Ferill 486. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 766  —  486. mál.




Frumvarp til laga



um dómtúlka og skjalaþýðendur.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Með dómtúlk og skjalaþýðanda er í lögum þessum átt við þann sem öðlast hefur löggildingu til að annast túlkun fyrir dómi og þýðingu skjala sem hafa réttarlegt gildi.
    Dómtúlkar og skjalaþýðendur eru opinberir sýslunarmenn. Njóta þeir réttinda og bera skyldur samkvæmt því.

2. gr.

    Löggildingu sem dómtúlkur eða skjalaþýðandi má veita þeim sem:
     a.      er lögráða og svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að annast túlkun og þýðingar,
     b.      hefur lokið háskólaprófi, sem jafngildir meistaragráðu frá Háskóla Íslands, í því tungumáli sem hann óskar eftir að öðlast starfsréttindi í,
     c.      hefur staðist próf skv. 3. gr.
    Heimilt er að synja manni um löggildingu ef ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga eiga við um hagi hans.
    Dómsmálaráðherra er heimilt að veita undanþágu frá ákvæði b-liðar 1. mgr., enda mæli prófstjórn skv. 3. gr. með því.

3. gr.

    Sá sem óskar eftir að öðlast löggildingu sem dómtúlkur eða skjalaþýðandi skal standast próf sem sýni að hann hafi þá þekkingu og færni sem nauðsynleg er til að gegna starfinu.
    Til að annast framkvæmd prófs skipar dómsmálaráðherra þriggja manna prófstjórn til fjögurra ára í senn. Til að meta úrlausnir í einstökum tungumálum skipar ráðherra þriggja manna prófnefnd fyrir hvert tungumál. Skipun prófnefndar gildir fyrir hvert próf sem haldið er.
    Í reglugerð sem dómsmálaráðherra setur að fengnum tillögum prófstjórnar skal kveðið nánar á um framkvæmd prófs og mat prófúrlausna. Efnt skal til prófraunar að jafnaði annað hvert ár.
    Sé óskað réttinda í tungumáli sem ekki er unnt að efna til prófs í sökum þess að ekki er fyrir hendi viðhlítandi þekking á því tungumáli hér á landi er dómsmálaráðherra heimilt að veita löggildingu samkvæmt tillögu prófstjórnar, enda hafi umsækjandi sýnt fram á kunnáttu sína í íslensku sem og í hinu erlenda tungumáli á þann hátt sem prófstjórn metur gildan. Einnig er ráðherra heimilt að veita löggildingu til skjalaþýðingar á grundvelli erlendrar löggildingar, enda taki sú löggilding til íslensku.
    Að fenginni tillögu prófstjórnar ákveður dómsmálaráðherra gjald sem umsækjendum ber að greiða fyrir að þreyta prófraun. Skal upphæð þess miðuð við kostnað við prófraunina. Gjaldið er óendurkræft þótt umsækjandi hverfi frá prófi eða standist það ekki.

4. gr.

    Umsókn um löggildingu skal beint til dómsmálaráðherra. Umsækjandi skal leggja fram gögn til stuðnings því að hann fullnægi skilyrðum 2. gr. Hann skal vinna að því skriflegt heit að viðlögðum drengskap að hann muni rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem honum kunna að verða falin sem dómtúlki eða skjalaþýðanda og gæta fyllsta trúnaðar gagnvart viðskiptamönnum sínum. Fyrir útgáfu löggildingar skal greiða gjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Dómsmálaráðherra gefur út löggildingarskírteini fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur. Sá einn getur hlotið löggildingu sem dómtúlkur sem jafnframt er löggiltur sem skjalaþýðandi.
    Skjalaþýðendur skulu auðkenna og undirrita skjöl þau er þeir þýða eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð sem dómsmálaráðherra setur.
    Dómsmálaráðherra skal halda skrá um þá sem hafa löggildingu sem dómtúlkar og skjalaþýðendur. Þeir skulu tilkynna ráðuneytinu hvar starfsstöð þeirra er og breytingar á henni.

5. gr.

    Nú fullnægir skjalaþýðandi eða dómtúlkur ekki skilyrðum til að fá löggildingu og skal dómsmálaráðherra þá afturkalla löggildingu hans.
    Hafi löggilding verið afturkölluð skal hún veitt að nýju eftir umsókn án endurgjalds eða prófraunar ef fullnægt er öllum skilyrðum til að öðlast löggildingu.


6. gr.

    Sá einn má nefna sig dómtúlk eða skjalaþýðanda sem hefur til þess löggildingu. Öðrum er óheimilt að nota íslensk eða erlend heiti sem til þess eru fallin að villast megi á þeim og þessum heitum hvort sem um er að ræða starfsheiti einstakra manna eða firmaheiti. Brot gegn þessu varða sektum.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. október 2000. Falla þá úr gildi lög um heimild fyrir stjórnarráðið til þess að veita mönnum rétt til þess að vera dómtúlkar og skjalþýðendur, nr. 32 2. nóvember 1914, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um dómtúlka og skjalaþýðendur frá árinu 1914, en þau lög eru nefnd lög um heimild fyrir stjórnarráðið til þess að veita mönnum rétt til þess að vera dómtúlkar og skjalaþýðendur, nr. 32/1914.
    Í gildandi lögum um dómtúlka og skjalaþýðendur er mælt fyrir um heimild til að veita mönnum rétt til að annast þjónustu á þessu sviði og heimila lögin Stjórnarráðinu að setja reglur um próf fyrir þá sem vilja öðlast réttindi til að annast dómtúlkun og þýðingu skjala. Í 3. gr. laganna er kveðið á um að þeir sem öðlast hafa þennan rétt skuli skyldir til að vera túlkar á dómþingum og þýða skjöl fyrir menn og stofnanir. Á grundvelli laganna er í gildi reglugerð um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur, nr. 26/1989, en þar eru ákvæði um hvernig staðið skuli að prófi fyrir þá sem vilja öðlast þessi réttindi.
    Frumvarpið er byggt á tillögum nefndar sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði 24. september 1998 til að endurskoða fyrirkomulag prófa til löggildingar dómtúlka og skjalaþýðenda. Í nefndinni áttu sæti Jón Thors skrifstofustjóri, sem var formaður nefndarinnar, Guðný Jónsdóttir deildarstjóri, Jón Skaptason, löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi, og Torfi Tulinius, löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi. Nefndin taldi nauðsynlegt að endurskoða gildandi lög, meðal annars til að lögfesta ýmis atriði varðandi öflun löggildingar sem dómtúlkur eða skjalaþýðandi. Nefndin hefur einnig samið drög að reglugerð um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur til nánari útfærslu á ákvæðum frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er afmarkað hvað felist í löggildingu sem dómtúlkur og skjalaþýðandi. Hlutverk dómtúlka er að veita dómstólum þjónustu við túlkun í dómsmálum og lögreglu við rannsókn á lögreglustigi. Hlutverk skjalaþýðanda er að þýða skjöl sem lögð eru fyrir dómstóla og önnur skjöl sem hafa réttarlegt gildi, svo sem opinber vottorð og skjöl sem menn þurfa að leggja fram til að afla réttinda eða heimilda hjá hinu opinbera.
    Í 2. mgr. er lagt til að dómtúlkar og skjalaþýðendur verði opinberir sýslunarmenn og njóti réttinda og beri skyldur samkvæmt því. Hliðstætt ákvæði er í 4. gr. gildandi laga.

Um 2. gr.

    Hér eru talin þau skilyrði sem þarf að fullnægja til að fá löggildingu sem dómtúlkur eða skjalaþýðandi. Skv. 2. gr. gildandi laga þarf umsækjandi um slík réttindi aðeins að sanna kunnáttu sína í tungumálinu til að öðlast löggildingu. Skilyrði þau sem talin eru í þessari grein eru því nýmæli. Þau eru miðuð við kröfur þær sem gerðar eru til ýmissa annarra starfsgreina sem bundnar eru löggildingu og teljast til opinberra sýslunarmanna, svo sem lögmanna og fasteignasala.
    Í 1. mgr. eru talin í þremur liðum þau skilyrði sem fullnægja þarf til að fá löggildingu sem dómtúlkur eða skjalaþýðandi. Skv. a-lið er lagt til að umsækjandi þurfi að vera lögráða og svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að annast túlkun og þýðingar. Skv. b-lið verður umsækjandi að hafa lokið háskólaprófi sem jafngildir meistaragráðu frá Háskóla Íslands í viðkomandi tungumáli. Þessar kröfur til menntunar þykja nauðsylegar með hliðsjón af mikilvægi þess að túlkun fyrir dómi og þýðing skjala sem hafa réttarlegt gildi sé áreiðanleg og rétt. Í þessum efnum þykir BA-próf ekki viðhlítandi og er þá höfð í huga sú reynsla sem fengist hefur af prófum sem haldin hafa verið eftir gildandi lögum fyrir þá sem óska löggildingar. Ákvæði þetta er þó undanþægt skv. 3. mgr. en það er þó bundið því að prófstjórn mæli með undanþágu að teknu tilliti til færni og reynslu umsækjanda. Þá er lagt til í c-lið að umsækjandi þurfi að standast próf skv. 3. gr., en sá áskilnaður er einnig gerður samkvæmt gildandi lögum svo sem vikið hefur verið að.
    Samkvæmt 2. mgr. er veitt heimild til að synja umsækjanda um löggildingu ef ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga eiga við um hagi hans. Slík ákvörðun verður borin undir dóm skv. 68. gr. a sömu laga.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um próf fyrir þá sem vilja öðlast réttindi sem dómtúlkar eða skjalaþýðendur. Fyrirkomulag það sem lagt er til er í meginatriðum það sama og samkvæmt gildandi reglugerð um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur, nr. 26/1989.
    Samkvæmt 2. mgr. skipar ráðherra þriggja manna prófstjórn til að annast framkvæmd prófraunar. Einnig er lagt til að skipuð verði þriggja manna prófnefnd í hverju tungumáli til að meta prófúrlausnir í viðkomandi máli.
    Í 3. mgr. er gert er ráð fyrir að nánari ákvæði verði sett í reglugerð um framkvæmd prófs og mat prófúrlausna. Lagt er til að efnt skuli til prófs að jafnaði annað hvert ár.
    Í 4. mgr. er lagt til að unnt verði að veita löggildingu á grundvelli mats prófstjórnar þegar um er að ræða tungumál sem ekki eru tiltækir löggiltir skjalaþýðendur í og því ekki unnt að skipa formlega prófnefnd. Prófstjórn yrði þá að leita álits einhverra sem kunna tungumálið hér á landi eða erlendis.
    Samkvæmt 5. mgr. er gert ráð fyrir að gjald verði innheimt hjá þeim sem þreyta próf og að fjárhæð þess takmarkist við kostnað af prófrauninni. Í gildandi lögum er ekki heimild fyrir slíkri gjaldtöku, en rétt þykir að þeir sem þreyti próf greiði þann kostnað sem því er samfara.

Um 4. gr.

    Í greininni er lýst í meginatriðum hvernig staðið skal að veitingu löggildingar.
    Samkvæmt 1. mgr. skal umsókn um löggildingu beint til dómsmálaráðherra og henni skulu fylgja öll nauðsynleg gögn. Einnig skal umsækjandi vinna drengskaparheit um að hann muni rækja starf sitt af trúmennsku og samviskusemi.
    Í 2. mgr. er tekið fram að til þess að fá löggildingu sem dómtúlkur sé einnig nauðsynlegt að viðkomandi hafi löggildingu sem skjalaþýðandi. Hins vegar er ekki skilyrði að hafa réttindi sem dómtúlkur til að fá löggildingu sem skjalaþýðandi. Heimilt er að veita löggildingu til þess að þýða af erlendu máli á íslensku án þess að veitt sé löggilding til að þýða af íslensku á erlenda málið og öfugt.
    Samkvæmt 3. mgr. skulu skjalaþýðendur auðkenna og undirrita sköl sem þeir þýða eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um að dómsmálaráðherra haldi skrá um þá sem hafi löggildingu sem dómtúlkar og skjalaþýðendur og að þeir skuli ávallt tilkynna um starfsstöð sína til ráðuneytisins. Með þessu verður unnt að veita upplýsingar fyrir þá sem þurfa á þessari þjónustu að halda og er fyrirhugað að veita aðgang að skránni á heimasíðu ráðuneytisins.

Um 5. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. ber ráðherra að afturkalla löggildingu ef dómtúlkur eða skjalaþýðandi missir eitthvert þeirra skilyrða sem þarf að fullnægja til að fá löggildingu.
    Í 2. mgr. er að finna heimild til að veita löggildingu að nýju án prófs eða leyfisgjalds ef viðkomandi fullnægir öðrum skilyrðum til að hljóta slík réttindi. Ef dómtúlkur eða skjalaþýðandi óskar ekki eftir að hagnýta sér réttindi sín samkvæmt löggildingarbréfi sínu er honum ávallt heimilt að leggja bréfið inn til vörslu í ráðuneytinu og fellur þá löggildingin niður meðan bréfið liggur inni.

Um 6. gr.

    Lagt er til að þeir einir megi nefna sig dómtúlka eða skjalaþýðendur sem hafi til þess löggildingu. Öðrum verði óheimilt að nota íslensk eða erlend heiti sem til þess eru fallin að villast megi á þeim og þessum heitum. Einnig er lagt til að brot gegn þessu ákvæði varði sektum.


Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um dómtúlka og skjalaþýðendur.

    Frumvarp þetta felur í sér ítarlegri reglur og nokkrar breytingar frá ákvæðum í gildandi lögum, um dómtúlka og skjalaþýðendur, nr. 32/1914. Ákvæði frumvarpsins miða að því að lögfesta það fyrirkomulag sem hefur þróast á þessu sviði og er að hluta til ákveðið með reglugerð nr. 26/1989, um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur. Í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir þeirri nýlundu að lögfest yrði heimild til að standa straum af kostnaði við prófanir á þekkingu og færni þeirra sem óska eftir löggildingu sem dómtúlkar eða skjalaþýðendur með prófgjaldi, líkt og á við um próf til löggildingar á ýmsum öðrum starfsréttindum, t.d. próf fasteignasala. Gjald var áður innheimt vegna þessara prófa en horfið var frá því á árinu 1999 þar sem lagaheimildir voru ekki taldar vera fullnægjandi.
    Áætlað er að árlegur kostnaður við prófanir umsækjenda geti numið um 1 m.kr. sem er svipuð fjárhæð og gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins 2000. Samkvæmt frumvarpinu yrðu þau útgjöld fjármögnuð að fullu með jafnháum rekstrartekjum ríkissjóðs af prófgjöldum frá umsækjendum. Almenn greiðsla úr ríkissjóði til þessa viðfangsefnis mun því lækka um tæplega 1 m.kr. miðað við gildandi fjárlög.