Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 872  —  570. mál.
Frumvarp til lagaum bílaleigur.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um leigu á skráningarskyldum ökutækjum í atvinnuskyni án ökumanns.
    Samgönguráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að eigi þurfi leyfi til leigu á tilteknum flokkum ökutækja eða fyrir tiltekinni leigustarfsemi.

2. gr.
Orðskýringar.

     Bílaleiga er starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem almenningi er boðið til leigu skráningarskylt ökutæki.
     Leigusamningur er samningur milli bílaleigu og leigutaka um leigu á bifreið eða öðru ökutæki til afnota gegn gjaldi.
     Starfsleyfi er leyfi til reksturs bílaleigu.

3. gr.

Starfsleyfi.


    Hver sá sem vill reka bílaleigu skal hafa til þess starfsleyfi samgönguráðuneytsins. Starfsleyfi skal veitt til fimm ára í senn. Gjald fyrir útgáfu starfsleyfis skal vera 10.000 kr.
    Samgönguráðuneytið skal halda skrá yfir þá sem leyfi hafa samkvæmt lögum þessum.
    Þeim einum er rétt að nefna sig bílaleigu sem fengið hefur starfsleyfi til leigu ökutækja samkvæmt lögum þessum.
    Bílaleiga á grundvelli starfsleyfis skal rekin á fastri starfsstöð. Bílaleiga getur á grundvelli starfsleyfis sett á fót útibú. Á fastri starfsstöð skal framkvæmdastjóri eða yfirmaður fullnægja skilyrðum 4. gr. Fyrirsvarsmaður útibús skal einnig fullnægja skilyrðum 4. gr.
    Heimilt er leyfishafa að leggja inn til samgönguráðuneytis starfsleyfi sitt. Honum er óheimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu sinni fyrr en að fenginni staðfestingu samgönguráðuneytisins á innlögn leyfisins.

4. gr.

Skilyrði starfsleyfis.


    Framkvæmdastjóri bílaleigu samkvæmt lögum þessum og fyrirsvarsmaður útibús skulu fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
     1.      Að hafa búsetu á Íslandi.
     2.      Að hafa náð tuttugu ára aldri.
     3.      Að vera lögráða og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, né lögum um sölu notaðra ökutækja.
     4.      Að hafa forræði á búi sínu.
    Áður en starfsleyfi er veitt skal umsækjandi leggja fram skírteini um að hann hafi tekið starfsábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, aflað sér bankatryggingar eða lagt fram aðra tryggingu sem ráðherra metur gilda til að bæta viðskiptamönnum tjón er hann kann að baka þeim með rekstri bílaleigu. Nánari ákvæði um ábyrgðartrygginguna, m.a. um lágmarksfjárhæð og vátryggingarskilmála, skulu ákveðin með reglugerð.
    Meiri hluti stjórnarmanna lögaðila skal fullnægja skilyrðum 1. mgr. Þó eru stjórnarmenn, sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, undanþegnir búsetuskilyrðum 1. tölul. 1. mgr. Ráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.
    

5. gr.
Skyldur bílaleigu.

    Leyfishafi skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hann skal gæta þess að viðskiptamenn hans njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör, svo og þess að aðila séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skilmálar í samningum. Leyfishafi ber ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við leigu bíla sem væru þau verk hans sjálfs.
    Skylt er að leyfisbréf vegna starfseminnar liggi frammi á starfsstöð.
    Bílaleiga skal tryggja að skráningarskyld ökutæki til útleigu séu ætíð í góðu ásigkomulagi og fullnægi kröfum sem gerðar eru um þau.

6. gr.

Leigusamningur.


    Leyfishafi skal sjá um að endanlega sé gengið frá leigusamningi. Leigusamningur skal vera undirritaður af báðum aðilum og skal hvor halda sínu eintaki. Í samningnum skal greina helstu atriði varðandi leigu ökutækisins eftir því sem nánar skal ákveðið í reglugerð.
    Leyfishafi skal upplýsa erlenda leigutaka um íslenskar umferðarreglur, umferðarmerki og reglur um bann við umferð utan vega. Jafnframt skal leyfishafi vekja sérstaka athygli á hættu sem stafar af dýrum á vegum.

7. gr.

Leigutaki.


    Óheimilt er að leigja bifreið eða annað ökutæki öðrum en þeim sem hafa réttindi til að stjórna bifreiðinni eða ökutækinu sem leigja á. Bílaleigu er þó heimilt að gera leigusamning við aðila sem ekki hefur tilskilin ökuréttindi, enda tilnefni hann ökumann skriflega og má sá aka bifreiðinni eða ökutækinu. Skal ökumaður uppfylla framangreind skilyrði.

8. gr.

    Samgönguráðherra skal setja reglugerð um leigustarfsemina og nánari framkvæmd laganna að öðru leyti.

9. gr.

Brot o.fl.


    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum samkvæmt þeim varða sektum.
    Nú rekur aðili starfsemi sem starfsleyfi þarf til samkvæmt lögum þessum án leyfis og skal þá lögreglustjóri þegar í stað stöðva starfsemina, þar á meðal með lokun starfsstöðvar.

10. gr.

Gildistaka o.fl.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2000.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þær bílaleigur sem starfa við gildistöku laga þessara skulu uppfylla skilyrði laganna og afla sér starfsleyfis fyrir 1. september 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu og er ætlað að setja almenna umgjörð um rekstrarumhverfi bílaleiga. Frumvarpið er samið að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið.
    Með vaxandi fjölda erlendra ferðamanna hefur útleiga bíla orðið sívaxandi þáttur í þjónustu við ferðamenn. Hefur bílum í útleigu fjölgað verulega á undanförnum árum eins og sést á eftirfarandi töflu sem sýnir árlegar nýskráningar bílaleigubíla, þ.e. fjölda nýrra bíla sem teknir eru í notkun af bílaleigum og skráðir sem slíkir.

Ár Fjöldi
1993 188
1994 251
1995 122
1996 329
1997 432
1998 672
1999 802
Heimild: Skráningarstofan.

    Fjölgun þessi endurspeglar ljóslega mikla aukningu umsvifa í atvinnugreininni en einnig þá þróun sem hefur verið innan greinarinnar að leggja sífellt meiri áherslu á að bjóða viðskiptavinum sem nýjasta bíla. Meðalaldur bifreiðanna hefur farið lækkandi og heita má fátítt að notaðir séu í útleigu eldri bílar en tveggja ára.
    Þar sem lagaumhvefi bílaleiga hefur verið frekar óljóst á undanförnum árum og í raun gerðar mjög litlar kröfur um hæfi aðila til að setja upp bílaleigur hefur rekstrareiningum fjölgað og þá oft með lítilli stærðarhagkvæmni. Með frumvarpi þessu er leitast við að setja starfsgreininni fastari skorður með því herða kröfur til þeirra sem fást við útleigu bifreiða og auka þannig öryggi viðskiptavinanna.
    Auknar kröfur til rekstraraðila skapa síðan forsendur þess að hægt sé að tryggja fyrirtækjum í atvinnugreininni sams konar rekstrarskilyrði og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum varðandi innkaup á rekstrarvörum. Samkvæmt gildandi reglum er greitt fullt vörugjald af bílum sem bílaleigur kaupa líkt og um einkabíla væri að ræða, með þeirri undantekningu þó að bifreiðar sem falla í flokk II bera 30% vörugjald en ekki 40% eins og einkabílar í sama flokki. Gjöldin geta farið upp í 65% en sams konar bíll skráður til hópferðaaksturs ber 5% vörugjald. Unnið er að breytingum á þessum reglum innan fjármálaráðuneytisins.
    Þessi mismunun hefur komið fram í hlutfallslega háu leiguverði og er útleiguverð á bílaleigubílum á Íslandi eitt það hæsta í Evrópu eins og kemur fram í fylgiskjali. Að mati Samtaka ferðaþjónustunnar geta bílaleigur boðið lægra verð, sem stuðlar að aukinni einstaklingsumferð, verði vörugjöldin lægri. Sú tegund ferðaþjónustu er hagstæð að því leyti að hún dreifist um landið og nýtir vel minni gististaðina sem hafa oft verri nýtingu. Einnig jafnast hún yfir allt árið. Lægri vörugjöld mundu einnig gera leigunum kleift að bjóða betur búna bíla, t.d sjálfskipta, án verulegs aukagjalds.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um gildissvið laganna, þ.e. leiga á hvers konar ökutækjum í atvinnuskyni án ökumanns. Um hvaða ökutæki eru skráningarskyld vísast til umferðarlaga og reglugerða samkvæmt þeim. Ef bifreiðin er leigð út með ökumanni gilda ákvæði laga um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum og laga um leigubifreiðar.
    Gert er ráð fyrir að samgönguráðherra sé heimilt að ákveða með reglugerð að ekki þurfi leyfi til leigu á tilteknum flokkum ökutækja eða fyrir tiltekinni leigustarfsemi og kveða að öðru leyti á um leigustarfsemina, sbr. 8. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.


    Með þessari grein eru orð sem notuð eru í frumvarpinu skýrð frekar.

Um 3. gr.


    Miðað er við að samgönguráðuneytið veiti leyfi til reksturs bílaleigu og að það gildi til fimm ára í senn. Gert er ráð fyrir að bílaleiga hafi fasta starfsstöð og geti stofnað útibú á grundvelli starfsleyfisins. Miðað er við að framkvæmdastjóri eða yfirmaður fastrar starfsstöðvar og og fyrirsvarsmaður útibús verði að fullnægja skilyrðum 4. gr.

Um 4. gr.


    Hér er kveðið á um skilyrði sem uppfylla þarf áður en starfsleyfi er veitt. Starfsábyrgðartrygginging yrði að öllum líkindum svipuð ferðaskrifstofutryggingum og í samræmi við umfang rekstursins, t.d. miðað við fjölda bifreiða í útleigu hverju sinni, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð.

Um 5. gr.

    Hér er kveðið á um skyldur bílaleigu. Í 3. mgr. 5. gr. er kveðið á um að bílaleiga skuli tryggja að skráningarskyld ökutæki séu ætíð í góðu ásigkomulagi og að ökutækin fullnægi kröfum sem gerðar eru um þau, t.d. að þau séu færð til lögboðinnar skoðunar og að ábyrgðartryggingar séu í fullu gildi eins og lög og reglur kveða á um.

Um 6. gr.


    Greinin kveður á um að gerður skuli skriflegur leigusamningur. Byggt er á því að í reglugerð verði birt samræmt leigusamningsform. Slíkt yki neytendavernd verulega og eyddi margs konar óvissu í viðskiptum milli aðila, öllum til hagsbóta.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Gert er ráð fyrir að samgönguráðherra setji reglugerð um atriði sem kveða þarf nánar um í starfsemi bílaleiga, t.d. um efni leigusamnings og skyldur bílaleigu gagnvart viðskiptavinum og önnur atriði er varða framkvæmd laganna.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Miðað er við að lögin öðlist gildi 1. júlí 2000. Með því gefst svigrúm til kynningar á lögunum og setningar reglugerðar á grundvelli þeirra. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða verður starfandi bílaleigum veittur frestur til 1. september 2000 til að uppfylla skilyrði laganna og afla sér starfsleyfis til starfseminnar.Verð á bílaleigubílum í nokkrum löndum.

I. Á háönn, ótakmarkaður kílómetrafjöldi.

Land

Einkenni

Flokkur

Tegund
14 daga
pakki
Helgar,
3 dagar

Skattur

Gjaldmiðill

Tímabil

Gengi
14 dagar,
IKR

Helgar,
3 dagar IKR

Austurríki
ECMN A Opel Corsa 7.310 1.572 20,0% ATS 1. apríl – 31. mars 5,33180 38.975 8.382
Danmörk ECMN A Opel Corsa 1,2 4.892 815 25,0% DKR 1. apríl – 31. mars 9,85300 48.201 8.030
Finnland EBMN A VW Polo 1,3 5.059 965 22,0% FIM 1. apríl – 31. mars 12,33950 62.426 11.908
Frakkland EBMN A Renault Twingo 2.418 500 20,5% FRF 1. apríl – 31. mars 11,18470 27.045 5.592
Lúxemborg EBNM A VW Polo 1,4 23.622 4.233 15,0% LUF 1. apríl – 31. mars 1,81670 42.914 7.690
Noregur EBNM A VW Polo Coupé 1,3 7.360 1.000 23,0% NOK 1. apríl – 31. mars 9,07400 66.785 9.074
Svíþjóð CCMN A VW Polo 1,6 I 4.882 1.200 25,0% SEK 1. apríl – 31. mars 8,52800 41.634 10.234
Bretland ECMN - Ford Fiesta 1,1 LX 281 52 17,5% GBP 1. apríl – 31. mars 119,52000 33.609 6.191
Holland ECMN A Renault Twingo 1.003 288 17,5% NLG 1. apríl – 31. mars 33,29250 33.392 9.588
Sviss ECMN A Seat Ibiza 789 236 7,5% CHF 1. apríl – 31. mars 45,42000 35.836 10.719
Spánn EBMN A Nissan Micra 1,0L 66.941 17.689 16,0% ESP 1. apríl – 31. okt. 0,44100 29.521 7.801
Ísland CCMN A Nissan Micra 1,0L 1.867 485 24,5% USD 1. júní – 31. ágúst 72,63000 135.600 35.226
Írland ECMN A Ford Fiesta 361 91 12,5% IEP 1. júlí – 31. ágúst,
15. des.– 31. des.
93,15690 33.630 8.477

II. Á lágönn, ótakmarkaður kílómetrafjöldi.

Land

Einkenni

Flokkur

Tegund
14 daga
pakki

Helgar,
3 dagar


Skattur

Gjaldmiðill

Tímabil

Gengi
14 dagar,
IKR

Helgar,
3 dagar IKR

Austurríki
ECMN A Opel Corsa 7.310 1.572 20,0% ATS 1. apríl – 31. mars 5,33180 38.975 8.382
Danmörk ECMN A Opel Corsa 1,2 4.892 815 25,0% DKR 1. apríl – 31. mars 9,85300 48.201 8.030
Finnland EBMN A VW Polo 1,3 5.059 965 22,0% FIM 1. apríl – 31. mars 12,33950 62.426 11.908
Frakkland EBMN A Renault Twingo 2.418 500 20,5% FRF 1. apríl – 31. mars 11,18470 27.045 5.592
Lúxemborg EBNM A VW Polo 1,4 23.622 4.233 15,0% LUF 1. apríl – 31. mars 1,81670 42.914 7.690
Noregur EBNM A VW Polo Coupé 1,3 7.360 1.000 23,0% NOK 1. apríl – 31. mars 9,07400 66.785 9.074
Svíþjóð CCMN A VW Polo 1,6 I 4.882 1.200 25,0% SEK 1. apríl – 31. mars 8,52800 41.634 10.234
Bretland ECMN - Ford fiesta 1,1 LX 281 52 17,5% GBP 1. apríl – 31. mars 119,52000 33.609 6.191
Holland ECMN A Renault Twingo 1.003 288 17,5% NLG 1. apríl – 31. mars 33,29250 33.392 9.588
Sviss ECMN A Seat Ibiza 789 236 7,5% CHF 1. apríl – 31. mars 45,42000 35.836 10.719
Spánn EBMN A Nissan Micra 1,0L 62.719 16.567 16,0% ESP 1. nóv. – 31. mars 0,44100 27.659 7.306
Ísland CCMN A Nissan Micra 1,0L 1.386 259 24,5% USD Aðrir tímar 72,63000 100.665 18.811
Írland ECMN A Ford Fiesta 361 91 12,5% IEP Aðrir tímar 93,15690 33.630 8.477
Fylgiskjal I.

Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um bílaleigur.


    Tilgangurinn með frumvarpinu er að setja löggjöf um starfsemi og rekstrarumhverfi bíla leiga. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi ákvæði 70. gr. umferðarlaga sem fjallar um leigu ökutækja án ökumanns. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að samgönguráðuneytið gefi út starfsleyfi fyrir þá sem vilja reka bílaleigu. Útgáfa starfsleyfa kostar 10 þús. kr. á hvert leyfi. Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu má ætla að 20 bílaleigur þurfi að sækja um starfsleyfi eftir að lögin taka gildi og 2–3 á ári eftir það. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla að tekjur ríkissjóðs, til að mæta kostnaði við útgáfu starfsleyfanna, verði á fyrsta ári 200 þús. kr. og 20–30 þús. kr. á ári eftir það.