Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 845  —  543. mál.




Frumvarp til laga



um veiðieftirlitsgjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Fyrir veitingu almenns leyfis til veiða í atvinnuskyni og veiðileyfa, sem veitt verða á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða, skal greiða 15.000 kr.


2. gr.

    Fiskistofa skal innheimta veiðieftirlitsgjald fyrir veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða í samræmi við 2.–5. mgr. Gjaldið skal renna til reksturs veiðieftirlits Fiskistofu.
    Eigendur skipa skulu greiða 242 kr. fyrir hvert þorskígildistonn úthlutaðs eða landaðs afla, sbr. 3. mgr., vegna tegunda sem veiðast alfarið innan lögsögu Íslands og íslenskum deilistofnum en 300 kr. vegna tegunda sem veiðast alfarið utan lögsögu Íslands. Gjaldið skal þó aldrei vera lægra en 2.700 kr.
    Þegar um er að ræða tegundir sem úthlutað er til einstakra skipa á grundvelli aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar skal gjaldið miðast við hlutdeildarstöðu skips og ákvarðað heildaraflamagn þegar gjaldið er lagt á. Fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en greinir í 1. málsl. skal gjald miðast við landaðan afla skips í viðkomandi tegund samkvæmt aflaupplýsingakerfi Fiskistofu á tólf mánaða tímabili sem lýkur einum mánuði fyrir upphaf fiskveiðiárs eða veiðitímabils. Miða skal við landaðan afla krókabáta í þeim tegundum þar sem þeir eru ekki bundnir aflatakmörkunum en sæta ákvörðun um heildarafla.
    Gjald samkvæmt þessari grein skal lagt á 1. desember ár hvert. Taki úthlutun veiðiheimilda gildi á tímabilinu 1. desember til 31. ágúst skal gjaldið þó lagt á og greitt fyrir fram við útgáfu tilkynningar um úthlutaðar veiðiheimildir. Gjaldið er ekki afturkræft þótt veiðiheimildir séu ekki nýttar. Eindagi gjaldsins er 15 dögum eftir gjalddaga. Hafi greiðsla ekki borist innan mánaðar frá gjalddaga fellur veiðileyfi skips niður. Lögveð er í skipi fyrir gjaldinu. Sé tekin ákvörðun um að lækka leyfilegan heildarafla einstakra tegunda á tímabilinu 1. desember til 31. ágúst skal Fiskistofa greiða eiganda skips fjárhæð sem nemur grunnfjárhæð skv. 2. mgr. fyrir hvert þorskígildistonn sem aflaheimildir skipsins skerðast um.
    Sjávarútvegsráðuneytið skal reikna þorskígildi fyrir 15. júlí ár hvert fyrir hverja tegund sem sætir ákvörðun um stjórn veiða, sbr. 1. og 2. málsl. 3. mgr., og taka mið af tólf mánaða tímabili sem hefst 1. maí næstliðið ár og lýkur 30. apríl. Sé tekin ákvörðun um stjórn veiða á tegund sem ekki hefur áður sætt slíkri ákvörðun skal þegar reikna þorskígildi fyrir tegundina miðað við sama tímabil og greinir í 1. málsl. Þorskígildi skulu reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem sæta ákvörðun um stjórn veiða af verðmæti slægðs þorsks. Til grundvallar verðmætaútreikningi skal leggja heildaraflamagn og heildarverðmæti þessara tegunda samkvæmt upplýsingum Fiskistofu þar um. Þegar um er að ræða fisk sem seldur er ferskur erlendis skal miða við 88% af söluverðmæti hans. Varðandi botnfisk að undanskildum karfa skal miða við slægðan fisk. Miða skal við slitinn humar.

3. gr.

    Fyrir staðfestingu Fiskistofu á flutningi aflahlutdeildar og krókaaflahlutdeildar milli skipa skal eigandi þess skips sem flutt er frá greiða 1.800 kr.

4. gr.

    Greiða skal fyrir veru eftirlitsmanna um borð í skipum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
    Útgerð skips skal greiða fæði veiðieftirlitsmanna og sjá þeim endurgjaldslaust fyrir aðstöðu meðan þeir stunda eftirlitsstörf um borð í skipum sem stunda veiðar á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða.
    Auk kostnaðar skv. 2. mgr. skulu útgerðir fullvinnsluskipa greiða 14.200 kr. vegna eftirlits fyrir hvern dag eða hluta dags sem eftirlitsmaður er um borð.
    Hafi stjórnvöld, á grundvelli milliríkjasamnings eða með öðrum skuldbindandi hætti, samið um að eftirlit með veiðum fiskiskipa úr stofni sem alfarið veiðist utan lögsögu Íslands skuli vera með þeim hætti að um borð í hverju fiskiskipi skuli starfa eftirlitsmaður skulu útgerðir skipa er veiðar stunda úr þeim stofni, auk kostnaðar skv. 2. mgr., greiða 15.000 kr. fyrir hvern dag er skipið stundar þær veiðar. Verði samið um minna eftirlit, þannig að veiðieftirlitsmaður verði við eftirlitsstörf um borð í hluta skipa er stunda veiðar úr viðkomandi stofni, skal hvert skip greiða gjald, fyrir hvern dag er skipið stundar þær veiðar, er nemur sama hlutfalli af daggjaldinu skv. 1. málsl. og umsömdu hlutfalli skipa með eftirlitsmenn um borð. Skal gjaldið greitt af öllum skipum er veiðarnar stunda, án tillits til veru eftirlitsmanna um borð í einstökum skipum.
    Gjald vegna eftirlitsmanna greiðist Fiskistofu mánaðarlega eftir á, fyrir eftirlit síðastliðins mánaðar.

5. gr.

    Sé ákveðið að tiltekin skip skuli búin staðsetningar- og sendingarbúnaði sem veitir sjálfvirkt upplýsingar um staðsetningu þeirra til stöðvar í landi skulu viðkomandi útgerðir kosta nauðsynlegan búnað í skip sín og greiða kostnað við sjálfvirkar sendingar upplýsinga um staðsetningu.

6. gr.

    Sjávarútvegsráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd þessara laga með reglugerð.

7. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 129 28. desember 1989, um veiðieftirlitsgjald.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

         Í frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði um gjald fyrir veiðieftirlit verði sameinuð í ein heildarlög en þannig má tryggja betur skýra og samræmda gjaldtöku. Í gildandi lögum má finna ákvæði um gjald fyrir veiðieftirlit í lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, lögum nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum, og lögum nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, með síðari breytingum. Hér er lagt til að gjaldtökuákvæði fyrrnefndra laga vegna veiðieftirlits verði sameinuð í ein lög en í frumvarpi því sem lagt er fram samhliða þessu er lagt til að gjaldtökuákvæði fyrrnefndra laga falli brott.
    Nokkrar breytingar eru lagðar til á gildandi gjaldtökuákvæðum. Lagt er til að grundvöllur veiðieftirlitsgjalds vegna úthlutaðra aflaheimilda verði lögfestur með skýrari hætti en nú er. Einnig er lagt til að grunnfjárhæð gjaldsins, sem ákvörðuð hefur verið með reglugerð, verði lögfest, sem og útreikningsaðferð verðmætahlutfalla einstakra tegunda sem gjaldið miðast við. Veiðieftirlitsgjaldi er ætlað að standa undir kostnaði við veiðieftirlit. Grunnfjárhæð gjaldsins hefur verið ákvörðuð með hliðsjón af því og þeim þáttum sem gjaldið byggist á, þ.e. úthlutuðu aflamarki og verðmætahlutföllum milli tegunda. Þar sem þessir þættir eru breytilegir má gera ráð fyrir að breyta þurfi grunnfjárhæð gjaldsins reglulega. Af þeim sökum er heppilegra að kveða á um veiðieftirlitsgjald í sérstökum lögum. Þar sem almennt liggur ekki fyrir hver hámarksafli botnfisks verður fyrr en í júlímánuði er nauðsynlegt að leggja til breytingar á álagningartíma gjaldsins. Í stað þess að gjaldið leggist á við úthlutun veiðiheimilda í upphafi fiskveiðiárs er lagt til að það leggist á 1. desember ár hvert. Gefst þá tækifæri til að endurskoða grunnfjárhæð gjaldsins með tilliti til ákvarðaðs hámarksafla og verðmætahlutfalla einstakra tegunda. Vegna breytinga á álagningartíma gjaldsins þykir eðlilegt að miða við það sem skip fengi úthlutað miðað við aflahlutdeildarstöðu þess þegar gjaldið er lagt á. Innheimta gjaldsins hefur verið trygg þar sem úthlutun veiðiheimilda hefur ekki farið fram nema gjaldið hafi fyrst verið innt af hendi. Þessi trygging verður ekki lengur fyrir hendi ef gjalddagi þess verður 1. desember ár hvert. Er því lagt til að skip verði svipt veiðileyfi verði gjaldið ekki greitt og gjaldið tryggt með lögveði í viðkomandi skipi.
    Þá eru í frumvarpi þessu lagðar til nokkrar breytingar sem er ætlað að tryggja samræmda álagningu gjalds. Helst er að nefna að lagt er til að orðalagi gildandi laga verði breytt svo að heimild til álagningar veiðieftirlitsgjalds nái til útgáfu hvers konar veiðiheimilda innan fiskveiðiárs eða veiðitímabils. Er í því sambandi sérstaklega höfð í huga úthlutun krókaaflamarks og aflahámarks til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Þá er lagt til að heimild til töku gjalds vegna fjareftirlits nái til slíks eftirlits jafnt innan sem utan lögsögu.
    Auk framangreindra breytinga er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að afnema sjálfvirka breytingu gjalda til að sporna við þenslu í hagkerfinu lagt til að vísitölubinding gjaldsins verði afnumin.
    Ekki eru lagðar til breytingar á fjárhæð gjalda að öðru leyti en því að eðlilegt þykir að þau gjöld sem uppfærð hafa verið með reglugerð miðað við byggingarvísitölu uppfærist nú miðað við byggingarvísitölu í janúar 2000.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Greininni er ætlað að koma í stað 4. mgr. 18. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Grunnfjárhæð gjaldsins er skv. 4. mgr. 18. gr. laga um stjórn fiskveiða 10.000 kr. sem ráðherra er heimilt að breyta í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu. Samkvæmt reglugerð nr. 517 27. júlí 1999, um veiðieftirlitsgjald, er gjaldið nú 14.940 kr. Lagt er til að gjaldið verði 15.000 kr. og að binding þess við vísitölu byggingarkostnaðar verði afnumin. Er það í samræmi við mótaða stefnu ríkisstjórnarinnar að afnema sjálfvirka breytingu á fjárhæð gjalda. Þess má geta að í fjárlögum fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir að heildartekjur vegna veiðieftirlitsgjalds, þ.e. vegna veiðileyfis og úthlutaðra þorskígildistonna, verði 150,3 millj. kr. Samkvæmt orðalagi 2. mgr. 8. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands er taka gjalds fyrir útgáfu veiðileyfa bundin við veiðileyfi á úthafinu sem veitt eru á grundvelli tilgreindra ákvæða laganna. Orðalagið er þröngt og er eðlilegra að miða við alla útgáfu veiðileyfa utan lögsögu Íslands.

Um 2. gr.

    Greininni er ætlað að koma í stað 1.–3. mgr. 18. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og 3.–6. mgr. 8. gr. laga nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Nokkrar breytingar eru lagðar til á þessum ákvæðum. Í 18. gr. laga um stjórn fiskveiða segir að veiðieftirlitsgjald miðist við áætlað verðmæti þess aflamarks sem úthlutað er. Þar segir að ráðherra skuli áætla hlutfallslegt verðmæti einstakra tegunda í þessu skyni. Ráðherra hefur ákvarðað grunnfjárhæð gjaldsins með reglugerð og miðað við að gjaldið standi undir kostnaði við veiðieftirlit. Í reglugerð nr. 517 27. júlí 1999, um veiðieftirlitsgjald, var grunngjaldið ákveðið 242 kr. Í 8. gr. laga um veiðar utan lögsögu Íslands segir að gjald vegna úthlutunar veiðiheimilda úr íslenskum deilistofnum skuli vera hið sama. Grunnfjárhæð vegna úthlutunar úr stofnum sem veiðast alfarið utan lögsögu er hins vegar lögfest 30 aurar á hvert aflakíló. Þess má geta að í fjárlögum fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir að heildartekjur vegna veiðieftirlitsgjalds samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, þ.e. vegna veiðileyfis, færslu aflahlutdeildar og úthlutaðra veiðiheimilda innan árs, verði 150,3 millj. kr. Í fjárlögum fyrir árið 2000 voru tekjur vegna veiðieftirlitsgjalds utan lögsögu, þ.e. gjalds fyrir veiðileyfi, flutning aflahlutdeildar og úthlutaðar veiðiheimildir eða landaðan afla, svo og gjalds vegna veiðieftirlitsmanna, áætlaðar 32,5 millj. kr.
    Eins og greinir í almennum athugasemdum þykir réttara að lögfesta grundvöll veiðieftirlitsgjalds vegna úthlutunar aflaheimilda með skýrari hætti. Í 2. mgr. er því lagt til að grunnfjárhæð gjaldsins verði lögfest. Ekki eru lagðar til breytingar á grunnfjárhæð gjaldsins frá gildandi reglugerð um veiðieftirlitsgjald, enda liggja ekki fyrir upplýsingar um hámarksafla botnfisktegunda á komandi fiskveiðiári. Eins og áður segir er grunnfjárhæð gjalds vegna veiða úr stofnum sem veiðast alfarið utan lögsögu skv. 4. mgr. 8. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum, 30 aurar á hvert aflakíló metið til þorskígilda. Í samræmingarskyni er lagt til að gjaldið verði 300 kr. á hvert þorskígildistonn.
    Í 3. mgr. er kveðið á um stofn gjaldsins. Í fyrsta lagi er lagt til að í þeim tegundum sem úthlutun aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar hefur farið fram miðist gjald vegna viðkomandi tegunda við hlutdeildarstöðu skips og ákvarðaðan heildarafla á þeim tíma sem gjaldið er lagt á. Ákvæðið nær til hvers konar úthlutunar aflaheimilda innan árs sem byggjast á aflahlutdeild eða krókaaflahlutdeild. Samkvæmt 18. gr. laga um stjórn fiskveiða er miðað við úthlutað aflamark 1. september og er gjaldið lagt á þann dag. Hér er hins vegar í 4. mgr. lagt til að meginreglan verði sú að gjaldið verði lagt á 1. desember ár hvert. Samkvæmt þessu verður 1. desember reiknað hve miklu skip fengi úthlutað, t.d. af aflamarki miðað við aflahlutdeildarstöðu þess og ákvarðaðan heildarafla þann dag. Í öðru lagi er lagt til að fari stjórn veiða í einstökum tegundum fram með öðrum hætti en með ákvörðun aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar verði miðað við landaðan afla skips á tólf mánaða tímabili fyrir upphaf veiðitímabils eða fiskveiðiárs. Er ákvæðinu ætlað að koma í stað 3. mgr. 18. gr. laga um stjórn fiskveiða og 6. mgr. 8. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og ná til stjórnunar krókabáta að svo miklu leyti sem þeir hafa ekki fengið úthlutað krókaaflamarki á grundvelli krókaaflahlutdeildar, svo og ef einstökum tegundum er stjórnað með öðrum hætti en úthlutun hlutdeildar. Orðalag ákvæðisins er víðara en 6. mgr. 8. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands þar sem það nær ekki aðeins til stjórnunar einstakra tegunda utan íslenskrar lögsögu heldur einnig til íslenskra deilistofna og tegunda sem veiðast eingöngu innan íslenskrar lögsögu. Með stjórn fiskveiða er átt við hvers konar beina stjórnun á veiðum einstakra tegunda, t.d. með útgáfu leyfa til veiða úr einstökum tegundum, reglur um hámarksafla, fjölda daga og sambærilegar ráðstafanir en ekki almennar tæknilegar stjórnunarráðstafanir, t.d. um veiðarfæri, smáfiskavernd og sambærilegar reglur. Dæmi um tegundir sem falla undir þetta ákvæði eru kolmunni og gulllax. Þegar um krókabáta er að ræða ber að miða við landaðan afla tegunda sem sæta ákvörðun um hámarksafla á tólf mánaða tímabili sem lýkur einum mánuði fyrir upphaf fiskveiðiárs. Bátar sem hafa fengið úthlutað krókaaflamarki á grundvelli krókaaflahlutdeildar greiða af lönduðum afla annarra tegunda, sem sæta ákvörðun um heildarafla, en þeim sem úthlutað hefur verið í. Þegar stjórn lýtur að einstökum tegundum ber að miða við landaðan afla í viðkomandi tegundum á tólf mánaða tímabili sem lýkur einum mánuði fyrir upphaf fiskveiðiárs eða veiðitímabils. Tölur um landaðan afla skulu miðast við aflaupplýsingakerfi Fiskistofu, þ.e. Lóðs.
    Í 4. mgr. er kveðið á um álagningardag gjalds. Meginreglan er sú að gjaldið skuli lagt á 1. desember ár hvert. Eins og greinir í almennum athugasemdum er það gert til að unnt verði að endurskoða grunnfjárhæð gjaldsins með tilliti til breytinga á verðmætahlutföllum milli einstakra tegunda og ákvörðunar heildarafla áður en gjaldið er lagt á. Sé aflaheimildum úthlutað innan fiskveiðiárs eftir 1. desember segir að greiðsla skuli innt af hendi fyrir fram við útgáfu tilkynningar um úthlutaðar veiðiheimildir. Er hér m.a. haft í huga að úthlutun í upphafi fiskveiðiárs kann að vera til bráðabirgða. Þá hefur úthlutun veiðiheimilda í úthafskarfa og Flæmingjagrunnsrækju farið fram í upphafi almanaksárs. Þar sem ekki er lengur unnt að binda úthlutun veiðiheimilda við greiðslu gjaldsins er kveðið á um að svipta megi skip veiðileyfi sé gjaldið ekki innt af hendi. Af sömu sökum þykir nauðsynlegt að tryggja gjaldið með lögveði í viðkomandi skipi. Rétt þykir að árétta að gjaldið sé ekki afturkræft þó svo að veiðiheimildir séu ekki nýttar.
    Í 5. mgr. er lýst hvernig finna skuli verðmætahlutföll milli einstakra tegunda. Í lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, er í nokkrum greinum, þ.e. 1. mgr. 9. gr., 1. mgr. 10. gr., 1. og 2. mgr. 11. gr. a, 5. og 7. mgr. 12. gr. og 2. mgr. 18. gr., gert ráð fyrir að ráðherra ákveði verðmætahlutföll milli tegunda. Einnig er í lögum nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum, þ.e. 7. mgr. 5. gr., 4., 7. og 8. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 8. gr., og í lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum, þ.e. 1. mgr. 6. gr., byggt á slíkri ákvörðun ráðherra. Verðmætahlutföll eru því m.a. notuð við útreikning á því hvort hámarksaflahlutdeild er náð, útreikning á framsalsheimildum aflamarks, veiðiskyldu, veiðieftirlitsgjaldi og gjaldi til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Útreikningur á verðmætahlutföllum er miðaður við framkvæmd síðustu ára. Taka á mið af öllum lönduðum afla á tólf mánaða tímabili, jafnt óunnum sem unnum. Í samræmi við framkvæmd er lagt til að miða við slægðan fisk og slitinn humar. Fiskistofa safnar upplýsingum um verð í öllum viðskiptum og það magn sem selt er og skal við útreikninginn miðað við upplýsingar hennar. Við umreikning á unnum fiski hefur verið miðað við svokallaða nýtingarstuðla, en um þá er fjallað í reglugerð nr. 511 18. ágúst 1998, um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð, og við umreikning á óslægðum fiski hefur verið miðað við svokallaða slægingarstuðla en þá er að finna í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fyrir hvert fiskveiðiár. Eðlilegt hefur þótt að taka tillit til kostnaðar sem felst í sölu á ferskum fiski erlendis, svo sem flutningskostnaðar. Lagt er til að sú framkvæmd að miða við 88% af verðmæti viðskipta með ferskan fisk verði lögfest. Eðlilegt er að almennt fari útreikningur fram fyrir hverja fisktegund fyrir sig og sami þorskígildisstuðull gildi því um alla stofna sömu tegundar. Frá þessu getur þó í undantekningartilfellum verið eðlilegt að víkja, t.d. ef mikill verðmunur er milli einstakra stofna sömu tegundar.

Um 3. gr.

    Greininni er ætlað að koma í stað 6. mgr. 18. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða. Greinin tekur til flutnings á aflahlutdeild sem úthlutað er á grundvelli laga um stjórn fiskveiða eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða, svo sem laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Lagt er til að heimild til að breyta gjaldinu miðað við breytingar á byggingarvísitölu frá því í janúar 1994 verði felld brott en grunnfjárhæð gjaldsins verði uppfærð miðað við byggingarvísitölu í janúar 2000 og verði því 1.800 kr. í stað 1.500 kr.

Um 4. gr.

    Greinin fjallar um gjaldtöku vegna veru eftirlitsmanna um borð í skipum. 2. mgr. er að mestu efnislega samhljóða 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Eina frávikið felst í því að eðlilegra þykir að orða ákvæðið þannig að það nái skýrlega til allra laga sem fjalla um stjórn fiskveiða.
    Í 3. mgr. er lagt til að fjárhæð gjalds sem nú er kveðið á um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, með síðari breytingum, verði lögfest. Fjárhæðin er í samræmi við gildandi reglugerð nr. 510 24. ágúst 1998, um leyfi til fullvinnslu sjávarafla um borð í veiðiskipum.
    4. mgr. er að mestu samhljóða 7. mgr. 8. gr. laga nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum.

Um 5. gr.

    Greininni er ætlað að koma í stað 9. mgr. 8. gr. laga nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Nokkrar breytingar eru lagðar til. Gert er ráð fyrir að þeir kostnaðarliðir sem leggja má á útgerðir skipa séu tilgreindir með tæmandi hætti. Þá er gert ráð fyrir að unnt verði að innheimta gjald vegna slíks eftirlits jafnt innan lögsögu Íslands sem utan.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.

    Lög um veiðieftirlitsgjald, nr. 129 28. desember 1989, voru leyst af hólmi með 18. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, og því rétt að nema þau formlega úr gildi.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um veiðieftirlitsgjald.

    Frumvarpið er lagt fram samhliða fumvarpi til laga um breytingu á gjaldtökuákvæðum nokkurra laga á sviði sjávarútvegs. Lagðar eru til breytingar á gjaldtökuákvæðum laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, laga nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, laga nr. 151 27. desember 1996, um veiðar utan lögsögu lands, laga nr. 11 27. mars 1998, um Kvótaþing, og laga nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum. Jafnframt er lagt til að lög nr. 129 28. desember 1989, um veiðieftirlitsgjald, falli brott. Tilgangurinn með frumvarpinu er að tryggja samræmi og skýrleika í gjaldtöku. Í frumvarpinu er lagt til að grunnfjárhæð veiðieftirlitsgjaldsins verði lögfest, sem og reikningsaðferð verðmætis einstakra tegunda sem gjaldið miðast við. Jafnframt er lagt til að í stað þess að gjaldið leggist á við úthlutun aflaheimilda í upphafi fiskveiðiárs leggist það á 1. desember ár hvert og eindagi verði 15 dögum síðar. Einnig er í frumvarpinu nýtt ákvæði um að verði gjaldið ekki greitt falli veiðileyfi skipsins niður og að gjaldið verði tryggt með lögveði í skipi. Þá er í frumvarpinu lagt til að orðalagi gildandi laga verði breytt svo að heimild til álagningar veiðieftirlitsgjalds nái til útgáfu hvers konar veiðiheimilda innan fiskveiðiárs eða veiðitímabils, sem og allra tegunda sem lúta stjórnun sérstaklega. Með þessu orðalagi nær gjaldið til úthlutunar krókaaflamarks og aflahámarks til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og tegunda sem veitt eru sérstök veiðileyfi til, t.a.m. kolmunna og gulllax. Tekjur af veiðieftirlitsgjaldi eru háðar ákvörðun um heildarafla hvert fiskveiðiár. Miðað við óbreyttar forsendur frá því fiskveiðiári sem er að líða má gera ráð fyrir að tekjur af veiðieftirlitsgjaldi hækki um 5 m.kr. Þá eru ekki meðtaldar hugsanlegar tekjur vegna veiðieftirlitsgjalds fyrir kolmunna og gulllax. Veiðieftirlitsgjaldi er ætlað að standa undir kostnaði af veiðieftirliti og í fjárlögum 2000 er gert ráð fyrir að gjaldið skili 183 m.kr. Hefur gjaldið verið endurskoðað árlega með tilliti til áætlaðs kostnaðar við veiðieftirlit og er gert ráð fyrir að svo verði áfram.