Ferill 359. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1010  —  359. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (vitnavernd, barnaklám o.fl.) .

(Eftir 2. umr., 12. apríl.)



1. gr.

    Á eftir orðinu „kjörbörn“ í 3. mgr. 25. gr. laganna kemur: barnabörn.

2. gr.

    50. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 42/1985, fellur brott.

3. gr.

    Við 5. mgr. 57. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi dómfelldi ekki verið viðstaddur uppsögu héraðsdóms getur dómari falið lögreglu að kynna honum skilyrði og afleiðingar skilorðsrofa um leið og dómur er birtur.

4. gr.

    Við 1. mgr. 70. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
    9. Hvort hann hefur upplýst um aðild annarra að brotinu.

5. gr.

    Við 81. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fyrningarfrestur vegna refsiábyrgðar lögaðila er 5 ár.

6. gr.

    108. gr. laganna orðast svo:
    Hver sem beitir annan mann eða nána vandamenn hans eða aðra honum tengda líkamlegu ofbeldi, ólögmætri nauðung eða hótun skv. 233. gr. vegna skýrslugjafar hans hjá lögreglu eða fyrir dómi skal sæta fangelsi allt að 6 árum eða sektum ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 210. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt getur refsing þó orðið fangelsi allt að 2 árum.
     b.      4. mgr., sbr. 1. gr. laga nr. 126/1996, orðast svo:
                  Hver sem flytur inn eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum. Sömu refsingu varðar að flytja inn eða hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á klámfenginn hátt.

8. gr.

    2. mgr. 256. gr. laganna, sbr. 11. gr. laga nr. 42/1985, fellur brott.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.