Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1004  —  484. mál.


                             

Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eggert J. Hilmarsson og Björn Rúnar Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, Rannveigu Sigurðardóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Garðar Sverrisson og Helga Seljan frá Öryrkjabandalagi Íslands og Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að hækkun persónuafsláttar fylgi umsömdum almennum launahækkunum á vinnumarkaði á tímabilinu 2000–2003 í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þess efnis, dags. 10. mars 2000. Er gert ráð fyrir að hækkun persónuafsláttar og skattleysismarka sem lögð er til komi fram í áföngum frá og með 1. apríl á þessu ári til ársins 2003.
    Þar sem einungis hluti vinnumarkaðarins hefur nú gert kjarasamninga til lengri tíma og endurskoða á þá 1. febrúar ár hvert með hliðsjón af launaþróun og þeim kjarasamningum sem á eftir koma er ljóst að almennar umsamdar launahækkanir geta orðið aðrar en liggja til grundvallar því sem kveðið er á um í frumvarpinu. Verði þróun almennra launahækkana frábrugðin þessum forsendum er ljóst að þróun persónuafsláttar hlýtur að koma til umfjöllunar Alþingis á ný.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram það sjónarmið fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands að persónuafsláttur ætti að fylgja launavísitölu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kristinn H. Gunnarsson og Gunnar Birgisson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. apríl 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.



Hjálmar Árnason.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Margrét Frímannsdóttir.



Ögmundur Jónasson.