samvinnu við fulltrúa NIB á Íslandi til þess að skapa meira samfellt samband við íslensku fyrirtækin. Eftir ráðstefnuna voru haldnir nokkrir sjálfstæðir fundir um ákveðin verkefni sem eiga möguleika á að vera með í verkefnavali Nopef.
    Enginn vafi er á því að starfsemi Nopef hefur verið að styrkjast undanfarin ár og árangurinn að aukast, sérstaklega hefur áherslan á grannsvæðin verið að skila sér. Verkefnum hefur fjölgað sem leitt hafa af sér viðskipti og jafnframt hefur eftirspurn eftir stuðningi frá sjóðnum aukist.
    Nopef, sem sett var á stofn árið 1982, er systurstofnun Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Norræna þróunarsjóðsins (NDF) og Norræna umhverfisfjármögnunarfélagins (NEFCO). Þessar stofnanir eru allar staðsettar í Helsingfors.

26.4. Norræni þróunarsjóðurinn (NDF)
    Norræni þróunarsjóðurinn (NDF) tók formlega til starfa árið 1989 og fyllti því áratuginn á sl. ári. NDF hefur aðsetur við hlið Norræna fjárfestingarbankans (NIB) í Helsinki og nýtur samrekstrar með honum og öðrum norrænum stofnunum í Helsinki að mörgu leyti.
    Helstu samstarfsaðilar NDF eru Alþjóðabankinn í Washington, þróunarbankarnir í Ameríku (IaDB), Asíu (AsDB) og Afríku (ADB), auk tvíhliða þróunarstofnana á Norðurlöndum, þ.m.t. Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ).
    Markmið NDF er að styrkja efnahagslegar og félagslegar framfarir í fátækustu þróunarríkjum í samvinnu við aðrar lánastofnanir. Lánakjörin eru með þeim bestu sem þekkjast: lán eru til 40 ára, afborganalaus fyrstu 10 árin, vaxtalaus, en bera 0,75% þjónustugjald á ári fyrir þann hluta láns sem er útgreiddur og 0,5% staðfestingargjald fyrir þann hluta láns sem ekki hefur verið greiddur. Í litlum mæli hafa einnig verið veitt áhættulán til einkafyrirtækja.
    Auk afmælis NDF, sem fagnað var á árinu, bar það hæst á árinu 1999 að gerð var viðamikil úttekt á starfsemi sjóðsins og mat lagt á árangurinn af starfseminni. Þessi úttekt er liður í að undirbúa ákvarðanatöku um frekari framlög til sjóðsins fyrir tímabilið 2001 til 2005. Ákvörðun var tekin vorið 1996, einnig að undangengnu mati í það sinnið, að ríflega tvöfalda stofnfé sjóðsins á tímabilinu 1996 til og með ári 2000. Stofnfé sjóðsins er nú 515 millj. SDR (um 50 milljarðar ísl. kr.), sem greiðist af Norðurlöndum samkvæmt viðtekinni kostnaðarskiptareglu.
    Niðurstaða óháðs úttektaraðila var í stórum dráttum á þá leið að starfsemi NDF sé afar skilvirk og að sjóðurinn eigi sér ótvíræðan tilverugrundvöll sem sameiginlegt tæki Norðurlanda til að veita fátækari ríkjum þróunaraðstoð og að áfram eigi að nýta sjóðinn til að stuðla að sameiginlegum áherslumálum norrænu landanna á vettvangi þróunarmála. Leggja skýrsluhöfundar til að sjóðurinn láni hér eftir sem hingað til einkum til fjárfestinga í innviðum (e. economic infrastructure), en stór hluti lánveitinga til þessa hefur runnið til raforkuverkefna, samgöngu- og fjarskiptaverkefna, auk vatnsveituverkefna.
    Á árinu 1999, fram til 1. desember, hafði sjóðurinn undirskrifað lán að fjárhæð 42,1 millj. SDR en heildarlán á árinu nema væntanlega hátt í 40 millj. SDR (tæpir 4 milljarðar ísl. kr.) til alls 13 verkefna. Frá stofnun hefur sjóðurinn þar með veitt lán að fjárhæð um 407 millj. SDR (um 41 milljarðar ísl. kr.) til í allt 124 verkefna.
    Nokkur lán hafa verið undirrituð þar sem íslensk fyrirtæki eiga beinna hagsmuna að gæta:
     a.      Lán var veitt til fiskveiðiverkefnis í Malawi að fjárhæð 2,8 millj. SDR (um 270 millj. ísl.kr.). Sjóðurinn tekur þátt í verkefninu ásamt Alþjóðabankanum og ÞSSÍ. Verulegur hluti lánsins var notaður til byggingar tveggja skipa á Íslandi, rannsóknarskips og togveiðiskips, auk þess sem ýmiss annar tækjabúnaður var keyptur frá Íslandi.
     b.      Fiskveiðiverkefni í Namibíu hlaut 1,5 millj. SDR lán (um 150 millj. ísl.kr.). Sjóðurinn tók þátt í fjármögnun verkefnisins ásamt NIB. Verkefnið er samstarfsverkefni Íslenskra sjávarafurða hf. og félags í eigu namibískra stjórnvalda, sem í sameiningu hafa ráðist í verulegar fjárfestingar vegna uppbyggingar veiða og vinnslu í sameiginlegu fyrirtæki, Seaflower Whitefish Corporation í bænum Luderitz. Lán NDF var notað til kaupa á tækjabúnaði í frystihús og frystitogara fyrirtækisins, m.a. frá Íslandi.
     c.      Á Grænhöfðaeyjum hefur sjóðurinn tekið þátt í verkefni í samvinnu við ÞSSÍ um fjármögnun fiskveiðiverkefnis. Veitt hefur verið lán að fjárhæð 2,1 millj. SDR (rúmar 200 millj. ísl. kr.) til að kosta fræðslustarfsemi, ráðgjöf og tækjabúnað. Verkefnið var að hluta til undirbúið af íslenskum ráðgjöfum fyrir hönd NDF og tækjabúnaður keyptur frá Íslandi að hluta til.
     d.      Í Tanggu í Kína hefur NDF tekið þátt í hitaveituverkefni í samvinnu við NIB. NDF hefur lánað um 0,7 millj. SDR (um 70 millj. ísl.kr.) en NIB tvöfalt meira. Íslenskir ráðgjafar hafa starfað að verkefninu og töluverður búnaður var keyptur frá Íslandi til verkefnisins, sem nú er lokið.
     e.      Sjóðurinn hefur veitt rammalán að fjárhæð 5,6 millj. SDR (um 550 millj. ísl.kr.) til Þróunarbanka Austur-Afríku (East African Development Bank), sem er í eigu ríkissjóða Kenya, Tansaníu og Uganda, með aðsetur í Kampala. Þessum lánaramma er ætlað að styðja smá og meðalstór fjárfestingarverkefni. Íslenskum aðilum var veitt lán að fjárhæð 500 þús. bandaríkjadala (um 35 millj. ísl.kr.) til fjárfestinga í fiskveiðum og vinnslu við Viktoríuvatn.
     f.      Sjóðurinn hefur veitt lán til fiskveiðiverkefnis í Mósambík í samvinnu við ÞSSÍ og dönsku þróunarsamvinnustofnunina DANIDA. Lán sjóðsins er 3,6 millj. SDR (um 350 millj. ísl.kr.) og hefur að hluta til verið notað til að fjármagna rekstur rannsóknarskipsins Fengs. Breytingar og viðhald á skipinu, áður en það hélt til Mósambík, voru unnar á Íslandi.
     g.      Á árinu var gengið frá þátttöku sjóðsins í endurfjármögnun Seaflower-fyrirtækisins í Namibíu í samvinnu við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins á Íslandi og veitti NDF fyrirtækinu áhættulán að fjárhæð 800 þús. SDR (um 80 millj. ísl.kr.).

    Eftir því sem NDF vex aldur lýkur fleiri verkefnum sem sjóðurinn hefur lánað fé til. Alls voru gerðar úttektir og skilagreinar á 16 verkefnum á árinu og áttu íslensk fyrirtæki og stofnanir aðild að nokkrum þeirra:
          Úttekt á jarðhitaverkefni í Kína, sem Virkir-Orkint annaðist að hálfu NDF, var afar jákvæð í garð verkefnisins og sér í lagi gagnvart þætti íslensku ráðgjafanna. Er mælt með því að fleiri verkefni verði fjármögnuð á sviði jarðhitanýtingar, gefist til þess heppileg tækifæri.
          Úttekt var gerð á fiskveiðiverkefnunum í Mósambík (rannsóknarþættinum, sem unninn var í samvinnu við ÞSSÍ), í Malawi og á Grænhöfðaeyjum. ÞSSÍ á hluta að öllum þessum verkefnum og er leiðandi (e. Lead Agency) í verkefninu á Grænhöfðaeyjum en Alþjóðabankinn leiðir Malawi-verkefnið. Niðurstöður úttektaraðila eru í heildina tekið jákvæðar og er sérstaklega fram tekið, að liðsinni NDF og ÞSSÍ á sviði rannsókna og öflunar þekkingar á umhverfisþáttum og lífríki, séu mikilvægur liður í að koma á sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda hafsins og í reynd einnig í því að bæta auðlindanýtinguna frá því sem verið hefur.
    Skýrsluhöfundur hvetur til þess að NDF haldi fast við fyrri áform um að fjármagna fjárfestingar innan sjávarútvegsgeirans í Mósambík og taki þátt í nýju framhaldsverkefni í Malawi. Hins vegar er ekki lagt til að framhald verði á fjármögnun NDF til sjávarútvegs á Grænhöfðaeyjum.
    Heildarlán til verkefna með beinum íslenskum hagsmunum eru u.þ.b. 17 millj. SDR (tæpir 1,7 milljarðar ísl.kr.). Íslensk fyrirtæki hafa unnið samninga sem nema um 1,5% af heildarfjárhæð samninga við norræn fyrirtæki sem sjóðurinn hefur fjármagnað frá stofnun hans. Hlutdeild Íslands í fjármögnun sjóðsins er nokkru lægri, eða 1,1%. Auk þess hefur sjóðurinn í nokkrum tilvikum keypt íslenska sérfræðiþjónustu til verkefnaundirbúnings og eftirlits.
    Í stjórn Norræna þróunarsjóðsins sitja fulltrúar Norðurlandanna fimm. Starfslið sjóðsins telur 14 starfsmenn en meðal þeirra er einn Íslendingur, sem gegnir starfi sérstaks ráðgjafa.

26.5. Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO).
    Árið 1999 var níunda starfsár Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO). Stofnfé félagsins er 80 millj. ekna.
    Megintilgangur félagsins skv. stofnsamningi Norðurlandanna er að stuðla að umhverfisbótum svo sem bættum mengunarvörnum í löndum Mið- og Austur-Evrópu. NEFCO tekur þátt í verkefnum með því að leggja fram fjármagn í formi hlutafjár eða lána til fyrirtækja. Þátttaka NEFCO er ákveðin á grundvelli mats á umhverfisáhrifum verkefna og efnahagslegra forsenda þeirra. Almenn skilyrði fyrir þátttöku NEFCO í umhverfisverkefnum er að fyrirtæki eða einstaklingar í því landi þar sem verkefnið er unnið og frá einu norrænu landanna eigi aðild að verkefninu og leggi til þess fjármagn. Hlutdeild NEFCO nemur að jafnaði ekki meiru en 25% af heildarhlutafé eða stofnkostnaði.
    Í árslok hafði stjórn NEFCO samþykkt þátttöku í alls 50 verkefnum með fjármögnun í formi hlutafjár og lána að upphæð 58,20 millj. ekna en áætluð heildarfjárfesting í þessum verkefnum er um 670,9 millj. ekna.
    Verkefnin skiptast þannig eftir löndum: Pólland 14, Tékkland 4, Slóvakía 2, Eistland 8, Lettland 15, Litháen 2 og Rússland 5. Aðild norrænna fyrirtækja skiptist þannig eftir löndum: Ísland 2, Danmörk 15, Finnland 10, Noregur 11 og Svíþjóð 12.
    Verkefnin með íslenskri aðild eru bæði á sviði jarðhitanýtingar í Slóvakíu. Annars vegar er um að ræða ráðgjafarfyrirtæki á því sviði, Slovgeoterm, þar sem íslenska fyrirtækið Virkir-Orkint er eignaraðili, hins vegar orkuveitu á sviði jarðhita, Galantaterm, þar sem Hitaveita Reykjavíkur (nú Orkuveita Reykjavíkur) er meðeigandi auk Slovgeoterm.

Norræni umhverfisþróunarsjóðurinn (NMF).
    Árið 1996 var ákveðið að stofna styrktarsjóð við NEFCO og starfrækja hann næstu þrjú ár. Árið 1999 námu framlög til sjóðsins 35 millj. d.kr., 25 millj. d.kr. frá norrænu löndunum og 10 millj. d.kr. af norrænum fjárlögum. Tilgangur sjóðsins er að styrkja verkefni til umhverfisbóta á sama landsvæði og hefðbundin starfsemi NEFCO, en fyrst og fremst verkefni sem ekki hafa sömu fjárhagslegar forsendur og NEFCO gerir kröfu til. Þátttaka sjóðsins í verkefnum er annars vegar í formi styrkja en hins vegar í formi lána á hagstæðum kjörum.
    Á árinu 1998 fór fram úttekt á starfsemi sjóðsins ásamt mati á árangri starfseminnar. Í framhaldi af því var ákveðið að halda áfram starfsemi sjóðsins næstu fimm ár, þ.e. 1999–2003 á svipuðum grunni og áður, þ.e. með árlegum framlögum frá norrænu ríkjunum og úr sameiginlegum sjóði Norrænu ráðherranefndarinnar. Nafni sjóðsins var breytt og heitir hann nú norræni umhverfisþróunarsjóðurinn (Nordiska Miljöutveklingsfonden - NMF).
    Stjórn NEFCO sem er einnig stjórn Norræna umhverfisþróunarsjóðsins hafði í árslok samþykkt þátttöku í 19 verkefnum, sem skiptast þannig eftir löndum: Eistland 1, Lettland 3, Litháen 1, Pólland 1 og Rússland 13.

26.6. Lánasjóður Vestur-Norðurlanda.
Útlán.
    Ekki varð mikil aukning á umsóknum frá Færeyjum eða Grænlandi á árinu og engin umsókn tengd samvinnu við Færeyjar eða Grænland barst frá Íslandi. Tvö lán voru greidd út á árinu. Annað til Færeyja, en hitt til Grænlands.

Rekstur.
    Sú breyting verður gerð á rekstri sjóðsins 1. maí 2000, að nýr forstjóri, Sverri Hansen, hagfræðingur úr Færeyjum, tekur til starfa og leysir af hólmi Steinar B. Jakobsson, sem verið hefur forstjóri sjóðsins frá upphafi eða frá nóvember 1987.

Stjórn.
    Stjórn Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda skipa sjö menn, einn frá hverju aðildarlandi, og hefur hver þeirra einn varamann. Stjórnarmaður og varamaður hvers aðildarlands eru skipaðir af ríkisstjórn þess.

26.7. Norræni menningarsjóðurinn.
    Norræni menningarsjóðurinn var stofnaður árið 1966 og hlutverk hans er að efla menningarsamstarf Norðurlandanna. Sjóðurinn styrkir verkefni af ýmsum toga á sviði rannsókna, menntunar og menningar í víðri merkingu. Fjárveiting til sjóðsins á árinu var alls 24,9 millj. d.kr. sem er hækkun frá fyrra ári. Stjórnarfundir á árinu voru fjórir.
    Umsóknarfrestur til sjóðsins er tvisvar á ári. Á árinu bárust sjóðnum alls 964 umsóknir en þar af voru 208 ógildar. Veittir voru styrkir til 199 verkefna (u.þ.b. 26%). Gildar umsóknir voru að upphæð u.þ.b. 195 millj. d.kr. en til úthlutunar voru 18,6 millj. d.kr. Enn fremur veitti sjóðurinn styrk til annarra afmarkaðra verkefna, t.d. til verkefnisins „Lestrarhugur“, rannsóknarverkefnis um þróun norrænnar menningarstefnu og til menningarborganna Reykjavíkur, Björgvinjar og Helsinki.
    Á árinu bárust 27 gildar umsóknir frá Íslandi sem er svipað og fyrri ár. Styrkveitingar til íslenskra verkefna voru að upphæð alls 1,3 millj. d.kr. Einnig má geta fjárveitingar að upphæð 3,9 millj. d.kr. vegna þess að Reykjavík er ein af norrænu menningarborgunum árið 2000.
    Hér eru ekki með talin norræn verkefni sem styrkt eru af menningarsjóðnum og fela í sér samstarf við eða heimsókn til Íslands.
    Frekari upplýsingar um starfsemi Norræna menningarsjóðsins er að finna á slóð www.nordiskkulturfond.dk

II. STARFSÁÆTLUN NORRÆNU RÁÐHERRANEFNDARINNAR


OG MEGINÞÆTTIR NORRÆNU FJÁRLAGANNA 2000



Inngangur.



Norrænt samstarf á 21. öld.
    Samstarfið á 10. áratugnum hefur einkennst af sveigjanleika en einnig af samhæfingu starfseminnar. Á undanförnum áratug hafa ný samstarfssvið komið til sögunnar, svo sem t.d. grannsvæðastarfsemin, Evrópustarfsemin og nýjar ráðherranefndir — jafnrétti, vímuefni og upplýsingatækni. Önnur samstarfssvið hafa breyst í fremur óformlegt samstarf — það á t.d. við um viðskiptamál og þróunaraðstoð. Áratugurinn hefur einnig einkennst af samþjöppun norræns samstarfs, m.a. vegna umfangsmikillar endurskipulagningar í stofnunum og vegna aukinnar áherslu á þá starfsemi sem talin er hafa norrænt notagildi.
    Þannig hagar til um norrænt samstarf um þessar mundir að umfangsmikil verkefni liggja fyrir bæði innan opinbera samstarfsins og á öðrum sviðum. Samstarfið setur mark sitt á starfsemi einkaaðila, opinbera starfsemi og á starfsemi frjálsra félagasamtaka. Hvað varðar samstarf stjórnmálaleiðtoganna hefur nú í seinni tíð samkeppnin um tíma harðnað vegna þess að annað alþjóðlegt samstarf hefur einnig aukist. Málefni ESB, Eystrasaltssvæðisins, Barentssvæðisins, Norðurskautssvæðisins og annað alþjóðlegt samstarf kallar á aukna athygli stjórnmálamanna. Ef halda á áfram öflugu norrænu pólitísku samstarfi er nauðsynlegt að það verði áfram markvisst og árangursmiðað og einnig að það verði nýtt sem stökkpallur að annarri alþjóðlegri starfsemi. Með því að nýta norrænt samstarf sem grunn er unnt að forðast tvíverknað og efla áhrif starfsins.
    Norrænt samstarf er vel mótað og í huga margra sjálfgefið. Allt að einu er nauðsynlegt, eins og í öðru alþjóðlegu samstarfi, að starfa með virkum hætti og af miklum pólitískum áhuga til þess að viðhalda og þróa gildi þess. Ef samstarfið á að þróast og gegna mikilvægu hlutverki einnig á næstu öld er nauðsynlegt að endurmeta markmiðin og leggja áherslu á mál sem skipta máli fyrir Norðurlandabúa. Enn er Norðurlandabúum dags daglega í mörgu tilliti óhægt um vik að fara á milli landanna. Takist að festa í sessi norrænt samstarf sem snýr að málefnum þegnanna, verður til góður vettvangur sem byggja má á í víðara samhengi á alþjóðvettvangi.
    Þjóðfélagið á Norðurlöndum er sífellt að verða fjölmenningarlegra. Nýjum Norðurlandabúum er af eðlilegum ástæðum ókleift að taka afstöðu til norrænna málefna. Í norrænu samstarfi þarf í samvinnu við frjáls félagasamtök að leitast við að skapa skilning og þekkingu á norrænum aðstæðum þannig að nýjir samfélagsþegnar geti tekið þátt í samstarfinu á sömu forsendum og aðrir Norðurlandabúar.
    Norræna ráðherranefndin væntir þess að samstarfið haldi áfram að þróast og að árið 2000 verði starf sem snýr að norrænni velferð, hæfni í sem víðustum skilningi, sjálfbærum Norðurlöndum, opnari Norðurlöndum — færri landamærahindrunum og fjölmenningarlegri Norðurlöndum — í fyrirrúmi. Þetta á einnig við um starfsemina á grannsvæðunum.

A. Starfsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2000 (C2).



Samstarfið á Norðurlöndum.
    Með aðild Finnlands og Svíþjóðar að ESB og þátttöku Íslands og Noregs í EES eru öll norrænu ríkin formlegir aðilar að samstarfi sem bæði hvað varðar landfræðilegt umfang og fjármagn er mun víðfeðmara en norrænt samstarf. Í sameiginlegri skýrslu Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar „Nordisk samarbejde i en ny tid“ (Nýir tímar í norrænni samvinnu), sem nú um fimm ára skeið hefur verið grundvöllur norræns samstarfs, var gerð grein fyrir afleiðingum þessa og framtíðaráherslusviðum. Ekki síst krafan um norrænt notagildi — að sameiginleg norræn verkefni skili virðisauka — hefur reynst sérlega nothæft úrræði í mati á samnorrænu starfi og þegar slíku starfi er komið á fót.
    Jafnframt þarf einnig að haga samstarfinu með tilliti til æ hraðari þróunar bæði á sviði tækni og samfélagstengsla.
    Hvernig er unnt að tryggja framhald samstarfsins og þróa það á sviðum sem skipta einstaklinga á Norðurlöndum máli?
    Hvað er t.d. unnt að gera til þess að draga úr þeim hindrunum sem eru enn fyrir hendi í landamærahéruðum á Norðurlöndum og verða nú enn áþreifanlegri þegar stór þéttbýlissvæði á borð við Málmey og Kaupmannahöfn tengjast með nýrri brú?
    Hvernig á að haga norrænum styrkjum og nemenda- og starfsmannaskiptum þannig að takmarkaðir samnorrænir fjármunir standi ekki í ónauðsynlegri samkeppni við t.d. áætlanir ESB?
    Nú við upphaf nýs árþúsunds stefnir ráðherranefndin að því að leggja grunn að mati á og umræðum um þróunarmöguleika og líklegar þróunarleiðir á 21. öld og þær kröfur og óskir sem norrænt samstarf þarf að uppfylla. Þess er vænst að grundvöllur fyrir almenna umræðu um þessi mál liggi fyrir á þingi Norðurlandaráðs árið 2000.
    Undirbúningur fyrir norrænt samstarf á næstu öld er þó þegar hafið á langflestum sviðum.
    Ráðherrar menntamála og vísinda leggja þannig fram stefnumótun um norrænt mennta- og vísindasamstarf á næsta fimm ára tímabili. Þar eru skilgreind markmið fyrir norrænt samstarf á sviði menntamála og vísinda/rannsókna, og rammi og verkefni sem eru til þess fallin að nýta þá möguleika sem felast í norrænu samstarfi eftir árið 2000. Ráðherranefndin verður að vera virkur aðili að framkvæmd á þeim grundvallarbreytingum sem eiga sér stað varðandi hæfni, gæðaþróun og gildismat hvarvetna á Norðurlöndum.
    Einnig á sviði menningarmála hefur ráðherranefndin hafist handa um að koma á umbótum í norrænu samstarfi og aðlaga störfin ögrunum nýrrar aldar. Að sjálfsögðu á að efla og þróa hina hefðbundnu samnorrænu menningararfleifð með þessu samstarfi og jafnframt á það að vera pólitískt og hæfa alþjóðlegum aðstæðum á breiðari grundvelli.
    Lykilhugtakið er sveigjanleiki — til þess annars vegar að verja fjármagni og kröftum til verkefna sem njóta forgangs, hins vegar að unnt sé að lagfæra skipulag og uppbyggingu svo að tryggðir séu hagkvæmustu starfshættir við allar aðstæður. Ráðherranefndin leggur ríka áherslu á að framhald þessa umbótastarfs verði í nánu samráði við Norðurlandaráð.
    Um árþúsundamótin verða gerðar umbætur á sviði umhverfis- og auðlindamála bæði hvað varðar skipulag og inntak. Megintilgangurinn er að haga samstarfinu þannig að það fái pólitískt vægi, bæði í aðildarlöndunum og varðandi grannsvæðin og ESB/EES.
    Starf ráðherranefndarinnar í þá veru að stuðla að sjálfbærri þróun verður unnið á grundvelli þverfaglegrar áætlunar „Sjálfbær Norðurlönd“ sem lögð verður fram til að fylgja eftir yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlanda frá árinu 1998. Gert er ráð fyrir að áætlunin liggi fyrir árið 2000. Hún beinist að þeim sviðum þar sem Norðurlöndin eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta og góðar forsendur eru til að stuðla að sjálfbærri þróun og þar sem talið er að norrænt samstarf sé gagnlegt. Ætlunin er að markmiðunum verði náð innan 20 ára og lagðar eru fram tillögur um aðgerðir sem til þess eru fallnar að tryggja sjálfbæra þróun á þeim sviðum sem hlut eiga að máli. Þess er vænst að áætlunin verði stefnumarkandi fyrir starfið að sjálfbærri þróun á sviði samgangna, orkumála, landbúnaðarmála, skógariðnaðar, umhverfismála, sjávarútvegs, efnahagsmála og atvinnumála.
    Árið 1999 var hrint í framkvæmd mati á Norrænu umhverfisstefnunni fyrir árin 1996–2000. Með matinu er grunnur lagður að nýjum viðræðum árið 2000 um ný stjórntæki fyrir norrænt samstarf á sviði umhverfismála sem hægt verður að hrinda í framkvæmd árið 2001.
    Innan ramma samstarfs að byggðamálum er ný stefnumótandi samstarfsáætlun í vinnslu og er gert ráð fyrir að hún gangi í gildi árið 2000. Sama ár verður samið um ný stjórntæki fyrir samstarfið á sviði landbúnaðar- og skógræktarmála í ljósi þess mats sem gert var árið 1999. Samfara þessu verður lögð fram endurskoðuð stefna um samstarfið við umhverfismálasviðið.
    Í samstarfinu á sviði sjávarútvegs verður haldið áfram því starfi sem hafið var árið 1999 í því skyni að finna ný stjórntæki í sjávarútvegssamstarfi Norðurlanda með áherslu á alþjóðavæðingu og pólitískt mikilvægi.
    Norræna ráðherranefndin hefur beint athyglinni að norræna velferðarsamfélaginu með því að halda áfram því starfi sem hófst á ráðherraráðstefnunni „Velferðarsamfélag morgundagsins“. Og nú er áherslan annars vegar á rannsóknir á meginsviðum velferðarsamfélagsins, hins vegar á gerð skýrslu sem setur norræna velferðarkerfið í evrópskt samhengi.
    Jafnrétti Norðurlandabúa sem flytja milli landa er meginmarkmið norræna samningsins á sviði félagslegs öryggis. Í krafti slíkra samninga öðlast Norðurlandabúar margvísleg réttindi sem tryggja eiga ferðafrelsi á Norðurlöndum. Nú hefur verið skipaður starfshópur til þess að meta þörfina á lagfæringu og uppfærslu reglnanna.
    Árið 1998 tóku ráðherrar Norðurlanda á sviði utanríkisviðskipta frumkvæði að því að varpa ljósi á fyrirstöðu í löggjöf Norðurlanda gegn samruna og sameiningu norrænna fyrirtækja og liggur nú fyrir skýrsla um málið. Þar er bent á mikilvægi þess að tryggja lífvænlegan heimamarkað á Norðurlöndum fyrir fyrirtæki sem óska eftir að skipuleggja rekstur sinn óháð landamærum.
    Sameiginlegur þáttur í þróuninni víðast hvar á Norðurlöndum er breytingin á samsetningu þjóða í átt að fjölmenningarlegu samfélagi. Á öllum sviðum sem hlut eiga að máli nýtur starfið gegn útlendingaandúð og að því að skapa skilning á verðmæti hins fjölmenningarlega samfélags því mikils forgangs.
    Í samræmi við þær áherslur sem Norðurlandaráð hefur áður gefið til kynna er lögð áhersla á eflingu samstarfsins við hin frjálsu félagasamtök.
    Áfram er hvatt til þess að metið verði á hinum ýmsu samstarfssviðum hvernig unnt sé að efla enn frekar samstarfið við frjáls félagasamtök en þau, og meðal annars Norrænu félögin, eru virkjuð í lausn verkefna á öllum sviðum þar sem þau geta lagt eitthvað af mörkum sem fullnægir þeim kröfum sem gerðar er í norrænu samstarfi um gæði og hagkvæmni.
    Síðar í skýrslunni er gerð nánari grein fyrir því hve víðtækt samstarf ráðherranefndarinnar er við frjáls félagasamtök á Norðurlöndum.

Grannsvæði Norðurlanda.
    Aðalmarkmið samstarfs ráðherranefndarinnar er að stuðla að stöðugri og traustri þróun á Norðurlöndum og grannsvæðum þeirra. Í landfræðilegu tilliti nær skilgreining ráðherranefndarinnar á grannsvæðunum til Eystrasaltsríkjanna, norðvesturhéraða Rússlands og Norðurskautssvæðisins.
    Hlutur grannsvæðasamstarfsins í allri samnorrænni starfsemi hefur aukist mjög á síðari árum. Framlag ráðherranefndarinnar hefur á undanförnum tveim árum numið tæplega fimmtahluta norrænu fjárlaganna og á fyrstu árum næstu aldar er gert ráð fyrir að svipuðu fjármagni verði úthlutað af norrænum fjárlögum til þessa samstarfs.
    Markmið samstarfsins við grannlöndin er óbreytt en það á að hafa stöðuga og lýðræðislega þróun að markmiði, ýta undir þróun virks markaðsbúskapar, auka virðingu fyrir mannréttindum, svo og stuðla að ábyrgri og sjálfbærri nýtingu auðlinda.
    Ákvörðun leiðtogaráðs ESB um „Norðlæga vídd“ er í stórum dráttum í samræmi við markmið Norrænu ráðherranefndarinnar og gefur þeim aukið vægi með því að taka tillit til tengsla sambandsins útávið, einkum til Rússlands og Eystrasaltsvæðisins. Til dæmis eru áform ESB í samræmi við norræn áform hvað varðar stjórnun auðlinda svo og umhverfis- og orkumál.
    Í yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna, „Sjálfbær Norðurlönd“, var Norrænu ráðherranefndinni falið að nota tímann til ársins 2000 til að móta þverfaglega áætlun um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum og grannsvæðunum. Samstarfinu við löndin á grannsvæðunum á að haga þannig að það miðist við markmið þessarar áætlunar.
    Aukin þátttaka Eystrasaltsríkjanna í evrópska samrunaferlinu er sérstakt úrlausnarefni í norræna grannsvæðasamstarfinu. Nauðsynlegt er að raunveruleg samstarfsverkefni séu stöðugt löguð að þessari þróun.
    Þau markmið og áform sem stjórna grannsvæðasamstarfinu hafa áður verið mótuð árlega á verkefna- og áætlanastigi. Nýja rammaáætlunin fyrir næsta þriggja ára tímabil er einkum byggð á forgangsröðun fyrri ára og grundvallarmarkmið hennar er að lokið verði við fyrri áætlanir og verkefni. Á grundvelli viðræðna norrænu samstarfsráðherranna og samstarfsráðherra Eystrasaltsríkjanna, auk óformlegra samskipta embættismanna við fulltrúa Eystrasaltsríkjanna og Rússneska sambandslýðveldisins, er ákveðið að þemasviðin verði fimm, lýðræði og velferðarmál, menningarmiðlun, efling markaðsbúskapar, sjálfbær nýting auðlinda og Norðurskautssamstarfið.
    Á sviði lýðræðis og velferðarmála verður athyglinni beint að miðlun mikilvægra þátta hins norræna velferðarkerfis og reynslu af því. Eflt verður enn frekar langtímastarfið að því að hrinda í framkvæmd og fylgja eftir aðgerðum í þá veru að bæta framtíðarhorfur barna og ungmenna á grannsvæðunum, að frumkvæði Norðurlandaráðs.
    Í því augnamiði að stuðla að stöðugleika í samfélagsþróun á grannsvæðunum verður sjónum beint að þróun opinbera geirans og meðal annars verður lögð áhersla á stjórnsýslu og lýðræðislega uppbyggingu á hverjum stað, svo og baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
    Meginmarkmiðið á sviði menningarmiðlunar hefur verið miðlun norrænnar menningar og norrænna gilda til grannsvæðanna. Framvegis verður hugað enn frekar að gagnkvæmum upplýsingum — þannig að menningarframboð grannsvæðanna hljóti einnig kynningu á Norðurlöndum.
    Til þess að tryggja lífvænlegan markaðsbúskap er nauðsynlegt að byggja upp þekkingu um löggjöf og reglur, menningu og viðskiptasiðferði. Markmiðið er að styðja með áþreifanlegri hætti þróunarforsendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja og meðal annars möguleika kvenna á að koma á fót eigin rekstri.
    Með því að byggja upp hæfni hjá þeim aðilum í stjórnsýslunni sem bera ábyrgð á stjórnun auðlinda er leitast við að stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra. Til þess verður að skiptast á reynslu varðandi löggjafar- og stjórnunarúrræði í því augnamiði að laga löggjöf einstakra ríkja á grannsvæðinu að evrópskri löggjöf. Aðgerðir til að draga úr álaginu á umhverfið munu beinast að því að draga úr mengun sem berst yfir landamæri.
    Í Norðurskautssamstarfinu verður hugað sérstaklega að tekju- og afkomumöguleikum á Norðurskautssvæðinu, sjálfbærri nýtingu auðlinda á forsendum náttúrunnar, svo og upplýsingum um lífskjör á heimskautssvæðum með það í huga að skapa skilning á hefðbundnum atvinnugreinum.
    Sú forgangsröðun sem greinir að framan gildir einnig fyrir upplýsingaskrifstofur ráðherranefndarinnar á grannsvæðunum og styrkjaáætlanirnar. Í skipulagningu starfseminnar á upplýsingaskrifstofum verður athyglinni sérstaklega beint að svæðum og stöðum utan höfuðborganna í því skyni að stuðla að byggðaþróun sem stuðlar að enn meira jafnvægi.
    Í samræmi við ákvörðun samstarfsráðherranna um samþættingu jafnréttis í starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar verður einnig í skipulagningu grannsvæðastarfseminnar tekið tillit til kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Þemasvið og forgangsverkefni verða þróuð enn frekar í væntanlegu starfi að áætlunum fyrir þriggja ára tímabilið 2000–2001.
    Hvað varðar landfræðilegt umfang grannsvæðasamstarfsins mun það áfram ná yfir Eystrasaltsríkin, Barentssvæðið, Pétursborgarsvæðið, Kaliningrad og Norðurskautssvæðið. Sérstök áhersla verður lögð á að koma á starfsemi á Kaliningradsvæðinu. Í þeim tilgangi verður þróað samstarf við Eystrasaltsríkin um að koma á samstarfi við Kaliningrad og önnur rússnesk landamærahéruð á sameiginlegum grunni Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Enn fremur verða athugaðir möguleikarnir á að beina hluta af grannsvæðastarfseminni að landamærasvæðinu sem liggur að Hvíta-Rússlandi.
    Í samræmi við áður nefndar ákvarðanir um stefnumótandi reglur um samstarf ráðherranefndarinnar við grannsvæðin og í samræmi við tilmæli Norðurlandaráðs varðandi þörfina á skilvirkari samræmingu starfseminnar verður athyglinni að staðaldri beint að upplýsingamiðlun og samræmingu starfs miðað við starfsemi og áætlanir annarra aðila á grannsvæðunum. Í þessu samhengi gegna upplýsingaskrifstofurnar mikilvægu hlutverki.

Samstarfið við Evrópu/ESB/EES.
    Norrænu samstarfi um Evrópumálefni er m.a. sinnt á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Samstarfið hvílir á margvíslegum norrænum gildum sem eru í stöðugri þróun. Norræna ráðherranefndin er vettvangur þar sem ríkisstjórnir Norðurlanda geta haft samráð, skipst á upplýsingum, samræmt sín í milli mál og málefni sem varða sameiginlega hagsmuni. Hér hittast fulltrúar þriggja norrænna ríkja sem eiga aðild að ESB og fulltrúar hinna tveggja sem í krafti EES-samningsins eru aðilar að starfinu í Evrópu.
    Gagnkvæmt samráð, upplýsingaskipti og samræming á sér einnig stað í norrænu embættismannanefndunum sem undirbúa fundi ráðherranefndanna, í starfshópum, milli norrænna ESB-skrifstofa og ESB-sendinefnda Norðurlanda í Brussel, svo og milli allra þessara aðila og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Margs konar óformlegum samskiptum og upplýsingaskiptum hefur verið komið á, einkum við stofnanir ESB, enda hefur áhugi þeirra á samnorrænni reynslu, þekkingu og verkefnum farið vaxandi. Einnig hefur verið komið á góðum og gagnlegum tengslum við EFTA-skrifstofuna og evrópsk hagsmunasamtök.
    Viðræður um Evrópumálefni með norrænni vídd eru í eðli sínu af óformlegum toga. Óformlegt samráð hefur mikið upplýsingagildi fyrir löndin þegar mál eru undirbúin og afstaða tekin til mála á dagskrá ESB.
    Viðræðurnar um Evrópumálefni lúta einkum að viðhorfum og gildismati sem endurspeglast ekki í sama mæli og önnur starfsemi í fjárlögum Norrænu ráðherranefndarinnar. Þannig liggja engar áætlanir fyrir sambærilegar við grannsvæðaáætlunina og fjárlög vegna framkvæmdar hinna margvíslegu verkefna sem ákveðin hafa verið í pólitísku tilliti.
    Tilgangur samstarfsins er m.a að skapa forsendur fyrir því að norræn samfélagsviðhorf geti haft áhrif á þróunina innan ESB og í Evrópu, svo og að leitast við að koma á norrænni réttarvitund í tengslum við lögleiðingu ESB-gerða í löggjöf einstakra Norðurlanda. Upplýsingaskipti og samræming hafa aukist, einkum á sviði umhverfismála, atvinnumála, byggðasamstarfs, neytendaverndar og menningar.
    Eftir fall Sovétríkjanna og það sem á eftir fór stendur norrænt samstarf sterkum stoðum á þjóðlegum grunni. Sameiginleg gildi Norðurlanda sem birtast í norrænum samfélagsviðhorfum hafa áhrif á þróun Evrópusambandsins og væntanlega sögulega stækkun sambandsins sem getur leitt til þess að víða verði í auknum mæli þörf á vel starfandi samstarfsvettvangi, sbr. umræður á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn 19. apríl 1999 um byggðasamstarf í nýrri Evrópu. Ráðstefnan var skipulögð af Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar, Norðurlandaráði og sameiginlegri þingmannanefnd sem heyrir undir þing og ráðherranefnd Benelux-landanna.
    Á fjögurra ára tímabilinu 1999–2002 verða góðir möguleikar á að vekja athygli á sameiginlegum norrænum gildum og forgangsverkefnum, því þá eru Finnland, Svíþjóð og Danmörk, í þessari röð, með í formennskuhópi ESB.

B. Meginþættir norrænu fjárlaganna 2000.


    Norrænu fjárlögin fyrir árið 2000 eru að upphæð 741,5 millj. d.kr. Innan þessa heildarramma hafa fjárveitingar að fjárhæð 26,36 millj. d.kr. verið fluttar til þeirra forgangsverkefna sem Norðurlandaráð, formennskulöndin og einnig einstakar ráðherranefndir hafa beitt sér fyrir.
    Vegna þess að fjárlögin eru óbreytt frá fyrra ári hefur verið leitast við að halda einhverju jafnvægi milli krafna um nýjar pólitískt mikilvægar áherslur annars vegar og þeirrar starfsemi sem þegar er hafin og áætlana sem þegar eru samþykktar hins vegar. Norrænt samstarf á að einkennast af sveigjanleika og innri krafti þannig að samstarfinu sé beint að sviðum sem hafa mikið pólitískt gildi og þar sem norrænt notagildi er sem mest. Þau forgangsverkefni sem einkenna frumvarp að fjárlögum eru þau sem Norðurlandaráð gerði grein fyrir í tengslum við þingið 1998 og þau forgangsverkefni sem er að finna í formennskuáætlun Íslendinga. Einnig hefur verið leitast við að fylgja eftir formennskuáætlun Svía frá 1998 og taka tillit til væntanlegrar formennskuáætlunar Dana fyrir árið 2000.
    Í því skyni að auka gegnsæi og öðlast skilning á því hvaða svigrúm er að finna í fjárlögunum fyrir nýja starfsemi og hvaða kröfur verða gerðar á næstu árum um aðra forgangsröðun, er í ár kynntur skipulagsrammi til lengri tíma með niðurstöðu sem endurspeglar þær ákvarðanir sem hafa verið teknar og, varðandi aðra starfsemi, áframhald með óbreyttu sniði.

Mestu breytingarnar.
    Allar meiri háttar breytingar í fjárlögunum sjást í eftirfarandi töflu, en aðrar minni háttar tilfærslur (+/-1.000 þús. d.kr.) birtast eingöngu undir viðkomandi fjárlagalið. Í töflunni eru þær tilgreindar sem ósundurliðuð samtala. Samtals hafa verið gerðar tilfærslur að fjárhæð alls 26,36 millj. d.kr. í fjárlögunum 2000. Verðlag ársins 1999, þ.e. fast verðlag (áður en tillit er tekið til verðbólgu) er notað í töflunni til að hún sé samanburðarhæf við fjárlög ársins 1999 sem hefur sambærilegan ramma og fjárlög ársins 2000. Sumir fjárlagaliðir hafa verið lækkaðir tímabundið árið 2000. Þetta er gert vegna hugsanlegra yfirfærðra fjármuna á fjárlagaliðnum frá fyrri árum. Starfsemin á þessum sviðum verður því breytt í samanburði við 1999 og gert er ráð fyrir að horfið verði að fyrra fjárlagastigi árið 2001. Þessir fjárlagaliðir eru merktir sem tímabundinn niðurskurður í töflunni.

SVIÐ     FJÁRL.     MISMUNUR     FJÁRLÖG
         LIÐUR     þús. d.kr.     ÁRIÐ 2000

MEIRI HÁTTAR HÆKKANIR               þús. d.kr.               
Ráðstöfunarfé — Menning (1 millj. d.kr. lögð til hliðar
vegna árþúsundamótanna)     1-2204-2     + 1.000     3.148
NORDPLUS-mini     1-2516-1     + 2.000     3.187
Norræna Norðurskautsrannsóknaráætlunin     1-3130-2     + 5.488     6.000
Norræn rannsóknaráætlun um kynferðislegt ofbeldi     1-3131-2     + 3.500     3.500
Norræn rannsóknaráætlun um tungutækni     1-3132-2     + 3.500     3.500
Samstarf á sviði upplýsingatækni     1-3410-2     + 1.000     1.000
Verkefnafé — Orkumál     2-3210-2     + 1.637     5.000
Velferðarrannsóknir     3-4620-2     + 2 751     4.388
Varasjóður ráðherranefndarinnar     4-0445-2     + 2 936     4.919
Minni háttar ósundurliðaðar hækkanir          + 2 548     

Samtala hækkanir          + 26 360     

MEIRI HÁTTAR NIÐURSKURÐIR               
NORDPLUS     1-2532-1     - 1 000     29.690
Norræna vísindastefnuráðið     1-3110-2     - 1 300     746
NorFA     1-3115-1     - 1.255     35.047
Norðurlönd og Evrópa     1-3120-2     - 4.505     5.820
Tengslanet um þjóðhætti     1-3125-2     - 1.000     1.046
Verkefnafé til umhverfismála     2-3310-2     - 2 049     32.703
Verkefnafé til byggðamála     2-6110-2     - 1.076     19.000

Samskiptastofnanir um jarðræktarrannsóknir (tímabundinn
niðurskurður)     2-6520-2     - 1.043     0
Norræni iðnaðarsjóðurinn     3-5180-3     - 2.554     52.732
Starfsmannaskipti og skiptiheimsóknir í frjálsum félaga-
samtökum (tímabundinn niðurskurður)     4-1050-2     - 1.000     1.046
Ósundurliðaðir minni háttar niðurskurðir          - 9 578     
Samtala niðurskurður          - 26 360     

Skipulagsrammi til lengri tíma fyrir Norrænu ráðherranefndina.
    Skipulagsramminn til lengri tíma sýnir, miðað við 3 ára tímabil, þróun fjárlaga ef gert er ráð fyrir að aðstæður sem voru þekktar við samningu fjárlaga standist þann tíma sem spá vegna fjárlaganna nær yfir (spátímabilið). Forsendur skipulagsrammans til lengri tíma eru sem hér segir varðandi einstaka fjárlagaliði:
          Ef ekki er annað ákveðið eða skipulagt er áætluðu umfangi starfseminnar í fjárlögunum 2000 haldið óbreyttu út spátímabilið.
          Fjármögnun starfsemi sem samkvæmt áætlun á að falla niður er ekki reiknuð með inn í spátímabilið.
          Á einstökum fjárlagaliðum eru yfirfærðir fjármunir frá fyrri árum og hefur slíkt leitt til tímabundins niðurskurðar á fjárlögum fyrir 2000. Á spátímabilinu samsvara þessir fjármunir því sem var í fjárlögum 1999. Um er að ræða minni háttar fjárhæðir (sbr. að neðan).

    Upplýsingar um spátímabilið eru aðeins leiðbeinandi og sýna hvernig þróunin yrði ef samþykkt fjárlög yrðu áfram í gildi næstu tvö ár á eftir jafnframt því sem þekktar og skipulagðar breytingar væru reiknaðar með. Varðandi einstaka fjárlagaliði er ekki um það að ræða að gera megi ráð fyrir að fá sömu fjárveitingu og tilgreind er vegna spátímabilsins. Til ráðstöfunar er áfram aðeins árleg fjárveiting í samþykktum fjárlögum viðkomandi árs. Enn fremur er heildarramminn ár fyrir ár ákveðinn af ráðherranefndinni og taflan með spátölum er því lögð fram með því fororði að heildarramminn verði óbreyttur.
    Meðfylgjandi yfirlit sem er samlagning fjárlagaliða einstakra sviða sýnir að að óbreyttum heildarramma að fjárhæð 741,5 millj. d.kr. á spátímabilinu verður ófullnægð fjármögnunarþörf að fjárhæð 5,2 millj. d.kr. árið 2001 og 1,7 millj. d.kr. árið 2002 að gefnum þeim forsendum sem tilgreindar eru að framan. Í fylgiskjalinu: Skipulagsrammi í heild til lengri tíma sjást tölurnar fyrir hvern einstakan fjárlagalið.
    Af yfirlitinu sést enn fremur að ef fjárlagarammi samstarfssviðanna fjögurra verður óbreyttur á spátímabilinu mun samstarfssviðið „menningar-, menntamál og rannsóknir“ hafa 2,0 til 5,6 millj. d.kr. óráðstafað á spátímabilinu. Breytingarnar stafa af því að rannsóknaráætlunin „Norðurlönd og Evrópa“ hlýtur sína síðustu fjárveitingu árið 2000 ásamt því að sIDUN II og NORDUnet2 hafa aðeins fjárveitingar til ársins 2001. Gert er ráð fyrir nýrri skipulagðri rannsóknaráætlun sem árið 2001 hlýtur 5,6 millj. d.kr. og árið 2002 6,7 millj. d.kr.
    Á samstarfssviðinu „Umhverfis- og auðlindamál“ hefur ekki verið veitt fjármunum í NKJ (fjárlagalið 2-6520-2) í fjárlögunum 2000, þar eð samstarfsstofnunin hefur yfirfært fjármuni frá fyrra ári. Það leiðir af sér fjármögnunarþörf að fjárhæð 0,9 millj. d.kr. á spátímabilinu.
    Varðandi „Velferðar- og atvinnumál“ er ófullnægð fjárþörf 4,9 millj. d.kr., sem einkum stafar af því að reiknað er með að „Velferðarrannsóknir“ (fjárlagaliður 3-4620-2) fái 10,0 millj. d.kr. ár hvert á spátímabilinu en 4,9 millj. d.kr. á árinu 2000.
    Varðandi „Aðra starfsemi“ er tímabundinn niðurskurður á „Þýðingar og túlkun“ (fjárlagaliður 4-1040-2) og „Starfsmannaskipti“ (fjárlagaliður 4-1050-2), sem hefur leitt af sér fjárþörf að fjárhæð 1,5 millj. d.kr. á spátímabilinu fyrir þetta samstarfssvið.

Skipulagsrammi í heild til lengri tíma eftir sviðum.

         FJÁRLÖG     FJÁRLÖG     FJÁRLÖG     FJÁRLÖG
                   ÁÆTLUN     ÁÆTLUN
         1999     2000     2001     2002
Menningar-, menntamál og rannsóknir     328.705     336.488     336.488     336.488
    Menningarsamstarfið     142.485     143.381     141.555     141.555
    Menntamál og rannsóknir     186.220     192.087     191.852     188.295
    Upplýsingatækni     0     1.020     1.020     1.020
     Ekki á fjárlögum miðað við óbr. ramma               2.061     5.618
    
         FJÁRLÖG     FJÁRLÖG     FJÁRLÖG     FJÁRLÖG
                   ÁÆTLUN     ÁÆTLUN
         1999     2000     2001     2002
Umhverfis- og auðlindamál og grannsvæðin     182.522     182.061     182.061     182.061
    
Grannsvæðin     65.554     66.708     66.708     66.708
    Orkumál     4.386     6.120     6.120     6.120
    Umhverfismál     40.890     39.392     39.392     39.392
    Efnahags- og fjármál     11.016     11.102     11.102     11.102
    Byggðamál     29.940     29.130     29.130     29.130
    Samgöngur     254     264     264     264
    Landbúnaður og skógrækt     23.161     22.156     23.082     23.082
    Sjávarútvegur     7.321     7.189     7.189     7.189
     Ekki á fjárlögum miðað við óbr. ramma               -926     -926

    Velferðar- og atvinnumál     142.213     142.521     142.521     142.521
    
Vinnumarkaður og vinnuumhverfi     13.554     13.185     13.185     13.185
    Félags- og heilbrigðismál     35.325     34.218     34.218     34.218
    Jafnrétti     7.435     7.377     7.377     7.377
    Samstarf í vímuefnamálum     614     1.136     1.136     1.136
    Aðgerðir í velferðarmálum     1.739     5.090     10.614     10.614
    Atvinnulíf     68.676     65.695     65.069     65.069
    Bygginga- og húsnæðismál     818     834     834     834
    Neytendamál     7.834     8.501     8.501     8.501
    Matvæli     5.348     5.210     5.210     5.210
    Löggjöf á sviði dómsmála     870     1.275     1.275     1.275
     Ekki á fjárlögum miðað við óbr. ramma               -4.898     -4.898
     Önnur starfsemi     78.868     80.442     80.442     80.442
    
Önnur starfsemi samtals     78.868     80.442     81.915     81.915
     Ekki á fjárlögum miðað við óbr. ramma               -1.473     -1.473
     SAMTALS     732.308     741.512     741.512     741.512
    Ekki á fjárlögum miðað við óbr. ramma               
-5.236     -1.679

Samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við frjálsu félagasamtökin.
    Stefna Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf við frjálsu félagasamtökin, sem lögð var fram á þingi Norðurlandaráðs í Ósló, er ætlað
          að auka þekkingu á hlutverki frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum,
          að efla möguleika samtakanna og tengslanetanna á norrænu samstarfi,
          að efla möguleika frjálsra félagasamtaka á samstarfi við opinberan hluta norræns samstarfs, efla tengslin, árangurinn og þekkingarlega víxlverkun milli Norrænu ráðherranefndarinnar og frjálsra félagasamtaka og
          að auka samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar og frjálsra félagasamtaka alls staðar á Norðurlöndum til að skapa forsendur fyrir því að nýjum aðilum gefist kostur á þátttöku í norrænu samstarfi.
    Í framkvæmdaáætlun stefnunnar, sem einnig er fylgt eftir í fjárlögum ársins 2000, er áætlun um gagnkvæmar skiptiheimsóknir fyrir fulltrúa frá frjálsum félagasamtökum, um ferðastyrki, styrki vegna túlkunar, samstarf um þróun borgarasamfélagsins á grannsvæðunum, samnorrænar rannsóknir, svo og sérstakt framlag af hálfu Norræna menningarsjóðsins.
    Enn fremur eiga sér að staðaldri stað umræður á mörgum sviðum samstarfsins um hvernig stuðla megi að eða stofna til aukinna tengsla við frjáls félagasamtök og í fjárlögum ársins 2000 eru upplýsingar um þetta.
    Árið 1998 veitti Norræna ráðherranefndin í þriðja sinn myndarlegan styrk til „Norræna þjóðfundarins“ sem fram fór í Kristianssand. Meðal meginviðfangsefna á fundinum var hvernig tryggja megi stöðuga viðræðu við frjálsu félagasamtökin og þær kröfur sem gerðar eru um áhrif þeirra á ríkisstjórnarsamstarfið.
    Í samræmi við vilyrði sem veitt var í lok „þjóðfundarins“ heldur Norræna ráðherranefndin ráðstefnu með þátttöku fulltrúa margs konar frjálsra félagasamtaka, þar sem samstarfstengslin verða skýrð og treyst, á grundvelli þeirra samstarfsmöguleika sem fyrir hendi eru við upphaf 21. aldarinnar.
    Viðræður um stöðu og þróunarmöguleika í samstarfi við Norrænu félögin voru hafnar á málþingi strax fyrir áramótin. Meðal umræðuefna var starfsemi Norrænu félaganna í hlutverki skipuleggjanda eða stjórnanda verkefna sem Norræna ráðherranefndin fjármagnar en félögunum hefur nú verið falin framkvæmd NORDPLUS-mini — tilraunaverkefni í nemendaskiptum í yngstu bekkjum grunnskóla.
    Margbreytileiki frjálsu félagasamtakanna er styrkur þeirra, en hann veldur því jafnframt að örðugt getur reynst að skilgreina starfið og greina hversu miklu fjármagni er varið til samstarfsins. Með þessum fyrirvara metur Norræna ráðherranefndin það svo að í fjárlögum fyrir árið 2000 sé varið um 68 millj. d.kr. til frjálsra félagasamtaka.
    Eftirfarandi tafla sýnir hvaða fjárlagaliðir innihalda framlög til frjálsra félagasamtaka. Tilgreind fjárhæð er byggð á mati á væntanlegu umfangi starfseminnar í samstarfi eða í tengslum við frjáls félagasamtök árið 2000 á grundvelli reynslu fyrri ára. Eðli málsins samkvæmt er því ekki um nákvæmt uppgjör að ræða.

SVIÐ     LIÐUR NR.     HEITI FJÁRLAGALIÐAR     þús. d.kr.     SVIÐ

MENNINGARSVIÐIÐ     
1-2204-2     Ráðstöfunarfé - Menning     250     
Samtala 30.303     1-2205-1     Norræni menningarsjóðurinn     10.000
    1-2210-2     Norrænt íþróttasamstarf     1.000     Íþróttasamtök
    1-2212-2     Norræna æskulýðsnefndin     4.000     Samtök barna                    og ungmenna
    1-2214-2     Stjórnarnefndin (BUK)     2.000     Félög, stofnanir                     o.fl.     
    1-2220-2     KM-hópurinn     250     
    1-2224-2     Forgangsverkefni á sviði
         kvikmynda og fjölmiðla     1.200     Filmkontakt                    Nord
    1-2228-3     NORDICOM     200     
              1-2230-2     NORDBOK     50     Norrænu félögin     
    1-2234-2     Menningarstarfsemi Sama     2.500     Frjáls                    félagasamtök                    Sama og                    listamenn
    1-2231-1     SLEIPNIR     3.000     Ferðastyrkir                    listamanna
    1-2246-2     Listamannaheimilið í Róm     653     Dvöl listamanna     
    1-2255-3     Leiklist og dans     800     Áhugamanna                    leikfélög
    1-2256-3     NOMUS     1.000     Orkester                    Norden
    1-2257-3     Norræna listamannamiðstöðin     700     Dvöl
         Dalsåsen          listamanna

SVIÐ     LIÐUR NR.     HEITI FJÁRLAGALIÐAR     þús. d.kr.     SVIÐ

    1-2258-3     NIFCA     1.400     Óháðir                    listamenn
    1-2270-3     Norræna húsið í Reykjavík     250     
    1-2272-3     Norðurlandahúsið í Færeyjum     250     
    1-2274-3     Norræna stofnunin á Álandseyjum     150     
    1-2277-3     Norræna stofnunin á Grænlandi     150     
    1-2296-2     Menningarverkefni á erlendri grund     500

    
MENNTAMÁL OG     1-2514-1     Vestnorrænu nemendaskiptin     1.671     Norrænu
RANNSÓKNIR:     
              félögin
Samtala     18.145     1-2526-1     NORDPLUS-mini     3.251     Norrænu
                   félögin
         
1-2520-2     FOVU     1.600     Fræðslu                         sambönd o.fl.
         1-2522-1     Styrkjakerfi FOVU     5.900     Fræðslu                    sambönd,                    lýðháskólar
    1-2524-3     Nordens Folkelige Akademi     2.400     Fræðslu                    sambönd/
                   lýðháskólar
    1-2534-2     Nordisk Sommeruniversitet     1.023     -
    1-2543-1     NORDMÅL     1.300     Norrænu félögin     
    1-2552-2     IDUN     1.000     Fræðslu                    sambönd o.fl.

SJÁVARÚTVEGUR:     2-6610-2     Verkefnafé - sjávarútvegur     680     Samtök
         Samtala     680                   sjávarútvegsins     
                             

NEYTENDAMÁL:          
3-6710-2     Verkefnafé - neytendamál     925     Samtök
Samtala     925                    neytenda o.fl.

VINNUMARKAÐUR OG     
3-4120-2     Nordjobb     2.817     Norrænu félögin
VINNUUMHVERFI     
                   
Samtala     2.817                    

JAFNRÉTTI:          
3-4410-2     Verkefnafé - jafnrétti     300     
Samtala     300                    

ÖNNUR STARFSEMI     4-0410-2     Samband Norrænu félaganna     2.760     Norrænu félögin     
Samtala     3.692     4-0450-2     Stuðningur við frjálsu félögin     932     Sviðið almennt     

GRANNSVÆÐA-          
2-0810-3/          11.300     Frjáls samtök,
ÁÆTLUNIN          
2-0860-2               ferða- og náms-
     Samtala      11.300                    dvalarstyrkir

SAMTALS FRJÁLSU FÉLAGASAMTÖKIN HJÁ NORRÆNU     
68.162
RÁÐHERRANEFNDINNI               
    

     Stjórn Norræna menningarsjóðsins hefur skilgreint frjálsu félagasamtökin sem forgangssvið en ekki hefur verið talið ráðlegt að forgangsráða undirverkefnum.
    Stór hluti fjárveitinga ráðherranefndarinnar á sviði barna og ungmenna rennur til frjálsra félagasamtaka. Samkvæmt samþykktum Norrænu æskulýðsnefndarinnar skal 80% af fjárhagsáætlun nefndarinnar varið til norrænna ungmennasamtaka, annað hvort í formi verkefnastyrkja eða styrkja til samtaka.
    Á sviði menningarmála er að öðru leyti varla mögulegt að draga nákvæm mörk á milli frjálsra félagasamtaka og frjálsrar listastarfsemi. Á þessum forsendum tengist mikill hluti samstarfsins á listasviðinu frjálsum félagasamtökum. Á listasviðinu beinist styrkurinn einkum að verkefnum og atvinnu- og þróunarmöguleikum óháðra listamanna í formi ferðastyrkja og aðgangs að vinnuaðstöðu. Á leiklistarsviði er starfsemi áhugaleikhúsa almennt styrkt.
     Stjórnarnefndin um alþýðumenntun og fullorðinsfræðslu, FOVU, hefur vænlegt samstarf við notendahópana, m.a. fræðslusambönd og félög lýðháskóla. Samtökin taka þátt í beinum verkefnum, t.d. Þróun lýðræðis árið 2000 þar sem FOVU hefur veitt 1,4 millj. d.kr. til tilraunaverkefna í samstarfi vísindamanna og notendaumhverfa. Innan styrkjafyrirkomulagsins er eyrnamerkt framlag til samtaka norrænna fræðslusambanda (heildarframlag 2,2 millj. d.kr.) og einnig fer obbinn af öðrum verkefnafjármunum til verkefna hjá notendahópunum.
    Norræni lýðháskólinn vinnur að því að koma norræna alþýðufræðslukerfinu fyrir innan þess umbótastarfs sem er í gangi á sviði framhalds- og endurmenntunar. Mikilvægt áherslusvið hefur því verið að mennta sérfræðinga sem efla tilrauna- og þróunarstarf á sviðinu milli norrænna félagasamtaka, stjórnvalda, hins formlega menntakerfis og atvinnulífsins.
    Innan grannsvæðaáætlunarinnar hefur þjálfun sjálfboðaliða til forystustarfa farið fram með undirbúningsnámi í Eystrasaltsríkjunum, námskeiðum á Norræna lýðháskólanum og starfsdvöl hjá frjálsum félagasamtökum og stofnunum á Norðurlöndum. Tengslanet frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum hefur síðan 1997 verið vettvangur reynslumiðlunar og þátttakendum fjölgar enn. Eftir 1999 flyst obbinn af starfseminni til Eystrasaltsríkjanna. Aðalábyrgðin verður hjá regnhlífarsamtökum á sviði fullorðinsfræðslu í Eystrasaltsríkjunum og sérstök áhersla verður lögð á menntun forystumanna úr margvíslegum frjálsum félagasamtökum fyrir einstök svæði og einstaka staði. Af hálfu Eystrasaltsríkjanna er lögð rík áhersla á að þau fái ótvírætt hlutverk sem aðilar að þessu starfi. Eins hefur af þeirra hálfu verið lýst yfir áhuga á að vera með sem þátttakendur í þeirri starfsemi sem beinist að Norðvestur-Rússlandi. Norræna ráðherranefndin hefur síðan 1993 veitt styrki til ungs fólks frá Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur-Rússlandi gegnum Nordpraktik-áætlunina til starfsdvalar í norrænum fyrirtækjum í því skyni að auka hæfni þeirra. Østjob-verkefnið hefur þann tilgang að senda ungmenni frá Norðurlöndum til starfsdvalar á grannsvæðunum. Norrænu félögin skipulögðu báðar áætlanir.
    Á sviði neytendamála er unnið í samstarfi við frjáls félagasamtök í Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur-Rússlandi að því að fylgja eftir framkvæmdaáætlun varðandi stofnun neytendasamtaka á grannsvæðunum.
    Árið 1999 var 2 millj. d.kr. veitt af grannsvæðaáætluninni til fjármögnunar á þátttöku frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi í samstarfi á vegum staðardagskrár 21 fyrir Eystrasalt sem varðar framkvæmdaáætlun fyrir Eystrasaltssvæðið. Ráðherranefndin hefur bæði árið 1998 og 1999 veitt ýmsum frjálsum félagasamtökum, svo sem Union of Baltic Cities, Coalition Clean Baltic, Baltic Sea Tourism Commission og Taiga Rescue Network, styrki til verkefna sem varða framkvæmd áætlana innan einstakra sviða framkvæmdaáætlunarinnar á sviði samgangna, orkumála, atvinnulífs, landbúnaðar og skógræktar og sjávarútvegs. Einnig er gert ráð fyrir að veita frjálsum félagasamtökum styrki árið 2000.
    Af hálfu umhverfisgeirans hefur í tengslum við mat á norrænu umhverfisáætluninni hefur mörgum frjálsum félagasamtökum verið boðin þátttaka í samstarfinu. Þetta var gert í ljósi þess að umhverfisverndarsamtök eru mjög virkar í alþjóðlegum viðræðum en hafa fram að þessu ekki tekið mikinn þátt í norrænu umhverfissamstarfi. Á umhverfissviði er vonast til að þetta frumkvæði leiði til þess að frjáls félagasamtök taki meiri þátt í umræðunni um norrænt umhverfissamstarf.
    Á sviði jafnréttismála hefur verið öflugt samstarf við frjáls félagasamtök — einkum kvennasamtök og tengslanet kvenna. M.a. hefur þátttaka ýmissa regnhlífarsamtaka í norrænum og alþjóðlegum ráðstefnum verið fjármögnuð. Vaxandi samstarf við grannsvæðin og þátttaka kvennasamtaka í óformlegum tengslum evrópskra kvenna (EWL) gera nýjar kröfur til samtakanna og eykur nauðsyn aukinnar norrænnar samhæfingar og fjármögnunar.
    Á sviði neytendamála er fyrir hendi föst ráðgjafarstofnun, Norræna neytendanefndin (NKU), sem fyrst og fremst er norrænn vettvangur neytendasamtaka. Neytendasamtökin hafa forystu í sendinefndum einstakra landa þar sem einnig eru vísindamenn og fulltrúar stofnana. NKU er óháð ráðgjafarstofnun ráðherranefndarinnar sem getur sjálf skipulagt starf sitt. Liður í framkvæmd tilmæla Norðurlandaráðs verður stofnun sjóðs árið 2000 en fjárþurfa neytendasamtök geta sótt um styrki þar vegna þátttöku í undirbúningi funda.

Starfsemi í þágu barna og ungmenna.
    Á flestum sviðum samstarfsins er starfsemi í þágu barna og ungmenna. Almennt má skipta starfseminni í fjóra meginflokka:
          Þekking á aðstæðum barna og ungmenna.
          Þróun þjónustukerfis á norrænum vettvangi og á landsvísu.
          Beinar aðgerðir, sem beinast að börnum og ungmennum bæði á Norðurlöndum og á grannsvæðunum.
          Verkefni á sviði barna- og unglingamenningar. Barna- og unglingamenning er bæði sú menning sem börn og ungmenni skapa sjálf og sú menning sem fullorðnir skapa handa börnum og ungmennum.
    Hvað varðar þekkingarleitina beinist starfsemin aðallega að rannsóknum. Þær varða allt frá tilteknum verkefnum á borð við norræna úttekt á þekkingu á aðstæðum barna og ungmenna innflytjenda, eða mótun vísbendinga um lífskjör barna og ungmenna til almennari verkefna á borð við skipulagða rannsóknaráætlun um velferðarsamfélögin norrænu út frá evrópsku sjónarhorni eða hina fyrirhuguðu norrænu æskulýðsrannsóknaráætlun.
    Þróun þjónustukerfis nær til fjölmargra aðgerða af margvíslegu tagi sem eiga sér stað í nemendaskiptaáætlunum, í norrænum stofnunum, einkum á sviði menningar og menntamála, og til sértækari verkefna, svo sem t.d. verkefnisins um gæðaþróun í félagsþjónustu sveitarfélaga á Norðurlöndum sem beint er að börnum og ungmennum. Norrænn samræmingaraðili starfar m.a. að því að auka gæði og þvervísindalegt samstarf í rannsóknum á málefnum unglinga á landsvísu og á norrænum vettvangi og að örva tengslanet í hverju landi. Ráðherranefndin styður einnig þverfaglegt tengslanet rannsóknaraðila á sviði barnamenningar.
    Með beinum aðgerðum er sérstaklega átt við verkefni sem hrint er í framkvæmd samkvæmt aðgerðaáætlun fyrir börn og ungmenni á grannsvæðum Norðurlanda. Þótt þeim sé einkum beint að grannsvæðunum er einnig ætlunin að þau eigi að ná til norrænna barna og ungmenna fyrir tilstilli ýmissa samskipta- og nemendaskiptaáætlana. Á sviði menningar og menntamála er unnið að verkefnum og aðgerðum sem tengjast framkvæmdaáætluninni „Norræn framtíð“. Hún fjallar um norrænt barna- og ungmennamenningarsamstarf 1996- 2000. Samkvæmt henni skulu allar norrænar stofnanir á menningarsviðinu vinna að málefnum barna og ungmenna.
    Á sviði neytendamála eru að staðaldri í gangi verkefni sem beint er til barna og ungmenna sem neytenda. Á undanförnum árum hafa verið framkvæmd verkefnin: Prófun tæknilegra öryggiskrafna varðandi vörur sem ætlaðar eru börnum, Norrænt-evrópskt tengslanet varðandi neytendafræðslu í skólum, Ráðstefnan Frá unglingum til unglinga, Neytendafræðsla í menntun kennara og Sameiginlegt norrænt frumkvæði gagnvart ESB um reglur varðandi markaðssetningu á sviði upplýsingatækni sem beinist að börnum og ungmennum.
    Í nánustu framtíð verður lögð áhersla á starfið að framkvæmdaáætluninni í menningarmálum og framkvæmdaáætluninni fyrir grannsvæðin. Í lok ársins 2000 skal liggja fyrir tillaga á vegum ráðherranefndarinnar um hvernig haga beri æskulýðsstarfinu í framtíðinni.
    Eftirfarandi tafla sýnir á hvaða fjárlagaliðum er gert ráð fyrir framlögum til æskulýðsmála. Börn eru talin börn þar til þau verða fullra 18 ára en þannig eru þau skilgreind í skilgreiningu SÞ sem stuðst er við í framkvæmdaáætlun ráðherranefndarinnar. Ungmenni eru aldurshópurinn til og með 25 ára. Þetta ásamt því að fjárframlögin eru miðuð við fyrirhugað umfang framlaga í þágu barna og ungmenna árið 2000 merkir að taflan sýnir mat en ekki nákvæmt uppgjör.

SVIÐ          FJÁRL. NR.     HEITI FJÁRLAGALIÐAR     FJÁRHÆÐ
MENNINGARSVIÐIÐ:          
1-2204-2     Ráðstöfunarfé - Menning      500
Samtala     33.840     1-2205-1     Norræni menningarsjóðurinn     5.000
              1-2210-2     Norrænt íþróttasamstarf     1.000
              1-2212-2     Norræna æskulýðsnefndin     5.000
              1-2214-2     Stjórnarnefndin (BUK)     5.500
              1-2216-2     Börn og ungmenni við árþúsundamót     1.000
              1-2220-2     KM-hópurinn     500
              1-2222-1     Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn     7.600
              1-2224-2     Forgangsverkefni á sviði kvikmynda og fjölmiðla     1.000               1-2230-2     NORDBOK     1.000               1-2234-2     Menningarstarfsemi Sama     300               1-2239-2     Norræna menningararfleifðin     300               1-2255-3     Leiklist og dans     1.000               1-2256-3     NOMUS     1.000               1-2270-3     Norræna húsið í Reykjavík     500               1-2272-3     Norðurlandahúsið í Færeyjum     340               1-2274-3     Norræna stofnunin á Álandseyjum     150
              1-2277-3     Norræna stofninin á Grænlandi     150               1-2296-2     Menningarverkefni á erlendri grund     2000          
RANNSÓKNIR OG          
1-2510-1     NSS     4.911
MENNTAMÁL:          1-2512-1     NORDPLUS-junior     9.180      Samtala     29.655     1-2514-1     Nemendaskipti Vestur-Norðurlönd     1.671               1-2516-1     NORDPLUS-mini     3.251               1-2542-2     NORDKURS     1.842               1-2543-1     NORDMÅL     5.500               1-2548-3     NIFIN     2.300               1-2552-2     IDUN     1.000     
    
SJÁVARÚTVEGUR:          
2-6610-2     Verkefnafé - sjávarútvegur     200     
Samtala     200                    
NEYTENDAMÁL:          
3-6710-2     Verkefnafé - neytendamál     200
Samtala     200               
HEILBRIGÐIS- OG          
3-4310-2     Verkefnafé     500
    
FÉLAGSMÁL:          
3-4620-2     Velferðarrannsóknir     2.000
     Samtala     2.500               

     SVIÐ          FJÁRL. NR.     HEITI FJÁRLAGALIÐAR     FJÁRHÆÐ
GRANNSVÆÐA-          
2-0830-2     Lýðræðismál og stefna í málefnum íbúa     2.000
ÁÆTLUNIN:
                   
     Samtala     2000               
SAMTALS STARFSEMI VEGNA BARNA OG UNGMENNA HJÁ NORRÆNU     68.395     RÁÐHERRANEFNDINNI                         
    
Aðgerðir á sviði rannsókna og vísinda.
    Miðað við það sem varið er til rannsókna- og þróunarstarfsemi (FoU) á landsvísu eru fjárveitingar til norræns samstarfs á þessu sviði takmarkaður. Því þarf að samhæfa og samræma norræna FoU-starfið stefnu og forgangsverkefnunum í aðildarlöndum samstarfsins. Rannsókna- og þróunarstarfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar er ætlað að stuðla að því að örva og þróa norrænt samstarf, gera sýnileg norræn forgangsverkefni og auka gæði og vægi samstarfsins.
Norrænt FoU-samstarf er almennt ætlað að stuðla að því að:
          efla norræna menningarvitund, þróa norræna samfélagsuppbyggingu og stuðla að vistvænni og sjálfbærri samfélagsþróun.
          nýta sérstakar norrænar forsendur, svo sem landfræðilega nálægð, styrk og hæfni atvinnulífsins og vísindasamfélagsins, svo og norrænt gildismat sem endurspeglast í þeim sérstaka svip sem tungumál, menning, saga og landafræði glæða Norðurlöndin.
          skapa norrænan virðisauka í tengslum við átakssvið í einstökum löndum og taka þátt í forgangsverkefnum hinna einstöku landa.
          byggja upp samkeppnishæft, endurnýjanlegt og sjálfbært atvinnulíf.
    Samstarfinu er skipt á sameiginlegar norrænar rannsóknarstofnanir, tímabundnar rannsóknaráætlanir og styrkjafyrirkomulag til menntunar vísindamanna og hreyfanleika þeirra. Rannsóknarstofnanirnar eru oft afar sérhæfðar þekkingarmiðstöðvar sem bera ábyrgð á samræmingu og eflingu rannsókna og uppbyggingu þekkingar.
    Norðurlandaráð hefur áður lagt til að tilteknar stofnanir skuli hverfa af norrænu fjárlögunum og ráðið hefur óskað eftir nánari lýsingum á þeim. Greinargerð um þetta verður skilað í tengslum við svörin við tilmælum ráðsins.
     Norrænu rannsóknaráætlununum er ætlað að stuðla að því að:
         
efla hreyfanleika vísindamanna, menntun þeirra og hæfni og uppbyggingu og myndun tengslaneta.
          útvega fjármuni innanlands til þátttöku í fjármögnun norrænna aðgerða.
          stuðla að verkaskiptingu og sérhæfingu á Norðurlöndum.
          efla norræna þátttöku í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi á sviði rannsókna og þróunar.

    Hlutverk Norrænu vísindastefnuáætlunarinnar er að stuðla að samræmingu framlags af hálfu Norðurlanda. Mælt var með áætluninni af Norðurlandaráði á 50. þingi þess í nóvembermánuði 1998 og hún samþykkt af ráðherrum menntamála og rannsókna (MR-U) og af samstarfsráðherrunum (MR-SAM). Ráðist var í framkvæmd áætlunarinnar árið 1998 með tilmælum ráðherra menntamála og rannsókna til samstarfsráðherranna um nýtt framtak á sviði vísindarannsókna. Norræna vísindastefnuráðið (FPR) ber í framtíðinni ábyrgð á samræmingu og undirbúningi starfsins. Nú hefur verið komið á kerfisbundnu upphafsferli norrænna rannsóknastarfa með greinilegri skiptingu ábyrgðar milli stjórnmálasviðs, vísindaráðgjafar og beinna vísindastarfa. Komið hefur verið á sveigjanlegu fjármögnunarkerfi og árlega skila ráðherrar á sviði menntamála og rannsókna yfirliti og heildarfjárlagafrumvarpi vegna starfsemi á sviði rannsókna- og þróunarmála til samstarfsráðherranna.
    Vísindastefnuráðið á árið 2000 að samræma það samstarf sem nær til margra sviða. Samþykktum ráðsins og skipan þess var því breytt miðað við 1. apríl í því skyni að leggja áherslu á kynningu fagsviðanna. Liður í ferlinu verður að Vísindastefnuráðið lýsir kerfisbundið eftir tillögum að nýjum verkefnum í heimi vísindamanna og á fagsviðunum. Í samskiptum sínum við fagsviðin leggur Vísindastefnuráðið áherslu á þau svið þar sem mótaðar eru tillögur sem tilbúnar eru til að leggja fram og taka pólitíska ákvörðun um.
    
    Yfirlit yfir vísindaverkefni sem eru hafin eða hafa verið lögð til vegna tímabilsins 1997- 2004 í þús. d.kr.:

Rannsóknaráætlanir     1997     1998     1999     2000     2001     2002     2003     2004

Norræn umhverfis-     25.041                                   
rannsóknaráætlun     


Norðurskautsefni     
3.060                                   
á sviði hugvísinda

Norðurlönd og Evrópa     
6.120     6.947     10.093     5.936                    

Tengslanet um þjóðhætti     
2.448     2.193     2.000     1.067     1.067     

Norðurskautsrannsóknir          
6.120     500     6.120     6.120     6.120     5.610     

Velferðarrannsóknir               
1.637     4.476     10.000     10.000     10.000     10.000

Kynferðislegt ofbeldi                    
3.570     3.570     3.570     3.570     3.570

Tungutækni                    
3.570     3.570     3.570     3.570     3.570

Nýjar áætlanir                         
5.673     6.740     7.250     12.860

Samtals     36.669     15.260     14.230     24.739     30.000     30.000     30.000     30.000


Skipting fjárlaganna eftir sviðunum þrem.
Samstarfið um innri málefni Norðurlandanna.
    Gert er ráð fyrir að umfang samstarfsins á svonefndu Norðurlandasviði verði á grundvelli heildarmats óbreytt miðað við árin 1998 og 1999, þar eð einnig er gert ráð fyrir að verja um 71% af fjárlögum Norrænu ráðherranefndarinnar til innra norræns samstarfs.
    Þannig er staðið við þá tilfærslu milli sviðanna til hagsbóta fyrir grannsvæðin, sem m.a. Norðurlandaráð hefur óskað eftir.
    Tiltölulega óbreytt skipting heildarfjárlaga felur hins vegar í sér andstæðar hreyfingar innan sviðanna, enda er hinn hefbundni stóri norræni hlutur samstarfs á sviði menntamála og rannsókna og félags- og heilbrigðismála að dragast saman til hagsbóta fyrir grannsvæðasamstarfið en þessu er öfugt farið á sviði umhverfismála og atvinnumála.
    Menningarsamstarfið ber áfram sterkan norrænan svip og árið 2000 er einnig gert ráð fyrir að 87% fjárveitinganna verði varið til innra samstarfs Norðurlandanna.
    
Samstarf við grannsvæði Norðurlanda.
    Talið er að 146 millj. d.kr. verði varið í samstarf við grannsvæðin. Þar af tekur grannsvæðaáætlunin til sín 66.708 þús. d.kr. Í samanburði við fjárlög ársins 1999 og niðurstöður ársins 1998 gefur þetta til kynna að heildarumfang samstarfs við grannsvæðin verði á við það sem verið hefur.
    Utan sjálfrar grannsvæðaáætlunarinnar er megnið af verkefnunum í málaflokknum á sviði menntamála, rannsókna og menningar. Á sviði umhverfis- og orkumála gera menn einnig ráð fyrir mikilli starfsemi á grannsvæðunum. „Ný“ svið í grannsvæðasamstarfinu eru upplýsingatækni og löggjöf en á síðarnefnda sviðinu er starfsemi á grannsvæðunum að færast í aukana. Á hinn bóginn er reiknað með verulegum samdrætti í grannsvæðasamstarfinu á sviði efnahags- og fjármála.

Samstarf um Evrópumál.
    Samstarf ráðherranefndarinnar varðandi Evrópu/EES er samtvinnað öðru starfi sem fer fram innan einstakra geira. Ekki er starfað eftir neinni eiginlegri Evrópuáætlun um heildarstarfsemi ráðherranefndarinnar. ESB-málefnum er aftur á móti oft veittur forgangur í framkvæmda- og samstarfsáætlunum geiranna.
    Samstarfið á ESB-sviðinu er aðallega í formi pólitískrar umræðu sem ekki byggir á fjárveitingum svo nokkru nemi og þetta eðli samstarfsins endurspeglast í heildarfjárlögunum. Innan einstakra geira er samstarfið þannig í miklum mæli fólgið í norrænu samráði og miðlun upplýsinga við undirbúning og framkvæmd ESB-tilskipana og áætlana.
    Norrænum verkefnum sem snúa að viðfangsefnum tengdum ESB/EU hefur þó verið gefinn forgangur á mörgum samstarfssviðanna.
    Árið 2000 mun Evrópusamstarfið þróast áfram. Á þeim sviðum sem samkvæmt hefðinni eru talin þung á Evrópusviðinu, svo sem neytenda- og matvælasvið, er einnig á árinu 2000 varið milli 40–44% fjárveitinganna á sviðinu til Evrópusviðsins. Annað svið þar sem Evrópusamstarfið hefur verið mikilvægt er umhverfissviðið en innan þess verður um 34% fjárveitinganna varið til verkefna sem tengjast ESB. Á sviði orkumála er einnig gert ráð fyrir að viðhalda þeim góðu tengslum sem þróuð hafa verið við framkvæmdastjórn ESB í samstarfinu við Eystrasaltssvæðið. Annað og tiltölulega nýtt svið innan ramma ráðherranefndarinnar er vímuefnasamstarfið sem á árinu 2000 verður eflt við Evrópu, einkum í því skyni að skiptast í auknum mæli á upplýsingum við eftirlitsstöð ESB í Lissabon varðandi misnotkun vímuefna. Um 25% af fjárveitingunum er varið til Evróputengdrar starfsemi.

    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í kjölfar þeirra umbóta sem gerðar hafa verið á norrænu samstarfi á síðustu árum, hefur verið unnið víðtækt stefnumótandi starf innan norræna kerfisins. Það hefur ekki einungis beinst að sviðunum þrem, heldur hefur verið gerð tilraun til að móta hentuga starfshætti fyrir verkefni sem eru pólitískt áhugaverð. Pólitískar áherslur eru breytilegar frá einum tíma til annars og full ástæða er til þess að leitast við að endurspegla í norrænu fjárlögunum þau pólitísku samstarfssvið sem eru ný.
    Þau samstarfssvið sem kynnt eru í fjárlagafrumvarpinu endurspegla starfshættina á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Eftirfarandi skipting er notuð:
          Menning, menntamál og rannsóknir ásamt starfi á sviði upplýsingatækni
          Umhverfis- og auðlindamál (þar á meðal grannsvæðin)
        nær til sviðanna: umhverfismál, efnahags-/fjármál, byggðamál, orkumál, samgöngur, sjávarútvegsmál, landbúnaður og skógrækt
         
Velferðarmál og iðnaðar- og atvinnumál
    
    nær til sviðanna: félags- og heilbrigðismál, vímuefnamál, neytendamál, matvæli og löggjöf, iðnaðar- og atvinnumál, bygginga- og húsnæðismál, vinnumarkaður, vinnuumhverfi og jafnrétti
          Annað

Skipting fjárlaga 2000 á hin ýmsu samstarfssvið


(Breytingar í samanburði við árið 1999 innan sviga)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tekjuliðir fjárlaga.
    Starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar er að langmestum hluta fjármögnuð með beinum framlögum frá löndunum en skipting þeirra er ákveðin samkvæmt sérstakri skiptireglu. Skiptireglan miðast við hlutdeild hlutaðeigandi lands í vergum þjóðartekjum á Norðurlöndum miðað við framleiðsluverð tveggja síðustu ára sem upplýsingar liggja fyrir um, sem nú eru 1996 og 1997.

Tekjuliðir,     Reikningur     Skiptiregla     Fjárlög     Skiptiregla     Fjárlög     Skiptiregla
þús. d.kr.     1998     1998     1999     1999     2000     2000
Launatengd gjöld     8.147          7.000          7.000     
Vaxtatekjur     12.725          10.500          7.000     
Aðrar tekjur
/(e.t.v. tap)     1.045          800          800

Framlög ríkjanna     698.631          714.008          726.712     
Þar af:                              
- Danmörk     173.260     24,8 %     182.072     25,5 %     181.678     25,0 %
- Finnland     122.959     17,6 %     126.379     17,7 %     129.355     17,8 %
- Ísland     6.987     1,0 %     7.140     1,0 %     7.267     1,0 %
- Noregur     151.603     21,7 %     154.940     21,7 %     163.510     22,5 %
- Svíþjóð     243.822     34,9 %     243.477     34,1 %     244.902     33,7 %
Samtals:     720.548     100,0%     732.308     100,0%     741.512     100,0%
- afgangur     3.616                         
hreinar tekjur     716.932                    

Athugasemdir:     
Launatengd gjöld varðar gjaldskylda launafjárhæð starfsmanna á skrifstofunni.

Vaxtatekjur:
    Reiknað er með vaxtatekjum að fjárhæð 7 millj. d.kr., sem eru reiknaðar á grundvelli væntanlegra meðalvaxta fjárfestinga sem nema 2,8% árið 2000 og meðalgreiðslugetu á því ári sem nemur 250 millj. d.kr. Meginástæðan er sú að um þessar mundir eru vextir sögulega lágir en það veldur því að ekki má gera ráð fyrir jafn háum vaxtatekjum og árið 1999.

Aðrar tekjur:
    Undir þennan tekjulið færast endurgreiðslur verkefnafjármuna frá ýmsum stjórnsýslustofnunum og óráðstafað fjármagn stofnananna frá fyrri árum.

Samanburður á fjárlögum 2000 og 1999.

1999-verð í þús. d.kr.     Fjárlög     Fjárlög          Mismunur
         2000     1999     +/-     %
Menningar-, menntamál og rannsóknir;     336.488     328.705     7.783     2,4%
Samstarf um upplýsingatækni                    
    
Menningarsamstarfið     143.381     142.485     896     0,6%     Menntamál og rannsóknir     192.087     186.220     5.867     3,2%     Samstarf um upplýsingatækni     1.020     0     1.020     -
Umhverfis- og auðlindamál og grannsvæðin     182.061     182.522     -461     -0,3%
                        
    
Umhverfismál     39.392     40.890     -1.498     -3,7%
    Byggðamál     29.130     29.940     -810     -2,7%
    Efnahags- og fjármál     11.102     11.016     86     0,8%
    Orkumál     6.120     4.386     1.734     39,5%
    Landbúnaður og skógrækt     22.156     23.161     -1.005     -4,3%
    Sjávarútvegur     7.189     7.321     -132     -1,8%
    Samgöngur     264     254     10     3,9%
    Grannsvæðin     66.708     65.554     1.154     1,8%
Velferðar- og atvinnumál     142.521     142.213     308     0,2%

    
Félags- og heilbrigðismál     34.218     35.325     -1.107     -3,1%     Matvæli     5.210     5.348     -138     -2,6%
    Neytendamál     8.501     7.834     667     8,5%
    Samstarf í vímuefnamálum     1.136     614     522     85,0%
    Löggjöf á sviði dómsmála     1.275     870     405     46,6%
    Aðgerðir í velferðarmálum     5.090     1.739     3.351     192,7%
    Vinnumarkaður, vinnuumhverfi     13.185     13.554     -369     -2,7%
    Jafnrétti     7.377     7.435     -58     -0,8%
    Bygginga- og húsnæðismál     834     818     16     2,0%
    Iðnaðar- og atvinnumál     65.695     68.676     -2.981     -4,3%
Önnur starfsemi     80.442     78.868     1.574     2,0%
    
SAMTALS     741.512     732.308     9.204     1,3%

Skipting fjárlaganna á stofnanir og verkefni 2000 og 1999.     

1999-verð í þús. d.kr.     2000     Hlutdeild     1999     Hlutdeild
         þús. d.kr.     %     þús. d.kr.     %     
Menning, menntamál og rannsóknir; upplýsinga-
tækni          336.488     45,4%     328.705     44,9%
    
Verkefni, áætlanir og almennt styrkjafyrirkomulag     232.833     69,2%     225.240     68,5%
    Stofnanir     103.655     30,8%     103.465     31,5%
     Umhverfi og auðlindir     182.061     24,6%     182.522     24,9%
    
Verkefni, áætlanir og almennt styrkjafyrirkomulag     135.416     74,4%     138.238     75,7%
    Stofnanir     46.645     25,6%     44.284     24,3%
     Velferðar- og atvinnumál     142.521     19,2%     142.213     19,4%
    
Verkefni, áætlanir og almennt styrkjafyrirkomulag     41.807     29,3%     38.494     27,1%
    Stofnanir     100.714     70,7%     103.719     72,9%
     Annað     80.442     10,8%     78.868     10,8%
    
Verkefni, áætlanir og almennt styrkjafyrirkomulag     20.544     25,5%     20.144     25,5%
    Stofnanir     59.898     74,5%     58.724     74,5%
Alls          741.512     100,0%     732.308     100,0%
    
Verkefni, áætlanir og almennt styrkjafyrirkomulag     430.600     58,1%     422.116     57,6%
    Stofnanir     310.912     41,9%     310.192     42,4%

Yfirfærsla og samruni fjárlagaliða.
    Miðað við fjárlög 1999 eru einstakir fjárlagaliðir færðir yfir og lagðir við aðra fjárlagaliði. Eftirfarandi tafla sýnir hvaða fjárlagaliði þetta varðar og til hvaða fjárlagaliðar yfirfærslan hefur orðið. Síðasti dálkurinn sýnir breytinguna á „nýja“ heildarfjárlagaliðnum miðað við það sem áætlað var á fjárlagaliðunum tveim í heild árið 1999.
    
FJÁRLAGALIÐUR     FÆRT Á          BREYTING
               þús. d.kr.

1-2233-2     Norræna list- og list-     1-2258-3     Norræn stofnun um samtímalist     - 2.531     iðnaðarnefndin (NKKK)     
1-2242-2     Menning og upplýsingatækni     1-2220-2     Stjórnarnefndin fyrir menningar- og     - 409
              fjölmiðlasamstarf     
4-0415-2     Stjórnsýslusamband Norðurlanda     4-0435-2     Vararáðstöfunarsjóður framkvæmdastjóra     + 42
4-0420-2     Norrænt samstarf Sama     1-2234-2     Menningarstarfsemi Sama     0

Tafla með öllum fjárlagaliðum.     

1999-verð í þús. d.kr.     fjárlög     fjárlög     mismunur
          2000     1999     +/-     %

Menningar-, menntamál og rannsóknir;     336.488     328.705     7.783     2,4%     
Samstarf um upplýsingatækni     
                        
    Menningarsamstarfið     143.381     142.485     896     0,6%                         
    Almennt framlag til menningarmála     28.660     27.098     1.562     5,8%
1-2204-2     Ráðstöfunarfé-Menning     3.211     2.148     1.063     49,5%
    þar af: árþúsundamótin      1000               
1-2205-1     Norræni menningarsjóðurinn     25.449     24.950     499     2,0%     
     Börn og ungmenni     13.961     12.988     973     7,5%
    
Verkefnafé og almennt styrkjafyrirkomulag     13.961     12.988     973     7,5%
1-2210-2     Norrænt íþróttasamstarf     1.148     1.125     23     2,0%
1-2212-2     Norræna æskulýðsnefndin     5.728     5.316     412     7,8%
1-2214-2     Stjórnarnefndin um norræna barna- og unglinga-     6.042     5.524     518     9,4%
    menningu     
1-2216-2     Börn og ungmenni við árþúsundamót     1.043     1.023     20     2,0%
     Kvikmyndir og fjölmiðlar     31.662     31.962     -300     -0,9%
    
Verkefnafé og almennt styrkjafyrirkomulag     27.043     27.452     -409     -1,5%
1-2220-2     Stjórnarnefndin um menningar- og fjölmiðlasamstarf     3.322     3.257     65     2,0%
1-2222-1     Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn     19.477     19.095     382     2,0%
1-2224-2     Annað framlag til kvikmynda- og fjölmiðlasamstarfs     4.244     4.604     -360     -7,8%
    á Norðurlöndum     
1-2226-2     Uppbygging framleiðslufyrirtækis     0     496     -496     -100,0%
     Stofnanir     4.619     4.510     109     2,4%
1-2228-3     NORDICOM     1.518     1.482     36     2,4%
1-2229-3     Norræna blaðamannamiðstöðin (NJC)     3.101     3.028     73     2,4%
     Listsviðið     38.496     40.005     -1.509     -3,8%
    
Verkefnafé og almennt styrkjafyrirkomulag     16.328     18.139     -1.811     -10,0%
1-2230-2     Norræna bókmennta- og bókasafnsnefndin     6.888     6.903     -15     -0,2%
    (NORDBOK)     
1-2233-2     Norræna listar- og listiðnaðarnefndin (NKKK)     0     2.669     -2.669     -100,0%
1-2234-2     Menningarstarfsemi Sama     3.817     2.448     1.369     55,9%
1-2238-1     Sleipnir     2.609     2.558     51     2,0%
1-2239-2     Norræna menningararfleifðin     1.566     1.535     31     2,0%
1-2242-2     Menning og upplýsingatækni     0     409     -409     -100,0%
1-2244-1     Sérstök starfsemi á sviði lista     795     491     304     61,9%
1-2246-2     Norræna listamannaheimilið í Róm     653     870     -217     -24,9%
1-2248-2     Lestur á Norðurlöndum     0     256     -256     -100,0%
     Stofnanir     22.168     21.866     302     1,4%
1-2255-3     Leiklist og dans á Norðurlöndum     6.796     6.637     159     2,4%
1-2256-3     Norræna tónlistarnefndin (NOMUS)     5.590     5.656     -66     -1,2%
1-2257-3     Norræna listamannamiðstöðin (Dalsåsen)     1.401     1.404     -3     -0,2%
1-2258-3     Norræna stofnunin um samtímalist     8.381     8.169     212     2,6%
     Norræn menningarhús (stofnanir)     22.288     22.123     165     0,7%
1-2270-3     Norræna húsið Reykjavík     5.766     5.960     -194     -3,3%
1-2272-3     Norðurlandahúsið í Færeyjum     9.607     9.382     225     2,4%
1-2274-3     Norræna stofnunin á Álandseyjum     1.639     1.624     15     0,9%
1-2277-3     Norræna stofnunin á Grænlandi (NAPA)     4.233     4.134     99     2,4%
1-2279-2     Viðhald menningarhúsa     1.043     1.023     20     2,0%
     Annað menningarstarf     8.314     8.309     5     0,1%
    
Verkefnafé og almennt styrkjafyrirkomulag     8.314     8.309     5     0,1%
1-2294-2     Verkefnastarfsemi sem nær til margra sviða     0     0     -     -
1-2296-2     Norræn menningarverkefni erlendis     6.514     6.386     128     2,0%
1-2298-2     Aðgerðir gegn útlendingaandúð     1.596     1.565     31     2,0%
1-2299-2     Menningardagskrá þinglandanna     204     358     -154     -43,0%
1999-verð í þús. d.kr.     fjárlög     fjárlög     mismunur
         2000     1999     +/-     %

     Menntamál og rannsóknir     192.087     186.220     5.867     3,2%
    Almenn mennta- og rannsóknarstarfsemi     1.938     2.278     -340     -14,9%
1-2505-2     Ráðstöfunarfé -Menntamál og rannsóknir     1.938     2.278     -340     -14,9%
     Menntunarsamstarf     86.879     85.225     1.654     1,9%
    Skólasamstarf     19.013     17.130     1.883     11,0%
    
Verkefnafé og almennt styrkjafyrirkomulag     19.013     17.130     1.883     11,0%
1-2510-1     Norrænt skólasamstarf (NSS)     4.911     5.215     -304     -5,8%
1-2512-1     NORDPLUS - junior     9.180     9.090     90     1,0%
1-2514-1     Nemendaskipti á Vestur-Norðurlöndum     1.671     1.638     33     2,0%
1-2516-1     NORDPLUS-mini (tilraunaverkefni)     3.251     1.187     2.064     173,9%
     Alþýðumenntun og fullorðinsfræðsla     15.647     16.332     -685     -4,2%
    
Verkefnafé og almennt styrkjafyrirkomulag     9.498     10.111     -613     -6,1%
1-2520-2     Stjórnarnefndin um alþýðumenntun og fullorðins-     2.550     3.299     -749     -22,7%
    fræðslu (FOVU)          
1-2522-1     Styrkjafyrirkomulag vegna norrænnar alþýðu-     6.948     6.812     136     2,0%
    menntunar og fullorðinsfræðslu     
     Stofnanir     6.149     6.221     -72     -1,2%
1-2524-3     Norræni lýðháskólinn (NFA)     6.149     6.221     -72     -1,2%     
     Æðri menntun     32.370     32.736     -366     -1,1%
    
Verkefnafé og almennt styrkjafyrirkomulag     32.370     32.736     -366     -1,1%
1-2530-2     Stjórnarnefndin um æðri menntun - HÖGUT     1.043     1.023     20     2,0%
1-2532-1     NORDPLUS     30.284     30.690     -406     -1,3%
1-2534-2     Framlag til Norræna sumarháskólans (NSU)     1.043     1.023     20     2,0%
     Tungumálasamstarf     15.810     14.976     834     5,6%
    
Verkefnafé og almennt styrkjafyrirkomulag     10.869     10.266     603     5,9%
1-2540-2     Styrkir til norrænu málnefndanna     1.899     1.862     37     2,0%
1-2542-2     Norræn námskeið í tungumálum og bókmenntum     1.842     1.916     -74     -3,9%
    (NORDKURS)     
1-2543-1     Tungumálasamstarf á Norðurlöndum (NORDMÅL)     6.151     5.530     621     11,2%
1-2545-1     Kennsla um Norðurlönd erlendis     977     958     19     2,0%
     Stofnanir     4.941     4.710     231     4,9%
1-2548-3     Norræna stofnunin í Finnlandi     4.941     4.710     231     4,9%
     Samstarf menntamála- og rannsóknasviðsins á     4.039     4.051     -12     -0,3%
    svíði upplýsingatækni     
1-2550-2     Stefnumótunarhópur ráðherranefndarinnar (MR-U)     510     522     -12     -2,3%
    í upplýsingatækni     
1-2552-2     Upplýsingatækni og tölvukennslufræði í kennslu     3.060     3.069     -9     -0,3%
    (IDUN II)     
1-2554-2     Þróunarverkefnið NORDUnet2     469     460     9     2,0%
     Samstarf um rannsóknir og vísindi     103.270     98.717     4.553     4,6%
    
Verkefnafé og almennt styrkjafyrirkomulag     57.336     52.255     5.081     9,7%
1-3110-2     Norræna vísindastefnuráðið (FPR)     761     2.046     -1.285     -62,8%
1-3115-1     Norræna vísindaakademían (NorFA)     34.962     36.302     -1.340     -3,7%
1-3120-2     Rannsóknaráætlunin Norðurlönd og Evrópa     5.936     10.325     -4.389     -42,5%
1-3125-2     Norrænt tengslanet um þjóðhætti     1.067     2.046     -979     -47,8%
1-3130-2     Norræna Norðurskautsrannsóknaráætlunin     6.120     512     5.608     1095,3%
1-3131-2     Norræn rannsóknaráætlun um kynferðislegt ofbeldi     3.570     -     3.570     -
1-3132-2     Norræn rannsóknaráætlun um tungutækni     3.570     -     3.570     -
1-3135-2     Framkvæmd vísindastefnu     522     512     10     2,0%
1-3140-2     Norræna lífsiðfræðinefndin     828     512     316     61,7%
     Stofnanir     45.934     46.462     -528     -1,1%
1-3180-3     Norræna kjarnfræðistofnunin (NORDITA)     17.464     17.355     109     0,6%
1-3181-3     Norræna sjóréttarstofnunin (NIfS)     2.516     2.521     -5     -0,2%
1-3182-3     Norræna stofnunin um Asíurannsóknir (NIAS)     7.946     7.760     186     2,4%
1-3183-3     Norræna samstarfsnefndin um vísindaupplýsingar     5.174     5.128     46     0,9%
1999-verð í þús. d.kr.     fjárlög     fjárlög     mismunur
         2000     1999     +/-     %

1-3184-3     Norræna eldfjallastöðin (NORDVULK)     6.856     7.705     -849     -11,0%
1-3185-3     Norræna samíska stofnunin (NSI)     5.978     5.993     -15     -0,3%
     Samstarf á sviði upplýsingatækni     1.020     -     1.020     -     
1-3410-2     Verkefnafé - samstarf í upplýsingatækni     1.020     -     1.020     -
Umhverfis- og auðlindamál og grannsvæðin     182.061     182.522     -461     -0,3%
    Grannsvæðin     66.708     65.554     1.154     1,8%     
2-0810-3     Upplýsingastarfsemi og samskipti     11.730     10.200     1.530     15,0%
2-0820-1     Styrkjaáætlunin fyrir Eystrasaltslönd og Rússland     15.402     15.350     52     0,3%
2-0825-2     Nýjar aðgerðir á grannsvæðunum     1.020     -     1.020     -
     Verkefnafé     38.556     40.004     -1.448     -3,6%
2-0830-2     Lýðræði og málefni þegnanna     13.668     15.440     -1.772     -11,5%
2-0840-2     Menningarmiðlun     4.080     3.960     120     3,0%
2-0850-2     Markaðsbúskapur     7.344     7.220     124     1,7%
2-0860-2     Sjálfbær auðlindabúskapur     10.828     11.000     -172     -1,6%
2-0870-2     Norðurskautssamstarf     2.636     2.384     252     10,6%
     Orkumál     6.120     4.386     1.734     39,5%
2-3210-2     Verkefnafé - Orkumál     5.100     3.363     1.737     51,7%
2-3220-2     Norrænar orkurannsóknaráætlanir     1.020     1.023     -3     -0,3%
     Umhverfismál     39.392     40.890     -1.498     -3,7%
2-3310-2     Verkefnafé - umhverfismál     33.357     34.752     -1.395     -4,0%
2-3320-2     Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið     5.321     5.217     104     2,0%
2-3330-2     Norræn auðlindanýting Stuðull 4/10     306     512     -206     -40,2%
2-3340-2     Umhverfisgæðamál     408     409     -1     -0,2%
     Efnahags- og peningamál     11.102     11.016     86     0,8%
2-5210-2     Verkefnafé - Efnahags- og fjármál     1.020     1.023     -3     -0,3%
2-5280-3     Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn (Nopef)     10.082     9.993     89     0,9%
     Byggðasamstarf     29.130     29.940     -810     -2,7%
2-6110-2     Verkefnafé - Byggðasamstarf     19.380     20.076     -696     -3,5%
     Stofnanir     9.750     9.864     -114     -1,2%
2-6180-3     Norræn miðstöð um rannsóknir og þróun í     9.750     9.864     -114     -1,2%
    byggðamálum (NORDREGIO)     
     Samgöngur     264     254     10     3,9%
2-6210-2     Verkefnafé - Samgöngur     264     254     10     3,9%
     Landbúnaður og skógrækt     22.156     23.161     -1.005     -4,3%
    
Verkefnafé     8.093     8.934     -841     -9,4%
2-6510-2     Verkefnafé - Landbúnaður og skógrækt     5.951     7.277     -1.326     -18,2%
2-6520-2     Norræna samstarfsráðið fyrir landbúnaðarrannsóknir     0     1.043     -1.043     -100,0%
    (NKJ)     
2-6530-2     Norræn framkvæmdaáætlun um matvælaöryggi     1.020     614     406     66,1%
2-6540-2     Norræni genbankinn fyrir húsdýr     1.122     -     1.122     -
     Stofnanir     14.063     14.227     -164     -1,2%
2-6580-3     Norræni genbankinn (NGB)     8.724     8.826     -102     -1,2%
2-6581-3     Samnorrænar skógarrannsóknir (SNS)     5.339     5.401     -62     -1,1%
     Sjávarútvegur     7.189     7.321     -132     -1,8%
2-6610-2     Verkefnafé - Sjávarútvegur     7.189     7.321     -132     -1,8%
                        
Velferðar- og atvinnumál     142.521     142.213     308     0,2%
                        
    Vinnumarkaður og -umhverfismál     13.185     13.554     -369     -2,7%
    
Verkefnafé     10.581     11.173     -592     -5,3%
3-4110-2     Verkefnafé — Vinnumarkaður og -umhverfi     6.407     7.081     -674     -9,5%
3-4120-2     Nordjobb     2.817     2.762     55     2,0%
1999-verð í þús. d.kr.     fjárlög     fjárlög     mismunur
         2000     1999     +/-     %

3-4130-2     Upplýsingaverkefnið     1.357     1.330     27     2,0%
     Stofnanir     2.604     2.381     223     9,4%
3-4180-3     Stofnunin um framhaldsmenntun á vinnuumhverfis-     2.604     2.381     223     9,4%
    sviði (NIVA)
     Félags- og heilbrigðismál     34.218     35.325     -1.107     -3,1%
    
Verkefnafé     4.799     5.371     -572     -10,6%
3-4310-2     Verkefnafé - Félags- og heilbrigðismál     3.881     3.734     147     3,9%
3-4320-2     Norræna ráðið um málefni fatlaðra (NHR)     918     1.023     -105     -10,3%
3-4330-2     Styrkjafyrirkomulag vegna táknmálstúlkunar     0     614     -614     -100,0%
     Stofnanir     29.419     29.954     -535     -1,8%
3-4380-3     Norræna lyfjanefndin (NLN)     2.951     3.086     -135     -4,4%
3-4381-3     Norræni heilbrigðisháskólinn (NHV) *     32138     32.513     -375     -1,2%
3-4382-3     Stofnun fyrir prófun tannviðgerðarefna (NIOM)     8.491     8.511     -20     -0,2%
3-4383-3     Norræna nefndin um áfengis- og vímuefnarannsóknir     2.534     2.511     23     0,9%
    (NAD)          
3-4384-3     Norræn samstarfsnefnd um málefni fatlaðra (NSH)     7.419     7.664     -245     -3,2%
3-4385-3     Norræna menntamiðstöðin á sviði daufblindu (NUV)     6.723     6.565     158     2,4%
3-4386-3     Norræn menntaáætlun fyrir félagslega þjónustu     1.301     1.617     -316     -19,5%
    (NOPUS)     
     Jafnrétti     7.377     7.435     -58     -0,8%     
3-4410-2     Verkefnafé - Jafnrétti     2.735     2.681     54     2,0%
     Stofnanir     4.642     4.754     -112     -2,4%
3-4480-3     Norræn rannsóknarstofnun í kvenna- og jafnréttis-     4.642     4.754     -112     -2,4%
    fræðum (NIKK)          
     Samstarf í vímuefnamálum     1.136     614     522     85,0%
3-4510-2     Verkefnafé - Samstarf í vímuefnamálum     1.136     614     522     85,0%
     Aðgerðir í velferðarmálum     5.090     1.739     3.351     192,7%
3-4610-2     Verkefnafé - Velferðarmál     614     102     512     502,0%
3-4620-2     Velferðarrannsóknir     4.476     1.637     2.839     173,4%
     Atvinnulíf     65.695     68.676     -2.981     -4,3%
3-5110-2     Verkefnafé - Atvinnulíf     1.020     1.432     -412     -28,8%
3-5120-2     Samstarf lítilla og meðalstórra fyrirtækja á sviði     626     614     12     2,0%
    upplýsingatækni     
     Stofnanir     64.049     66.630     -2.581     -3,9%
3-5180-3     Norræni iðnaðarsjóðurinn     52.604     55.286     -2.682     -4,9%
3-5181-3     Nordtest     11.445     11.344     101     0,9%
     Bygginga- og húsnæðismál     834     818     16     2,0%
3-5310-2     Verkefnafé - Bygginga- og húsnæðismál     834     818     16     2,0%
     Neytendamál     8.501     7.834     667     8,5%
3-6710-2     Verkefnafé - Neytendamál     6.372     5.747     625     10,9%
3-6720-2     SVANURINN - Norrænt umhverfismerki     2.129     2.087     42     2,0%
     Matvæli     5.210     5.348     -138     -2,6%
3-6810-2     Verkefnafé - Matvæli     5.210     5.348     -138     -2,6%
     Löggjöf á sviði dómsmála     1.275     870     405     46,6%
3-7110-2     Verkefnafé - Löggjöf á sviði dómsmála     1.275     870     405     46,6%
                        
Önnur starfsemi     80.442     78.868     1.574     2,0%
4-0180-3     Skrifstofa ráðherranefndarinnar (NMRS)     59.898     58.724     1.174     2,0%
4-0410-2     Samband Norrænu félaganna     2.760     2.706     54     2,0%
4-0415-2     Stjórnsýslusamband Norðurlanda     0     153     -153     -100,0%
4-0420-2     Samstarf Sama á Norðurlöndum     0     1.294     -1.294     -100,0%
4-0425-2     Framlag til Vestur-Norðurlanda     2.504     2.455     49     2,0%
4-0430-2     Norrænt tölfræðisamstarf     1.563     1.481     82     5,5%
4-0435-2     Vararáðstöfunarsjóður framkvæmdastjóra     564     358     206     57,5%
1999-verð í þús. d.kr.     fjárlög     fjárlög     mismunur
         2000     1999     +/-     %

4-0440-2     Endurskipulagning stofnana     0     0     0     -
4-0445-2     Varasjóður ráðherranefndarinnar     5.017     1.983     3.034     153,0%
4-0450-2     Styrkur til frjálsra félagasamtaka     932     614     318     51,8%
4-1010-2     Upplýsingastarfsemi     3.519     3.433     86     2,5%
4-1020-2     Upplýsingastarfsemi utan Norðurlanda     1.000     1.228     -228     -18,6%
4-1040-2     Þýðingar og túlkun     283     777     -494     -63,6%
4-1050-2     Starfsmannaskipti og ferða- og námsdvalarstyrkir     1.067     2.046     -979     -47,8%
    fyrir frjáls félagasamtök          
4-8030-2     Útgáfustarfsemin     1.335     1.616     -281     -17,4%
                   
     Samtals     741.512     732.308     9.204     1,3%