Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 825  —  524. mál.




Frumvarp til laga


um breytingar á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73 18. maí 1990.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Hugtakið netlög merkir í lögum þessum vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að veita leyfishafa fyrirheit um forgang að leyfi skv. 3. gr. í allt að tvö ár eftir að gildistíma leyfis til leitar er lokið og um að öðrum aðila verði ekki veitt leyfi til leitar á þeim tíma.

3. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Iðnaðarráðherra er heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald (leigu) fyrir töku eða nýtingu sem hann heimilar skv. 1. mgr. Tekjum af leyfum skal varið til hafsbotns- og landgrunnsmála samkvæmt nánari ákvörðun iðnaðarráðherra.

4. gr.

    Við 5. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Í reglugerð skal tilgreina helstu ákvæði sem fram skulu koma í leyfunum, m.a. um tímalengd leyfis, staðarmörk vinnslusvæða, gerð efnis, magn og nýtingarhraða ef um nýtingarleyfi er að ræða, upplýsingaskyldu og skil gagna, öryggis- og umhverfisráðstafanir, eftirlit og greiðslu kostnaðar af eftirliti og leyfisgjald.
    Í reglugerð skal einnig kveðið á um þau atriði sem umsækjandi skal tiltaka í umsókn um leitar- og rannsóknarleyfi skv. 2. gr. og þau atriði sem umsækjandi skal tiltaka í umsókn um vinnsluleyfi skv. 3. gr.

5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Þeir sem hafa leyfi til leitar og hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni skulu halda þeim leyfum í tvö ár frá gildistöku laga þessara.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, var lögfestur eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum á, í eða undir hafsbotninum. Í Hrd. 1981.1584 og Hrd. 1981.182 voru kveðnir upp stefnumarkandi dómar um réttarstöðu ríkisins á almenningum og eigendalausum afréttarlandsvæðum. Í dómunum hafnaði Hæstiréttur eignarréttartilkalli íslenska ríkisins þar sem það gat ekki sýnt fram á neinar heimildir fyrir eignatilkalli sínu. Þó var talið að handhafar ríkisvalds gætu í skjóli valdheimilda sinna sett reglur um meðferð og nýtingu þeirra svæða sem um var að ræða. Þessi niðurstaða endurspeglast í síðari lagasetningu, sbr. ákvæði laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998.
    Tilgangur frumvarps þessa er að taka af öll tvímæli um að iðnaðarráðherra sé heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald fyrir töku eða nýtingu ólífrænna eða lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera. Sambærilega heimild forsætisráðherra er að finna í lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, varðandi nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendu. Til að koma í veg fyrir ósamræmi og óeðlilega ásókn í þær auðlindir hafsbotnsins sem lögin ná til er æskilegt að tekinn sé af allur vafi í þessu efni. Hlýtur það að teljast eðlilegt að ríkisvaldið krefjist gjalds fyrir nýtingu þessara sameiginlegu auðlinda þjóðarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Merking hugtaksins netlög er skilgreind hér í samræmi við lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998. Því þykir rétt að skýra merkingu þess sérstaklega til þess að ekki fari á milli mála hversu langt frá bakka stöðuvatns og stórstraumsfjöru einkaeignarréttur landeigenda nær.

Um 2. gr.


    Rannsóknir á auðlindum hafsbotnsins eru kostnaðarsamar og krefjast oftast beitingar dýrs og sérhæfðs tækjabúnaðar. Rétt þykir að sá sem leggur út í slíkar rannsóknir fái nokkurn umþóttunartíma til að meta niðurstöður rannsókna sinna og gera áætlanir um vinnslu á grundvelli þeirra. Tveggja ára forgangstími til vinnslu á rannsóknarsvæðinu að afloknum rannsóknatíma er talinn hæfilegur hámarkstími miðað við þá nýtingu efna hafsbotnsins sem stunduð hefur verið undanfarin ár og eingöngu hefur verið bundin við jarðefnatöku. Komi til viðameiri rannsókna síðar vegna annarra efna sem kunna að finnast á, í eða undir hafsbotninum þarf að endurskoða þennan umþóttunartíma.

Um 3. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við lagafrumvarp þetta er heimild iðnaðarráðherra til að taka endurgjald fyrir nýtingu auðlinda hafsbotnsins í samræmi við önnur sambærileg lög. Einnig er mikilvægt að ekki skapist ójafnvægi á milli efnistöku á landi og í sjó, en efnistaka á landi er undantekningalítið aðeins heimiluð gegn endurgjaldi til landeiganda.
    Lagt er til að tekjum af útgáfu leyfa verði varið til hafsbotns- og landsgrunnsmála, svo sem almennra rannsókna, sérstakra olíuleitarverkefna o.fl. samkvæmt nánari ákvörðun iðnaðarráðherra. Almennt hefur verið litið svo á að ekki séu miklar líkur á því að verðmætar auðlindir sé að finna innan lögsögu Íslands. Sú skoðun byggist þó á takmörkuðum rannsóknum og er að svo komnu máli ekki hægt að útiloka að t.d. olía eða málmar kunni að finnast þar í vinnanlegu magni. Í þeim tilgangi að ýta undir frekari rannsóknir á auðlindum hafsbotnsins er lagt til að tekjur af leyfum vegna nýtingar efna á hafsbotninum renni til þessara rannsókna. Gert er ráð fyrir að gjaldtakan verði tengd efnismagni eða efnisverðmæti. Um gjaldtökuna verður mælt fyrir í reglugerð sem heimild er fyrir skv. 5. gr. laganna.

Um 4. gr.


    Í 5. gr. laganna segir að iðnaðarráðherra skuli með reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þar á meðal nánari ákvæði um þau leyfi sem um ræðir í 3. og 4. gr. laganna. Ástæða þykir til að kveða skýrar á um þetta og tiltaka helstu efnisatriði sem fram skulu koma í leyfunum og umsóknum um leyfin.
    Mikilvægt er að þeim sem sækja um leyfi frá stjórnvöldum sé fyrir fram ljóst hvaða gögn þurfi að fylgja umsóknum og hver séu meginefnisatriði leyfisbréfa. Þessi atriði eru þau sömu og umsóknir verða metnar eftir.
    Þá er og mikilvægt að leyfishöfum sé fyrir fram ljóst hvaða gögn þeir þurfi að afhenda á leyfistímanum og við lok hans, m.a. til að upplýsa um efnistökustaði, efnismagn og efnisgerð á hverjum stað, svo nokkuð sé nefnt. Slíkar upplýsingar eru t.d. grundvallaratriði til að unnt sé að fylgjast með að skilyrðum leyfisins sé fylgt, m.a. vegna umhverfissjónarmiða.

Um 5. gr.


    Við setningu laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, voru fáir aðilar sem sóttust eftir efnistöku af hafsbotni. Þetta hefur breyst hin síðari ár og hafa þá ýmsir annmarkar komið fram á hinum eldri leyfum. Miklvægt er að leiðrétta þetta, samræma ákvæði leyfanna og koma á gjaldtöku fyrir nýtingu auðlindarinnar. Rétt þykir að þeir sem hafa leyfi við gildistöku laga þessara fái aðlögunartíma að nýrri skipan mála og er aðlögunartíminn metinn hæfilegur tvö ár.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/1990,
um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.

    Tilgangur frumvarpsins er að taka af öll tvímæli um að iðnaðarráðherra sé heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald fyrir töku eða nýtingu ólífrænna eða lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera.
    Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.