Ferill 511. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 957  —  511. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um vanskil útvarpsgjalda.

    Ráðuneytið leitaði eftir upplýsingum frá Ríkisútvarpinu og er svarið við fyrirspurninni byggt á þeim.

     1.      Hver voru vanskil afnotagjalda útvarps og sjónvarps 1996–1998, sundurgreint eftir árum?
    Kröfur sendar í lögfræðiinnheimtu voru sem hér segir á árunum 1996–1999:

Ár Kr. Fjöldi mála
1996 119.992.469 4.020
1997 239.513.596 8.515
1998 82.871.730 2.756
1999 87.996.422 3.514

    Ríkisútvarpið sendir ekki kröfur í innheimtu hjá lögfræðingi fyrr en eftir áminningarbréf auk þess sem reynt er að semja um skuldina með því að hafa samband símleiðis við skuldarann.

     2.      Hvað innheimtist af kröfum fyrrnefndra ára?
    Árin 1996–1998 skilaði lögfræðiinnheimtan eftirfarandi:

Ár Kr.
1996 50.149.730
1997 52.883.916
1998 63.520.688
1999 58.652.899

     3.      Hver var heildarinnheimtukostnaður?
    Heildarinnheimtukostnað RÚV má telja heildarkostnað við innheimtudeild Ríkisútvarpsins sem var sem hér segir þessi ár:

Ár Kr.
1996 59.953.000
1997 61.538.000
1998 71.786.000
1999 69.582.000

     4.      Hver var innheimtukostnaður þar sem kröfur náðust ekki fram?
    Kostnaður Ríkisútvarpsins vegna lögfræðiinnheimtunnar var sem hér segir þessi ár:

Ár Kr.
1996 4.631.000
1997 5.005.000
1998 5.544.000
1999 4.749.000

    Ríkisútvarpið hefur gert nýja samninga um þessa innheimtu og gert er ráð fyrir að kostnaður þess af kröfum sem ekki nást lækki um helming á yfirstandandi ári og falli alveg niður á næsta ári.

     5.      Hve mörg sjónvarps- og útvarpstæki voru gerð upptæk á fyrrnefndu tímabili?     Hvert var söluandvirði þessara tækja á opinberu uppboði?
    Undanfarin fjögur ár hafa samtals 654 sjónvarpstæki verið seld á nauðungaruppboðum vegna vangreiddra afnotagjalda hjá þeirri lögfræðistofu sem annast megnið af innheimtu vangoldinna afnotagjalda fyrir Ríkisútvarpið. Uppboð hjá hinum stofunum eru hverfandi fá. Flest umræddra tækja hafa verið verðlítil eldri tæki og skuldarar í flestum tilvikum eignalausir eða gjaldþrota. Eftirstöðvar uppboðskrafna hafa verið afskrifaðar og umræddum skuldurum gert kleift að byrja með hreint borð aftur sem í flestum tilvikum hefur reynst vel.

Ár Seld tæki Kr.
1996 187 940.776
1997 231 643.502
1998 170 235.156
1999 66 140.274

    Eins og þessi listi gefur til kynna hefur nauðungarsölum á sjónvarpstækjum fækkað til muna vegna betri skila á afnotagjöldum.

     6.      Hverjir eru undanþegnir afnotagjaldi útvarps og sjónvarps?
    Fáir eru undanþegnir útvarpsgjaldi. Stærsti hópurinn er örorku- og ellilífeyrisþegar sem ekki njóta heimilisuppbótar en eiga rétt á sérstakri heimildaruppbót. Þeir eru gjaldfríir, svo framarlega sem um er að ræða einkaafnot viðkomandi á heimili, sbr. reglugerð nr. 357/1986 með breytingum frá 1. júlí 1997. Ekki bætist í þennan hóp gjaldfrírra notenda samkvæmt reglugerðinni, en þeir töldust 1.916 28. febrúar síðastliðinn.
    Starfsmenn Ríkisútvarpsins sem eru fastráðnir og hafa verið í fullu starfi í þrjú ár greiða ekki afnotagjald og þeir starfsmenn sem eru fastráðnir og hafa unnið í eitt ár greiða 30% eða sem nemur hljóðvarpsgjaldi. Sama á við um nokkra umsjónarmenn Landssímans vegna dreifikerfsins. Alls voru í þessum hópi 429 manns 28. febrúar síðastliðinn.