Ferill 510. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 809  —  510. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um vegamál.

Flm.: Jón Bjarnason.



    Alþingi ályktar að heimila Vegagerðinni að ráðstafa árið 2000 þeirri inneign sem safnast hefur upp á síðustu árum vegna hærri tekna af lögboðnum tekjustofnum til vegagerðar en reiknað hefur verið með í vegáætlun. Þessu fé verði ráðstafað með eftirfarandi hætti:
     1.      Varið verði 200 millj. kr. vegna aukins kostnaðar við vetrarþjónustu.
     2.      Varið verði 150 millj. kr. til að flýta áætlun um uppbyggingu tengivega.
     3.      Varið verði 150 millj. kr. til að flýta áætlun um uppbyggingu safnvega.
     4.      Varið verði 50 millj. kr. til að flýta framkvæmdum við breikkun einbreiðra brúa.
     5.      Varið verði 150 millj. kr. til undirbúnings jarðgangagerðar.

Greinargerð.


    Um síðustu áramót var inneign hjá ríkissjóði vegna innheimtu lögboðinna gjalda til vegagerðar um 700 millj. kr. Markaðir tekjustofnar vegna vegagerðar hafa skilað meiri tekjum en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun við gerð vegáætlunar. Í 2. gr. laga um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3 frá 1987, með síðari breytingum, segir: „Tekjum samkvæmt lögum þessum skal einungis varið til vegagerðar.“
    Margáréttuð er sérstök þörf á auknu fjármagni til „sveitaveganna“. Í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001 sem samþykkt var á Alþingi vorið 1999 er lögð þung áhersla á bættar samgöngur í byggðum sem standa höllum fæti. Í allri vegagerð á síðustu árum hafa tengivegir og safnvegir sem við köllum í daglegu tali „sveitavegi“ dregist hlutfallslega aftur úr í nýframkvæmdum og viðhaldi. Jafnframt hefur þörfin fyrir góðar samgöngur í sveitum aukist, t.d. vegna daglegs heimanaksturs nemenda, vinnu sveitafólks utan bús, daglegra aðdrátta og flutninga á vörum og þjónustu, svo og aukinnar ferðaþjónustu í sveitum landsins.
    Eðlilegt er að þessu uppsafnaða fé verði nú ráðstafað í vegáætlun og þá með þeim áherslum og þeirri forgangsröðun sem hér er lagt til. Þetta fjármagn komi til viðbótar því sem lagt er til að varið verði til þessara verkefnaflokka samkvæmt tillögu til þingsályktunar um vegáætlun fyrir árin 2000–2004 og nú liggur fyrir Alþingi.
    Ljóst er að þetta viðbótarfé er engan veginn nægilegt til að hleypa af stokkunum því stórátaki sem flestir eru sammála um að þurfi til að laga „sveitavegina“ og til annarra brýnna framkvæmda á vegum í dreifbýli. Það er því ástæðulaust að láta fjármagn sem þegar hefur verið innheimt til vegamála liggja ónotað.
    Þá er hér lagt til að varið verði 150 millj. kr. af þessari inneign hjá ríkissjóði til að hraða undirbúningi jarðgangagerðar. Það er afar brýnt að framkvæmdir við jarðgangagerð geti hafist sem allra fyrst og til að svo megi verða þarf að setja undirbúning þeirra á fulla ferð. Að vísu er ekki gert ráð fyrir því í lögum að fjármagni frá mörkuðum tekjustofnum til vegamála sé varið til jarðgangagerðar en ekkert sérmerkt fé er á fjárlögum þessa árs til jarðgangagerðar eða undirbúnings slíkra framkvæmda.
    Þetta er mjög aðkallandi mál og mikilvægt að fjárskortur tefji ekki fyrir undirbúningi. Því er þetta lagt hér til. Að sjálfsögðu verður að veita fjármagn til jarðgangagerðarinnar sjálfrar á fjárlögum.