Ferill 407. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 928  —  407. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 11. maí 1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Frá 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 38/1998 er ríkisstjórnin að leggja til að skip sem voru við síldveiðar á árunum 1995, 1996 og 1997 fái veiðiheimildir afhentar af hálfu hins opinbera án endurgjalds og þurfi síðan ekki að veiða neitt en megi umsvifalaust selja allar þær veiðiheimildir sem þau fá. Önnur skip sem fá veiðiheimildir en voru ekki við síldveiðar á árunum 1995, 1996 eða 1997 mega hins vegar ekki framselja neitt heldur verða þau að veiða allt. Í desember árið 1998 féll frægur dómur, nr. 145, í Hæstarétti. Meginniðurstaða hans var sú að það samræmdist ekki atvinnufrelsis- og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að þeir einir gætu fengið veiðileyfi sem hefðu haldið skipum sínum til veiða á tilteknum árum. Í janúar síðastliðnum féll í undirrétti svokallaður Vatneyrardómur þar sem niðurstaðan er sú að sama eigi við um veiðiheimildir og það sem Hæstiréttur komst að niðurstöðu um varðandi veiðileyfi, að það samræmdist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að þeir einir fengju úthlutað veiðiheimildum eða kvóta sem leiði rétt sinn til reynslu tiltekinna ára. Niðurstöðu Vatneyrardóms var vísað til Hæstaréttar og þegar þetta nefndarálit er lagt fram hefur ekki fallið dómur í því máli.
    Fyrir utan það siðleysi sem felst í að afhenda réttinn til veiðanna án endurgjalds keyrir auðvitað um þverbak að ríkisstjórnin skuli leggja það til að síðan gildi ekki sömu reglur fyrir alla. Reglur ríkisstjórnarinnar fara eftir því hvort skip var við síldveiðar árið 1995, 1996 eða 1997. Það ræður hvernig þau eru meðhöndluð. Þetta eru töfraárin að mati ríkisstjórnarinnar, þau ár sem gefa rétt til úthlutunar ókeypis gæða sem síðar má selja. Ef viðskiptin með veiðiréttinn eru talin svona mikilvæg, af hverju eru veiðiheimildirnar þá ekki boðnar út þannig að allir sitji við sama borð?
    Þegar lögin um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum voru sett vorið 1998, fyrir tæpum tveimur árum, og leystu af hólmi þá aðferð að nota úthafsveiðilöggjöfina sem grundvöll veiðanna, lögðu jafnaðarmenn til að síldarkvótarnir yrðu boðnir út. Það var og í samræmi við sérstakt þingmál í þá veru sem þá hafði tvisvar verið flutt af jafnaðarmönnum. Það gekk út á að úthafslögunum yrði breytt þannig að heimilt yrði að bjóða síldarkvótana út. Í því áliti sem fulltrúar jafnaðarmanna í sjávarútvegsnefnd lögðu á sínum tíma fram við 2. umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar sem varð að lögum nr.38/1998, um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, kemur m.a. fram að með þeirri skipan mála að veiðarnar yrðu boðnar út væri líklegast að þau markmið fiskveiðistjórnar um hagkvæmar veiðar og réttláta úthlutun veiðiréttarins næðust fram.
    Því áliti var jafnframt lýst að frumvarpið væri bastarður, niðurstaða málamiðlunar stjórnarflokkanna sem ekki gátu komið sér saman um hvort veiðireynsla úr síldarstofninum ætti að mynda grunn að fastri aflahlutdeild eða ekki eins og meiri hluti nefndarinnar hafði áréttað sérstaklega við setningu úthafsveiðilaganna árinu áður. Nú virðist hins vegar samstaða um málið meðal stjórnarþingmanna. Veiðireynsla á ekki aðeins að mynda grunn að fastri aflahlutdeild og veiðirétti heldur fullkominn framsalsrétt, nánast eignarrétt sem ókeypis er afhentur þeim sem héldu skipum sínum til síldveiða á tilteknum árum. Gildandi lög segja að sjávarútvegsráðherra eigi fyrir 1. nóvember árið 2000 að leggja fram frumvarp um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Því er ljóst að með þeim breytingum verið er að leggja til er verið að tjalda til einnar nætur. En þar sem ríkisstjórnin kýs, þrátt fyrir það, að ganga til breytinga á lögunum í þá veru sem áður er lýst munu fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni leggja fram breytingartillögur við frumvarp ríkisstjórnarinnar og fylgja þannig eftir þeirri skoðun að líklegast sé að markmið fiskveiðistjórnar um hagkvæmar veiðar og réttláta úthlutun veiðiheimilda fáist með því að bjóða veiðarnar út.

Alþingi, 4. apríl 2000.



Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Jóhann Ársælsson.