Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 750  —  471. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um atvinnuuppbyggingu og þróun vistvæns samfélags í Hrísey.

Flm.: Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni í samvinnu við Hríseyjarhrepp að efla atvinnuuppbyggingu í Hrísey og þróa vistvænt samfélag í anda Staðardagskrár 21.

Greinargerð.


    Ráðamenn í Hrísey á Eyjafirði hafa lýst yfir miklum áhuga á að kanna möguleika á að fá eyjuna viðurkennda sem lífræna. Eyjan er um margt sérstök hvað varðar náttúrufar og miklir möguleikar eru taldir á hægt að nýta sérstöðu hennar og sögu ásamt kyrrlátum lífsstíl íbúanna til atvinnusköpunar. Árið 1998 sneri sveitarstjórn Hríseyjarhrepps sér til stjórnar Áforms – átaksverkefnis. Stjórn Áforms fór síðan til Hríseyjar í september 1999 og kynnti sér aðstæður.
    Á seinni hluta ársins 1999 urðu straumhvörf í atvinnumálum í Hrísey. Langstærsti atvinnurekandinn í eyjunni, Snæfell hf., ákvað að hætta allri starfsemi þar snemma árs 2000. Má segja að þá hafi nánast allur fiskveiðikvóti horfið frá Hrísey.
    M.a. vegna sérstaks áhuga Hríseyinga á að þróa lífrænt samfélag er hér lagt til að ríkisvaldið komi myndarlega að málum og styrki sveitarstjórnina á öllum sviðum og að öll ráðuneyti veiti stuðning við starf að því markmiði að gera samfélagið lífrænt. Líta ber á þetta verkefni sem tilraunaverkefni, t.d. til fimm ára. Hér eru talin helstu verkefni sem æskilegt væri að vinna í þessu sambandi:
     1.      Að þróa og gera tilraun með vistvænar fiskveiðar frá Hrísey. Best væri að Hríseyingar sem hafa átt lögheimili í eyjunni sl. 12 mánuði gætu stundað vistvænar veiðar á fiski. Hér yrði um fullkomlega frjálsar veiðar að ræða en með kröfu um vistvæn veiðarfæri. Samkvæmt upplýsingum frá Hrísey má áætla að á bilinu 8–15 eigendur smábáta væru í stakk búnir til þess að taka þátt í tilrauninni. Gæti því verið um að ræða veiðar á 800–1200 tonnum en þá yrði sú kvöð á að aflanum yrði landað í Hrísey og hann unninn og markaðssettur sem vistvænt veiddur fiskur.
     2.      Að Hríseyjarhreppi verði gert kleift að koma vistheimilinu Hlein í notkun. Hlein er dvalarheimili fyrir aldraða sem stendur að mestu leyti autt og ónotað. Á Hlein er aðstaða til þess að vista sex manns við fullkomnustu aðstæður og gæti húsnæðið nýst skjólstæðingum innan heilbrigðis- eða félagsþjónustugeirans.
     3.      Að einangrunarstöðin í Hrísey verði efld þannig að hún megi með góðu móti þjóna öllu landinu um fyrirsjáanlega framtíð.
     4.      Að aðstoða Hríseyjarhrepp við að styrkja grundvöll ferðaþjónustunnar í eyjunni. Fyrir liggur að ráðast verður í miklar framkvæmdir til að styrkja ferðaþjónustuna. Má þar nefna vegagerð frá þorpinu norður að vita, en það er um 7 km leið, áframhaldandi merkingar á gönguleiðum um eyjuna, þróun safnsins um Hákarla-Jörund, og hafnarmannvirki fyrir Hríseyjarferju, bæði í Hrísey sjálfri og á Árskógssandi. Einnig að náttúrufarsrannsóknir í eyjunni verði efldar og þannig lagður grunnur að kortlagningu og kynningu.
     5.      Að aðstoða Hríseyjarhrepp til þess að verða til fyrirmyndar hvað varðar fráveitu- og sorphirðumál. Í anda Staðardagskrár 21 verði þetta gert með markvissri fræðslu fyrir eyjarskeggja og framkvæmdum sem nauðsynlegar eru.
     6.      Að stofnaður verði nýsköpunarsjóður fyrir Hrísey. Sjóðurinn hafi það að markmiði að veita aðstoð þeim fyrirtækjum sem hugsanlega vildu setja niður starfsemi í Hrísey og vinna að framleiðslu sinni á lífrænan og vistvænan hátt. Þegar hafa borist fyrirspurnir til sveitarstjórnarinnar í Hrísey um uppsetningu á slíku fyrirtæki og við þau áform hefur ímynd eyjarinnar sem náttúruperlu verið helsta aðdráttaraflið.
    Hér eru einungis taldir upp helstu möguleikar sem uppi eru varðandi þróun vistvæns samfélags í Hrísey. Tillagan gerir ráð fyrir að hér verði um að ræða samstarfsverkefni heimamanna og allra ráðuneyta, enda tekur þróun samfélags í anda Staðardagskrár 21 til allra þátta samfélagsins. Það er von flutningsmanna að þessi tilraun í Hrísey geti orðið til fyrirmyndar við þróun annarra sveitarfélaga landsins í átt til vistvæns samfélags.