Ferill 328. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 921  —  328. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneyti, Georg Lárusson og Jóhann Jóhannsson frá Útlendingaeftirliti, Guðjón Atlason og Ólaf M. Ólafsson frá Mannréttindasamtökum innflytjenda á Íslandi og fjölskyldna þeirra og Þorgeir Pálsson og Ástríði Thorsteinsson frá Flugmálastjórn.
    Umsagnir bárust frá Útlendingaeftirliti, ríkissaksóknara, Flugmálastjórn, ríkistollstjóra, Siglingastofnun Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindasamtökum innflytjenda á Íslandi og fjölskyldna þeirra.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum sem nauðsynlegar eru vegna fyrirhugaðrar þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Er það eitt af fleiri lagafrumvörpum sem verið hafa til meðferðar hjá nefndinni vegna þeirrar þátttöku en 22. mars sl. veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um þátttöku Íslands í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999.
    Við meðferð málsins hjá nefndinni kom berlega í ljós að mikil þörf er á heildstæðri löggjöf um málefni útlendinga hér á landi. Núgildandi lög eru að stofni til frá 1965 en þá voru þau sett til að laga íslenska löggjöf að nýgerðum samningi Norðurlandanna um afnám vegabréfaskyldu. Bent var á að frumvarp þetta breytti í raun litlu um það lagalega tómarúm sem hér væri til staðar um öll helstu grunnatriði sem varða lagalega stöðu útlendinga, meðferð á málum þeirra, komu og dvöl í landinu og brotthvarf héðan. Schengen-samstarfið gerir ráð fyrir að í hverju aðildarríki fyrir sig sé fyrir hendi heildstæð löggjöf um réttindi og stöðu útlendinga. Nefndin telur afar brýnt að löggjöf á þessu sviði verði endurskoðuð í heild nú þegar, bæði vegna stöðu mála innan lands og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagðar eru til breytingar á 4. efnismgr. 7. gr. frumvarpsins (4. mgr. 16. gr. laganna) á þann veg að ábyrgð skv. 2. mgr. 16. gr. og 2. mgr. 3. gr. laganna gildi ekki þegar farið er um innri landamæri Schengen-svæðisins. Samkvæmt skilgreiningu 1. gr. Schengen- samningsins á innri landamærum svæðisins falla siglingar skipa milli aðildarríkja undir komur frá þriðja ríki nema í þeim tilvikum þegar um er að ræða reglubundnar ferjusiglingar milli hafna á yfirráðasvæðum aðildarríkjanna. Því er lagt til að ákvæðinu verði breytt til samræmis við þetta þannig að skip sem ekki falla undir skilgreiningu 1. gr. samningsins falli ekki undir ákvæðið.
     2.      Lagt er til að við 8. gr. frumvarpsins bætist nýr liður þar sem kveðið verði á um að 4. mgr. (er verði 5. mgr.) 17. gr. laganna verði breytt á þann veg að sá sem á hlutdeild í því að útlendingur komist ólöglega inn í landið skuli, auk refsiábyrgðar, skyldur til að greiða þann kostnað sem fellur á hið opinbera vegna ólöglegrar dvalar útlendingsins hér á landi og heimsendingar hans. Er þessi breyting gerð til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á 4. tölul. 2. mgr. sömu greinar.
     3.      Nefndin leggur til breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins en hún telur það ekki nægilega skýrt. Með því að heimila dómsmálaráðherra að ákveða hvenær lögin öðlist gildi er verið að framselja heimild löggjafans til að ákvarða um gildistöku laga. Hér er um að ræða undantekningu frá því sem almennt tíðkast og er það ekki í samræmi við þá lagahefð sem skapast hefur hér á landi að Alþingi ákveði hvenær lög sem það hefur samþykkt öðlist gildi. Við meðferð málsins hjá nefndinni hefur komið fram að stefnt er að því að þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu hefjist 25. mars á næsta ári. Það veltur þó á því hvernig undirbúningi miðar og ljóst er að breytingar geta orðið þar á. Nefndin leggur því til að lögin öðlist gildi 25. mars 2001. Verði breytingar á því yrði að bregðast við með því að flytja frumvarp á næsta þingi sem breytti gildistökuákvæðinu í samræmi við það.
    Jónína Bjartmarz, Lúðvík Bergvinsson og Hjálmar Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 31. mars 2000.Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Ásta Möller.


Guðrún Ögmundsdóttir.Sverrir Hermannsson.


Katrín Fjeldsted.


Ólafur Örn Haraldsson.