Ferill 523. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 824  —  523. mál.




Frumvarp til laga


um orkunýtnikröfur.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að stuðla að þróun og notkun orkunýtinna véla, tækja og annars búnaðar, í lögum þessum nefnd vara, með það að markmiði að orka verði notuð á skynsamlegan og hagkvæman hátt.

2. gr.

    Lögin taka til nýrrar vöru sem nýtir orku.
    Lögin taka ekki til farartækja eða notaðrar vöru.

3. gr.

    Iðnaðarráðherra er heimilt með hliðsjón af tilgangi laga þessara að kveða á um í reglugerð hvaða kröfur um orkunýtni tiltekin vara þarf að uppfylla.
    Eingöngu er heimilt að setja á markað vöru sem uppfyllir reglur um orkunýtni, sbr. 1. mgr. Óheimilt er að banna markaðssetningu vöru sem uppfyllir kröfur um orkunýtni, enda uppfylli hún skilyrði annarra laga.
    Ráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð að innflutningur eða framleiðsla vöru til eigin nota skuli lúta sams konar reglum og mælt er fyrir um í 1. mgr.

4. gr.

    Iðnaðarráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð hvaða merkingar og upplýsingar skuli fylgja vöru sem uppfyllir kröfur um orkunýtni.

5. gr.

    Framleiðandi, fulltrúi hans eða sá er markaðssetur vöru, hér eftir nefndur birgðasali, ber ábyrgð á að vörur hans uppfylli orkunýtnikröfur sem settar hafa verið. Birgðasali ber ábyrgð á að nauðsynlegar mælingar og prófanir á orkunýtni búnaðar fari fram svo að kannað verði hvort búnaður uppfyllir kröfur um orkunýtni sem ákveðnar hafa verið með reglugerð byggðri á 3. gr.
    Óheimilt er að hefja sölu eða leigu á vöru þar til nauðsynlegar mælingar og prófanir hafa farið fram. Birgðasali ber allan kostnað við framangreindar mælingar og prófanir.
    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja nánari fyrirmæli um hvaða aðferðir og staðla skal nota við mælingar og prófanir skv. 1. mgr.

6. gr.

    Iðnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Yfireftirlit samkvæmt lögum þessum skal vera í höndum Löggildingarstofu.
    Við framkvæmd eftirlits með lögum þessum skal farið að lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, eftir því sem við á.
    Birgðasalar og seljendur skulu miðla til eftirlitsaðila þeim upplýsingum skv. 5. gr. sem nauðsynlegar eru til framkvæmdar lögum þessum.

7. gr.

    Brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar verða samkvæmt þeim varða sektum sem renna í ríkissjóð. Um meðferð slíkra brota fer að hætti opinberra mála.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

Inngangur.
    Tilgangur þessa frumvarps er, eins og fram kemur í 1. gr., að stuðla að bættri nýtingu orku með því að ýta undir þróun og útbreiðslu búnaðar sem nýtir orku vel, þ.e. búnaðar sem notar litla orku í samanburði við afkastagetu. Frumvarpinu er ætlað að taka til hvers konar véla, tækja, og búnaðar sem nýtir orku, þó ekki farartækja eða notaðra tækja.
    Frumvarpið felur ekki í sér efnisreglur um orkunýtnikröfur, heldur er með því lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að setja reglugerðir um orkunýtni einstakra tækja. Slíkar reglugerðir myndu fyrst og fremst byggjast á tilskipunum Evrópusambandsins og fela í sér innleiðingu þeirra í íslenskan rétt.

Aðgerðir Evrópusambandsins til að auka orkusparnað og orkunýtni.
    
Evrópusambandið hefur staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að auka orkusparnað og orkunýtni frá því á áttunda áratugnum. Upphaf þessara aðgerða má rekja til olíukreppunnar árið 1973, þegar afhendingaröryggi orkunnar skipti öllu máli og orkusparnaður varð mikilvægt atriði í að draga úr innflutningi á olíu, sérstaklega í tengslum við hátt orkuverð. Þegar þessum þrýstingi létti var lögð minni áhersla á að tryggja orkunýtni.
    Í lok áttunda áratugarins og fram á þann níunda gripu einstök aðildarríki til ýmissa aðgerða til að auka orkunýtni en í lok níunda áratugarins komst framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hins vegar að þeirri niðurstöðu að fyrri aðgerðir hefðu ekki uppfyllt vonir um árangur. Voru því gerðar auknar kröfur til aðildarríkjanna um aðgerðir í þessu sambandi.
    Í október 1990 setti Evrópusambandið sér það markmið að draga úr aukningu á losun koltvísýrings meðal aðildarríkjanna. Þetta, ásamt markmiðum Evrópusambandsins um aukið afhendingaröryggi og sjálfbæra orkustefnu, hleypti nýju blóði í aðgerðir til að auka orkunýtni, þar sem raforkuframleiðsla telur um 35% af allri frumorkunotkun innan Evrópusambandsins og um 30% af losun koltvísýrings. Í þessu augnamiði var SAVE-áætluninni svokölluðu hleypt af stokkunum í október 1991. Markmið SAVE-áætlunarinnar var að bæta orkunýtni í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Hugðist það ná markmiðum áætlunarinnar með því að leggja áherslu á tvo höfuðþætti. Annars vegar skyldi setja reglur um orkumerkingar og upplýsingaskyldu í því skyni að tryggja að neytendur hefðu greiðan aðgang að upplýsingum um orkunýtni þeirra tækja sem þeim eru boðin til kaups. Hins vegar átti að setja reglur um orkunýtnikröfur. Fyrra markmið SAVE-áætlunarinnar var grundvöllur þess að ráð Evrópusambandsins setti tilskipun 92/75/EBE um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á heimilistækjum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum, en á grundvelli tilskipunar 92/75/EBE hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sett tilskipanir er varða orkumerkingar kæliskápa, þvottavéla, þurrkara, uppþvottavéla o.fl. Síðara markmið SAVE- áætlunarinnar var grundvöllur þess að ráð Evrópusambandsins setti 21. maí 1992 tilskipun 92/42/EBE um kröfur varðandi orkunýtni nýrra heitavatnskatla sem brenna fljótandi eða loftkenndu eldsneyti. Þá hefur verið sett tilskipun 96/57/EB um orkunýtnikröfur kæliskápa, frystiskápa og sambyggðra kæli- og frystiskápa. Evrópusambandið hefur enn fremur gert samninga við framleiðendur um kröfur um lágmarksnýtni. Setning reglna á sviði orkunýtnikrafna hefur gengið hægar en varðandi orkumerkingar sökum lengdar ákvarðanatökuferils og skorts á samvinnu frá framleiðendum.
    SAVE-áætluninni lauk 31. desember 1995. Í orðsendingum til ráðs Evrópusambandsins og þings Evrópusambandsins frá 11. janúar 1995 (Green Paper) og 13. desember 1995 (White Paper) er að finna stefnumörkun framkvæmdastjórnarinnar í orkumálum og hlutverk orkusparnaðar- og orkunýtniaðgerða. Með ákvörðun ráðs Evrópusambandsins, dags. 16. desember 1996, var hleypt af stokkunum nýrri áætlun (SAVE II), sem stendur til loka ársins 2000.
    Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 29. apríl 1998 er fjallað um stefnumótun og aðgerðir tengdar orkunýtni í Evrópusambandinu. Þar er gerð grein fyrir núverandi aðgerðum til að auka orkunýtni möguleikum á frekari aðgerðum.

Aðgerðir á Íslandi.
    
Í samræmi við skuldbindingar Íslands á grundvelli EES-samningsins þarf að innleiða ákvæði framangreindra tilskipana í íslenskan rétt. Þetta hefur verið gert með lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr. 72/1994, sem byggjast á tilskipun 92/75/EBE. Á grundvelli þeirra laga hefur iðnaðarráðherra sett reglugerðir sem ætlað er að innleiða í íslenska löggjöf fyrrnefndar tilskipanir framkvæmdastjórnarinnar.
    Til að gera þetta kleift varðandi orkunýtnikröfur eru í frumvarpinu ákvæði sem heimila ráðherra að mæla fyrir um kröfur um orkunýtni búnaðar með setningu reglugerða. Verður ráðherra þannig heimilt að innleiða áðurnefndar tilskipanir og aðrar gerðir sem fyrirhugað er að setja um orkunýtnikröfur einstakra tækja með reglugerð á grundvelli ákvæða frumvarpsins.
    Kröfur á grundvelli frumvarps þessa geta verið kröfur um orkunotkun, kröfur um ákveðna hönnun eða jafnvel kröfur er varða einstaka hluta búnaðar. Kröfurnar skulu miðast að því að auka nýtni búnaðar á orku og koma í veg fyrir að búnaður sem nýtir orku illa sé settur á markað.
    Þegar ráðherra setur kröfur um orkunýtni skal horfa til hagrænna sjónarmiða jafnt sem umhverfissjónarmiða. Kröfurnar skulu mótaðar út frá tæknilegum og efnahagslegum möguleikum á orkusparnaði.
    Hér á landi hafa ekki verið í gildi lög um þetta efni. Við samningu frumvarpsins var höfð til hliðsjónar tilskipun ráðs Evrópusambandsins frá 3. september 1996 (96/57/EB) auk danskra laga um kröfur til orkunýtni búnaðar sem notar orku, nr. 94/1994 (lov om normer for energieffektivitet i energiforbrugende udstyr).

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er að finna almenna lýsingu á tilgangi laganna, en hann er að stuðla að þróun og notkun orkunýtinna véla, tækja og annars búnaðar. Þannig er ætlunin að draga úr óæskilegum áhrifum raforkuvinnslu og raforkunotkunar á umhverfið um leið og hagkvæmni er aukin.

Um 2. gr.

    Í greininni er að finna afmörkun á gildissviði frumvarpsins, sem er nokkuð vítt. Almennt má segja að lögin taki til hvers konar búnaðar sem notar orku. Má segja að frumvarpinu sé ætlað að ná til þriggja höfuðflokka búnaðar. Í fyrsta lagi er um að ræða heimilistæki, svo sem sjónvörp, myndbandstæki, útvörp o.fl. Í öðru lagi er búnaður sem notaður er í þjónustu og verslun, svo sem kælar og frystibúnaður, þvottavélar, þurrkarar, uppþvottavélar, faxtæki, ljósritunarvélar, tölvur og búnaður tengdur þeim o.fl. Til þriðja flokksins telst búnaður sem notaður er í framleiðsluiðnaði hvers konar, svo sem rafmótorar, loftræstingarbúnaður, dælubúnaður, katlar o.fl. Lögin ná hins vegar ekki til farartækja eða hvers konar notaðra tækja.


Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er iðnaðarráðherra veitt heimild til að kveða á um orkunýtnikröfur einstakra tækja í reglugerð. Með þessu er unnt að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins í íslenskan rétt með setningu reglugerða. Eins og áður segir hefur Evrópusambandið þegar sett tilskipun 96/57/EB um kröfur um orkunýtni rafknúinna kæliskápa, frystiskápa og sambyggðra kæli- og frystiskápa til heimilisnota.
    Í 2. mgr. er kveðið á um takmörkun á markaðsaðgengi. Þegar settar hafa verið reglur um orkunýtnikröfur um ákveðna vöru er óheimilt að selja, leigja eða markaðssetja vöru sem ekki uppfyllir slíkar kröfur. Að sama skapi er óheimilt að banna, takmarka eða hindra markaðssetningu vöru sem uppfyllir kröfur um orkunýtni. Í tilskipun 96/57 er gert ráð fyrir að vara sem uppfyllir orkunýtnikröfur sé CE-samræmismerkt. Hafi vara slíkt merki ber að líta svo á að hún uppfylli kröfur um orkunýtni nema færðar séu sönnur á hið gagnstæða. Beri vara hins vegar ekki slíkt merki hvílir sú skylda á framleiðanda, fulltrúa hans eða þess sem markaðssetur vöru að sýna fram á að varan uppfylli kröfur um orkunýtni.
    Loks er iðnaðarráðherra veitt heimild til að kveða á um að reglur um orkunýtnikröfur skuli einnig ná til innflutnings og framleiðslu á vöru til eigin nota.
    Þær orkunýtnikröfur sem ráðherra er heimilt að setja samkvæmt þessari grein skulu byggðar á raunhæfum möguleikum til að bæta orkunýtni þessara ákveðnu tegundar búnaðar. Til hliðsjónar skal hafa áhrif orkunýtnikrafna á þjóðarhag, umhverfið, neytendur og atvinnulíf.

Um 4. gr.

    Í greininni er iðnaðarráðherra veitt heimild til að mæla fyrir um í reglugerð hvaða merkingar og aðrar upplýsingar skuli fylgja búnaði sem uppfyllir kröfur um orkunýtni. Tæki sem uppfylla orkunýtnikröfur verða CE-merkt og er aðildarríkjum EES-samningsins óheimilt að banna, takmarka eða tálma að vörur með slíka merkingu séu settar á markað. Þá ber að hafa í huga að um sömu tæki kunna að hafa verið settar reglur um orkumerkingar og ber birgðasölum einnig að hlíta þeim ákvæðum.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. segir að birgðasali beri ábyrgð á að vörur hans uppfylli orkunýtnikröfur sem settar eru á grundvelli 1. mgr. 3. gr. Honum ber því að tryggja að hvert tæki sem fer á markað uppfylli orkunýtnikröfur. Jafnframt er sú skylda lögð á birgðasala að sjá til þess að gerðar séu nauðsynlegar prófanir og mælingar á búnaði til að kannað verði hvort búnaður uppfylli orkunýtnikröfur sem gerðar hafa verið af ráðherra. Hafa ber í huga að þær vörur sem hafa CE-merkingu teljast uppfylla orkunýtnikröfur nema rökstudd ástæða sé til að ætla hið gagnstæða.

    Í 2. mgr. er lagt bann við því að hefja sölu eða leigu á vöru þar til nauðsynlegar mælingar og prófanir hafa farið fram. Þetta ákvæði hefur einkum þýðingu ef vara er ekki CE-merkt. Í slíkum tilfellum þarf að framkvæma mælingar og prófanir til að ganga úr skugga um að varan uppfylli kröfur um orkunýtni. Birgðasali ber allan kostnað af slíkum mælingum og prófunum enda á hans ábyrgð að vara uppfylli orkunýtnikröfur.
    Í 3. mgr. er ráðherra veitt heimild til að mæla fyrir um í reglugerð hvaða aðferðir og staðla skal nota við mælingar og prófanir á orkunýtni búnaðar. Miðað er við að ef viðurkenndir alþjóðlegir eða samevrópskir staðlar eru til, verði við þá miðað. Ef hins vegar ekki eru til viðurkenndir alþjóðlegir eða samevrópskir staðlar eða ef um fleiri en einn staðal er að ræða getur ráðherra mælt fyrir um hvaða staðla eða aðferðir skuli notast við. Slíkir staðlar skulu vera í samræmi við heildaraðferð Evrópusambandsins um samræmisyfirlýsingar. Í ákvörðun ráðs Evrópusambandsins frá 22. júlí 1993, nr. 93/465/EBE, er nánar kveðið á um þessar yfirlýsingar.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram að iðnaðarráðherra fer með framkvæmd laganna. Virkt eftirlit með framkvæmd laganna er nauðsynlegt til að tryggja að farið sé að reglum um orkunýtnikröfur. Með því verður samkeppnisstaða birgðasala og réttur neytenda best tryggður. Í greininni er Löggildingarstofu falið yfireftirlit og ábyrgð á eftirliti. Framkvæmd eftirlits er síðan í höndum óháðra skoðunarstofa.
    Í 2. mgr. segir að framkvæmd og eftirlit með lögum þessum fari að lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við á.
    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir gjaldtökuheimild vegna þessa eftirlits. Ástæður þessa eru fyrst og fremst þær að í 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, er kveðið á um eftirlit með öryggi raffanga. Ákvæði laga nr. 146/1996 koma til með að ná til meiri hluta þeirra tækja sem orkunýtnikröfur verða settar um. Í lögum nr. 146/1996 er að finna gjaldtökuheimild vegna eftirlits á grundvelli þeirra laga og yrði um tvöfalda gjaldtöku að ræða á þessum tækjum ef sérstök gjaldtaka væri heimiluð vegna eftirlits með orkunýtnikröfum. Eftirlit á grundvelli laga nr. 146/1996 og eftirlit með orkunýtnikröfum er unnt að framkvæma í einni og sömu skoðun. Þar sem yfireftirlit með öryggi raffanga er í höndum Löggildingarstofu er eftirlit með að tæki uppfylli kröfur um orkunýtni falið Löggildingarstofu. Kostnaður vegna eftirlits samkvæmt frumvarpinu ætti því að vera hverfandi. Þó má gera ráð fyrir einhverjum kostnaði Löggildingarstofu vegna yfireftirlits, breytinga á skoðunarhandbók o.fl.

    Í 3. mgr. greinarinnar er lögð skylda á birgðasala að miðla þeim upplýsingum til eftirlitsaðila sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits. Eftirlitsaðili getur því krafist þeirra upplýsinga af birgðasölum og seljendum sem hann telur nauðsynlegar til að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt þessum lögum.

Um 7. og 8. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um orkunýtnikröfur.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að skilgreina kröfur um orkunýtingu nýrra tækja, véla og búnaðar. Birgðasali ber ábyrgð á að nauðsynlegar mælingar og prófanir á orkunýtni búnaðar fari fram svo að kannað verði hvort búnaður uppfylli kröfur um orkunýtni sem ákveðnar hafa verið. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra geti falið Löggildingarstofu eða öðrum eftirlitsstjórnvöldum að annast eftirlit með því að ákvæðum laganna verði framfylgt. Við framkvæmd og eftirlit er vísað til laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, en þar segir að Löggildingarstofa og önnur eftirlitsstjórnvöld fari með opinbera markaðsgæslu. Skulu eftirlitsstjórnvöld að eigin frumkvæði taka til meðferðar mál er varða öryggi vöru sem heyrir undir eftirlit þeirra.
    Faggiltar skoðunarstofur annast framkvæmd eftirlits sem birgðasali greiðir fyrir. Hlutverk Löggildingarstofu er hins vegar yfireftirlit sem felst m.a. í gerð verklags- og skoðunarreglna ásamt eftirliti og úrtaksskoðun á markaði. Í almennum athugasemdum við frumvarpið er greint frá EBE-tilskipunum um orkumerkingar ýmissa heimilistækja en ætlað er að innleiða þær hér á landi. Af því má ráða að fyrst um sinn mun eftirlit með orkunýtni ná til algengra tækja og búnaðar sem nota rafmagn sem orkugjafa þar sem svigrúm er til að auka heildarorkunýtni verulega.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla að fljótlega þurfi að auka umfang yfireftirlits Löggildingarstofu um allt að einu starfi og er heildarkostnaður áætlaður um 2,5–3 m.kr. þar sem mæling og eftirlit með orkunýtni krefst tæknilegrar þekkingar og flókins búnaðar. Þó er athygli vakin á 6. gr. í greinargerð, þar sem greint er frá að nú þegar er tekið gjald fyrir þessa þjónustu og ætti því kostnaðurinn að verða hverfandi.