Ferill 223. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 975  —  223. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Með frumvarpi þessu er enn verið að gera breytingar og lagfæringar á þungaskattskerfinu, en málið hefur reglulega komið til kasta Alþingis á liðnum árum, bæði vegna mikillar óánægju með fyrirkomulag á þungaskatti og eins vegna úrskurða samkeppnisráðs.
    Í áliti samkeppnisráðs frá árinu 1997 kemur fram að það mismuni og raski samkeppnis stöðu atvinnubifreiðastjóra að veita stighækkandi afslátt af þungaskatti sem innheimtur er af eigendum vöruflutningabifreiða eftir því hversu mikið þeim er ekið. Afsláttarkerfið var því afnumið 1998, en þess í stað voru sett ný ákvæði um greiðslu fasts árgjalds þungaskatts af bifreiðum og eftirvögnum og gjald vegna ekinna kílómetra lækkað um 5% af ökutækjum undir 14.000 kg en um 30% af ökutækjum sem greitt var af fast árgjald. Árið 1998 var fasta árgjaldið afnumið og lögfest sérstök gjaldskrá þannig að innheimta skyldi gjald fyrir hvern ekinn kílómetra sem væri breytilegt eftir leyfðri heildarþyngd vagnanna. Einnig var heimilað að velja áður en gjaldár hæfist að greiða gjald sem samsvaraði 95.000 km akstri á gjaldári í stað gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra.
    Samkeppnisráð úrskurðaði síðan á síðasta ári að þær breytingar sem gerðar voru 1998 mis muni samkeppnisaðilum og dragi verulega úr möguleikum nýrra keppinauta á markaði jafn framt því að takmarka aðgang sem sé andstætt markmiði samkeppnislaga. Frumvarp það sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur nú haft til meðferðar er lagt fram til að bregðast við þeim úrskurði.
    Ljóst er að þótt frumvarpið komi til móts við álit samkeppnisráðs og tryggi betur stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga í vöruflutningum standa enn eftir meingölluð lög um þunga skatt. Frumvarpið leysir því ekki vandann.
    Nefndin leitaði til samkeppnisráðs um álit á því hvort almennt fast gjald á bifreiðar undir 4.000 kg leiði til mismunar á samkeppnisstöðu atvinnubifreiða, innbyrðis eða milli þyngdar flokka, og sé andstætt markmiði samkeppnislaga. Niðurstaða samkeppnisráðs var að það kunni að raska samkeppni á milli þeirra sem reka bifreiðar undir 4.000 kg að heildarþyngd og þeirra sem reka bifreiðar sem eru 4.000 kg og þyngri ef ákvæði A-liðar 4. gr. laga nr. 3/1987 standa óbreytt. Einnig var bent á að það kynni að takmarka aðgang nýrra keppinauta að markaði.
    Ástæða er einnig til að benda á að meiri hluti nefndarinnar tók ekki til greina eðlileg til mæli fulltrúa Almenningsvagna bs. og Strætisvagna Reykjavíkur hf. um að breytingar sam kvæmt frumvarpinu auki ekki álögur á almenningssamgöngur. Samkvæmt núgildandi lögum skal þungaskattur vera 70% lægri af akstri almenningsvagna í áætlunarferðum. Þetta hlutfall þyrfti að fara í 73% til að þungaskattur á almenningsvagna aukist ekki frá því sem nú er. Ekki er um háar fjárhæðir að ræða, aðeins um 3–5 millj. kr. á ári, en fulltrúar Almenningsvagna bs. og Strætisvagna Reykjavíkur hf. hafa engu síður báðir bent á að þótt ekki sé um háar fjárhæðir að ræða muni þessi skerðing bitna á þjónustu við notendur almenningsvagna. Þeir benda einnig á að almenningssamgöngur í þéttbýli séu ekki eitt af lögboðnum skylduverkefn um sveitarfélaga heldur hafi þau litið á þessa þjónustu sem nauðsynlega og skynsamlega að teknu tilliti til heildarhagsmuna. Þá hafi ríkið talsverðar tekjur af þessari starfsemi í stað þess að leggja með henni fé, ólíkt því sem gerist í velflestum ríkjum Vestur-Evrópu. Loks benda þeir á að akstur almenningsvagna sé að langmestu leyti um götur sem sveitarfélögin sjálf hafa kostað.
    Ljóst er að fyrirkomulag þungaskatts og síendurtekin nauðsyn þess að taka málið upp á Alþingi er orðið hið mesta klúður og Alþingi til vansa. Flestir umsagnaraðilar eru hlynntir því að kerfinu verði breytt og tekið upp olíugjald í stað þungaskatts. Frumvarp þess efnis var lagt fram fyrir tveimur árum en náði ekki fram að ganga og áfram var haldið að lappa upp á meingallað þungaskattskerfi.
    Í desember 1998 þegar frumvarp um breytingar á þungaskatti var afgreitt frá nefndinni skiluðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar séráliti og lögðu til að hafinn yrði undirbúningur að upptöku olíugjalds sem hefur marga kosti í för með sér og er mjög jákvætt með tilliti til um hverfismála. Það var ekki gert heldur. Minni hlutinn vísaði þá allri ábyrgð á málinu á hendur ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar. Minni hlutinn hefur sömu afstöðu nú og hvetur til þess að þegar verði hafist handa við að taka upp olíugjaldskerfi en mælagjald þungaskatts lagt af og að frumvarp þar um verði lagt fram strax í upphafi næsta þings.

Alþingi, 7. apríl 2000.



Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Ögmundur Jónasson.