Ferill 371. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 898  —  371. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, nr. 62/1997.

Frá iðnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Pálma Pálsson frá Akraneskaupstað, Jón Valgarðsson frá Hvalfjarðarstrandarhreppi, Jón Þór Guðmundsson frá Skilmannahreppi, Sigurð Valgeirsson frá Leirár- og Melasveit og Anton Ottesen frá Innri-Akraneshreppi. Þá bárust umsagnir frá Norðuráli hf., Landsvirkjun, Akraneskaupstað og stjórnarnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Norðurál hf. á Grundartanga greiði Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi fasteignaskatt til viðbótar við það sem nú er vegna fyrirhugaðrar stækkunar álversins um 30.000 lestir.
    Álver Norðuráls hf. er staðsett í hreppunum tveimur, þ.e. Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi, sem hafa töluverðar tekjur af því. Mikill meiri hluti þeirra sem vinnur hjá álverinu er hins vegar búsettur á Akranesi og nýtur þjónustu þar. Því vaknaði sú spurning við meðferð málsins í nefndinni hvort eðlilegt væri að Akraneskaupstaður, sem og aðrir hreppar í nágrenni álversins, ættu hlutdeild í tekjum af jafnstóru fyrirtæki og álverið á Grundartanga er. Nefndin bendir hér á hlutverk svokallaðrar tekjustofnanefndar en eitt af markmiðum hennar er að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga þannig að þeir séu hverju sinni í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögum er lögskylt að sinna. Jafnframt vekur nefndin athygli ríkisstjórnarinnar á því að opinber gjöld af stóriðjuverum renna að jafnaði til lítilla sveitarfélaga. Fyrir þessi sveitarfélög getur verið um að ræða verulega fjármuni og þeir hagsmunir sem þar eru í húfi geta dregið úr vilja viðkomandi sveitarfélaga til sameiningar við önnur verr stödd sveitarfélög.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásta R. Jóhannesdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 31. mars 2000.Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Rannveig Guðmundsdóttir.Drífa Hjartardóttir.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Árni R. Árnason.Pétur H. Blöndal.


Árni Steinar Jóhannsson.