Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 858  —  556. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    14. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Hreindýr.

    Umhverfisráðherra getur heimilað veiðar úr hreindýrastofninum enda telji veiðistjóraembættið að stofninn þoli veiði og að æskilegt sé að veiða úr honum. Ráðherra ákveður árlega fjölda þeirra dýra sem fella má, eftir aldri, kyni og veiðisvæðum, að fengnum tillögum hreindýraráðs og veiðistjóraembættisins og birtir auglýsingu þar að lútandi í Lögbirtingablaði. Eignarréttur á landi, þar sem hreindýr halda sig, veitir ekki rétt til veiða á hreindýrum.
    Veiðar á hreindýrum eru heimilar öllum er til þess hafa leyfi samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Af hverju felldu hreindýri skal greiða til hreindýraráðs sérstakt leyfisgjald sem ráðherra ákveður árlega og skal gjaldinu varið til reksturs ráðsins, framkvæmda á þess vegum og vöktunar.
    Umhverfisráðherra skipar fimm menn í hreindýraráð til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar en aðrir nefndarmenn skulu skipaðir með eftirfarandi hætti: Búnaðarsamband Austurlands, Búnaðarsamband Austur-Skaftafellssýslu og Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi tilnefna einn fulltrúa hvert og Náttúrustofa Austurlands einn og skal hann vera líffræðingur. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Veiðistjóra og fulltrúa Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að sitja fundi hreindýraráðs og hafa þá málfrelsi og tillögurétt.
    Hlutverk hreindýraráðs er:
     a.      að vera umhverfisráherra til ráðgjafar um allt er viðkemur vernd, veiðum og nýtingu hreindýrastofnsins á Austurlandi,
     b.      að sjá um sölu veiðileyfa og er ráðinu óheimilt að framselja þá heimild,
     c.      að gera tillögur um árlegan veiðikvóta og skiptingu hans milli veiðisvæða í samráði við veiðistjóra,
     d.      að sjá um eftirlit með hreindýraveiðum og ráða til þess eftirlitsmenn,
     e.      að skipta arði af sölu veiðileyfa og afurða felldra dýra.
    Um vanhæfi þeirra sem sitja í hreindýraráði og annast eftirlit með hreindýraveiðum gilda vanhæfisreglur sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Verði hreindýraráð eða eftirlitsmenn á þess vegum varir við að brotið sé gegn ákvæðum laganna og reglugerðum um hreindýraveiðar er heimilt að svipta viðkomandi veiðileyfi og leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.
    Ráðherra setur að fengnum tillögum hreindýraráðs og veiðistjóra nánari reglur um framkvæmdina, m.a. um veiðieftirlitsmenn og skiptingu arðs af hreindýraveiðum.
    Veiðistjóri annast vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum og gerir Náttúrufræðistofnun Íslands grein fyrir niðurstöðum, sbr. lög nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Veiðistjóra er heimilt með samningi, sem ráðherra staðfestir, að fela hæfum aðila vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum. Af hverju felldu dýri skal greiða sérstakt gjald til þess að standa undir vöktun stofnsins og ákveður ráðherra upphæð gjaldsins, sbr. 2. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Umhverfisráðherra skal setja reglugerð um stjórn hreindýraveiða og skiptingu arðs af þeim sem öðlist gildi eigið síðar en 20. júlí árið 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er að meginstofni í samræmi við tillögur nefndar sem umhverfisráðuneytið skipaði 23. nóvember og fengið var það hlutverk að endurskoða ákvæði um hreindýraveiðar í lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Nefndinni var sérstaklega ætlað að gera tillögur um skipan hreindýraráðs, þar sem m.a. skyldi tekið tillit til náttúrufræðilegrar þekkingar innan ráðsins, um fyrirkomulag rannsókna og vöktunar stofnsins, úthlutun og skiptingu veiðiheimilda, stjórn veiða, sölu veiðileyfa, gjaldtökuheimildir, arðsúthlutun og reglur um vanhæfi þeirra sem starfa að þessum málum. Enn fremur var nefndinni ætlað að fjalla um framkvæmd laganna frá gildistöku þeirra 1. júlí 1994 og gera tillögur með hliðsjón af því.
    Í nefndinni áttu sæti: Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, Jón Kristjánsson alþingismaður, Þuríður Backman alþingismaður, Björn Hafþór Guðmundsson bæjarstjóri og Hákon Ingvi Hansson héraðsdýralæknir. Ritari nefndarinnar var Sigurður Á. Þráinsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu.
    Nefndin kallaði eftirtalda aðila á fund sinn: Sigurbjörn Snæþórsson frá Búnaðarsambandi Austurlands, Þorvald Jóhannsson frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Áka Á. Jónsson veiðistjóra, Guðrúnu Á. Jónsdóttir og Líneik Sævarsdóttur frá Náttúrustofu Austurlands, Jón Loftsson skógræktarstjóra, fulltrúa frá Búnaðarsambandi Austur Skaftafellssýslu, Tryggva Þórhallsson hjá Hornafjarðarbæ, Skarphéðin Þórisson líffræðing, Aðalstein Jónsson hreindýraeftirlitsmann, Arnór Benediktsson, oddvita Norður-Héraðs, Björn Ingvarsson hreindýraeftirlitsmann, Sigmar B. Hauksson, formann Skotvís, Magnús Þorsteinsson, oddvita og fyrrverandi hreindýraráðsmann, og Jóhann Þórhallsson, oddvita Fljótsdalshrepps.
    Enn fremur ræddi nefndin við nokkra aðila sem óskuðu eftir að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Niðurstaða nefndarinnar er að almennt sé góð sátt um framkvæmd laganna og reglugerða sem settar hefa verið á grundvelli þeirra á undanförnum árum. Þó var bent á nokkur atriði sem betur mættu fara og varða þau fyrst og fremst skipun í hreindýraráð og hlutverk þess, svo og greiðslu arðs með hliðsjón af ágangi af völdum hreindýra. Niðurstaðan er sú að langflestir viðmælendur vilja auka afskipti hreindýraráðs af þessum málum þannig að sala veiðileyfa sé eingöngu í höndum ráðsins, sem og greiðsla arðs. Á þennan hátt hefðu sveitarfélögin engin afskipti af þessum málum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    1. mgr. er samhljóða 1. mgr. 14. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er lagt til að leyfisgjald sem ráherra ákveður árlega skuli auk þess að renna til reksturs hreindýraráðs einnig renna til vöktunar á hreindýrastofninum. Jafnframt er lagt til að rannsóknir á hreindýrum verði ekki kostaðar af leyfisgjaldi enda vandséð að hægt sé að tengja rannsóknir og veiðar saman með þeim hætti. Fé til rannsókna á hreindýrum verður að koma úr opinberum sjóðum eða úr veiðikortasjóði.
    Í 3. mgr. er lögð til sú breyting á skipan ráðsins að Búnaðarsamband Austurlands hafi einn fulltrúa en ekki tvo, í staðinn komi fulltrúi Náttúrustofu Austurlands og að hann skuli vera líffræðingur að mennt. Það hefur verið gagnrýnt að í hreindýraráði sitji, að formanni undanskildum, eingöngu aðilar sem hagsmuna eigi að gæta. Æskilegt sé að í ráðinu sé fulltrúi með líffræðilega þekkingu og er lagt til að Náttúrustofu Austurlands tilnefni hann. Enn fremur er lögð til sú breyting að fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands eigi seturétt á fundum hreindýraráðs með málfrelsi og tillögurétt og er það í samræmi við hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.
    Í 4. mgr. er gerð grein fyrir hlutverki hreindýraráðs. Í gildandi lögum, þ.e. í 14. gr. laga nr. 64/1994, er ekki kveðið á um hlutverk ráðsins heldur segir að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd hreindýraveiða, m.a. um hlutverk hreindýraráðs. Slík ákvæði er að finna í reglugerð nr. 402/1994, um stjórn hreindýraveiða. Það er allsendis ófullnægjandi að stjórnsýslunefnd eins og hreindýraráð skuli byggja starfsemi sína á ákvæðum reglugerðar enda hefur það verið gagnrýnt. Því er nauðsynlegt að kveða skýrt á um hlutverk ráðsins í lögum ekki síst þar sem nefndin fer með ákvörðunarvald í vissum tilvikum. Gerð er tillaga um meginhlutverk ráðsins og er þar um tæmandi upptalningu að ræða en gert er ráð fyrir nánari útfærslu í reglugerð. Lagt er til að hreindýraráð hafi með höndum framkvæmd mála fyrir hönd umhverfisráherra, annist sölu veiðileyfa og hafi ekki heimild til að framselja þá heimild, geri tillögu um veiðikvóta og skiptingu hans, sjái um eftirlit með hreindýraveiðum og ráði til þess eftirlitsmenn, sjái um úthlutun arðgreiðslna og skiptingu arðs af veiddum dýrum og afurðum felldra dýra. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra setji reglugerð með nánari útfærslu á þessum þáttum til þess að ráðið þurfi sem minnst að byggja ákvarðanir sínar á huglægu mati þótt aldrei verði algjörlega hjá því komist. Þá er og lagt til í 3. mgr. að vanhæfisreglur sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, gildi um þá sem sitja í hreindýraráði eða annast eftirlit með hreindýraveiðum. Ef vanhæfisreglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem gilda um ríkisstarfsmenn, ættu að gilda um þessa starfsemi yrði nánast ógjörningur að skipa menn úr héraði í hreindýraráð og til eftirlits. Önnur skipan mála mundi þannig kalla á utanaðkomandi aðild að hreindýraráði og eftirliti með hreindýraveiðum og færi annars vegar gegn því markmiði að stjórn mála sé heima í héraði og hins vegar ykist stórlega kostnaður af eftirliti með veiðunum.
    Lagt er til það nýmæli að verði hreindýraráð eða eftirlitsmenn á vegum þess varir við að brotið sé gegn ákvæðum laganna eða reglugerðum settum samkvæmt þeim sé þeim heimilt að svipta viðkomandi veiðileyfi og að lögreglu sé skylt að aðstoða ef þörf er á.
    Í lokamálsgreininni er lagt til að fest verði í lög að veiðistjóra sé heimilt með samningi, sem umhverfisráðherra staðfestir, að fela þar til hæfum aðila framkvæmd vöktunar og rannsókna á hreindýrastofninum. Náttúrufræðistofa Austurlands hefur þegar hafið þessa starfsemi samkvæmt sérstökum samningi við veiðistjóraembættið og hefur fengist til þess nokkurt fé í fjárlögum. Æskilegt væri að stofan sérhæfði sig í vöktun og rannsóknum af þessu tagi sem bundnar eru því svæði sem henni er ætlað að starfa á. Gert er ráð fyrir að vöktun á hreindýrastofninum, sem er fyrst og fremst grundvöllur fyrir ákvörðun veiðiþols, verði kostuð af hreindýraveiðimönnum en aðrar rannsóknir ekki.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Þar sem lagðar eru til nokkrar breytingar á stjórn hreindýraveiða er eðlilegt að ný reglugerð um veiðarnar öðlist gildi eigi síðar en í upphafi nýs veiðitímabils 20. júlí 2000. Enn fremur er brýnt að frá sama tíma öðlist gildi reglugerð um skiptingu arðs af veiðunum og virðist eðlilegt að sett verði sérstök reglugerð þar um sem byggist á reglugerð nr. 406/1998, um breytingu á reglugerð nr. 402/1994, um stjórn hreindýraveiða. Í reglugerðinni verði fjallað um skiptingu arðs og mat á ágangi hreindýra.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd,
friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

    Tilgangur frumvarpsins er breytt skipan hreindýraráðs þar sem sala veiðileyfa verður eingöngu í höndum ráðsins, sem og greiðsla arðs.
    Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.