Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 789  —  225. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Björnsson, Guðrúnu Ósk Sigurjónsdóttur og Þórhall Vilhjálmsson frá fjármálaráðuneyti, Gísla Tryggvason og Björk Vilhelmsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Eirík Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Ara Skúlason og Ástráð Haraldsson frá Alþýðusambandi Íslands og Gest Jónsson lögmann. Umsagnir um málið bárust frá félagsmálaráðuneyti, Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Starfsmannafélagi Akureyrarbæjar, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Meinatæknafélagi Íslands, Starfsmannafélagi Vestmannaeyja, Kennarasambandi Íslands, Starfsmannafélagi Neskaupstaðar, Félagi opinberra starfsmanna í Húnavatnssýslu, Lögreglufélagi Reykjavíkur, Starfsmannafélagi Seltjarnarness, Félagi íslenskra leikskólakennara, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Starfsmannafélagi ríkisstofnana, Landssambandi lögreglumanna, Bandalagi háskólamanna, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Stéttarfélagi lögfræðinga, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Stéttarfélagi sálfræðinga á Íslandi, Sambandi lífeyrisþega ríkis og bæja, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Starfsmannafélagi Siglufjarðarkaupstaðar, Ljósmæðrafélagi Íslands, Landssambandi slökkviliðsmanna og Stéttarfélagi matvæla- og næringarfræðinga.
    Með frumvarpinu er brugðist við dómi Félagsdóms í máli nr. 7/1999. Þar hafnaði dómurinn því að ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur varðandi fjöldauppsagnir tækju til opinberra starfsmanna. Hafnaði dómurinn þannig þeirri lögskýringu að almenn ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur tækju til opinberra starfsmanna hvað þetta varðar.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna verði breytt að þessu leyti til samræmis við ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur, enda standa engin rök til þess að aðrar reglur gildi um friðarskyldu opinberra starfsmanna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt .

Alþingi, 20. mars 2000.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.