Ferill 547. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 849  —  547. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr.

    Á eftir orðinu „flutningspeningar“ í 1. málsl. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna kemur: framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda,

2. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna koma tvær nýjar greinar með fyrirsögninni Kaup á hlutabréfum samkvæmt kauprétti, svohljóðandi:

    a. (8. gr. A.)
    Tekjur skv. 1. tölul. 7. gr., vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, sbr. þó 8. gr. B, skulu ákveðnar eins og kveðið er á um í þessari grein. Til skattskyldra tekna telst mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur er nýttur. Með gangverði er átt við skráð gengi í kauphöll á þeim degi þegar kaupréttur er nýttur. Ef hlutir í félagi eru ekki skráðir í kauphöll skal miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags.

    b. (8. gr. B.)
    Tekjur skv. 8. gr A skulu skattlagðar sem fjármagnstekjur skv. C-lið 7. gr. sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
     1.      Kaupréttur að hlutabréfum í viðkomandi félagi hafi náð til allra starfsmanna.
     2.      Starfsmaður hafi verið í föstu starfi hjá félaginu eða í öðru félagi í sömu félagasamstæðu, sbr. lög um ársreikninga.
     3.      Að lágmarki 12 mánuðir þurfa að líða frá gerð samnings um kauprétt þar til hann er nýttur.
     4.      Kaupverð sé eigi lægra en gangverð, sbr. 8. gr. A, þegar samningur er gerður.
     5.      Starfsmaður eigi hlutabréfin í tvö ár eftir að kaupréttur er nýttur.
     6.      Samningur um kauprétt sé ekki framseljanlegur.
     7.      Hámark kaupréttar hvers starfsmanns sé samanlagt 600.000 kr. á ári miðað við kaupverð samkvæmt samningi.
     8.      Félag sem hefur í hyggju að veita starfsmönnum kauprétt hafi sent ríkisskattstjóra fyrir fram til staðfestingar áætlun um kauprétt starfsmanna ásamt upplýsingum um framangreind atriði í því formi sem hann ákveður.
    Í lok hvers árs skal senda skattstjóra upplýsingar um þá starfsmenn sem hafa nýtt kauprétt á árinu samkvæmt staðfestri áætlun ásamt upplýsingum um kaupverð bréfanna. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Tekjur samkvæmt þessari grein koma til skattlagningar þegar starfsmaður selur hlutabréfin. Teljast þær mismunur á upphaflegu kaupverði og söluverði þeirra. Sá mismunur telst ekki til rekstrarkostnaðar í skilningi 31. gr. laganna.

3. gr.

    Á eftir 3. málsl. 2. mgr. 17. gr. laganna kemur nýr málsliður svohljóðandi: Kaupverð hlutabréfa sem seljandi hefur eignast vegna kaupréttar skv. 8. gr. A skal ákvarðast jafnt gangverði því sem lagt var til grundvallar við ákvörðun tekna samkvæmt því ákvæði.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna:
     a.      5. tölul. orðast svo: Iðgjöld, bæði eigin greiðsla launþega og framlag launagreiðanda, til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að hámarki 20% af iðgjaldsstofni, þó aldrei hærra en 1.500.000 kr. Séu iðgjöld til lífeyrissjóðs, samkvæmt staðfestri samþykkt um hann og kjarasamningi, hærri en framangreint hámark skal frádrátturinn miðaður við þau iðgjöld að viðbættum allt að 3% af iðgjaldsstofni samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga til aukningar lífeyrisréttinda skv. II. kafla framangreindra laga. Skilyrði frádráttar samkvæmt þessum tölulið er að iðgjöld séu greidd reglulega samkvæmt kjarasamningum eða samningum um viðbótarlífeyrissparnað skv. II. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hafi verið talin til tekna skv. 7. gr.
     b.      6. tölul. orðast svo: Iðgjöld manna sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og framlag launagreiðanda vegna öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að hámarki 20% af iðgjaldsstofni, þó aldrei hærra en 1.500.000 kr. Skilyrði frádráttar samkvæmt þessum tölulið er að iðgjöld séu greidd reglulega til lífeyrissjóðs samkvæmt samningum um viðbótarlífeyrissparnað skv. II. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hafi verið talin til tekna skv. 7. gr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna:
     a.      Orðið „innlendum“ í 1. mgr. fellur brott.
     b.      Orðið „innlendu“ í 4. málsl. 4. mgr. fellur brott.

6. gr.

    Á eftir orðunum „þar á meðal“ í 1. málsl. 1. tölul. 31. gr. laganna kemur: iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanna.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „og 5. tölul.“ í 2. málsl. 4. mgr. A-liðar kemur: 5. og 6. tölul.
     b.      Í stað tilvísunarinar „og 5. tölul.“ í 4. málsl. 4. mgr. B-liðar kemur: 5. og 6. tölul.

8. gr.

    Við 5. tölul. 74. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Erlend hlutabréf skal færa til eignar á nafnverði, en ef nafnverð er ekki þekkt skulu bréfin færð til eignar á kaupverði.

9. gr.

    Tilvísunin „sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr.“ í 1. málsl. 78. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Orðin „og að frádregnum bótum skv. 69. gr.“ í 4. mgr. 110. gr. laganna falla brott.     

11. gr.

    Við 117. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er verða 3. og 4 mgr., svohljóðandi:
    Fjármálaráðherra fer með túlkun samninga sem gerðir eru á grundvelli þessarar greinar. Getur hann sett verklagsreglur um túlkun og framkvæmd þeirra sem önnur skattyfirvöld eru bundin af.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga um bindandi álit í skattamálum skal fjármálaráðherra í stað ríkisskattstjóra gefa álit um túlkun og framkvæmd samninga sem gerðir eru á grundvelli þessarar greinar. Álit fjármálaráðherra eru ekki kæranleg til yfirskattanefndar.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2001 vegna tekna og eigna á árinu 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem í megindráttum má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar sem lúta að skattlagningu tekna vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt kauprétti starfsmanna; í öðru lagi breytingar á skattalegri meðferð lífeyrisiðgjalda og; í þriðja lagi breyting á skattafrádrætti vegna hlutabréfakaupa að því er snertir erlend hlutabréf. Að öðru leyti eru lagðar til nokkrar breytingar sem lúta að framkvæmd laganna.

Skattlagning á kauprétti hlutabréfa.
    Undanfarin missiri hefur færst mjög í aukana að fyrirtæki semji við starfsmenn um að hluti launa verði greiddur með kauprétti starfsmanna á hlutabréfum í félagi sem þeir starfa hjá. Í gildandi lögum er ekki sérstaklega kveðið á um skattlagningu slíkra tekna, heldur litið svo á að þær falli undir almenna reglu 7. gr. laganna um starfstengdar greiðslur. Hér er því um að ræða endurgjald til starfsmanns fyrir vinnuframlag hans sem ber að skattleggja hjá honum á sama hátt og aðrar launatekjur. Í frumvarpi þessu er lagt til að tekin verði í lögin sérstök ákvæði 8. gr. A og 8. gr. B og þannig tekin af öll tvímæli um skattskyldu þessara tekna.
    Að baki kaupréttarsamningum í þeim tilvikum sem sérstakur samningur hefur verið gerður liggur oftast til grundvallar skuldbinding um kaup eða sölu á tilgreindum eignum á tilteknum tíma eða eftir tiltekinn tíma og eða að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Á vinnuveitanda hvílir skylda til þess að afhenda umsamið magn hlutabréfa. Starfsmaðurinn hefur ákvörðunarréttinn, en honum ber hins vegar engin skylda til að kaupa bréfin.
    Kaupréttur er oftast skilyrðum háður og felur í sér ákveðna skuldbindingu. Til dæmis er rétturinn alla jafna háður því að viðkomandi einstaklingur starfi hjá því fyrirtæki sem réttinn veitir í tiltekinn tíma áður en nýting réttarins verður virk. Þá er ekki óalgengt að það taki starfsmann nokkur ár að ná fullum réttindum. Ýmis önnur skilyrði varðandi réttindin er einnig að finna í slíkum samningum, svo sem um hámarksfjárhæð kaupa, eignarhaldstíma, erfðarétt og fleiri þætti sem máli skipta hverju sinni. Þá getur samningur um kauprétt verið almennur, þ.e. náð til allra starfsmanna í viðkomandi fyrirtæki, eða hann er sértækur sem þýðir að hann gildir einungis milli tiltekins starfsmanns og viðkomandi fyrirtækis.
    Fram til þessa hefur þetta samningsform fyrst og fremst verið að finna í tæknifyrirtækjum, svo sem hugbúnaðarfyrirtækjum og ýmsum fyrirtækjum á sviði nýsköpunar, en það verður nú algengara í gamalgrónum fyrirtækjum.
    Helstu rök fyrir því að fyrirtæki geri slíka samninga eða veiti starfsmönnum rétt til að kaupa á sérkjörum eru hvatning til starfsmanna þar sem hagsmunir fyrirtækis verða að hagsmunum starfsmannsins. Þá þykir þetta vænleg leið til þess að halda í mikilvæga starfsmenn og halda þannig þekkingu innan fyrirtækisins. Þykir slíkt vænleg leið til þess að brúa upphafstímabil þegar fjármagn skortir auk þess að halda stjórnendum við efnið og brýna þá til góðra verka með langtímamarkmið að leiðarljósi.
    Víða erlendis er í löggjöf að finna reglur sem hvetja til þessa fyrirkomulags, m.a. til þess að auka dreifða eignaraðild í félögum og örva nýsköpun. Þykir því rétt að gera í stuttu máli grein fyrir gildandi reglum í Bandaríkjunum, Danmörku og Svíþjóð.
    Í Bandaríkjunum þekkjast tvenns konar samningar. Annars vegar eru samningar sem ekki eru háðir sérstökum skilyrðum og fer þá um skattlagningu eftir almennum reglum, þ.e. 39% tekjuskattur á afhendingardegi/innlausnardegi en við sölu bréfanna greiðir starfsmaður fjármagnstekjuskatt sem er 28%. Hins vegar eru hvatningar- eða kaupréttarsamningar sem uppfylla sérstök skilyrði skattalaganna. Þar er gert að skilyrði að sambærilegum hópum starfsmanna standi samningar almennt til boða og að auki eru sett skilyrði um tímalengd, hámarksfjárhæð og eignarhald bréfanna. Þegar þessi skilyrði eru uppfyllt greiðir starfsmaðurinn hvorki skatt af kauprétti sínum á samningsdegi né þegar hann leysir til sín bréfin. Skattlagningu er frestað þangað til starfsmaðurinn selur bréfin. Þá gera bandarískar reglur kröfu um lágmarkseignarhald. Starfsmaður verður annaðhvort að hafa kauprétt undir höndum í a.m.k. tvö ár frá samningsdegi eða halda hlutabréfunum sjálfum í a.m.k. eitt ár. Uppfylli hann skilyrði um lágmarkseignarhald borgar hann fjármagnstekjuskatt af söluhagnaði sem er mismunurinn milli afhendingarverðsins/innlausnarverðsins og söluverðmætis bréfanna. Starfsmaðurinn getur haft nokkurn hag af því að eiga bréfin í þennan lágmarkstíma þar sem fjármagnstekjuskatturinn er 28% en tekjuskatturinn er 15–39%. Nýlegar breytingar á skattalögunum fela í sér að eigi starfsmaðurinn bréfin í 18 mánuði eftir kaup verður fjármagnstekjuskatturinn enn lægri eða 20%.
    Í Danmörku hefur lögum nýlega verið breytt í þessum efnum. Eru tímamörk skattlagningarinnar tvenns konar. Annars vegar á afhendingardegi eða innlausnardegi og er þá skattstofninn mismunurinn á milli gangverðs eða markaðsverðs hlutabréfanna á kaupdegi og afhendingarverðsins samkvæmt kaupréttinum. Hlutfall skattlagningar launa er þar 28–58%. Við sölu bréfanna er mismunurinn á söluverði og gangverði eða markaðsverði á kaupdegi skattlagður með fjármagnstekjuskatti á bilinu 44–58%. Eigi starfsmaður bréfin lengur en í þrjú ár lækkar skatthlutfallið niður í 25–40%. Þegar starfsmaðurinn leysir til sín bréfin hefur vinnuveitandinn heimild til þess að gjaldfæra í rekstri sömu fjárhæð og starfsmanni er skylt að greiða tekjuskatt af.
    Í Svíþjóð eru tímamörk skattlagningar tvenns konar. Þannig er starfsmaður skattlagður þegar kaupréttartímabil hefst, þ.e. þegar starfsmanni er fyrst heimilt að nýta réttinn. Er skattstofninn mismunur á gangverði eða markaðsverði á þeim degi og afhendingarverði kaupréttarins. Hlutfall tekjuskatts er frá 30–56%. Á afhendingardegi eða innlausnardegi borgar starfsmaðurinn engan skatt. Við sölu bréfanna greiðir hann 30% fjármagnstekjuskatt. Skattstofn til fjármagnstekjuskatts er mismunur á söluverði bréfanna og markaðsverði á innlausnardegi og söluverði hlutabréfanna og markaðsverði bréfanna á þeim degi þegar kaupréttartímabilið hófst.
    Rétt þykir að setja almennar og skýrar reglur um skattlagningu þessara tekna, ekki aðeins gagnvart þeim sem njóta þeirra heldur einnig um skattalega meðferð gagnvart atvinnurekandanum. Í því sambandi er eðlilegt að horft sé til reynslu og reglna annarra þjóða sem íslensk fyrirtæki eru helst í samkeppni við, einkum aðildarríkja OECD. Óhagstæðar reglur gætu auðveldlega leitt til þess að íslensk fyrirtæki lúti í lægra haldi í samkeppninni við erlend fyrirtæki um vel menntað og sérhæft starfsfólk.

Skattaleg meðferð lífeyrisiðgjalda.
    Í gildandi lögum er ekki að finna skýr ákvæði um rétt launagreiðenda til að draga iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanna sinna frá sem rekstrarkostnað. Að sama skapi eru ákvæðin óljós um hvort telja eigi slík framlög launagreiðenda til skattskyldra tekna hjá launþegum sem þeirra njóta. Núverandi framkvæmd byggist á framkvæmdahefð sem haldist hefur frá þeim tíma að ákvæði voru í lögum um frádrátt iðgjalda frá skattskyldum tekjum allt að tilteknu hámarki, síðast 11% af launum, og var frádráttarheimildin óháð því hvort launagreiðandi eða launþegi greiddi iðgjaldið svo fremi að þau væru innan tilgreindra marka. Bein ákvæði um þetta féllu úr tekjuskattslögunum árið 1977 en framkvæmd hefur haldist óbreytt þannig að mótframlög launagreiðanda komu til frádráttar frá rekstrartekjum hans.
    Samkvæmt almennum ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt ætti að telja iðgjöld launagreiðanda til lífeyrissjóðs til tekna hjá viðkomandi launþega en framangreind framkvæmdaregla hefur falið í sér frávik frá því. Frá því að bein ákvæði um frádráttarheimild heildariðgjalda féllu niður hafa iðgjöld til lífeyrissjóða lengst af verið í föstum skorðum og regla byggð á framkvæmdahefð ekki valdið miklum vandkvæðum. Með þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á lífeyrismálum á síðustu árum, einkum með setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hefur orðið þó nokkur breyting á þessum vettvangi. Skilgreining á lífeyrissjóði hefur breyst og hún þrengd frá því sem áður var en jafnframt opnað fyrir nýja og breytta möguleika á lífeyrissparnaði.
    Þessi breyting hefur leitt til óvissu í skattalegum efnum með tilliti til iðgjalda og framlaga til lífeyrissparnaðar. Embætti ríkisskattstjóra hefur nýverið túlkað ákvæði gildandi laga á þann veg að einungis framlög launagreiðenda til lífeyrissjóða samkvæmt kjarasamningum eða framlög ákveðin með hliðstæðum hætti á grundvelli laga um lífeyrisréttindi séu frádráttarbær frá skattskyldum tekjum. Samkvæmt því eru framlög sem launagreiðendur kunna að greiða til lífeyrissparnaðar umfram iðgjöld til lífeyrissjóða því aðeins frádráttarbær frá skattskyldum tekjum þeirra að þau hafi verið talin til launatekna hjá starfsmanni.
    Þá má benda á að núverandi fyrirkomulag felur í sér hættu á mismunun. Frádráttur launþega vegna iðgjalda til lífeyrissjóðs er takmarkaður við 4%. Mögulegt er og þekkjast þess dæmi að mótframlag vinnuveitanda sé hækkað og þannig skapaður frádráttarréttur langt umfram það sem almennt er mögulegt og getur slíkt ekki talist æskilegt.
    Af framangreindum ástæðum er lagt til í frumvarpi þessu að tekin verði í lög um tekjuskatt og eignarskatt bein ákvæði um heimildir til að draga iðgjöld og framlög til öflunar lífeyrisréttinda frá skattskyldum tekjum hvort sem er hjá launþega eða launagreiðanda.

Frádráttur vegna fjárfestinga í hlutabréfum.
    Í frumvarpinu er lagt til að reglur um frádrátt vegna fjárfestinga í hlutabréfum verði rýmkaðar frá því sem nú er. Hefur heimildin verið bundin við fjárfestingar í innlendum hlutabréfum eingöngu. Lagt er til að heimild til þess að draga frá tekjum einstaklinga fjárfestingu í hlutabréfum taki jafnt til innlendra sem erlendra félaga. Leiðir breytingin af samningsskuldbindingum Íslands á grundvelli EES-samningsins, en Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemd við íslensk stjórnvöld um að núgildandi ákvæði sem takmarkast við innlend hlutabréf fari í bága við 40. gr. EES-samningsins og tilskipun EB nr. 88/361, um frjálsa fjármagnsflutninga.
    Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að fellt verði brott það skilyrði fyrir eignarskattsfrelsi hlutabréfa að um sé að ræða fjárfestingu í hlutafélagi sem er skráð hér á landi. Lagt er til að eignarskattsfrelsi nái einnig til erlendra hlutbréfa.

Aðrar breytingar.
    Í frumvarpinu er einnig að finna aðrar breytingar sem lúta að framkvæmd laganna, þar á meðal varðandi túlkun og framkvæmd tvísköttunarsamninga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Hér er mælt fyrir um að framlag launagreiðanda verði skattskyldar tekjur launþega, hvort sem iðgjald er greitt vegna samtryggingar eða í séreignarsjóð. Allar tekjur launþega hafa verið taldar sem skattskyldar tekjur hjá honum, þar á meðal það sem reiknað hefur verið sem iðgjald hans til lífeyrissjóðs. Hefur þessi tillaga því í raun för með sér að heildariðgjöld, bæði eigin greiðsla launþega og framlag launagreiðanda, verða skattskyldar tekjur launþega. Hins vegar er mælt fyrir um í 4. gr. frumvarpsins að á móti komi frádráttur að hámarki 20% af iðgjaldsstofni. Með launagreiðanda í þessu samhengi er átt við hvort sem er vinnuveitanda launþega og sjálfstætt starfandi mann.

Um 2. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar sem lúta að skattalegri meðferð svokallaðra kaupréttar- eða valréttarsamninga. Er lagt til að bætt verði við lögin tveimur greinum sem verða 8. gr. A og 8. gr. B. Samkvæmt meginreglu laganna eru allar tekjur skattskyldar, nema þær séu sérstaklega undanþegnar skattskyldu. Í 8. gr. A er kveðið á um hvernig skattstofninn skuli ákveðinn þegar starfsmaður hefur tekjur vegna kaupréttar á hlutabréfum í félagi sem hann starfar fyrir. Þó að inntak ákvæðis þess sem hér er lagt til sé í samræmi við gildandi skattframkvæmd þykir engu að síður rétt að kveða sérstaklega á um það með tilliti til ákvæða 8. gr. B.
    Í 8. gr. B er lögð til undantekning frá meginreglu A-liðar 7. gr. þar sem lagt er til að tekjur starfsmanna af kaupum á hlutabréfum samkvæmt kauprétti og að uppfylltum tilteknum skilyrðum verði ekki skattlagðar sem launatekjur en komi til skattlagningar sem fjármagnstekjur skv. C-lið 7. gr. við sölu úr hendi starfsmannsins.
    Til skattskyldra tekna skv. 8. gr. A telst mismunur á gangverði þegar kaupréttur er nýttur og þeirri fjárhæð sem starfsmaður greiðir fyrir hlutabréfin samkvæmt kaupréttarsamningi. Með gangverði er átt við skráð gengi á þeim tíma sem kaupréttur er nýttur. Hafi félag ekki skráð gengi skal miða við gangverð í viðskiptum með bréfin, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða uppgjöri félagsins.
    Skattskylda á grundvelli A-liðar 7. gr. stofnast um leið og rétturinn er nýttur, þ.e. á þeim tíma þegar starfsmaður leysir til sín bréfin og greiðir fyrir þau hið fyrir fram ákveðna verð. Kveður 8. gr. A á um ákvörðun þeirra tekna. Þær tekjur mynda jafnframt stofn til tryggingagjalds og iðgjalds til lífeyrissjóðs hvort tveggja fyrir starfsmanninn og launagreiðanda. Þá þarf launagreiðandi í samræmi við almennar reglur laganna um upplýsingaskyldu að tilgreina greiðslur þessar á launamiða. Þar sem um tekjur skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna er að tefla telst kostnaður fyrirtækis við veitingu kaupréttar rekstrarkostnaður skv. 31. gr. laganna.
    Í 8. gr. B er gert ráð fyrir að um skattlagningu tekna starfsmanns vegna kaupréttar fari eins og um aðrar fjármagnstekjur skv. C-lið 7. gr. laganna að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem talin eru upp í greininni. Hér stofnast ekki til skattskyldu þegar kauprétturinn er nýttur, heldur þegar starfsmaður selur bréfin. Við ákvörðun skattstofnsins skiptir því meginmáli hvert var gangverð hlutabréfanna þegar starfsmaður gerði samning við launagreiðanda um kauprétt og síðan söluverð þeirra. Mismunurinn er skattlagður eins og aðrar fjármagnstekjur.
    Til þess að starfsmaður geti nýtt sér sérreglu 8. gr. B þurfa öll skilyrði greinarinnar að vera uppfyllt. Fyrsta skilyrðið er að kaupréttur hafi náð til allra starfsmanna viðkomandi félags. Í þessu felst að allir starfsmenn félagsins eigi rétt á kauprétti að einhverju marki. Annað skilyrðið er að starfsmaður hafi verið í föstu starfi hjá félaginu eða í öðru félagi í sömu félagasamstæðu þegar rétturinn er veittur. Það eru því einungis fastráðnir starfsmenn sem geta nýtt sér sérreglu þessarar greinar. Verktakar, ráðgjafar eða t.d. stjórnarmenn í félagi sem ekki eru fastráðnir geta því ekki notað sérregluna. Þriðja skilyrðið er að 12 mánuðir þurfa að líða frá gerð samnings um kauprétt þar til hann er nýttur. Þannig þarf starfsmaður að vera að lágmarki 12 mánuði í starfi hjá viðkomandi félagi áður en hann getur nýtt sér kaupréttinn. Fjórða skilyrðið er að kaupverð megi ekki vera lægra en gangverð skv. 8. gr. A þegar samningurinn er gerður. Í þessu felst að samningur getur ekki verið um kauprétt á lægra gengi en almennt gangverð eða lægra en bókfært verð eigin fjár ætli starfsmaður að nýta sérregluna. Til þess að geta nýtt sérregluna verður kaupverð samkvæmt kaupréttarsamningi að vera það sama og almennt gangverð bréfanna þegar samningur er gerður. Fimmta skilyrðið er að starfsmaður eigi hlutabréfin í tvö ár eftir að hann nýtir kaupréttinn. Starfsmaður getur því t.d. ekki selt bréfin strax eftir að hann fær þau afhent eftir 12 mánuði heldur verður hann að eiga þau í tvö ár. Sjötta skilyrðið er að kauprétturin er óframseljanlegur. Sjöunda skilyrðið er að hámark kaupréttar hvers starfsmanns megi ekki vera hærra en 600.000 kr. á ári að kaupverði. Sé kaupverð bréfanna hærra en leyfilegt hámark fellur réttur til nýtingar á sérreglu niður og fer þá um skattlagningu skv. 8. gr. A. Áttunda og síðasta skilyrðið er að félag sem hefur í hyggju að gera kaupréttarsamning þarf fyrir fram að senda ríkisskattstjóra til staðfestingar áætlun um kaupréttarsamninga sem það hyggst gera við starfsmenn ásamt upplýsingum um öll framangreind atriði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Því þarf að liggja fyrir áður en félag gerir kaupréttarsamninga á grundvelli sérreglunnar staðfesting frá ríkisskattstjóra um að framangreind skilyrði séu uppfyllt.
    Í 2. mgr. 8. gr. B er gert ráð fyrir að árlega sendi viðkomandi félag skattstjóra upplýsingar um þá starfsmenn sem hafa nýtt sér kauprétt á grundvelli sérreglunnar. Þar skal m.a. koma fram á hvað tímapunkti og á hvaða verði starfsmaður hafi keypt bréfin. Er þetta m.a. nauðsynlegt til að unnt sé að fylgjast með skattstofni bréfanna þegar kemur til ákvörðunar á söluhagnaði þeirra.
    Í 3. mgr. 8. gr. B kemur fram að skattskylda á grundvelli greinarinnar stofnist ekki fyrr en starfsmaður selur bréfin. Er skattstofninn mismunur á upphaflegu kaupverði og söluverði bréfanna. Að lokum eru tekin af öll tvímæli um að sá mismunur telst ekki til rekstrarkostnaðar á grundvelli 31. gr. laganna hjá félaginu sem veitir kaupréttinn, enda ekki um að ræða launakostnað eða nauðsynlegan kostnað til öflunar tekna félagsins.

Um 3. gr.

    Hér er er lagt til að við ákvörðun söluhagnaðar skuli leggja til grundvallar söluhagnað sem miðast við gangverð hlutabréfanna eins og það er ákveðið skv. 8. gr. A.

Um 4. gr.

    Lagt er til að tekin verði upp skýr ákvæði um heimildir til að draga iðgjöld og framlög til öflunar lífeyrisréttinda frá skattskyldum tekjum. Er jafnframt lagt til að fyrirkomulagið verði með þeim hætti að ekki skipti máli hvor greiðir iðgjaldið, launagreiðandi eða launþegi, þannig að réttur til frádráttar frá skattskyldum tekjum verði óháður því hvernig samið er um að haga launagreiðslum. Þessu er náð með því að gera ráð fyrir því í samræmi við meginreglu tekjuskattslaganna að öll framlög til öflunar lífeyrisréttinda teljist til skattskyldra tekna þess sem lífeyrisréttinn fær. Á móti fái hann rétt til frádráttar á iðgjaldi og framlagi til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hvort sem það hefur verið greitt af honum eða launagreiðanda hans. Gert er ráð fyrir að þetta eigi eins við um þá sem starfa við eigin atvinnurekstur. Með þessu skapast jafnræði með tillti til skattalegra réttinda.
    Í ákvæðinu er gerð tillaga um að frádráttarbær iðgjöld verði innan tiltekinna marka sem eru verulega hærri en þær frádráttarheimildir sem nú er að finna í lögum. Möguleiki verður að víkja frá hámarkinu við sérstakar aðstæður, svo sem vegna styttri starfsaldurs en almennt gerist og hærri iðgjaldagreiðslum af þeim sökum. Í þeim tilvikum er tryggt að viðkomandi launþegi geti þó ákveðið sjálfur að afla sér aukinna lífeyrisréttinda, með séreignarsparnaði, sem yrði frádráttarbært frá skattskyldum tekjum. Auk þess getur hann dregið frá skattskyldum tekjum iðgjöld í lífeyrissjóði eins og þau hafa verið ákveðin í reglugerð eða kjarasamningi viðkomandi launþega. Með kjarasamningi í þessu sambandi er átt við almennan kjarasamning milli stéttarfélags launþegans og vinnuveitenda en ekki einstaka ráðningarsamninga launþega.
    Lagt er til að skattfrelsi iðgjalda verði miðað við þau iðgjöld og framlög til öflunar lífeyrisréttinda sem telja verður eðlileg í framfærslutilgangi. Til viðmiðunar í því efni eru hafðar starfstekjur viðkomandi og við það miðað að launþegi geti með greiðslum til lífeyrissparnaðar tryggt sér lífeyri sem sé jafnhár og meðaltekjur hans voru. Þessi viðmiðun felur í sér verulega hækkun á skattfrelsi iðgjalda frá því sem verið hefur. Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er við það miðað að iðgjöld til lífeyrissjóða nægi til að lífeyrir 40 ára iðgjaldagreiðslna verði 56% meðalatvinnutekna yfir starfsævina. Hér er hins vegar lagt til að skattfrelsi verði miðað við að skattfrjáls iðgjöld geti á sömu forsendum staðið undir lífeyri sem verði 100% af atvinnutekjunum eða nærri tvöföldu lágmarksiðgjaldi. Auk þess er gert ráð fyrir að þessu marki geti menn náð á styttri tíma en 40 árum. Leiðir þetta til þeirrar niðurstöðu að iðgjöld allt að 20% af iðgjaldsstofni verði frádráttarbær. Á grundvelli sömu sjónarmiða um að skattfrelsið helgist af framfærslu á efri árum er jafnframt lagt til að takmörk verði sett á árlega frádráttarbært iðgjald og er lagt til að það verði 1.500.000 kr. sem svarar til 20% af 7.500.000 kr. árstekjum.
    Meginregla skattalaganna er að tekjur eru skattskyldar á þeim tíma sem þær verða eign viðkomandi. Þannig eru laun sama í hvaða formi sem er skattskyld á greiðsluári. Fáar undantekningar eru frá þessari meginreglu um skattskyldutíma þar sem skattskyldu er frestað, en nefna má að iðgjöld til lífeyrissjóða og aukins lífeyrissparnaðar eru undanþegin með þeim hætti að draga má þau frá skattskyldum tekjum. Í þeim tilvikum er um að ræða frestun á skattlagningu tekna, sem lögbundið er að leggja skuli til hliðar, þar til lífeyrir er tekinn til framfærslu og kemur þá til skattlagningar.

Um 5. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er mælt fyrir um breytingu sem leiðir af samningsskuldbindingum Íslands á grundvelli EES-samningsins. Felur breytingin í sér heimild til þess að draga frá tekjum einstaklinga fjárfestingu í hlutabréfum, jafnt í innlendum sem erlendum félögum. Hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert athugasemdir við núgildandi ákvæði sem í dag takmarkast við innlend hlutabréf og fer því í bága við 40. gr. EES-samningsins og tilskipun EB nr. 88/361, um frjálsa fjármagnsflutninga. Til þess að frádráttur verði heimilaður í erlendum félögum þurfa þau félög að uppfylla öll sömu skilyrði og hin íslensku sem talin eru upp í greininni.

Um 6. gr.

    Í greininni er lagt til að tekinn verði af allur vafi um að lögaðili eða sjálfstætt starfandi maður geti talið sem rekstrarkostnað iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanna. Ekki er gerður greinarmunur á því hvort iðgjöldum sé varið til öflunar lífeyrisréttinda í sameign eða séreign samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eða með öðrum sparnaðarformum sem ætluð eru til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanns.

Um 7. gr.

    Lagt er til í greininni að jafnaður verði aðstöðumunur sjálfstætt starfandi manna gagnvart öðrum launþegum þegar ákvarðaður er stofn til útreiknings barnabóta og vaxtabóta. Hjá launþegum er tekið tillit til frádráttar frá tekjum vegna iðgjalda sem menn hafa greitt til öflunar lífeyrisréttinda, sbr. 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. Sjálfstætt starfandi menn hafa einnig rétt til að draga frá tekjum sínum iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda, en ekki hefur verið tekið tillit til þess við ákvörðun stofns til útreiknings barnabóta og vaxta sem lagt er til að gert verði.


Um 8. gr.

    Í 5. tölul. 74. gr. laganna er kveðið á um að telja skuli hlutabréf til eignar á nafnverði. Hér á landi eru hlutabréf almennt gefin út á nafnverði og því ekki vandkvæðum bundið að framfylgja ákvæðinu. Hins vegar þekkist það víða erlendis að hlutabréf eru ekki gefin út á nafnverði heldur seldir tilteknir hlutar á tilteknu verði. Hefur því verið vandkvæðum bundið að finna stofnverð til ákvörðunar eignarskatts á slík bréf.
    Lagt er til að almennt skuli hlutabréf í erlendum hlutafélögum færð til eignar á nafnverði en séu bréfin ekki gefin út á nafnverði skuli þau færð til eignar á kaupverði.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að fellt verði brott það skilyrði fyrir eignarskattsfrelsi hlutabréfa að um sé að ræða fjárfestingu í félagi sem er skráð hér á landi. Verði ákvæðið að lögum nær eignarskattsfrelsi einnig til erlendra félaga og með sömu skilyrðum og takmörkunum og hefur gilt um félög sem eru skráð á Íslandi. Hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert athugasemd við íslensk stjórnvöld um að núgildandi ákvæði sem takmarkast við innlend hlutabréf fari í bága við 40. gr. EES- samningsins og tilskipun EB nr. 88/361, um frjálsa fjármagnsflutninga.

Um 10. gr.

    Í greininni er lagt til að fallið verði frá að draga barnabætur og vaxtabætur frá álögðum skatti þegar ákvarðað er hvernig skatturinn skuli greiðast með fimm jöfnum greiðslum á þeim gjalddögum sem eftir eru á árinu þegar álagning fer fram. Að skuldajafna bótunum á móti álögðum skatti og skipta honum síðan niður á fimm jafna gjalddaga gengur ekki upp þar sem kveðið er á um í reglugerð um barnabætur að þær skuldi greiddar með tveimur jöfnum greiðslum, þ.e. 1. ágúst og 1. nóvember. Hefur því í sumum tilvikum verið búið að skuldajafna barnabótum að fullu á móti álögðum skatti 1. ágúst þegar þær eiga eftir að koma til útgreiðslu 1. nóvember að hluta.
    Lagt er til að bótunum skuli aðeins skuldajafnað á móti þeim skatti sem er til greiðslu á gjalddaga hverju sinni þegar að bæturnar skal greiða út.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að fjármálaráðherra fari með túlkun á ákvæðum tvísköttunarsamninga og annarra samninga sem gerðir hafa verið á grundvelli 117. gr. laganna. Fram til þessa hefur það alfarið verið í höndum skattstjóra og ríkisskattstjóra að túlka slíka samninga og láta uppi bindandi álit um það efni. Hér er um að ræða milliríkjasamninga sem ríkisstjórnin er aðili að og er kveðið berum orðum á um það í tvísköttunarsamningum að fjármálaráðherra sé bært stjórnvald til að fara með túlkun og framkvæmd slíkra samninga. Með hliðsjón af því þykir nærtækara að fjármálaráðherra verði falið að túlka ákvæði samninganna og gefa út verklagsreglur um túlkun þeirra til handa öðrum skattyfirvöldum sem ber að fara eftir slíkum reglum við álagningu skatta og gjalda. Með því móti yrði tryggð stefna stjórnvalda sem ríkisstjórnin markar við gerð slíkra samninga.
    Jafnframt er kveðið á um í tillögunni að ekki verði hægt að óska eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra samkvæmt lögum um bindandi álit í skattamálum er varða túlkun á tvísköttunarsamningum og framkvæmd þeirra. Þess í stað er lagt til að gjaldendur geti óskað eftir áliti fjármálaráðherra um túlkun á tvísköttunarsamningum. Um málsmeðferð fer eftir almennum reglum stjórnsýslulaga en ekki eftir lögum um bindandi álit í skattamálum. Álit fjármálaráðherra yrði ekki kæranlegt til yfirskattanefndar en heimilt að bera það undir dómstóla.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í fyrsta lagi verði sett skýrari ákvæði í lögin um skattlagningu tekna sem felast í rétti starfsmanna til kaupa á hlutabréfum í félagi sem þeir starfa hjá. Í öðru lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir breytingum á skattalegri meðferð lífeyrisgjalda. Í þriðja lagi er lagt til að sömu reglur um frádrátt frá tekjuskatti vegna hlutabréfakaupa og eignarskattsfrelsi hlutabréfa verði látnar gilda um fjárfestingu í erlendum hlutabréfum og nú eiga við um innlend hlutabréf. Loks er í frumvarpinu gert ráð fyrir nokkrum breytingum á framkvæmd laganna.
    Kostnaðaráhrif frumvarpsins snúa einkum að ákvæðum sem ætlað er að skerpa á skattskyldu tekna sem greiddar eru í mynd kaupréttar starfsmanna á hlutabréfum samkvæmt samningi við vinnuveitanda. Gert er ráð fyrir að sett verði upp tölvukerfi fyrir skattstofur til skráningar og úrvinnslu á kaupréttarsamningum og nýttum kaupréttarheimildum á ári hverju. Sá stofnkostnaður fellur til einu sinni og er áætlaður um 5 m.kr. Þá er áætlað að rekstarkostnaður skattkerfisins muni aukast nokkuð vegna skráningar, yfirferðar og mats á nauðsynlegum gögnum, eða alls um 6 m.kr. Þar af eru 3 m.kr. vegna skráningar og yfirferðar á upplýsingum um valréttaráætlanir og sölu hlutabréfa frá fyrirtækjum og 3 m.kr. vegna aukinnar og flóknari vinnu við yfirferð framtala þeirra sem nýta sér kauprétt á hlutabréfum.
    Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að fjármálaráðuneytið fari með túlkun á ákvæðum tvísköttunarsamninga í stað skattstjóra og ríkisskattstjóra. Aukin vinna á þessu sviði er talin leiða til kostnaðar sem svarar til um eins mannárs á aðalskrifstofu ráðuneytisins, eða sem nemur um 4–5 m.kr.
    Að öðru leyti fyrirhugar fjármálaráðuneytið að ákvæði frumvarpsins verði framkvæmd innan útgjaldaramma gildandi fjárlaga. Samtals verður kostnaður af breytingunum því um 15–16 m.kr. Þar af eru 5 m.kr. tímabundið framlag í eitt ár.