Ferill 207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 999  —  207. mál.
Nefndarálitum frv. til útvarpslaga.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá menntamálaráðuneyti Þórunni J. Hafstein, Hörð Einarsson og Karitas H. Gunnarsdóttur. Þá komu til fundar frá Ríkisútvarpinu Markús Örn Antonsson og Eyjólfur Valdimarsson, Kjartan Gunnarsson frá útvarpsréttarnefnd, Gústav Arnar frá Póst- og fjarskiptastofnun, Gestur Jónsson og Hreggviður Jónsson frá Íslenska útvarpsfélaginu, Guðmundur Steingrímsson frá Gagnvirkri miðlun, Ari Kristinsson, Guðmundur Kristjánsson, Viðar Garðarsson og Friðrik Þór Friðriksson frá Framleiðendafélaginu og Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Sigvaldi Júlíusson og Jón Ásgeir Sigurðsson frá Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins.
    Mál þetta var fyrst flutt á 123. löggjafarþingi og þá bárust nefndinni umsagnir frá Íslenska útvarpsfélaginu, Ríkisútvarpinu, Menningarsjóði útvarpsstöðva, Íslenska fjölmiðlafélaginu, Bandalagi íslenskra leikfélaga, Verslunarráði Íslands, Íslenskri málstöð, Kvikmyndaskoðun, umboðsmanni barna, Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, Rithöfundasambandi Íslands, Póst- og fjarskiptastofnun, Barnaverndarstofu, Saga-film, útvarpsréttarnefnd, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins. Málið er nú endurflutt með fáeinum breytingum og borist hafa umsagnir frá Fínum miðli ehf. og Ríkisútvarpinu – útvarpsráði.
    Frumvarpið var samið á vegum menntamálaráðuneytisins og er nú endurflutt í ljósi athugasemda sem menntamálanefnd bárust á 123. löggjafarþingi. Með því er ætlunin að mynda almennan ramma um alla útvarpsstarfsemi í landinu, bæði sjónvarp og hjóðvarp. Af því leiðir að um Ríkisútvarpið munu gilda sérlög. Helsta tilefni endurskoðunar þessara laga nú er setning tilskipunar Evrópusambandsins 97/36/EB sem breytir sjónvarpstilskipun sambandsins 89/552/EBE. Sjónvarpstilskipunin tekur aðeins til sjónvarpsmála en ekki til þeirra þátta er varða hljóðvarp. Telja verður þó æskilegt að láta sömu reglur gilda samkvæmt útvarpslögum um sjónvarp og hljóðvarp eftir því sem við getur átt. Tvær grundvallarreglur tilskipunarinnar eru annars vegar frelsi sjónvarpsstöðva innan hvers aðildarríkis til þess að sjónvarpa til allra annarra aðildarríkja og hins vegar að sjónvarpsútsendingar eru heimilar um allt Evrópska efnahagssvæðið svo framarlega sem útsending er í samræmi við löggjöf útsendingarríkisins.
    Mikið var rætt í nefndinni um það nýmæli tilskipunar 97/36/EB sem heimilar hverju aðildarríki EES að gera skrá um tiltekna þýðingarmikla viðburði sem senda skal út í dagskrá sem meginhluti almennings hefur aðgang að þó að sjónvarpsstöð sem selur sérstaklega aðgang að efni sínu hafi keypt einkarétt til sýningar frá þessum viðburðum. Ástæðan fyrir þessu ákvæði er hugmyndin um upplýsingaþjóðfélagið. Í tilskipuninni er lögð á það áhersla að afar mikilvægt sé að aðildarríkin geti gert ráðstafanir til þess að vernda rétt borgaranna til upplýsingar og tryggja þeim víðtækan aðgang að sjónvarpssendingum frá innlendum og erlendum viðburðum sem hafi mikilsverða þýðingu fyrir viðkomandi þjóðfélag. Í dæmaskyni eru nefndir Ólympíuleikar og heimsmeistarakeppni og Evrópumeistarakeppni landsliða í knattspyrnu. Það er skilningur nefndarinnar að þrjú skilyrði þurfi að uppfylla til beitingar þessari heimild, þ.e. í fyrsta lagi að um mjög þýðingarmikla viðburði sé að ræða, í öðru lagi að meginhluti þjóðarinnar, þ.e. a.m.k. 90%, hafi aðgang að viðburðunum í opinni dagskrá og í þriðja lagi að þetta sé án sérstaks endurgjalds. Heimild þessi verður ekki virk fyrr en umrædd skrá liggur fyrir. Nefndin leggur áherslu á að við undirbúning að gerð slíkrar skrár verði haft samráð við sjónvarpsstöðvar sem starfa hér á landi. Við beitingu þessa ákvæðis skal þess jafnframt gætt að raska ekki samkeppnisstöðu stöðvanna. Þá er það skilningur nefndarinnar að sjónvarpsstöð, sem hefur takmarkaða útbreiðslu og tryggir sér einkarétt á þeim viðburðum sem umrædd skrá tekur til, beri að bjóða réttindin þeim stöðvum sem hafa tilskilda útbreiðslu gegn sanngjörnu endurgjaldi.
    Þetta nýmæli mun hafa einhver áhrif á tekjumöguleika sjónvarpsstöðva en þar kemur á móti að um þessa ákveðnu viðburði er vitað með löngum fyrirvara og þá er ótalinn möguleiki á auglýsingatekjum tengdum viðburðunum. Ef Íslendingar nýta sér ekki þetta heimildarákvæði sjónvarpstilskipunarinnar er raunhæf hætta á því að þeir fari á mis við sjónvarp frá mikilvægum innlendum og erlendum íþróttaviðburðum eins og reynslan hefur þegar sýnt okkur þegar erlend fyrirtæki hafa boðið betur en íslenskar sjónvarpsstöðvar hafa treyst sér til að bjóða í rétt til sýningar frá íslenskum íþróttaviðburðum. Af þessum ástæðum þykir ekki annað verjandi en að leggja til að fest verði í íslensk lög ákvæði sem gera kleift að tryggja Íslendingum aðgang að sjónvarpssendingum sem sjónvarpsstöðvar í EES-ríkjum hafa keypt rétt á og falla að öðru leyti undir viðkomandi heimildarákvæði í sjónvarpstilskipuninni.
    Aðrar breytingar á íslenskri útvarpslöggjöf eru þær helstar að tekin eru upp nánari ákvæði en áður til verndar börnum gegn sjónvarpsefni sem ýmist er talið geta haft alvarleg skaðvænleg áhrif á þroska þeirra eða til þess fallið að hafa slík áhrif. Ákvæði þessi eiga að styrkja gildandi íslensk lög um þetta efni og vera til fyllingar ákvæðum samkeppnislaga. Þá er lagt til að menntamálaráðherra verði heimilað að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi hér á landi. Stafræn tækni gefur mikla möguleika til betri nýtingar tíðnisviðsins en nú og er þannig m.a. meginforsenda þess að fleiri aðilar eigi þess kost að hefja raunverulega samkeppni. Þannig er miðað við að íslensk útvarpslöggjöf verði opin fyrir hvers konar tækniþróun og í frumvarpinu eru því sérstök ákvæði í VII. kafla um tengsl útvarpslaga og fjarskiptalaga, sérstaklega með hliðsjón af nýtingu ljósleiðaratækni í þágu sjónvarpssendinga.
    Að lokum má geta þess að valdsvið útvarpsréttarnefndar er aukið frá því sem verið hefur. Ákvarðanir hennar eru fullnaðarúrlausnir á stjórnsýslusviði og sæta því ekki stjórnsýslukæru. Ávallt er þó hægt, eðli málsins samkvæmt, að bera slíkar úrlausnir undir dómstóla.
    Við lögleiðingu þessa frumvarps verða núgildandi lagaákvæði um Ríkisútvarpið að sérlögum. Fram kom í viðræðum í nefndinni að nauðsynlegt er að endurskoða lagaákvæði um Ríkisútvarpið og endurmeta hlutverk þess í breyttu fjölmiðlaumhverfi. Nefndin leggur áherslu á að þessari vinnu verði hraðað.
     Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til breyting á orðalagi síðari málsliðar g-liðar 1. gr. svo að skýrt komi fram að átt sé við réttindi og skyldur tengd fasteignakaupum.
     2.      Lögð er til breyting á 5. gr. til skýringar á starfssviði útvarpsréttarnefndar og íslenskra stjórnvalda. Hér á landi er það útvarpsréttarnefnd sem hefur fullnaðarúrlausn á stjórnsýslusviði en það kemur hins vegar í hlut ríkisstjórnarinnar að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn ESB, eftir því sem við á, um þær ráðstafanir sem íslensk stjórnvöld hyggjast grípa til í samræmi við ákvæði greinarinnar, sbr. ummæli í greinargerð með frumvarpinu.
     3.      Lagðar eru til breytingar á 6. gr. Í fyrsta lagi er í c-lið 4. mgr. lagt til að jafnframt því sem útvarpsstöðvar geri útvarpsréttarnefnd grein fyrir þeirri dagskrárstefnu sem fyrirhuguð er skuli þær einnig gera nefndinni grein fyrir fyrirhuguðum grundvallarbreytingum á áður kynntri dagskrá. Í öðru lagi er lögð til lagfæring á orðalagi 2. málsl. f-liðar 4. mgr. og að síðustu er lagt til að í 6. mgr. sé tekið sérstaklega fram að ákvarðanir útvarpsréttarnefndar séu fullnaðarúrlausnir á stjórnsýslusviði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hlutverk útvarpsréttarnefndar sé aukið mjög frá því sem áður var. Nauðsynlegt er að skýrt sé kveðið á um að ákvarðanir nefndarinnar séu fullnaðarúrlausnir.
     4.      Lögð er til breyting á fyrri málslið 1. mgr. 7. gr. Málsliðurinn verður þannig óbreyttur frá gildandi lögum og ekki verða hér gerðar strangari kröfur til útvarpsstöðva en gert er nú.
     5.      Lagðar eru til lagfæringar á orðalagi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr., 11. gr., 21. gr. og 23. gr.
     6.      Lagðar eru til breytingar á 14. gr., um vernd barna gegn óheimilu efni, m.a. þannig að fylgt er nákvæmar orðalagi tilskipunar 89/552/EBE eins og henni hefur verið breytt með tilskipun 97/36/EB. Ákvæðið felur þannig í sér skýrari viðmið til verndar börnum.
     7.      Lagt er til að orðinu „áskriftargjaldi“ sé bætt við upptalningu í 15. gr. Samkvæmt almennri málnotkun hefur orðið afnotagjald verið notað um afnot af Ríkisútvarpi, sjónvarpi en orðið áskriftargjald verið notað um áskrift að lokaðri dagskrá sem myndlykil þarf til að opna. Þessi breyting er einnig í samræmi við aðra orðnotkun frumvarpsins, sbr. ummæli í athugasemdum á bls. 40.
     8.      Lagt er til að 2. mgr. 35. gr. falli brott. Refsing verður einungis ákveðin með lögum og slík ákvæði þurfa að vera skýr og afdráttarlaus. Ef sett er reglugerð á grundvelli ákveðinna laga leiðir af eðli máls að um viðurlög við brotum gegn ákvæðum hennar fer samkvæmt viðurlagaákvæðum laganna, svo framarlega sem þau ákvæði reglugerðarinnar sem um ræðir teljast hafa fullnægjandi lagastoð. Því verður að telja 2. mgr. 35. gr. óþarfa í lagasetningu.
     9.      Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein, 37. gr., þar sem breytingar eru gerðar á 31. og 32. gr. núgildandi útvarpslaga í samræmi við breyttar aðstæður.
                  Í fyrsta lagi er lagt til að 1. mgr. 31. gr. falli brott þar sem ákvæðið var samið fyrir tíma Póst- og fjarskiptastofnunar, Landssímans hf. og nýrra fjarskiptalaga. Í öðru lagi er lögð til orðalagsbreyting á 2. mgr. 31. gr. Miklar breytingar eru nú á fjarskiptamarkaðnum og þykir eðlilegast að Ríkisútvarpið hafi heimild til að semja við það eða þau fyrirtæki sem hagkvæmast þykir í stað þess að einskorða samninga við Póst- og símamálastofnunina. Hér getur verið um að ræða fjarskiptafyrirtæki eða fyrirtæki í öðrum rekstri.
                  Lagðar eru til þrjár breytingar á 32. gr. Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting á 1. málsl. þannig að í stað Póst- og símamálastofnunarinnar verði talað um fjarskiptafyrirtæki. Í ákvæðinu er Ríkisútvarpinu veitt sama heimild og Póst- og símamálastofnun hafði samkvæmt eldri fjarskiptalögum. Í 48. gr. núgildandi fjarskiptalaga, nr. 107/1999, er fjarskiptafyrirtækjum veitt þessi heimild. Því er framangreind breyting lögð til. Í öðru lagi er lögð til breyting í 3. málsl. á tilvísun í útvarpslög og í þriðja lagi er lögð til orðalagsbreyting í 5. málsl. þar sem eftirlitshlutverkið er nú hjá Póst- og fjarskiptastofnun.
    Að síðustu vill nefndin taka fram að hún telur að frágangur málsgreina í frumvarpinu sé ekki í samræmi við þá meginreglu í frágangi frumvarpa að hafa málsgreinar ónúmeraðar. Ekki er rökstutt sérstaklega af hvaða ástæðu málsgreinar eru númeraðar og því verða númer málsgreina felld niður í lokafrágangi verði frumvarpið samþykkt.

Alþingi, 11. apríl 2000.Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Tómas Ingi Olrich.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.Svanfríður Jónasdóttir.


Sigríður Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.Kristinn H. Gunnarsson.


Vigdís Hauksdóttir.


Árni Johnsen.