Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 848  —  546. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Til arðs telst ekki úthlutun jöfnunarhlutabréfa samkvæmt lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um samvinnufélög sem hafa ekki í för með sér breytta eignarhlutdeild hlutareiganda eða hluthafa eða hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs samvinnufélaga samkvæmt lögum um samvinnufélög.

2. gr.

    Á eftir 3. málsl. 2. mgr. 17. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo:
    Kaupverð hlutabréfa í B-deild stofnsjóðs samvinnufélags sem skattaðili hefur eignast við sértækt endurmat A-deildar stofnsjóðs samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um samvinnufélög skal ákvarðast jöfn fjárhæð hækkunar séreignarsjóðshluta A-deildar yfirfærðs stofnsjóðs.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      Í stað „78. gr.“ og „81. gr.“ í 2. mgr. kemur: 56. gr., og: 59. gr.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
             Sé samvinnufélagi slitið á þann hátt að því sé breytt í hlutafélag og félagsaðilar samvinnufélagsins fái eingöngu hlutabréf í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir séreignarhluti sína í samvinnufélaginu skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem séreignarhlutinn lét af hendi. Hafi samvinnufélag sem breyta á í hlutafélag myndað sérstaka B-deild stofnsjóðs með sölu hluta og eigendur samvinnuhlutabréfanna í B-deild fá eingöngu hlutabréf í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir B-deildar hluti sína í samvinnufélaginu, þá skulu skiptin á sama hátt ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem samvinnuhlutabréfin lét af hendi. Þegar samvinnufélagi er breytt í hlutafélag skal hlutafélagið, sem við tekur, taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum samvinnufélagsins sem slitið var.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Til þess að sértækt endurmat stofnsjóðs A-deildar samvinnufélags samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um samvinnufélög njóti skattalegs hagræðis skv. 2. málsl. 1. mgr. 9. gr., 4. málsl. 2. mgr. 17. gr. og 3. mgr. 56. gr. laganna skal endurmatið lagt fyrir skattstjóra til staðfestingar ásamt upplýsingum um skiptihlutfallið milli félagsaðila fyrir árslok 2003.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2001 vegna tekna og eigna á árinu 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt í tengslum við frumvarp sem lagt verður fram samhliða þessu frumvarpi um breyting á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, þar sem m.a. er lagt til að hækka og lækka megi stofnsjóði samvinnufélaga og á hvern hátt og með hvaða skilyrðum samvinnufélagi verði breytt í hlutafélag.
    Í greinargerð með frumvarpinu um breytingar á samvinnufélagalögunum eru raktir ýmsir erfiðleikar í rekstrarumhverfi samvinnufélaga á undanförnum árum en ein af ástæðunum er rakin til þess að félögin hafi ekki haft aðstöðu til þess að afla sér nýs áhættufjármagns. Jafnframt er bent á að stofnsjóðir félaganna hafa rýrnað fyrir áhrif áratugalangrar verðbólgu þannig að varla sé lengur um að ræða raunverulegt eða eiginlegt eigendafjármagn í samvinnufélögunum.
    Ákvæði frumvarpsins er varða skattfrelsi hækkunar stofnsjóðs svipar til þeirra ákvæða er varða skattfrjálsra útgáfu jöfnunarhlutabréfa, sbr. lög nr. 154/1998.
    Markmið með breytingu á lögum um samvinnufélög og þessum breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt er að gera samvinnufélögum kleift að bregast við þeim vanda sem þau standa frammi fyrir og einfalda þeim að breyta um rekstrarform.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Hér er lagt til að afhending arðs í formi jöfnunarhlutabréfa eða B-deildar samvinnuhlutabréfa vegna endurmats stofnsjóðs A-deildar og afhendingar á samvinnuhlutabréfum í B-deild teljist ekki til arðs. Þegar kemur að endursölu hlutabréfanna ákvarðast stofnverð bréfanna eftir því hvort um endurmat er að ræða skv. 38. gr. laga um samvinnufélög eða bráðabirgðaákvæði í sömu lögum eins og lagt er til að þau breytist. Í fyrra tilvikinu telst stofnverðið vera 0 kr. en í því síðara telst stofnverðið jafnt verðmæti sértæka endurmatsins, eins og nánar er skýrt í athugasemdum um 2. gr.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um hvernig ákvarða skuli stofnverð hlutabréfa í B-deild samvinnufélaga sem félagsmanni er afhent við sértækt endurmat A-deildar stofnsjóðs hans samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um samvinnufélög, sbr. frumvarp um breytingu á lögum um samvinnufélög. Þetta stofnverð gildir ekki ef um endurmat stofnsjóðs er að ræða skv. 38. gr. laga um samvinnufélög eins og lagt er til að þeirri grein verði breytt. Er þetta sambærilegt við úthlutun jöfnunarhlutabréfa í hlutafélögum og einkahlutafélögum eftir árið 1996. Þetta stofnverð gildir hvort sem selt er B-deildar samvinnuhlutabréf eða hlutabréf í hlutafélagi sem við tekur skv. 56. gr. þegar samvinnufélagi er slitið.


Um 3. gr.

    Í 56. gr. laganna er að finna ákvæði um skattskyldu og flutning skattaréttarlegra skyldna og réttinda þegar hlutafélagi er slitið á þann hátt að það sameinast öðru hlutafélagi og þegar samvinnufélag eða hlutafélag sameinast öðru samvinnufélagi. Hér er lagt til að við greinina bætist sams konar ákvæði er tekur til þess þegar samvinnufélagi er slitið á þann hátt að því er breytt í hlutafélag.

Um 4. gr.

    Til þess að hækkun stofnsjóðs A-deildar samvinnufélags við sértækt endurmat hans myndi ekki skattskyldu hjá félagsmönnum er gert að skilyrði í greininni að endurmatið verði lagt fyrir skattstjóra til staðfestingar og enn fremur upplýsingar um skiptingu þess á félagsaðila fyrir árslok 2003.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er fyrirhugað að gera breytingar á ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt sem tengjast öðru frumvarpi um breytingar á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, þar sem lagt er til að hækkun á stofnsjóði samvinnufélaga verði skattfrjáls og mælt fyrir um hvernig breyta megi samvinnufélagi í hlutafélag. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.