Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 793  —  225. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarpið er flutt í framhaldi af niðurstöðu Félagsdóms sem sýknaði Félag íslenskra leikskólakennara af kröfum stefnenda, launanefndar sveitarfélaga f.h. Árborgar, um að uppsagnir nokkurra leikskólakennara yrðu dæmdar brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamnings og því ólögmæt vinnustöðvun.
    Í niðurstöðu sinni vitnar Félagsdómur til 4. gr. laga nr. 75/1996 sem breytti lögum nr. 80/ 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, en þar segir: „Vinnustöðvanir í skilningi laga þessara eru verkbönn atvinnurekenda og verkföll þegar launamenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknum sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launamanna sem jafna má til vinnustöðvunar.“ Um þetta ákvæði segir í niðurstöðu dómsins: „Engin sambærileg breyting hefur verið gerð á ákvæðum laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.“
    Niðurstaða Félagsdóms var að hafna þeirri lögskýringu að almenn ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur tækju til opinberra starfsmanna. Þannig hefur ríkisvaldið valið, og ekki í fyrsta sinn, að breyta því með lögum sem tapast fyrir dómstólum.
    Vissulega er einnig gagnrýnisvert að stjórnvöld skuli kjósa, meðan kjarasamningar eru í gildi og friðarskylda ríkir, að breyta einhliða og án eðlilegs samráðs við opinbera starfsmenn lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
    Minnt skal á að í árslok 1986 voru sett ný heildarlög um kjarasamninga opinberra starfsmanna að undangengnu samkomulagi milli aðila. Hér er snúið við blaðinu því að með þessu frumvarpi er fjármálaráðherra að leggja til að lögum verði breytt einhliða og án samráðs við opinbera starfsmenn.
    Forustumenn opinberra starfsmanna hafa haldið því fram að með þessu sé fjármálaráðherra að rifta því samkomulagi sem gilt hefur í 13 ár um samskipti ríkis og sveitarfélaga sem vinnuveitanda og stéttarfélaga opinberra starfsmanna sem fulltrúa launafólks. Þetta eru gagnrýnisverð vinnubrögð ekki síst í ljósi þess að samtök opinberra starfsmanna hafa nýverið ítrekað þá afstöðu sína að rétt væri að endurskoða lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna í heild. Lögðu þeir m.a. fram í efnahags- og viðskiptanefnd samanburð verkfallsheimilda og skyldra atriða um samskipti aðila á vinnumarkaði samkvæmt lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeildur, sbr. lög nr. 75/1996, og samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að teknu tilliti til breytingar samkvæmt frumvarpinu (sjá fylgiskjal). Þar kemur fram mikill munur á réttarstöðu opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði að því er varðar samskipti á vinnumarkaði, sem sýnir nauðsyn þess að samræma réttindi og skyldur á opinberum og almennum vinnumarkaði.
    Minni hlutinn telur að eðlilegra hefði verið af hálfu stjórnvalda að hefja heildarendurskoðun og samræmingu við almenna vinnumarkaðinn eins og samtök opinberra starfsmanna hafa lagt til í stað þess að leggja til einhliða að breyta einum þætti laga um opinbera starfsmenn til samræmis við ákvæði sem gilda um almenna vinnumarkaðinn.
    Þau vinnubrögð sem stjórnvöld hafa viðhaft í þessu máli eru mjög gagnrýnisverð. Með þeim eru samskipti samtaka opinberra starfsmanna og stjórnvalda sett í uppnám, enda virðist ljóst að stjórnvöld hafi lítið lagt upp úr samráði við opinbera starfsmenn í þessu máli.
    Minni hlutinn telur rétt að fjármálaráðherra verði þegar í stað við beiðni samtaka opinberra starfsmanna um að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar verði leitast við, í fullu samráði við alla aðila, að samræma sem mest réttarstöðu opinberra starfsmanna annars vegar og launafólks á almennum vinnumarkaði hins vegar.
    Með vísan til framangreinds leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 21. mars 2000.



Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Margrét Frímannsdóttir.


Ögmundur Jónasson.





Fylgiskjal.


Fylgiskjal með umsögn BHM um frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 94/1986.


    Samanburður verkfallsheimilda og skyldra atriða um samskipti aðila á vinnumarkaði sam kvæmt lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. lög nr. 75/1996, og samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að teknu tilliti til breytingar samkvæmt stjórnarfrumvarpi um breytingu á lögum nr. 94/1986.

Lög nr. 80/1938 Lög nr. 94/1986 Ákvæði
Verkbann (vinnuveitanda) heimilt Nei 14. gr.**
Meginreglan að verkfall sé heimilt Nei 14. gr.
Aðeins stéttarfélag boðar verkfall 14. gr.
Leynileg atkvæðagreiðsla áskilin 15. gr.
Póstatkvæðagreiðsla heimil Nei 15. gr.
Þátttökuskilyrði við verkfallsboðun Fimmtungur Helmingur 15. gr.
Meiri hluti reiknaður af Greiddum atkvæðum Öllum atkvæðum 15. gr.
Verkföll hjá tilteknum vinnustað/hóp heimilt Umdeilt 15. gr.
Heimildir til frestunar verkfalla Umdeilt 15. gr.
Tilkynningarskylda til allra vinnuveitenda Nei („aðallega“) 16. gr.
Tilkynningarfrestur 7 sólarhringar 15 sólarhringar 16. gr.
Fullnustuverkföll heimil 17. gr.
Pólitísk verkföll sögð óheimil 17. gr.
Samúðarverkföll heimil 17. gr.
Verkfallsbrot félagsmanna ólögmæt 18. gr.
Verkfallsbrot innan sambands lýst ólögmætt Nei 18. gr.
Fjöldauppsagnir starfsmanna bannaðar Já (skv. frv.) 19./14. gr.
Skilgreining verkfalls Já (skv. frv.) 19./14. gr.
Bann við aðgerðum á borð við verkbönn Nei (ei heldur skv. frv.) 19. gr.
Heimild til lengingar á uppsagnarfresti Nei Já, í allt að 6 mánuði 46. gr.*
Lögákveðnar takmarkanir á verkfallsrétti Nei 19. gr.
Beint dómsvald Félagsdóms v. lögbrota Nei 44./26. gr.
Beint dómsvald Félagsd. v. samningsbrota Nei 44./26. gr.
Viðurlög (bætur) gagnvart atvinnurekendum Nei 70. gr.
Refsiviðurlög v. ólögmætra aðgerða starfsm. Nei 70./35. gr.**
Hópuppsagnir (vinnuveitanda) takmarkaðar Já — ennþá ! L 95/1992
    * 2. mgr. 46. gr laga nr 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    ** Auk laga nr. 33/1915, um verkfall opinberra starfsmanna („fangelsi allt að 2 árum“), og 40., sbr. 53. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Undirstrikanir fela í sér atriði sem breytast verði stjórnarfrumvarpið að lögum.
    Af þessu yfirliti yfir 26 dæmi um meginatriði úr báðum lagabálkum íslenskrar vinnulöggjafar sést að mikill munur er á réttarstöðu opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði — opinber um starfsmönnum í óhag að því leyti að miklar takmarkanir eru á réttindum þeirra að því er varðar samskipti á vinnumarkaði, svo og ríkari skyldur. Af 26 atriðum verða 17 atriði ólík áfram — í stað 18 áður. Aðeins 9 atriði verða eins. Ríkisstjórnin leggur aðeins til að eitt þessara atriða verði samræmt.