Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 798  —  503. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Við j-lið 1. mgr. 36. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er með takmörkunum og eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir að greiða óhjákvæmilegan dvalarkostnað annars foreldris við sjúkrahúsinnlögn barns yngra en 18 ára fjarri heimili. Ef um er að ræða erfiða meðferð við lífshættulegum sjúkdómi er heimilt að slík greiðsla nái til beggja foreldra barns undir 18 ára aldri.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með þessari lagabreytingu er komið til móts við foreldra veikra og langveikra barna um greiðslu dvalarkostnaðar innan lands þegar barn þarf að leggjast inn á sjúkrahús fjarri heimili sínu. Þegar um er að ræða erfiða meðferð við lífshættulegum sjúkdómi nær heimild til greiðslu dvalarkostnaðar til beggja foreldra. Gert er ráð fyrir að tryggingaráð setji nánari reglur um dvalarkostnað sem ráðherra staðfestir. Reglurnar munu miðast við hluta af daggjaldi sem nú er greitt við dvöl á sjúkrahóteli Rauða kross Íslands og fari heildarfjárhæð samkvæmt reglunum ekki framúr 30 millj. kr. á fjárlögum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um
almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði, með takmörkunum og eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir, að greiða óhjákvæmilegan dvalarkostnað annars foreldris við sjúkrahúsinnlögn barns yngra en 18 ára fjarri heimili. Ef um erfiða sjúkdómsmeðferð vegna lífshættulegs sjúkdóms er að ræða er heimilt að slík greiðsla nái til beggja foreldra barns að 18 ára aldri.
    Samkvæmt upplýsingum sem fengnar eru frá stærstu sjúkrahúsunum má ætla að börn yngri en 18 ára liggi á sjúkrahúsum fjarri heimili 12.000–13.000 legudaga á ári. Dvalarkostnaður annars foreldris gæti því numið 50–55 m.kr. á ári ef miðað er við 4.251 kr. á dag sem er daggjaldataxti heilbrigðisráðuneytis vegna Gistiheimilis RKÍ, Reykjavík.
    Samkvæmt upplýsingum sem fengnar eru frá Tryggingastofnun ríkisins má ætla að þar af séu 1.200–2.300 legudagar barna yngri en 18 ára sem liggja á sjúkrahúsum fjarri heimilum sínum við langvarandi og erfiða sjúkdómsmeðferð. Frumvarpið gerir ráð fyrir að heimilt verði í þeim tilvikum að greiða dvalarkostnað beggja foreldra og má ætla samkvæmt sömu forsendum að aukinn kostnaður geti numið um 5–10 m.kr. á ári.
    Miðað við að allir hlutaðeigendur noti rétt sinn til greiðslu má ætla að útgjöld ríkissjóðs geti aukist samanlagt um 55–65 m.kr. á ári. Í greinargerð frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að reglur sem tryggingaráð setur miðist við hluta af daggjaldi vegna sjúkrahótels Rauða kross Íslands og fari heildarfjárhæð vegna reglnanna ekki yfir 30 m.kr. á ári.