Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 990  —  322. mál.



                                  

Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á vegalögum, nr. 45/1994, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgönguráðuneyti, Jakob Fal Garðarsson, aðstoðarmann samgönguráðherra, og Jón Rögnvaldsson frá Vegagerðinni. Umsagnir um málið bárust frá Vegagerðinni, Bændasamtökum Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðusnesjum, Landssambandi hestamanna, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra.
    Með frumvarpinu er lagt til að reiðvegir verði skilgreindir sem sérstakur flokkur vega samkvæmt vegalögum og að samgönguráðherra geti tekið land eignarnámi til lagningar þeirra ef nauðsyn krefur. Þá er í frumvarpinu lagt til að Vegagerðinni verði heimilt að kosta að öllu leyti viðhald girðinga meðfram stofn- og tengivegum þar sem umferð er 500 bílar á dag eða meira yfir sumartímann.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi að hjólreiða- og göngustígar verði sérstaklega skilgreindir í lögunum og að sams konar heimild verði til eignarnáms til lagningar þeirra og til lagningar reiðvega. Leggur nefndin til að þar sem slíkir stígar eru í þéttbýli komi það í hlut viðkomandi sveitarfélags að greiða kostnað af þeim. Í öðru lagi leggur nefndin til að heimild Vegagerðarinnar til að kosta að öllu leyti viðhald girðinga meðfram stofn- og tengivegum miðist við vegi þar sem umferð er 300 bílar eða meira á dag yfir sumartímann, en ekki 500 eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Leggur nefndin þó áherslu á að lokið verði við girðingar þar sem umferð er 500 bílar eða meira áður en girt verður meðfram öðrum vegum nema sérstaklega standi á. Loks leggur nefndin til smávægilega orðalagsbreytingu á c-lið 4. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 11. apríl 2000.



Árni Johnsen,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Jón Kristjánsson.



Guðmundur Hallvarðsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Kristján L. Möller.


Lúðvík Bergvinsson.


Jón Bjarnason.