Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 996  —  219. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 11. apríl.)

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Við d-lið 2. mgr. bætist: og er 400 kg að eigin þyngd eða meira.
     b.      3. mgr. fellur brott.
     c.      Á greinina kemur svofelld fyrirsögn: Gjaldskyld ökutæki.

2. gr.

    Á 2. gr. laganna kemur svofelld fyrirsögn: Fjárhæð gjaldsins.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      2. og 3. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      5. mgr. fellur brott.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Ef bifreiðir sem hafa verið undanþegnar bifreiðagjaldi skv. d-lið 4. gr. eru settar á skráningarmerki að nýju skal greiða bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af gjaldtímabilinu og hefst gjaldskyldan frá og með afhendingu skráningarmerkis. Gjald vegna skráðra bifreiða sem skráningarmerki eru sett á að nýju fellur í eindaga við afhendingu skráningarmerkis.
                  Við afskráningu bifreiða skal endurgreiða eða fella niður bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af því gjaldtímabili sem er að líða þegar afskráning fer fram.
     d.      Á greinina kemur svofelld fyrirsögn: Gjalddagar, eindagar og gjaldskyldir aðilar.

4. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 4. gr. og orðast svo ásamt fyrirsögn:

Undanþága frá gjaldskyldu.

    Eftirfarandi bifreiðir skulu undanþegnar bifreiðagjaldi:
     a.      Bifreiðir í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins. Jafnframt eiga þeir öryrkjar sem notið hafa niðurfellingar skv. 1. málsl. rétt á niðurfellingu ef þeir hafa öðlast rétt til ellilífeyrisgreiðslna eða dveljast á stofnun, sbr. 43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Sama rétt eiga foreldrar langveikra og fjölfatlaðra barna sem vistuð eru utan heimilis ef réttur til umönnunargreiðslna héldist óskertur væri barnið heima. Réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri eða bensínstyrk er bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi. Réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds af bifreiðum í eigu þeirra sem fá umönnunargreiðslur vegna örorku barna nær til einnar bifreiðar og er bundinn því skilyrði að skráður eigandi bifreiðar samkvæmt ökutækjaskrá fari með forsjá barnsins. Óheimilt er að fella niður bifreiðagjald af bifreiðum sem eru yfir 3.500 kg að eigin þyngd og nýttar eru í atvinnurekstri. Ef sá sem á rétt á niðurfellingu bifreiðagjalds á fleiri en eina bifreið skal bifreiðagjald fellt niður af þeirri bifreið sem er þyngst. Fyrir álagningu bifreiðagjalds skal Tryggingastofnun ríkisins senda ríkisskattstjóra upplýsingar um bifreiðaeign þeirra sem fá slíkar greiðslur frá stofnuninni sem að framan greinir.
     b.      Bifreiðir í eigu björgunarsveita. Með björgunarsveit er átt við sjálfboðaliðasamtök sem hafa björgun mannslífa og verðmæta að aðalmarkmiði.
     c.      Bifreiðir sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs, talið frá og með árgerðarári þeirra.
     d.      Bifreiðir þegar skráningarmerki hafa verið afhent skráningaraðila til varðveislu. Undanþága þessi miðast við dagsetningu innlagnar skráningarmerkja. Jafnframt skal ríkisskattstjóri fella niður bifreiðagjald af ónýtum bifreiðum sem sannanlega hafa ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu.
     e.      Bifreiðir sem tímabundið hafa verið fluttar úr landi. Framvísa ber útflutnings- og innflutningsskýrslum til sönnunar á tímabundnum útflutningi.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna er verður 5. gr.:
     a.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Skráning bifreiðar skal ekki fara fram nema gjaldfallið bifreiðagjald hafi áður verið greitt af henni.
             Óheimilt er að afhenda skráningarmerki sem afhent hafa verið skráningaraðila til varðveislu nema greitt hafi verið fyrir þann tíma sem eftir er af gjaldtímabilinu.
     b.      Á greinina kemur svofelld fyrirsögn: Aðalskoðun og skráning.

6. gr.

    5. gr. laganna, er verður 6. gr., orðast svo ásamt fyrirsögn:

Umsjón álagningar, innheimtu og endurgreiðslu.

    Fjármálaráðherra felur tilteknum skattstjóra eða ríkisskattstjóra álagningu bifreiðagjalds og aðra framkvæmd laganna. Innheimtu bifreiðagjalds annast tollstjórar og fer um reikningsskil eftir því sem fjármálaráðherra ákveður. Heimilt er að fela skoðunarstöðvum innheimtu bifreiðagjalds.
    Endurgreiðslu bifreiðagjalds vegna afskráningar eða innlagnar skráningarmerkja annast tollstjórar.
    Bifreiðagjald nýtur lögtaksréttar.


7. gr.

    Á 6. gr. laganna, er verður 8. gr., kemur svofelld fyrirsögn: Ýmis ákvæði.


8. gr.

    7. gr. laganna, auk fyrirsagnar, orðast svo:

Kæruleið.

    Greiðanda bifreiðagjalds er heimilt að kæra til ríkisskattstjóra álagningu bifreiðagjalds skv. 6. gr. innan þrjátíu daga frá því að gjaldið var ákvarðað.
    Úrskurði ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. má skjóta til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
    Um málsmeðferð að öðru leyti fer samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.


9. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða við lögin fellur brott.


10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2000. Við gildistöku laganna fellur úr gildi reglugerð nr. 359/1998, um bifreiðagjald, sbr. reglugerð nr. 811/1998.