Ferill 489. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 771  —  489. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Við 44. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt samkvæmt sérstökum samningi að taka að sér að veita póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hefur til að veita slíka þjónustu. Til framangreindrar starfsemi þarf samþykki Fjármálaeftirlitsins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í V. kafla laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, er fjallað um starfsemi þessara fyrirtækja. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laganna er starfsemi þeirra fólgin í geymslu og ávöxtun fjár, miðlun á peningum, verðbréfaviðskiptum og annarri þjónustustarfsemi sem er í tengslum við slík viðskipti. Í greininni er síðan talin upp í 14 töluliðum sú starfsemi sem fyrirtækjunum er heimil. Í 4. mgr. sömu greinar kemur fram að fyrirtækjunum sé heimilt að stunda aðra starfsemi en um ræðir í 1. mgr., enda sé slík hliðarstarfsemi í eðlilegu framhaldi af viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi. Í 2. gr. laganna kemur enn fremur fram að fyrirtækjunum sé einungis heimilt nema annað leiði af lögum að stunda viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi eins og hún er skilgreind í V. kafla laganna.
    Með vísan til þessara ákvæða hefur verið mikil óvissa um hvort viðskiptabankar eða sparisjóðir geti tekið að sér að veita póstþjónustu. Samstarf Íslandspósts hf. annars vegar og viðskiptabanka eða sparsjóða hins vegar getur því að óbreyttum lögum aðeins farið fram að takmörkuðu leyti.
    Það að samvinna sé möguleg milli aðila sem heimild hefur til að veita póstþjónustu og viðskiptabanka og sparisjóða er mikilvægt fyrir samfélagið. Hér er um þýðingarmikið mál að ræða, enda getur samvinna um grunnþjónustu af þessu tagi skipt sköpum um hvort hún sé fyrir hendi eða ekki í hinum dreifðu byggðum landsins.
    Heildarendurskoðun fer nú fram á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Hún er í höndum sérstakrar nefndar sem viðskiptaráðherra skipaði 23. ágúst 1999, svokallaðri bankalaganefnd. Vinnu hennar verður líklega ekki lokið fyrr en síðar á þessu ári. Þar sem hér er um brýnt mál að ræða er frumvarp þetta lagt fram nú þegar.
    Með vísan til þessa er lagt til í frumvarpinu að viðskiptabönkum og sparisjóðum verði heimilað að taka að sér að veita póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hefur til að veita hana samkvæmt lögum. Um póstþjónustu er nú fjallað í lögum nr. 142/1996. Gert er ráð fyrir að um hana fari samkvæmt sérstökum samningi á milli aðila. Í samningnum skal m.a. kveðið á um réttindi, skyldur og ábyrgð aðila vegna póstþjónustunnar, en rétt þykir að slík þjónusta sé rekin á ábyrgð leyfishafa. Það skal sérstaklega tekið fram að ekki er um að ræða að viðskiptabankar og sparisjóðir öðlist með þessu sjálfstætt leyfi til póstþjónustu, heldur er hér um að ræða rétt til að veita slíka þjónustu fyrir hönd annars aðila sem hefur slíkt leyfi. Eðlilegt þykir að afla þurfi samþykkis Fjármálaeftirlitsins til þessarar starfsemi og er það í samræmi við ákvæði 4. mgr. 44. gr. laganna.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1996,
um viðskiptabanka og sparisjóði.

    Tilgangur frumvarpsins er að heimila viðskiptabönkum og sparisjóðum að veita póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hafa til að veita slíka þjónustu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.